Veitingar

Ódýrir gæðastaðir í hádeginu

Veitingar

Múlakaffi hefur lengi verið matstaður alþýðunnar, mötuneyti leigubílstjóra og vörubílstjóra. Áður fyrr var það ódýrast. Síðan komu skyndibitastaðir og Múlakaffi varð staður miðaldra einstæðinga. Á allra síðustu árum fjölgaði alvöru veitingastöðrum á sama verði og Múlakaffi í hádeginu. Annað hvert veitingahús í bænum býður hádegisrétt á 1500 krónur og sumir bjóða ódýrari salatrétt. Nokkur fara niður fyrir þetta verð og eru samt góð: Balkanika á Vitastíg, Á næstu grösum á Klapparstíg, Shalimar í Austurstræti, Loki á Lokastíg, Ostabúðin við Skólavörðustíg, Fylgifiskar við Suðurlandsbraut.

Sólveig eldar í Gló

Veitingar

Gló í Listhúsinu við Engjateig er nýjasta skrautblómið í flóru matarhúsa, sem bjóða heilsurétti, einkum fyrir grænmetisætur. Sólveig Eiríksdóttir eldar þar, þekkt af Grænum kosti og matreiðslubókum. Prófaði þar ágætan hnetuborgara með salsa, lárperumauki og salati. Svo og fyrirtaks kjúkling með rósmarín og villisveppasósu. Réttir dagsins kosta 1500 krónur og súpa og salat kosta 1000 krónur. Húsakynni eru tætingsleg á göngum Listhússins og í drungalegu afhýsi. Kryddlegin hjörtu eru annar góður staður af þessum meiði. Maður lifandi, Krúska, Grænn kostur og Á næstu grösum koma næst á eftir.

Breyting á Pottinum og pönnunni

Veitingar

Potturinn og pannan hefur breytt hádegismat. Í stað rétta af seðli er boðið heitt hlaðborð með tveimur kjötréttum og einum fiskrétti. Með fylgja tvenns konar súpur og salatborð og kostar allt saman 1890 krónur. Súpa og salatborð eru áfram á 1390 krónur. Á kvöldin er matseðill. Pönnusteiktur steinbítur var la-la, en fiskur er sjaldan góður úr hitakassa. Purusteik var fyrirtaks, skorpan var ekki of hörð og kjötið var mjúkt. Með þessu var alls konar heitt meðlæti. Að venju er ein hveitisúpa og önnur súpa góð. Nú er komið útibú við Skólabrú niðri í bæ, þar sem verð er 10% hærra en á gamla staðnum í Nóatúni.

Frábært verð á Jómfrúnni

Veitingar

Alltaf er fullt á Jómfrúnni. Fengum borð, áður en skriðan kom. Áll og rækjur á hálfsneiðum í forrétt. Heit lifrarkæfa og djúpsteikt rauðspretta í aðal. Fínn matur, rauðsprettan með næfurþunnri steikarhúð og ekki sekúndu of lengi steikt. Með remúlaði, laxarós, rækjum og sítrónu. Lifrarkæfan með beikoni, sultu, steinselju og sveppasósu. Hér tekst að bjóða mat, sem fólk vill fá. Ódýran mat að danskri hefð, smurbrauð og heitan mat. Annað á lista dagsins: Fiskibollur, pönnusteikt bleikja, lambalifur, grísasnitsel og purusteik. Hálfsneiðar á 1200 krónur, heitir réttir á 1800 krónur. Frábært verð.

Of lítið þorp fyrir Friðrik

Veitingar

Friðrik V var eitt bezta og frumlegasta matarhúsið. Hafði forustu fyrir nýnorrænu, nýstárlegri meðferð staðbundinna hráefna. Með lokun hússins eru fallin þrjú veitingahús, sem höfðu forustu í byltingu hvers tíma. Mestallan níunda áratug síðustu aldar var Arnarhóll beztur. Glæstur fulltrúi nýfrönsku línunnar í matargerð. Um aldamótin var Sommelier beztur. Glæstur fulltrúi blandstíls eða fusion í matargerð. Nú er glæstur Friðrik V fallinn. Þannig eru fallin öll topphús nýfrönsku, blandstíls og nýnorrænu. Mikill skaði er að þeim öllum. En Akureyri var raunar alltof lítið þorp fyrir stóran Friðrik.

Gamla og góða Ísland á BSÍ

Veitingar

Notalegt er að koma á Ferðakaffi á BSÍ. Svið og kjötsúpa að íslenzkum hætti, fleskisteik að dönskum hætti, kótilettur mömmu, saltkjötsragú, nautagúllas með kartöflustöppu og fleira slíkt. Allt er þetta íslenzkt. Ekkert reynt að lagast að erlendum smekk ferðamanna. Kjötsúpa og svið voru fín í gærkvöldi. Aðalréttir kosta um 1600 krónur, fela í sér súpu, salatbar, kaffi. Stíllaus staður með samtíningi húsgagna ýmissa tíma. Ekkert er nýlegt í þessu musteri fortíðarinnar nema internet-tölvurnar. Gamlar rútumyndir skreyta veggina. Þetta er gamla og góða Ísland, fyrir daga útrásarbanka og útrásarvíkinga.

Verðsveiflan í veitingum

Veitingar

Dýrustu matstaðir landsins verðleggja aðalrétti á 5000 krónur, þríréttaða máltíð á 10000 krónur og allan pakkann með kaffi og víni á 15000 krónur. Þannig eru Sjávarkjallarinn, Vox, Grillið og Holt. Aðeins fyrir evru-hafa. Miðlungsstaðir verðleggja aðalrétti á 3300 krónur, þríréttað á 6700 krónur og allan pakkann á 10000 krónur. Þannig eru Þrír frakkar, Hornið og Austur-Indíafélagið. Ódýr hús verðleggja aðalrétti á 2500 krónur, þríréttaða máltíð á 5000 krónur og allan pakkann á 7500 krónur. Þannig eru Laugaás, Sjávarbarinn og Balthazar. Fyrir heimamenn. Þetta er svigrúmið í veitingaverði á kvöldin.

Hornsteinn í bæjarlífinu

Veitingar

Laugaás hefur áratugum saman verið ein skærasta stjarna lága verðsins á matstöðum landsins. Í hádeginu er hægt að velja milli fimm rétta, sem kosta 1700-2100 krónur með súpu. Á kvöldin er á sama hátt unnt að velja milli sex rétta á 2800-3100 krónur með súpu. Staðurinn sérhæfir sig í fiski og býður alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi. Ég hef oft læðst þarna inn eftir kaldan dag í hestunum og aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Matreiðslan er traust, þótt hún sé ekki í hæstum hæðum. Eldun á fiski er yfirleitt hófleg, þótt einstaka sinnum sé hann of lengi í hitanum. Laugaás er hornsteinn í bæjarlífinu.

Þrír nálgast Michelin-gæði

Veitingar

Þrjú veitingahús í borginni nálgast stundum þau gæði, sem krafizt er til að fá stjörnu hjá Michelin. Það eru hótelsalirnir Grillið, Holt og Vox. Þeir hafa þrautþjálfaða kokka og umbúnað, sem matstaðir fá aðeins í samlífi með alþjóðlegu hóteli. Aðrir hafa ekki ráð á vínlista með hundruðum tegunda og einstökum flöskum upp á ríflegan hundraðþúsundkall. Að kvöldi kostar þar um 15.000 krónur að borða þríréttað með hálfflösku á mann af miðlungs borðvíni. Hætt er við, að fáir getið notið þess aðrir en útlendingar með gjaldeyri. Aðrir fínir staðir bjóða lægra verð, en þeir eru enn fjær Michelin-stjörnum.

Án sambands við veruleikann

Veitingar

Nútíminn er fullur af froðufellandi auglýsingum í dulargervi ráðlegginga. Dining Out heitir ókeypis bók fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi, gefin út af Sagaz. Þar vantar helminginn af almennilegum veitingahúsum, en lélegum stöðum hrósað í hástert. Góðu staðirnir hafa neitað að borga. Textinn kemur frá matstöðunum, talar sums staðar í fyrstu persónu fleirtölu. Engin verð eru gefin upp. Textinn er svo hástemmdur, að hann nær sjaldnast sambandi við veruleikann. Enda segist Sagaz enga ábyrgð taka á honum. Ferðamönnum er boðið þetta sem lykill að góðu lífi á matstöðum borgarinnar. Svona er lífið.

Minna magn og betra

Veitingar

Á mínum yngri árum drakk ég stanzlaust kaffi í vinnunni, 20-30 bolla á dag. Yfirleitt var þetta þunnur uppáhellingur. Löngu seinna lærði ég að meta sterkt kaffi, einkum espresso. Mér til mikillar furðu minnkaði kaffinotkun mín við að fá almennilegt kaffi. Í mörg ár hef ég drukkið einn-tvo bolla á dag af sterku kaffi. Það nægir mér yfir daginn. Ef ég slysast til að drekka þunnan uppáhelling, fæ ég ógleði í magann. Jafnvel veikt espresso hefur vott af sömu áhrifum. Kaffi verður að vera afar sterkt til að fara vel í mig. Og það kallar ekki á löngun til að súpa aukið magn af hinum rómaða fíkni-drykk.

Himnaríki endanlega læst

Veitingar

Matreiðslumeistarinn Ferran Adrià ákvað í gær að opna El Bulli ekki aftur. Eftirsóttasta veitingahús heims lokast því endanlega á næsta ári. Áður átti lokunin að standa í tvö ár. Adrià ætlar í staðinn að opna kokka-háskóla. Þar hyggst hann kenna öðrum frægðarkokkum hina efnafræðilegu matreiðslu. Hún felst í að breyta föstum efnum í fljótandi og fljótandi efnum í föst. Með ýmsum efnahvörfum. Sósan er í föstu formi og kjúklingurinn í fljótandi formi í einum frægasta rétti hans. Gosið er drukkið úr rörum, búnum til úr ediki. Sjálfur tel ég, að eldamennska Adrià sé dauð, hún var barn græðgistímans.

Frjálst val um meðalsteikingu

Veitingar

Domo er hættur að vera ofsadýr, orðinn meðalstaður. Matur lækkaði um nærri helming. Aðalréttir kosta 2900 krónur og þriggja rétta máltíð 5300 krónur, Sushi-veizla 4000 krónur. Gæðin hafa síður en svo minnkað við breytinguna. Ég fékk þar ágætis sashimi, frambærilega folalda-piparsteik og fínt crème brûlée. Staðurinn er óbreyttur í stál- og gler- og leðurstíl frá því fyrir hrun. Þjónusta var góð, með köflum dularfull. Fékk að velja steikingartíma kjöts. Er það kom, var mér tjáð, að kokkurinn vildi bara steikingartímann medium! Sér er nú hver kokkurinn. Til hvers var frjálsa valið? Dularfullt.

Ódýr menningarstaður

Veitingar

Fékk makalaust góðan tandoori kjúkling, húðaðan með rauðu karrí og jógúrt og bakaðan í leirofni. Hafði vaðið fyrir neðan mig á Tandoori í Skeifunni, bað um séreldaðan tandoori. Ekkert mál að bíða í 20 mínútur til að þurfa ekki að fá hann upp úr hitakassa við afgreiðsluborðið. Starfsfólkið tók þessu vel. Kjúklingurinn kom snarkheitur og meyr og þar á ofan sómasamlega kryddaður. Aðrir indverskir matstaðir hér á landi spara kryddið stundum. Kjúklingurinn á Tandoori kostaði ekki nema 1790 krónur og fyrsta flokks nan-brauð kostaði 160 krónur á mann. Hér er kominn alvöru menningarstaður ódýr í borgarlífið.

Þurrkaður þari á Þremur frökkum

Veitingar

Fékk ferskan krækling og þurrkaðan þara í forrétt hjá Úlfari Eysteinssyni á Þremur frökkum. Síðan kom hrár hvalur sashimi, svo saltfiskur og loks brennt skyr brûlée. Úlfar Eysteinsson sýndi í gær, að hann er einn fremsti kokkur okkar. Er ekki í froðum og hlaupi, litum og skrauti, bara í mat. Fiskurinn er auðvitað aðdráttaraflið, saltfiskurinn eins og beztur verður, hnausþykkur og létt eldaður. Þurrkaði þarinn er tilraun Úlfars, fyrirtaks snakk-fæði. Ferskur kræklingur og hrár hvalur eru herramannsmatur. Brennt skyr er hinn fullkomni eftirréttur. Lambakjöts- og grænmetisréttir staðarins eru lakari.