Veitingar

Áratugi í öndvegi

Veitingar

Fór í Holtið í hádeginu. Sami öndvegisstaðurinn áratugum saman. Samt ekki á pari við stjörnustaði Michelin. Humar- og rækjusúpa var sú minnsta, sem ég hef séð á ævinni, að rúmmáli eins og egg. Dádýrakæfan kom við kæliskápshita, ekki við stofuhita. Í stað piparsósu með rib-eye steik kom béarnaise-sósa. Steikin var með afar hversdagslegu meðlæti. Að öðru leyti var þetta góður matur, einkum smávaxna humar- og rækjusúpan, svo og kálfakjötsneiðar á fínum hýðishrísgrjónum. Eftirréttirnir voru flottir, bæði heit súkkulaðikaka og ananas á rommís. Verðið var bara 3.200 krónur, 2.900 krónur án eftirréttar.

Flóknara útstáelsi

Veitingar

Vegna Davíðs-hruns fyrir ári tími ég ekki að borða á Michelin-stjörnustöðum í Gent. Sá ódýrari, C-Jean, selur kvöldmatinn á 20.000 krónur áður en kemur að drykkjum. Sem betur fer gat ég klórað í bakkann með því að koma þar einu sinni í hádeginu. Á 7.000 krónur, sem flestum mundi samt þykja nokkuð stíft. Hér í Gent er helzt hægt að borða úti í hádeginu. Nokkrir Michelin-staðir án stjörnu bjóða tvíréttaðan hádegismat á 3.000 krónur, sem er þolandi. Café Théâtre, Pakhuis og Belga Queen. Svo þakka ég almættinu fyrir, að Davíð er bara ritstjóri. Getur ekki framið fleiri efnahagsleg hryðjuverk á mér.

Nýjung sjónvarpskokksins

Veitingar

Nanna Rögnvaldsdóttir hefur rétt fyrir sér, þegar hún segir Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur elda spaghetti vitlaust. Ítalir hafa margra kynslóða pasta-reynslu og vita, hvernig á að gera það. Eins og Nanna segir, en ekki eins og Jóhanna Vigdís segir. Af því að hún er sjónvarpsstjarna, ber hún sig vel og segir nauðsynlegt að prófa eitthvað nýtt. Þannig tala stjörnur jafnan um fáfræði sína. Að vísu er rétt, að engar framfarir verða, ef ekki er sífellt verið að prófa nýjungar. Það gildir á öllum sviðum, líka í spaghetti. En ég efast um, að nýjung Jóhönnu Vigdísar eigi eftir að slá í gegn í heiminum.

Fínasta fiskbúð

Veitingar

Fiskbúðin í miðbænum í Gent í Belgíu er andspænis aðaldyrum gamla háskólans. Það er fín búð, vel spúluð, þar er engin fisklykt. Allur fiskur er sýndur í glerborði, heill og óflakaður, með haus og hala. Þú velur fiskinn og hann er svo meðhöndlaður eins og þú vilt. Hausskorinn, flakaður og roðflettur eftir atvikum. Þarna fæ ég þykkvalúru og sandhverfu, indælis fiskitegundir, sem ekki veiðast við Ísland. Af íslenzkum fiski er bara til þorskur og hann er mjög dýr, greinilega í miklum metum. Hnakkastykkið kostar eins mikið og dýrasti flatfiskur. Ég vildi hafa aðgang að svona fínni fiskbúð í Reykjavík.

Gegnsæir glerveggir salerna

Veitingar

Belga Queen er þrauthannað veitingahús í sjöhundruð ára gamalli korngeymslu í miðbæ Gent í Belgíu. Stál og gler er látið æpa á forna múrsteinsveggi. Við göngum á stálbrú yfir aðalsalinn að borði okkar. Salernin eru uppi á þriðju hæð í röð, bak við risastóra glerveggi. Samkvæmt kenningunni eiga glerin að verða mött og ógegnsæ, þegar viðskiptavinur fer inn. Eitthvað stóð tæknin á sér, er ég var þarna. Konurnar skræktu. Frestaði frekari aðgerðum til betri tíma. Stælar frá 2007, ætlaðir nýríkum. En Belga Queen þarf nú að bjóða túristum góðan hádegismat, grænmetissúpu og innbakaðan lax, á 3.000 krónur.

Stunurnar heyrast milli hæða

Veitingar

Fínu frúrnar í Gent kjaga gull- og silfurslegnar á hádegi úr sporvagninum við gamla kornmarkaðinn í miðbænum. Þar í bæ er fínt að fara í strætó, allir gera það. Bíllinn er geymdur í úthverfinu. Frúrnar velta inn í Pakkhúsið, sem er fundarstaður fína fólksins. Gamalt pakkhús á tveimur hæðum úr steyptu járni með steindum gluggum í þaki. Hér fá þær sér ostrur í forrétt. Sá matur, sem tíðast allra er sagður framkalla kynóra. Svo er góður fiskur í aðalrétt. Á eftir er svo belgískt konfekt, bezt í heimi. Svo gott, að stunurnar heyrast milli hæða. 6000-kall. Það er sko menningarlíf í Belgíu.

Matarfíkill í gömlum háskólabæ

Veitingar

Gent er gamall háskólabær í flæmska hluta Belgíu, nokkru fjölmennari en Reykjavíkursvæðið. Þar er ég núna. Borgarmiðjan er gömul og vel varðveitt. Flestar götur eru fyrir göngufólk, bannaðar bílum. Tvö hús hafa Michelin-stjörnu, bæði dýr, á svipuðu verði og dýrir matstaðir í Reykjvík. Á C-Jean kostar maturinn 6500 krónur á mann og á Jan Van den Bon kostar hann heilar 12000 krónur á mann. Notalegir staðir með góðri matreeiðslu hafa matinn á 3500-5000 krónur, svipað og heima. Lítið er um mjög ódýra staði á borð við suma við Laugaveginn. Gangur lífsins er hægur, fólk tekur sporvagninn.

Ketilkaffi og espresso

Veitingar

Vel þekki ég mann, sem segist ekki borða neitt annað en það, sem hann snæddi áður en hann lærði að segja nei. Fær sér á matstöðum aldrei annan eftirrétt en vanilluís með heitri súkkulaðisósu. Ég hef hins vegar gaman af að prófa eitthvað nýtt. Nú er það kaffið. Í Kaffifélaginu við Skólavörðustíg prófa ég ýmsar tegundir af baunum í espresso. Því miður er tungan ekki nógu næm, mér finnst allt kaffi gott, ef það er nógu sterkt. Á Café Haïti við Tryggvagötu prófa ég hjartastyrkjandi sterkt tyrkneskt og arabískt kaffi. Er ketilkaffi, en ekki eins þykkt og ég minnist frá Tyrklandi og Jórdaníu, órúlega milt.

Nokkrir ódýrir í hádeginu

Veitingar

Sex ágætir staðir í miðborginni bjóða hádegisverð á 1300 krónur. Þeir eru Feiti tómaturinn, Grænn kostur, Shalimar, Balthazar, Krua Thai og Krúska. Eru þó ekki skyndibitasstaðir. Enn betri eru fjórir staðir ódýrari. Fyrstu verðlaun fá Volare og Balkanika í nágrenni Kjörgarðs. Hádegismatur á 1000 krónur. Volare hefur fisk dagsins. Balkanika hefur kjötbollur eða gúllast. Næst koma Kínahúsið í Lækjargötu með hádegismatinn á 1100 krónur, oftast djúpsteiktar rækjur. Og Santa Maria á Laugavegi á 1200 krónur, allir réttir. Á þessu verði geta margir leyft sér um að fara út að borða í hádeginu.

Sá feiti er ódýr

Veitingar

Prófaði í dag Feita tómatinn í kjallara Iðuhússins í Lækjargötu. Hlaðborðið er enn á 1000 króna tilboði, en kostar tæpar 1400 krónur eftir mánaðamót. Réttur dagsins kostar þá tæpar 1300 krónur. Í gær var boðnar fjórar gerðir af súpu og heilmikið af salatefni. Í hitakössum var ofkryddaður plokkfiskur, kjötkássa, ágætar kótilettur í raspi og fín kartöflustappa. Sem eftirréttir voru í boði tvenns konar búðingar í Royal-stíl og þessi líka fínu sérbökuðu vínarbrauð. Kaffi fylgir. Hátt til lofts og vítt til veggja í kjallaranum, ekki vistlegt, en verðið svíkur ekki. Flýttu þér að prófa fyrir mánaðamót.

Skyr á að vera létt í maga

Veitingar

Friðrik V er ekki lengur bezta veitingahús landsins, heldur bara eitt af fimm beztu. Friðrik hefur ekki tekizt að vinna betur úr sérstöðu sinni sem almannatengli hráefna úr Eyjafirði. Meðferð hans á skyri er of þétt fyrir eftirrétti. Þeir verða of þungir. Skyr á að vera létt og virka þægilega í maga. Í gær var þrenns konar skyr í boði í listagilinu á Akureyri. Langbezt var þeytt skyrfroða með eyfirzkum bláberjum. “Skyr tiramisu” var mun þyngra en venjulegt tiramisu úr mascarpone-osti. Og “skyr brûlée” í eggjaskurn var þétt sem steinn, gerólíkt hinni hefðbundnu létt-hugsun að baki crème brûlée.

Erindislaus hjartaarfi

Veitingar

Friðrik V leggur mikla áherzlu á hráefni úr Eyjafirði, þar á meðal jurtir af ýmsu tagi. Virðingarverð stefna í stíl við franskt “cuisine terroir”, sem hófst til virðingar fyrir þrjátíu árum. Flottur var langur diskur með átta forréttum. Þar var meðal annars reyktur silungur, þurrkað naut, og pipar-grafið naut, cayenne-pipar-grafinn þorskur og graflax. Stundum fer þetta úr böndum eins og í meðlæti með rosalega fínt elduðum laxi. Kringum hann var raðað sýnishornum úr flóru Eyjafjarðar, hvort sem þau áttu við fiskinn eða ekki. Þar var hrár hjartaarfi, soðin rófa og hvannarblóm í erindisleysu.

Lifandi eldhús á Akureyri

Veitingar

Lifandi eldhús á Akureyri
Friðrik V er frábær matstaður á Akureyri. Þar er eyfirzkt hráefni í hávegum haft, bláskel og þorskur úr sjónum og eyfirzkt nautakjöt. Kryddjurtir og matarjurtir úr náttúrunni, hvönn og blóðberg, hjartaarfi og krækiberjalyng, eyfirzk bláber og eyfirzk jarðarber. Úr þessu býr Friðrik Valur Karlsson til frábæra rétti. Til dæmis vermicelli með kúskel úr Þistilfirði, skyrfroðu með bláberjum, saltfisk með hömsum. Stundum fara tilraunir og nýbreytni úr böndum. Svo sem í þungu, léreftssíuðu skyri og í hráum jurtum, sem þarf að gera eitthvað fyrir. En þetta er lifandi eldhús. Kostar 8300 kr þríréttað.

Fiskisúpan í Halastjörnunni

Veitingar

Alltaf er jafn notalegt að koma í Halastjörnuna að Hóli í Öxnadal. Þar geng ég inn í fyrra hluta síðustu aldar innan um húsbúnað að hætti langafa og langömmu. Nú er bara boðinn matur á kvöldin, sexréttað fyrir 7.300 krónur á mann. Oftast er nýr fiskur aðalréttur og mikið notað af kryddi úr hólunum í túninu. Í hádeginu og fram til fjögur er boðin matarmikil fiskisúpa á 2.400 krónur. Hún var þykk og flott og bragðgóð, með miklu af kryddjurtum, svo og risarækju, lax og steinbít. Systurnar Guðveig og Sonja Lind Eyglóardætur eiga og reka staðinn af myndarbrag. Einn af fimm beztu matstöðum landsins.

Eitthvað er að verðinu

Veitingar

Ef ég keypti dýrasta hráefni í mat, kostaði það 1800 krónur á mann. Það væru nautalundir, rækjur, silungshrogn, grafinn skarfur, niðurlögð loðna, stilton ostur og vínber. Þetta er allt mjög einfalt í eldhúsi og bragðið svakalega gott. Ég væri kortér að matbúa og kortér að sinna uppþvottavél. Færi ég út að borða, mundi þriréttað kosta yfir 9000 krónur á mann í fínustu matarhúsum borgarinnar. Ef ég væri með þrjá í mat heima hjá mér, mundu vinnulaun mín samkvæmt því nema rúmlega 20.000 krónum á hálftímann. Er nokkur furða, þótt fólk fari nánast ekki út að borða á fínu staðina? Eitthvað er að verðinu.