Matwerk er faglega hannaður veitingastaður á þremur gólfum innst á Laugavegi, þar sem einu sinni var Stjörnubíó. Grunsemdir um enn eina túristagildruna hurfu eins og dögg fyrir sólu, þegar maturinn kom á borð. Frábærlega mátulega steikt bleikja með maukaðri og ljúfri blöndu af kartöflum, grænkáli og jógúrt, borin fram í pönnu, 2.250 krónur í hádeginu. Sama hagstæða verðið og á öðrum góðmetisstöðum miðbæjarins. Raunar líka hagstætt fyrir túristana á kvöldin, 2.950 krónur. Ísland er ekki dýrt. Yfirkokkurinn kemur frá öndvegisstaðnum Fiskfélaginu, Stefán Hlynur Karlsson. Matwerk fer beint á listann minn yfir tíu beztu matarhús borgarinnar.