Veitingar

Friðrik V kominn heim

Veitingar

Aldrei skildi ég, hvers vegna hægt var að reka matstað á borð við Friðrik V í þorpinu Akureyri. Enda reyndist það ekki hægt. Nú er hann kominn á réttan stað í hverfi 101, þar sem menn lepja latté og hafa ekki vit á kvóta. Hefur slegið sér niður gegnt Kjörgarði við Laugaveg í snyrtilegri holu með plássi fyrir fáa útvalda. Þar ögrar hann allri samkeppni með að selja súpu og rétt dagsins á 1600 krónur í hádeginu. Karrísúpa og steinbítur dagsins sýndu, að Friðrik V er betri en nokkru sinni fyrr. Á kvöldin selur hann þriggja rétta málsverð á 5900 krónur og fimm rétta á 7900 krónur. Munið að panta, 4615775.

Fimm flottir staðir

Veitingar

Hef undanfarið notið þess að borða í öllum fimm matarhúsunum, er ég tel bezt í landinu. Þótt öll séu flott, er hægt að finna þætti, sem betur mættu fara. Sjávargrillið er flottara en Höfnin, en bæði eiga það sameiginlegt Þremur Frökkum, að þar hef ég aldrei fengið ofeldaðan fisk. Þessir þrír staðir eru toppurinn. Stælar í eldhúsi leiða stundum til ofeldunar í Fiskfélaginu. Og stælar í þjónustu benda til, að á Fiskmarkaðinum telji sumir þjónar sig vera stórt númer. Öll fiskhúsin fimm njóta verðskuldaðrar hylli. Alla þessa staði hlakka ég til að heimsækja. Og verðlag allra fimm er þolanlegt í hádeginu.

Þrír Frakkar á stími

Veitingar

Þrír Frakkar halda sínu striki, þótt risið hafi nokkur góð samkeppnishús í fiskréttum. Er einn þriggja matstaða, þar sem ég hef aldrei fengið ofeldaðan fisk. Það er mikið sagt um langan tíma. Hinir staðirnir eru Sjávargrillið og Höfnin. Matreiðsla Úlfars Eysteinssonar er gömul í hettunni, gælir ekki við nútíma stæla í framsetningu. Notar ekki froðuvélar í tíma og ótíma. Ber ekki fram fiskinn kaldan. En maturinn er feitur, steiktur upp úr smjöri og rjóma, oft borinn fram undir ostþaki. Hvergi er annað eins úrval sjávarrétta í boði og hér. Verðið er hæfilegt, 2200-2500 króna fiskréttir í hádeginu, með súpu.

Bistro eða brasserie

Veitingar

Veitingahús eru stundum kölluð bistro eða brasserie upp á frönsku, nánast án sérstakrar ástæðu. Orðin eru þá bara notuð til að gefa franska undirtóna í skyn. Bistro er í raun lítið og fjölskyldurekið veitingahús með einfaldri matreiðslu og þjónustu, opið á matmálstímum. Brasserie er hins vegar fremur stórt veitingahús, oftast opið allan daginn sjö daga vikunnar og frameftir á kvöldin. Hvort tveggja er alþýðlegra en hefðarfrönsk veitingahús með hvítum dúkum og einkennisklæddum þjónum. Þrír Frakkar eru bistro og Sjávargrillið er brasserie, en Holtið er restaurant. Flestir matstaðir eru þó í blandstíl.

Offitu-sprengjan drepur

Veitingar

Samkvæmt grein Vilhjálms Ara Arasonar læknis á Eyjunni í morgun mun aukin sykursýki stytta ævi margra barna og unglinga. Lífsstíll nútímans mun valda minni lífslíkum á næstu áratugum. Ýmsir sjúkdómar, sem einkum hafa hrjáð fólk við aldur, eru þegar farnir að greinast undir niðri á unga aldri. Þar á meðal eru hjarta- og æðasjúkdómar, nýrnabilun, heilablóðfall og blinda. Að mestu er þetta afleiðing af röngu mataræði og lítilli hreyfingu. Vilhjálmur spáir, að helmingur þjóðarinnar fái sykursýki innan fárra áratuga. Tíðnin muni tuttugfaldast. Einkenni rangs lífsstíls má sjá í offitu-sprengjunni.

Utanferðir orðnar óþarfar

Veitingar

Í eina tíð ferðaðist ég utan til að borða. Gerði mér fyrst matarheimsókn til veitingahúsa í London. Síðan forframaðist ég, sat í þrjár vikur í París og snæddi í matargerðarmusterum heimsins. Skrifaði raunar litlar leiðsögubækur og þessar borgir. Síðar bættust New York og Róm í hópinn og raunar ýmsar fleiri borgir. Í þá daga var úrval veitingahúsa lítið hér á landi. Ég man eftir tíma, er hér var bara Borgin, ekki Grillið, Holtið og Naustið. Nú hafa ferðamenn flykkzt hingað og hér hafa risið mörg matarhús, sem bjóða gæði af tagi heimsborganna. Ég þarf ekki lengur að fara utan til að borða notalega.

Vox toppar hlaðborðin

Veitingar

Hádegishlaðborðið á Vox á Hilton ber af öðrum hlaðborðum landsins og kostar bara 3.150 krónur á mann. Ég er að vísu lítið fyrir hlaðborð. Er venjulega orðinn saddur, þegar ég er búinn að finna eitthvað ætt. Slík leit er óþörf á Vox. Þar er afbragðs sushi, flottir grænmetisréttir og girnilegar bombur í eftirréttum, sem sprengja mína kaloríuskala. Veikur hlekkur er kólnað kjöt, svo sem þurr kalkúni og naut á spjóti. Meira en annar hver bísniss-löns er á Vox, staðurinn sneisafullur. Þar var í dag Sérstakur saksóknari og slatti af restinni af víkingum útrásarinnar, sægur lagatækna og annarra siðblindingja.

Poppaðir ömmuréttir

Veitingar

Skruppum á nýnorrænan Dill í Norræna húsinu í hádeginu í gær. Fengum hlýra á grænmeti á 2100 krónur og eplasalat á 1150 krónur. Hvort tveggja gott, varla þó eftir væntingum á slíkum toppstað. Einnig var hægt að fá súpu dagsins. Í hádeginu er Dill ódýr staður, sem býður þrjá poppaða ömmurétti. Matarlúxus er svo að kvöldi, þegar boðinn er einn matseðill á 7400 krónur, séu þrír réttir borðaðir, 8500 krónur, ef þeir eru fimm og 9500 krónur, séu allir sjö snæddir. Verðið tvöfaldast, ef fólk sýpur sérvalið vín með hverjum rétti. Ekkert à la carte er á staðnum. Hefði viljað sjá meiri stíl á matreiðslunni.

Breyttar matreiðsluaðferðir

Veitingar

Kokkar ættu að skipta um matreiðsluaðferðir, ekki bara vegna offitu, heldur einnig vegna almennra heilsufarssjónarmiða. Slepptu djúpsteikingu og láttu pönnusteikingu víkja fyrir grillun, ofnbökun og gufusuðu, sem ekki kalla á olíu eða smjör. Jógúrt og kotasælu í staðinn fyrir sýrðan rjóma. Olíu í stað smjörs. Bakaðar eða gufusoðnar kartöflur í stað franskra. Mjólkurvörur með minnkaðri fitu í stað hinna hefðbundnu. Jógúrt eða kotasælu í staðinn fyrir majónes. Tærar súpur í stað hveitiblandaðra. Þunnt soð í stað þykkra sósa. Allt verndar þetta línur fólks og samræmist ráðlögðu mataræði nútímans.

Kaloríutalning á matseðlum

Veitingar

Veitingahús eru yfirleitt kaloríusprengjur. Maturinn er oft um 200 kaloríum þyngri en matur, sem ég elda heima úr sömu hráefnum. Sem þýðir, að ég þarf að gera sérstakar ráðstafanir dagana, sem ég borða úti. Þarf að ná þessum 200 kaloríum til baka í öðrum máltíðum dagsins. Ruglar fyrir mér skipulag dagsins. Má bara borða svo og svo margar kaloríur á dag til að þyngjast ekki. Veitingahús eru ekki sniðin að slíkum þörfum. Moka smjöri, rjóma, olíu í matinn, hlaða brauði á borð, skammta of stórt. Öllu þessu þarf að verjast til að halda óbreyttri þyngd. Af hverju er kaloríutalning ekki á matseðlum?

Salat er forn fæða

Veitingar

Hrásalöt eins og við þekkjum þau í matreiðslu nútímans voru vinsæl í Hellas og Róm fornaldar. Notkunin minnkaði á miðöldum, nema í Miklagarði. Þaðan kom hefðin aftur til Evrópu á endurreisnartímanum. Bandaríkjamenn eiga heiðurinn af að gera grænt salat að sjálfsögðum þætti sérhverrar máltíðar. Áhrifin að vestan hafa aukið notkun hrásalats um alla Vestur-Evrópu, þar með á Íslandi. Frá upphafi hefur verið algengast að blanda saman ýmsu grænmeti og hella á það ólífuolíu og vínediki, svonefndri “vinaigrette” sósu. Hvarvetna mæla heilsuyfirvöld núna með stóraukinni neyzlu hrásalats í daglegu fæði okkar.

Sjö fiskistaðir á toppnum

Veitingar

Sjö af tíu beztu veitingahúsum Reykjavíkur eru sérhæfðir sjávarréttastaðir. Þrjár ástæður eru fyrir því. Fiskur er bezta hráefnið á Íslandi, betri en í flestum öðrum löndum. Eldunartími á fiski er viðkvæmari en annar eldunartími og því eru sjávarréttakokkar betri en aðrir kokkar. Íslenzkir kokkar eru vel menntaðir og vel meðvitaðir um mikilvægustu þætti starfsins. Sjö toppstaðir í fiski eru þessir, taldir upp í stafrófsröð, en ekki gæðaröð: Fiskfélagið, Fiskmarkaðurinn, Humarhúsið, Höfnin, Sjávargrillið, Sjávarkjallarinn, Þrír Frakkar. Höfum svona marga flotta staði, því að ferðamenn stækka markaðinn.

35 kíló kvödd í gær

Veitingar

Hélt gærdaginn hátíðlegan. Um morguninn mældist ég 90 kíló og hafði þá misst 35 kíló á 30 mánuðum. Lengra ætla ég ekki, en halda þó þessari þyngd. Af því tilefni fór ég í Austur-Indíafélagið. Þar fékk ég kryddleginn lax, vafinn í bananalauf. Kryddið var chili, kúmín, kóríander, túrmerik og engifer. Svo fékk ég blandað grænmeti í þykkri sósu, kryddaðri með kanil, negul, hnetum og lárviðarlaufi. Loks snarkandi heitan kjúkling úr alvöru tandúri leirofni. Var nokkuð léttur í spori, er ég yfirgaf þetta frábæra sendiráð indverskrar menningar. Austur-Indíafélagið er meðal allra beztu veitingahúsa landsins.

Súrsætt leginn hlýri

Veitingar

Þótt ég skrifaði vel um Grillmarkaðinn í Nýja bíó, hafði ég fordóma um hann. Þar er nefnilega ekki fiskur dagsins. Þumalputtareglan segir mér, að slíkir hafi minni metnað en hinir. Samt fékk ég þar í hádegi fyrradags þann bezta hlýra, sem ég hef fengið. Hann var súrsætt leginn og grillaður, með blaðlauk og soja, aldeilis dásamlegur réttur. Við borðið voru einnig snædd grísarif og skelfisksúpa við góðan orðstír. Hlýrinn kostaði bara 1990 krónur og hinir réttirnir 1790 krónur, flott verð. Grillmarkaðurinn er nýtízku arkitektúr í óreiðustíl. Þétt setinn í hádeginu og með þungri tónlist fyrir hávaðafíkla.

Góðborgaralega notalegt

Veitingar

Listasafnið á Hótel Holti er jafn góðborgaralegur og notalegur matstaður sem fyrri daginn. Mahóní í panil og lofti, risavaxin málverk þjóðfræg, teppi á gólfi, tónlist dauf. Kurteisir þjónar bera suðurfranska eldamennsku á borð, nýfranska klassík, toppinn á tilverunni. Lausa við stæla úr froðuvélum og köfnunarefniskútum. Sennilega er þetta of gamaldags fyrir unga fólkið og greifana úr bönkunum. Við prófuðum kræklingasúpu og andalundir, skötusel og tindabikkju. Allt var það milt kryddað og eðal-franskt, en þó vottaði fyrir austrænum engifer-stælum í öndinni. Einréttað á 2.900, tvíréttað á 3.200 kr.