Þjóðleiðir

Rauðisandur

Frá Naustabrekku á Rauðasandi austur að Melanesi á Rauðasandi.

Rauðisandur heitir eftir rauðgulum hörpudisks-mulningi með ströndinni. Guðmundur ríki Arason bjó á Saurbæ á Rauðasandi á 15. öld. Talinn hafa átt flestar jarðir á Íslandi fyrr og síðar. Englendingar rændu Eggerti Hannessyni hirðstjóra í Saurbæ árið 1579 og höfðu með sér á brott.

Förum frá Naustabrekku austur sveitina undir Sandsfjöllum að Skógi undir Mábergsfjalli. Þaðan er leið um Vatnskleifar að Haukabergsvaðli á Barðaströnd. En við förum suður að Melanesi.

14,4 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Hyrnur, Hnjótsheiði, Strandaheiði, Hreggstaðadalur, Sigluneshlíðar, Bjarnagata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Rauðhólar

Frá Hrauntanga á Öxarfjarðarheiði að Efri-Hólum í Núpasveit.

Eyðibýlið Hrauntangi er á miðri Öxarfjarðarheiði og er þaðan jafnlangt til allra átta, til Garðs í Þistilfirði, Efri-Hóla í Núpasveit og Sandfellshaga í Öxarfirði. Býlið er rétt austur af Kvíum, sérkennilegri hrauntröð með hraundröngum, sem verða strax á vegi okkar. Jón Trausti rithöfundur átti um skeið í æsku heima í Hrauntanga. Rauðhólar eru gígar, sem hafa gubbað upp 200 ferkílómetrum af hrauni. Þeir eru norðurendi lengstu gossprungu á Íslandi. Við fylgjum Rauðhólahrauni næstum alla leiðina. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð.

Förum frá hestarétt hjá fjallaskálanum á eyðibýlinu Heiðarmúla norðvestur um mýrar að eyðibýlinu Hrauntanga og þaðan til norðurs Rauðhólahraun að vesturenda Arnarstaðavatns. Þar sveigjum við til vesturs og förum norðan við Rauðhóla og norðvestur eftir Rauðhólahrauni að Kálfafjöllum. Fylgjum fjöllunum áfram norðvestur um Kálfaborgir og síðan um Hildarselshraun að Efri-Hólum í Núpasveit.

18,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Öxarfjarðarheiði: N66 10.209 W16 03.852.

Nálægir ferlar: Þverárhyrna, Öxarfjarðarheiði, Djúpárbotnar.
Nálægar leiðir: Biskupsás, Urðir, Hólaheiði, Hólsstígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Rauðhólahringur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Mikið farinn reiðhringur hestamanna á svæði Fáks í Elliðaárdalnum eftir að frost er að farið úr jörðu.

Um Rauðhóla segir Vísindavefurinn: “Rauðhólar eru þyrping af gervigígum – fyrirbæri sem sagt er að ekki hafi fundist annars staðar en á Íslandi og reikistjörnunni Mars. … Gervigígar myndast þegar hraun rennur út í grunnt vatn eða yfir votlendi. … Rauði liturinn stafar af örsmáum ögnum af hematíti sem myndaðist í gosinu við oxun járns í bráðinni af völdum gufu. … Helluhraun rennur í göngum út í vatn með vatnsósa seti. Kvikutotur þrýstast niður í setið, hvellsuða verður og gjall brýst gegnum þak hraungangsins upp til yfirborðsins. Kvika heldur áfram að streyma að og toturnar seylast æ dýpra niður í setið uns þær ná (í þessu tilviki) niður í jökulbergið undir. … Rauðhólarnir urðu til fyrir 4700 árum.”

Byrjum í hesthúsahverfi Fáks í Faxabóli við Elliðaár. Förum um hesthúsin í Víðidal yfir götuna Hundavað og áfram norður og undir þjóðveg 1 við Rauðavatn. Þar förum við til austurs meðfram vatninu og síðan skógargötu frá austurhorni vatnsins að Almannadal. Þar förum við undir þjóðveg 1 og inn í Rauðhóla. Förum slóðina áfram yfir reiðbrú á Bugðu og áfram um Norðlingaholt og undir Elliðabraut að hestahúsahverfi Fáks.

7,9 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Kóngsvegur, Dyravegur, Elliðavatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Rauðavatnshringur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Ein mest farni reiðhringur hestamanna á svæði Fáks í Elliðaárdalnum.

Um Rauðavatn segir Vísindavefurinn: “Rauði liturinn stafar af vatnaplöntunni síkjamara (Myriophyllum alterniflorum) sem vex upp af botni í miklum og þéttum breiðum og þekur vatnið að miklu leyti. Plantan blómstrar á yfirborði rauðleitum smáblómum og blómstönglarnir eru einnig rauðleitir.” Við Rauðavatn voru fyrstu skref skógræktar á Íslandi tekin í upphafi 20. aldar.

Byrjum í hesthúsahverfi Fáks í Faxabóli við Elliðaár. Förum um hesthúsin í Víðidal yfir götuna Hundavað og áfram norður og undir þjóðveg 1 við Rauðavatn. Þar förum við réttsælis eða rangsælis umhverfis vatnið og svipaða leið til baka.

6,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðhólahringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Kóngsvegur, Dyravegur, Elliðavatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Rauðamelsheiði

Frá Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal til Blönduhlíðar í Hörðudal.

Um Rauðamelsheiði og dalina vestan hennar voru alfaraleiðir á Skógarströnd og þaðan um Vestliðaeyri í Dalina. Örnefnið Götuvatn minnir á þetta. Rauðamelsheiðarvegur var fyrrum talinn liggja frá innstu bæjum á Skógarströnd og suður að Ölviskrossi. Með lest tók það fjórar stundir að fara þessa leið.

Árið 1234 reið Órækja Snorrason með liði suður Rauðamelsheiði til ránsferðar um sunnanvert Snæfellsness. Sturla Þórðarson reið suður heiðina 1253 til fundar við Þorgils skarða Böðvarsson í Eldshólma sunnan við Haffjarðará. 1255 riðu Sturla og Þorgils suður heiðina eftir að hafa áður mælt sér mót í Haukadalsskarði.

Förum frá Hallkelsstaðahlíð vestur með vatninu norðanverðu út fyrir Hlíðarmúla. Síðan með þjóðvegi 55 norður með Oddastaðavatni austanverðu um eyðibýlið Ölviskross og áfram norður frá vatninu að Svínavatni. Við norðausturenda vatnsins förum við frá þjóðveginum meðfram Syðsta-Þverfelli norðvestur um Löngutjörn að Götuvatni og förum norðan þess og sunnan Innsta-Þverfells að Almannaborg. Við förum sunnan hennar og eftir Tófudalsgii niður í Tófudal. Þaðan förum við til vesturs fyrir sunnan Seljafell og Efra-Berg. Og loks milli Hólmlátursvatna niður á þjóðveg 54 um Skógarströnd. Þaðan liggja vegir austur og vestur um ströndina. Við förum austur með þjóðveginum í Hörðudal að Blönduhlíð.

36,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Heydalur, Skógarströnd, Lækjarskógarfjörur, Sópandaskarð.
Nálægar leiðir: Fossavegur, Hattagil, Miðá, Klifháls.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Ranghali

Frá Flugumýrarhvammi í Blönduhlíð um Ranghala og Hvammsdal að Hvammi í Hjaltadal.

Þessi leið er ekki fær hestum. Ranghali er brattur og grýttur, en þurr árfarvegur og hættulaus.

Byrjum við þjóðveg 76 hjá Flugumýrarhvammi. Förum austur að Flugumýrarhvammi og síðan austur í mynni Hvammsdals og þaðan norðaustur Ranghala. Þar komumst við krókótta og þrönga leið milli Hjaltastaðafjalls að norðvestanverðu og Tungufjalls að suðvestanverðu. Úr Ranghala förum við norðaustur í Austurdal og síðan norðaustur dalinn inn að botni. Þar förum við norður og upp úr Austurdal á heiðina í 1040 metra hæð. Þar komum við á aðra leið upp úr Vindárdal. Þar náum við greiðri en brattri leið norðaustur í Hvammsdal. Eftir dalnum er bein leið að Hvammi.

17,4 km
Skagafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Grænuvötn, Kattárdalur, Kotagil, Suðurárdalur, Ullarvötn, Vindárdalur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Rangárbotnar

Frá Leirubakka í Landsveit til Áfangagils við Valafell.

Leiðin fylgir bílvegi að mestu fyrri hluta leiðarinnar, en í Norðurbotnum er vikið til austurs frá veginum og farin reiðslóð í átt til Valafells. Við förum yfir efstu drög Ytri-Rangár, þar sem hún sprettur fram í ótal lindum og sameinast í einni kvísl. Við hana eru grænir bakkar, sem stinga í stúf við vikurbreiðurnar umhverfis. Víðir og hvönn eru í hólmum kvíslarinnar. Síðan tekur við berangurslegt Sölvahraun. Sunnan við þessa leið er mikil vinnsla á vikri til útflutnings.

Förum frá Leirubakka í 100 metra hæð norðvestur með þjóðvegi 26 um Galtalæk og Lönguhlíð, um Merkurhraun, tunguna milli Þjórsár og Ytri-Rangár, unz við komum norður fyrir Fossabrekkur í Rangárbotnum. Þar beygjum við af veginum austur yfir Rangá og um Rangárbotna norðan Sauðafells í Sölvahraun. Þar förum við yfir Landmannaleið á slóð, sem liggur til norðurs vestan við Ölduna. Fylgjum þeirri slóð að hliðarslóð til austurs að skálanum í Áfangagili í 310 metra hæð.

27,0 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Áfangagil: N64 06.051 W19 34.499.

Nálægir ferlar: Heklubraut, Hraunin, Rauðkembingar, Fjallabak nyrðra, Sauðleysur.
Nálægar leiðir: Stóruvallaheiði, Réttarnes, Skarfanes, Valafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Rangalón

Frá Grjótgarðshálsi á Jökuldalsheiði um Rangalón í Botna á Jökuldalsheiði.

Rangalón er eyðibýli á heiðinni, þar sem fólk gisti oft á leiðinni milli Möðrudals og Jökuldals. Jörðin hafði góða silungsveiði í Sænautavatni.

Byrjum á fjallvegi F901 á Jökuldalsheiði sunnan Grjótgarðsháls. Förum sunnan vegar austur í Rangalón. Þaðan norðaustur yfir veginn í Bjallkolludal. Síðan austur um Botnahraun á fjallveg F901 austan Botna á Jökuldalsheiði.

10,2 km
Austfirðir

Nálægir ferlar: Sænautasel.
Nálægar leiðir: Sænautafell, Skjaldklofi.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Rangalaskarð

Frá sæluhúsinu í Hornvik um Rangalaskarð til botns Lónafjarðar að Rangala.

Erfið leið og óvörðuð.

Fallegir fossar eru norðan Rangalaskarðs.

Förum frá sæluhúsinu í Hornvík suður Höfn, yfir Víðirsá, Torfadalsá og Selá og áfram beint suður í Rangalaskarð í 560 metra hæð. Síðan förum við suður með Rangalaá niður að Rangala.

11,9 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Skálar:
Hornvík: N66 25.666 W22 29.440.

Nálægar leiðir: Lónafjörður, Snókarheiði, Atlaskarð, Hafnarskarð, Kýrskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Randir

Frá Grímsstöðum við Mývatn að Þeistareykjum í Kelduhverfi.

Áður fyrr var þetta önnur aðalleiðin milli Mývatns og Kelduhverfis um Þeistareyki.

Förum frá Grímsstöðum beint norður á Grímsstaðaheiði að vesturhlíðum Hrafnabjarga. Förum síðan áfram norður með fjöllum, fyrst Gæsafjöllum og aðeins norður fyrir þau, síðan norðvestur að Kvíhólafjöllum og vestan þeirra og Bæjarfjalls að Þeistareykjum.

18,8 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Þeistareykir : N65 52.565 W16 57.340.

Nálægir ferlar: Hamrahlíð, Þeistareykjabunga, Þeistareykir, Sandvatn.
Nálægar leiðir: Sandabrot, Draugagrund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Pyttasundshæðir

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Kaldrananesi í Bjarnarfirði um Pyttasundshæðir til Hafnarhólma í Steingrímsfirði.

Förum frá Kaldrananesi eftir Þórisgötu um Bringur og síðan vestan Bæjarvatna. Þaðan er slóð austan Bæjarvatna til Bakkagerðis. Við förum vestan vatnanna til suðsuðvesturs og austan við Hamarsvötn og niður hjá Margrétarfelli suður að Hafnarhólma.

9,0 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þórisgata, Urriðavötn, Seljavatn, Sandneshryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Prestastígur

Frá Víðivöllum við Ármannsfell um Hrafnabjörg að Biskupsflöt á Lyngdalsheiði.

Við getum ekki rakið þessa leið nákvæmlega, nema við vitum um helztu örnefni á leiðinni. Gott væri, ef hestamenn prófuðu að fara þessa leið eins og hér er lýst. Mikilvægt er að endurvekja leiðina um Prestastíg, því að hún er sögufræg. Hún var farin milli Skálholts og Þingvalla og einnig áfram frá Þingvöllum um Kjósarskarð til Maríuhafnar við Laxá í Kjós. Leiðin, sem sýnd er á meðfylgjandi korti, er samkvæmt árbók FÍ. Betra er að fara austanvert með girðingu frá Víðivöllum að Hrafnabjörgum vestanverðum og fara þaðan beint suður að Dímon vestanverðum. Þannig sleppa menn við girðingar. Þessa leið fór Sturla Sighvatsson til Apavatnsfundar með Gissuri Þorvaldssyni. Beitivellir við Laugarvatnshelli undir Reyðarbarmi voru þekktur áningarstaður að fornu. Þar hittust Kolbeinn ungi Arnórsson og Gissur Þorvaldsson 1238 til herferðar gegn Sturlu Sighvatssyni vestur í Borgarfjörð og Dali. 1. janúar 1242 fór Órækja Snorrason um heiðina á leið í Skálholtsbardaga við Gissur Þorvaldsson. Í febrúar 1253 lenti Þórður Hítnesingur í hrakningum á heiðinni og varð að snúa við til Gjábakka í Þingvallasveit. Fór síðan vestan við heiðina um Búrfell til Skálholts.

Byrjum á Víðivöllum undir Ármannsfelli. Við förum suður um hraunið yfir Prestastíg á Hlíðargjá að eyðibýlinu Hrafnabjörgum. Sú leið hefur ekki verið nákvæmlega kortlögð. Frá Hrafnabjörgum förum við suður yfir Heiðargjá og Hrafnabjargaháls að Dímon norðan Lyngdalsheiðar. Sú leið hefur ekki heldur verið nákvæmlega kortlögð. Síðan fyrir Reyðarbarm til Beitivalla við Laugarvatnshelli. Frá Beitivöllum förum við frá yfir norðausturenda Lyngdalsheiðar að Biskupsflöt og Biskupsbrekkum, þar sem við komum á svonefndan Biskupaveg yfir Lyngdalsheiði. Sá vegur liggur milli Skálholts og Þingvalla.

18,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kálfstindar.
Nálægar leiðir: Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Hrafnabjörg, Búrfellsgötur, Dráttarhlíð, Biskupavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Prestagötur

Frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal að Kvennabrekku í Miðdölum.

Leiðin er einnig kölluð Kvennabrekkuháls. Prestar á Kvennabrekku fóru þessa leið til útkirkju að Stóra-Vatnshorni. Á Kvennabrekku fæddist Árni Magnússon 1666, síðar prófessor í Árnasafni.

Förum frá Stóra-Vatnshorni austur með þjóðveginum að Eiríksstöðum og þar suður veg að Saursstöðum. Síðan vestur um Litla-Vatnshorn að Haukadalsvatni og þaðan upp með Prestagili svokallaðar Prestagötur suður á Kvennabrekkuháls. Við förum mest í 160 metra hæð og komum síðan til suðvesturs niður af hálsinum að þjóðvegi 585 við Kirkjuskóg, næsta bæ norðan við Kvennabrekku.

8,2 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Saurstaðaháls, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Sauðafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Péturskirkja

Frá Reykjahlíð við Mývatn til Grímsstaða á Fjöllum.

Eldri þjóðleið er Almannavegur frá Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum.

Þetta er hin gamla þjóðleið milli Norðurlands og Austurlands, oftast kölluð Mývatnsöræfi. Fyrst liggur leiðin um Námaskarð og síðan um lyngvaxið gróðurflæði á Austaraselsheiði. Loks um sandorpið helluhraun með útsýni suður til Herðubreiðar. Péturskirkja er þekktur áningarstaður á þessari leið, kennd við Pétur Jónsson í Reynihlíð. Sunnan leiðarinnar breiðir úr sér Búrfellshraun, mikið flæmi með ótal gjótum, hellum og hraukum og birkikjarri í skjóli. Á þessum slóðum var Fjalla-Bensi í fjárleitum, svo sem lýst er í Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson. Reiðleiðin liggur mestan part langt utan þjóðvegarins, lengst af norðan hans. Leiðin er vel vörðuð og hefur Birkir Fanndal endurreist margar af vörðunum.

Förum frá flugvellinum í Reykjahlíð við Mývatn í 300 metra hæð og förum suður með Melum undir fjallsrótum ofan byggðar í Reykjahlíðarhverfi og áfram beint austur. Upp á þjóðveg 1 við afleggjara að Jarðbaðshólum og förum með þjóðveginum um Námaskarð, í 420 metra hæð. Þegar við komum niður handan skarðsins beygjum við eftir þjóðvegi 863 til norðurs um 500 metra og síðan eftir reiðslóð til austurs um Sandfell og Nautarandir. Förum yfir gamla slóð til Kelduhverfis í 460 metra hæð norðan eyðibýlisins Austarasels. Þaðan förum við austur um Austaraselsheiði og Amtmannsás niður að þjóðvegi 1. Meðfram honum um Skeiðflöt, yfir gamla jeppaveginn að Dettifossi og síðan áfram austur með þjóðvegi 1, stundum sunnan hans og stundum norðan. Leiðin er að mestu leyti enn vörðuð. Komum við í fjallakofanum Péturskirkju og förum síðan áfram framhjá afleggjara að Herðubreið og síðan yfir Jökulsá á Fjöllum um brú hjá Grímsstöðum á Fjöllum. Handan brúar förum við nyrðri þjóðveginn, númer 864, að Grímstungu, í 400 metra hæð.

44,6 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Péturskirkja : N65 38.495 W16 21.949.
Grímsstaðir: N65 38.615 W16 07.050.

Nálægir ferlar: Sandvatn, Hólsfjöll, Öskjuleið.
Nálægar leiðir: Pennaflötur, Hrossanúpar, Draugagrund, Jörundur & Eilífur, Dettifoss, Dettifossvegur, Dimmifjallgarður, Heljardalur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson

Pálsbær

Frá reiðslóð meðfram Leirá að fjallaskálanum við Sultarfit.

Förum frá reiðslóðinni meðfram Leirá sunnan Frægðarvershnúks austsuðaustur norðan fjallsins Pálsbæjar að fjallaskálanum í Sultarfitjum.

7,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Sultarfit: N64 19.752 W19 39.427.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH