Veitingar

Stríð gegn veitingahúsum

Veitingar

Nornaveiðar gegn veitingahúsum eru rugl. Matvæli eru bara hluti af verði matsölustaða. Ódýr veitingahús á borð við Pottinn og pönnuna geta lækkað verð um 2%, ef vaskur lækkar mat um 7%. Þar eru matvæli kannski þriðjungur af verði. En dýrt veitingahús þarf ekki að lækka verð, því að þau eru að verðleggja fleira en hráefni. Ef staður er talinn hipp og kúl og verðleggur sig sem slíkan, er hráefnið kannski 10% af veitingaverði. Það þýðir, að lækkun matvælaverðs um 7% samsvarar minna en 1% af matarverði hjá Domo. Ég sé því ekkert brýnt samhengi milli breytts vasks og verðlags veitingahúsa.

Hipp og kúl matur

Veitingar

Litlu, sætu dúfurnar og karrarnir þeirra fylla Domo í Þingholtsstræti á kvöldin. Þeim finnst hipp og kúl að koma þangað, fjárhagslega vaxin upp úr hamborgurum og pítsum. Maturinn er frambærilegur, en hefur þann eina metnað að sýnast. Uppsetningin á diska er mikilvægari en bragðdauf matreiðsla, sem kýlir ekki einu sinni á “fusion”-tízku með sterku kryddi. Japanskt sushi er betra og ódýrara í Maru í Aðalstræti. Sem tízka í mat er Domo daufari kostur en Apótekið í Pósthússtræti, sem áður var hipp og kúl. Ekta matreiðsla er rýrnandi þáttur í pakkanum, sem ræður vinsældum hipp og kúl veitingahúsa.

Einstæðingur étur

Veitingar

Stundum er ég einn, konan á pólitískum fundum og ég nenni þá ekki að elda. Matstaðir henta einstæðingum misjafnt, hótelsalir eru undantekningarlaust góður bakgrunnur. Ég fer ekki á skyndibitastaði og mér finnst hótelsalir of dýrir, þegar ég hef ekkert tilefni annað en letina. Flestir aðrir staðir henta betur pörum eða fleira fólki saman. Ég kann vel við Kínahúsið og Þrjá Frakka, en það eru ekki staðir fyrir einstæðinga. Þá hef ég helzt hallazt að Pottinum og pönnunni í Nóatúni. Þar er alltaf fínn fiskur dagsins með salatborði og vali milli tveggja súpa á 2.400 krónur.

Heimsfrægð er hætt

Veitingar

Aðstandendur Food & Fun hátíðarinnar hafa tekið mark á gagnrýni. Þeir halda ekki lengur fram, að heimsfrægir séu erlendu kokkarnir, sem nú keppa og elda á veitingahúsum hér í bæ. Ég kannaði málið á sínum tíma og komst að raun um, að þeir voru aðeins heimsfrægir á Íslandi. Í textreklame Moggans er að þessu sinni farið með löndum og ekki fullyrt neitt um heimsfrægð kokkanna. Aðstandendur ferða íslenzkra kokka á vit franska kokksins Bocuse mættu læra af þessu. Bocuse er enginn stólpakokkur, ekki meðal hundrað beztu í Frakklandi. Keppni hjá honum er einskis virði.

Leiðsögn út í hött

Veitingar

Skrítin eru ráð leiðsögumanna um veitingahús í ýmsum borgum og bæjum. Þær birtast til dæmis í auglýsingabæklingi Flugleiða, Mín borg, sem borinn var í hús til mín. Þegar ég hef verið á ferðastöðum við Miðjarðarhafið, hef ég tekið eftir, að sumir íslenzkir leiðsögumenn þjóna matsölustöðum, taka prósentur af Íslendingaveltu. Í Madonna um daginn var reynsla mín af veitingum þveröfug við ráð leiðsögumanna. Með samanburði á dómum erlendra dagblaða og ábyrgra leiðsögubóka á borð við Michelin, Gault-Millau og Zagat, sé ég, að ráðin í bæklingi Flugleiða eru flest út í hött.

Toppur hverfis 101

Veitingar

Ferska smárétti að japönskum hætti úr hráum fiski fæ ég á Maru í aldna Ísafoldarhúsinu í Aðalstræti. Annars staðar í borginni eru þeir forsniðnir og geymdir, sigla á færibandi klukkustundum saman í Iðu. Stílhreinn naumhyggjusalurinn hefur verið í rúmlega sex ár í Aðalstræti, síðustu þrjú árin undir heitinu Maru. Í tilefni löggildingar sem gamlingja bauð konan mér á þennan alvörusal að japönskum hætti. Fyrst miso sojasúpa, síðan nokkur eintök af sashimi hráfiski, af sushi (nigiri) hráfiski á hrísgrjónum og af maki hrognum í þangrúllum. Þetta er toppurinn á hverfi 101.

Tveir góðir kostir

Veitingar

Le Roi er veitingastaður skíðamanna í Madonna á Ítalíu. Þar fæst allt, sem hugurinn girnist, pítsur og pöstur, sveppir og steikur, dádýr og hirtir, sómasamlega matreitt og árvökult fram borið. Enda er staðurinn sneisafullur á hverju kvöldi, innréttaður í alpastíl. Þríréttað með víni kostar þar 3.000 krónur á mann. Vilji menn borða franskt og fínt, er Da Alfiero góður kostur. Þar er þjónusta eins lærð og á dýrustu stöðum Reykjavíkur, maturinn oftast frábær og verðið ekki nema 4.000 krónur á mann.

Ferðamannagildrur

Veitingar

Fátt matstaða kemur til álita í Madonna á Ítalíu utan Le Roi og Da Alfiero. Til skamms tíma var þar góður staður, Artini, á 4.000 krónur þríréttað með víni, en nú má nota Antico Focolare á sama verði, góðan og líflegan stað með nokkuð góðri matreiðslu. Gleymið hins vegar dýrum ferðamannagildrum á hótelunum Bertelli og Imperatore. Bertelli veltir sér upp úr snobbi með vindlasal og verðlagi í skýjunum, 7.500 krónur á mann. Imperatore er í kuldalegum kjallara, býður góða matreiðslu og ómenntaða þjónustu á 5.000 krónur á mann.

Eldunarleti

Veitingar

Þegar allir eru í sveitinni og ég er einn heima að vinna, nenni ég ekki nema stundum að elda ofan í mig heitan mat. Ég freistast til að fara út að borða. Kvöldmatur þarf ekki að vera dýr í bænum. Á Krua Thai borga ég 1200 krónur, en umhverfið á staðnum er ekki aðlaðandi. Múlakaffi kostar 1300 krónur, en þar er maturinn geymdur í hitakössum. Tvíréttaður eða meiri alvörumatur fæst í Kínahúsinu á 1900 krónur, 2250 á Pottinum og pönnunni, 2450 á Jómfrúnni og 2950 krónur á Maru, á Þremur frökkum hjá Úlfari og á Laugaási. Miðað við gæði eru þetta frambærilegar upphæðir.

Borðstofan okkar

Veitingar

Þegar ég kem þreyttur af hestbaki og nenni ekki að elda, verður oftast fyrir mér Kínahúsið. Þar er aldrei fullt, þótt þar sé bezti Kínamatur landsins, notaleg stofa og róandi tónlist frá Singapúr. Þar kostar tæpar 2000 krónur að borða súpu og fimmréttaðan mat, sem kemur ekki upp úr hitakössum, heldur er séreldaður fyrir hvert borð. Þetta kostar þriðjung af verði Víns og skeljar og skilur eftir þægilegri tilfinningu, þegar haldið er heim. Stundum er svo fátt í Kínahúsinu, að ætla mætti að þetta sé borðstofan okkar Kristínar.

Tilgangsleysi

Veitingar

Enn einn tilgangslausi matstaðurinn, í bakhúsi við Laugaveg 55. Vín og skel býður daufa matreiðslu og verðleggur hana dýrt, 5800 krónur þríréttað, litlu lægra en Sjávarkjallarinn, svipað og Tjörnin og Primavera, dýrari en Þrír Frakkar. Saltfiskur var bara saltur fiskur með frönskum kartöflum, rauðkáli og grænmetisteningum. Humar var óvenju smár og langeldaður. Humar- og kúskeljafroða var bara froða. Bezt var fjölbreytt sjávarréttasúpa, kostaði aðeins 1250 krónur í hádeginu. Hvíttaður kjallari með óbrjótanlegum vínglösum og svörtum borðdúkum býður öll borðvín í glasatali.

Glaður og fínn

Veitingar

Ég var í Sjávarkjallaranum, sæll að venju í fullu húsi að venju. Þetta er annar af tveimur toppstöðum veitinga, hefur ekkert gefið eftir í úthaldi í tæp þrjú ár. Eini staður ekta samrunastíls hér á landi, blandar saman frönskum grunni og austrænum viðbótum. Dýrastur er 6800 króna seðill tólf smárétta, sem jafnan freistar mest, enda kostar þríréttað litlu minna, 6500 krónur. Hér fæst barri með silungahrognum, linskeljarkrabbi með gúrku, saltfiskur með engifer, kakóbaunafroða með skyri. Í hádeginu er hægt að fá sjávarréttasúpu á 1400 krónur. Hér er glöð og fín matarstemmning.

Indian Mango

Veitingar

Indian Mango

Indian Mango er ofmetið veitingahús við Frakkastíg með fjölþjóðlegri blöndu af vestrænni matreiðslu, portúgalskri og matreiðslu frá borginni Goa á vesturströnd Indlands. Þetta er ekki indverskur staður í hefðbundnum skilningi, býður ekki kryddaða raita jógúrt eða naan brauð og ekki heldur rétt eldað tandoori úr leirofni. Fráleitt er að borða þar tandoori kjúkling, en ágætt að fá sér hæfilega grillaðan svartfugl að ný-íslenzkum hætti. Ekki veit ég, hvers vegna sílikonliðið elskar staðinn, kannski af því að staðurinn er enskumælandi, ekki hægt að panta mat á íslenzku.

Veitingarýni

Indverskur matur er mun betri á Austur-Indíafélaginu á Hverfisgötu, að vísu dýrari. Þar kostar þríréttað 4.800 krónur, en á Indian Mango kostar það 3.300 krónur, svo sem sanngjarnt verð, ef þú heldur ekki, að þú sért að borða upp á indversku. Afgreiðslan er hæg, en þjónustan er brosmild og þægileg, dálítið upphafin á ameríska vísu, en þó ekki ætluð túristum. Staðurinn er í kjallara, tekur um 40 manns í sæti á tveimur gólfum. Húsakynni eru notaleg, svo sem tágastólar, skreytingar ekki of indverskar, íslenzkt málverk er á vegg. Munnþurrkur eru úr þykkum pappír og hnífapör eru sérstæð.

Frumlegt

Áherzla er lögð á frumlega framsetningu rétta eins og í klassískri eldamennsku íslenzkri. Rauðvínsglas var sett á hvolf ofan á kryddlegið hrásalat, uppi á botninum haft chutney sulta og í kring fjórir munnbitar af hveitihúðuðum fiski. Geymslubragð var að rækjum í stökku pappadom brauði, sem fylgir flestum réttum. Djúpsteiking var mikið notuð á sætum kartöflustöngum. Mig langar ekki í neitt af þessu aftur, nema íslenzka svartfuglinn. Indian Mango fær tvær stjörnur.

DV

Fjarri markaðinum

Veitingar

Fólk, sem fer út að borða, vill góða þjónustu í notalegu umhverfi og njóta þar vandaðrar matreiðslu fyrir ekki allt of mikla peninga. Skyndibitastaðir eiga nánast allan markaðinn, en svigrúm ætti að vera fyrir nokkur hús til viðbótar með meiri metnaði. Það er ekki eðlilegt, að helztu kokkar landsins séu allir með sömu matreiðsluna, sem er þar á ofan utan við skilning og áhuga fólks. Af hverju fóru þeir ekki í Myndlistarskólann, ef þeir eru svona uppteknir við að búa til skúlptúr á diskum? Af hverju fara þeir ekki upp úr skólabókinni og færa sig nær markaðinum fyrir matreiðslu?

Önnur matreiðsla

Veitingar

Aðrir möguleikar eru í stöðunni. Fyrir minna fé er hægt að fá fínan mat af ítölskum ættum á Primavera við Austurstræti, japönskum ættum í Maru við Lækjargötu og af indverskum ættum í Austur-Indíafélaginu við Hverfisgötu. Góðan fisk er hægt að fá vel matreiddan í Þremur Frökkum hjá Úlfari við Baldursgötu, Pottinum og pönnunni við Nóatún og Gallerý Fiski við Nethyl. Allt eru þetta staðir, sem eru miklu ódýrari en nýklassísku húsin og veita jarðbundnari veizlur fyrir matgæðinga. Okkur vantar hins vegar góða matreiðslu á dönsku og kínversku eða bara í stíl íslenzks mömmueldhúss.