Veitingar

Beztur matur í Alfama

Veitingar

Fann bezta matstað Lissabon neðst í márahverfinu Alfama. Flos dos Arcos er við Fado-safnið, þar sem eru minni um þjóðvísur portúgala. Þangað rambaði ég á rölti um þröng og brött einstigi kastalabrekkunnar. Fékk frábæran sólkola, nákvæmar eldaðan en á fínu stöðunum í Michelin. Gambrinus við aðaltorgið, Casa do Comida og Casa do Leao í márakastalanum yfir borginni voru góðir staðir. Hvergi var fiskurinn eins góður og þar sem hann kostaði þriðjung af verði annarra staða. Gambrinus er gamalfínn í sniðum, afgreiðir matinn á fötum, sem þjónar færa upp á diska, eins og gert var fyrir 1980.

Þrjú þúsund króna stjarna

Veitingar

Borðaði í hádeginu á Eleven, eina matstað Lissabon með stjörnu í Michelin. Glæsistaður með útsýni yfir miðbæinn og Tagus-fljót. Með hefðbundnum brag nýklassískra húsa. Þjónusta í yfirmáta skólagenginni nákvæmni. Smakk var borið á borð milli rétta. Boðið var upp á samræmda röð rétta og vína að nýfrönskum hætti. Sandhverfan var aðeins úr hófi elduð. Það eru algeng mistök nýklassískra staða og gerast jafnt á Íslandi sem í Portúgal. Efast um, að nokkur staður á Íslandi sé einnar stjörnu virði. Og fæstir bjóða þeir matarveizluna á þrjú þúsund krónur eins og stjörnustaðurinn Eleven.

Himnaríki Humarhússins

Veitingar

Eitt allra bezta veitingahúsið býður hádegisverð á 2000 krónur. Humarhúsið var í gær með mjúka gulrótarsúpu og bezta saltfisk landsins fyrir lægra verð en Fish & Chips í Tryggvagötu. Saltfiskurinn var hæfilega útvatnaður og bragðmildur, borinn fram með mjúkum humri, gulrótarsósu, hörpufiski og laxahrognum. Þjónustan var fullkomin, enda langskólagengin. Húsnæðið er eins notalegt og það getur verið. Humarhúsið er mörgum gæðaflokkum ofar en önnur hús með hádegismat kringum 2000 krónur. Þannig er vörumerkjaöldin, verð og gæði á vöru og þjónustu eru tvennt ólíkt, hafa engan snertiflöt.

Síðasti móhíkaninn

Veitingar

Síðasti móhíkaninn hefur gefizt upp. Tour d’Argent, fínasta veitingahús veraldar, hætti að bjóða klassíska franska eldhúsið. Í gullturninum við hlið Notre Dame í París, handan Signu, er komið nýfranskt eldhús. Áfram verður þó hægt að fá “blóðönd” og “fiskibollur”. Hér er sagt, að gaffallinn hafi verið fundinn upp fyrir rúmum fjórum öldum. Enn er þar einn dýrasti vínkjallari heims. Claude Terrail safnaði honum, rak húsið í sextíu ár, er nýlátinn. Sonur hans, André Terrail hyggst bylta eldhúsinu. Ég efast um, að hann geti selt nýfrönsku hugmyndina. Hún er þegar orðin þrjátíu ára gömul.

Nokkrir nothæfir

Veitingar

Hádegisverðarstaðir hafa ekki mikið svigrúm í verðlagi. Múlakaffi er ágæt sjálfsafgreiðsla, selur mat á 1300 krónur. Fyrsta flokks staður matgæðinga, Humarhúsið, selur hann á 2000 krónur. Bara Kínahúsið fer niður úr skalanum með 950 króna hádegismat. Á bilinu eru svo nothæfir, Tilveran í Hafnarfirði á 1500 krónur, Laugaás á 1700 krónur og Þrír frakkar hjá Úlfari á 1800 krónur. Þetta eru bara fimm staðir á öllu höfuðborgarsvæðínu. Restin er ýmist vanhæf eða sprengir upp verðskalann. Sumir staðir eru fyrir túrista, sumir þvo peninga, sumir þykjast cool og aðrir eru bara. Í tilgangsleysi.

Frábær minnisvarði

Veitingar

Múlakaffi er dýr og vinsæl sjálfsafgreiðsla við Lágmúla, súpa og réttur í hádeginu fyrir 1.300 krónur. Frábær minnisvarði um mötuneyti fortíðar. Hér fékk ég góða soðningu, ýsu með hvítum kartöflum, rúgbrauði og hömsum. Ýsan var auðvitað ofelduð, enda kemur allt upp úr hitakössum. Ljúfsætur jólagrautur með kanil og rúsínum hét sunnudagsgrautur. Svo fást fiskibollur og hvítkálsbögglar, kjötbollur og medisterpylsur, hakkabuff og plokkfiskur, saltfiskur og bjúgu. Allt er eins og ég man það úr mötuneyti Sogsvirkjunar fyrir nákvæmlega fimmtíu árum. Þetta er það, sem fólkið vildi. Og vill enn.

Tilveran er toppstaður

Veitingar

Eini galli Tilverunnar er að vera í Hafnarfirði, þangað sem ég á sjaldan erindi. Hún býður sex ferska fiskrétti í hverju hádegi. Þeir kosta að meðaltali bara 1.500 krónur með súpu dagsins. Hún er að vísu hveitigrautur að íslenzkri hefð. En fiskurinn er fínlega eldaður, betur en í flestum sparistöðum landsins. Hann á að vera heillegur, lyktarlaus, með fiskbragði. Eldað er sér fyrir hvern kúnna. Ég prófaði hlýra með plómusósu og stöðluðu grænmeti, bakaðri kartöflu góðri og ágætu hrásalati smásöxuðu. Þetta var svo gott, að ég verð að finna upp tækifæri til að koma tíðar í Hafnarfjörð.

Nostalgía án rauðgrauts

Veitingar

Ég kem ekki á Jómfrúna við Lækjargötu vegna brauðsneiðanna. Þó fæ ég mér alltaf frábæran rækjuturn með stórum og glansandi rækjum. Ég kem vegna nostalgíu. Sem barn fékk ég hjá ömmu hakkebøf, rødspætte, ribbensteg, mørbrad, leverpostej og frikadeller. Allt gamlir vinir. Hún gaf líka bolsjer og bilæt í bíó. Í gær fékk ég rauðsprettu með remúlaði, mjög fínt eldaða, betri en í gamla daga. Það eina, sem vantar í Jómfrúna er rødgrød med fløde, mér minnisstæðastur úr fortíðinni. Jómfrúin er ætíð full gesta í hádeginu. Rauðsprettan kostar bara 1350 krónur, rækjuturninn 1180 krónur.

Bilað eldhús á Geysi

Veitingar

Þjónusta er góð á Geysi, nýjum og björtum stað ofan við Sjávarkjallarann austast í Vesturgötu. Stílhreinn er hann ekki. Ég kann ekki við mislitt burðarvirki og enn síður við spegilglansandi diner-stíl á rauðum skenk. Ljósakrónur eru smart. Geysir hefur náð vinsældum ungs fólks, sem étur pöstur og hamborgara. Sápulykt var að vatnsglasinu. Spergilkálssúpa var hveitigrautur að hefðbundnum hætti íslenzkum. Ýsa var fyrst pönnusteikt og svo gratíneruð með meðlæti. Aðallega meðlæti, hrísgrjónum, sveppum og rækjum. Áhugaverður samkomustaður, en ekki innlegg í gastrónómíu bæjarins.

Fín steik á Flúðum

Veitingar

Nú þarf ég ekki lengur að elda á Kaldbak, ef mér leiðist það. Stekk bara upp í bíl og fer niður að Flúðum. Þar er komið veitinga- og kaffihúsið Grund andspænis hótelinu. Ég hef haft ýmsar efasemdir um matinn og verðið á keðjuhóteli staðarins. En nú er komin samkeppni. Matseðillinn á Grund er að vísu fullur af borgurum, nöggum og pöstum, sem ég fýli grön við. En þar fékk ég eðalfína lambasteik, rétt eldað filet með piparsósu, þessu líka glæsilega hrásalati og milt pönnusteiktum kartöflum. Nú bíð ég bara eftir, að nýja Grund geri eitthvað sniðugt við glæsiafurð Gullhreppa. Grænmetið.

Fínn matur á 950 krónur

Veitingar

Ég verð að leiðrétta mig. Á föstudaginn sagði ég, að mörk góðs og vonds hádegismatar á veitingahúsum væru við 1.600 krónur. Ég gleymdi Kínahúsinu. Þar borða ég súpu og þrjá rétti fyrir 950 krónur í hádeginu. Grænmetissúpan var fín og réttirnir séreldaðir fyrir hvern kúnna, ekki upp úr hitakössum. Það voru rækjur, kjúklingur og lambakjöt. Staðurinn er friðsæll, þægileg tónlist frá Singapúr, vel í sveit settur á horni Lækjargötu og Skólabrúar. Ekki er til neinn sambærilegur staður í lágu verði og góðum mat hér á landi. Hér hef ég borðað oft í áratug. Aldrei orðið fyrir vonbrigðum.

Unaðslegt í Laugaási

Veitingar

Í hádeginu eru mörk vonds og góðs matar um 1600 krónur. Eftir nokkur hádegi á fiskbitastöðum, sem afgreiddu upp úr hitakössum, var unaðslegt að koma í Laugaás. Þar má velja í hádeginu milli fimm rétta dagsins með súpu. Fín grænmetissúpa var með rjóma og litlu eða engu hveiti. Rauðsprettan var nákvæmlega milt pönnusteikt. Borin fram með sítrónu, fersku grænmeti og fallegum, íslenzkum kartöflum soðnum. Eggjasósan með fiskinum var þunn og mild. Fiskbitastaðirnir verðlögðu matinn á 1200-1300 krónur, en Laugaás er með 1700 króna meðalverð. Gæðamunurinn er miklu meiri. Enda ætíð fullt hús.

Súpa úr reyktum silungi

Veitingar

Sjávarbarinn á Granda selur fiskihlaðborð á 1200 kr í hádegi og 2400 krónur að kvöldi. Hádegið er þjóðlegt fyrir verka- og kaupsýslumenn, kvöldin með fjölþjóðlegra ívafi fyrir hina. Í hádeginu í gær var gratíneruð ýsa og ufsi, hvort tveggja gott, en ofeldað. Það er óhjákvæmilegt í hlaðborði með hitakössum. Til hliðar var góð súpa úr reyktum silungi; vondur saltfiskur; ágætis laxafroða; og hefðbundnar fiskibollur og plokkfiskur með rúgbrauði. Hlaðborðið er svipað frá degi til dags. Magnús Ingi Magnússon kokkur og veitingamaður þessa snyrtilega staðar tekur ljúflega á móti gestum sínum.

Eyðimörk matargerðar

Veitingar

Lyppast hafa niður matstaðir, sem áður voru góðir, frægastir Grillið á Sögu og Sjávarkjallarinn í Geysishúsinu. Mér er sagt, að senn muni Holtið rísa úr öskustó. Ekki veitir af, því að matreiðslu hefur farið aftur í borginni á síðustu árum. Sommelier og Maru hættu og Apótekið er að hætta. Sumir nýir staðir eru sjónhverfingar, líklega settir upp til að vaska peninga úr fíknibransanum. Ég borða á Primavera og Tjörninni, Þremur frökkum og Austur-Indíafélaginu, Laugaási og Tilverunni, Sægreifanum og Kínahúsinu, Jómfrúnni og heima. Því færri verðlaun kokkanna, þeim mun betri matur.

Skólabrú er laus

Veitingar

Ef ég ræki veitingahús, mundi ég vilja gera það á Skólabrú andspænis kór Dómkirkjunnar. Þar bjó og vann augnlæknirinn Kristján Sveinsson á virtasta höfðingjasetri bæjarins. Húsið er glæsilegt, teiknað fyrir öld arkitekta, kjörið fyrir snilling. Í fimmtán ár var hér veitingastaðurinn Skólabrú. Hann byrjaði rösklega með Skúla Hansen sem eldameistara, sem stóð stutt við. Síðan koðnaði staðurinn niður í ekki neitt á vegum ýmissa gleymdra eigenda og kokka. Nú er búið að loka staðnum og er það vel við hæfi. Hér þarf að kvikna nýtt líf. Kjörinn staður fyrir nýfranskan sjávarréttastað.