Rangárvallasýsla

Glaðheimar

Frá Kirkjufelli á Fjallabaksleið nyrðri um Glaðheima að Klappargili á Fjallabaksleið nyrðri.

Hliðarleið norðan aðalleiðarinnar á Fjallabaki nyrðra.

Byrjum á þjóðvegi F208 norðan við Kirkjufell á Fjallabaksleið nyrðri. Förum norðaustur utan í Stóra-Kýlingi og um fjallaskálann Höllina að Tungnaá. Beygjum síðan í austsuðaustur eftir línuvegi að Jökuldalakvísl. Síðan suðaustur um fjallaskálann í Glaðheimum norður og austur fyrir Réttarhnúk að þjóðvegi F208 vestan við Klappargil.

8,4 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Höllin: N63 59.892 W18 55.016.
Glaðheimar: N63 59.084 W18 49.978.
Glaðheimar eldri: N63 59.122 W18 50.050.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Landmannaleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Geldingavellir

Frá eyðibýlinu Koti við Heklubraut um Geldingavelli að Hafrafelli við Eystri-Rangá.

Leið um Hekluhraun, víða einstigi.

Förum frá Koti um króka vestsuðvestur um Hekluhraun. Fyrst um Pálssteinshraun og síðan um Geldingavelli. Komum norðan að Hafrafelli og förum til austurs með því að norðanverðu að vegi F210.

16,2 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Heklubraut, Hungurfit, Grasleysufjöll, Krakatindur.
Nálægar leiðir: Kirkjustígur, Tröllaskógur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Gaukshöfðavað

Frá Gaukshöfða í Gnúpverjahreppi að Skarfanesi í Landsveit.

Gaukshöfðavað er efsta vaðið á þessum slóðum og það, sem sjaldnast er farið, enda oftast ófært, þótt það sé feiknarlega breitt. Eingöngu má fara þetta vað undir leiðsögn staðkunnugra manna og á traustum vatnahestum. Hafa þarf samband við Búrfellsvirkjun um vatnsmagn í Þjórsá.

Sagan segir, að bræður tveir, sem áttu bara einn hest, hafi lengi notað Gaukshöfðavað þannig, að annar teymdi og hinn sat hestinn. Hét sá Bergsteinn, sem jafnan óð.

Förum frá Gaukshöfða einn kílómetra suðvestur með þjóðveginum, þar sem hann liggur yfir á. Þaðan er farið austur á grundirnar með ánni og áfram beint í austur á Gaukshöfðavaði yfir Þjórsá, heldur á móti straumi. Frá landi austan vaðs er stutt leið suðaustur að eyðibýlinu í Skarfanesi.

8,0 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Hagavað, Skarðsfjall, Skarfanes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Flosavegur

Flosi Þórðarson fór frá Svínafelli í Öræfum að Njáli á Bergþórshvoli í Landeyjum.

Hér er lýst leiðinni frá Svínafelli að Torfastöðum í Fljótshlíð.

Í Chorographica Islandica í byrjun 18. aldar segir Árni Magnússon: “Flosavegur upp úr Þórmörk liggur milli Eyjafjallajökuls og Tindafjallajökuls. Mér er sagt, hann sé ennú við lýði, en sé vondur og erfiður.” Nú á tímum er leiðin einnig farin, en þykir ströng. Í Njáls sögu segir, að Flosi og menn hans lögðu af stað frá Svínafelli að morgni sunnudags og voru komnir á Þríhyrningshálsa fyrir klukkan níu á mánudagskvöldi. Fyrst riðu þeir Skeiðarársand og Núpsvötn hjá Lómagnúpi. Svo að Kirkjubæjarklaustri. Þar fóru þeir til kirkju. Síðan riðu þeir á fjall til Fiskivatna og þaðan vestur yfir Mælifellssand. Svo niður í Goðaland og yfir Markarfljót á vaði. Hver þeirra var með tvo til reiðar. Þeir voru einn og hálfan sólarhring að fara 163 kílómetra leið.

Byrjum á Svínafelli og förum vestur yfir Skeiðará, Gígjukvísl og Núpsvötn að Lómagnúpi. Síðan vestur Fljótshverfi, yfir Hverfisfljót og vestur Síðu að Kirkjubæjarklaustri. Þaðan vestur með fjallinu að Hunkubökkum og Holti, síðan upp Holtsdal og vestur að Skaftárdal. Þar yfir Skaftá og vestur um Skaftártungur. Yfir Hólmsá og upp með henni að Brytalækjum. Þaðan suður fyrir Mælifell og síðan vestur Mælifellssand, framhjá afleggjara að Hvanngili. Vestur jeppaslóðina að Hattafelli og suður þar vestan við Stórkonufell og Litla-Mosfell að Mýrdalsjökli. Þar er farið yfir Neðri-Emstruá og síðan vestur Emstruleið að Markarfljóti og áfram suðvestur með fljótinu að Húsadal í Þórsmörk. Kaflinn frá Litla-Mosfelli í Húsadal er mjög erfiður. Einhvers staðar þar er Goðaland, sem sagt er frá í Njálu. Frá Húsadal er farið á vaði yfir Markarfljót og síðan vestur Fljótshlíð að Torfastöðum í Fljótshlíð. Norðan Torfastaða eru Þríhyrningshálsar undir Þríhyrningi, þar sem Flosi og menn hans hvíldu sig.

156 km
Skaftafellssýslur, Rangárvallasýs la

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Miklafell, Hólaskjól, Öldufell, Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Skaftafell, Núpsstaðaskógur, Brunasandur, Holtsdalur, Hólmsá, Goðaland, Fljótshlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Njála

Fljótshlíð

Frá leitarmannakofanum Bólstað undir Einhyrningi að félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð.

Leiðin er skemmtilegri til austurs, því að þá er jöklasýn betri og greiðara að sjá yfir Markarfljót til Þórsmerkur.

Fljótshlíð er ein frægasta sveit landsins. Jónas Hallgrímsson orti “Fögur er hlíðin” og Þorsteinn Erlingsson orti “Fyrr var oft í Koti kátt”. Á Einhyrningsflötum undir Einhyrningi stóð bær Sighvats hins rauða. Þar hét Bólstaður. Förum um búsældarlegar hlíðar neðst í undirfjöllum Tindfjalla. Breiðabólstaður og Hlíðarendi eru sögufrægar jarðir í sveitinni. Markarfljót rennur á breiðum og sléttum aurum og handan þess rís voldugur Eyjafjallajökull. Fljótshlíðin er einn eftirsóttasti sumardvalarstaðurinn, þar hafa verið reist einhver glæsilegustu sumarhús landsins.

Förum frá Bólstað í 300 metra hæð niður í byggð. Að mestu fylgjum við jeppaslóð út Fljótshlíð. Förum fyrst eftir Tröllagjá suðvestur Emstruleið. Beygjum suður og vestur fyrir Fauskheiði og æjum á Hellisvöllum. Síðan norðvestur aurana og upp í brekkurnar í Streitum undir Þórólfsfelli. Vestan við fellið förum við hjá farfuglaheimilinu í Fljótsdal. Áfram eftir þjóðvegi 261 með fjöllunum framhjá Múlakoti og Hlíðarendakoti. Við Neðri-Þverá förum við suður frá þjóðvegi og síðan vestur moldargötur samhliða þjóðveginum, loks aftur upp á þjóðveginn við Smáratún. Þar förum við vestur með þjóðveginum að rétt vestan við félagsheimilið Goðaland.

33,8 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Bólstaður: N63 43.831 W19 28.697.
Fell: N63 42.769 W19 42.790.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þríhyrningur, Reiðskarð, Krókur, Mosar.
Nálægar leiðir: Hæringsfell, Goðaland, Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Fjallabak nyrðra

Samheiti yfir margar leiðir að Fjallabaki nyrðra og syðra.

