Rangárvallasýsla

Bárðargata

Frá Lundarbrekku í Bárðardal um Vonarskarð að Núpum í Fljótshverfi.

Leiðin er 250 km löng og liggur hæst í 1000 metrum. Nær yfir fimm stórár, Skjálfandafljót, Köldukvísl, Tungnaá, Skaftá og Hverfisfljót. Björn Gunnlaugsson fór um Vonarskarð 1839 og sýnir leiðina á korti sínu 1849. Hann fór ekki yfir Hverfisfljót. Hér er bara sá suðurendi táknaður með heitinu Bárðargata. Sjá nánar leiðirnar Réttartorfa, Öxnadalsdrög, Vonarskarð, Hamarskriki, Fljótsoddi.

Bárður Bjarnason nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Varð þess var, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni til að athuga þetta betur. Þeir fundu ýmsan gróður á leiðinni á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor að loknum undirbúningi lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi og byggði bæ að Gnúpum. Hét hann síðan Gnúpa-Bárður. Nú heitir jörðin Núpar.

Förum frá Lundarbrekku suður veg að Víðikerum og síðan heimreið suður að Stóru-Tungu. Svo suður slóð meðfram Skjálfandafljóti um fjallaskálann Réttartorfu og Hafursstaði. Upp á fjallið Víðskyggni, alltaf í suðurátt, þvert yfir Ódáðahraunsleið og áfram til suðurs vestan við Trölladyngju. Síðan þvert yfir Gæsavatnaleið við Fossgljúfur og áfram til suðurs milli Dvergöldu að austan og Langháls að vestan. Þar sveigir slóðin til suðvesturs austan undir Stakfelli og Rauðukúlu í Snapadal. Þaðan til suðurs yfir Köldukvísl og í sjálft Vonarskarð milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls. Þaðan fylgjum við vesturbrún Vatnajökuls um Mókolla í fjallaskálann Sylgjufell. Þaðan áfram slóðina suður í fjallaskálann Jökulheima. Síðan suður um Botnaver að norðausturenda Fögrufjalla við Langasjó. Sunnan fjallanna förum við yfir kvíslar Skaftár um Fljótsodda að upptökum Hverfisfljóts undir jökli. Að fornu var Hverfisfljót minna vatnsfall og hét þá Raftalækur. Förum síðan fyrir norðurenda Rauðhóla og síðan beint suður í Núpahraun á gangnamannaslóð, sem liggur suðaustur Núpaheiðina að Núpum í Fljótshverfi.

27,7 km
Skaftafellssýslur

Ekki fyrir hesta

Nálægir ferlar: Fljótsoddi, Hamarskriki, Vonarskarð, Öxnadalsdrög, Réttartorfa. Nálægar leiðir: Flosavegur, Núpahraun.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Íslendingabók

Arnarfell

Frá Setrinu um Arnarfell í Háumýrar.

Tvær gæsaréttir eru á leiðinni. Önnur á toppi Nautöldu og hin á reiðleiðinni yfir Illaver, mitt á milli Nauthaga og Fremri-Múlakvíslar. Stendur hún á jökulöldu, Réttaröldu.

Draumaleið um gæsalandið mikla í Þjórsárverum inn í dularheim Arnarfells undir suðaustanverðum Hofsjökli. Sunnan við leiðina breiða Þjórsárver úr sér með blautum flóum og tjörnum og gæsaréttum á víð og dreif. Þetta land er á Ramsar-skrá, samningi um alþjóðlega mikilvægt votlendi, aðallega búsvæði fugla. Þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum verpir hér. Bratt Arnarfell hið mikla rís í dauðaþögn með hömrum og gróðurbrekkum milli tveggja skriðjökla úr Hofsjökli. Á þessum slóðum höfðust við útilegumenn 1848. Þar heitir Arnarfellsbrekka og hafa þar fundizt 100 tegundir plantna. Dalbotninn er í 620 metra hæð og samfelldur gróður nær upp í 1000 metra hæð. Þetta var hluti hinnar fornu Sprengisandsleiðar, þegar vaðið á Þjórsá við Sóleyjarhöfða var ekki árennilegt. Stórfenglegt útsýni er af Arnarfelli. Í Arnarfellsmúlum fannst eitt af hreysum Fjalla-Eyvindar, en jökullinn hefur eytt merkjum eða eftirleitarmenn Fjalla-Eyvindar hafa eytt hreysinu.

Förum frá fjallaskálanum Setrinu í 700 metra hæð þráðbeint austur aura Blautukvíslar í átt að suðurenda Nautöldu. Í öldunni austanverðri er skálinn Nautalda í 600 metra hæð. Þaðan förum við austur um Nauthaga, þar sem eru volgar lindir, og síðan um Illaver. Er við komum að Arnarfellsmúlum, gömlum jökulöldum meðfram Hofsjökli, förum við reiðslóð undir múlunum um hvannamó og burnirót. Leið okkar liggur í sveig til austurs og síðan norðurs. Þegar við komum nær Arnarfelli, förum við gætilega yfir Arnarfellskvísl til að komast inn í dalverpið milli Kerfjalls og Arnarfells, í 620 metra hæð. Hér er enginn skáli og við förum eftir jeppaslóð um Kvíslaveg austur yfir Þjórsárkvíslar og loks á stíflu yfir Þjórsá við Háumýri, nálægt Innra-Hreysi Fjalla-Eyvindar og Höllu. Þar er hestagerði og heysala. Við erum komin á fjallveg um Sprengisand.

34,8 km 
Árnessýsla

Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Setrið: N64 36.903 W19 01.165.
Nautalda: N64 37.695 W18 48.881. 610 metrar. 6 rúm. Lélegur.
Háumýrar: N64 40.017 W18 27.859 bara hestahólf

Nálægir ferlar: Fjórðungssandur, Háumýrar.
Nálægar leiðir: Klakkur, Hnífárver, Blautakvísl, Arnarfellsalda, Gásasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson