Suður-Þingeyjarsýsla

Kiðagil

Frá jeppavegi um Sprengisand vestan við Kiðagilshnjúk um Dældir til Kvíakofa við Skjálfandafljót.

Þetta er hluti hinnar fornu Biskupaleiðar yfir Ódáðahraun. Nú er farið aðeins norðar niður að Skjálfandafljóti eftir jeppaslóð að Kvíakofa og komið þar aftur á meginleiðina.

Leiðin liggur sunnan við Kiðagil, sem frægt er af kvæði Gríms Thomsen, þar sem segir meðal annars: “Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn, / rökkrið er að síga á Herðubreið, / álfadrottning er að beisla gandinn, / ekki er gott að verða á hennar leið; / vænsta klárinn vildi ég gefa til / að vera kominn ofan í Kiðagil.” Enn í dag eru margir fegnir á þessari leið, þegar landið fer að lækka niður að Bárðardal. Þvert yfir þessa leið reið Þórður kakali Sighvatsson úr Bleiksmýrardal suður á Sprengisand.

Förum frá jeppaveginum vestan Kiðagilshnjúks eftir slóð suður hlíðina og svo áfram suður að Kiðagili og meðfram því norðanverðu að Dældum við Skjálfandafljót. Síðan norðaustur með fjallinu vestan fljótsins um Kvíar að Kvíakofa við Skjáfandafljót. Þar er gamalt vað á fljótinu.

10,3 km
Þingeyjarsýslur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson

Kerlingardyngja

Frá tjaldstæði við Hagalæk sunnan við Sellandafjall að Bræðraklifi norðan Herðubreiðarfjalla.

Þetta er miðhluti hinnar fornu Biskupaleiðar yfir Ódáðahraun, framhald leiðarinnar frá Kiðagilsdrögum um Suðurárhraun. Síðan tekur við síðasti hluti leiðarinnar, Veggjafellsleið. Suðurárhraunsleið, Kerlingardyngjuleið og Veggjafellsleið mynda saman Biskupaleið, sem er framhald Sprengisandsleiðar frá Skjálfandafljóti að Jökulsá á Fjöllum.

Landið er hér kalt og nakið og mikilúðlegt. Farið er um sanda og sandorpin hraun og ekki er hér vatn og fáar gróðurspildur, nema melgresi, lyng og víðir óvíða. Leiðin liggur milli reginfjalla. Í Ketildyngju norðan leiðarinnar eru Fremri-Námur, þar sem brennisteinn var tekinn og fluttur um Mývatn og Húsavík til Kaupmannahafnar, þegar kóngurinn þurfti að fara í stríð.

Byrjum í Kötlum sunnan Sellandafjalls, á mótum Biskupaleiðar af Sprengisandi og leiðar til Mývatns norður með Sellandafjalli, í 440 metra hæð. Förum út af jeppaslóðinni og fylgjum varðaðri leið yfir fjallgarðinn í átt til Jökulsár á Fjöllum. Fyrst förum við í norðaustur og síðan meira í austur og stefnum á syðri brún Bláfellshala. Þar komum við að dráttarvélaslóð umhverfis Bláfell. Þaðan höldum við austur á hraunið og förum skarðið milli Ketildyngju í norðri og Kerlingardyngju í suðri. Erum þar hæst í 780 metra hæð. Áfram förum við vörðuðu leiðina austur yfir Sveinagjá, sem er vond undir hóf. Síðan fyrir norðan Herðubreiðarfjöll, Gjáfjöll og að Bræðraklif í 540 metra hæð ofan við Hafragjá. Á brún Hafragjár eru þrjár vörður, sem sýna einstigi niður Bræðraklif. Þar tekur svo við Veggjafellsleið, síðasti áfangi Biskupaleiðar á leiðinni að Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum, þar sem var fyrsti ferjustaður á Jökulsá.

32,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Krákárbotnar, Suðurá, Suðurárbotnar.
Nálægar leiðir: Biskupaleið, Suðurárhraun, Veggjafell, Heilagsdalur, Dyngjufjalladalur, Íshólsvatn.