Vinsæl reiðleið hestaferðahópa, enda er landslag stórfenglegt alla leiðina úr Rangárbotnum austur í Skaftártungu. Galli hennar er, að fara þarf að mestu eftir fjölförnum jeppavegi.

Meginslóðir á Fjallabaki nyrðra eru, talið frá vestri: Rangárbotnar, Sauðleysur, Landmannaleið. Meginslóðir á Fjallabaki syðra eru, talið frá vestri: Hungurfit, Laufafell, Mælifellssandur. Milli nyrðri og syðri leiðarinnar eru slóðirnar Rauðkembingar, Krakatindur og Reykjadalir. Skoðið hverja slóð fyrir sig. Sjá þar texta um einstakar leiðir að Fjallabaki.

97,0 km
Rangárvallasýsla
Skaftafellssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Rangárbotnar, Sauðleysur, Landmannaleið, Heklubraut, Hraunin, Rauðkembingar, Krakatindur, Reykjadalir, Dyngjur, Breiðbakur, Skælingar, Mælifellssandur, Hólaskjól.
Nálægar leiðir: Stóruvallaheiði, Skarfanes, Réttarnes, Valafell, Glaðheimar, Faxasund, Gjátindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Fíflholt

Frá Búlandi í Landeyjum um Fíflholt til Berjaness.

Byrjum á mótum þjóðvega 252 og 253 við Búland í Landeyjum. Förum jeppaslóð vestnorðvestur að Kana. Þaðan vestsuðvestur um Kanastaði að þjóðvegi 252 við Sléttuból. Förum með þjóðveginum, þangað sem hann beygir til vesturs. Þar förum við suðvestur til sjávar og förum með fjörunni norðvestur að Skipagerðisós. Þar förum við norðvestur og fyrir vesturenda óssins að þjóðvegi 252. Förum norður með þjóðveginum að mótum þjóðvega 252 og 253. Förum þar inn á 253 og förum hann vestnorðvestur að Fíflholtshverfisvegi. Förum austur þann veg um Fíflholt. Við Fíflholt eystra beygjum við til suðausturs að Kanastaðaslóð. Förum þá slóð vestnorðvestur um Kanastaði og síðan norður um Affall að þjóðvegi 1 vestan Berjaness.

34,6 km
Rangárvallasýsla

Nálægar leiðir: Oddeyrar, Holtsós.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Faxasund

Frá Fjallabaksleið um Faxasund að Langasjó og Jökulheimaleið.

Byrjum á Fjallabaksleið nyrðri milli Skuggafjalla að sunnanverðu og Grænafjalls að norðanverðu. Förum austnorðaustur um Faxasund og fjallaskálann Örk að vegamótum við Langasjó.

25,9 km
Rangárvallasýsla

Skálar: Örk: N64 06.177 W18 36.032.
Botnlangi: N64 06.192 W18 38.817.
Langisjór: N64 07.151 W18 25.698.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Landmannaleið, Breiðbakur, Langisjór.
Nálægar leiðir: Sveinstindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Eyjavað

Frá Þrándarholti yfir Þjórsá.

Eyjavað er nú óreitt og aflagt. Reynið ekki að fara það.

Gissur Þorvaldsson jarl reið það 1264 með flokk sinn og fangna Oddaverja daginn áður en hann lét taka Þórð Andrésson af lífi.

3,2 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Þjórsá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga

Eyjafjöll

Frá Brekkum í Mýrdal um Holtsós að Skálakoti undir Eyjafjöllum.

Fáið í Skálakoti leiðsögn yfir Holtsós, sem er sífelldum breytingum undirorpinn. Skógafoss er 60 metra hár og 25 metra breiður, einn fegursti foss landsins. Hann var friðlýstur árið 1987 sem náttúruvætti. Sagnir segja, að landnámsmaðurinn Þrasi Þórólfsson hafi kastað gullkistu í helli bak við fossinn. Í Skálakoti er margvísleg þjónusta við hestamenn. Þar er hægt að fá leiðsögn yfir Holtsós.

Förum frá Brekkum norður skarðið milli Kamba að austan og Búrfells að vestan. Förum vestnorðvestur fyrir norðan Litlahöfða að Álftagróf. Síðan vestur að Bæjarhaus og sunnan við Fell suðaustur um Klifandi að þjóðvegi 1 austan við Pétursey. Með þjóðveginum vestur að Skógum og Drangshlíðarfjalli og áfram vestur að þjóðvegi 243 suður með Bakkakotsá. Förum suður og síðan vestur þann veg að Berjanesi. Þar förum við til vesturs fyrir sunnan Holtsós og síðan norður yfir hann, þar sem hann mjókkar. Síðan norður með Holtsá að þjóðvegi 1 og yfir hann að Skálakoti í Eyjafjöllum.

44,0 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Holtsós, Arnarstakksheiði, Heiðarvatn, Heiðardalsvegur, Miðskálaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Dyngjur

Frá Frostastaðavatni meðfram Dyngjum til Valagjár.

Leiðin er að mestu í sandi undir hlíðum stórbrotinna fjalla. Bakhliðin á Löðmundi einkennir landslagið. Valagjá er risavaxin gossprunga norðaustur-suðvestur, sem skerst inn í Valahnúk. Þarna eru úfið hraun og skarpir litir. Engin veiði er í Frostastaðavatni, en þjóðsagan segir, að þar hafi verið byggð og mannfólkið dáið af öfuguggaáti.

Byrjum við þjóðveg F208 við norðvesturenda Frostastaðavatns. Förum með þjóðvegi F208 til norðurs. Þegar við komum norður fyrir Löðmundar-fjallgarðinn förum við vestur með fjallgarðinum, sem þarna heitir Dyngjur. Förum sunnan við Litla-Melfell og síðan áfram til vesturs að Valagjá suðvestan Valafells.

29,5 km
Rangárvallsýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Landmannaleið, Fjallabak nyrðra, Sauðleysur.
Nálægar leiðir: Valafell, Sigalda, Bjallavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Breiðbakur

Frá Fjallabaksleið nyrðri um Langasjó og Breiðbak í Jökulheima.

Ein stórfenglegasta eyðimerkurleið landsins framhjá fegursta stöðuvatni landsins og með einu víðfeðmasta útsýni landsins af tindi Breiðbaks.

Byrjum á Fjallabaksleið nyrðri milli Skuggafjalla og Herðubreiðar í 620 metra hæð. Förum meðfram Skuggafjallakvísl og norðvestan við Ljónstind og Gjátind í Norðari-Ófæru og áfram vestan við Blautulón, sem eru undir fjallinu Gretti. Norðvestan við okkur er Grænifjallgarður. Við förum áfram milli hans og Hellnafjalls að suðaustan. Þar komum við að suðurendanum á Langasjó í 660 metra hæð. Við beygjum yfir skarðið til norðurs vestan við Hrútabjörg og förum þar eftir dalverpi til norðausturs. Í dalbotninum sækir slóðin á brattann upp að tindi Breiðbaks í 1020 metra hæð. Áfram förum við norðaustur og niður af fjallinu, þar sem við mætum aftur slóðinni sem liggur í fjörunni. Frá vegamótum liggur slóðin meira til norðurs niður úr fjöllunum í Botnaver. Þar rennur Tungnaá á kvíslum og heita þar fyrst Launfit og Fit. Handan árinnar komum við að fjallaskálanum í Jökulheimum í 670 metra hæð.

32,1 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Langisjór: N64 07.151 W18 25.698.
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Landmannaleið, Fjallabak nyrðra, Skælingar, Langisjór, Fljótsoddi, Hamarskriki, Jökulheimar.
Nálægar leiðir: Faxasund, Sveinstindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Botnaver

Frá Veiðivatnavegi að Botnaveri við Þórisvatn.

Á nat.is segir svo um Þórisvatn: “Þórisvatn var næststærsta náttúrulega stöðuvatn landsins þar til það varð að miðlunarlóni fyrir virkjanir á Tungnár- og Þjórsársvæðinu. Flatarmál þess var u.þ.b. 70 km² en nú er það breytilegt eftir vatnsbúskapnum á söfnunarsvæði þess og getur orðið allt að 86 km². Vatnshæðin er á milli 561 og 578 m yfir sjó. Umhverfi vatnsins er gróðurvana auðn eftir að einu gróðurblettirnir fóru undir vatn. Vatnið er mjólkurlitað vegna jökulvatnsins, sem hefur verið leitt í það. Þórisós var afrennsli þess þar til hann var stíflaður og vatnið leitt í skurði til Krókslóns fyrir ofan Sigölduvirkjun. Sprengisandsvegur liggur rétt hjá vatninu, þannig að aðgangur að því er auðveldur. Þórisvatn var þekkt fyrir stóran urriða en aflabrögð urðu dræmari eftir allar þessar breytingar.”

Byrjum á Veiðivatnavegi F229 norðaustan við Þóristind. Þar sem sá vegur sveigir til suðausturs, er hliðarleið norðaustur að Móöldu við Þórisvatn og síðan með vatninu að fjallakofa í Botnaveri við austurenda Austurflóa í Þórisvatn.

12,8 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Botnaver: N64 16.279 W18 41.685.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Jökulheimar.
Nálægar leiðir: Skyggnisvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Bjólfell

Frá Næfurholti um Bjólfell að Slýlæk við Heklubraut.

Talið við fólkið í Næfurholti, þar er farið um hlaðið. Falleg leið að fjallsbaki.

Förum frá Næfurholti norðaustur og upp brekkurnar og síðan suður um skarðið milli Bjólfells að suðvestanverðu og Hádegisfjalls að norðaustanverðu. Síðan suður um Selvatn og austan við Kinn og þaðan suðvestur um Breiðabug að Haukadalsöldu. Förum suðvestur frá henni um Hryggi og Selsundstjörn að Slýlæk og á Heklubraut.

7,7 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Heklubraut.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Bjallavað

Bjallavað er eina reiðfæra vaðið á Tungná.

Vaðið er ekki lengur riðið, því að menn fara á brú yfir ána mun neðar. Byrjum þar sem fjallabaksleiðin frá Sigöldu liggur að Tungnaá rétt norðan við vegamót Dyngjuleiðar vestur í Valagjá. Við ána er bátaskýli, þar sem áður var ferjustaður.

“Séu menn ríðandi og áin ekki í vexti, kjósa flestir að fara hana á vaði, sem er 100-200 metra neðan við ferjustaðinn. Þetta er eina vaðið, sem nú er vitað um á allri Tungnaá, kallað Bjallavað, og hefur eigi breytzt að ráði í manna minnum. Er þá farið út í við litla vörðu, sem er á árbakkanum sunnan megin, og þess gætt, að ekki beri undan straumi. Þegar komið er yfir ca. 1/3 árinnar, er farið skáhallt móti straum og stefnt ofanvert við vörðu eða réttarbrot á norðurbakkanum. Þegar komið er yfir ána, er farið yfir Bjalla og niður allbratt klif að austan og er þá komið niður á öldóttan gróðurlausan sand, er heitir einu nafni Vatnaöldur, og haldið í austur-landnorður. Slóð fyrri vegarenda sést eigi … Aftur má í sæmilegu veðri hafa stuðning af allháum ölduhrygg, er kemur bráðlega í ljós á vinstri hönd og gnæfir Þóristindur þar yfir. Brátt kemur og annar ölduhryggur, hærri og lengri, á vinstri hönd. Leiðin liggur milli þessara ölduhryggja, þó svo að smám saman nálgast þann, sem er til hægri. (Steinþór Sigurðsson jarðfræðingur, Árbók FÍ 1940, bls.11). Þar er komið á jeppaslóðina að Skyggnisvatni.

9,2 km
Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Bjallar vestur: N64 06.576 W19 06.284. Ónýtur.
Bjallar austur: N64 06.583 W19 05.954. Ónýtur

Nálægir ferlar: Dyngjur.
Nálægar leiðir: Sigalda, Skyggnisvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins