Þjóðleiðir

Vindárdalur

Frá Framnesi í Blönduhlíð um Vindárdal og Hvammsdal til Hvamms í Hjaltadal.

Marteinn biskup Einarsson flúði þessa leið 1548 frá Jóni biskupi Arasyni og Steini presti, sem gætti hans á Hólum í Hjaltadal. Marteinn náðist í tjaldi ofarlega í Vindárdal, þar sem heita Tjaldeyrar. Um flóttann orti Jón Arason: “Biskup Marteinn brá sitt tal, / burt hljóp hann frá Steini, / vasaði fram á Vindárdal, / varð honum það að meini.”

Förum frá Framnesi austur að eyðibýlinu Axlarhaga og þaðan norðaustur í Vindárdal. Dalurinn er í krókum, en höfuðátt hans er austur. Við höldum okkar norðan Vindár. Innan við grjóthrunið Hólana eru sléttar Tjaldeyrar og fyrir ofan þær eru Bungur. Þar förum við bratt upp úr dalnum. Þegar upp er komið, í 1040 metra hæð, beygjum við spöl til suðurs til að komast fyrir kletta. Þar náum við greiðri en brattri leið norðaustur í Hvammsdal. Eftir dalnum er bein leið að Hvammi.

17,2 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Grænuvötn, Kattárdalur, Kotagil, Ranghali, Suðurárdalur, Ullarvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Villingadalur

Frá Haukadal um Villingadal á Krossbrúnarleið að Sanddal.

Förum frá Kirkjufellsrétt suður allan Villingadal og síðan suðsuðaustur upp úr dalbotninum að Krossbrúnarleið suður í Sanddal.

8,8 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Tröllháls.
Nálægar leiðir: Krossbrún, Haukadalsá, Jörfamúli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Vigdísarvellir

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá þjóðvegi 42 norðan Kleifarvatns um Vigdísarvelli að þjóðvegi 427 austan Grindavíkur.

Þetta svæði hefur verið skemmt með torfæruhjólum, samanber það sem ég las á vefnum: “Já ég, pabbi og ásgeir skeltum okkur uppí Vigdísarvelli og djöfluðumst þar í smá stund en síðan kom arnar á yammanum sínum og braut held ég helvítis 2 gírinn, en motorinn hans er kominn aftur uppá borð en já samt náðum við að skemmta okkur konungslega áður en það gerðist. Ég arnar og ásgeir fórum í keppni hver gat stokkið leingst upp fjallið en nátla náði kallin leingst.” Eigendur þessa vitfirringstexta eru: Arnar Gauti Þorsteinsson, Róbert Magnússon, Geir Aron Geirson, Svavar Máni Hannesson, Bjarki Ásgeirsson. Svona eyðileggja þeir landið okkar.

Byrjum við þjóðvegi 42 til Krýsuvíkur norðan Vatnsskarðs. Förum suðvestur meðfram fjallsrananum, austan við Sandfell og vestan við Hellutinda, og áfram vestan við Norðlingaháls og Miðdegishnjúk, austan við Traðarfjöll, að eyðibýlinu Vigdísarvöllum. Það er austan við Selsvallaháls. Við fylgjum þeim fjallsrana til suðausturs um Núpshlíðarháls og síðan til austurs að Latsfjalli, þar sem við komum á þjóðveg 427 í Ögmundarhrauni.

21,9 km
Reykjavík-Reykjanes

Skálar:
Lækjarvellir: N63 55.407 W22 05.082.

Nálægar leiðir: Undirhlíðar, Helgafell, Sauðbrekkugjá, Vatnsleysuheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Viðvíkurheiði

Frá kauptúninu í Bakkafirði um Viðvík til Strandhafnar.

Förum frá Bakkafirði suðaustur yfir Viðvíkurheiði í 280 metra hæð. Síðan austur og niður fjallið til Viðvíkur. Þaðan suður á fjallið og eftir Vopnafjarðarströnd til Strandhafnar.

20,6 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Selárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Viðfjörður

Frá Hofi í Norðfirði um Viðfjörð og Barðsnes og Vöðlavík til Stóru-Breiðuvíkur í Reyðarfirði.

Stikuð leið og greiðfær. Nafn Viðfjarðar stafar af miklum við, sem þar rekur á fjöru. Hér gerðust Viðfjarðarundrin, sem Þórbergur Þórðarson skrifaði um. Þar lýsir hann dularfullum fyrirbærum í æsku Huldu, sem Þórbergur kallaði Viðfjarðar-Skottu. Í frásögn Þórbergs er líka fjallað um fyrirbæri í Viðfirði frá fyrri öldum. Á Sveinsstöðum í Hellisfirði var rekin norsk hvalveiðistöð 1901-1913 og voru þar dregnir á land 1243 hvalir.

Förum frá Hof um jeppaveg suðvestur yfir dalinn í Grænanes og síðan austur fyrir Hellisfjarðarmúla. Þar liggur reiðleið um Norðfjarðarskriður austur á Götuhjalla og síðan niður að eyðibýlinu Sveinsstöðum í Hellisfirði. Förum inn fjörðinn og áfram út með honum að sunnanverðu um Hellisfjarðarströnd undir Viðfjarðarmúla. Síðan yfir Nesháls og suður Viðfjörð að eyðibýlinu Viðfirði við fjarðarbotn. Þaðan tökum við krók með austurströnd Viðfjarðar út Barðsnes að eyðibýlinu Barðsnesi og til baka aftur. Frá Viðfirði förum við síðan á jeppavegi suðvestur með Viðfjarðará og upp í skarðið Dys milli Vindhálsaxlar að vestan og Súlna að austan. Þar erum við i 360 metra hæð. Við förum síðan áfram suður um Lönguhlíð á Víkurheiði. Okkar leið á Víkurheiði sveigir til suðvesturs fyrir norðan Víkurvatn og sunnan við Búrfell, þar sem við förum upp í 400 metra hæð. Síðan til vesturs niður brekkurnar í Reyðarfjörð og loks til suðurs niður að sjó að þjóðvegi 954 við Stóru-Breiðuvík.

43,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Tregaskarð, Fönn, Drangaskarð, Sandvíkurskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vébjarnarnúpur

Frá Unaðsdal á Snæfjallaströnd út fyrir Vébjarnarnúp að Stað í Grunnavík.

Farin er stórgrýtt fjaran. Hætta er á steinkasti úr núpnum. Norðan megin er torfært nema á fjöru.

Förum frá Unaðsdal með ströndinni um Tirðilmýri, Hlíðarhús, Skarð, Sandeyri og Berjadalsá. Við höldum áfram ströndina um Snæfjöll og síðan mest í fjörunni alla leið vestur fyrir Vébjarnarnúp og áfram norður að Nausti í Grunnavík. Þaðan um sveitina að Stað í Grunnavík.

29,4 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Sandeyri: N66 08.989 W22 49.986.
Sútarabúðir: N66 14.722 W22 52.290.

Nálægar leiðir: Snæfjallaheiði, Höfðaströnd, Kaldalón, Dynjandisskarð, Öldugilsheiði, Rjúkandisdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Vesturöræfi

Frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal um Vesturöræfi í Snæfell.

Vesturöræfi eru víðáttumikið votlendi í um og yfir 600 metra hæð, kjörlendi hreindýra. Faxagil er um þremur kílómetrum sunnan við slóðina austur á Grjótöldu. Þar innan við var bær á tíma Hrafnkels sögu Freysgoða. Í gilinu er væntanlega Faxahamar, sem þó hefur ekki verið nákvæmlega staðsettur. Þar var Freyfaxa hrundið fram af hamrinum og út í ána. Á Aðalbóli bjó Hrafnkell Freysgoði, landnámsmaður og vígamaður.

Förum frá Aðalbóli suður Hrafnkelsdal og Glúmsstaðadal, um Dragöldu og vestan við Kofaöldu að Sauðakofa. Þaðan austur um Vesturöræfi, sunnan við Grjótárhnjúk og norðan við Herjólfshóla og svo suðaustur að fjallaskálanum vestan við Snæfell.

32,7 km
Austfirðir

Skálar:
Sauðakofi: N64 49.632 W15 47.914.
Snæfell: N64 48.233 W15 38.569.

Nálægir ferlar: Sænautasel.
Nálægar leiðir: Hölkná, Fljótsdalsheiði, Kárahnjúkar, Snæfell, Eyjabakkar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vesturheiði

Frá Hólsdal í Svartárdal um Vesturheiði að Fossaleið á Eyvindarstaðaheiði.

Fyrr á öldum var þetta ein af leiðum Húnvetninga suður á Skagfirðingaveg um Stórasand.

Byrjum við Fossa í Hólsdal, skammt sunnan Stafnsréttar í Svartárdal. Förum jeppaslóð um sneiðinga vestur á Vesturheiði og síðan suðvestur um Litlaflóa og Stóruflá að Fossaleið, sem liggur úr Blöndudal að skálanum við Galtará.

8,2 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Fossaleið, Kiðaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vestdalsheiði

Frá Gilsárteigi við Eiða á Fljótsdalshéraði um Vestdalsheiði til Vestdalseyrar í Seyðisfirði.

Fyrir daga bílvegar um Fjarðarheiði var þetta fjölfarin leið til verzlunar á Seyðisfirði. Leiðin er víða góð og með veghleðslum.

Förum frá Gilsárteigi suðaustur brekkurnar með Gilsá að norðan og síðan suður og suðaustur Gilsárdal og um Gunnubrekku upp á Vestdalsheiði í 600 metra hæð. Þaðan niður með Vestdalsá til austurs. Förum norðan við Vestdalsvatn og Bjólf og síðan niður Vatnsbrekku og Bröttubrekku í Vestdal og áfram austur og niður að Vestdalseyri.

20,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Tó, Hjálmárdalsheiði, Lagarfljót, Afréttarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Vellir

Frá Víðimýri yfir Héraðsvötn að Flugumýri.

Á Sturlungaöld féllu Héraðsvötn í tveimur kvíslum, sem báðar hétu Jökulsá, austari og vestari. Sú vestri var þar, sem nú er Húseyjarkvísl. Yfir hana var farið nálægt Húsey. Farið var um Vallalaug á Völlunum milli kvísla, þar sem ferðamenn hvíldust og fengu sér bað. Hún var þungamiðja héraðsins, mitt á milli Víðimýrar og Flugumýrar. Menn tóku krók þangað suður eftir milli vaða á Héraðsvötnum.

Á Völlum hélt Kolbeinn Tumason fund 1201 og lét kjósa Guðmund Arason til biskups. Víðimýri og Flugumýri voru vel varðir staðir, með virki á Flugumýri og kastala á Víðimýri. 19. apríl 1246 riðu Brandur Kolbeinsson og Ásbirningar yfir Héraðsvötn nálægt gömlu brúnni frá Víðimýri til Djúpadals til orrustu við Þórð kakala Sighvatsson. Var þar háður Haugsnesbardagi. Á Víðimýri gistu höfðingjar Sturlungu. Órækja Snorrason 1235 og Sturla Þórðarson á leið til Flugmýrarveizlu 1253 og aftur 1254. Þorgils skarði Böðvarsson fór yfir Héraðsvötn hjá Löngumýri árið 1255 í aðför að Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni og Hrafni Oddssyni. Það vað er um tveim kílómetrum norðan brúar á Héraðsvötnum, nálægt gömlu brúnni. Tveir Hestvígshamrar eru í Skagafirði, annar við Víðimýri og hinn við Flugumýri. Ekki er ljóst, við hvorn er átt í Sturlungu. Þar funduðu Skagfirðingar 1245 til að velja sér Brand Kolbeinsson að leiðtoga. Árið 1253 tóku Skagfirðingar þar við Gissuri Þorvaldssyni sem leiðtoga og þar tóku þeir 1254 við Oddi Þórarinssyni, umboðsmanni Gissurar.

Byrjum við Víðimýri. Förum austur um Hestvígshamar vestari og síðan yfir Húseyjarkvísl á Póstvaði að Húsey. Síðan suðaustur um Vallholt að Vallalaug, þar sem áð var að fornu. Með þjóðvegi 753 norður að þjóðvegi 1 og áfram norður gamla þjóðveginn að gömlu brúnni yfir Héraðsvötn. Yfir brúna og að lokum norðaustur um Róðugrund og Hestvígshamar austari að Flugumýri. Hér er lýst gömlum aðstæðum. Gamla vaðið hefur líklega verið nálægt gömlu brúnni. Nú á tímum eru Héraðsvötn riðin á vaði andspænis Kúskerpi.

10,7 km
Skagafjörður

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Vatnsskarð, Sæmundarhlíð, Héraðsvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga, Björn Gunnlaugsson

Veiðivötn

Frá Skyggnisvatnsleið um Veiðivötn að Austurbjallavötnum.

Á veidivötn.is segir m.a.: “Veiðivötn er vatnaklasi norðan Tungnaár á Landmannaafrétti. Alls eru vötn og pollar á svæðinu 50 talsins. Vötnin liggja í aflangri dæld sem er breiðust um 5 km og um 20 km löng frá Snjóölduvatni í suðvestri að Hraunvötnum í norðaustri. Þau eru í 560-600 m hæð yfir sjávarmáli. Austan Veiðivatna liggur Snjóöldufjallgarður en Vatnaöldur vestan þeirra. Mörg Veiðivatnanna eru gígvötn mynduð í Veiðivatnagosinu 1477. Þau eru flest lítil um sig, innan við 1 km2, en oft hyldjúp. Eskivatn og Nýjavatn eru dýpst, um og yfir 30 m djúp. Stærstu vötnin eru Litlisjór, Grænavatn, Ónýtavatn og Snjóölduvatn. Litlisjór er langstærstur um 9,2 km2, Grænavatn 3,3 km2 og Snjóölduvatn 1,6 km2. Þessi vötn eru ekki gígvötn og voru til fyrir 1480.”

Byrjum á mótum Veiðivatnaleiðar og Skyggnisvatnsleiðar. Förum suðaustur um Fossvatnakvísl að Litla-Fossvatni. Síðan til suðvesturs norðan og vestan við Langavatn og Eskivatn. Næst suður og síðan vestur að Nýjavatni, suður með Nýjavatni austanverðu og vestur að Ampapolli. Þaðan suður að Snjóölduvatni og síðan suðvestur með því að vestan. Suðsuðvestur frá því að Austurbjallavötnum norðanverðum.

21,3 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Veiðivötn: N64 07.982 W18 47.665.
Tjarnarkot: N64 07.982 W18 47.665.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Jökulheimar.
Nálægar leiðir: Skyggnisvötn, Snjóalda, Grænavatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vegkvíslar

Frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal um Fljótsdalsheiði að Sauðabanalækjum ofan Bessastaða í Fljótsdal.

Þetta var þjóðleiðin af Héraði upp á Jökuldal. Við Vegufs lágu hliðarleiðir norðvestur að Klausturseli og suðvestur að Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Leiðin að Klausturseli lá síðan áfram um Sænautasel til Möðrudals.

Förum frá Vaðbrekku austur yfir Hrafnkelu og upp Háurð. Síðan áfram beint austur um Skál fyrir norðurenda nyrðri Eyvindarfjalla. Þar er leið norður að Jökulsá á Dal. Við förum austur um Vegakvíslar innri og ytri. Við förum austur um Sandskeið og Vegufs, þar sem er leið norður að Jökulsá á Dal. Frá þeim slóðamótum förum við suðaustur að þjóðvegi 910 við Sauðabanalæki.

26,0 km
Austfirðir

Nálægir ferlar: Sænautasel.
Nálægar leiðir: Þrívörðuháls, Eyvindará, Fljótsdalsheiði, Aðalbólsleið, Eyvindarkofaver, Eiríksstaðavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Veggjafell

Frá Bræðraklifi í Ódáðahrauni að Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum.

Þetta er síðasti hluti Biskupaleiðar yfir Ódáðahraun, framhald Suðurárhraunsleiðar og Kerlingardyngjuleiðar. Hafragjá er mikilúðleg gjá með hamrabeltum, sem virðast ófær hestum, að undanskildu Bræðraklifi. Rétt norðan Bræðraklifs hefur stundum fundizt vatnsból. Öll leiðin yfir Ódáðahraun er vörðuð. Jón Sigurgeirsson frá Helluvaði leitaði að vörðunum og fann þær. Mynda misjafnlega gisinn leiðarvísi um þennan forna þjóðveg, sem var í greiðri notkun fram á sautjándu öld, en týndist síðan að mestu. Ingvar Teitsson færði vörðurnar í GPS-net og skrifaði góðan bækling, sem heitir “Biskupaleið yfir Ódáðahraun”.

Byrjum við Bræðraklif í vesturkanti þúsund metra breiðrar Hafragjár í Ódáðahrauni á Biskupaleið, í 540 metra hæð. Hestfær sandbrekka er upp úr gjánni að austanverðu. Við förum til suðausturs undir fjöllunum, en þó sunnan við Veggjafell. Leiðin er að mestu bein, en landið misjafnt undir hóf. Fyrst er þokkaleg leið norðan við Herðubreiðarfjöll. Síðan tekur við ógreiðfært hraun sunnan við Veggjafell að jeppaslóð við Fjallagjá, þar sem gróður heilsar okkur, grávíðir og krækiberjalyng. Síðan förum við um gróðurlita mela að unaðslegu gróðurríki við Grafarlandaá að veginum til Herðubreiðarlinda. Þar verða allir ferðalangar fegnir, sem koma Biskupaleið úr vestri. Við beygjum þar til austurs undir Ferjufjalli, þar sem er elzta ferjustæðið á Jökulsá á Fjöllum.

22,3 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Biskupaleið, Almannavegur.

Skrásetjari: Ingvar Teitsson
Heimild: Ingvar Teitsson

Vatnsskarð

Milli Bólstaðarhlíðar í Svartárdal og Víðimýrar í Skagafirði.

Þetta var allar aldir og er enn höfuðleiðin milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar. Enn má sjá minjar um póstleiðina vestan lækjar við Víðimýri. Hún lá beint milli Arnarstapa og Víðimýrar. 1238: Lið Sturlu Sighvatssonar eltir lið Kolbeins unga Arnórssonar austur yfir Vatnsskarð. 1253: Heinrekur biskup og Þorgils skarði ríða saman á Vatnsskarð. Sama ár ríða Þorgils og Gissur Þorvaldsson saman á skarðið. 1254: Hrafn Oddsson og Eyjólfur ofsi Þorsteinsson fara austur yfir skarðið til að herja á Odd Þórarinsson Svínfelling. 1255: Þorgils skarði ríður Vatnsskarð vestur í Dali eftir Þverárfund.

Förum frá Bólstaðarhlíð upp fyrir þjóðveg 1 og til suðausturs og síðan austurs upp hlíðina ofan þjóðvegar undir Botnastaðafjalli og Gilshálsi. Austan undir hálsinum er þverleið til Laxárdals og að Skarðsá í Sæmundarhlíð. En við förum yfir þjóðveginn og austur að Vatnshlíðarvatni sunnanverðu. Frá horni Vatnshlíðarvatns förum við enn yfir þjóðveginn og til norðausturs ofan við Sæmundará og neðan við þjóðveginn. Áfram beina stefnu yfir þjóðveginn að Arnarstapa og þaðan austur og niður að Víðimýri .

16,4 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Valadalur, Laxárdalur, Reykjaskarð, Vellir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vatnsleysuströnd

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá hesthúsahverfi í Hafnarfirði um Vatnsleysuströnd til Reykjanesbæjar.

Wikipedia segir um Vatnsleysuströnd: „Ströndin er um 15 km að lengd. Á ströndinni voru margir bæir sem yfirleitt voru nokkrir saman í byggðahverfum nálægt bestu lendingunum. Öflug árabátaútgerð var frá mörgum býlum öldum saman, enda stutt á miðin. Á vetrarvertíð voru vermenn úr öðrum byggðarlögum þar til viðbótar við heimamenn. Auk útræðis áttu bændur kýr og kindur og höfðu féð á sumrin í seljum upp í Strandarheiði. … Vatnsból skortir ekki á ströndinni eins og ætla mætti af nafninu, í hrauninu meðfram ströndinni kemur víða upp ferskvatn en inn til landsins finnst það ekki. Upp af ströndinni sunnanverðri liggur Strandarheiði. Þar var áður beitiland, grasi og kjarri vaxið, en heiðin er nú mikið til gróðurlaus.”

Förum frá hesthúsahverfi Sörla sunnan Vatnshlíðar og norðan Selhöfða austur yfir Ásbraut og síðan áfram vestsuðvestur með línuvegi suður fyrir Kúagerði. Þar sveigjum við til norðvesturs og förum yfir þjóðveg 41 að Minni-Vatnsleysu. Þar förum við með vegi 420 vestur ströndina og síðan suður um Voga og vestur á Vogastapa allt til Innri-Njarðvíkur.

35,8 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Undirhlíðar, Selvogsgata, Helgafell, Sauðbrekkugjá, Snókafell, Vatnsleysuheiði, Sandakravegur, Skógfell, Stapafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson