Veitingar

Hádegismatur á 1200 krónur

Veitingar

Santa Maria á Laugavegi 22 býður hádegismat á 1200 krónur, súpu og aðalrétt. Í gær var súpan matarmikil baunasúpa. Aðalrétt má fá hvern sem er af seðli. Venjulega vel ég mexikóska enchilada-pönnuköku með kjúklingi, annað hvort venjulega eða í mole-súkkulaðisósu. Þetta er ágætar pönnukökur, en fremur milt kryddaður matur fyrir minn smekk. Nokkur veitingahús í bænum bjóða mat á þessu ofsalága verði. Þau eru búlgarskt Balkanika á Vitastíg 10, tælenskur Krua Thai á Tryggvagötu 14, Prikið í Bankastræti 12, Loki á Lokastíg 28, indverskt Shalimar í Austurstræti 4 og Brasilia á Skólavörðustíg 14.

Ný matarbylting í Frans

Veitingar

Enn gerist allt í Frakklandi, sem máli skiptir í matargerð. Fyrst franska og fína eldhúsið, sem fór fyrir löngu um allan heim. Síðan komu 1973 samhliða Nýja eldhúsið og Eldhús jarðarinnar. Cuisine Nouvelle tók inn nútímann og Cuisine Terroir tók inn hráefni héraðsins. 30 árum á undan Cuisine Nordique, norrænu afbrigði. Jafnvel blandstíllinn, Cuisine Fusion var að mestu þróaður í Frakklandi. Þar reis 1999 nýr stíll í matargerðarlist, le Fooding, sem hafnar öllum eldri reglum. Í áratug hefur ársrit með veitingarýni um París predikað þessa stefnu. Það er Le Fooding, sem leysir Michelin af hólmi.

Frakkar langt á undan

Veitingar

Le Fooding veitingastíllinn í Frakklandi brýtur hefðina frá Michelin á bak aftur. Nýi stíllinn tekur mið af almennri vellíðan gesta. Fólki getur liðið vel á skyndibitastað, stílblöndustað eða á Bæjarins beztu. Ekki bara á Noma eða Dill. Fooding er alþýðlegur stíll. Vellíðan getur stafað af góðum mat, góðu umhverfi og stemmningu, nýjungagirni, einlægni og tízkuhyggju. Tímarit og leiðsögurit Le Fooding um Frakkland er svipuð bylting frá 1999 og “Nýja eldhúsið” franska var 1973. Er norræn veitingahús eru árið 2010 að meðtaka franska byltingu frá 1973, eru Frakkar með nýja byltingu í millitíðinni.

Sjö góðir í grænmetinu

Veitingar

Sjö góðir grænmetisstaðir eru í borginni. Allir bjóða mat í hádeginu á um 1500 krónur. Allir semsagt ódýrir. Þrír þeirra eru hreinir grænmetisstaðir. Það eru Garðurinn á Klapparstíg 37, Á næstu grösum að Laugavegi 20b og Grænn kostur á Skólavörðustíg 8b. Hinir eru líka með fisk eða kjúkling. Það eru Kryddlegin hjörtu á Skúlagötu 17, Gló í Listhúsi að Engjateigi 19, Krúska á Suðurlandsbraut 12 og Maður lifandi í Borgartúni 24. Kryddlegin hjörtu eru bezt þessara staða og næst kemur Gló. Af hreinu grænmetisstöðunum lízt mér bezt á Garðinn. Býður betri Mexikó-bökur en í Santa Maria handan við hornið.

Tvær uppreisnir kokksins

Veitingar

Í þrjá áratugi hefur Parísarkokkurinn Alain Senderens verið draumakokkur minn. Um 1980, þegar ég kynntist honum, var hann einn framvarða Nouvelle Cuisine. Sú stefna sagði klassískri matreiðslu franskri stríð á hendur, bauð léttari og nútímalegri matreiðslu. Þá rak hann veitingahúsið Archestrate. En hefur síðan 1985 átt Lucas Carton við Madeleine-torg, heimskunna höll spegla og kristals. Í þrjá áratugi hafði hann þrjár stjörnur hjá Michelin. Árið 2005 skrifaði hann Michelin og frábað sér stjörnurnar. Hafnaði Michelin. Hann snarlækkaði verðið, einfaldaði matinn og gerði þjónustuna óformlegri.

Restaurant fær hauskúpu

Veitingar

Tvisvar snæddi ég á Noma og var lítt hrifinn. Samt bezti matstaður heims að mati Restaurant Magazine. Hef ekki sótt hina tvo beztu, El Bulli, sem er að hætta, og Fat Duck, sem var lengi lokað í fyrra vegna skorts á hreinlæti. Enda segir sig sjálft, að marklaus er listi yfir beztu veitingahúsin, sem ekki hefur neitt franskt hús í tíu efstu sætunum. Frans er áratugum framar öðrum í matargerð. Enda er þar heimsins öflugasta bakland, þjóð sem talar um kokka eins og ráðherra. Michelin er skárri mælikvarði en þessi listi. Og nú er bylting í aðsigi í Frans. Gef listanum frá Restaurant hauskúpu í einkunn.

Bezta fiskisúpa ævinnar

Veitingar

Beztu fiskisúpu ævinnar fékk ég í Fiskfélaginu í Grófinni í hádeginu í gær. Rosafína kókossúpu með humri og kræklingi, kostaði bara 1490 krónur. Góðir voru átta bitar af blönduðu sushi, 1290 krónur. Fín var hægt elduð og taðreykt bleikja með fennikel, kryddbrauði, súrmjólkurís og humarfroðu, 1990 krónur. Steiktur saltfiskur með kartöflustöppu og chorizo pylsu var lakari en í fyrra, 1990 krónur, allt of saltur. Eftirréttablanda var á 1180 krónur, þolanleg, en með mikilli froðu. Eldhúsið er stolt af froðugerðarvélinni. Þjónusta flott, matreiðsla djörf og stíllinn fínn. Mun dýrara er á kvöldin.

Hádegið er rétti tíminn

Veitingar

Rétti tíminn til að fara út að borða er í hádeginu á virkum dögum. Þá býður Holt þríréttað á 3500 krónur og Primavera sama á 2850 krónur. Þá býður Vox glæsilegt hlaðborð á 3000 krónur. Í hádeginu bjóða gæðastaðirnir Humarhúsið, Fiskfélagið og Fiskmarkaðurinn aðalréttinn á 2000 krónur. Til samanburðar kostar 1600 krónur í Múlakaffi. Undir því verði í hádeginu eru sómastaðir á borð við Balkanika, Næstu grös, Loki, Fylgifiskar, Shalimar, Sjávarbarinn, Caruso, Kryddlegin hjörtu, Gló. Fáir geta komið því við að borða í hádeginu. En þeir eiga miklu betri kosti en ætla mætti af verðinu á kvöldmatseðlum.

Myndlist eða eldhús

Veitingar

Flest myndlistar-eldhús íslenzkra veitinga eru dýr. Aðalréttir kosta um 5000 krónur. Fólk borgar ekki slíkar upphæðir, nema af sérstöku tilefni. Enda eru fínu staðirnir hálfskipaðir á kvöldin og þunnt skipaðir í hádeginu. Nóg er af ódýrari stöðum og þá er ég ekki að tala um skyndibitastaði. Sumir ódýrari staðanna bjóða fína matreiðslu, en ekki eins listræna. Þeir eru sneisafullir á hverjum degi. Staðir eins og Þrír frakkar og Jómfrúin. Þangað fer fólk til að hittast án þess að stressast. Markaður er fyrir fleiri staði af því tagi, þótt áfram muni nýir myndlistarsalir eldamennsku eiga erfitt uppdráttar.

Dreymir ekki um endurkomu

Veitingar

Hlaðborð eru alltaf hlaðborð, þótt mikið sé í þau lagt. Þú stendur í biðröð, prófar sitt af hverju. Þegar þú veizt, hvað er ætt, ertu þegar búinn að éta á þig gat. Þess vegna er langt síðan ég hef prófað hádegis-hlaðborð á Vox á Hilton. Sushi var þar skást í dag. Sex tegundir, of þéttar og límdar, fást betri annars staðar. Rækjur, lax og moðsoðið naut, allt var það bragðdauft. Kjúklingur á spjóti aðeins betri. Eftirréttir voru margir og flestir góðir. Kaffið var bezt, kostar extra. Hádegishlaðborð kostar 3000 krónur á mann. Það er sanngjarnt miðað við miðlungsgæði. Mig dreymir ekki um endurkomu.

Þorskhnakki Brasilíu

Veitingar

Brasilia á horni Skólavörðustígs og Óðinsgötu er góður matstaður miðað við verð. Þar kostaði grillaður þorkshnakki dagsins á brasilíska vísu 1550 krónur. Borinn fram með cassava-stöppu, hrísgrjónum, hrásalati og djúpsteiktum lauk. Sjálfur fiskurinn var ótrúlega milt grillaður, aðeins lengur en hæfilega. Cuibana nautasteik, eins konar enskt buff með steiktum lauk, kartöflustöppu og baunum var sæmileg. Hún kostaði 1790 krónur. Hvort tveggja var sterkt kryddað að hætti Brasilíu. Súpur kosta 700 krónur og eftirréttir 600 krónur. Hádegisfiskur dagsins kostar ekki nema 1300 krónur.

Borðhald á Fimmvörðuhálsi

Veitingar

Veitingaþjónusta Hótels Holts á Fimmvörðuhálsi með kampavíni og öllu hefði þótt sniðug árið 2007. Þá kepptu útrásarvíkingar í rugli. Senn líður að því, að annar hver fangi á Íslandi hafi étið gull út á spaghettí í Mílanó. Tímar ársins 2007 eru nefnilega liðnir. Líka í veitingabransanum. Aðdáendur stæla í veitingum eru horfnir, orðnir gjaldþrota eða eru í felum. Veitingahús þess tíma hafa sum skipt um stíl eins og Domo. B5 á í erfiðleikum og 101 er bara notað af hótelgestum. Engin eftirsjá er að breytingunni, hefðbundin gildi matarhúsa sjást betur. Veizlan á Fimmvörðuhálsi var bara 2007-sýndarmennska.

Kjörlendi vandasamrar megrunar

Veitingar

Kom loksins í verk að heimsækja Mann lifandi í Borgartúni 24. Veitingahúsið er aukageta verzlunar með svokallað heilsufæði í dósum og glerjum. Í boði var sinnepskryddaður verksmiðju-kjúklingur á 1690 krónur og grænmetisbuff á 1490 krónur. Fyrir utan súpu á 890 krónur og salat-hlaðborð á 1490 krónur, sem mér sýndist ekki spennandi. Kjúklingurinn úr hitakassa var bragðdaufur, en altjend meyr. Grænmetisbuffið var hversdagslegt. Með hvoru tveggja var hrásalat, mestmegnis jöklasalat, svo og hrísgrjónaköggull. Mikil aðsókn var að staðnum. Greinilega kjörlendi fyrir fólk, sem er í vandasamri megrun.

Útsýni til embættisróna

Veitingar

Primavera byrjaði í Húsi verzlunarinnar, en hefur í rúman áratug verið í sjálfu Austurstræti. Á annarri hæð með fínu útsýni til embættis-róna, sem skjótast í fleyg í vínbúðina. Hádegið er rétti tíminn á Primavera, þríréttað á 2850 krónur, svipuð formúla og í Holti, stakir rétti ekki í boði, en val milli þriggja rétta í hverjum flokki. Notalegur staður með hvítum dúkum og munnþurrkum. Nýr matseðill var tekinn í notkun í vikunni. Líkur hinum fyrri, með klassískum Ítalíuréttum, sem koma ekki á óvart. Saffrankrydduð fiskisúpa var flott, sömuleiðis pönnusteikt rauðspretta. Uppvafin grísarúlla var ofelduð, en með létt elduðu grænmeti. Primavera er traustur staður.

Gallabuxur í hádeginu

Veitingar

Dill í Norræna húsinu er eitt fimm beztu matarhúsa okkar með kvöldveizlur á 6900 krónur, 8500 krónur og 9500 krónur. Stakir réttir ekki boðnir. Verðið er í stíl annarra húsa í sama gæðaflokki. Í hádeginu skiptir Dill um föt, þjónarnir í gallabuxum. Bjóða fisk á 1800 krónur, súpu á 900 krónur og salat á 950 krónur, frábært verð. Matreiðslugæðin eru hin sömu og á kvöldin, en flækjurnar minni. Fiskur dagsins var bleikja á kartöflum, stöppu og soðnu grænmeti, með hatti blaðlauksþráða. Salatið var blanda af ýmsu veizlusalati. Súpan var blómkáls- og blaðlaukssúpa. Allt var þetta fyrsta flokks matur.