Þjóðleiðir

Skaftártunguleið

Frá Höfðabrekku til Hrífuness í Skaftártungu.

Gömul þjóðleið. Ekki er mikið um landslag á leiðinni, bara grár sandurinn, en í fjarlægð sést til fjalla. Ef eitthvað er að veðri, er þetta skyldureið, en ekki sportreið. Í sólskini og hita villa hillingar um fyrir fólki, sem heldur, að styttra sé í áfangastað en raun ber síðan vitni um. Þetta er alvöru eyðimörk.

Byrjum við þjóðveg 1 austan brúar á Múlakvísl austan Höfðabrekku. Frá Múlakvísl fylgjum við slóð norðaustur í átt að austurodda Hafursey og þaðan áfram beina línu norðaustur í Skaftártungu. Við förum yfir Þverkvíslar og Loðinsvíkur að Hólmsá, þar sem við förum yfir á brú við Hrífunes.

27,2 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Hafursey : N63 30.900 W18 44.080.

Nálægir ferlar: Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Mýrdalssandur, Álftaversleið, Arnarstakksheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Skaftá

Ýmis vöð á Skaftá.

Svonefndir vatnahestar voru eftirsóttir í nágrenni stórfljóta fyrr á öldum. Oftast voru þetta stórir og rólegir hestar sem stigu upp í strauminn. Menn höfðu svo viðbótaraðferðir við að velja hesta. Vatnastingur var talið tákn um traustan vatnahest. Það er sveipur í hári hests aftan við kverkina. Væri hann báðum megin, var sagt, að vatnastingurinn væri í gegn. Trú manna var, að ekki færist maður í vatni af hesti, sem hefði vatnasting gegnum hálsinn. Ferðir um hættuleg vöð voru örlög fyrirmanna allar aldir fyrir öld brúa. Í öllum árum fórust einhverjir. Og margir fleiri lentu í hremmingum á vöðum.

Fyrir öld brúa urðu hestar að vera vel syndir, þegar í harðbakkann sló á erfiðum vöðum. Eða þegar menn vildu stytta sér leið. Skaftfellskir hestar, einkum úr Hornafirði og Öræfum, voru eftirsóttir fyrir einni öld. Kallaðir vatnahestar. Sumir hestar eru svo djúpsyndir, að hættulegt er að sitja þá. Aðrir synda hátt í vatni og eru þægilegir ásetu við þær aðstæður. Einstaka hestar leita botns í sífellu og hoppa því á sundinu. Ég sá einn hoppa þannig í Holtsós. Þeir eru beinlínis hættulegir. Hlutverk mannsins á sundreið er að vera farþegi á baki, standa í ístöðunum og hanga að öðrum kosti í faxinu.

Farið var yfir Skaftá á fimm stöðum, hjá Skaftárdal, Heiði, Hólmi, í Ásgarðshólum og yfir Landbrotsvötn í heild austur af Uppsalahálsi í Landbroti. Eldvatnið hjá Svínadal var ferjuvatn. Yfir Eldvatnið í Meðallandi var farið á ferju hjá Fljótum eða á vaði nálægt Feðgum. Yfir Geirlandsá var farið austur af Geirlandi. Yfir Breiðbalakvísl var farið vestur af Breiðabólstað eða austan við Keldunúp. Tvær leiðir lágu síðan austur, önnur með Síðufjöllum og hin um Tögl og austur sandana. Fara þurfti fyrir Eldvatnstanga á leiðinni austur frá Teygingalæk. Nokkur vöð voru á Hverfisfljóti. Nokkru fyrir vestan brúna er Eldkróksvað og lá að því vörðuð leið um hraunið, Eldkróksgata. Nokkru ofar er Trjábraut og enn ofar er Sauðavað. Algengasta vaðið var sunnar, fyrir vestan Hvol.

2,7 km
Skaftafellssýslur

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Flosavegur, Holtsdalur, Laki.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Skaftafell

Frá Skaftafelli um Bæjarstaðaskóg að Sæluhúsakvísl.

Fá þarf leyfi þjóðgarðsvarðar til að fara með hesta þessa leið. Gönguleiðin er sýnd á kortinu, en reiðleiðin er á aurunum neðan við Skaftafellsbrekkur, yfir varnargarð og upp með Morsá. Ekki er lengur farið yfir Skaftá á jökulsporði, því að áin rennur með jökuljaðri vestur í Sandgígjukvísl.

Bæjarstaðaskógur er ein af perlum landsins með gömlu, hávöxnu og beinvöxnu birki. Nafnið bendir til, að þar hafi verið bær fyrr á öldum.

Byrjum hjá þjóðvegi 1 við Skaftafell í Öræfum. Förum til norðvesturs um þjónustumiðstöðina í Skaftafelli upp að brekkurótum. Síðan norður á Bölta og þaðan vestan í fellinu, að Morsá undir Skerhóli. Þaðan förum við vestur sandinn norðan við Skeiðará í Hamragilsaxlir. Síðan utan í Jökulfelli inn í Hamragil. Út á jökulsporðinn yfir Skeiðará og til suðausturs niður á Skeiðarársand. Að lokum suður sandinn að vegi 1 austan við Sæluhúsakvísl.

17,9 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Síldarmannagötur

Frá botni Hvalfjarðar að Sjónarhóli eða áfram að Vatnshorni í Skorradal.

Leiðin er öll vörðuð og stikuð. Áður fyrr var síld veidd í Hvalfirði. Þegar í fornöld hétu göturnar þessu nafni. Hólmverjar fóru Síldarmannagötur að Hvammi í Skorradal og stálu þar yxn Þorgrímu smiðkonu og ráku suður á hálsinn. Uxarnir snéru hins vegar á Hólmverja vegna fjölkyngi Þorgrímu og komust aftur heim í Hvamm. Frá þessu er sagt í Harðar sögu og Hólmverja. Gamlar vörður hafa verið endurreistar, svo að leiðin er greið og auðrötuð. Örnefnin Löngugötugil og Vegagil innan við Vatnshorn í Skorradal minna á þessar áður fjölförnu götur. Mikið útsýni er af fjallinu til allra átta.

Förum frá botni Hvalfjarðar rétt norðan við ós Botnsár um sneiðinga norður á fjallið Þyril, öðru nafni Selfjall. Förum vestan við Brunnárgil með Paradísarfossi og upp í Reiðskarð í 200 metra hæð. Síðan um fornar og greiðar reiðgötur til norðvesturs upp á fjallið í 390 metra hæð. Þaðan förum við til norðnorðausturs eftir fjallinu um Grjóthlíð, Árnahlíðar og Nyrðra-Þvergil. Þaðan norður fyrir botn Grafardals á Sjónarhól og síðan milli Bæjargils að austan og Stöðugils að vestan niður að Vatnshorni í Skorradal.

9,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Sjónarhóll, Mávahlíðarheiði, Teigfell, Skorradalur, Kúpa.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Sílalækur

Frá Sílalæk um Laxá og Aðaldalshraun.

Byrjum á þjóðvegi 852 við afleggjara að Sílalæk. Förum norðvestur afleggjarann og áfram austur að þjóðvegi 85 í Aðaldal við Laxá. Yfir þjóðveginn og síðan suður með Laxá að mótum þjóðvega 85 og 852 í Aðaldal.

10,7 km
þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Sandsbæir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sigvaldakrókur

Frá Kjalvegi yfir Jökulfall í Sigvaldakróki til Fosslækjarvers á Hrunamannaafrétti.

Önnur höfuðleið þeirra ferðamanna af Kili, sem vildu fara ofan í Hreppa. Hin leiðin er á vaði yfir Jökulfallið við brúna á Hvítá við Bláfell. Nú er jafnan farið um brú á Jökulfalli á vegi í Kerlingarfjöll.

Byrjum við þjóðveg 35 á Kili við Skútaver á móts við Mosfell handan Jökulfalls. Förum suðaustur um verið að Jökulfalli og yfir það á vaði í Sigvaldakróki. Austan ár förum við síðan til suðurs fyrir vestan Mosfellsháls og austan Húnbogaöldu að fjallaskálanum í Fosslækjarveri.

10,0 km
Árnessýsla

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Fosslækur: N64 34.524 W19 36.144.

Nálægar leiðir: Grjótá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Sigluneshlíðar

Frá Hreggstöðum í Haukabergsvaðli með ströndinni til Móbergs á Rauðasandi.

Leiðin er víða erfið, ófær hestum. Gæta verður sjávarfalla til að vera um háfjöru við Stálhlein. Erfið og brött leið er fyrir ofan hleinina. Þessa leið má aðeins fara með kunnugum.

Mikil útgerð var fyrrum á Siglunesi. Bjarni Þórðarson útvegsbóndi var forgöngumaður þilskipaútgerðar. Á Sjöundá voru framin morð vorið 1802. Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir bjuggu þá á hálfri jörðinni og á móti þeim Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir og höfðu þau flutzt þangað vorið 1801. Fljótlega eftir komu Jóns og Steinunnar byrjaði samdráttur hennar og Bjarna og mun samkomulag á heimilinu hafa verið afar slæmt um veturinn. 1. apríl hvarf Jón og var talið að hann hefði hrapað fyrir björg, en morðin komust upp, þegar lík Jóns rak á land á Bjarnanesi við Bæjarvaðal um sumarið.

Byrjum á vegi um Haukabergsvaðal á Barðaströnd við Hreggstaði. Förum eftir jeppaslóða suðsuðvestur ströndina að Siglunesi. Förum áfram vestur með ströndinni um Ytranes og yfir Siglá í Hellisvík. Þaðan vestur um Sigluneshlíðar undir Mávaskor. Þar er Fossárdalur með undirlendi á bökkunum, heitir þar Húsatún. Síðan förum við til vesturs undir Stálfjalli, framan við klettabríkurnar Kögur og Galtarbrík og síðan um Stálhlein. Þaðan vestur í Skor og síðan norðvestur og upp brattar skriður um Skorarhlíðar upp fyrir Söðul og um Hvammshlíð til Sjöundár. Þaðan norður að Melanesi á Rauðasandi og loks norður að Móbergi.

18,0 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Hreggstaðadalur, Rauðisandur, Strandaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jóhann Svavarsson

Siglunes

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Selvík á Siglufirði um Kálfsskarð að Siglunesi.

Þormóður rammi landnámsmaður byggði á Siglunesi. Þar var öldum saman kirkja og mikil útgerð fram á 20. öld. Byggðin fór í eyði 1990.

Förum frá Selvík. Þangað komumst við eftir kindagötum norður ströndina frá flugvellinum á Ráeyri. Frá Selvík suðsuðaustur Kálfsdal sunnan megin við vatnið í dalnum. Úr botni dalsins förum við suðaustur í Kálfsskarð í 420 metra hæð. Í skarðinu förum við stuttan spöl til suðurs og síðan austur í miðjar hlíðar Nesdals. Síðan norður allan dalinn vestan Reyðarár út að sjó. Þar beygjum við vestur að Siglunesi.

11,4 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Siglufjarðarskarð

Frá Siglufirði til Hrauns í Fljótum.

Siglufjarðarskarð var þjóðleiðin til Siglufjarðar, þangað til Strákagöng voru sprengd. Fyrir daga bílsins var leiðin talin hættuleg að vetrarlagi. Sjálfu skarðinu er lýst þannig í þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Gegnum dyrnar eru hér um fjórar hestlengdir, en vel klyfjafrítt á breidd.” Kvað svo rammt að slysum, að Þorleifur Skaftason prófastur í Múla var fenginn til að vígja skarðið. Það dugði ekki til. Svellbunkar voru í skarðinu og urðu menn stundum að skríða yfir þá. Árið 1940 var skarðið sprengt niður um fjórtán metra. Síðar var þar lagður bílvegur. Fagurt útsýni er úr skarðinu til beggja átta, Siglufjarðar og Skagafjarðar. Sunnan við Siglufjarðarskarð er Afglapaskarð, sem sumir fóru, ef þeir villtust af leið.

Förum frá Siglufirði gamla bílveginn upp dalinn og síðan brattar brekkur beint upp í Siglufjarðarskarð í 600 metra hæð. Vestan skarðsins förum við fyrst suður fjallshlíðina og síðan til vesturs utan í Breiðafjalli og áfram niður brekkurnar vestan fjallsins, þar sem við komum að Hrauni.

10,9 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Jeppafært

Nálægar leiðir: Dalaleið, Efrafjall, Sandskarð, Hólsskarð, Fiskihryggur, Hestskarð eystra.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Sigalda

Frá Hrauneyjarfossi um Sigöldu á Landmannaleið.

Náttúrukortið.is segir þetta um Sigöldu: “Virkjunin stendur inni á hálendinu nokkuð sunnan Þórislóns. Í stöðinni eru þrjár 50 MW vélasamstæður. Tungnaá er stífluð efst í gljúfrunum ofan við Sigöldu og myndast við það 14 km² miðlunarlón, Krókslón. Sigöldustífla er 925 m löng og 40 m há í gljúfrinu þar sem hún er hæst. Úr Krókslóni er vatninu veitt eftir 1 km löngum aðrennslisskurði gegnum ölduna að inntaki á vesturbrún Sigöldu. Frá því liggja þrýstivatnspípur að stöðvarhúsinu og frá stöðvarhúsinu er 550 m langur frárennslisskurður út í Hrauneyjafosslón.”

Förum frá fjallaskála við Hrauneyjafoss suður á Hrauneyjafell og síðan til austurs fyrir sunnan Hrauneyjalón að Sigöldu. Þaðan til suðurs að Bjallavaði á Tungnaá og áfram suður á Landmannaleið.

17,7 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hrauneyjar: N64 11.852 W19 17.026.
Bjallar vestur: N64 06.576 W19 06.284. Kofarúst

Nálægir ferlar: Jökulheimar, Dyngjur.
Nálægar leiðir: Skyggnisvatn, Bjallavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Selvogsgata

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Hafnarfirði til Vogsósa í Selvogi.

Gömul þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Um tíma líka notuð til brennisteinsflutninga frá Námuhvammi í Brennisteinsfjöllum. Námurnar eru um tvo kílómetra frá Tvívörðum á leiðinni hjá Litla-Kóngsfelli. Leiðin er stundum kennd við Kerlingarskarð, sem er vestasta skarðið af Grindarskörðum og það eina, sem er hestfært. Þegar upp skarðið kemur eru fleiri leiðir en sú, sem hér er lýst, niður að öðrum bæjum í Selvogi. Þegar þessi leið var farin úr Selvogi til Reykjavíkur, var það kallað að fara suður, þótt raunar sé leiðin í hánorður. Til baka var kallað að fara austur í Selvog. Leiðin er illa vörðuð, en er samt greinileg enn. Þótt hún sé orðin fáfarin af járnuðum hestum, sem eru færari en fólk í mjúkum skóm í að viðhalda fornum götum. Sem eru fornminjar.

Förum frá Kaldárseli beint í austur fyrir norðan Helgafell og Valahnjúka. Beygjum síðan til suðausturs um Þríhnjúkahraun og Tvíbollahraun og yfir þjóðveg 417. Eftir það beygjum við meira til suðurs og höldum framhjá Grindarskörðum í austri og síðan bratt upp í Kerlingarskarð, þar sem við náum 460 metra hæð. Úr skarðinu förum við fyrst suðaustur um Draugahlíðar og vestan við Stórkonugjá og Litla-Kóngsfell. Þaðan eru hliðarleiðir um Hlíðarveg og Stakkavíkurveg til Hlíðarvatns. En við förum suðsuðaustur um Grafning og síðan Stóra-Leirdal, vestan við Eystri-Hvalhnjúk. Næst um Hvalskarð austan Vestri-Hvalhnjúks og niður Litla-Leirdal og um Hlíðardal vestan Urðarfells niður Katlabrekkur í Katlahraun. Þar beygjum við til suðvesturs á sléttunni í beina stefnu á Vogsósa.

26,2 km
Rey kjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Hlíðavegur, Stakkavík, Helgafell, Undirhlíðar, Vatnsleysuströnd.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Selsvallafjall

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Grindavík til Vigdísarvalla.

Förum með vegi 427 austur á Skálasand og víkjum þar austur af veginum. Síðan til austurs sunnan við Borgarfjall og Langahrygg og norðaustur með fjallgarðinum að Selsvallafjalli. Skammt norðan Selsvalla er skarð í fjallið til suðausturs. Við förum um það til Vigdísarvalla.

25,2 km
Reykjavík-Reykjanes

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Selkotsvegur

Frá Skeggjastöðum undir Haukafjöllum um Stíflisdal og Selkot að Skógarhólum í Þingvallasveit.

Einn mest notaði vegur hestamanna nú á tímum. Fyrr á tímum lá leiðin sunnar, frá Miðdal og eftir Kóngsveginum austur Mosfellsheiði í Vilborgarkeldu.

Förum frá Skeggjastöðum austur með Leirvogsá sunnanverðri, framhjá Tröllafossi, yfir ána og í Stardal. Förum þar upp með gripahúsum og á slóð utan í Múla. Á kafla þarf að fara niður að gamla þjóðveginum um Mosfellsheiði og síðan upp með Bugðu áður en komið er að Litla-Sauðafelli. Förum norðan við fellið um Sauðafellsflóa, yfir þjóðveg 48 og áfram til austurs fyrir sunnan og austan Stíflisdalsvatn. Förum frá Stíflisdal austur Kjósarheiði um eyðibýlið Selkot, sem leiðin er kennd við. Austan við Selkot eru eyðibýlin Melkot og Hólkot. Áfram höldum við upp með Kjálká, um Kirkjuflöt og upp með Gljúfri. Síðan eftir Kárastaðaás, hjá Brúsastöðum og beina leið í Skógarhóla.

30,0 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Stardalsleið, Svínaskarð, Mosfellsheiði, Illaklif, Maríuhöfn, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Lyngdalsheiði.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Seljavatn

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Kaldrananesi í Bjarnarfirði um Urriðavötn til Hellu í Steingrímsfirði.

Förum frá Kaldrananesi fyrst vestur með þjóðvegi og síðan áfram til vesturs á brún Urriðaár, síðan til suðvesturs vestan Himbrimavatna að Urriðavatni. Við förum til suðurs milli Seljavatns að vestanverðu og Margrétarvatns að austanverðu og loks niður að þjóðvegi 646 við Hafnarhólma.

10,2 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þórisgata, Urriðavötn, Sandneshryggur, Pyttasundshæðir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Seljanesmúli

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Eyri í Ingólfsfirði fyrir Seljanesmúla i Ófeigsfjörð.

Á Eyri eru minjar um síldarsöltun og síldarverksmiðju, sem lögð var niður 1952.

Förum frá Eyri með ströndinni vestur í Ingólfsfjörð. Þaðan er leið norður Brekkuskarð til Ófeigsfjarðar. En við förum norðnorðaustur ströndina út fyrir Seljanesmúla. Síðan suðvestur inn í Ófeigsfjörð.

12,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Krossnesmúli, Brekkuskarð, Miðstrandir, Ófeigsfjarðarheiði, Tagl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins