Þjóðleiðir

Skyggnisalda

Frá Svínárnesi á Hrunamannaafrétti í Leirárdal.

Leið, sem ég fer til að forðast jeppavegi með því að komast meðfram Leirá.

Förum frá Svínárnesi þvert austur um Skyggnisöldu á Leirárleið milli skálanna Leppistungna og Helgaskála.

4,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur.
Nálægar leiðir: Leirá, Svínárnes, Kjalvegur, Harðivöllur, Sandá, Grjótá, Grjótártunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skúmstungur

Frá Hólaskógi á Gnúpverjaafrétt að Gljúfurleit á Gnúpverjaafrétt.

Hluti hins forna Sprengisandsvegar, sem lá sunnan úr Þjórsárdal norður í Bárðardal. Leiðin liggur yfir líparítfjallið Sandafell og gróðursælar Skúmstungur, upp Skúmstungnaheiði, um Starkaðsver og Hjallaver í Gljúfurleit. Engir jeppar eiga að geta verið á leiðinni, ef farin er forna slóðin og ekki jeppavegurinn. Vörðurnar hafa verið endurnýjaðar, svo að auðvelt er að rata eftir þeim, þótt reiðslóðin sé orðin fáfarin, síðan fáfróðir fóru að ríða jeppaveginn. Undir Starkaðssteini varð úti norðanmaður á leið til unnustu sinnar í hreppum. Dreymdi hana, að Starkaður kæmi til sín og kvæði þessa vísu: “Angur og mein fyrir auðarrein / oft hafa skatnar þegið, / Starkaðs bein und stórum stein / um stundu hafa legið.”

Förum frá fjallaskálanum í Hólaskógi í 280 metra hæð og fylgjum vörðuðu Sprengisandsleiðinni vestan Þjórsár. Fyrst til vesturs gegnum girðingu og síðan með girðingunni til norðausturs. Áfram upp Sandafell í 450 metra hæð og síðan niður af því til norðausturs að Sultartangalóni, þar sem gerði er í Skúmstungum. Fylgjum Innri-Skúmstungnaá til norðurs upp á Skúmstungnaheiði, fyrst vestan árinnar og síðan austan hennar um blautt en greiðfært Starkaðsver. Förum þar framjá Starkaðssteini. Bílvegurinn er á svipuðum slóðum. Um Hjallaver liggur slóðin töluvert vestan vegar í 560 metra hæð, en reiðvegur og bílvegur mætast við Blautukvísl áður en komið er að afleggjara til austurs yfir Gljúfurá og undir Lönguhlíð að skálanum í Gljúfurleit í 480 metra hæð.

22,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.
Gljúfurleit: N64 17.751 W19 20.901.

Nálægir ferlar: Gjáin-Stöng, Ísahryggur, Hraunin.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skeiðamannafit.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Vörðuvinafélagið

Skúlavatn

Frá Fíflholti á Mýrum um Skúlavatn til Laxárholts á Mýrum.

Förum frá Fíflholti suðvestur um Einholtasel og Kósás og Húnás, suðvestur um eyðibýlið Skíðsholt og norðan og vestan við Skúlavatn, austan við Álftavatn og Baugavötn, suðvestur að vegi 540 við Laxárholt.

15,3 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Akrar.
Nálægar leiðir: Brattur, Saurar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skuggabjörg

Frá Þverárrétt í Fnjóskadal um Skuggabjargaskóg að Laufási við Eyjafjörð.

Mela- og Skuggabjargaskógur er meðal stærstu og mestu birkiskóga landsins. Þar er birkið síst lakara en í Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi og Bæjarstaðaskógi. Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina Skuggabjörg og hluta jarðarinnar Mela árið 1948, en þær voru þá báðar komnar í eyði. Skógurinn var svo friðaður fyrir beit. Að sama skapi er langt liðið síðan skógurinn var nýttur og því hefur hann þróast sem náttúruskógur. Hægt er að ímynda sér að svona hafi landið litið út við landnám. Þetta er fyrst og fremst birkiskógur, lítið er um furu og greni. Í skóginum er mjög gott berjaland. Fylgt er dráttarvélaslóð skógræktarinnar alla leið. Fnjóská liðast um fyrir neðan skóginn.

Förum frá Þverárrétt um 400 metra suður áreyrarnar og yfir Fnjóská, síðan aðeins norður með landinu handan árinnar, þar sem er einstigi niður í ána, sem við förum upp. Þar komum við á dráttarvélaslóð um Skuggabjargaskóg að Laufási. Við förum framhjá eyðibýlinu Skuggabjörgum og förum neðan við Gæsagil og Nóngil. Að lokum komum við að þjóðvegi 83 um Eyjafjörð og förum yfir veginn að Laufási.

10,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Gönguskarð.
Nálægar leiðir: Uxaskarð, Flateyjardalsheiði, Draflastaðafjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Skriðuvað

Á Hnausakvísl norðan Flóðs og sunnan Hnausavatns í Vatnsdal.

Hét Hólavað í Sturlungu, algengur fundarstaður höfðingja. Hér fór Þórður kakali Sighvatsson árið 1243 frá Borgarfirði um Arnarvatnsheiði og Haukagilsheiði í Vatnsdal og þaðan í aðför að Þorsteini Jónssyni í Hvammi. Enn fór Þórður hér eftir Flóabardaga árið 1244 í aðför að Kolbeini unga Arnórssyni. Þorgils skarði Böðvarsson og Hrafn Oddsson mæltu sér til móts árið 1255 við Hólavað og sættust þar.

Byrjum á þjóðvegi 722 við norðvesturhorn Flóðsins í Vatnsdal. Förum austur að Hnausakvísl / Vatnsdalsá. Yfir hana á Skriðuvaði / Hólavaði um 400 metrum norðan Flóðsins. Síðan upp á þjóðveg 722 norðan Bjarnastaða.

1,2 km
Húnavatnssýslur

Erfitt fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Hópið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga og Herforingjaráðskort

Skriðunes

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Broddanesi í Kollafirði að Kjarlaksstöðum í Bitrufirði.

Gömul þjóðleið, notuð fyrir daga bílsins.

Falleg leið á þjóðsagnaslóðum og sumpart um friðlýsta og stórbrotna náttúru. Norðan til í Stigavík eru Broddar, sem bæir í nágrenninu eru kenndir við. Við klettana á að vera dys Brodda gamla. Þar er sagður fólginn fjársjóður. Stigaklettur heitir eftir þrepum upp á klettinn, sem notaðar voru, áður en einstigið var breikkað. Gott útsýni er til fjalla í Húnaþingi, þegar komið er út fyrir Enni. Í Tólfmannaurð er sagt, að tólf bændur hafi farizt í skriðu. Efst í fjallinu er Arnarstapi og var þar lengi arnarhreiður. Í Kýrhamri var sagt búa hamratröll. Draugurinn Ennismóri var talinn fylgja fólki af Ennisætt frá Skriðinsenni. Sérgrein hans var að fikta í rafkerfi bíla.

Förum frá Broddanesi austur með ströndinni um Lönguvík, Sýrvík, Ólafsvík og Stigavík undir Ennishöfða. Í sunnanverðri Stigavík þarf að gæta sjávarfalla, annars þurfum við að klöngrast um skriðu ofan við víkina. Yzt á nesinu er Stigaklettur, þar sem er einstigi, sem hefur verið breikkað og gert hestfært. Næst förum við suður ströndina um ógreiðfæra Tólfmannaurð. Á leiðinni komum við að þverhníptum Kýrhamri, sem Guðmundur biskup góði vígði að hluta. Við förum um Skriðinsenni og komum að lokum aftur að vegi 61 við Kjarlaksstaði.

7,5 km
Vestfirðir

Nálægir ferlar: Bitruháls.
Nálægar leiðir: Hamarssneiðin, Steinadalsheiði, Spákonufell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skriðdalsvegur

Frá Hallormsstað um Hallormsstaðaháls að Mýrum eða Geirólfsstöðum í Skriðdal.

Þetta eru gamlar og víða skýrar götur.

Byrjum við þjóðveg 931 hjá Hallormsstað í Skógum. Förum frá Hússtjórnarskóla austnorðaustur Skriðdalsveg og síðan austur heiðina um Bjargsenda að Geirólfsstöðum í Skriðdal við þjóðveg 937.

6,6 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Hraungarðsbunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Skóghlíð

Frá Ölfusi á Lágaskarðsleið til Kolviðarhóls og Reykjavíkur.

Byrjum við þjóðveg 38 við vesturjaðar Hjallafjalls. Förum þaðan norður og upp Skóghlíð og síðan vestur á brattann undir Kömbum. Þaðan norður með Lönguhlíð á Lágaskarðsleið milli Kolviðarhóls og Hlíðardals í Ölfusi.

4,2 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Lágaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skógfell

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Vogum á Vatnsleysuströnd um Skógfell til Grindavíkur.

Förum frá Vogum suður yfir Keflavíkurveginn og síðan suður um Nýjaselsbjalla og Snorraselstjarnir að Klofningum. Þaðan tökum við stefnu suður á austanvert Stóra-Skógfell. Síðan suðvestur um Sprengisand, um Melhól sunnan Hagafells og loks um Hópsheiði til Grindavíkur.

14,8 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Sandakravegur, Vatnsleysuheiði, Vatnsleysuströnd, Sýrfell, Stapafell, Einiberjahóll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skógey

Frá Borgum í Nesjum um Skógey að brú á Hornafjarðarfljóti.

Í Skógey höfðu menn slægjur síðustu aldir, en lengi hefur þar enginn skógur verið. Byrjum í hesthúsahverfi á Borgum í Nesjum.

Förum vestur að Hoffellsá og yfir í Skógey. Þaðan norðvestur um Skógeyjarsker að brú á þjóðvegi 1 yfir Hornafjarðarfljót.

9,7 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Hornafjarðarfljót, Vítisbrekkur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skógaskarð

Frá Seyðisfirði um Skógaskarð til Borgareyrar í Mjóafirði.

Förum frá Seyðisfirði suðaustur og upp með Dagmálalæk og síðan til suðurs utan við Grákamb og neðan við Gullþúfu upp í Skógaskarð í 950 metra hæð. Síðan suður og niður með Borgareyrará að austanverðu til Borgareyrar.

7,6 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Króardalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skógarströnd

Frá Bílduhóli á Snæfellsnesi að Hamraendum í Miðdölum.

Þetta er gamla þjóðleiðin um Skógarströnd og kemur nokkrum sinnum fyrir í Sturlungu. Leiðin liggur áfram til vesturs í Álftafjörð, yfir hann á fjöru og síðan áfram um Helgafellssveit í Stykkishólm. Á leiðinni til austurs er farið um horfna verzlunarstaði frá því fyrir tíma hafnarmannvirkja, Gunnarsstaðaey og Vestliðaeyri. Hvammsfjörður hefur sama aðdráttarafl fyrir hestamenn og Löngufjörur, býður ýmsa kosti í fjörureið og leirureið.

Förum frá Bílduhóli austur með þjóðvegi 54, unz við komum að Emmubergi. Þar förum við frá veginum til norðurs og norður fyrir Hólmlátur og Hólmlátursborg að fjörunni í Hvammsfirði. Fylgjum henni síðan til austurs, út í Gunnarsstaðaey, gamlan verzlunarstað, og þaðan til austurs eftir grandanum, aftur í fjöruna við Skiphól og síðan áfram austur, um Vestliðaeyri, sem líka er gamall verzlunarstaður. Förum út fyrir Hörðudalsá að Miðá og svo upp með Miðá. Síðan upp á þjóðveg 54 við brúna yfir Miðá og förum suður yfir brúna. Síðan austur með fjallinu að Hamraendum.

28,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Heydalur, Kvistahryggur, Rauðamelsheiði, Sópandaskarð, Svínbjúgur, Miðdalir, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Fossavegur, Hattagil, Miðá, Hallaragata.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Skógarmannafjöll

Frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum suður í Skógarmannafjöll.

Slóðin liggur að Almannavegi, sem er forn þjóðleið frá Ferjuási við Jökulsá á Fjöllum um Þrengsli og Olíufjall til Mývatnssveitar.

Förum af þjóðvegi 1 við Amtmannsás og Klaustur og höldum eftir jeppaslóð suður að Skógarmannafjöllum. Förum fyrst austan við fjöllin og síðan um skarð yfir að vesturhlið þeirra og áfram til suðurs með vesturhliðinni. Slóðin endar sunnan við Kollóttafjall nálægt Almannavegi.

14,7 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland

Skógarnesfjörur

Fram og til baka frá Skógarnesi um staðarfjörurnar.

Margir fara á hraðferð um Löngufjörur án þess að stanza í Skógarnesfjörum. Þær eru fjölbreytt sýnishorn af flestu því, sem Löngufjörur státa af. Þar eru leirur og sandfjörur. Einnig eru þar minjar um meira mannlíf, þegar Skógarnes var einn af verzlunarstöðum landsins 1905-1920. Fyrst var þar útibú frá Tangsverzlun í Stykkishólmi. Síðan kom þar einnig útibú frá verzlun Jóns Björnssonar í Borgarnesi. Verzlunin lagðist niður, þegar kreppa sótti að Vesturlöndum. Enn standa leifar af steinveggjum og uppskipunarbáti.

Förum frá Skógarnesi norður fyrir gripahúsin og jeppaslóð suður í ósinn. Förum þar þvert yfir rifið til vesturs, alla leið í vesturodda Melness. Þar förum við norðaustur í Viðeyjar, þaðan austur og suður til baka. Síðan austur með sjávarströndinni vestur á Skógarnes og síðan með ósfjörunni til baka í Skógarnes.

17,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Straumfjarðará, Löngusker.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Skógarholt

Frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum um Skógarholt og aftur inn á þjóðveg 1.

Förum frá þjóðvegi 1 í Hverarönd við Námaskarð til suðurs eftir jeppaslóð um Heiðasporðarönd og síðan austur um Búrfellshraun og Flatabjarg að Skógarholti. Áfram austur að jeppaslóða til Skógarmannafjalla. Förum þá slóð norður að þjóðvegi 1 við Klaustur og Amtmannsás.

20,7 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland