Veitingar

Beizkt var það ekki

Veitingar

Eftir nokkurt hlé kom ég við á Primavera í gærkvöldi. Fínn matstaður af ítölsku kyni með frönsku ívafi. Borðdúkar og munnþurkur eru hvítar eins og vera ber. Þjónusta skóluð og vel að sér um alla hluti. Eini falstónninn var sjávarréttasúpa með of eindregnu hvítlauksbragði. Saltfiskbollur voru tæpast betri en plokkfiskur í Nóatúni. Bezt forrétta var salat með parmaskinku og trönuberjum. Betri voru aðalréttir: lambahryggvöðvi með kóngasveppasósu og bezt var hrossalund með bláberjum og grappa. Tiramisu í eftirrétt var gott, en espresso kaffi var tæpast nógu beizkt. Forréttir 2.630 kr, aðal 3.780 kr.

Rifnir kjúklingar

Veitingar

Botnverð veitingabransans hefur lyfzt um 20%. Verð rétta á Santa Maria við Laugaveg hefur hækkað úr 990 krónum í 1190 krónur á línuna. Þetta hefur verið og er enn ódýrasta alvöruveitingahús landsins. Og þetta er eina hækkun þess frá upphafi, skiljanleg í stöðunni. Verri er breytingin á kjúklingunum innan í pönnukökunum. Í stað kjúklingabita er rifið eða tætt kjúklingakjöt. Tætturnar eru þurrari en bitarnir og minna lystugar. Endurspeglar kreppuna og dregur úr innlendum viðskiptum. Á Santa Maria í gærkvöldi voru eingöngu tilfallandi erlendir ferðamenn á næstu borðum. Landinn borðar kannski dýrar.

Þrítugir hafna tízkunni

Veitingar

Laugaás og Hornið hafa sérstöðu meðal matstaða. Hafa verið í samfelldri eigu í nærri þrjátíu ár. Þau eiga afmæli, Laugaás í júní og Hornið í haust. Komu inn í staðnaðan heim matstaða og fundu sér hvort um sig sína sérstöðu. Síðan hafa þau haldið dampi, ekki vikið af sporinu. Þannig eiga veitingahús að vera, finna sér hóp viðskiptavina og halda tryggð við hann. Það er svo auðvelt að hrasa á þessum vegi. Nýir eigendur breyta matstöðum breytinganna vegna, elta tízkufyrirbæri. Fyrirtækjagrúppur eyðileggja matstaði á einu kortéri. Laugaás og Hornið hafna tízkunni og elda jafnan fyrir fullu húsi.

Landsins vinsælasti matstaður

Veitingar

Hafandi rýrnað um 22 kíló gat ég skáskotið mér inn á Ítalíu í gær. Gat að vísu ekki sezt í bás fyrir anorexíur, fékk stól fyrir framan. Fiskur dagsins (3.100 kr) er frosinn á svona stað, en ég pantaði samt. Stórlúða laskast minna við frystingu en smærri fiskur. Lúðan var hæfilega lítið pönnusteikt, með hvítum kartöflum, sveppum og blaðlauk. Eggjasósa flaut um allan disk, að öðru leyti var þetta ágætur réttur. Aðrir við borðið pöntuðu pítsur (2.250 kr) og pöstur (2.250 kr) og létu vel af. Hér eru boðnar þrettán tegundir af pítsum og nítján af pöstum. Landsins vinsælasti matstaður, alltaf pakkaður.

Himnaríki og helvíti

Veitingar

Tandoor er sérstakur indverskur leirofn. Tandoori eru réttir, sem eldaðir eru í slíkum ofni, með miklu af sterku kryddi úr ýmsum pipar og jógúrt. Tandoori kjúklingur er frábær, þegar hann er meyr og bragðheitur úr réttum leirofni. Þannig var hann í Austur-Indíafélaginu í gærkvöldi, eldaður að kúnstarinnar reglum. Fór þangað til að jafna mig eftir meintan tandoori kjúkling á Saffran, veitingahúsi í Glæsibæ. Sá var ofurþurr og bragðdaufur með ólíkindum. En það er verðmunur á himnaríki og helvíti. Himnaríki kostar 3295 krónur og helvíti kostar 1430 krónur. Sá á kvölina, sem á völina.

Þurr kjúklingur á Saffran

Veitingar

Persneskt salat á 250 krónur var fínt í gær, smásaxað úr rauðlauk, gúrku og tómati, vætt í olífuolíu og sítrónu. Varð hins vegar fyrir vonbrigðum með tandoori-kjúklinginn á 1430 krónur. Hann var ofurþurr og dauft kryddaður, borinn fram með klesstum hýðishrísgrjónum, sterkri mintujógúrt og salati, einkum klettasalati. Eldaður of lengi á spjóti í ofni með réttu hitastigi, en ekki í leirofni samkvæmt hefðinni. Saffran hefur verið opinn í Glæsibæ í þrjár vikur og fengið góð (sic) ummæli í blogginu. Fagur, hár til lofts, með smart ljósakrónur, tréborð og tréstóla. Broshýr þjónusta, svokölluð hálf.

Þjóðargersemi á Þremur frökkum

Veitingar

Heimsóknir í Þrjá frakka eru jafnan unaðslegar. Í gærkvöldi fékk ég nýja hrefnu hráa að japönskum hætti, með sojasósu. Og alvöru skötu með dillsósu, mun þykkri en tindabikkja, stærri en ég hef áður séð. Var herramannsmatur, sem og eftirrétturinn skyr með brenndri skorpu, Crème Brûlée. Þrír frakkar bjóða jafnan óvenjulega hæfilega eldaðan fisk án tízkuæfinga í myndlist eða skúlptúr. Þetta er eitt af þremur veitingahúsum borgarinnar, sem ég hlakka jafnan til að heimsækja. Hornsteinn heiðarlegrar eldamennsku í sjávarfangi. Úlfar Eysteinsson og Stefán sonur hans eru þjóðargersemi.

Ævinlega fullsetinn

Veitingar

Þrír Frakkar hafa risavaxið úrval fiskrétta á degi hverjum. Í hádeginu er hægt að fá þar tíu fiskegundir, fyrir utan saltfisk, plokkfisk og gellur. Verðið er um 2300 krónur á rétt í hádeginu. Á kvöldin er svipaður fjöldi rétta og verðið um 3100 krónur á rétt. Forréttir eru tíu, þar á meðal hrár hvalur á 1890 krónur, mesta ljúfmeti. Með eftirrétti kostar þríréttað alls um 6000 krónur á kvöldin. Matreiðslan er í stórum dráttum eins milli daga. Þrír Frakkar eru jafnan fullsetnir fólki, einkum erlendu, sem kemur aftur og aftur. Þröngt er setið, sumir bíða við skenkinn og staðurinn iðar af lífi.c

Hríseyjarkræklingur í Humarhúsinu

Veitingar

Fínn hádegismatur í Humarhúsinu í dag. Fyrst hrá hrefna kryddlegin, svonefnt sashimi, með þurrkuðum engifer, örlítið krydduðum piparrót. Svo Hríseyjar-kræklingur í skelinni með smásöxuðu grænmeti, sterkri kræklingasúpu og kartöflustöppu. Hrefnan fín og kræklingurinn frábær. Stappan var óþörf. Bláberjaís með súkkulaðiköku og jarðarberjum fyllti upp með hitaeiningum. Heimagert konfekt með kaffinu. Humarhúsið er eitt þriggja beztu veitingahúsa Íslands, með næmri matreiðslu á fiski. Er utan við tízku myndlistar- og höggmyndaeldhúsa. Hádegis tveggja rétta á 2900, þriggja rétta á 3400 krónur.

Hafberg sveik mig

Veitingar

Fiskbúðin Hafberg er staðin að hæsta fiskverði á Reykjavíkursvæðinu, hærra en hjá búðum Fiskisögu. Þetta eru mér mikil vonbrigði. Hafberg var ódýr, þegar ég fór að kaupa fisk þar fyrir ári. Eftir síðustu áramót fór mér að finnast verðið þar hækka grunsamlega. Og nú hefur Alþýðusambandið staðfest, að Hafberg sé sokkin í græðgi. Það er skelfilegt, þetta er eins og að vera sagt upp ástarsambandi. Nú þarf ég að leita mér að nýrri fiskbúð, í Hafberg kem ég ekki aftur að sinni. Sendið mér tölvupóst á jonas@hestur.is. Með meðmælum um aðra fiskbúð á svæðinu. Spánnýjan fisk á sanngjörnu verði, takk.

Búðin við bryggjuna

Veitingar

Ég þakka frábærar viðtökur við neyðarópi mínu í morgun. Flestir bentu á fiskbúðina Freyju við Bakkabraut 1 í Kópavogi, götu utan símaskrár, en við bryggjuna þar. Ég þarf endilega að benda á aðrar fiskbúðir, sem fengu atkvæði. Gildir ekki sem skoðanakönnun, en er fullgild atkvæðagreiðsla. Freyja fékk 54 atkvæði, Hafrún í Skipholti 18 atkvæði, Fiskikóngurinn á Sogavegi 16 atkvæði, Fiskbúðin í Trönuhrauni í Hafnarfirði 7 atkvæði og Fiskbúðin við Freyjugötu 6 atkvæði. Ég fór í Freyjugötu í dag, það var í leiðinni, fer í Kópavog eftir helgina. Kærar þakkir, lesendur.

400 veikir á Feitu öndinni

Veitingar

Ég sagði ykkur um daginn frá The Fat Duck, brezka stjörnustaðnum. Honum var lokað vegna veikinda, sem virtust vera matareitrun. Þá höfðu 40 manns kennt sér meins, en þeir eru núna orðnir 400. Feita öndin er fulltrúi matreiðslu, sem komst í tízku um tíma. Hún byggist á efnafræðiþekkingu. Búin eru til furðufyrirbæri á borð við eggja-og-beikon ís. Þessi veitingahús voru afar dýr, þétt setin yfirmönnum fjármálastofnana. Nú er komin kreppa og fíflaleg matreiðsla er ekki lengur í tízku. Sem betur fer, því að hún hafði skaðleg áhrif á matreiðslumenningu Vesturlanda. Teygði áhrif sín hingað til lands.

Fiskurinn kom í pottinum

Veitingar

Veitingastofan Dill kúrir notalega í kaffistofu Norræna hússins. Norrænt smart með svörtu gólfi og svörtum stólum, hvítum dúkum og teiknipappír á borðum. Risagluggar veita fínt útsýni yfir miðbæinn í hádeginu. Þá er súpa á 850 krónur, salat á 950 krónur og fiskur dagsins á 1.700 krónur. Súpan var kúmenkryddaður gulrótagrautur. Fiskurinn var soðinn þorskur undir ostþaki með lauk og fenniku og hýðiskartöflum, borinn fram í potti. Fín matreiðsla borin fram af fínni þjónustu. Gunnar Karl og Ólafur Örn heita fagmennirnir. Hafa líka opið þrjú kvöld í viku. Þá er dýr lúxusmatur, meira um það síðar.

Feitu öndinni lokað

Veitingar

Einu þekktasta veitingahúsi heims hefur verið lokað um óákveðinn tíma. Tæplega 40 manns fengu í vikunni matareitrun hjá Heston Blumenthal á Fat Duck í nágrenni Lundúna. Grunur leikur á sniglagraut, en engin örugg niðurstaða hefur fengizt. Þetta er áfall fyrir veitingahús, sem rukkar hvern gest að meðaltali um 130 pund. Það eru rúmlega tuttugu þúsund krónur. Mér finnst líklegt, að veitingahúsum, sem leika sér með matinn, sé hætt við matareitrun. Mikil forvinnsla og mikil notkun bindiefna í nýklassískri myndlistar-matreiðslu býður hættunni heim.

Svartur og góður

Veitingar

Basil & Lime er ítalskur staður vinsæll við Klapparstíg, þar sem einu sinni var Pasta Basta. Staðurinn er svartur í borðdúkum, stólum og gólfi. Þjónusta þægileg og fagleg. Maturinn er ekki eins góður og á Primavera, en er ódýrari. Forréttir á 1050 kr, pasta á 1450 kr, fiskur á 2850 kr, kjöt á 3600 kr, eftirréttir á 1250 kr. Villisveppa-risotto var bragðsterkt og -gott, en ekki eins maukað og heima í Feneyjum. Sjávarréttasúpa var fínn matur með sterku kræklingsbragði. Ragú taglitelle var betra en nafnið. Saltfiskur var notalega eldaður, með sterku tómatmauki. Góð viðbót við íslenzkt matarlíf.