Þjóðleiðir

Saltnesáll 1

Frá Snorrastöðum yfir Saltnesál á Gömlueyri og áfram til Stóra-Hrauns.

Hafið flóðatöflurnar með í farteskinu.

Löngufjörur eru draumaland hestamanna, endalaus skeiðvöllur til allra átta, sums staðar láréttar leirur og annars staðar vægt hallandi sandfjara hvít eða gullin. Vinsælastar eru fjörurnar út frá Snorrastöðum vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Ríði menn bara einu sinni þessa leið, er bezt að fara vestur og hafa Snæfellsjökul í fangið. Þetta er skjótasta útgáfan af Löngufjörum. Saltnesáll kemur úr lindum í Eldborgarhrauni, er svo breytilegur, að leita þarf vaðs á honum. Hann er því varasamur, farið hann eingöngu með staðkunnugum. Gamlaeyri var þekktur rekastaður, fimm km löng. Mörg skip hafa strandað þar, einkum erlend fiskiskip. Þar á meðal tvær franskar skútur árið 1870.

Förum frá Snorrastöðum niður með Kaldá að vestanverðu og síðan aðeins til vesturs með fjörunni, áður en við förum út á hana. Förum skammt utan við yztu tanga til vesturs unz við komum að Saltnesál. Algengast er að fara yfir hann 50-100 metrum frá landi. Hér hafa orðið slys á hestum og stundum legið við slysum á fólki. Einnig er hægt að krækja upp í landið fyrir álinn og fara þá varlega milli pytta. Þegar við erum komin vestur yfir álinn, förum við beint til suðurs vestan við Öskjugrasey og alla leið suður á Gömlueyri. Við förum yfir á eyrina sjávarmegin og síðan eftir henni endilangri til norðvesturs eins langt og við viljum. Þar förum við í land í Viðarhólma, förum norður hólmann og aftur út á leirurnar vestan við Litla-Hraun. Stefnum beint á Stóra-Hraunsnes, þar sem við tökum land og förum jeppaslóð heim að bæ á Stóra-Hrauni.

20,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Múlavegur, Hítará, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Rjúpnafell

Frá Bjarnalækjarbotnum á Gnúpverjaafrétti í Leppistungur á Hrunamannaafrétti.

Þessi leið tengir saman leiðir á afréttum Gnúpverja, Skeiðamanna, Flóamanna og Hrunamanna. Liggur frá Þjórsá til Hvítár.

Förum frá skálanum í Bjarnalækjarbotnum beint norðvestur að Eystra-Rjúpnafelli og tökum stefnu í það norðanvert og förum yfir Fellakvísl, sem er efri hluti Dalsár. Þegar við nálgumst fellið, förum við suður fyrir það og norðan við Rjúpnafellsvatn. Síðan áfram suður fyrir Vestra-Rjúpnafell og fyrir norðan Grænavatn, þar sem við komum á dráttarvélaslóð. Henni fylgjum við norðvestur að jeppaslóð milli skálanna í Leppistungum og Klakki. Fylgjum þeirri slóð skamma leið yfir Fúlá og síðan út af slóðinni til vesturs meðfram Stóra-Leppi að sunnanverðu og loks vestur fyrir fjallið að Leppistungum.

23,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Bjarnalækjarbotnar: N64 24.833 W19 09.826.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.

Nálægir ferlar: Kóngsás, Fjórðungssandur, Fitjaásar, Hrunamannaafréttur, Miklumýrar.
Nálægar leiðir: Tjarnarver.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Rjúkandisdalur

Frá Unaðsdal á Snæfjallaströnd um Rjúkandisdal að Leiru í Leirufirði.

Förum frá Unaðsdal norðaustur Rjúkandisdal austan við Rjúkandisá. Til norðurs austan við Rjúkandisvatn og um Öldugilsdal norður á Fremstafell. Síðan austan við Öldugilsheiðarvatn norður í Öldugilsheiðarskarð í 550 metra hæð milli tveggja hóla. Þar komum við inn á leið um Öldugilsheiði. Þar taka við hjallar með lágum klettum. Klettabrún blasir við í norðri, Krubbuhorn syðra. Við förum austan við hornið og stefnum á bæinn Leiru. Hlíðin er brött, en vel gróin.

14,0 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Öldugilsheiði, Dynjandisheiði, Kaldalón, Vébjarnarnúpur, Leirufjall, Hrafnfjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Réttartorfa

Frá Svartárkoti á Mývatnsheiðum að Blómsturvöllum við Skjálfandafljót.

Bárðargötu er hér lýst í sex dagleiðum. Þær eru, talið frá norðri: Réttartorfa, Öxnadalsdrög, Vonarskarð. Hamarskriki, Fljótsoddi og Bárðargata. Hér er þó ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt. Í þá daga hét Hverfisfljót Raftalækur og var ekki eins ógurlegt og núna. Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Förum frá Svartárkoti í 400 metra hæð eftir slóð suður frá bænum og síðan til suðvesturs framhjá afleggjara til suðausturs í Suðurárbotna og yfir Suðurá og síðan suðvestur að Skjálfandafljóti andspænis Hrafnabjargahlíð handan árinnar. Við förum meðfram ánni að fjallaskálanum í Réttartorfu. Við höldum áfram suður með fljótinu að eyðibýlinu Hafursstöðum. Á þessum slóðum er mikil jarðvegseyðing. Þaðan liggur Biskupavegur norðaustur Hafursstaðahlíð og síðan áfram um Suðurárbotna að Jökulsá á Fjöllum. Við förum áfram til suðurs og síðan upp múlann vestan við Sandmúla. Fljótlega mætum við slóð, sem kemur upp af vaði á Skjálfandafljóti við Kvíahraun. Við förum áfram suður á útsýnisstaðinn Víðskyggni í 740 metra hæð og síðan áfram beint í suður. Við Litladal komum við að afleggjara til vesturs niður að skálanum Blómsturvöllum í Öxnadal.

37,0 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Réttartorfa: N65 15.524 W17 18.612.
Botni : N65 16.164 W17 04.061.
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Svartárkot, Suðurá, Öxnadalsdrög.
Nálægar leiðir: Kráká, Suðurá, Dyngjufjalladalur, Biskupaleið, Suðurárhraun.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Réttarnes

Frá Þingskálum á Rangárvöllum um Réttarnes að Leirubakka í Landsveit.

Sunnan bæjar á Þingskálum eru búðatóftir þingstaðar. Búðirnar eru 37 og friðaðar. Efst í túni Hrólfsstaðahellis er Kirkjuhvoll. Um hann orti Guðmundur Guðmundsson skólaskáld, sem fæddist á bænum: “Hún amma mín það sagði mér: “Um sólarlagsbil / á sunnudögum gakk þú ei Kirkjuhvols til! / Þú mátt ei trufla aftansöng álfanna þar. / Þeir eiga kirkju í hvolnum, og barn ég var, / í hvolnum kvað við samhljómur klukknanna á kvöldin”.” Norðan bæjar er topphlaðið fjárhús myndarlegt, eingöngu hlaðið úr hraungrýti. Í Réttarnesi er grjóthlaðin rétt Landmanna, ekki lengur í notkun. Á Leirubakka í Landsveit er rekin margvísleg þjónusta fyrir hestaferðamenn.

Byrjum við þjóðveg 268 hjá Þingskálum á Rangárvöllum. Förum vestur að Þingskálavaði og norður vaðið. Síðan norður að Hrólfsstaðahelli, þar sem við komum á jeppaveg norður með Ytri-Rangá. Förum veginn um Húsagarð norðaustur í Réttarnes. Þaðan norður hraunið um Miðmelabót að þjóðvegi 26 við Tjarnalæk. Með þjóðveginum austur að Leirubakka.

15,2 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Víkingslækur, Stóruvallaheiði, Skarfanes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Reynivallaháls

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Reynivöllum í Kjós um Reynivallaháls til Fossár í Hvalfirði.

Þessi leið kallast líka Kirkjustígur. Um hálsinn eru líka leiðir frá Vindási og Vindáshlíð og koma þær allar niður hjá Fossá. Ýmsir hafa lent í basli á Reynivallahálsi. Séra Friðrik Friðriksson segir frá suðurferð skólapilta í Latínuskólann um mánaðamótin september-október 1887. Lentu í roki og skafhríð á Reynivallahálsi. “Þegar við komum á brúnina, sáum við ljósin í glugganum á Reynivöllum, er sýndust beint fyrir neðan. En tvo tíma tók það að komast ofan hálsinn. Það var lang versta raunin í allri ferðinni.”

Förum frá Reynivöllum beint norðaustur milli Kippsgils að vestan og Þinghússgils að austan um Fannahlíð upp á Reynivallaháls, hæst í 300 metrum í Grenshæðum og Langamel. Síðan austur hjá Prestsvörðu og Teitsvörðum niður í Klif ofan við eyðibýlið Fossá. Þaðan beint niður á þjóðveg 1 í Hvalfirði.

3,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Maríuhöfn, Gíslagata, Reiðhjalli, Seljadalur, Leggjabrjótur, Grillirahryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Reynifell

Frá Fossi á Rangárvöllum til Reyðarvatnsréttar við þjóðveg 264.

Í landi eyðibýlisins Reynifells hefur risið mikil sumarhúsabyggð.

Förum frá eyðibýlinu Fossi suður yfir Eystri-Rangá að Þorleifsstöðum og síðan með norðurhlið Þríhyrnings vestur að Reynifelli. Þaðan vestur að Eystri-Rangá og vestur með ánni að Tunguvaði við mynni Þverár. Förum yfir Rangá á vaðinu og síðan norðvestur yfir þjóðveg 264 á slóð norðvestur meðfram skógræktargirðingu að þjóðvegi 264 við Reyðarvatnsrétt.

18,8 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Grasleysufjöll, Hungurfit, Krakatindur, Þríhyrningur.
Nálægar leiðir: Hæringsfell, Tröllaskógur, Kirkjustígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Reykjavík

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Nesstofu í Blesugróf.

Leið þessi er tæpast fær hestum nú á dögum vegna umferðar, nema þá í lögreglufylgd.

Frá Læknum voru farnar Arnarhólstraðir á ská yfir núverandi Arnarhólstún og áfram, þar sem er Prentarafélagshúsið við Hverfisgötu. Þaðan lá leiðin á Skólavörðuholt. Þar voru beitarhús frá Arnarhóli, en undir aldamótin 1800 notuðu skólasveinar úr Hólavallaskóla efnið úr þeim til að reisa Skólavörðuna við gömlu göturnar. Þaðan lágu þær milli Norðurmýrar og Vatnsmýrar að vörðunni Háaleiti í skarði milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar. Síðan austur Bústaðaholt nánast eins og Bústaðavegur liggur í dag, að vöðum á Elliðaánum. Inn undir Elliðaám sunnan megin við veginn stóð bærinn Bústaðir. Yfir Elliðaár lá leiðin um vað fyrir ofan Búrfoss og síðan yfir Ártúnsvað, sem er á eystri ál Elliðaánna. Þaðan svo fyrir sunnan Ártún og um Reiðskarð suður og vestur á land.

Förum frá Nesstofu austur Neströð, suður Nesbala, austur sömu götu, suður Lindarbraut, austur Hæðarbraut, yfir Valhúsahæð, þar sem heitir Læknisgata, austur Kirkjubraut og suður Nesveg. Hann förum við næstum að Vegamótum og beygjum þar norður Grænumýri, síðan austur Tjarnarbraut og Frostaskjól, eftir gönguleið hjá KR-velli, austur Álagranda og Framnesveg. Næst suðaustur Vesturgötu, norður Grófina, austur Geirsgötu, yfir hornið á Arnarhóli, suður Ingólfsstræti, austur Bankastræti og suðaustur Skólavörðustíg og Eiríksgötu. Þá suður Snorrabraut og Bústaðaveg, sem við förum alla leið að horni hans og Reykjanesbrautar, þar sem eru hesthús gamla Fáks. Þaðan liggur leið upp Elliðaárdal.

10,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Borgargötur

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson Frá Nesstofu í Blesugróf.

Reykjaskarð

Frá Skarðsá í Sæmundarhlíð um Reykjaskarð að Þverárdal í Laxárdal.

Í Grettissögu segir frá er Grettir og Illugi bróðir hans eru á leið í útlegðina í Drangey: „Er þá sneru þeir til Skagafjarðar og fóru norður Vatnsskarð og svo til Reykjaskarðs og svo Sæmundarhlíð og svo á Langholt. Þeir komu til Glaumbæjar að áliðnum degi.”

Förum frá Skarðsá vestsuðvestur Reykjaskarð meðfram Skarðsá norðan við Grísafell. Norðaustan við Vatnshlíðarhnjúk beygjum við suðvestur um Vestra-Króksskarð og framhjá Flosaskarði í Kálfárdal. Síðan suður í Kálfárdal rétt norðan leiðar um Stóra-Vatnsskarð. Frá Kálfárdal förum við vestnorðvestur meðfram Kálfá að Ógöngum. Þar förum við norðvestur og upp í Kotshnjúksbrekkur og síðan vestur og niður brekkurnar að eyðibýlinu Þverárdal.

14,3 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Sæmundarhlíð, Vatnsskarð, Laxárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Reykjanesfjall

Frá Stað á Reykjanesi hringleið um Reykjanesfjall til Staðar á Reykjanesi.

Förum frá Stað norður á Reykjanesfjall um norðurhlíðar Staðardals og síðan austur fjallið nálægt norðurbrún þess, fyrir norðan Mávavatn. Síðan austur um Nónborg og Rjúpnafell og fyrir norðurenda Ísavatns og suður með vatninu að austanverðu. Næst suðsuðvestur með vesturströnd Hamarsvatns og Grundarvatns. Beygjum til vesturs við suðurenda Grundarvatns og förum vestur um Selflóa og Heyárdal og hjá norðurhlið Leynisvatns. Síðan vestnorðvestur fjallið og loks vestur um Staðardal að Stað.

22,9 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Reykjanes, Barmahlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Reykjanes

Frá Reykhólum vestur fyrir Reykjanesfjall að Kinnarstöðum í Þorskafirði.

Reykhólar eru fornt frægðarsetur. Þar nam land Úlfur skjálgi og höfðu niðjar hans Reyknesingagoðorð. Þekktastir fornmanna á Reykhólum voru Þorgils Arason og Ingimundur prestur Einarsson. Kolbeinn ungi lét hér vega Tuma Sighvatsson. Á 15. öld bjó hér Guðmundur ríki Arason. Sonur hans, Andrés Guðmundsson, hertók staðinn af þeim bræðrum Birni ríka Þorleifssyni og Einari Þorleifssyni. Síðar gerði Einar árás á staðinn. Andrés var þar fyrir með fallbyssu og lét skjóta á lið Einars. Þetta var fyrsta notkun fallbyssu á Íslandi. Frá þessu segir í skáldsögunni Virkisvetri eftir Björn Th. Björnsson. Kinnarstaðir eru kenndir við Þuríði drykkinn, vinkonu Gull-Þóris. Þar er Hesthólmi í firðinum. Þar kom á land hestur Þóris Kinnskær, sem hafði synt yfir Þorskafjörð, og var drepinn í hólmanum.

Förum frá Reykhólum vestnorðvestur að Brandsstöðum. Fylgjum fyrir bílvegi norðvestur að Stað. Síðan norður um Biskupskleif á strönd Þorskafjarðar og austur með ströndinni um eyðibýlið Hlíð að þjóðvegi 60 við Kinnarstaði.

23,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Hafrafell, Laxárdalsheiði, Reykjanesfjall, Vaðalfjöll, Barmahlíð, Vaðalfjallaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Reykjakvísl

Frá Laxamýri um Reykjakvísl að Brúnahlíð í Reykjahverfi.

Förum frá Laxamýri suðaustur með Mýrarkvísl um Reykjahverfi vestan þjóðvegarins. Við Helgá förum við suðvestur meðfram Reykjakvísl upp á Reykjaheiði eftir veiðivegi. Aðeins vestar er önnur slóð norður-suður Reykjaheiði. Síðan förum við til suðurs fyrir vestan Hrakholt og áfram suður heiðina. Suðaustur og niður að þjóðvegi 87 andspænis Brúnahlíð og Klambaseli.

16,5 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði, Keldunesheiði.
Nálægar leiðir: Höskuldsvatn, Sandsbæir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Reykjafjarðarháls

Frá Þaralátursfirði til Reykjafjarðar á Ströndum.

Heitar uppsprettur og sundlaug eru í Reykjafirði. Samkvæmt Vestfjarðavefnum er farið mun utar og austar í Þaralátursfirði og er leiðin þá styttri um hálsinn. Þar er henni lýst frá suðri til norðurs og segir svo: “Gengið er um skarð milli kletta og upp á Reykjafjarðarháls frá sundlauginni í Reykjafirði. Þaðan er leiðin vörðuð yfir til Þaralátursfjarðar. Komið er niður við svonefnda Viðarskálavík þar sem sjá má rústir gamalla beitarhúsa. Hlíðin inn í fjarðarbotninn er stórgrýtt og því er betra að ganga ofarlega í Steinbogahlíð og fylgja gömlum fjárgötum þar til komið er niður að Steinbogalæk rétt utan við Sandshorn. Hægt er að vaða ósinn á fjöru, annars þarf að fara ofar en það er mun torfærara.” En ég lýsi leiðinni aðeins öðruvísi eins og hún er á herforingjaráðskorti.

Byrjum í Þaralátursfirði. Förum suður fyrir lónið vestanvert að Óspakshöfða. Þaðan förum við um sneiðing suður og síðan austur á Reykjafjarðarháls í 140 metra hæð. Síðan áfram norðaustur brekkurnar niður að gistihúsinu í Reykjafirði.

5,5 km
Vestfirðir

Skálar:
Reykjarfjörður: N66 15.425 W22 05.372.

Nálægar leiðir: Fossadalaheiði, Þúfur, Skjaldabjarnarvík, Svartaskarð, Furufjarðarnúpur, Þaralátursnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Reykjadalur

Frá Hveragerði á Ölkelduhálsleið milli Kolviðarhóls og Villingavatns.

Í Reykjadal eru margir hverir, einkum í dalverpinu Hverakjálkum, sem gengur vestur úr dalnum. Frá Brúnkollubletti má fara ýmsar leiðir niður í Grafning.

Förum frá Gufudal við Reykjakot norðaustur upp að Dalafelli og síðan upp vesturhlíðar þess, austan við Reykjadalsá í Djúpagili. Þegar upp í sléttlendi Reykjadals er komið færum við okkur yfir í vesturhlið dalsins upp að mýrasundinu Litla-Brúnkollubletti. Þar komum við á slóðina Ölkelduháls, sem liggur frá Kolviðarhóli að Grafningsvegi við Villingavatn.

5,6 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Klóarvegur, Ölkelduháls, Hengladalaá, Hellisheiði, Álftavatnsvað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Reykholtslaug

Frá fjallaskálanum Kletti um Reykholtslaug í Þjórsárdal að Stöng.

Förum austsuðaustur frá fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal og stefnum í skarðið norðan við Reykholt. Förum um skarðið að Reykholtslaug og áfram austur að Stöng í Þjórsárdal. Þaðan er stutt að fjallaskálanum Hólaskógi á Gnúpverjaafrétti.

6,6 km
Árnessýsla

Skálar:
Klettur: N64 10.872 W19 52.287.
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH