Veitingar

Tíminn stendur kyrr

Veitingar

Annað hvort er ég orðinn magur eða Ítalía feit, því að nú er pláss í bekkjum og stólum. Því get ég fylgt afastrákunum, sérfræðingum í pitsum og pöstum, sem segja þær svaka góðar á Ítalíu. Appelsín-glösin taka líka hálfan lítra og svo er íspinni ókeypis í eftirrétt. Fékk mér fisk dagsins að venju. Lúðan var fín, matreiðslan eins og fyrir rúmu ári. Smálúða með sveppum og blaðlauk í hvítvíns-rjómasósu og hvítum kartöflum. Tíminn stendur hér kyrr. Þröngur og notalegur og ætíð fullsetinn. Mikið skvaldur, ekta ítalskt. Gæðin traust, enda stjórna hér Ítalir. Pítsur og pöstur kosta 2350 krónur, fiskur 3250.

Minni agi á Sjávarbarnum

Veitingar

Hlýrinn var fínn, enda hóflega eldaður. En fiskur dagsins er alltaf hlýri, þegar ég kem á Sjávarbarinn. Og alltaf lauksteiktur, borinn fram með rækjum, pönnusteiktum kartöflum og jöklasalati. Alltaf bara ein uppskrift, dálítið þreytandi. Kartöflurnar minntu á pönnusteikta stöppu. Þetta sleppur, en agi hefur minnkað á Sjávarbarnum. Enginn skilur íslenzku og vinur starfsfólksins hefur gamanmál við diskinn og tefur staffið. Alltaf einhver vinur, en ekki sá sami. Kokkurinn reyndi að selja mér hlaðborð í stað fisks dagsins, nennti ekki að elda. Eigandinn ætti að vera minna í sjónvarpinu og meira á staðnum.

Nýnorræn Narfeyrarstofa

Veitingar

Narfeyrarstofa í miðbæ Stykkshólms býður okkur bláskel, fisk og rituegg úr Breiðafirði og ís frá Erpsstöðum. Lambakjöt frá Eiríki á Berserkseyri og hvannaræktað lamb frá Höllu á Steinólfsstöðum. Kryddið er úr náttúrunni. Borðbúnaður er líka úr nágrenninu, úr Fagradalsleir, mótaður af Sigríði Erlu Guðmundsdóttur. Húsið er 109 ára gamalt og hefur verið fært í upprunalegt form. Nú eiga það og reka Steinunn Helgadóttir og Sæþór H. Þorbergsson. Matstofan er á nýnorrænni línu eins og Dill í Norræna húsinu og Friðrik V, sem lokaðist því miður, á Akureyri. Matreiðslan ber af öðrum á Vesturlandi.

Haiti flutt í verbúðirnar

Veitingar

Eitt bezta kaffihús landsins er flutt í verbúðirnar við Geirsgötu, í næstu verbúð við veitingahúsið Höfnina. Haiti hefur um skeið glatt kaffiunnendur með kaffi, sem Elda Þórisson fær frá ættingjum sínum á Haiti. Fyrir utan allt þetta venjulega latte og cappucino fæst þar fínt tyrkneskt kaffi og aldeilis frábært arabískt kaffi. Hvort tveggja er ketilkaffi, það arabíska með kardimommum. Kaffið frá Haiti hentar vel í þessa lögun, virkar fínt fremur en gróft, þótt ketilkaffi sé. Kosturinn við nýja staðinn er, að þar er pláss fyrir viðskiptavini, sem tæpast var á gamla staðnum í Tryggvagötu.

Herramannsmatur í Höfninni

Veitingar

Í verbúðunum við Geirsgötu eru komnar búðir og matstaðir fyrir ferðamenn, í nágrenni hvalaskoðunarskipa. Þar rekur Brynjar Eymundsson kokkur matstaðinn Höfnina með áherzlu á fiskrétti. Á kvöldin er meðalverð, svipað og á Þremur frökkum. Í hádeginu er súpa og fiskur í boði á 1680 krónur. Gulrótarsúpa með kotasælu og brauði var veruleg fín, en brauðið var ekki merkilegt. Grillaður hlýri var mjög næmt eldaður herramannsmatur með góðum kartöflum og mildri grænpiparsósu, svo og fallegu og fersku salati. Staðurinn er hvítmálaður og fremur hrár, með grófu burðarvirki úr timbri. Árvökulir fagmenn í þjónustu.

Síðasta karlavígið að bila

Veitingar

Í höfuðríki matargerðarlistar er sjálfgefið, að karlinn sé í eldhúsinu og konan í borðsalnum. Þannig eru frönsk veitingahús. Fátítt er, að konur fái Michelin-stjörnur. Hér lærðu konur heimilismatreiðslu í húsmæðraskóla og karlar veizlumatreiðslu í hótelskóla. Nú breytist þetta, konur sækja til valda í karlaríki veitinga. Hrefna Rósa Sætran eldar á Fiskmarkaðinum, einu bezta veitingahús landsins. Íris Hera Norðfjörð á Kryddlegnum hjörtum, Sólveig Eiríksdóttir á Gló og Helga Sörensdóttir á Krúska. Í veitingaríkjum kvenna er ævinlega lögð áherzla á hollustu og gæði umfram myndlist og stæla.

Frábær veitingahús lítil

Veitingar

Fjölgað hefur litlum veitingahúsum, þar sem eigandinn er á gólfinu í eldhúsi eða sal. Yfirleitt bjóða þeir góðan mat og einkum þó gott hlutfall verðs og gæða. Í öllum verðflokkum. Dýr staður er Dill í Norræna húsinu, meðaldýrir Þrír Frakkar á Baldursgötu og Jómfrúin í Lækjargötu. Flestir eru þó ódýrir. Þar á meðal eru staðir framandi matreiðslu, Balkanika á Vitastíg, Santa Maria á Laugavegi, Shalimar í Austurstræti og Brasilía á Skólavörðustíg. Aðrir eru íslenzkir, svo sem Loki á Lokastíg, Kryddlegin hjörtu á Skúlagötu, Gló á Engjategi og Garðurinn á Klapparstíg. Frábærir staðir á góðu verði.

Sólkolinn á Akureyri

Veitingar

Kom til Akureyrar. Leið strax eins og heima hjá mér. Fór beint í fiskbúðina á Garðarsbraut. Þar var tekið móti mér með sólkola, sjaldséðum hér á bæjum. Líka með steinbíti og hlýra og ekki sízt með ófrystri bláskel. Þetta er bara orðið eins og á höfuðborgarsvæðinu. Man þá tíð, þegar ekki var hægt að kaupa fisk á Akureyri. Og er þar mátti bara kaupa fisk í keðjuverzlunum, frosinn. Nú hafa kröfur manna aukizt. Fiskbúðin á Akureyri er vel spúluð og hrein, án fisklyktar. Það er atriði, sem sumir fisksalar flaska á. Fiskifýla fælir frá viðskiptavini og sezt í föt. Nútími matgæðinga er kominn til Akureyrar.

Neyzla sem persónutjáning

Veitingar

Sumt ungt fólk vill tjá persónu sína með neyzlu. Ung kona skýrði fyrir mér, hvernig skíði og snjóbretti og misjöfn notkun þeirra lýstu persónu sinni. Slíkt fólk fer á veitingahús til að lýsa persónu sinni. Telur sig í einum hópi, en ekki í öðrum. Hleypur eftir dellum í vöru og þjónustu. Lætur sér í léttu rúmi liggja, þótt seljendur misnoti það. Leggur lítið upp úr vandaðri matreiðslu góðra hráefna. Sækir fræga skyndibitastaði, sem eru dýrari en góð matarhús. Sækir matstaði fjölmiðlunga, sem almannatenglar setja á stall og fjölmiðlar fjalla um. Hefur lítinn áhuga á gamaldags gæðum. Ímyndin er allt.

Kæruleysi á Brasilíu

Veitingar

Kæruleysi á Brasilíu
Brasilía við Skólavörðustíg 14 er spennandi vegna framandi eldamennsku á portúgölskum grunni Brazilíu. Eldamennskan hefur reynzt mér upp og ofan. Hef fengið þar þykka og öfluga baunasúpu Feijoada og milt grillaðan þorsk. Djúpsteiktur þorskur um daginn var hins vegar greinilega frosinn. Var borinn fram með kassava-graut og sígildu jöklasalati bæjarins. Mér finnst kæruleysi læðast inn. Skipulega tilfinningu vantar í matreiðsluna. Verðið er einnig heldur hærra en tíðkast á etnískum matstöðum borgarinnar, 1900 krónur á fiski og kjúklingi. Betri mat má fá á 1500 krónur sums staðar í miðbænum.

Frábær súpa úr konueldhúsi

Veitingar

Kryddlegin hjörtu á Skúlagötu 17 eru einkum súpustaður. Þar fást í hádeginu fjórar tegundir súpu með brauði staðarins og grænmetissalati á 1490 krónur. Bezta súpan var kókos- og karríkrydduð grænmetissúpa, rosalega bragðsterk. Góð var líka sterk sjávarréttasúpa, en þær fást góðar víðar. Paprikusúpa var líka góð. Lakari var salsasúpa með kjúklingi, hlutlaus súpa. Stórfínt brauð var úr byggi og spelti með tveimur tegundum af hummus. Salatið frambærilegt. Þar voru líka ávextir á borð við epli, appelsínur og ananas í eftirrétt. Fremst í hópi frábærra konu-eldhúsa, sem nú ryðja sér til rúms í borginni.

Jöklasalat brúnt í sárið

Veitingar

Jöklasalat er vinsælt á matstöðum, því að það er stökkt. Hins vegar er það bragðlaust. Verra er, að það verður brúnt í sárið, þegar það er sneitt og síðan látið liggja. Þannig er jöklasalat víða borið fram. Svo sem á Saffran í Glæsibæ. Mér finnst skemmt salat ólystugt, en unga fólkið lætur sig hafa það. Lætur líka selja sér pólitíkusa, sem eru skemmdir í kantinn. Toscana-þorskur dagsins á Saffran kostaði 1490 krónur, borinn fram með rófublöndu, paprikusósu og áðurnefndu jöklasalati. Fremur slappur réttur. Betri var bráðsterk, pakistönsk karrísúpa með kjúklingi, sem fylgdi fiski dagsins.

Krúska fæst í Krúsku

Veitingar

Krúska fæst núna í Krúsku. Um áratugi einkennisfæða náttúrulækningafólks. Blanda af grjónum, flögum, klíði, fræjum og rúsínum. Fínt er, að matstofa á vegum félagsins hafi þennan sögufræga mat á boðstólum. Að vísu er hann ekki borinn fram á staðnum, en fæst í pökkum. Þar eru byggflögur, hafragrjón, rúsínur, rúgflögur, hafraflögur, hveitiklíð og hörfræ. Músli gamla tímans. Að öðru leyti er ágætur matur í boði, réttur dagsins á 1450 krónur. Í gær var of dauft kryddaður tælenskur kjúklingur með hrásalati, daufri kryddsultu og hýðishrísgrjónum. Kjöt er að vísu ekki kórrétt fæða grænmetisfólks.

Frábær þorskur og nautalund

Veitingar

Fékk frábæran þorsk og frábæra nautalund í Dill fyrir helgina. Einkum var mikilvægt, að eldunartími var nákvæmlega réttur. En þetta geta auðvitað fleiri kokkar en þeir, sem eru á Dilli. Staðurinn sérhæfir sig hins vegar í staðbundnum matvælum, til dæmis kryddi úr garðinum. Eldamennskan einkenndist þar að auki af matvinnslu. Kokkarnir búa til kryddaðar froður, hlaup, mauk og stöppur. Verra er, að maturinn var kaldur, þegar hann kom á borð. Stælar gengu langt, þegar eftirrétturinn var eitt jarðarber með ýmsu skrauti, svo sem jarðarberjafroðu og ýmsum dropum. En fiskurinn og kjötið var fínt.

Fín stemmning í Dilli

Veitingar

Dill í Norræna húsinu er grein af sama meiði og frægt Noma í Kaupmannahöfn. Stundar norræna eldamennsku. Notar staðbundin hráefni, til dæmis krydd úr eigin garði og kaupir beint frá bónda. Gælir líka við efnafræði að hætti El Bulli. Breytir til dæmis mat í froðu eða hlaup og vökva í fast efni. Friðrik V var svipaður, en gafst upp, enda á Akureyri. Dill gengur vel, var fullt á fimmtudegi og stemmning fín. Þriggja, fimm og sjö rétta matseðill, sem skipt er um vikulega. Sérvín með hverjum rétti. Sjö réttir með víni kosta 19000 krónur á mann, þríréttað án víns 6900 krónur. Nokkrir staðir eru þó dýrari.