Veitingar

Keppir ekki við jómfrúna

Veitingar

Scandinavian við Laugaveginn er engin Jómfrú. Nýi smurbrauðsstaðurinn keppir ekki við þann gamla í verði, það er svipað. Seðillinn er nokkurn veginn hinn sami á báðum stöðum. Hálfa rækjusneiðin (1.350) á Scandinavian var bragðgóð. En engan veginn eins glæsilega uppsett og hún er jafnan á Jómfrúnni. Hálfa rauðsprettan (1.050) var snöggtum lakari á Scandinavian. Mjög ofsteikt, grá og þurr, ekki góður matur. Graflax og spergill hæfðu ekki rauðsprettunni. Staðurinn er huggulega hannaður í timbri og svörtu. Fullt af ferðamönnum fer á Scandinavian, en hann tekur tæpast nokkurn innlendan kúnna af Jómfrúnni.

Innan við þúsundkallinn

Veitingar

Beztu kaup á hádegismat í alvöru matstað eru á Volare, í bakhúsi rétt neðan við Kjörgarð á Laugavegi. Þar kostar fiskur dagsins 990 krónur, oft þorskur, hæfilega ofn- eða pönnusteiktur. Með matarmikilli súpu dagsins kostar 1200 krónur hádegismaturinn. Þetta er alvörustaður með fagfólki. Fyrir 990 krónur er einnig hægt að borða hádegismat á Balkanika, líka í nágrenni Kjörgarðs, á Vitastíg. Þar er búlgarskur heimilismatur, kjötbollur, gúllas eða mússaka, oft með kartöflustöppu. Bollurnar eru kryddaðri og betri en íslenzkar. Fyrir þúsundkallinn fæst í mesta lagi súpa og salat á öðrum ódýrum hádegisstöðum.

Þorskurinn við Laugaveginn

Veitingar

Ef þú vilt góða nautasteik, ferðu á fiskréttahús. Ef þú vilt mælikvarða á gæði annarra veitingahúsa, pantaðu fiskrétt. Stafar af, að meiri nákvæmni þarf við eldun á fiski en öðrum mat. Ítalska matarhúsið Volare við Laugaveg stóðst þetta próf. Þorskur dagsins var hæfilega eldaður, borinn fram með kartöflum, grænmeti og tómatsósu. Súpa dagsins var matarmikill tómatgrautur. Súpa og þorskur kostaði 1200 krónur í hádeginu, þorskurinn sér kostaði 990 krónur. Á kvöldin kosta pöstur 1700 krónur og aðalréttir 2900 krónur. Vona, að Volare lifi lengur en nokkrir fyrirrennarar á þessum stað við Kjörgarð.

Volg lifur á Jómfrúnni

Veitingar

Uppgötvaði á Jómfrúnni í gær, að einn kostur staðarins eru annir hans. Mest er gaman að sitja andspænis skenknum, þar sem fólk pantar og borgar. Minnir á erlent bistró fremur en danskt smurbrauðs-hádegi. Jómfrúin er líka stærri en flestir smurbrauðsstaðir, sem ég þekki í Kaupmannahöfn. Svo margir þekkja aðra, að fólk kinkar kolli, þegar það fer hjá borðum framarlega í húsinu. Rétt fyrir lokun í gær fengum við undur Kaupmannahafnar: Volga lifrarkæfu með dilli, beikon og sultu. Nostalgískur réttur góður , sem hæfir staðnum og mér. Gott er að hafa Jómfrúna við hendina, þegar ég fær köst af fortíðarþrá.

Át búlgarskt í gær

Veitingar

Búlgarski fáninn er á vegg Balkanika veitingahússins að Vitastíg 10. Fékk þar í gærkvöldi hakkabuff í bollum (kjufte) og pylsu (kebapche). Með var sterk tómatsósa, franskar (!) kartöflur, hvítbaunir, hrásalat. Hefðbundinn réttur frá Búlgaríu. Bragðgott fyrir 1290 krónur, betra en Santa Maria. Flestir réttir eru ódýrari, svo sem grænmetisréttir. Húsakynni eru lítil og rauðlökkuð, rúma 18 stóla. Frambærilegur keppinautur á markaði lága verðsins. Búlgörsk veitingahús eru fá á Vesturlöndum. Sérgrein Búlgaríu er lambakjöt og innmatur úr lambi. Næst ætla ég að prófa lambakótiletturnar.

Græðgisvæðing veitingahúsa

Veitingar

Græðgisvæðing áratugarins á Vesturlöndum hafði slæm áhrif á veitingahús. Einkum þau, sem vildu höfða til fólks með peninga. Frægust í heimi urðu hús á borð við El Bulli sunnan við Barcelona og Fat Duck í nágrenni London. Haft var í hávegum að gera efnafræði-tilraunir. Til dæmis breyta vökva í fast efni. Ediki ver breytt í sogrör. Allt var stílað upp á útlitið. Til dæmis litasamsetningar. Sardínur voru settar í ísinn. Eðli hráefna og eðlisbragð var kastað á glæ. Ruglið kom til Íslands, spillti sumum af landsins beztu kokkum. Því miður linnir ekki veitingarugli, þótt græðgisvæðingu hafi linnt.

Góður matur með stæl

Veitingar

Fiskfélagið er smart veitingahús í kjallara Zimsen-pakkhússins frá 1884, sem flutt var í Grófina. Matreiðslan er tízkuleg, en samt mjög fín. Saltfiskur með smokkfiski og spænskum chorizo-pylsum var frábær. Sítrónukrydduð skata með risarækjum og byggi var litlu síðri. Bragð hráefna kom vel í gegn, þrátt fyrir stæla, sem einkenna tízkumatreiðslu. Brauð var með þrenns konar góðri sultu, úr pipar, skyri og döðlum. Verð forrétta er um 2010 krónur, aðalrétta um 4490 krónur. Smakkseðlar dagsins kosta 7.900 krónur. Þríréttað kostar um 7680 krónur að kvöldi, í hádegi 3290 krónur. Fín viðbót við veitingaflóruna.

Ofhönnun veitingahúss

Veitingar

Eini gallinn við Fiskfélagið í Grófinni er ofhönnun staðarins. Hún gengur of langt í stælum. Aðalsalurinn er svo svartur og gluggalaus, að þú sérð varla yfir borðið. Það getur varla talizt rómó og er þá til hvers?. Litli salurinn er skárri, þar eru gluggar. Innréttingar eru svartar, veggir, borð og góðir stólar. Gólfið er samt blessunarlega grátt. Skreytingar eru smart, til dæmis kertastjaka-bekkurinn andspænis innganginum. Fiskfélagið er miðlægt á horni Grófarinnar og Vesturgötu. Ég bjóst ekki við góðum mat á svona ofhönnuðum stað. Eldamennskan var dálítið tízkuskotin, en kom mér ánægjulega á óvart.

Valið milli góðra fiskréttahúsa

Veitingar

Sjávarréttastaðir hafa magnazt í Reykjavík síðustu misserin. Nýjast er Fiskfélagið í Grófinni. Gömlu staðirnir eru Þrír frakkar við Baldursgötu og Humarhúsið við Lækjargötu, en nýlegur er Fiskmarkaðurinn í Aðalstræti. Þetta eru fjórir frábærir staðir. Ungir og ódýrari eru Sjávarbarinn á Grandagarði, Fish & Chips við Tryggvagötu og Sægreifinn við Geirsgötu. Sjávarkjallarinn við Vesturgötu hefur daprazt vegna óhóflegra vinsælda. Sem aldrei fyrr er hægt að láta sér dveljast við að velja milli frambærilegra fiskréttastaða í höfuðborginni. Hafi ég bara eitt val, er það Humarhúsið, sem eldar án stæla.

Harmsaga við Laugaveg

Veitingar

Við pöntuðum í gær hvort um sig hálfan tandoori-kjúkling af matseðli, rétt nr. 15. Við fengum fjórðung fyrir einn. Kvörtun færði okkur annan fjórðung fyrir hinn. Samt greiddum við samtals 4.780 kr fyrir tvo hálfa kjúklinga með engu. Kvörtun bar engan árangur. Kjúklingurinn var þurr. Fengum ekki pantaða jógúrt-sósu og mangó-sultu fyrr en síðar og þá með eftirgangsmunum. Nan-brauðið á að koma úr þurrum ofni, en kom jóðlandi í djúpsteikingarfeiti. Kitchen, nepalskt veitingahús andspænis Kjörgarði við Laugaveg, er harmsaga. Eigandinn er alveg úti að aka. Eitt fárra húsa, sem ég heimsæki ekki aftur.

Veitingarýnirinn og fólkið

Veitingar

Veitingarýnir þarf ekki að vera menntaður í faginu. Hann þarf að elska mat og hafa einhvern skilning á, hverning hann verður til. Reynslan ein gerir gagnrýnanda marktækan, smám saman þekkja menn hann af skrifum hans. Sá, sem rýnir í veitingahús, gerir í fyrsta lagi ekki boð á undan sér. Í öðru lagi borgar hann fyrir matinn. Ef annað hvort skilyrðið vantar, færist reynsla gagnrýnandans ekki yfir til almennings. Skrif hans nýtast fólki ekki. Það fær ekki sérþjónustuna, sem rýnirinn fær. Að lokum þarf veitingarýnir að átta sig á, hverjar eru forsendur veitingahúsa og hvað eru bara stælar.

Veitingarýni sem rugl

Veitingar

Hef skrifað veitingarýni í þrjá áratugi. Kollegar eru fáir. Steingrímur Sigurgeirsson skrifar of jákvæðar greinar í Morgunblaðið, en sjaldan. Hans helztu áhugamál eru fín veitingahús og fín vín. Hann fær frítt að éta og er því marklaus. Skemmtilegri, en samt málefnaleg, var gagnrýni Hjartar Howser á vefnum, hhowser.blogspot.com. Hún hefur legið niðri um skeið. Ég missti oftast af veitingarýni í Gestgjafanum. Hún var grunsamlega jákvæð. Duglegast í veitingarýni er enskumælandi ritið Grapevine. Þar hafa fjölmargir skrifað. Ég er mjög ósammála þeim öllum. Tel rýnina í Grapevine vera kerfislægt rugl.

Áttu bara óætan fisk

Veitingar

Vansáttur er Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi bæjarstjóri höfuðstaðar Norðurlands. Finnst ég vera fullur höfuðborgar-hroka, telji góðan mat bara fáanlegan þar syðra. Til að efla trú hans langar mig til að segja sögu af mér á Akureyri. Ég neyddist til að vera þar yfir nótt og þurfti fisk í matinn. Ók þvers og kruss um bæinn til að leita að fiskbúð eða fiskborði í matarbúð. Sá ekkert nema frosinn fisk. Akureyri var þá þriðja stærsta verstöð landsins, en bauð aðeins upp á óætan fisk. Engin leið var að lifa á Akureyri nema borða daglega hjá Friðriki V í listagilinu. Dýrt til lengdar.

Ofursaltað grillolíubragð

Veitingar

Fæ alltaf sting fyrir hjartað, þegar mér er boðið í útigrill. Oftast eru notaðar forkryddaðar kjötsneiðar. Þær eru undantekningarlaust vondar, án kjötbragðs, en með ofursöltu grillolíubragði. Það kemur hjá fullorðnum í stað tómatsósubragðs hjá börnum. Oftast hef ég aðgang að nothæfu kjötborði, en þegar ég er á Hrunaheiðum, verð ég að nota Samkaup á Flúðum. Þar eru bara seldar forkryddaðar kjötsneiðar af ýmsu tagi fyrir sumarbústaðafólk. Ég hef þrisvar keypt þær í neyð. Reyni að skafa kjötið og þurrka það, án árangurs. Í rauninni er mjög erfitt að búa annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu.

Bingó og búningar

Veitingar

Lengi hef ég hugleitt hvort ég ætti að prófa að borða á Orange, þar sem áður voru Tveir fiskar. Inn um glugga sést rauðgulur ljósaveggur, sem hefur fælt mig frá. Nú hefur eigandi matstaðarins upplýst, að staðurinn sé á Condé Nast Hot Tables lista ársins 2009. Blaðið segir, að Orange sé einn mest spennandi matstaður Evrópu, einkennist af hugmyndaauðgi. Eigandinn segist meðal annars hafa boðið óvænt upp á bingó í miðjum klíðum. Og í annað skipti hafa klætt þjónana í grímubúning. Eftir að hafa lesið lýsingu hans er borin von um, að ég láti verða af heimsókn á Orange. Ég læt ekki fíflast með mig á matstað.