Veitingar

Brengluð kjörþyngd

Veitingar

Hugmyndir fólks um kjörþyngd hafa brenglazt, einkum vegna áhrifa tízkuhúsa. Um langt árabil hefur aukizt þrýstingur á, að fólk eigi að vera þvengmjótt. Þetta er orðið að áráttu hjá mörgum, einkum ungum konum. Áráttan er studd framleiðendum alls konar vöru og þjónustu, sem sögð er hjálpa þér við að grennast. Við þurfum að breyta þessu brenglaða fegurðarmati. Einkum þurfum við að víkka hugtak kjörþyngdar. Þurfum að auka áherzlu á það, sem kallað er offita, en taka léttar á því, sem kallast ofþyngd. Ágætt er að vera fimm til sjö kílóum yfir neðri mörkum ofþyngdar eins og hún hefur verið skilgreind.

Hola í vegg

Veitingar

Notalegustu kaffihúsin eru þau, sem á ensku mundu kallast Hola í vegg. Þar komast kannski átta manns inn í senn, ef þeir sætta sig við að fá ekki sæti. Kaffifélagið á Skólavörðustíg er dæmi um holu í vegg. Þar eru fjórir kollar og þar er hægt að kíkja í blöðin. Haiti var lengi hola í vegg í Tryggvagötu, notalegur staður. Svo fluttist kaffihúsið í verbúðirnar við Geirsgötu í margfalt stærra húsnæði. Jafnframt fór það að bjóða hádegissúpu og jafnvel mat. Við það dreifðist áherzlan út og suður. Haiti er ekki lengur hola í vegg, heldur hefðbundnari veitingastofa með dálítið ringluðum persónuleika.

Nýi hausinn stjörnum betri

Veitingar

Orðinn afhuga stjörnum Michelin. Eru úreltar, fela í sér hvíta borðdúka og sérhæfða vínþjóna, sem reynast mér gagnslitlir. Eru þar að auki hallar undir flókna og gamaldags matreiðslu franska. Í verði stjörnustaða felast því ýmis atriði, sem ekki magna ánægju fólks af að borða úti. Meira vit er í nýjung; haus Michelin-karlsins, sem veittur er þeim, sem bjóða frábæra matreiðslu á hóflegu verði. Með þeirri einkunn færist Michelin nær óskum nútímafólks, sem hefur lítinn áhuga á formfestu. Sumpart fyrir áhrif frá Bandaríkjunum, þar sem veitingahúsalíf hefur löngum verið frjálslegra og slakara en í Evrópu.

Varúð – skatan komin

Veitingar

Kominn er sá tími, að ég þori varla í veitingahús. Við þessi ungu erum ekki hrifin af skötulykt, hvað þá að okkur detti í hug að borða hana. Við látum gamlingjunum það eftir. Kemur fram í nýrri skoðanakönnun. Betra væri þó að tjalda yfir eina sandgryfjuna í Mosfellssveit til að stunda í friði þessa sérkennilegu íþrótt. Fjarri venjulegu fólki. Óbeint skötuát er nefnilega af hinu illa eins og óbeinar reykingar. Kæst skata fer í húsbúnað og föt. Finn skötulykt í marga daga eins og reykingalykt. Því fer ég lítið út að borða fyrir jól. Hallast þá helzt að grænmetisstöðum á borð við Kryddlegin hjörtu.

Uppskriftir toppkokka

Veitingar

Tvær bækur hafa komið frá kokkalandsliðinu. Það er skipað 25 kokkum, sem hafa unnið til verðlauna sem matreiðslumenn ársins um nokkurt árabil. Fyrri bókin heitir Einfalt með kokkalandsliðinu. Þar eru uppskriftir, sem eiga það sameiginlegt, að bara fjögur hráefni eru í hverjum rétti. Síðari bókin er Eldum íslenskt með kokkalandsliðinu. Með klassískum íslenzkum uppskriftum að íslenzkum mat. Eiga það sameiginlegt, að bara fimm hráefni eru í hverjum rétti. Ég þekki af eigin reynslu, hversu hagkvæmt er fyrir fólk í eilífu tímahraki að fylgja einföldum uppskriftum eftir landsins helztu toppkokka.

Óviðráðanleg offita

Veitingar

Offita verður samfélaginu ofsadýr á næstu árum og áratugum. Ört munu magnast sjúkdómar, sem fylgja ofáti. Fimmta hvert barn er þegar of þungt og nærri helmingur fullorðinna. Ástandið er miklu verra en á Norðurlöndum. Við drögum dám af óvenjulega óhollum bandarískum lífsstíl í þessu sem öðru. Fólk, sem lendir í vandræðum með þyngdina, hallast yfirleitt að töfralausnum, hverri á fætur annarri. Í stað þess að borða minna og forðast svengdaraukandi mat. Kominn er tími til að hefja markvissan áróður fyrir heilbrigðu mataræði og heilbrigðri hreyfingu. Annars verður kostnaðurinn um síðir illviðráðanlegur.

Gleymdist á pönnunni

Veitingar

Kokkarnir í Fiskfélaginu voru önnum kafnir við að útbúa fíniríið á diskinn í hádeginu. Svo þeir gleymdu blálöngunni á pönnunni. Varð þurr, dauðasök hvers kokks. Ég hef einfaldan smekk, vil bara tvennt, fiskinn ferskan og hæfilega lítið eldaðan. Allt annað flokka ég sem djönkið. Ég fer ekki út að borða til að éta djönk, jafnvel ekki kartöflustöppu. Sem betur fer var þó engin froða í djönkinu að tízku nútímans. En svona eru örlögin hér á landi. Þótt kokkar læri mikið og séu klárir. Þótt þeir séu lofaðir heima og erlendis. Þá bila þeir of oft á því eina, sem máli skiptir. Mikil vonbrigði með Fiskfélagið.

Hádegistilboð veitingahúsa

Veitingar

Þeir, sem ekki skulda milljarð, verða að gæta sín í viðskiptum við matarhús. Bezta leiðin til að borða á góðum stöðum er að snæða í hádeginu, en ekki að kvöldi. Margir góðir staðir hafa hádegistilboð. Fiskur dagsins kostar 1870 krónur í Sjávargrillinu og 1990 krónur í Fiskfélaginu, 1670 krónur á Caruso, 1800 krónur á Sjávarbarnum, 2350 krónur á Þremur frökkum og 2900 krónur á Holti. Fiskur dagsins með súpu kostar 1990 krónur í Höfninni. Síðan eru hlaðborð á Vox á 3150 krónur og á Sjávarbarnum á 1600 krónur. Lax er á 1990 krónur á Grillmarkaðinum. Fiskmarkaðurinn býður 14 bita sushi á 1990 krónur.

Þjóðargersemi á Grófartorgi

Veitingar

Almennt hafa veitingahús borgarinnar gott orð á sér erlendis, enda eru kokkar vel menntaðir. Sést greinilega af ummælum gesta á TripAdvisor.com. Ferðafólk telur, að hægt sé að koma hingað beinlínis til að borða á góðum matstöðum. Fiskréttastaðir eru í mestu uppáhaldi, svo sem Sjávarkjallarinn, Sjávargrillið, Humarhúsið, Höfnin og Fiskmarkaðurinn. Fremst allra er þó Fiskfélagið á Grófartorgi við austurenda Vesturgötu. Á TripAdvisor má um það langa röð meðmæla, sem flest eru uppi í skýjunum. Fiskfélagið er sannkölluð þjóðargersemi. Frægðarstaður, sem er einn af hornsteinum ferðaþjónustunnar.

Reykjavík er allra verst

Veitingar

Fjölmargir erlendir ferðamenn, sem skrifa í TripAdvisor, eru sammála um, að Reykjavík sé versta veitingahús borgarinnar. Einkum eru þeir ósáttir við þjónustuna og fiskihlaðborð staðarins, en einnig við skort á hreinlæti á salernum. Þeir kalla staðinn ferðamannagildru, tourist trap. Matur er sagður staðinn, kaldur, bragðdaufur og lítt girnilegur. Þjónusta fáist með herkjum og sé þar á ofan seinlát. Reykjavík er í hjarta borgarinnar, á Vesturgötu 2, við norðurenda Aðalstrætis. Mikils virði væri fyrir orðstír landsins, að sem fyrst verði stemmt stigu við þessari græðgis-útgerð á fávísa túrista.

Þakkir fyrir þvaðrið

Veitingar

Gallinn við ráðgjöf fólks á TripAdvisor er, að hún er ekki fagleg. Matið á veitingahúsum líður meira fyrir það en matið á gististöðum. Til dæmis er gefið áberandi hátt fyrir, að staðarhaldari þvaðri mikið við gesti. Stafar af, að ferðafólki leiðist yfirleitt. Það er þakklátt fyrir, að einhver nenni að tala við sig. Því fá Harry’s á Rauðarárstíg, Indian Mango á Frakkastíg og Sægreifinn í verbúðunum svona mikið lof. Matargestir, sem tala saman og láta sér ekki leiðast, þurfa ekki á þessu framtaki hússins að halda. Noti menn ráðgjöf TripAdvisor, þurfa þeir að skilja misjafnan sjónarhól höfundanna.

Nálægt himnaríki í kvöld

Veitingar

Næst himnaríki á ævinni komst ég í kvöld hjá Úlfari Eysteinssyni á Þremur frökkum. Hann hafi fengið ferskan túnfisk hjá makrílbátum. Túnfiskur er bara seldur frystur, svo það var einstakt tækifæri að fá hann ferskan. Meyrari, bragðmeiri og safaríkari en annar túnfiskur. Unaðsleg máltíð. Hrár túnfiskur sashimi í forrétt. Grillaður túnfiskur í aðalrétt, ýmist með piparsósu eða sojasósu með wasabi-kryddaðri kartöflustöppu. Lúða verður aldrei svona meyr og safarík. Þrír frakkar bjóða ætíð langan lista af fisktegundum. Bezt er þó hin notalega nærvera, sem fylgir þessum gamalgróna stað og starfsliði hans.

Heimsmenningin á Flúðum

Veitingar

Hrunamannahreppur hefur ekki komið sér upp setri eins og flest krummaskuð landsins. Dónasetri, reðursetri, læknasetri, draugasetri, bófasetri og jafnvel ekki hrunasetri í minningu útrásar. En hreppurinn hefur fengið það, sem merkara er, eþíópskt veitingahús andspænis vínbúðinni á Flúðum og kránni Útlaganum. Á næsta horni eru hótelið og Grund, sem selja ágætan mat. Salatið á Grund er stórfínt. Ekkert af þessu jafnast á við nýja staðinn. sem selur okkur sveitavarginum framandi puttarétti frá Eþiópíu. Meira um þá seinna. Miðað við íbúafjölda eru Flúðir harðari í heimsmenningunni en hverfi 101.

Fornkristni í Hreppunum

Veitingar

Við þurfum ekki lengur að éta ketsúpu eða saltkjöt í Hreppunum. Höfum fengið heimsmenninguna í æð. Eþíópska veitingahúsið á Flúðum býður puttamat á 1900 krónur. Á Menelik fást víðar pönnukökur með engifer- og kardimommu-krydduðu hakki, kotasælu og grænmeti. Við snæðum með puttunum, paprikusósuna líka. Eftir matinn er kaffið brennt og malað að hætti Eþiópíu. Gott kaffi, enda er Eþiópía elzta kaffilandið. Þar og í Kenýa er líka uppruni mannkyns. Því er hátíðlegt að fá sér snæðing í þessari fornkristnu siðmenningu. Í samanburði við hverfi 101: Eitt núll fyrir landsbyggðina og okkur sveitavarginn.

Sofið í kvöldmatnum

Veitingar

Búningur þjónanna var fyrir rest eins slitinn og mublurnar á Mirabelle. Í Curzon Street 56 í Mayfair komst ég fyrst í kynni við klassíska matreiðslu franska fyrir rúmlega 40 árum. Man enn eftir aðalréttinum, turnbauta með gæsalifur, klassík úr Larousse. Fyrsta góða nautasteikin. Á næsta borði sat aldraður greifi með munnþurrkuna um hálsinn. Hann svaf allan tímann og var vakinn upp, þegar nýr réttur kom á borðið. Það var fyrir tíma nýja, franska eldhússins. Nú er þar lokað, Mirabelle er látin, andaðist í hárri elli. Ég er á aldur við greifann, sofna yfir matnum. Hvar er þá Mirabelle fyrir mig?