Suður-Þingeyjarsýsla

Fnjóskadalur

Frá Draflastöðum í Fnjóskadal um Vaglaskóg að Sörlastöðum í Fnjóskadal.

Á Sörlastöðum hafa hestamenn á Akureyri aðstöðu fyrir menn og hesta.

Leiðin er um endilangan Fnjóskadal að austanverðu. Í Fnjóskadal er Vaglaskógur, einn stærsti upprunalegi skógur á Íslandi, en einnig eru þar Lundarskógur og Þórðarstaðaskógur. Dalurinn heitir eftir svokölluðum fnjóskum, sem eru þurrir og feysknir trjábútar. Ef lagðir eru saman Fnjóskadalur í miðjunni, Flateyjardalur að norðanverðu og Bleiksmýrardalur að sunnanverðu, er Fnjóskadalur langsamlega lengsti dalur landsins.

Förum frá Draflastöðum austur að Fnjóská og síðan norður með henni að vaði í syðri enda eyrar í ánni, eftir eyrinni endilangri og þar yfir á þjóðveg 835 um Fnjóskadal. Fylgjum veginum suður dalinn að Veisuseli. Þar förum við af veginum um hlið að slóð norður brekku niður að ánni. Síðan á bökkum árinnar alla leið að brúnni yfir Fnjóská. Við komum þar að girðingu með þjóðvegi 1 í Ljósavatnsskarði. Fylgjum girðingunni unz við komum að hliði, sem við förum um. Yfir þjóðveginn og meðfram girðingu handan vegar að þjóðvegi 836 upp í Vaglaskóg. Við förum þar upp brekku suðaustur að Hálsi og síðan suðvestur og fram á hálsinn við ána. Þar förum við út af vegi 386 og eftir skóginum til suðurs og síðan til vesturs upp brekkurnar að Vöglum. Þar höldum við áfram til suðurs um skógargötur niður að Mörk við Fnjóská. Síðan fylgjum við vegi suður Fnjóskadal í Þórðarstaðaskóg að brú á Fnjóská. Áfram höldum við austan árinnar meðfram jeppaslóð framhjá eyðibýlunum Belgsá og Bakkaseli og Bakka að Sörlastöðum í 240 metra hæð.

41,0 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.

Nálægir ferlar: Bíldsárskarð, Hellugnúpsskarð.
Nálægar leiðir: Draflastaðafjall, Vaðlaheiði, Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Hellugnúpur, Gönguskarð vestra.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Fljótsheiði

Frá Einarsstöðum í Reykjadal um Fljótsheiði að Fosshóli í Bárðardal.

Förum frá Einarsstöðum vestur á gamla þjóðveginn yfir Fljótsheiði, norðan nýja þjóðvegarins. Förum suðvestur yfir heiðina um Ingjaldsstaði að Fosshóli.

8,9 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði, Vatnshlíð, Nafarvað, Gullvegurinn.
Nálægar leiðir: Máskot, Heiðarsel, Fossel, Fosselsskógur, Kinnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Flateyjardalsheiði

Frá Þverá í Dalsmynni í Fnjóskadal um Flateyjardalsheiði að Brettingsstöðum í Flateyjardal.

Þetta er góð reiðleið, víða á notalegum moldargötum.

Byrjum við Þverá í Dalsmynni í Fnjóskadal við þjóðveg 835. Þverárrétt / Lokastaðarétt er neðan bæjar. Þaðan förum við jeppaslóð norður á Flateyjardalsheiði, fyrst vestan við gil Árbugsár og austan undir Þveráröxl. Förum um eyðibýlin Þúfu, Vestarikrók og Austarikrók, þar sem er fjallakofi. Við höldum áfram beint norður milli Austurheiðar og Vesturheiðar, hæst í 220 metra hæð. Förum um Almannakamb niður í Flateyjardal og áfram meðfram Dalsá norður að fjallakofanum Heiðarhúsum. Þaðan norður um hvert eyðibýlið á fætur öðru, Ófeigsá, Grímsland, Mógil, Saurbrúarkotsgil, Eyvindará og Litlagil, þar sem við komum að fjallakofanum Urðarkoti. Þaðan er stutt að sjó hjá Hofi við Hofshöfða. Förum stuttan spöl norður með sjó og beygjum síðan að Brettingsstöðum.

31,5 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Funi: N65 53.815 W17 51.387.
Heiðarhús: N65 59.626 W17 51.092.
Urðarkot: N66 04.800 W17 52.480.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Skuggabjörg, Gönguskarð.
Nálægar leiðir: Draflastaðafjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Fjörður

Frá Grýtubakka í Höfðahverfi um Hvammsheiði að Þönglabakka í Fjörðum.

Þetta land er allt í eyði, enda orti Látra-Björg svo: “Fagurt er í Fjörðum / þá frelsarinn gefur veðrið blítt / heyið grænt í görðum / grös og heilagfiski nýtt / En þá vetur að oss fer að sveigja, / enga veit ég verri sveit / um veraldarreit, / menn og dýr þá deyja.” Þönglabakki er gamall kirkjustaður, þar sem nú er björgunarskýli.

Förum frá Grýtubakka eftir jeppaslóð norðvestur á Hvammsheiði og síðan norður heiðina, hæst í 300 metra hæð. Austan Sveigsfjalls og vestan Skessuhryggs, Blámannshatts, Grjótskálarhnjúks og Leirdalsaxlar. Um eyðibýlið Grundarsel og um Nautagrænur og niður heiðina um Hávörður og Sporð. Þar er fjallakofinn Gil. Áfram norður með Austurá austan við Darra og vestan við Hnausafjall að Tindriðastöðum í Fjörðum. Þaðan með austurhlíð dalsins niður að sjó í Hvalvatnsfirði. Vestur yfir Austurá og síðan milli Þorgeirshöfða að norðan og Lúts að sunnan yfir að Þönglabakka í Þorgeirsfirði.

26,8 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Gil: N66 04.386 W18 04.602.
Þönglabakki: N66 09.120 W18 07.399.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Skuggabjörg.
Nálægar leiðir: Blæja.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Fjórðungsalda

Nyrðri hluti jeppavegarins um Sprengisand. Sjá syðri hlutann undir heitinu Sprengisandur.

Sprengisandur, Nýidalur og Fjórðungsalda er eystri leiðin um Sprengisand. Hestamenn kjósa frekar að fara um gróðursælli Gnúpverjaafrétt í Arnarfell og þaðan austur um Þjórsárver og norður í Laugafell. Sú leið er hér kölluð Háöldur.

Tómasarhagi er þekktastur fyrir erindi Jónasar Hallgrímssonar: “Tindrar úr Tungnajökli / Tómasarhagi þar, / algrænn á eyðisöndum / er einn til fróunar.” Hafi einhvern tíma verið hagi í Tómasarhaga, er orðið lítið um slíkt núna. Þar eru mest mosateygingar með lækjum.

Förum frá Mýri í 300 metra hæð á Sprengisandsveg og fylgjum honum alla leið í fjallaskálann í Nýjadal. Fyrst förum við á brú austur yfir Mjóadalsá og síðan til suðurs á heiðina. Framhjá Aldeyjarfossi og síðan hjá norðausturenda Íshólsvatns, þar sem Hrafnabjargavað er á Skjálfandafljóti. Slóðin liggur nokkuð beint suður fjallið, nokkuð vestan við brúnina ofan Skjálfandafljóts. Förum í 700 metra hæð framhjá afleggjara til vesturs í fjallaskálann í Ytri-Mosum. Skammt er suður í Fossgilsmosa, þar sem er hestagirðing. Við förum áfram suðvestur utan í Kiðagilshnjúk og áfram til suðvesturs framhjá afleggjara norður í Bleiksmýrardal. Síðan yfir Kiðagilsdrög og áfram suðvestur, förum í 820 metra hæð og komum að stuttum afleggjara að fjallaskála í Sandbúðum. Þaðan áfram að Fjórðungsvatni norðvestan við Fjórðungsöldu. Áfram suður yfir Tómasarhaga undir Tungnafellsjökli og loks yfir jökulkvíslina við fjallaskálann í Nýjadal í 800 metra hæð.

99,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Ytri-Mosar: N65 11.634 W17 29.492.
Fossgilsmosar : N65 05.864 W17 36.452.
Sandbúðir: N64 55.920 W17 59.239.
Nýidalur: N64 44.103 W18 04.323.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Nýidalur, Víðiker, Engidalur.
Nálægar leiðir: Hrafnabjargavað, Íshólsvatn, Bleiksmýrardalur, Kiðagil, Suðurárhraun, Biskupaleið, Gásasandur, Miðleið, Kambsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Finnstaðadalur

Frá Hlíð í Köldukinn um Finnstaðadal til Flateyjardalsheiðar.

Hrjóstrugur dalur, sem liggur töluvert hærra en Gönguskarð, sem er næst fyrir norðan. Dalurinn er þó víða gróinn upp í hlíðar.

Förum frá Hlíð beint vestur og upp Kinnarfjall meðfram Gljúfurá upp á Þröskuld. Síðan beint vestur inn í Finnstaðadal í 580 metra hæð og norðvestur eftir honum út í Hólsdal, sem við förum norður í Gönguskarð. Þar komum við á dráttarvélaslóð, sem liggur niður að Þverárrétt í Dalsmynni.

15,3 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Gönguskarð, Skuggabjörg.
Nálægar leiðir: Draflastaðafjall, Uxaskarð, Flateyjardalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Engidalur

Frá Stóru-Völlum í Bárðardal að Helluvaði í Mývatnssveit.

Sennilega er betra að fara suður í Víðiker og þaðan norðaustur að Stóraási og fara vestan undir honum gamla slóð norður að Jafnafelli. Mestur hluti leiðarinnar um Engidal er fær öllum bílum. Hestamenn fara því oftar sunnar, um Svartárkot og Suðurárbotna, eða norðar, um Arndísarstaði og Akureyrarveg eða um Fosshól og gamla Fljótsheiðarveginn. Fari menn syðri leiðina er áður farið um Hellugnúpsskarð til Stóru-Valla. Fari menn nyrðri leiðina er farið úr skarðinu til norðurs að brúnni á Skjálfandafljóti hjá Fosshóli.

Þetta er ein af mörgum reiðleiðum um heiðar Suður-Þingeyjarsýslu, hluti af tengingu sýslunnar um Sörlastaði yfir í Eyjafjörð. Gildi leiðarinnar hefur þó minnkað eftir að vegurinn um Engidal var malarborinn.

Förum frá Stóru-Völlum beint yfir brúna á Skjálfandafljóti og síðan suður með þjóðvegi 843 langleiðina í Viðiker. Beygjum til norðurs eftir vegi um Engidal í 400 metra hæð. Það var áður fínn reiðvegur, en hefur nú verið malarborinn. Reiðslóð hefur ekki enn myndazt utan vegar. Þegar kemur að Jafnafelli, beygir vegurinn til vesturs, en við förum beint áfram upp fellið. Áfram förum við niður af því að norðanverðu, um hlað á eyðibýlinu Hörgsdal og síðan þvert norður á Akureyrarveg, sem er reiðleið frá Mývatni til Akureyrar. Beygjum í austur eftir þeirri leið og förum hana alla leið á þjóðveg til Stangar í Mývatnssveit. Förum með þeim þjóðvegi til norðurs að þjóðvegi 1 tveimur kílómetrum vestan við Helluvað í Mývatnssveit.

37,8 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Kiðagil: N65 30.117 W17 27.375.

Nálægir ferlar: Hellugnúpsskarð, Svartárkot, Gullvegurinn, Sandvatn, Mývatnsheiði.
Nálægar leiðir: Hörgsdalur, Kleifarsund, Sandfell, Heiðarsel, Gautlönd.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Sæmundur Eiríksson

Dyngjufjalladalur

Frá Suðurárbotnum um Dyngjufjalladal að Dreka við Öskju.

Förum frá Suðurárbotnum. Þar förum við þvert yfir Biskupaleið um Ódáðahraun. Frá fjallaskálanum Botna förum við suðaustur eftir jeppavegi yfir Ódáðahraun og austan við Fjallöldu förum við inn í Dyngjufjalladal. Förum suður allan dalinn meðfram Dyngjufjöllum að vestanverðu. Síðan vestan við Kattbeking og sunnan við hann komum við á fjallveg F910 um Ódáðahraun. Förum áfram suðaustur að vegamótum, þar sem Gæsavatnaleið liggur úr suðri. Við höldum áfram austsuðaustur að Flæðum Jökulsár á Fjöllum. Þaðan förum við norðaustur og milli Dyngjuvatns að vestan og Vaðöldu að austan. Þegar við komum að Vaðöldu, beygir leiðin norður að Dyngjufjöllum. Við förum norður með austurhlið þeirra að skálanum Dreka við leiðina inn í Öskju.

43,0 km s
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.
Botni: N65 16.164 W17 04.061.
Dyngjufell: N65 07.495 W16 55.280.
Dreki: N65 02.493 W16 35.710.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Suðurá, Svartárkot, Krákárbotnar, Öskjuleið.
Nálægar leiðir: Biskupaleið, Suðurárhraun, Ódáðahraun, Gæsavötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Draugagrund

Frá fjallaskálanum á Hólasandi um Draugagrund að Námafjalli við Mývatn.

Leiðin varð til við rannsóknir á jarðhita í Gjástykki. Hún liggur norður og austur fyrir Gæsafjöll og síðan suður að Kröflu. Gígaröð Leirhnjúks gaus í Mývatnseldum 1725-1729. Álma úr hrauninu rann út í Mývatn vestan Reykjahlíðar. Hraunið hlífði gömlu kirkjunni, sem sést enn í hraunjaðrinum.

Byrjum við sæluhúsið við þjóðveg 87 á Hólasandi. Rétt norðan skálans er jeppaslóð til norðausturs. Við fylgjum þeirri slóð norðaustur um Hraunsöldu í Randir. Síðan jeppaleið til austurs norður fyrir Gæsafjöll um Draugagrund og áfram austur að slóð, sem liggur til suðurs um Gjástykki. Við förum suður þá slóð um Sandmúla og Víti að Kröflustöð og þaðan með veginum áfram suður að þjóðvegi 1 hjá Hverarönd við Námaskarð.

31,5 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Hólasandur: N65 44.167 W17 06.397.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þeistareykir, Péturskirkja.
Nálægar leiðir: Randir, Hrútafjöll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Draflastaðafjall

Frá Draflastöðum í Fnjóskadal að Skuggabjargaskógi í Dalsmynni.

Mela- og Skuggabjargaskógur er meðal stærstu og mestu birkiskóga landsins. Þar er birkið síst lakara en í Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi og Bæjarstaðaskógi. Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina Skuggabjörg og hluta jarðarinnar Mela árið 1948, en þær voru þá báðar komnar í eyði. Skógurinn var svo friðaður fyrir beit. Að sama skapi er langt liðið síðan skógurinn var nýttur og því hefur hann þróast sem náttúruskógur. Hægt er að ímynda sér að svona hafi landið litið út við landnám. Þetta er fyrst og fremst birkiskógur, lítið er um furu og greni. Í skóginum er mjög gott berjaland. Dráttarvélaslóð er um skóginn. Fnjóská liðast um fyrir neðan skóginn.

Förum frá Draflastöðum eftir jeppaslóð til norðurs milli Fnjóskár að austan og Draflastaðafjalls að vestan. Komum í Skuggabjargaskóg, þar sem Fnjóská sveigir til vesturs um Dalsmynni. Þar er slóð um skóginn að Laufási við Eyjafjörð.

5,1 km
Þingeyjarsýslukr

Jeppafært

Nálægir ferlar: Skuggabjörg, Fnjóskadalur, Gönguskarð.
Nálægar leiðir: Uxaskarð, Flateyjardalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Blæja

Frá Botni í Þorgeirsfirði að Látrum á Látraströnd.

Leiðin frá Botni að Látrum er ekki birt hér til að hvetja menn til að fara hana með hesta. Hún er nógu þung gangandi fólki, þótt ekki verði einnig að hafa gát á hrossum. Samt var þetta eina hestfæra leiðin úr Fjörðum til Eyjafjarðar, önnur en heiðin suður að Grýtubakka. Engar sögur fara að vísu af slysum á leiðinni, en hún er skelfilega hrikaleg. Ferðaþjónustuaðilar fara hana samt reglulega með trússhesta. Og útsýnið af leiðinni er stórkostlegt. Ekki sama leið og Uxaskarð milli Flateyjardals og Köldukinnar.

Förum frá Botni í Þorgeirsfirði vestur yfir Mígindiskamb og sneiðinga vestur og upp Háu-Þóru, allt upp í Blæjukamb, þar sem gatan er í bröttum sneiðingum og tæp slóðin fremst á kambbrúninni. Síðan bratt niður í dalverpið Blæju og aftur upp annan kamb enn hærri, Hnjáfjall, einnig í bröttum sneiðingum. Þar erum við í 400 metra hæð og snarbratt niður í sjó. Leiðin liggur svo hjá Messukletti um skriður niður í Keflavíkurdal og suður dalinn meðfram Gjögri að Uxaskarði. Leiðin liggur skáhallt upp í Fossbrekkur, þar sem undirlendið þrýtur. Þar förum við bratt upp í sneiðingum. Uxaskarð heitir lægðin í fjallinu, í 510 metra hæð. Niður af því förum við snarbrattar melbrekkur niður í Fossdal og strax yfir Fossá. Þaðan er greið leið inn að Látrum á Látraströnd í Eyjafirði.

13,4 km
Þingeyjarsýslur

Erfitt fyrir hesta

Skálar:
Þönglabakki: N66 09.120 W18 07.399.
Keflavík: N66 10.055 W18 15.070.
Látur: N66 06.987 W18 18.972.

Nálægar leiðir: Látraströnd, Fjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Bleiksmýrardalur

Frá Reykjum í Fnjóskadal um Bleiksmýrardal að fjallaskálanum í Ytri-Mosum norðan Kiðagils.

Um Bleikmýrardal reið Þórður kakali, þegar hann kom út í Gása í Eyjafirði og flúði suður Sprengisand undan sendimönnum Kolbeins unga. Bleiksmýrardalur er oft talinn vera lengsti dalur á Íslandi. Hann er einn af þrem dölum sem ganga suður og upp úr Fnjóskadal. Bleikur sá sem dalurinn er kenndur við var hestur sem tók þátt í síðasta hestaati, sem sögur fara af á Íslandi. Í Bleiksmýrardal voru fyrrum margir bæir, svo sem Bleiksmýri, en nú eru þeir allir í eyði.

Förum frá Reykjum í Fnjóskadal suður Bleiksmýrardal. að Skarðsá. Áfram suður Bleiksmýrardal um fjallaskálann Bleik og síðan lengst suður dal. Förum svo suðaustur á hrygg austan dalsins og áfram suðaustur hálendið. Förum norðan við Sandfell um Sandfellsdal að fjallaskálanum í Ytri-Mosum.

60,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Bleikur: N65 24.320 W17 46.405.
Ytri-Mosar: N65 11.634 W17 29.492.

Nálægir ferlar: Bíldsárskarð, Fnjóskadalur, Hellugnúpsskarð, Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Gásasandur, Hellugnúpur, Gönguskarð vestra, Kiðagil, Íshólsvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Bláhvammur

Frá Vogaflóa í Mývatnssveit hringleið að Bláfelli til Garðs í Mývatnssveit.

Hverfjall eða Hverfell er eitt þekktasta fjall landsins, nánast hringlaga gígur um tvo kílómetra að þvermáli, orðinn til í sprengigosi. Í Selhjallagili er voldugt og undið stuðlaberg. Bláhvammur er gróið land í hrauninu með skógi í undirhlíðum Bláfells.

Förum frá Vogaflóa austur jeppaslóð til Hverfjalls og síðan suðsuðaustur frá fjallinu meðfram Lúdentsborgum austanverðum að krossgötum. Þar er slóð austur fyrir Hvannfell á Almannaveg. Við förum suður að Bláfelli um Þrengslaborgir. Þar er þverslóð suðaustur í Heilagsdal. Við förum með vesturhlið Selhjalla í Bláhvamm norðan við Bláfell. Þaðan förum við til vesturs fyrir norðan Bláfell. Slóðin tekur krók til suðurs fyrir vestan Bláfell, en þversnýr síðan til norðvesturs að Sandaskarði við Kráká. Þaðan liggur leiðin norður um Sveiga, Hellur og Grænavatn að þjóðvegi 1 við Garð.

33,0 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Hverfjall, Almannavegur, Heilagsdalur, Kráká.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Bíldsárskarð

Frá Kaupangri eða Þórustöðum í Eyjafirði að Sörlastöðum í Fnjóskadal.

Tignarlegur fjallvegur með frábæru útsýni yfir Eyjafjörð og Eyjafjarðarsveit. Brött reiðleiðin milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals um Bíldsárskarð hefur ætíð verið fjölfarin. Núna er hún helzta tengileið hestaferðamanna milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna. Akureyringar fara þessa leið til Sörlastaða. Það er eyðibýli í umsjá hestamannafélagsins Léttis innarlega í Fnjóskadal, rétt sunnan við mynni Timburvalladals. Í Bíldsárskarði eiga engir bílar að geta verið á ferð. En hér hafa menn böðlazt um á torfæruhjólum og skemmt leiðina.

Byrjum á þjóðvegi 829 sem liggur suður Eyjafjörð austan Eyjafjarðarár. Skilti merkt reiðleiðinni er við þjóðveginn nálægt Þórustöðum sunnan við Kaupangur. Sneiðum norður hlíðina að Bíldsá og förum með henni bratt um sneiðinga upp skarðið. Síðan austur skarðið um Axlir í rúmlega 620 metra hæð. Þaðan förum við til norðausturs sunnan við Sölvagil og fljótt suðaustur frá gilinu niður hlíðarnar að Grjótárgerði í Fnjóskadal. Þar förum við með þjóðvegi 833 suður að Illugastöðum og yfir brú á Fnjóská. Höldum áfram austan ár eftir reiðgötum um eyðibýlið Belgsá suður að mótum Fnjóskár í Bleiksmýrardal og Bakkaár í Timburvalladal. Förum yfir Bakkaá ofan við ármótin og síðan með línuvegi vestan árinnar inn Timburvalladal. Unz við komum að Snæbjarnarstöðum, sem eru andspænis Sörlastöðum austan árinnar. Förum þar austur yfir ána og beint að Sörlastöðum, sem eru í 240 metra hæð. Einnig er hægt að ríða með jeppaslóð austan Bakkaár og fara aldrei yfir ána.

27,1 km
Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.

Nálægir ferlar: Fnjóskadalur, Hellugnúpsskarð.
Nálægar leiðir: Melgerðismelar, Gönguskarð vestra, Gásasandur, Hellugnúpur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Jónas Kristjánsson, Herforingjaráðskort og Sæmundur Eiríksson

Biskupaleið

Frá Kvíum við Skjálfandafljót um Suðurárhraun, Suðurárbotna, Kerlingardyngju og Vörðufell að Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum.

Þetta er sennilega gamla Biskupaleiðin yfir Ódáðahraun, greiðfær og merkt með vörðum. Henni er betur lýst í leiðunum: Suðurárhraun, Kerlingardyngja og Veggjafell. Þar er fjallað um hvern fyrir sig hinna þriggja hluta leiðarinnar. Öll Biskupaleið yfir Ódáðahraun er vörðuð. Jón Sigurgeirsson frá Helluvaði leitaði að vörðunum og fann þær. Mynda misjafnlega gisinn leiðarvísi um þennan forna þjóðveg, sem var í greiðri notkun fram á sautjándu öld, en týndist síðan að mestu. Ingvar Teitsson færði vörðurnar í GPS-net og skrifaði góðan bækling, sem heitir “Biskupaleið yfir Ódáðahraun”. Síðastur manna fyrri alda fór Bjarni Oddsson sýslumaður árið 1636. Síðan týndist leiðin og var týnd í hálfa fjórðu öld.

Byrjum við Kvíar við Skjálfandafljót, neðan við Kiðagil. Förum norðaustur um Suðurárhraun í Suðurárbotna og síðan um Krákárbotna og fyrir suðurenda Bláfellshala. Þaðan til austur milli Ketildyngju að norðan og Kerlingardyngju að sunnan. Suðaustur um Bræðraklif í Hafragjá norðaustan Gjáfjalla og áfram suðaustur um Veggjafell í Grafarlönd og þaðan austur fyrir Ferjufjall sunnanvert að Ferjuhyl á Jökulsá á Fjöllum. Sjá nánari leiðarlýsingar um Suðurárhraun, Kerlingardyngju og Veggjafell.

88,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Kvíakofi: N65 06.739 W17 31.179.
Botni : N65 16.164 W17 04.061.
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.

Nálægir ferlar: Fjórðungsalda, Suðurá, Suðurárbotnar, Krákárbotnar, Réttartorfa.
Nálægar leiðir: Suðurárhraun, Kerlingardyngja, Veggjafell, Dyngjufjalladalur, Almannavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort