Reykjanes

Gjárétt

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá rétt sunnan við Elliðavatn um Hjalla og Gjárétt til Sörlastaða í Hafnarfirði.

Vinsæl leið hestamanna á Reykjavíkursvæðinu. Hringurinn um Flóttamannaveg, Gjáréttarveg og vestan við Elliðavatn er 25 kílómetrar.

Förum frá rétt við Heiðmerkurgirðingu sunnan Elliðavatns. Förum skáhallt upp og suðvestur hlíðina á Hjallaveg í Heiðmörk. Áfram Hjallaveg suðvestur í Gjárétt. Þaðan vestsuðvestur á Kaldárselsveg. Norður af þeim vegi á slóð undir Sléttuhlíð norðnorðvestur að Sörlastöðum.

10,9 km
Reykjavík-Reykjanes

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Gíslagata

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Gíslholti í Kjós upp á Reiðhjallaveg á Reynivallahálsi.

Farið er um Dauðsmannsbrekkur, þar sem Magnús á Fossá sat fyrir ferðamönnum á 18. öld. Förum frá Gíslholti á landamerkjum Vindáss og Reynivalla norðaustur og upp með Gíslalæk að norðanverðu. Þar er greinileg gata, sem heitir Gíslagata. Þegar upp er komið, sveigjum við í austur og förum austur um Dauðsmannsbrekkur á Reiðhjallaveg, sem liggur frá Múla í Kjós að Fossá í Brynjudal.

2,2 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Maríuhöfn, Reiðhjalli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Geldingatjörn

Frá Bringum í Mosfellssveit upp á Kóngsveginn til Þingvalla.

Var áður þjóðleið milli Mosfellssveitar og Þingvalla.

Byrjum við þjóðveg 36 neðan við Seljabrekku. Förum eftir jeppaslóð suðaustur að eyðibýlinu Bringum. Þaðan austnorðaustur fyrir norðan Geldingatjörn og síðan fyrir sunnan Leirvogsvatn. Austur um Illaklif og áfram austur að Þrívörðu. Þar mætum við Kóngsveginum, sem liggur áfram til Þingvalla.

10,3 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægar leiðir: Kóngsvegur, Illaklif, Mosfellsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Flóttamannavegur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Kjóavöllum í Kópavogi um Flóttamannaveg til Sörlastaða í Hafnarfirði.

Vinsæl leið hestamanna á Reykjavíkursvæðinu. Hringurinn um Flóttamannaveg, Gjáréttarveg og vestan við Elliðavatn er 25 kílómetrar.

Förum vestur frá Kjóavöllum, fyrst sunnan Vatnsendavegar og síðan norðan hans. Förum með veginum fyrir norðan Vífilsstaðavatn og áfram reiðslóð meðfram Flóttamannavegi og síðan suður með Kaldárselsvegi til Sörlastaða í Hafnarfirði.

9,4 km
Reykjavík-Reykjanes

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Elliðavatn

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Fákshverfinu hringleið um Elliðavatn.

Talið er, að Kjalarnesþing hafi verið háð í Þingnesi, sem er nú orðin eyja í Elliðavatni. Þetta var löngum ein þekktasta jörð Reykjavíkur og höfðingjasetur um skeið. Þar ólst upp Einar Benediktsson skáld. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfi breyttist mjög, þegar vatnið var stíflað vegna Elliðaárvirkjunar. Þar sem vatnið er núna, voru áður hinar frægu Elliðavatnsengjar. Reiðleiðin umhverfis vatnið er að hluta um byggð í Kópavogi.

Förum frá Faxabóli suðaustur undir brú á Breiðholtsbraut og síðan suður yfir Bugðu og austur að bílvegi til Heiðmerkur. Fylgjum þeim vegi yfir brú á Elliðavatni. Förum síðan eftir reiðvegi meðfram vatninu austanverðu og sunnanverðu að sumarhúsahverfi í Fífuhvammi. Förum eftir reiðvegamerkingum um Vatnsendahverfið að norðvesturhorni Elliðavatns. Þar förum við undir Breiðholtsbrautarbrúna yfir Elliðaár og fylgjum reiðslóð að hesthúsahverfi Fáks í Faxabóli.

9,6 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Kóngsvegur, Dyravegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Elliðaárdalur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Efra-Fáki í Faxabóli um Elliðaár að Neðra-Fáki í Blesugróf.

Þetta er ný reiðleið, að mestu sunnan árinnar. Ágætis reiðvegur í hlýlegu umhverfi. Göngubraut er samhliða reiðslóðinni. Mikilvægt er, að þessi reiðleið verði varðveitt, því að ekki er reiðfært annars staðar í borginni.

Þjóðleiðin úr bænum lá áður norðan árinnar. Hún lá niður Bústaðaveginn að suðurenda hesthúsanna á horni Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Þaðan var farið yfir syðri kvísl árinnar á Ártúnsvaði við Búrfoss rétt sunnan undirganganna. Áfram var haldið í beina stefnu um árhólmana og yfir nyrðri kvíslina vestan við rafstöðina undir brekkurótum Ártúns, síðan um Reiðskarð upp í Árbæ. Örn H. Bjarnason kallar þetta Via Appia Reykjavíkur. Þyrfti að gera leiðinni betri sóma, endurgera hana fyrir reiðmenn og gangandi fólk. Nú er komið veitingahús í Árbæ, en áður var slík aðstaða í Ártúni. Við Árbæ greindust síðan leiðir suður og vestur á land. Nú greinast þær reiðleiðir við Rauðavatn. Flúðirnar ofan við brúna á Vatnsveituvegi eru hressandi ásýndum. Neðan við Höfðabakkabrú tekur við skógurinn handan árinnar og í árhólmunum. Elliðaár og dalurinn heita eftir Elliða, skipi Ketilbjörns gamla landnámsmanns. Í gamla daga lá leiðin áfram vestur Bústaðaveg.

Förum frá Faxabóli greinilega merkta slóð eftir aflögðum bílvegi niður með Elliðaám, svonefndum Vatnsveituvegi. Fyrst norðaustan árinnar, síðan yfir brú og áfram suðvestan árinnar. Förum um undirgöng undir Höfðabakka og síðan niður brekkur í Blesugróf og áfram norður með Reykjanesbraut að undirgöngum við hesthús Neðra-Fáks. Förum um undirgöngin og upp í gerði við hesthúsin.

3,9 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægir ferlar: Reykjavík, Rauðhólahringur, Rauðavatnshringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Elliðavatn, Kóngsvegur, Mosfellssveit, Dyravegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Einiberjahóll

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Júnkaragerði á Reykjanesskaga um Einiberjahól til Grindavíkur.

Í Júnkaragerði bjó Galdra-Jón, sem var mikill aflamaður til lands og sjávar.

Förum frá Júnkaragerði sunnan Hafna, þar sem við beygjum suðaustur á heiðina yfir Presthól, sunnan við Haug og um Einiberjahól. Niður á veg í Arfdalavík. Þaðan er stutt að fara með vegi austur til Grindavíkur.

13,9 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Skjótastaðir, Sýrfell, Stapafell, Skipsstígur, Skógfell, Sandakravegur, Vatnsleysuheiði.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Dyravegur

Gamla leiðin milli Reykjavíkur og Nesjavalla. Frá Elliðakoti.

Leiðin hefur verið malbikuð í Dyrfjöllum. Hestamenn hafa því fært sig norðar og fara nú yfirleitt um Jórukleif á leið sinni til Nesjavalla. Krókurinn er betri en malbikið.

Þessi leið milli móbergshnjúka Dyrfjalla er í senn fögur og sagnfræðilega mikilvæg, með meiriháttar þjóðvegum landsins á fyrri öldum, þegar ferja var á Sogi við Dráttarhlíð. Förum frá Elliðakoti eftir slóð til austurs um Stangarhól og sunnan við Lyklafell. Áfram förum við austur um Vallöldu og Norðurvelli að Hengli. Þar sveigir slóðin til norðurs með fjöllunum, fyrst um Engidal og síðan um Þjófahlaup. Einnig er hægt að taka krók um Marardal nær fjallinu. Þegar við nálgumst Nesjavallaleið förum við upp brekkur og á bílveginn um Dyrfjöll. Fylgjum honum það, sem eftir er leiðarinnar. Fyrst sunnan við Sköflung, síðan um Dyr og í miklum sveigjum og dýfum út úr fjallgarðinum ofan við Nesjavelli í Grafningi, þar sem er gisting og hestahagi.

5,1 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægir ferlar: Jórukleif, Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur.

Nálægar leiðir: Kóngsvegur, Mosfellssveit, Elliðavatn, Þrengsli, Ólafsskarð, Dráttarhlíð, Hagavík, Ölfusvatnsá, Marardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Dauðsmannsbrekkur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Brynjudal í Hvalfirði um Seljadal að Vindáshlíð í Kjós.

Þetta er eðlilegt framhald leiðarinnar úr Reykjavík um Svínaskarð. Er þess vegna mest farna leiðin yfir Reynivallaháls. Hinar eru Seljadalur, Reiðhjalli, Gíslagata og Reynivallaháls, öðru nafni Kirkjustígur.

Förum frá Fossá suður og upp Klif, þar sem er þverleið vestur Reynivallaháls til Reynivalla. Förum beint áfram suðsuðvestur og upp Djúpadal, þar sem eru leiðir um Gíslagötu og Reiðhjalla. Síðan förum við suður og meðfram austurhlið Sandfells og þaðan suður brekkur að Vindáshlíð.

8,8 km
Reykjavík-Reykjanes, Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH