Þjóðleiðir

Tvídægra

Frá Skeggjastöðum í Vesturárdal í Miðfirði til Þorvaldsstaða í Hvítársíðu.

Um Tvídægru segir Stefán Jónsson á Húki í árbók FÍ 1962: “Leiðin liggur inn með Vesturá og síðan inn með Lambá og þá suður yfir Sléttafell, um Skipthól vestan við Króksvatn, þá um Staðarhól, austan við Dofinsfjöll, yfir Lambatungur og á Selhæð á Þorvaldsstaðahálsi, og svo ofan að Þorvaldsstöðum.”

Í Heiðarvígasögu segir frá fyrri bardaga Barða og flokks hans við Borgfirðinga hjá Langavatni norðan undir Dofinsfjöllum og síðari bardaga þeirra hjá Krókavatni sunnan undir Sléttafelli. Sagan segir frá klækjum Barða, sem faldi liðsmenn sína, svo að Borgfirðingar töldu sér sigur vísan og riðu sem ákafast til sóknar. Hertækni Barða var hin sama og hjá Gengis Kahn. Um Tvídægru segir Þorvaldur Thoroddsen: “Hún er á sumrum einn með lökustu fjallvegum, því að þar er manni boðið upp á holurðir, fen, fúamóa með urð undir og aðrar svipaðar trakteringar, en villist menn út af götuslitrunum, verða fyrir manni ótræðisflóar, sem varla halda manni, hvað þá hesti.” Þessi lýsing á raunar við um Núpdælagötur eins og Tvídægru. Hugsanlegt er, að Kolbeinn ungi hafi riðið Tvídægru, þegar hann fór til Borgarfjarðar að Þórði kakala með 600 manna lið 27. nóvember 1242. Öskubyl gerði á flokkinn um nóttina og urðu nokkrir menn úti.

Förum frá Skeggjastöðum. Þetta er nánast bein lína norður-suður. Leiðin er ekki merkt á korti. Hún er svo lítið farin, að víða sést engin slóð og vörðubrot eru fá og fallin. Nyrsti hluti hennar, norðan Sléttafells, er stundum nefndur Húksheiði. Sunnan Króksvatns er fjallaskálinn Húksheiði. Tvídægra nær 400 metra hæð við Langavatn, sunnan Króksvatns. Mikið er af mýrum og smávötnum á leiðinni og getur hún orðið torfær í rigningatíð. Að vetrarlagi getur hún hins vegar verið skjótfarin á harðfenni. Þetta er stytzta leiðin milli byggða í Húnaþingi og Borgarfirði, ef Holtavörðuheiði er frátalin. Sennilega eru allir látnir, sem þekktu þessa leið.

46,9 km
Húnavatnssýsla, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Húksheiði: N64 56.760 W20 49.046.

Nálægir ferlar: Húnaþing, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Kjarardalur, Strúturinn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Tungumúli

Frá Flekkudal á Fellsströnd um Tungumúla að Galtardal á Fellsströnd.

Tengileið milli leiða um Flekkudal og Galtardal.

Förum frá Galtardal til austurs með Suðurdalsá upp úr botni Galtardals upp í skarðið norðaustan við Tungumúla. Sveigjum þar til suðsuðausturs utan í Tungumúla og vestan við Færugil og Seljamúla. Komum niður í Flekkudal.

5,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Flekkudalur, Galtardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Tunguheiði

Frá Örlygshöfn um Tunguheiði upp á Kóngshæðarleið.

Á Hnjóti í Örlygshöfn er minjasafn Egils Ólafssonar um búskap og sjósókn fyrri alda, einnig gamlir bátar og flugminjar. Þar er minnisvarði um þá, sem hafa farizt við Látrabjarg.

Förum frá Tungu vestur Tungudal og norðvestur á Tunguheiði, í 330 metra hæð við vörðuna Digra-Eyjólf sunnan Hádegishæðar. Síðan til vesturs sunnan við Haugabrún. Þar komum við á Kóngshæðarleið, sem liggur milli Kollsvíkur og Keflavíkur.

6,8 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Kóngshæð, Hafnarfjall, Hnjótsheiði, Mosdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Tungufellsdalur

Frá Tungufelli að línuvegi þvert yfir Hreppaafrétti.

Tungufellsdalur er víða skógi vaxinn.

Förum frá Tungufelli norðaustur um Kjalardal, norðnorðaustur um Stóraskóg og Hamarsholt, og loks norðaustur að línuvegi þvert yfir Hreppaafrétti.

9,0 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Fagridalur.
Nálægar leiðir: Svínárnes, Svínárbotnar, Sandá, Grjótá, Grjótártunga, Gullfoss, Hrunamannahreppur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Tungudalur

Frá Tálknafirði um Tungudal og Tunguheiði til Bíldudals.

Förum frá Tálknafirði nánast beint austnorðaustur til Bíldudals. Fyrst upp Tungudal og norðan við Tunguvatn upp á Tunguheiði í 560 metra hæð. Siðan áfram yfir Seljadal og niður Hnúksdal að þjóðvegi 63 til Bíldudals.

9,8 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Tálknafjarðarvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Tungnahryggur

Frá Baugaseli í Barkárdal um Tungnahrygg að Fjalli í Kolbeinsdal.

Einn af hæstu fjallvegum landsins í 1170 metra hæð.

Förum frá Baugaseli vestur Barkárdal. Norðan við Lambárhnjúk beygjum við til norðvesturs upp á fjallið vestan við Eiríkshnjúk. Þar á Tungnahrygg náum við 1170 metra hæð. Síðan förum við norðnorðvestur í Austurdal og síðan norðvestur um óralangan Kolbeinsdal alla leið vestur að skálanum Fjalli í Kolbeinsdal.

27,6 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Skálar:
Fjall: N65 46.051 W19 05.581.
Baugasel: N65 39.370 W18 36.640.

Nálægar leiðir: Heljardalsheiði, Þverárjökull, Hólamannavegur, Hákambar, Skíðadalsjökull, Héðinsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Tröllháls

Frá Engihlíð í Laxárdal um Tröllháls til Giljalands í Haukadal.

“Frá Svarfhóli í Laxárdal er farið upp fjallið og yfir það. Farið er um hlið á mæðiveikigirðingu undir Bjarnarfelli og áfram hjá Hesthallarvatni en þaðan er vegarslóði niður að Smyrlhóli í Haukadal. Þetta er sennilega ekki gömul reiðleið en hefur verið mikið farin á undanförnum árum.” (Hestamannafélagið Glaður)

Förum frá Engihlíð við Svarfhól hundrað metra norðaustur með þjóðvegi 59 að Kollugili. Förum suðaustur og upp hlíðina hjá Kollugili, síðan áfram á fjallinu milli Svarfhólshnjúka að norðan og Lágafells að sunnan. Förum þar austur, í 380 metra hæð undir Bjarnarfell og síðan suður á Svínafell, vestan Hesthallarvatns, og áfram á austurbrún Tröllháls í 420 metra hæð. Förum síðan sneiðinga suður og niður fjallið vestan Fanngils niður að Haukadalsá austan við eyðibýlið Smyrlahól. Þar erum við komin á leiðina um Haukadalsskarð milli Haukadals og Hrútafjarðar.

16,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Villingadalur, Krossbrún.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Tröllatunguheiði

Frá Svarfhóli í Króksfirði að Húsavík í Steingrímsfirði.

Farið er með bílvegi með nokkurri sumarumferð.

Förum frá Svarfhóli norðaustur um Bakka og Bakkadal eftir jeppavegi norður á fjallið. Áfram norðnorðaustur eftir fjallinu um Krókavatn og Laugavatn í 400 metra hæð. Síðan milli Hæðarvatns og Miðheiðarvatns. Áfram norðnorðaustur Tröllatunguheiði milli Arnkötludals að vestan og Tungudals að austan, niður Múla og í Tröllatungu, að vegi 61 við Húsavík.

18,9 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Bæjardalsheiði, Vatnadalur, Bakkafjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Tröllaskógur

Frá Koti á Heklubraut um Hekluhraun að eyðibýlinu Árbæ við Eystri-Rangá.

Tröllaskógur heitir eitt 16-18 eyðibýla, sem staðið hafa norðan og norðaustan Keldna, þar sem nú er Hekluhraun.

Förum frá Koti á Heklubraut suðaustur um Pálssteinshraun og um Herjólfshíði að eyðibýlinu Tröllaskógi. Þaðan suðvestur að eyðibýlinu Litla-Skógi og loks suður að eyðibýlinu Árbæ við Eystri-Rangá.

13,1 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Hungurfit, Grasleysufjöll.
Nálægar leiðir: Geldingavellir, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Tröllaháls

Fá Hlöðuvogi í Kolgrafarfirði um Tröllaháls og Hraunsfjörð að vegamótum þjóðvega 56 og 54.

Tröllaháls er djúpt skarð milli Öxarhamars að sunnanverðu og Gjafa að norðanverðu. Þar var fyrrum aðalleiðin milli Kolgrafarfjarðar og Hraunsfjarðar. Fremur bratt er upp á hálsinn að vestanverðu og liggur gatan þar í sneiðingum, en er aflíðandi að austanverðu. Árnabotn er talið argasta kot sýslunnar. Þar sér ekki til sólar mikinn hluta ársins. Um Árna Ólafsson í Botni er þessi vísa: “Árni í Botni allur rotni, / ekki er dyggðin fín. / Þjófabæli, það er hans hæli, / þar sem að ekki sólin skín.”

Förum frá Hlöðuvogi austur um Hrauntungur á Tröllaháls og síðan austur Hálskinnar í Árnabotn í Hraunsfirði vestan undir Krákuhyrnu. Síðan norðaustur um Berserkjahraun að vegamótum þjóðvega 56 og 54.

13,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Vatnaheiði, Kerlingarskarð, Berserkjagata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Trölladalur

Frá Hellisheiði niður að Þurá í Ölfusi.

Lítið farin nú á tímum.

Leiðin var stundum kölluð Skógarvegur, því að um hann var sóttur skógarviður í Grafning. Hún er vörðuð.

Byrjum á við þjóðveg 1 á Hellisheiði rétt austan við afleggjarann að Ölkelduhálsi. Þangað má komast gamla Hellisheiðarveginn eða slóðina milli hrauns og hlíða. Frá þjóðveginum liggja götur, sem við förum til suðurs. Leiðin liggur nánast beint í suður alla leið, fyrst austan við Tröllahlíð og vestan við Núpafjall og síðan í Trölladal, þar sem við komum í Háaleiti, þar sem er skarð í heiðina. Förum suður yfir Þurá og síðan austur og niður hlíðina sunnan árinnar að Þurá.

6,7 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Hengladalaá, Hellisheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Tröllabotnar

Frá brú yfir Selfljót á vegi 984 á Fljótsdalshéraði um Tröllabotna að Hvannstóði í Borgarfirði eystra.

Algeng reiðleið milli Fljótsdalshéraðs og Innsveitar í Borgarfirði fyrir lagningu bílvegarins um Vatnsskarð. Norðan Tröllabotna og Lambamúla er Stórurð, eitt af meiriháttar náttúruundrum landsins. Hún varð til við, að klettar hrundu úr fjöllum, sem stóðu upp úr jökli, færðust niður hlíðarnar með jöklaskriði og strönduðu neðar. Svipuð fyrirbæri eru víðar um Dyrfjöll, hæstu fjöll Borgarfjarðar, 1136 metrar. Heita eftir Dyrum, klettaskarði í fjallgarðinum miðjum. Dyrnar eru í 856 m hæð. Jóhannes Kjarval, notaði þau oft sem fyrirmynd, enda uppalinn á Borgarfirði. Finna má í þjóðsögum sagnir um álfakóng, Grýlu og jólasveina í Dyrfjöllum. Neðri hluti þeirra mynda háa móbergshamra. Efstu hraunlögin eru úr basalti.

Byrjum á þjóðvegi 984 á brú yfir Selfljót vestan við Unaós. Förum suðvestur og upp með Selfljóti hjá Hrafnabjörgum. Þaðan sveigjum við suður frá fljótinu upp með Jökulsá að utan, um Sníðakinn og meðfram Lönguhlíð. Við Urðardalsá tökum við krók til austurs inn í Urðardal að Stórurð. Síðan til baka aftur út Urðardal og beygjum suðaustur um Eiríksdal í Tröllabotna. Þar förum við yfir Eiríksdalsvarp til suðausturs vestan við Tindfell í 520 metra hæð og niður á Sandaskarðaleið til Borgarfjarðar.

22,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Gönguskarð eystra, Sandaskörð, Kækjuskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Trékyllisheiði

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Djúpuvík í Reykjafirði um Trékyllisheiði að Geirmundarstöðum í Steingrímsfirði.

Trékyllisheiði var fyrrum alfaraleið, en reiðleiðin er fáfarin í seinni tíð. Nú liggur jeppaslóð um syðri hluta leiðarinnar. Djúpavík er yfirgefin verstöð frá árunum 1917-1954. Þar eru húsakynni síldarbræðslustöðvar, sem nú nýtast sem síldarminjasafn. Þekkt hótel er rekið í verbúðunum.

Förum frá Djúpuvík suðsuðvestur og upp Kjósarhjalla, síðan suður um Skeifnabrjót á Trékyllisheiði. Að lokum suður um Brennihlíðarhögg að Geirmundarstöðum.

20,6 km
Vestfirðir

Skálar:
Trékyllisheiði: N65 51.599 W21 40.479.

Nálægar leiðir: Göngumannaskarð, Kambur, Naustavíkurskarð, Staðarfjall, Háafell, Tagl, Bassastaðaháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Tregaskarð

Frá Viðfjarðarvegi á Víkurheiði um Vöðlavík og Tregaskarð til Sandvíkur.

Mikið klungur og ógreiðfært efst í skarðinu. Stundum var farið aðeins austar, um Gerpisskarð, sem er hærra, um 700 metrar, en greiðfærara og fært hestum. En það er töluverður krókur. Í Vöðlavík strandaði Bergvík 18. desember 1993, en mannbjörg varð. Þremur vikum síðar, 10. janúar, strandaði björgunarskipið Goðinn við að reyna að ná Bergvík á flot. Þá fórst einn maður, en hinum var bjargað upp í þyrlu eftir níu klukkustundir í versta veðri.

Byrjum á Viðfjarðarvegi milli Reyðarfjarðar og Viðfjarðar. Förum jeppaslóð sunnan við Lönguhlíð. Hún liggur austur og niður í Vöðlavík um sæluhús á Karlsstöðum austur að Vöðlum í Vöðlavík. Þaðan förum við norður Tregadal í Tregaskarð í 600 metra hæð. Áfram norður úr skarðinu niður að Sandvíkurá og beygjum þar til norðausturs með ánni. Leiðin endar á Parti í Sandvík eða við sæluhúsið í Sandvík.

12,6 km
Austfirðir

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Karlsstaðir: N65 01.803 W13 40.354.
Sandvík: N65 05.350 W13 33.270.

Nálægar leiðir: Viðfjörður, Sandvíkurskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Tóbakslaut

Frá Langabotni í Geirþjófsfirði um Tóbakslaut á Tröllhálsveg.

Förum frá Langabotni suður yfir dalinn og beint suður og upp hlíðina vestan Einhamars að Tóbakslaut. Þaðan vestur á Botnshorn og sunnan þess í 520 metra hæð á veg 60 við Djúpavatn.

4,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Geirþjófsfjörður, Kirkjubólsheiði, Dynjandisheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort