Veitingar

Offita er sjúkdómur

Veitingar

Feitt fólk þjáist. Hefur oft reynt að léttast, en ekkert gengur. Feitt fólk er ekki fyllilega viðurkennt í samfélaginu, sætir gagnrýni og léttúð. Leiðir til sálræns vanda af ýmsu tagi. Samfélagið skilur ekki, að offita er fíkn, sem ekki stjórnast af viljastyrk. Að mörgu leyti eins og áfengi. Fólk er feitt, af því að það er sjúkt, ekki af því að það sé heimskt eða spillt. Hreyfing, hollur matur og virk aðild að tólf spora samtökum geta hamlað gegn offitunni. Of feitt fólk þarf stuðning umhverfisins til að feta í rétta átt. Þarf hins vegar sízt af öllu meðvirkni, sem segir offitu vera í fínu lagi.

Galdralyf til sölu

Veitingar

Las mér til skemmtunar heilsufrétta-sérblað Fréttablaðsins í dag. Snýst um að selja okkur kínalífselexír, snákaolíu og yngingarskot. Sjónhverfingamenn ginntu þannig sveitamanninn öldum saman á þorpsmörkuðum. Nú eru galdralyfin komin í pakka, glös og flöskur og fylla hillur eftir hillur í svokölluðum heilsubúðum. Lítið er þar hins vegar um hollan mat, sem gerir þér gott, ef þú borðar hann í hófi. Einkum er fólk látið telja sér trú um, að það verði magurt af að innbyrða galdralyf. Þau brenni kaloríum eða láti þær hverfa. Ekki man ég til, að neinn af slíkum elexírum hafi fengið vísindalega prófun.

Vinjar í eyðimörk

Veitingar

Auknum straumi ferðamanna er að þakka, að matargerðarlist sáir sér, einkum í hverfi 101. En hún síast líka út á land. Nú er hægt að stikla á steinum um eyðimörk landsbyggðar. Á Suðurlandi er gott að borða í Grindavík (Bryggjan og Salthúsið), á Stokkseyrarbakka (Rauða húsið, Fjöruborðið) og á Klaustri (Systrakaffi). Á Austurlandi er gott í Hornafirði (Humarhöfnin, Pakkhús), Breiðdalsvík (Margrét) og Seyðisfirði (Skaftfell). Á Norðurlandi við Mývatn (Vogafjósið), Akureyri (Rub 23, Örkin) og Hofsósi (Lónkot). Á Vesturlandi í Stykkishólmi (Narfeyrarstofa, Fimm fiskar), Búðum og Ísafirði (Tjöruhúsið).

Fínn fiskur á Rub 23

Veitingar

Rub 23 frá Akureyri hefur fest rætur í Kvosinni. Í kjallara Geysis-hússins á horni Aðalstrætis og Vesturgötu, þar sem áður var Sjávarkjallarinn. Fékk þar afburða sushi og þennan líka fína fisk. Bleikju úr Grindavík með mangó og chili kryddlegi og steinbít með reyktum barbeque kryddlegi. Með fylgdi flott hrásalat og franskir kartöflukubbar. Fiskurinn var nákvæmt hæfilega eldaður. Mæli með bragðmildum kryddlegi með fiski. Sterkur lögur yfirgnæfir fljótlega milda fiskbragð, sem mér finnst eiga að vera aðalsmerki á ferskum fiski. Svo Frábært er, að í hádeginu kostar fiskrétturinn bara 1690 krónur, gjafverð.

Bætt veitingarýni

Veitingar

Dómar notenda á TripAdvisor um veitingahús voru til skamms tíma óvandaðri en dómar þeirra um hótel. Þetta hefur batnað. Meginlandsþjóðir hafa komið inn, Frakkar, Spánverjar og Ítalir og rutt Engilsöxum til hliðar. Hafa meira vit á mat. Rugl hefur minnkað í dómum. Með fjölgun dóma minnka áhrif góðvina og hatursmanna. Lesendur sjá gegnum slíka. Við höllum okkur að skoðunum þeirra, sem TripAdvisor skráir sem Contributor, helzt Top Contributor. Við lestur dóma um hús á Íslandi sjáum við yfirburði nýrra fiskistaða í Reykjavík. Þeir eru einkum Sjávargrillið, Fiskfélagið, Fiskmarkaðurinn, Friðrik V og Höfnin.

Lamb? Nei takk

Veitingar

Í minningunni finnst mér lambakjöt einu sinni hafa verið gott. Núna eins og hver annar bragðlaus kjúklingur. Sundurlaust, skreppur saman í eldun, þurrt og jafnvel seigt. Kokkar hafa líka tekið eftir þessu. Sendu málsaðilum bréf. Kvarta þar yfir löngum flutningi með sláturfé, stressi lamba fyrir slátrun og hraðri færibandavinnu við slátrun. Skrokkar hanga ekki, kúnninn verður að geyma kjötið í viku í kæliskáp. Kvartanalistinn er margfalt lengri. Vinnslan sinnir honum ekki. Samt er reynt að viðhalda fornri frægð með þvættingi um, að íslenzkt sé betra en annað. En fyrr eða síðar segja kúnnarnir: Nei takk.

Alveg mátulega eldaður

Veitingar

Vanmat Rub 23 á Akureyri. Lengi kynnti ég mér ekki staðinn, fannst formúlan minna á krossapróf skyndibitastaða: Velja kartöflu, velja krydd, velja sósu, velja grænmeti. Nú er staðurinn fluttur neðar í gilið, þar sem Friðrik V var áður sællar minningar. Át þar í gær og fór sæll og glaður. Blandað sushi var óvenjulega gott, 3790 kr. Sömuleiðis humar í skelinni, 2490 kr forréttur. Beztur var þó þorskur, 3790 kr, afar ferskur og aldeilis mátulega eldaður, kannski of mikið pipraður. Mæli með, að fólk panti milda kryddun. Enginn uppfinningastaður að hætti Friðriks V, en á pari með góðhúsum í hverfi 101.

Söfnin á Siglufirði

Veitingar

Með Héðinsfjarðargöngum er Siglufjörður kominn í þjóðbraut, klukkutíma frá Akureyri. Síldarbærinn hefur lítið stækkað frá veltiárunum, gömlu húsin eru enn á eyrinni, látlaus og fögur. Mun fallegri bær en Ólafsfjörður og Dalvík. Síldarsafnið er að fæðast í þremur húsum, eftir er að ganga frá skýringum í skipahúsi og vinnsluhúsi. Verður flott, þegar það er fullbúið. Þjóðlagasafn séra Bjarna er annað sérstætt safn, sem vert er að skoða. Einkum þó til að hlusta á stemmur. Veitingahús eru mörg, en lítt spennandi. Borðaði á Rauða kaffinu, því að þar var gott netsamband. En freðni þorskurinn þar var óætur.

Rustalegt fiskihús

Veitingar

Naustið á Húsavík er nýtt fiskréttahús; formúla, sem gæti hentað ferðamönnum í fiskihöfnum landsins. Rustalega innréttað í matsal verbúðar. Mötuneytisleg formíka-borð og plastglös, einföld matreiðsla. Býður krækling á 1000 krónur, humarsúpu, sushi, svo og grillaðan fisk á teini á 2200 krónur. Nær samt ekki máli. Soðinn kræklingur í skelinni var borinn fram í sellerí-soði, DANSKUR, frosinn og þurr. Þorskur á teini var hæfilega stutt grillaður, en ofsaltaður og alltof pipraður. Þú getur svo sem beðið um meira hóf. En á Húsavík mundi ég frekar halla mér að Sölku með ljúfari húsakynnum og ljúfari matreiðslu.

Akureyri fer aftur

Veitingar

Akureyri hefur farið aftur, þótt bæjarstæðið sé alltaf jafn flott. Friðrik V er flúinn á Laugaveginn og fátt eftir um fína drætti í veitingum. Fiskbúðin góða er hætt vegna óbeitar heimamanna á ferskum fiski. Skrítið, að 20.000 manna kauptún hafi hvorki fiskbúð né fínt veitingahús. Þar er þó bakarí og Bautinn hefur staðið fyrir sínu í fimmtíu ár. Kjötborð Hagkaupa er lítils virði og fiskihorn þess skartar nokkrum gömlum fiskibollum. Meira að segja Eymundsson er svipur hjá sjón, netsamband hans er daufara en á Kili. Feginn ég að komast aftur í bleikju og flott netsamband í Dalakofanum í Reykjadal.

Bleikja í Dalakofanum

Veitingar

Sjaldgæft er að fá góðan mat utan hverfis 101 í Reykjavík. Undantekningar eru samt. Til dæmis fékk ég ágæta bleikju úr Vestmannsvatni í Dalakofanum á Laugum í Reykjadal í Þingeyjarsveit. Bleikjan var hæfilega steikt, flestir steikja slíka of lengi. Hún var hæfilega söltuð, flestir salta of grimmt. Með henni var hæfilegt magn af kokteilsósu, flestir láta sósuna vaða yfir diskinn. Kartöflurnar voru raunverulegar og hrásalatið fyrsta flokks. Dýrðin kostaði ekki nema 1800 krónur. Þetta var næstum eins og að vera kominn suður aftur. Var að koma að austan, þar sem kjötsúpa og gúllassúpa réðu ríkjum.

Uggvænlegir ostar

Veitingar

Sigurður Ingi Jóhannsson er þingmaður Framsóknar með áhuga á velferð bænda. Vakti athygli í vetur, þegar hann rakti bann Matvælastofnunar við bakstri bændakvenna til reglugerða Evrópusambandsins. Að vísu kom í ljós, að um allt Evrópusamband eru handaverk bændakvenna leyfð á markaði, þótt þau séu bönnuð hér. Nú hefur þingmaðurinn snúið geira sínum að innflutningi ógerilsneyddra osta. Segir þá hættulega heilsu fólks, enda bannaða í Evrópu. Enginn kannast við bannið, því að frægu frönsku ostarnir eru einmitt ekki gerilsneyddir. En varla fer þingmaðurinn að láta staðreyndir þvælast fyrir sér í hagsmunapoti.

Gerðu okkur að fátæklingum

Veitingar

Kíkti á verðlag nokkurra hjartkærra veitingahúsi úti í hinum víða og frjálsa heimi. Kvöldmatur á Senderens á place de la Madeleine kostar 18.000 krónur á mann og á Alain Ducasse á avenue Montaigne kostar 34.000 krónur á mann. Ef við förum á vinstri bakka Signu kostar maturinn 38.000 krónur á mann á Arpège á rue de Varenne. Íslendingar geta greinilega ekki lengur verið matgæðingar úti í Evrópusambandinu. Svo er fyrir að þakka stefnu Hannesar Hólmsteins og verkum Davíðs Oddssonar, sem leiddu til hruns krónunnar. Þeir félagar og flokkur þeirra þurfa greinilega að svara mér fyrir þungar sakir.

Vatn og aftur vatn

Veitingar

Drekktu vatn. Það er bezti drykkur, sem til er. Hreint, íslenzkt vatn. Ef þér finnst það vera þunnar trakteringar, fáðu þér þá kolsýrt vatn. Hreinn ávaxtasafi hefur þann galla að vera verksmiðjuunnin vara, þar sem trefjum hefur verið spillt. Gos er auðvitað sykurbomba, sem þú verður að forðast. Svipað er að segja um allt áfengi, það er kolvetnisbomba. Auk þess ruglar það dómgreind þína og dregur úr varfærni þinni. Kaffi er fíkniefni út af fyrir sig og kakó er annað fíkniefni. Farðu varlega í hvort tveggja. En notaðu sem mest af vatni, bæði með mat og til að sefa sult milli máltíða.

Flúðaræktað Grundarsalat

Veitingar

Kaffi Grund er andspænis Hótel Flúðum, ódýrari gistikostur, 17.000 krónur á nóttina. Enda eru herbergin fimm án baðs, en snyrtingar eru tvær. Allt er hér hreint og snyrtilegt, en meira máli skipti þráðlaust netsamband ókeypis. Sem kostar þó handan götunnar. Þar er matur dýrari og betri, en samt ágætur hér, einkum Grundar-salatið, sem allt er úr hráefnum frá Flúðum. Hljóðbært er milli herbergja, en samt friðsælt á kvöldin, því að gestir sýndust mér flestir vera á þroskuðum aldri. Morgunmatur var innifalinn, kontínental á bakka, ekki hlaðborð. Ég hefði kosið hafragraut eða kaldar hafraflögur.