Ísafjarðarsýslur

Hestfjarðarheiði

Frá Botni í Dýrafirði að Hestfirði.

Greiðfær og stutt leið. Áður fyrr var farið með fjárrekstra um heiðina til slátrunar. Margir lentu í hrakningum við það tækifæri og hrökkluðust niður í aðra firði.

Förum frá Botni inn dalinn og upp úr honum norðanverðum á Hestfjarðarheiði og áfram niður í Hestfjörð.

13,1 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Glámuheiði nyrðri.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hesteyrarskarð

Frá Hesteyri í Hesteyrarfirði um Hesteyrarskarð til Miðvíkur í Aðalvík.

Förum frá Hesteyri norðvestur um Hesteyrardal í Hesteyrarskarð í 280 metra hæð. Þar skiptast leiðir, Önnur liggur um Mannfjall að Látrum, en þessi liggur beint vestur í Miðvík.

7,1 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Sléttuheiði, Kjaransvíkurskarð, Hesteyrarbrúnir, Háaheiði, Mannfjall, Þverdalsdrög, Aðalvík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hesteyrarbrúnir

Frá Hesteyri í Hesteyrarfirði um Hesteyrarbrúnir og Kjaransvíkurskarð til Kjaransvíkur.

Vörðuð leið og töluvert farin áður fyrr. F

örum frá Hesteyri norðaustur Kúsbrekku í sneiðingum upp á Hesteyrarbrúnir og síðan áfram með brúnunum og undir Kistufelli að Andbrekkum undir Kjaransvíkurskarði. Við förum austnorðaustur brattar brekkurnar. Þar komum við inn á leið úr botni Hesteyrarfjarðar. Förum áfram eftir þeirri leið austnorðaustur í 430 metra hæð í Kjaransvíkurskarði. Síðan áfram norðnorðaustur Jökladali niður að eyðibýlinu í Kjaransvík.

7,9 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Kjaransvíkurskarð, Sléttuheiði, Háaheiði, Fljótsskarð, Hraunkötludalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Heiðarskarð

Frá Bolungarvík um Heiðarskarð til Hnífsdals.

Mikið og gott útsýni er úr skarðinu.

Á Vestfjarðavefnum segir um leiðina frá Hnífsdal: “Leiðin fram dalinn liggur um Heiðarbraut og úr þorpinu nokkuð uppi í hlíðinni og heldur áfram inn lyngi vaxna hlíð. Örlitlu framar en Lambaskál, eru tóftir bæjarins í Fremri-Hnífsdal, neðan undir Miðhvilft. Þægilegast er að fylgja slóða af veginum nokkru áður en kemur að Fremri-Hnífsdal upp hlíðina að vatnsveitustíflu, sem þar er, og áfram um slóða ofan á vatnslögn Hnífsdælinga og fara síðan yfir Hnífsdalsá rétt neðan stíflu. Þaðan má fylgja gömlu götunni og kemur fljótlega að sneiðingum, sem liggja nokkuð upp hlíðina, en svo hverfur gatan uns komið er ofar og lengra fram á dalinn.”

Förum frá Bolungarvík eftir vegarslóða suður Syðradal vestan við Syðradalsvatn. Við förum til suðurs eftir vatnsveituslóð upp úr dalbotninum meðfram Fossá upp á Reiðhjalla og áfram suðsuðaustur upp í Heiðarskarð í 500 metra hæð. Niður úr skarðinu austur í Hnífsdal, sumpart um sneiðinga og síðan austnorðaustur dalinn um eyðibýlið Fremri-Hnífsdal til byggðarinnar.

13,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Skálavíkurheiði, Grárófuheiði, Gilsbrekkuheiði, Geirsteinshvilft, Þjófaskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Háaheiði

Frá Glúmsstöðum í Fljóti um Háuheiði til Hesteyrar í Hesteyrarfirði.

Leiðin er einnig kölluð Dagmálaskarð.

Í Árbók FÍ 1994 segir: “Upp Hesteyrardal og um Dagmálaskarð liggur dáskemmtileg leið norður í Fljót á Háuheiði og ofan af henni er komið í Glúmsdal í Fljóti þar sem við tekur íðilfagurt land. Á leiðinni er indælan gróður að sjá undir Kagrafelli og víðsýni mikið er af háheiðinni yfir Aðalvík og fjalllendið norðan hennar. Þéttar og stæðilegar vörður vísa til vegar yfir grjótið efst á Háuheiði.”

Förum frá Glúmsstöðum suður Glúmsdal á Háuheiði í 500 metra hæð. Þaðan suður um Dagmálaskarð austan við Kagrafell og niður Hryggi og suður Lönguhlíðardal að Hesteyri.

12,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Sléttuheiði, Hesteyrarskarð, Hesteyrarbrún, Kjaransvíkurskarð, Fljótsskarð, Almenningar, Kjölur, Hraunkötludalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hauksdalur

Frá Hrafnseyri í Arnarfirði um Hauksdal til Ketilseyrar í Dýrafirði.

Á Hrafnseyri bjó Hrafn Sveinbjarnarson, einn af höfðingjum Sturlungaaldar og mestur læknir þess tíma, átti í deilum við Vatnsfirðinga og féll í bardaga á Hrafnseyri, sem þá hét Eyri. Í sögu hans segir: “Til einskis var honum svo títt, hvorki til svefns né matar, ef sjúkir menn komu á fund hans, að eigi mundi hann þeim fyrst nokkra miskunn veita. Aldrei mat hann fjár lækning sína. Við mörgum mönnum vanheilum og félausum tók hann, þeim er þrotráða voru, og hafði með sér á sínum kostnaði, þangað til þeir voru heilir.” Jón Sigurðsson forseti fæddist á Hrafnseyri og ólst þar upp. Þar er nú safn til minningar um hann.

Förum frá Hrafnseyri norður dalinn að austanverðu og beygjum til austurs inn Hauksdal og um Fossabrekku norðaustur fjallið í 660 metra hæð. Síðan norðnorðaustur og niður í Ketilseyrardal og norður dalinn að Ketilseyri í Dýrafirði.

13,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Lokinhamrar, Glámuheiði

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hafnarskarð

Frá Steinólfsstöðum í Veiðileysufirði um Hafnarskarð að Höfn í Hornvík.

Vandlega vörðuð og auðfarin leið. Undir Lónhorni þarf þó að sæta sjávarföllum. Í Árbók FÍ 1994 segir: “Vörðurnar byrjast ofan við fyrsta hjallann sem upp er farið. Stór björg verða á leiðinni og um miðja vegu upp í skarðið er Líkaklettur, allstór; undir honum eiga átján menn að hafa orðið úti. Áin fossar fram á hægri hönd en til vinstri handar skaga sundurslitin klettabeltin í Lónhorni sunnanverðu, efst ber mjóar strýtur við loft og örninn er á veiðum yfir höfði manns. Alla leið upp í skarðið er þægilegur smáhækkandi á grjótholtum og mosatóm. Þeir sem fyrstir ganga Hafnarskarð á vorin fylgja förum tófunnar í fönninni í skarðinu.”

Förum frá Steinólfsstöðum austur með firðinum undir Lónhorni og inn í fjarðarbotn. Síðan norðaustur fyrir vestan Veiðileysuá upp í Hafnarskarð í 520 metra hæð. Síðan áfram niður með Víðisá vestanverðri norðaustur að Höfn í Hornvík.

12,0 km
Vestfirðir

Skálar:
Hornvík: N66 25.666 W22 29.440.

Nálægar leiðir: Hlöðuvíkurskarð, Atlaskarð, Kýrskarð, Djúpahlíð, Töfluskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Göngumannaskarð

Frá Bæ í Trékyllisvík um Göngumannaskarð að Selvík í Reykjarfirði.

Byrjum við þjóðveg 643 hjá Bæ í Trékyllisvík. Förum suður og síðan suðsuðvestur í Nónhyrnu, síðan um Göngumannaskarð. Og loks niður og suður Reykjafjarðarfjall innan við Selvík, á veg 643 í Reykjafirði.

5,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Naustavíkurskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Göngudalsskarð

Frá Tjaldanesi í Arnarfirði um Göngudalsskarð að Kirkjubóli í Dýrafirði.

Þessi leið er ekki fær hestum. Litlar vörður í dalnum auðvelda ferð. Tjaldanesdalur er leif af elztu megineldstöð landsins, Tjaldaneseldstöðinni, og sér þess merki í gabbró og litskrúðugu líparíti. Hér er mikið berjaland. Mikið útsýni er í Göngudalsskarði.

Förum frá Tjaldanesi norðnorðvestur Tjaldanesdal vestan árinnar. Þar sem dalbotninn sveigist til vesturs förum við áfram norður og um brattar skriður upp í Göngudalsskarð í 580 metra hæð. Síðan förum við norðnorðvestur og niður Göngudal og síðan norður Kirkjubólsdal eftir vegarslóða að Kirkjubóli í Dýrafirði.

12,0 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Lokinhamrar, Álftamýrarheiði, Glámuheiði, Sandafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Grímsdalsheiði

Frá Hóli í Önundarfirði um Grímsdalsheiði að Kvíanesi í Súgandafirði.

Byrjum hjá þjóðvegi 64 við eyðibýlið Hól milli Hvilftar og Kaldár, austan við Flateyri í Önundarfirði. Förum norðaustur og upp Hólsdal og Garðadal. Síðan norður og norðvestur yfir Grímsdalsheiði í 660 metra hæð. Norður í Grímsdal og norðvestur og niður með Kvíanesá norðanverðri að Súgandafirði rétt vestan Klúku, þar sem heitir Kvíanes.

6,8 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Súgandi, Gilsbrekkuheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Grárófuheiði

Frá Bolungarvík að Selárdal í Súgandafirði.

Nafnið stafar af þokuslæðingi, sem tíðum var á heiðinni.

Förum frá Bolungarvík suðvestur Tungudal, upp Fögruhlíð, á Grárófuheiði í 620 metra hæð. Síðan niður Kræfuhjalla, í Selárdal og niður hann að norðurströnd Súgandafjarðar.

10,8 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Nálægar leiðir: Súgandi, Gilsbrekkuheiði, Heiðarskarð, Geirsteinshvilft, Skálavíkurheiði, Hraunsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Grafaskarð

Frá Heydal í Mjóafirði um Grafaskarð að Kálfavík í Skötufirði.

Förum frá Heydal upp með Bæjargili beint upp af bænum og síðan norðvestur yfir fjallið, í 500 metra hæð. Niður um Grafaskarð í fjallsbrúninni að Kálfavík.

11,6 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Skötufjarðarheiði, Glámuheiði nyrðri, Gljúfradalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Gljúfradalur

Frá Heydal í Mjóafirði um Gljúfradal að Vörðuvík í Mjóafirði.

Brekkan upp úr Heydal er mjög brött.

Förum frá Heydal beint norðnorðaustur á fjallið, bratta leið. Norður fyrir austan Vatnsskarðsvatn og fyrir austan Lönguvötn að Gljúfurá og norður með henni að austanverðu. Beygjum með ánni austur í Gljúfradal og fylgjum ánni niður að Vörðuvík.

10,4 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Grafaskarð, Skötufjarðarheiði, Glámuheiði nyrðri.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Glámuheiði nyrðri

Frá botni Mjóafjarðar í Ísafjarðardjúpi til Dýrafjarðar.

Á Sturlungaöld var ekki jökull á Glámu frekar en í dag og því var leiðin um hana kölluð Glámuheiði. Þorvaldur Vatnsfirðingur fór 1213 norðan úr Ísafirði um Glámuheiði til Arnarfjarðar í aðför að Hrafni Sveinbjarnarsyni á Eyri. Þorvaldur sendi 1222 Hallbjörn Kalason út yfir Glámu á Sanda í Dýrafirði til Odds Álasonar til að hvetja hann til að letja Hrafnssyni til hefnda. Órækja Snorrason fór 1234 yfir Hestfjarðarheiði og Grunnvíkingar samtímis yfir Glámuheiði og fundust þeir í Arnarfirði innan við Eyri og fóru að Oddi Álasyni.

Byrjum í Heydal í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Þaðan fóru menn vestsuðvestur um Heydal og síðan vestur brekkuna fyrir vestan Skötufjarðargil. Síðan liggur leiðin beint vestur um Glámu. Förum norðan við Þingmannavatn og Sjónfríði. Þar liggur leiðin vestur og niður í Dýrafjörð meðfram Botnsá að Botni í Dýrafirði. Syðri leiðin um Glámu liggur úr botni Ísafjarðardjúps til Arnarfjarðar.

24,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Grafaskarð, Skötufjarðarheiði, Hestfjarðarheiði, Lambadalsskarð, Gljúfradalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Glámuheiði

Frá botni Ísafjarðardjúps til Arnarfjarðar.

Nú á dögum er Gláma sjaldan farin. Í Árbók FÍ er leiðin niður í Dýrafjörð talin liggja norðar en hér er sýnt, fyrir norðan Sjónfríði og um Þingmannavatn. Sú leið er hér kölluð Glámuheiði nyrðri.

Á Sturlungaöld var ekki jökull á Glámu frekar en í dag og því var leiðin um hana kölluð Glámuheiði. Þorvaldur Vatnsfirðingur fór 1213 norðan úr Ísafirði um Glámuheiði til Arnarfjarðar í aðför að Hrafni Sveinbjarnarsyni á Eyri. Þorvaldur sendi 1222 Hallbjörn Kalason út yfir Glámu á Sanda í Dýrafirði til Odds Álasonar til að hvetja hann til að letja Hrafnssyni til hefnda. Órækja Snorrason fór 1234 yfir Hestfjarðarheiði og Grunnvíkingar samtímis yfir Glámuheiði og fundust þeir í Arnarfirði innan við Eyri og fóru að Oddi Álasyni.

Byrjum í botni Ísafjarðardjúps. Úr Ísafirði fóru menn suður á heiðina um Gjörfadal, þar sem heitir Skálmardalsheiði. Beygðu svo til vesturs eftir háheiðinni. Einnig mátti fara upp á heiðina úr öðrum fjörðum Ísafjarðardjúps, Mjóafirði, Skötufirði, Hestfirði og Álftafirði. Niður af heiðinni mátti fara í botn Dýrafjarðar og þaðan út á Sanda eða niður í botn Arnarfjarðar og þaðan út að Eyri. Þannig var farið kruss og þvers um Glámu. Hún var þjóðvegur þess tíma, allt í 900 metra hæð. Þetta var stytzta og fljótasta leið milli fjarða á Vestfjörðum.

Glámuheiði 41,5 km
Vesfirðir

Nálægar leiðir: Eyrarfjall, Skálmardalsheiði, Mjólká, Lokinhamrar, Göngudalsskarð, Kvennaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins