Rangárvallasýsla

Jökulheimar

Frá Hrauneyjum við Tungnaá um Veiðivötn að fjallaskálanum Jökulheimum við Vatnajökul.

Jeppaslóðin er lengst af eins og strik í auðninni.

Í Jökulheimum hefur lengi verið miðstöð vísindaferða upp á Vatnajökul, einkum að Grímsvötnum.

Förum frá hótelinu Hrauneyjum í 360 metra hæð og með vegi 26 til austurs að Vatnsfellsvirkjun og síðan austur á jeppaslóð í átt til Veiðivatna. Hún liggur sunnan Vatnsfells og norðan Fellsendavatns og síðan norðan við Þóristind. Beygir síðan til suðausturs hjá afleggjara í Botnaver. Förum áfram suðaustur og austur að Veiðivötnum. Förum þar beint áfram fyrir vestan Hraunvötn og síðan vestan við Hraunfell og suðaustan við Dreka og áfram austur að Ljósufjöllum. Förum suður fyrir þau og síðan austur með fjöllunum, unz við komum að Heimabungu. Förum norður fyrir hana og austur að fjallaskálanum í Jökulheimum í 670 metra hæð.

35,9 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hrauneyjar: N64 11.852 W19 17.026.
Þóristungur: N64 12.579 W19 14.477.
Lindarkot: N64 13.010 W19 08.210.
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hamarskriki, Fljótsoddi, Breiðbakur.
Nálægar leiðir: Sigalda, Skyggnisvatn, Veiðivötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hæringsfell

Frá Felli í Fljótshlíð um Hæringsfell að Fossi við Eystri-Rangá.

Förum frá Felli norður á fjallið í 600 metra hæð. Sveigjum þá til vestnorðvesturs til Tjarnarmýrar. Þaðan í norðnorðvestur meðfram Hæringsfelli vestanverðu. Síðan beint vestur í Geitafellsgil og norður og niður brekkurnar að Þorleifsstöðum. Þaðan norður um Krók og yfir Eystri-Rangá að Fossi.

19,7 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Fell: N63 42.769 W19 42.790.
Foss : N63 49.199 W19 55.031.

Nálægir ferlar: Fljótshlíð, Krakatindur, Hungurfit, Grasleysufjöll, Knafahólar.
Nálægar leiðir: Reynifell

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hungurfit

Frá Keldum á Rangárvöllum að skálanum í Hungurfiti að Fjallabaki.

Upphaf hinnar hefðbundnu Fjallabaksleiðar syðri. Keldur hafa frá upphafi verið eitt af helztu höfuðbólum landsins. Þar er elzta íbúðarhús landsins. Fyrri hluti leiðarinnar er um nokkur eyðibýli við Eystri-Rangá, sem lögðust í eyði vegna öskufalls og harðinda í Heklugosum.

Byrjum í 130 metra hæð við brú á Eystri-Rangá við vegamót á Fjallabaksleið syðri nálægt Keldum á Rangárvöllum. Frá brúnni förum við jeppaslóðina norðan Rangár, Fjallabaksleið syðri. Nokkru austar förum við suður úr slóðinni yfir í reiðslóð nær ánni. Förum þar um eyðibýlið Árbæ að bændagistingu á Fossi við Eystri-Rangá. Síðan áfram reiðslóðina norðan ár, komum aftur inn á jeppaslóðina við suðvesturhorn Hafrafells. Fylgjum þeirri slóð áfram með norðurjaðri undirfjalla Tindfjallajökuls. Síðan um skarð milli þeirra fjalla og Kerlingarfjalla að norðan. Stutt er í afleggjara austur í Hungurfit.

30,6 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Foss : N63 49.199 W19 55.031.
Hungurfit: N63 50.530 W19 32.850.

Jeppafært
Nálægir ferlar: Knafahólar, Þríhyrningur, Krakatindur, Grasleysufjöll, Laufafell, Reiðskarð.
Nálægar leiðir: Kirkjustígur, Tröllaskógur, Hæringsfell, Geldingavellir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hraunin

Frá Hólaskógi í Þjórsárdal að Áfangagili innan Rangárbotna.

Hrauneyðimörk og brú á Þjórsá tengja saman vinsælar ferðaleiðir á afréttum Hreppamanna og Landmanna. Hér er vítt til veggja í allar áttir, Heklutindur gnæfir í suðri í 15 kílómetra fjarlægð meðan við fetum yfir sandborið hraunið. Við skiljum við nútímaskála með ýmsum þægindum og heilsum gamaldags burstabæ án flestra þæginda. Á leiðinni sjáum við tilraunir til að hefta sandfok með girðingum og sáningu. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð, nema á Þjórsárbrú og þegar við förum þvert yfir þjóðveg 26.

Förum frá Hólaskógi í 280 metra hæð beint suðaustur yfir sandinn gegnum hlið á girðingu, beygjum til austurs meðfram girðingunni og förum reiðslóð um Álftavelli að þjóðvegi 32 og brú yfir Þjórsá. Austan brúarinnar beygjum við út af veginum og förum suður um sandborið og samt seinfarið hraunið, í 270 metra hæð. Framundan sést Áfangagil undir Valafelli. Við förum yfir þjóðveg 26 og senn verður færið greiðara. Grónar grundir í Leirdal næst Valafelli létta sporið. Við förum inn gilið að notalegum burstabæ í 300 metra hæð, skálanum í Áfangagili.

11,2 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.
Áfangagil: N64 06.051 W19 34.499.

Nálægir ferlar: Ísahryggur, Gjáin-Stöng, Sauðleysur, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Valafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Holtsós

Frá Skálakoti undir Eyjafjöllum um Holtsós að Hvammi undir Eyjafjöllum.

Guðmundur Viðarsson í Skálakoti veitir margvíslega þjónustu við hestamenn. Þar er hægt að fá leiðsögn yfir Holtsós, sem er sífelldum breytingum undirorpinn.

Förum frá Skálakoti suður yfir þjóðveg 1 og áfram jeppaslóð niður að Holtsós. Förum yfir hann þar. Síðan vestur með ströndinni og til baka yfir Holtsós nálægt ósnum. Þaðan norðvestur á þjóðveg 247 og eftir honum að þjóðvegi 1 og Hvammi undir Eyjafjöllum.

14,3 km
Rangárvallasýsla

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Eyjafjöll, Miðskálaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Heklubraut

Frá Gunnarsholti á Rangárvöllum að Leirubakka í Landssveit.

Bezt er að fara leiðina til norðurs með útsýni til Heklu.

Þetta hefur í áratugi verið kjörleið hestamanna á Rangárvöllum. Heldur hefur hana sett niður í því hlutverki, síðan borin var möl í hana. Erfitt er að fara um kargaþýfða kvistmóa við hlið vegarins. Mestan hluta leiðarinnar er farið um þurra móa og síðan einnig um gresjur, þegar farið er að nálgast eyðibýlið Steinkross. Sá bær gegnir mikilvægu hlutverki í flatarmálsspeki Einars Pálssonar. Hætt er við nokkrum truflunum af bílaumferð á þessari leið, sem er ein af helztu bílarall-leiðum landsins. Í staðinn er unnt að fara Kirkjustíg frá Keldum um Hekluhraun og Steinkross.

Förum frá Gunnarsholti til norðvesturs um Akurhól eftir Heklubraut um Brekknaheiði, framhjá eyðibýlinu Steinkrossi að eyðibýlunum Koti og Kastalabrekku. Síðan norður Flatir að afleggjara til Selsunds. Við fylgjum Heklubraut áfram að gatnamótum við þjóðveg 268 suðvestan undir Bjólfelli. Fylgjum þjóðveginum norður fyrir flugvöll við Ytri-Rangá, sveigjum til vesturs af veginum norðan við völlinn og förum síðan beint í norður að Dýjafitjarvaði á Ytri-Rangá. Þaðan eftir slóð upp að þjóðvegi 26 um Landssveit rétt vestan Vatnagarða. Fylgjum þjóðveginum vestur að Leirubakka.

24,6 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þríhyrningur, Knafahólar, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Víkingslækur, Kirkjustígur, Tröllaskógur, Geldingavellir, Bjólfell, Réttarnes, Stóruvallaheiði, Skarfanes, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Háöldur

Frá hestagerði í Háumýrum á Sprengisandi að fjallaskálanum í Laugafelli.

Vestari leiðin um Sprengisand, austari leiðin liggur hjá fjallakofanum í Nýjadal.
Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti.

Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa. Í Háumýrum er hestagerði og heysala, sem styttir þessa löngu reiðleið.

Norðarlega í Háöldum villtist Kristinn Jónsson í göngum 1898, fór yfir vatnaskil og hélt suður með Þjórsá. Hann kom fimmtán dögum síðar fram í Búrfelli í Þjórsárdal og hafði verið matarlaus allan tímann. Allar tær hans kól á báðum fótum.

Háöldur eru melöldur, sem ber hæst á sandinum.

Byrjum við hestagerði í Háumýrum, í 620 metra hæð, norðan við Hreysislón. Förum til norðurs og komum við að stíflunni við Þjórsárlón. Þar liggur Arnarfellsvegur vestur að Arnarfelli og Þjórsárverum. Við förum norður með austurjaðri Þjórsárlóns. Við förum norðaustur um Háölduhraun á Sprengisand. Sunnan við Vegamótavatn förum við af leiðinni og förum beint í norður, unz við komum á jeppaleið til Laugafells. Hæst fer leiðin þar í 780 metra hæð fyrir austan Kvíslarhæð. Við höldum áfram um Háöldur og norður milli Laugafells að austan og Laugafellshnjúk að vestan og komum brátt að fjallaskálunum Hjörvarsskála og Laugafelli í 750 metra hæð.

51,7 km
Rangárvallasýsla, Eyjafjörður

Skálar:
Háumýrar: N64 40.017 W18 27.859
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Háumýrar, Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Arnarfell, Gásasandur, Miðleið, Eystripollar, Laugafell, Kiðagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Háumýrar

Frá Sprengisandsvegi um Sóleyjarhöfða og um Hreysisöldu að Sprengisandsvegi um Arnarfell.

Ef Þjórsá er farin á Sóleyjarhöfðavaði, er þetta fyrri hluti vestari leiðarinnar yfir Sprengisand. Síðari hlutinn er hér kallaður Háöldur. Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti.

Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa. Háumýrar voru fyrrum mýrar, sem hafa þornað upp. Þar er nú lélegur mosagróður, helzt meðfram Háumýrakvísl.

Förum frá Sóleyjarhöfða í 580 metra hæð suðaustur eftir jeppaslóð yfir Ferðamannaöldu og síðan austur að Kvíslavatni. Síðan norður með vatninu, framhjá afleggjara að fjallaskálanum Gásagusti. Frá norðurenda vatnsins förum við norður, framhjá afleggjara vestur að Eyvindarkofa og síðan öðrum afleggjara vestur að fjallakofanum Hreysiskvísl. Þar er sjúkraflugvöllur. Við komum síðan að hestagerði í Háumýrum. Síðan komum við að stíflunni við Þjórsárlón.

29,3 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Þúfuvötn: N64 32.263 W18 41.125.
Hreysiskvísl: N64 38.953 W18 30.115.
Háumýrar: N64 40.017 W18 27.859. Hestagerði

Jeppafært

Nálægir ferlar: Háöldur.
Nálægar leiðir: Tjarnarver, Sóleyjarhöfðavað, Blautakvísl, Arnarfellsalda, Arnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hágöngulón

Frá Sprengisandsleið suðvestan Hnausöldu um Hágöngur að Hágöngulóni.

Frægir hverir voru, þar sem lónið er núna, kallaðir Fögruhverir. Þeir voru fórnardýr græðgisvæðingar þjóðarinnar. Hágöngur eru háir, brattir og keilulaga líparíthnjúkar, ljósir á lit og áberandi í landinu.

Byrjum við þjóðveg F26 sunnan við Hnausöldu. Förum austur að suðurhlíð Mið-Háganga. Þaðan norðaustur fyrir norðan Kvíslarhnjúka að Svarthöfða í Vonarskarði. Þar liggur Bárðargata.

33,7 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Vonarskarð, Nýidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hamarskriki

Frá Auröldu við Vatnajökul að Jökulheimum.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Réttartorfuleiðin hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum og Fljótsoddaleiðin endar við Miklafell á Síðumannaafrétti. Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt.

Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Byrjum í Bárðargötu milli Vatnajökuls að austan og Auröldu að vestan, í 900 metra hæð, fimm kílómetra austur af fjallakofanum austan við Hágöngulón. Þangað liggur leið suður um Vonarskarð. Við förum þá leið, Bárðargötu, til suðurs meðfram Vatnajökli og síðan meðfram undirfjöllum jökulsins. Beygjum síðan til austurs fyrir norðan Mókolla og förum inn í Hamarskrika í 1060 metra hæð. Þaðan beygjum við suður að jöklinum og síðan suðvestur með honum un Hraungil að fjallaskálanum við Sylgjufell. Síðan áfram suðvestur að fjallsrana, Bláfjöllum, og förum suður með honum. Jökulgrindur eru austan við leiðina. Við endum við fjallaskálann Jökulheima, sem er í 670 metra hæð við Tungnaá.

45,3 km
Rangárvallasýsla

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Hágöngur: N64 34.353 W18 04.238.
Sylgjufell: N64 27.052 W18 01.854.
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Vonarskarð, Fljótsoddi, Jökulheimar, Langisjór, Breiðbakur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hagavað

Frá Fossnesi eða Haga í Gnúpverjahreppi um Hagavað að Skarðsfjalli í Landsveit og Nautavaði.

Hestamenn fara frekar Nautavað undir öruggri leiðsögn Árna Ísleifssonar í Þjórsárholti. Eingöngu má fara Hagavað undir leiðsögn staðkunnugra manna og á traustum vatnahestum. Hafa þarf samband við Búrfellsvirkjun um vatnsmagn í Þjórsá.

Hagavað er miðvaðið á þessum slóðum, mjög breitt, en sjaldan farið, enda oft ófært. Sé það fært, er botninn hins vegar bæði sléttur og traustur. Förum frá Fossnesi niður á þjóðveg 32 og beygjum með honum austur að Haga. Rétt áður en við komum að bænum er slóð af veginum niður á eyrar Þjórsár. Þar förum við í sveig, fyrst suður og síðan suðvestur yfir Hagavað á Þjórsá. Síðan höldum við áfram eftir slóð sunnan árinnar, norður fyrir Skarðsfjall og áfram suður að Vaðvelli við Nautavað, sunnan Þjórsár.

13,1 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Þjófagil, Ásólfsstaðir, Fossnes, Gaukshöfðavað, Skarðsfjall, Nautavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Grænavatn

Frá Skálavatni í Veiðivötnum um Grænavatn að Litlasjó í Veiðivötnum.

Byrjum á Snjóölduleið suðvestan Skálavatns. Förum norður jeppaveg um Hádegisöldu og síðan norðaustur að Grænavatni. Meðfram vatninu norðanverðu og áfram austur að Litlasjó.

8,9 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægar leiðir: Litlisjór, Veiðivötn, Snjóalda.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Grettir

Frá Fjallabaksleið nyrðri að Langasjó.

Ein stórfenglegasta eyðimerkurleið landsins að fegursta stöðuvatni landsins.

Byrjum á Fjallabaksleið nyrðri milli Skuggafjalla og Herðubreiðar í 620 metra hæð. Förum meðfram Skuggafjallakvísl og norðvestan við Ljónstind og Gjátind í Norðari-Ófæru og áfram vestan við Blautulón, sem eru undir fjallinu Gretti. Norðvestan við okkur er Grænifjallgarður. Við förum áfram milli hans og Hellnafjalls að suðaustan. Þar komum við að suðurendanum á Langasjó í 660 metra hæð.

23,1 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Grasleysufjöll

Frá Keldum á Rangárvöllum að Dalakofanum að Fjallabaki.

Fyrri hluti leiðarinnar er hin hefðbundna Fjallabaksleið syðri. Keldur hafa frá upphafi verið eitt af helztu höfuðbólum landsins. Þar er elzta íbúðarhús landsins. Frá Laufafelli er komið inn á leiðina yfir til Fjallabaksleiðar nyrðri. Laufafell er mikil fjalladrottning á þessari leið.

Byrjum í 130 metra hæð við brú á Eystri-Rangá við vegamót á Fjallabaksleið syðri nálægt Keldum á Rangárvöllum. Frá brúnni förum við jeppaslóðina norðan Rangár, Fjallabaksleið syðri. Nokkru austar förum við suður úr slóðinni yfir í reiðslóð nær ánni. Förum þar um eyðibýlið Árbæ að bændagistingu á Fosi við Eystri-Rangá. Síðan áfram reiðslóðina norðan ár, komum aftur inn á jeppaslóðina við suðvesturhorn Hafrafells. Fylgjum þeirri slóð áfram með norðurjaðri undirfjalla Tindfjallajökuls. Síðan um skarð milli þeirra fjalla og Kerlingafjalla að norðan. Höldum áfram jeppaveginn norðaustur milli Grasleysufjalla að norðvestanverðu og Skyggnishlíða að suðaustanverðu. Þar heita fyrst Rangárbotnar og síðast Laufahraun, þegar við nálgumst Laufafell. Förum slóð norður með fellinu vestanverðu að fjallaskálanum Dalakofanum í 770 metra hæð.

43,8 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Foss : N63 49.199 W19 55.031.
Dalakofinn: N63 57.042 W19 21.566.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þríhyrningur, Knafahólar, Krakatindur, Laufafell, Hungurfit, Reiðskarð, Reykjadalir.
Nálægar leiðir: Kirkjustígur, Tröllaskógur, Geldingavellir, Rauðufossafjöll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Goðaland

Frá Mælifelli á Mælifellssandi um Húsadal í Þórsmörk að Torfastöðum í Fljótshlíð.

Flosi Þórðarson fór frá Svínafelli að Njáli á Bergþórshvoli.

Hestamenn hafa farið þessa leið nú á tímum, en hún er þungfær. Betri fyrir göngufólk.

Í Chorographica Islandica í byrjun 18. aldar segir Árni Magnússon: Flosavegur upp úr Þórsmörk liggur milli Eyjafjallajökuls og Tindafjallajökuls. Mér er sagt, hann sé ennú við lýði, en sé vondur og erfiður. Nú á tímum er leiðin einnig farin, en þykir ströng. Í Njáls sögu segir, að Flosi og menn hans lögðu af stað frá Svínafelli að morgni sunnudags og voru komnir á Þríhyrningshálsa fyrir klukkan níu á mánudagskvöldi. Allri leiðinni er lýst undir titlinum Flosavegur. Hér er lýst líklegum kafla vestur frá Mælifellshnjúki.

Förum frá Mælifelli vestur Mælifellssand, framhjá afleggjara að Hvanngili. Vestur jeppaslóðina að Hattafelli og suður þar vestan við Stórkonufell og Litla-Mosfell að Mýrdalsjökli. Þar er farið yfir Neðri-Emstruá og síðan vestur Emstruleið að Markarfljóti og áfram suðvestur með fljótinu að Húsadal í Þórsmörk. Kaflinn frá Litla-Mosfelli að Húsadal er mjög erfiður. Einhvers staðar þar er Goðaland, sem sagt er frá í Njálu. Frá Húsadal er farið á vaði yfir Markarfljót og síðan vestur Fljótshlíð að Torfastöðum í Fljótshlíð. Norðan Torfastaða eru Þríhyrningshálsar undir Þríhyrningi, þar sem Flosi og menn hans földu sig.

39,8 km
Rangárvallasýslur

Erfitt fyrir hesta

Nálægir ferlar: Mælifellssandur, Fljótshlíð.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Strútslaug.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Njála