Skrásetjari: Ingvar Teitsson
Heimild: Ingvar Teitsson

Kambsfell

Frá mótum Bárðargötu og Gæsavatnaleiðar um Kambsfell að Nýjadal á Sprengisandi.

Við Hagakvíslar liggur leiðin nærri Tómasarhaga. Fyrrum höfðu hestamenn beit þar. Björn Gunnlaugsson segir árið 1841: “Undir fellinu, þeim megin sem snýr frá jöklinum, eru sléttir melar og á þeim miðjum er grasflötur framundir kýrvöllur að stærð sem er Tómasarhagi.” Þá töluðu Bárðdælingar um hinn “ágæta töðuvöll”. En 1871 voru þarna engir hestahagar lengur og hafa síðan ekki verið. Nú er þarna gulbleik mosabreiða í eyðimörkinni.

Jónas Hallgrímsson á samt minningu þjóðarinnar í ljóðinu Tómasarhaga: “Tindrar úr Tungnajökli, / Tómasarhagi þar / algrænn á eyðisöndum / er einn til fróunar. / Veit eg áður hér áði / einkavinurinn minn, / aldrei ríður hann oftar / upp í fjallhagann sinn. / Spordrjúgur Sprengisandur / og spölur er út í haf; / hálfa leið hugurinn ber mig, / það hallar norður af.”

Byrjum á vegamótum Bárðargötu og Gæsavatnaleiðar norðaustan Tungnafellsjökuls. Förum til vesturs fyrir norðan Fossaleiti og sunnan Kambfell. Síðan suðvestur með Tungnafellsjökli framhjá Öxl að Hagakvíslum og þaðan suðvestur að fjallaskálanum í Nýjadal.

26,7 km
Þingeyjarsýslur, Rangárvallasýsla

Skálar:
Nýidalur: N64 44.103 W18 04.323.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög, Vonarskarð, Fjórðungsalda, Nýidalur.
Nálægar leiðir: Gásasandur, Gæsavötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Jökulsárvöð

Jökulsá á Fjöllum.

Jökulsá á Fjöllum er núna hvergi reið nema um kvíslarnar suður undir Vatnajökli og þarf þá að fara varlega og með mikilli þekkingu á vöðum og sandbleytum. Sú leið er kölluð Vatnajökulsvegur og var nokkrum sinnum farin á síðari öldum, 1794-1839. Hún er á korti Björns Gunnlaugssonar 1849.

Í Ljósvetningasögu segir frá ferð Þorkels Geitissonar til Þorsteins Síðu-Hallssonar: “Um sumarið búast þeir heiman að með sex tigu manna hvorir og ríða til Jökulsár. En þá voru góð vöð á ánni víða. Þar skiptu þeir liði. Þorkell og Þorsteinn og þrír aðrir fóru alfaraleið til Vaðlaþings, en flokkurinn allur fór fyrir ofan Mývatn til Króksdals og Bleiksmýrardals og svo fyrir neðan heiði.” Þeir fóru yfir Jökulsá við Ferjufjall eins og Sámur í Hrafnkels sögu Freysgoða. Sámur fór norður til Brúar á Jökuldal og þaðan yfir Möðrudalsheiði og gisti í Möðrudal um nótt. Þaðan fór hann til Herðubreiðartungu og fyrir ofan Bláfjall, síðan í Króksdal við Skjálfandafljót og suður Sprengisand til Sauðafells og loks til Þingvalla.

Þegar Hrafnkels saga Freysgoða og Ljósvetningasaga voru skrifaðar, fóru menn yfir ána hjá Ferjufjalli suðvestan Möðrudals og síðan vestur Biskupaleið um Suðurárbotna yfir á Sprengisand eða norðvestur um Almannaveg beint til Mývatns. Þá eru sögð fleiri vöð á ánni. Síðar var sett ferja við Ferjufjall. Umdeilt er, hvort þetta er hin sanna biskupaleið. Þá leið fóru Skálholtsbiskupar ítrekað að vísitera á Austurlandi 1632-1720. Þessi leið yfir Ódáðahraun er samt kölluð Biskupaleið og hún er enn vörðuð og hefur verið kortlögð með GPS. Ferjan var síðan færð norður að Ferjuási gegnt Víðidal og loks nálægt því, sem brúin er núna gegnt Grímsstöðum. Ekki er vitað um ártöl í þessu sambandi. Ljóst er, að vatn hefur verið mun minna í Jökulsá á Fjöllum fyrir sagnatíma Íslendingasagna, en hafa lagzt af á sagnatímanum. Áður voru “góð vöð á ánni víða” og þá var enn vað við Ferjufjall, en síðar varð öll áin óreið. Ekki er vitað um ártöl á vöðum frekar en um ártöl á ferjustöðum.

XXX km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir göngufólk
Athugið nýtt hraun 2014-2015

Nálægar leiðir: Vatnajökulsvegur, Biskupaleið, Veggjafell, Almannavegur, Gestreiður, Leiðaskarð, Byttuskarð, Sænautafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Ýmsar heimildir, Árbók Ferðafélagsins 1968.

Íshólsvatn

Frá fjallaskálanum Ytri-Mosum um Íshólsvatn og Hrafnabjargavað að Hrauntanga í Suðurárbotnum.

Vesturhlið Íshólsvatns var skógi vaxin fram á 19. öld, en er núna örfoka. Vatnið er mjög djúpt og þar er töluvert um silung. Mjóidalur er í rauninni framhald Bárðardals. Þar var áður bærinn Mjóidalur, þar sem Stephan G. Stephansson bjó. Bærinn er nú kominn í eyði, enda hefur lengi verið mikill uppblástur í hlíðum dalsins, einkum að vestanverðu.

Förum frá Ytri-Mosum norður með Mosakvísl um Mjóadal að Íshólsskarði. Förum austur yfir skarðið og síðan til norðurs fyrir austan Íshólsvatn og norðaustur um lægðina við norðurenda vatnsins. Þar förum við yfir þjóðveg F26 og áfram norðaustur að Hrafnabjargavaði á Skjálfandafljóti. Það er gott vað með traustum botni. Förum svo eftir jeppaslóð, fyrst suðaustur með Skjálfandafljóti. Þar er hluti af Bárðargötu suður yfir Vonarskarð. Við beygjum jeppaslóð til austurs að Suðurá og förum upp með henni og suðaustur að Hrauntanga í Suðurárbotnum. Hægt er að fara norður yfir Suðurá á jeppavaði töluvert vestan Stóru-Flesju.

33,3 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Ytri-Mosar: N65 11.634 W17 29.492.
Botni : N65 16.164 W17 04.061.

Nálægir ferlar: Fjórðungsalda, Réttartorfa, Suðurá, Suðurárbotnar, Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Hrafnabjargavað, Dyngjufjalladalur, Kráká, Suðurárhraun, Biskupaleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hörgsdalur

Frá Sandvík í Bárðardal um Hörgsdal að Stöng í Mývatnssveit.

Í Hörgsdal fannst hof. Það er tæplega 10 metra langt og 6 metra breitt. Um það þvert er grjótbálkur, sem nær ekki veggja milli. Ofan á honum eru fjórir stórir steinar undir sléttri og eldborinni hellu, sem í er klöppuð grunn skál. Undir hellunni er lítil steinn með íklöppuðum bolla. Þar hefur verið fórnaraltari. Brýni, kljásteinar og ýmsir smámunir fundust ásamt ösku og viðarkolum.

Förum frá Sandvík austnorðaustur á Fljótsheiði, um Axarmýri og síðan til vesturs og norður fyrir Jafnafell í Hörgsdal. Við förum norðaustur að Stöng í Mývatnssveit.

9,0 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hellugnúpsskarð, Engidalur, Víðiker, Mývatnsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hverfjall

Frá þjóðvegi 1 við Vogaflóa við Mývatn um Hverfjall að Hvannfelli.

Hverfjall eða Hverfell er eitt þekktasta fjall landsins, 3000 ára gamalt, nánast hringlaga gígur um tvo kílómetra að þvermáli, orðinn til í gufusprengigosi. Nökkvabrekka er klettamyndun, sem minnir á bát. Lúdentsborgir eru klepragígaröð frá Hverfjalli að Bláfjallsfjallgarði. Við fyrstu borgina, Aðhaldsborg, er náttúrulegt aðhald fyrir hesta. Stærsti gígurinn er Lúdent, 700 metrar að þvermáli og 100 metra hár.

Byrjum við þjóðveg 1 við Vogaflóa við Mývatn. Förum þaðan jeppaslóð austur að Hverfjalli. Síðan suður með fjallinu og áfram suðsuðaustur um Strandarholt og Nökkvabrekku. Suður með Lúdentsborgum austanverðum að vegamótum Almannavegar austur að Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum og leiða í Heilagsdal og Bláhvamm. Við fylgjum Almannavegi til austurs og förum austur að Hvannfelli og norður fyrir fellið.

12,6 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Almannavegur, Heilagsdalur, Bláhvammur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hvammsheiði 3

Frá Einarsstöðum til Laxamýrar.

Hér er farið um grónar götur í Vatnshlíð, Þúfuvað á Laxá og um moldargötur á Hvammsheiði. Við æjum í Hraunsrétt við Laxá í Aðaldal. Réttin hefur verið glæsilega endurgerð með ærinni fyrirhöfn. Síðan er farið um Hvammsheiðina endilanga. Hún er ávöl og þurr, með runnum og lyngi, en laus við mýrar. Heiðin dunar undir hófaslætti, þegar hrossarekstur þýtur yfir hana. Öll þessi leið er kjörlendi hestamanna.

Förum frá Einarsstöðum austur yfir sléttlendið, yfir Reykjadalsá og upp á þjóðveg 846. Við förum með þeim vegi til norðurs að Ökrum, þar sem við förum áfram með fjallshlíðinni ofan við Halldórsstaði. Síðan beint áfram norður Vatnshlíð meðfram Vestmannsvatni að austanverðu, um hlað í Fagranesi og áfram heimreið að þjóðvegi 854. Við förum austur þann veg um einn kílómetra og síðan norður um Fögrufit að Þúfuvaði á Laxá í Aðaldal. Handan árinnar förum við norðaustur að Hraunsrétt. Síðan áfram norðaustur að þjóðvegi 853, sem við fylgjum norður að Yzta-Hvammi. Þar förum við slóð á ská upp hlíðina og erum komin á Hvammsheiði. Hana förum við endilanga til norðurenda hennar, þar sem við förum niður af henni, yfir Mýrarkvísl og upp á veg 85 hjá Laxamýri.

29,8 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Keldunesheiði, Gönguskarð, Vatnshlíð, Nafarvað.
Nálægar leiðir: Sandsbæir, Sílalækur, Reykjakvísl, Þegjandadalur, Hafralækjarskarð, Kinnarfell, Fosselsskógur, Máskot, Heiðarsel, Fljótsheiði, Fossel.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hvammsheiði 2

Frá Heiðarbót í Reykjahverfi um Hvammsheiði að Einarsstöðum í Reykjadal.

Fyrri hluti leiðarinnar er einn skemmtilegasti skeiðvöllur landsins, Hvammsheiðin endilöng, moldargata eftir dráttarvélar. Heiðin er ávöl og þurr, með runnum og lyngi, en engum mýrum. Heiðin dunar undir hófaslætti, þegar hrossarekstur þýtur yfir hana. Hraunsrétt er fagurlega hlaðin rétt í jaðri Laxárhrauns og hefur verið endurgerð með ærinni fyrirhöfn. Þaðan er farið um Þúfuvað yfir Laxá í Aðaldal. Síðari hluta leiðarinnar er farið um Vatnshlíð meðfram Vestmannsvatni. Þar var áður mikill skógur, en er nú orðinn næsta feyskinn.

Förum frá Heiðarbót niður á þjóðveg 87 um Reykjahverfi og út af veginum aðeins sunnar og förum beint upp á Hvammsheiði. Þar uppi komum við að slóð, sem liggur um heiðina endilanga og beygjum til suðurs eftir þeirri slóð. Hún liggur niður í Yzta-Hvamm. Þar komum við á þjóðveg 853 og fylgjum honum að afleggjara til suðurs að Hraunsrétt. Sunnan réttarinnar förum við á Þúfuvaði yfir Laxá í Aðaldal og tökum land í Fögrufit. Förum upp á þjóðveg 854 og fylgjum honum til vesturs að afleggjara að Fagranesi. Við Fagranes förum við austur með Vestmannsvatni og um Vatnshlíð að Ökrum í Reykjadal, þar sem við komum á þjóðveg 846. Fylgjum honum að slóð, sem liggur um hlið austur yfir Reykjadalsá að Einarsstöðum í Reykjadal.

27,8 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Keldunesheiði, Gönguskarð, Vatnshlíð, Nafarvað.
Nálægar leiðir: Sandsbæir, Sílalækur, Reykjakvísl, Þegjandadalur, Hafralækjarskarð, Kinnarfell, Fosselsskógur, Máskot, Heiðarsel, Fljótsheiði, Fossel.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson

Hvammsheiði 1

Frá Laxamýri í Aðaldal að Torfunesi í Köldukinn.

Fyrri hluti leiðarinnar er einn skemmtilegasti skeiðvöllur landsins, Hvammsheiðin endilöng, moldargata eftir dráttarvélar. Heiðin er ávöl og þurr, með runnum og lyngi, en engum mýrum. Heiðin dunar undir hófaslætti, þegar hrossarekstur þýtur yfir hana. Hraunsrétt er fagurlega hlaðin rétt í jaðri Laxárhrauns og hefur verið endurgerð með ærinni fyrirhöfn. Þaðan er farið um Þúfuvað yfir Laxá í Aðaldal. Þegar komið er upp fyrir Mýlaugsstaði hverfa götur og reiðmenn þurfa að miða við að koma niður nálægt bæjarhlaði í Rauðuskriðu.

Förum frá Laxamýri reiðslóð suður yfir Mýrarkvísl og upp á norðurenda Hvammsheiðar. Síðan suður heiðina endilanga, hæst í 140 metra hæð. Förum af heiðinni vestanverðri niður í Yzta-Hvamm og síðan suður með þjóðvegi 853 að afleggjara að Hraunsrétt til vesturs. Frá réttinni förum við suður á Þúfuvað yfir Laxá í Aðaldal, um Fögrufit og síðan upp á þjóðveg 854. Við förum vestur með veginum að mótum þjóðvegar 845 í Aðaldal og um hundrað metra með þeim vegi að afleggjara að Mýlaugsstöðum. Förum þar vestur og síðan upp hlíðina sunnan við Skollahnjúk upp í 140 metra hæð. Þar hverfa götur og reiðmenn þurfa að miða við að koma niður nálægt bæjarhlaði í Rauðuskriðu. Því sveigjum við til norðurs eftir heiðinni og komum niður hana að Rauðuskriðu. Síðan afleggjara frá bænum niður á þjóðveg 85 og suður hann á brú yfir Skjálfandafljót. Vestan brúarinnar förum við reiðslóð suður með fljótinu unz við erum komin á móts við Torfunes. Beygjum þá eftir hliðarslóð vestur að Torfunesi.

29,8 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Keldunesheiði, Gönguskarð, Vatnshlíð, Nafarvað.
Nálægar leiðir: Sandsbæir, Sílalækur, Reykjakvísl, Þegjandadalur, Hafralækjarskarð, Kinnarfell, Fosselsskógur, Máskot, Heiðarsel, Fljótsheiði, Fossel.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hrossanúpar

Frá Nafarvaði í Laxá um Hamarsheiði og Hrossanúpa að Grímsstöðum við Mývatn.

Förum frá Nafarvaði suður með Laxá að austanverðu að Hamri. Síðan austur Hamarsheiði og Hrossanúpa að norðurenda Sandvatns. Þaðan suðaustur að Grímsstöðum við Mývatn.

15,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Nafarvað, Sandvatn.
Nálægar leiðir: Pennaflötur, Ljótsstaðir, Máskot.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hrísheimar

Frá Baldursheimi við þjóðveg 849 í Mývatnssveit um Hrísheima að Jafnafelli á Mývatnsheiði.

Rétt vestan Baldursheims er fornbýlið Hrísheimar. Þar var stunduð umfangsmikil járnvinnsla 950-1158. Fundizt hafa um tuttugu rauðablástursofnar og ýmsir gripir úr kopar og járni.

Járn er að finna í mýrarauða hér á landi. Honum og viðarkolum var blandað saman í grjóthlöðnum þróm, sem kallaðar voru ofnar. Viðarkolin fengust með því að brenna trjávið í þöktum gryfjum. Kolin og mýrarauðinn voru brennd við háan hita og kallaðist það rauðablástur. Járnbráð seytlaðist niður í botn þróarinnar. Við það fékkst blástursjárn, sem hamrað var, unz úr því varð betra smíðajárn. Á 15. öld voru skógar teknir að eyðast og ódýrara járn kom í innflutningi. Þá lagðist af rauðablástur hér á landi.

Förum frá Baldursheimi vestur um Hrísheima og Heiði. Suður frá Sandfelli á Stóraás, þaðan vestur að suðurenda Jafnafells.

12,0 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Krákárbotnar, Mývatnsheiði, Engidalur.
Nálægar leiðir: Kráká, Gautlönd, Kleifarsund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hrafnabjargavað

Frá Víðikerjum í Bárðardal til Hrafnabjargavaðs á Skjálfandafljóti og Sandárness.

Vaðið er breitt, en straumur vægur og botn traustur.

Förum frá Víðikeri suður Landsmela og yfir Svartá. Síðan um Víðikershús og suður með Skjálfandafljóti, að Hrafnabjargavaði á Skjálfandafljóti. Við höldum suður frá vaðinu meðfram Skjálfandafljóti að slóð úr Svartárkoti, sem liggur suður Bárðargötu austan fljótsins. Þar heitir fyrsti kaflinn Réttartorfa, síðan Öxnadalsdrög, Vonarskarð, Hamarskriki, Fljótsoddi og loks Bárðargata yfir Hverfisfljót.

16,5 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Víðiker, Engidalur, Suðurá, Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Íshólsvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Herðubreiðarlindir

Frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum að Herðubreiðarlindum.

Herðubreið gnæfir yfir Herðubreiðarlindum, 1680 metra hátt stapafjall með gíg í kolli og rís meira en kílómetra yfir umhvefið. Fjallið er bratt og hömrum girt. Fært er upp á það um brattar skriður og móbergshellur að norðvestanverðu. Herðubreiðarlindir og Eystri-Grafarlönd eru þekktustu hálendisvinjar landsins rétt norðaustan Herðubreiðar. Þar eru margar lindir, sem saman mynda Lindá.

Förum af þjóðvegi 1 hjá Hrossaborgum á Mývatnsöræfum, nálægt Jökulsá. Förum suður með ánni að vestanverðu, vestan við Ferjuás og Yztafell, austan við Miðfell og Fremstafell og síðan yfir Grafarlandaá og vestan við Ferjufjall og austan við Grafarlandaá, alltaf suður með Jökulsá, yfir Lindá í Herðubreiðarlindir.

63,6 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Skálar:
Herðubreiðarlindir: N65 11.560 W16 13.390.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson