Skagafjörður

Gimbrafell

Frá Ingólfsskála norðan Hofsjökuls til Eystripolla og leiða niður í Skagafjörð og Eyjafjörð.

Förum frá Ingólfsskála í 840 metra hæð norður frá skálanum og síðan til austur fyrir norðan Ásbjarnarvötn, norðan við Rauðhóla og sunnan við Gimbrafell. Síðan að krossgötum í Skagafjörð og Laugafell. Um Hraunlæk og yfir Austari-Jökulsá á Eyfirðingavaði, að krossgötum Eystri-Pollaleiðar úr Eyjafirði í Laugafell.

27,6 km
Skagafjörður

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Giljamúli

Frá Giljum í Vesturdal í Skagafirði um Giljamúla að Stafnsvatnarústum.

Hliðarleið á leiðinni suður í Orravatnsrústir.

Byrjum við þjóðveg F752 við Giljar í Vesturdal í Skagafirði. Förum suðsuðaustur upp Giljamúla milli Vesturdals og Giljadals. Förum suðaustur heiðina í Giljamýrar. Þaðan suður við Stafnsvatnarústir á Orravatnsrústaleið, sem heldur áfram suður heiðina.

15,1 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Stafnsvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Gilhagadalur

Frá Bugaskála við Aðalmannsvatn á Eyvindarstaðaheiði að Gilhaga í Skagafirði.

Eiríkur landnámsmaður í Goðdölum sendi Rönguð þræl á fjall í landaleit. Rönguður fór Gilhagadal og síðan um Blönduvöð á Kjöl. Hann fór suður Kjöl og fann í leirflagi fótspor að sunnan. Þar hlóð hann Rangaðarvörðu, sem fyrir löngu er týnd.

Dalurinn er oft talinn austasti hluti Skagfirðingavegar, sem lá um heiðar Húnavatnssýslu til Borgarfjarðar. Mælifellsdalur, sem er aðeins norðar, er hins vegar oft talinn austasti hluti Kjalvegar. Vegirnir mættust á þeim slóðum, þar sem nú er fjallaskáli við Galtará.

Förum frá Bugaskála til austurs fyrir sunnan vatnið, norðaustur yfir Háheiði og austur fyrir Vatnsfell. Síðan norður og niður í Vatnsfellsflóa í Gilhagadal, um hlíðina austan flóans og fram dalinn til norðurs, yfir Gljúfurá í gili og norðaustur og niður að Gilhaga í Skagafirði við veg 752.

23,2 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Bugaskáli: N65 13.183 W19 25.981.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mælifellsdalur, Eyvindarstaðaheiði.
Nálægar leiðir: Hraungarður, Fossakvísl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Geirhildarstígur

Frá Goðdölum í Skagafirði vestan Goðdaladals um Fremribug að Eyvindarstaðaheiðarleið.

Förum frá Goðdölum inn Vesturdal að Dalkoti fyrir sunnan Hlíðarstaðarétt. Beygjum þar til hægri upp hlíðarnar vestan við Goðdaladal. Höldum okkur vestan við gljúfur Vestari-Jökulsár um Fremribug að fjallaskálanum Hraunlæk í Fremribug. Rétt vestan skálans komum við á jeppaveginn suður Eyvindarstaðaheiði.

16,7 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Skálar:
Hraunlækur: N65 11.573 W19 02.973.

Nálægir ferlar: Eyvindarstaðaheiði.
Nálægar leiðir: Stafnsvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Fossakvísl

Frá Bugaskála við Aðalmannsvatn á Eyvindarstaðaheiði suður á Eyfirðingaveg norðvestan við Sátu við Hofsjökul.

Jeppafær slóð um eyðilegt land, hraun og sanda og urðarhryggi, síðari hlutinn í yfir 700 metra hæð.

Förum frá Bugaskála í 570 metra hæð til suðurs austan Hanzkafella, suður um Brunabrekkur og vestan við Bugahæð að Ytra-Skiptafelli austanverðu. Fjórum kílómetrum sunnan fellsins skiptist leiðin. Hraungarðsleið liggur áfram beint suður, en við beygjum eftir slóð til austurs. Eftir fimm kílómetra sveigir sú leið til suðurs. Við förum austan við Bláfell og komum á Eyfirðingaveg í 800 metra hæð norðaustan við Sátu norðvestan Hofsjökuls.

37,6 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Bugaskáli: N65 13.183 W19 25.981.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Gilhagadalur, Hraungarður, Ingólfsskáli, Skiptamelur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Fiskihryggur

Frá Lambanesi í Fljótum í Skagafirði um Fiskihrygg til Siglufjarðar.

Stundum kallaður Botnaleið. Ekki fær hestum.

Förum frá Lambanesi til austurs norðan við Lambanesás og áfram austur og upp Nautadal norðan Ámárhyrnu og sunnan Skælings. Yfir Fiskihrygg í 720 metra hæð og síðan norðaustur og niður í Fjarðarárbotn. Við förum norður dalinn til Siglufjarðar.

13,4 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Dalaleið, Efrafjall, Siglufjarðarskarð, Hestskarð eystra, Sandskarð, Hólsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Eyvindarstaðaheiði

Frá Goðdalafjalli í Skagafirði að Ingólfsskála norðan Hofsjökuls.

Byrjum á þjóðvegi 752 í 220 metra hæð fyrir norðan Goðdalakistu hjá eyðibýlinu Hálsakoti. Förum jeppaslóð upp Goðdalafjall í 560 metra hæð og suður eftir fjallinu endilöngu. Förum austan Leirtjarnar og vestan við Melrakkadal og Hofsdal. Slóðin liggur um einn kílómetra vestan við fjallaskálann Hraunlæk norðan við Þröngagil. Áfram förum við beint suður heiðina, austan við Fremri-Hraunkúlu að fjallaskálanum Skiptabakka við Vestari-Jökulsá. Síðan förum við suður á bóginn, alltaf nokkru vestan við Jökulsá unz við komum á leið vestan úr Skiptamel. Hún er nokkru norðan við hinn gamla Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls. Við beygjum þvert til austurs og förum slóðina að fjallaskálanum Ingólfsskála, sem er í 830 metra hæð á Eyfirðingavegi.

22,0 km
Skagafjörður

Skálar:
Hraunlækur: N65 11.573 W19 02.973.
Skiptabakki: N65 07.914 W19 04.335.
Ingólfsskáli: N65 00.452 W18 53.820.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Gilhagadalur, Stafnsvötn, Geirhildarstígur, Skiptamelur, Ingólfsskáli, Gimbrafell, Strompaleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Eystripollar

Frá Sesseljubúð við Vatnahjallaveg um Eystripolla til Laugafells.

Eystripollar eru austan við Austari-Jökulsá, rústaflói með gróðurkraga, sem var einn helzti áfangastaðurinn á Vatnahjallavegi og sjást þar miklir götuslóðar.

Byrjum á Vatnahjallavegi milli Eyjafjarðar og Ingólfsskála. Sunnan Sesseljubúðar og nálægt Eystripollum förum við þverleið til suðsuðausturs um Eystripolla og Lambalæk að Strompaleið, sem liggur milli Ingólfsskála norðan Hofsjökuls og Laugafells við Sprengisand.

9,8 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skálar:
Sesseljubúð: N65 06.700 W18 25.840.
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hofsafrétt, Háöldur.
Nálægar leiðir: Vatnahjalli, Gimbrafell, Laugafell, Kiðagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Eyhildarholt

Frá gömlu brúnni á Völlum yfir Héraðsvötn norður með vötnunum að Eyhildarholti í Hegranesi.

Fáið fylgd frá Eyhildarholti yfir vaðið á vestari grein Héraðsvatna. Þetta er gömul þjóðleið, en hafa þarf gætur á vaðinu.

Byrjum við gömlu brúna á Völlum yfir Héraðsvötn, rétt norðan nýju brúarinnar. Förum norðvestur með farvegum flóða úr Héraðsvötnum norður í Sporða og þaðan áfram norður með farvegunum á jeppaslóð að bakka Héraðsvatna. Fylgjum bakkanum, unz við komum til móts við Eyhildarholt í Hegranesi. Förum þar yfir Héraðsvötn að Eyhildarholti og síðan norður með heimreið að þjóðvegi 764 um Hegranes.

12,3 km
Skagafjörður

Ekki fyrir göngufólk

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Ingimar Ingimarsson

Elliði

Frá Ytri-Einirlæk í Austurdal um Elliða til Austurdals við Hvítármúla.

Leiðin er á korti herforingjaráðsins. Hún virðist ekki hafa annan tilgang en að tengja byggðina vestan Austari-Jökulsár í Skagafirði við leiðina um Nýjabæjarfjall til Eyjafjarðar. Þá virðist hafa verið dráttur á Jökulsá eða annar búnaður við Hvítármúla til að komast þar yfir ána. Þrautavað var hins vegar við Ábæ. Ekki verður lengur komizt yfir ána hjá Hvítármúla, svo að leiðin hefur tapað notagildi. Síðan brú kom á Jökulsá norðaustan Ábæjarkirkju hefur umferð yfir ána verið þar.

Austdælingar bjuggu til vetrarbrýr á Jökulsá. Vaður úr hrosshári var strengdur þvert yfir ár neðan til á hyljum, þannig að hann rétt snerti vatnsborðið, Krapaburður staðnæmdist við strenginn, fraus saman og varð að manngengum ís.

Förum frá Ytri-Einirlæk suðvestur yfir Austari-Jökulsá og suðvestur upp Elliðatagl. Síðan suðaustur eftir brún Elliða og yfir drög Hrafnsurðargils. Norðaustur og niður fjallið að Austari-Jökulsá við Hvítármúla. Milli endapunktanna, sem hér er lýst, má líka fara eftir Austurdal, vestan við Austari-Jökulsá.

23,9 km
Skagafjörður

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Nýjabæjarfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Efrafjall

Frá Máná í Fljótum í Skagafirði um Efrafjall til Siglufjarðar.

Förum frá Máná suður Mánárdal og beint áfram upp á Efrafjall og vestan við Illvirðahnjúk í 540 metra hæð. Áfram suður á fjallsbrún og þar til austurs niður í Skarðsdal. Þaðan norður til Siglufjarðar.

8,4 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Dalaleið, Siglufjarðarskarð, Sandskarð, Hólsskarð, Fiskihryggur, Hestskarð eystra.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Deildardalsjökull

Frá Eyrarlandi á Höfðaströnd um Deildardalsjökul upp á Heljardalsheiði.

Þessi leið var áður fyrr mikið farin og þótti auðveld, en langt er samt milli byggða.

Förum frá Eyrarlandi austur Deildardal, um eyðibýlið Stafn og síðan austur Seljadal norðanverðan. Upp úr dalbotninum förum við á Deildardalsjökul í 940 metra hæð norðan Jónasartinds. Þaðan þvert yfir Hákambaleið og höldum hundrað metra austur að Stóruvörðu á Heljardalsheiði í 870 metra hæð. Sú heiði liggur milli Kolbeinsdals í Skagafirði og Svarfaðardals í Eyjafirði.

15,5 km
Eyjafjörður

Skálar:
Heljardalsheiði: N65 49.658 W18 57.567.

Nálægar leiðir: Hákambar, Heljardalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Dalaleið

Frá Máná í Fljótum í Skagafirði um Dalaleið til Siglufjarðar.

Stikaður og vel varðveittur hestavegur.

Byrjum á vegi 76 við Máná í Fljótum í Skagafirði, Förum suður Mánárdal, beygjum til austurs á Dalaleið um Messugötur og Langahrygg og til suðurs í 520 metra hæð norðan Snóks. Síðan austur og niður fjallið sunnan Snóksár í Skarðsdal. Að lokum norðaustur að Siglufirði.

6,5 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Efrafjall, Siglufjarðarskarð, Sandskarð, Hólsskarð, Fiskihryggur, Hestskarð eystra.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Brimnes

Frá Enni í Skagafirði um Brimnes að Kolkuósi í Skagafirði.

Kolkuós hét fyrrum Kolbeinsárós og var þá skipalægi. Um tíma var verzlunarstaður í Kolkuósi snemma á 20. öld. Frá Kolkuósi er komið frægt hestakyn, Kolkuóshestar, ræktaðir af feðgum, Hartmanni Ásgrímssyni og Sigurmon Hartmannssyni í Kolkuósi. Kolkuóshross eru grein af Svaðastaðahrossum, sem löngum hafa verið fyrirferðarmest í íslenzkri hrossarækt. Frægasti stóðhestur frá Kolkuósi var Hörður, númer 591 í ættbók hrossa, annar frægur var Stokkhólma-Rauður frá Kolkuósi, númer 618 í ættbók. Kolkuóshross hross féllu vel að smekk nýrra kynslóða eftir miðja 20. öld, sem nutu hesta sem gæðinga til útreiða, fremur en að halda þeim til bústarfa og aðdrátta.

Byrjum við Enni í Skagafirði. Förum norður að sjávarsíðunni og áfram norður um Lón og Bakka að Laufhóli. Síðan norður ströndina að Brimnesi og þaðan norðaustur um Kolkuós að þjóðvegi 76 í Viðvíkursveit.

11,4 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Hrísháls, Heljardalsheiði Deildardalsjökull.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Aravatn

Frá Skagavegi sunnan Hrauns á Skaga um Aravatn að Höfðavötnum á Ketubrunaleið milli Ketu á Skaga og Keldulands.

Hér er farið um dæmigert land á utanverðum Skaga, að mestu flatt og gróið land, alsett veiðivötnum, brokarflóum, stararsundum, tjörnum, holtum, móum og melum. Tvö stór vötn eru á leiðinni, Ölvesvatn nyrðra og Aravatn.

Byrjum milli Hrauns og Þangskála á Skaga við þjóðveg 745 sunnan Steinatjarnar. Förum til suðvesturs milli Neðstavatns að norðanverðu og Kollusátursvatns að sunnanverðu. Síðan suður með Hraunsvatni að austanverðu að Ölvesvatni austanverðu. Þaðan suðaustur með Aravatni austanverðu. Förum svo suður um Rangártjarnir að Ketubrunaleið norðvestan Höfðavatna og Þrívörðuhóls. Ketubrunaleið liggur milli Ketu í Skagafirði og Keldulands í Húnaþingi.

13,2 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Heylækur, Ketubruni.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort