Veitingar

Hótelsalir á undanhaldi

Veitingar

Við höfum þrjá lúxusmatstaði með alþjóðlegu hótelsniði, Grillið, Holt og Vox á Hilton. Löngum hafa þeir verið í fremstu röð matargerðarlistar á Íslandi, Grillið og Holt áratugum saman. Árin tvö eftir hrunið hafa þeir þó fallið í skuggann. Samkeppni er hörð af hálfu flottra matstaða utan hótela, sem höfða betur til markaðarins. Sérstaklega hafa góðir fiskistaðir dafnað, Humarhúsið og Sjávarkjallarinn, Fiskmarkaðurinn og Fiskfélagið. Venjulegt ferðafólk sækir ekki lúxussali hótela. Fremur setnir af útlendingum í erindrekstri á risnu. Venjulegum kúnnum fækkar, þegar aðalréttir eru komnir í 5000 krónur.

Misvísandi almannarómur

Veitingar

Almannarómur er réttari um hótel en veitingahús. Það sé ég af umsögnum fólks á Trip Advisor. Léttara er að gera sér grein fyrir kostum og göllum hótela. Ég vel mér hótel með hliðsjón af umsögnum fólks. Mat á matstöðum er miklu flóknara. Það snýst um matreiðslu, þjónustu, umhverfi. Enda eru umsagnir um veitingahús á Trip Advisor harla lítilvægar margar hverjar. Af ýmsum þeirra má sjá, að fólk er vant lélegum mat. Sumir álitsgjafar segja: Þetta er bezti maturinn á seðlinum, í Reykjavík eða jafnvel beztur í heiminum. Hafa þó ekki prófað allan matseðilinn, hvað þá öll matarhús bæjarins eða alls heimsins.

Fiskmarkaðurinn dalar

Veitingar

Erlendir gestir segja sumir, að Fiskmarkaðurinn hafi dalað í vetur. Kannski er kokkalandsliðið of tímafrekt fyrir Rósu Sætran. Líklegra er, að velgengni staðarins stígi starfsfólki til höfuðs. Á Trip Advisor er einkum kvartað yfir mistækri þjónustu, jafnvel hrokafullri. Og þetta er staðurinn, sem ég sagði fyrir ári, að væri landsins bezti. Einnig er kvartað yfir matnum, til dæmis vilja sumir ekki vera tilraunadýr fyrir nýjungar. Aðrir segja suhsi ekki nógu gott á Fiskmarkaðnum í Aðalstræti. Í staðinn bendir fólk á nýlegt Fiskfélagið á næsta horni í Grófinni og segja það vera orðið bezt á landinu.

Ekki til að borða, heldur horfa

Veitingar

Woody Allen snæddi þar á hverju kvöldi. Þriðja hvert borð er skipað frægu fólki, leikurum, rithöfundum, útgefendum, íþróttahetjum. Elaine’s við 2ra breiðgögu og 88da stræti á Manhattan, með húsbúnaði af flóamörkuðum. Í gær dó Elaine Kaufmann, eigandi og kokkur. Víðfræg fyrir vondan mat og ruddaskap við fólk, lamdi einn gestinn. Yfirþjónninn var engu skárri. Fáar stjörnur fengust hjá alvöru álitsgjöfum um veitingahús. En selebbin elska að koma og láta misþyrma sér í mat, húsbúnaði og viðmóti. Sálfræðin segir, að slíkir safnist á staði, þar sem fólk kemur ekki til að borða, heldur til að horfa.

Hliðaratriði þrefalda verðið

Veitingar

Reikna má heildarverð borðhalds á veitingahúsi út frá verði aðalréttar. Ef fólk snæðir þríréttað, má reikna með, að forréttur og eftirréttur jafngildi samanlagt aðalrétti, tvöfaldi verðið. Kaffi og hálf borðvínsflaska á mann jafngildir verði aðalréttar í ofanálag. Með forrétti, eftirrétti, kaffi og borðvíni er allt borðhaldið orðið þrefalt verð aðalréttar. Kosti aðalréttur 5000 krónur, má búast við 15000 króna kostnaði alls á mann. Kosti aðalréttur 2000 krónur, má búast við 5000 króna heildarkostnaði. Skynsamlegra væri fyrir veitingahús að hækka verð aðalrétta og lækka verð í hliðaratriðum.

Verðlaun ári fyrir fæðingu

Veitingar

New Square er nýtt veitingahús við Lækjartorg, stofnað af sérfræðingum í kennitöluflakki veitingahúsa. Þótt því hafi verið startað í október 2010, auglýsir það sérstök verðlaun frá Condé Nast Traveller árið 2009. Fæst ekki staðfest af tímaritinu, enda erfitt að fá verðlaun ári fyrir fæðingu. Þetta er ekki heldur talið merkilegt tímarit í bransanum, fullt af skjalli og plöggi. Tímaritið hrósar sótrössum víða um heim. Í kynningu er fjallað um “brjálaða snilligáfu” kokksins. New Square hefði passað frábærlega í kramið fyrir hrun, þegar yfirborgaðir unglingar bankanna voru á skemmtanalífinu.

Ódýr og góður fiskur dagsins

Veitingar

Datt inn á Caruso í Bankastræti og fékk þar ágæta blálöngu. Pönnusteikta með hefðbundnum lauk, svo og léttsoðið grænmeti og bakaða kartöflu. Langan var hæfilega elduð. Yfirleitt er fiskur hér góður, þótt undantekning hafi verið á því fyrir ári. Nú var matreiðslan komin í fyrra horf, góð þjónusta þar á ofan. Fiskur dagsins kostar 1490 krónur í hádeginu, óneitanlega fínt verð. Sá, sem prófaði lasagna, kláraði sitt og var kátur. Caruso er heillastaður. Eins og sumir fleiri staðir í miðbænum er hann miklu ódýrari í hádeginu en á kvöldin. Vegna verðlags borða ég úti nú orðið nánast eingöngu í hádeginu.

Fínn fiskur í Ostabúðinni

Veitingar

Hef oft verið hvattur til að prófa fiskinn í Ostabúðinni á Skólavörðustíg. Hef stundum kíkt niður í svartholið, þegar ég kaupi þar ost. Ekki litizt á blikuna. Mannaði mig núna til að stíga niður í kjallarann. Þar er matur í hádeginu, fiskur á 1380 krónur og súpa 490 krónur. Hálfur skammtur af hvoru kostar aðeins 1440 krónur samtals. Semsagt einn af ódýru stöðum miðbæjarins. Pönnusteikt rauðspretta var mjög fín og með góðu meðlæti. Grænmetissúpa með tómati var þykk og góð í kuldanum. En fransbrauð var ofursalt. Borðað er við há barborð í gluggalausum kjallaragangi, eins lokuðum og ég ímyndaði mér.

Rambað milli veitingahúsa

Veitingar

Vegna skammvinns grasekkilstands ramba ég milli veitingahúsa. Nenni varla að elda fyrir einn. Laðast að gamalgrónum matstöðum með íslenzkri matreiðslu. Þar eru Þrír frakkar Úlfars Eysteinssonar á oddinum. Þar eru líka Laugaás og Tilveran, Höfnin og Jómfrúin, Potturinn og pannan og jafnvel Ostahúsið. Jómfrúin er að vísu dönsk, en íslenzk matreiðsla er það líka. Allir þessir staðir bjóða upp á ferskan fisk og kunna að elda hann. Það er meira en hægt er að segja um ýmsa stjörnustaði, sem státa af landsliðskokkum. Náttúruleg hráefni endast betur í bragðminni mínu en hlaup og froða úr matvinnsluvélum.

Tilveran er fínn staður

Veitingar

Gleymi Tilverunni of oft, því að hún er svo afskekkt, við Linnetstíg í miðbæ Hafnarfjarðar. Hef samt hrósað matstofunni látlaust síðan hún var opnuð fyrir fimm-sex árum. Fiskurinn skiptir mestu, létt eldaður og nákvæmlega passlegur. Drukknar ekki í sósum eins og svo víða á öðrum matstöðum. Súpa, fiskur og kaffi kosta ekki nema 1900 krónur í hádegi. Spergilsúpan var góð, en með of söltu brauði. Steikt grænmeti og hrásalat með steinbítnum var gott, en kartöflustappan hituð í örbylgju. Piparsósan var þægilega mild. Sjálfvalið kaffi var gott espresso, borið fram með konfekti. Vinsæll staður.

Enn hrósa ég Höfninni

Veitingar

Nóg er til af góðum veitingahúsum í 101, sem bjóða góðan mat í hádegi fyrir minna en 2000 krónur. Oftast er matreiðsla sá þáttur ódýrra matstaða, sem er í beztu lagi. Yfirleitt eru húsin samt ekki flott eða hugguleg og bjóða ekki faglega þjónustu. Eitthvað verður undan að láta, þegar verði er haldið niðri. Af góðum veitingahúsum með mat á innan við 2000 krónur í hádeginu lízt mér bezt á Höfnina í Geirsgötu 7c. Þar er súpa og fiskur á 1860 krónur. Húsnæðið er huggulegt, húsbúnaður góður, útsýni fínt, þjónusta fagleg. Þar eru jafnvel tauþurrkur. Fiskmatreiðslan þar er þó bezt, hárnákvæm í tíma.

Efnafræðileg matreiðsla

Veitingar

Datt fyrir nokkrum dögum á fræðsluþátt um El Bulli á erlendri sjónvarpsstöð. Þar var sýnt eitt kvöld í eldhúsi Ferran Adrià, heimsins frægasta kokks. Ég sá hvergi fisk, kjöt eða kartöflur. Allur matur var efnafræðilega höndlaður. Úr vökva var gert hlaup. Úr föstum efnum var gerð froða og vökvi. Eðlisbragð hráefna var einskis metið. Bragð var búið til með bragðefnum. Á fínu máli heitir þetta “molecular gastronomy”. Svo vinsælt, að meira en árs biðlisti var eftir borði á El Bulli. Ég hafna slíkri matreiðslu. Vil finna eðlisbragð hráefna, fiskjar, kjöts, grænmetis, ávaxta, brauðs. Vil náttúrulegt eldhús.

Kæruleysi á Dilli

Veitingar

Sæmilegur kokkur veit, hversu lengi hann má gufusjóða nýjan fisk. Kærulaus kokkur getur gleymt honum í ofninum, en býður hann þá ekki gestum. Smálúða þarf í mesta lagi fjórar mínútur við 200 gráður. Sú, sem ég fékk í Dilli í Norræna húsinu í gær, var orðin þurr. Og þar á ofan hörð í kantinn. Ég gizka á fimmtán mínútur. Ekki neitt, sem ég sækist eftir, þegar ég nenni varla að elda. Ár og dagur er síðan ég fékk svona þungt eldaðan fisk. Hann var borinn fram undir grænmetisfroðu, rófuþynnum og létthituðum gulrótabitum. Ég borða heldur heima hjá mér eða fer annað. Nóg er af sómasamlegum fiskréttastöðum.

Bitlausar sektir veitingahúsa

Veitingar

Bitlausar eru sektir Neytendastofu, þegar veitingahús fá 50.000 króna sekt fyrir að merkja ekki verð á matseðla við inngöngudyr. Verðlausir seðlar eru beinlínis dónalegir og eiga ekki að líðast. Sektaðir voru Fiskmarkaðurinn, Potturinn og pannan og Ruby Tuesday. Neytendastofa á að hækka sektir fyrir dónaskap. Ennfremur þarf Neytendastofa að kanna misræmi á verði á heimasíðum veitingahúsa og raunverði þeirra. Heimasíður samsvara inngöngudyrum og eiga að vera með réttu verði. Einstaka heimasíður eru verðlausar og nokkrar hafa þar lægra verð en raunverð. Veitingahúsum ber að fara að góðum mannasiðum.

Berglaug í örbylgjunni

Veitingar

Frú Berglaug er snyrtilega innréttuð matstofa í gömlu hornhúsi við Laugaveg 12. Gólfin og stiginn eru flott og útsýni er fínt af neðri hæð á regndrepa túrista á Laugavegsvafri. Þjónusta er notaleg, en músíkin er of hátt stillt. Matseðill er stuttur og ferðamannalegur og maturinn er fallega upp settur. Þarna er kjötsúpa og plokkfiskur og girnilegt humarsalat (1690 kr). Ýmislegt var gott í hráefnum, humar fínn og hráskinka frábær. En matreiðslan var sumpart úti að aka. Skötuselur og kartöflur (2290 kr) úr frysti og örbylgju voru engin draumafæða. Betri matstaðir eru til á svæðinu, sem betur fer.