Veitingar

Endalaus langa með graut

Veitingar

Fiskheildsalinn, sem sér góðum veitingahúsum fyrir fiski dagsins á morgnana, er alltaf með löngu. Fínn fiskur, sem kokkarnir elda meistaralega. Þeir elska að hafa bygggraut með löngunni. Þess vegna er langa með bygggraut ævinlega fiskur dagsins á góðum stöðum. Í sjálfu sér herramannsmatur. Er þá lengur hægt að tala um fisk dagsins? Nokkuð skárra en að tala um plokkfisk sem fisk dagsins? Borða svo oft úti, að ég er fyrir löngu búinn að fá upp í kok af löngu með bygggraut. Í gamla daga settu verkamenn í laxadrætti í samninga, að ekki væri lax í matinn alla daga. Svo má góðu venjast, að vont þyki. Mótmæli dagsins hér með afgreidd.

Landinu til sóma

Veitingar

Áramótauppgjör þessa bloggs snýst auðvitað um aðalatriðið, gæði matstaða, sem eru opnir í hádegi. Tvö standa fremst, Sjávargrillið og Matur & drykkur. Þar bregzt ekki matreiðsla; húsakynni og þjónusta eru notaleg. Næst koma Restó og Verbúð 11. Matreiðslan er í toppi á Restó, en húsakynni í mínus. Í Verbúð 11 eru húsakynni dauf. Þriðja bezta hópinn skipa Fiskfélagið og Grillmarkaðurinn. Of mikið er um breytingar í þjónustu á fyrri staðnum og fisk dagsins vantar á þann síðar. Svo kemur Apótekið í frábærum húsakynnum. Loks koma við toppinn Kopar og Tilveran. Mér sýnist eigandinn hættur að elda á Kopar og í Tilverunni vantar huggu í húsakynnum. Af gömlum vana er Holtið í tíunda sæti, ef þú kannt ensku. Allir staðirnir eru landi og þjóð til sóma, fá Jónasar-stjörnuna 2015.

1. Sjávargrillið, Skólavörðustíg 14/Óðinsgötu
2. Matur & drykkur, Salthúsinu Grandagarði 2
3. Restó, Rauðarárstíg 27-29
4. Verbúð 11, Geirsgötu 3
5. Fiskfélagið, Grófinni/Vesturgötu 2a
6. Grillmarkaðurinn, Austurstræti/Lækjargötu 2a
7. Apótekið, Austurstræti 16/Pósthússtræti
8. Kopar, Verbúðunum/Geirsgötu 3b
9. Tilveran, Linnetstíg 1 Hafnarfirði
10.Holtið, Bergstaðastræti 37

Bygggrautur út í eitt

Veitingar

Hefðbundið var í íslenzkri matreiðslu að hafa fisk eða kjöt á diski með soðnum kartöflum. Síðan bættist við grænmeti, léttsteikt og hrátt. Undanfarin misseri hefur kartaflan vikið fyrir nýrri tízku. Bygggrautur hélt innreið sína, minnir á norðurítalskan hrísgrjónagraut, risotto. Bygggrauturinn hefur farið þvílíka sigurför um íslenzk matargerðarhús, að leitun er að stað, sem býður kartöflur með fiski. Bygggrauturinn er allsráðandi með fiski, líklega að makleikum, því að hann er notaleg fæða. En verður samt að kunna sér hóf eins og aðrar dellur. Kominn er tími til, að meistarakokkar auki fjölbreytni í meðlæti á diskinum.

Bakvið eldavélina

Veitingar

Guðni Ágústsson fékk það skakkt í hausinn. Staður karlsins er við eldavélina og  konunnar úti í sal. Þær kunna snyrtimennsku og mannasiði, þeir kunna að skarka í pottum og pönnum. Þannig eru sum beztu matarhús okkar. Eins og í Frakklandi, uppsprettu matargerðarlistar. Ekki segja mér, að þetta sé rangt, eitthvað verða karlar að hafa sér til ágætis, þegar konur eru beztar í öllu öðru. Geta meira að segja hugsað um þrennt í senn, en karlar bara um eitt eða bara hálft í senn. Sér til varnar hafa Guðni og sálufélagar bara rembuna, sem hefur sligað öldunga um aldir. Ættu að prófa eldavélina og reyna að gera eitthvert gagn í lífinu.

Hrun í eldhúsi

Veitingar

Apótekið fagra í Pósthússtræti er orðið vinsælt af innfæddum jafnt og túristum. Samstundis var hætt að hugsa um matreiðsluna, enda er slíkt jaðaratriði óþarft, þegar tízkan talar. Fiskur dagsins (2.290 kr) í dag var gamall þorskur, langvinnt steiktur, borinn fram með trénuðu rótargrænmeti, nærri ósteiktu og óskeranlegu. Enn grimmar steiktur var skraufaþurr andarleggur (2.690 kr), borinn fram með maltsósu og hnausþykkri vöfflu með sykursteiktum eplalengjum. Tilfinningalaus matreiðsla, sú versta sem ég hef þolað í nokkur ár. Minnti á hræðilega daga fyrir fjörutíu árum, þegar Borgin og Naustið réðu ferðinni í veitingum.

Konan og karlinn

Ferðir, Veitingar

Á suðurleið minni í vikunni heimsótti ég tvö dæmi um farsæla ferðaþjónustu. Hef séð sömu formúlu víðar. Aðkomufólk flytur í pláss, konan er fyrirmyndar vert og kokkur, karlinn er handlaginn. Þau kaupa sér stórt og gamalt hús fyrir lítinn pening. Hann innréttar og hún sér um gestina. Á persónumiðlum spyrst fréttin og viðskipti bólgna. Á Blönduósi opnaði Yolanda hótel Kiljuna, fyrst í einu húsi og síðan öðru. Nú er verið að innrétta það þriðja. Pólskt framtak hleypir lífi í þreytt þorp við nyrzta haf. Svo kom ég í Borgarnes, hvar Svava Víglundsdóttir frá Vopnafirði klófesti gamla sýslumannskontórinn, setti upp Blómasetrið, síðan Kaffi Kyrrð og loks samnefnt hótel. Rífandi gangur eins og á Blönduósi.

Kiljan bjargar mér

Ferðir, Veitingar

Loks hef ég fundið gistingu við þjóðveg 1, sem sker Þingeyjarsýslur-Reykjavík í tvær dagleiðir. Blönduós hefur hingað til ekki verið frægt fyrir ferðaþjónustu. Hótel Kiljan bjargar öllu á sjávarkambinum í gamla þorpinu vestan brúar. Er komið yfir í tvö hús og á leið í það þriðja. Hvílíkur munur frá gamla og fúna Hótel Blönduós. Hér brakar í gömlu húsi, herbergi einföld og ódýr, matur fyrsta flokks. Yolanda hin pólska er allt í öllu, mjög leikin í pönnusteikingu. Ýmis fiskur eða kjöt með brúnuðum kartöflum á beði af léttsteiktu grænmeti, á ljúfu verði. Kaka úr eplareimum einstök í sinni röð. Morgunmatur til fyrirmyndar. Gisting, kvöld- og morgunmatur fyrir tvo á 22 þúsund kr.

Himneskt Lónkot

Ferðir, Veitingar

Norður við yzta haf er eitt bezta veitingahús landsins. Lónkot rétt norðan við Hofsós býður nýfranska matreiðslu, jafnvel franskan kokk. Salat og magnað krydd úr haga og túni. Við hjónin fengum tættan Fljótasilung og léttsteiktan lunda í forrétt, ljúfan þorsk og meyrt lambafillet í aðal. Lambið var himneskt kryddað. Að lokum pannacotta búðing með brenndri sykurskán. Stórbrotið útsýni til eyja og höfða Skagafjarðar. 10.000 á mann og vel þess virði. Gistingin var fátækari. Lítil, án baðs, en tandurhrein herbergi á 27.000 krónur, voru of dýr. Bezt er að borða bara hér og halda síðan áfram stuttan veg til gistingar á Siglufirði.

Ljón Norðursins í felum

Veitingar

Til skamms tíma fór ég um Blönduós eins hratt og lög leyfa. Gamla þorpið hengir haus, trekkir ekki. Þar þarf forkur að taka til hendi. Ein týra er í eymdinni; felu-kaffihúsið Ljón Norðursins, án tilvísunar frá þjóðvegi 1. Eitt af þessum skrítnu kaffihúsum, ólíkt öllum öðrum: Safn um smiðinn Leó Árnason, sem lagði niður hamarinn að lokinni starfsævi. Tók upp nafnið Ljón Norðursins og málaði naívisma-listaverk. Þar fíla túristar sig með spilverki og mála list á veggi. Hér fæ ég mér kaffi og kleinu á norðurleið.

Í bænum úir og grúir af marklausum söfnum, sem hlegið er að. Hér vantar þó flott safn um alla sauðaþjófana. Um hestakallana sem létu presta jarðsyngja horfnu góðhestana. Um forfeður mína Kristján ríka og Jónas lækni. Um Björn á Löngumýri og Ísberg sýslumann, sem sigaði löggunni á túrista, skilaði ekki hraðasektunum, heldur notaði heima í héraði og komst upp með það. Löggan liggur nú í koju og er að mestu hætt að sekta. Er ekki hægt að dubba hana upp til rána sem Fjalla-Eyvind? Ekki dugar að liggja í koju og veina á álver, þegar sjálfbær auðlind ferðaþjónustu er ónotuð. Þessi ráðgjöf er ókeypis.

Fiskurinn við gluggana

Veitingar

Loksins hefur Ostabúðin við Skólavörðustíg opnað veitingahúsið upp á götuhæðina við hlið búðarinnar. Fastakúnnar flykkjast áfram í gluggalausa kjallaraganginn, sem hingað til þénaði sem matsalur. Fiskur dagsins (1700 kr) hefur hér löngum þótt mjög góður, en ég losnaði aldrei við innilokunarkennd. Mér til refsingar var fiskur dagsins að þessu sinni plokkfiskur. Líklega hefur gefið vel á plokkfiskmiðunum við hlið saltfiskmiðanna. Plokkfisk get ég étið í Múlakaffi, svo enn er óreynt, hvort gæði ferska fisksins eru söm og fyrr. Vonandi gefst fljótt færi á því. Ostabúðin á að fara í toppklassa fiskimatstaða með þessum alvöru veitingasal. Ég sakna ekki gömlu innilokunarinnar.

Jafnvel rauðsprettan frábær

Veitingar

Hef forðast að kaupa rauðsprettu í fiskbúðum og veitingahúsum. Finnst of oft vera gömul lykt af henni. Eins og lyktin var í fiskbúðum áður en farið var að spúla þær daglega. Hef tekið eftir, að margir aðrir finna ekki þessa fýlu. Þannig var á föstudaginn á virðulegu veitingahúsi. Mér fannst ég vera eitthvað skrítinn, kannski væri lyktin bara í hausnum hjá mér. Svo datt ég inn á Kopar í verbúðunum í hádeginu í gær. Fékk þar þessa rosalega fínu rauðsprettu (2090 kr) án vondu lyktarinnar. Maturinn var frábær. Nú segi ég ekki lengur, að Kopar sé eitt af fimm beztu í landinu. Kopar er eitt þriggja beztu matarhúsa landsins.

Tíu 2000 króna veizlur

Veitingar

Friðrik V er ekki lengur opinn í hádeginu. Í staðinn komu fjórir góðir, Apótek, Matur & drykkur, Restó og Verbúð 11. Ég ráfa milli tíu gæðastaða. Sjávargrillið er bezt og næst kemur Matur og drykkur. Hinir átta eru í stafrófsröð: Apótekið, Fiskfélagið, Holtið, Höfnin, Kopar, Laugaás, Restó og Verbúð 11. Þar af eru Höfnin og Laugaás mistækust, en lystug á góðum degi. Allir þessir tíu hafa ferskan fisk dagsins og raunar býður Laugaás nokkra fiskrétti dagsins. Hjá öllum tíu er fiskur dagsins í boði í hádeginu á bilinu 1800-2200 krónur. Það er notalegt verð í erlendum samanburði. Mest er það okkar kæru túristum að þakka.

Frumlegasti nýliðinn

Veitingar

Fór aftur á Mat & drykk í gamla Ellingsenhúsinu við Grandagarð. Tókst enn betur en áður. Gísli Matthías Auðunsson býr til þjóðkunna rétti í frumlegum Slow Food útgáfum. Harðfiskur (890 kr) var verkaður í nærri gegnsæjar þynnur og borinn fram með mysusýrðu smjöri og sölum, fyrirtaks forréttur. Á enn eftir að prófa þorsklifur og reyniberjasultu á kúmenkrydduðu laufabrauði (890 kr). Nýveiddur kræklingur í skel úr Breiðafirði (1890 kr) var öndvegis réttur, borinn fram í súpu úr sólseljusoði, með krömdum kartöflum til hliðar. Sem fyrr var bezt hin dúnmjúka skyrterta með bláberjum á hafrabotni með ídýfu frosinnar mysufroðu (1190 kr). Kleinur urðu spennandi með mysingskremi (990 kr). Frumlegasti nýliði veitingabransans.

Menningarbylting verbúða

Veitingar

Byltingin er komin til að vera í verbúðum Reykjavíkur. Þar er búið að innrétta hvert veitingahúsið á fætur öðru. Við Ægisgarð eru komin Höfnin, Tapashúsið, Kopar, Hamborgarabúllan, Verbúð 11 og Sægreifinn, flest með fisk í hásæti. Við Grandagarð eru komin Víkin, Matur & drykkur, Cookoo´s Nest og ísbúðin Valdís. Flestir þessara nýju staða eru frambærilegir eða betri. Jafnast að vísu ekki á við Sjávargrillið, Fiskfélagið og Fiskmarkaðinn, en eru líka yfirleitt ódýrari. Nú er svo komið, að útilokað er fyrir áhugamann að hafa sýn yfir matarmennt miðborgarinnar. Ferðamannabyltingin hefur haft menningarbyltingu í för með sér.

Remúlaði og rabarbari

Veitingar

Fersk rauðspretta dagsins (2300 krónur) var ljúflega elduð á Víkinni, borin fram með þráðarkartöflum og mjúkri og mildri eggjasósu af remúlaði-ætt og rabarbarasultu, herramannsmatur. Tveir fiskréttir dagsins fást í hádeginu og ýmsar tertur allan daginn. Kaffistofan er á jarðhæð sjóminjasafnsins Víkinnar við Grandagarð, með rosastórum gluggum út að gömlu höfninni í Reykjavík og með mörgum borðum á bryggjunni fyrir utan. Þar hvíla varðskipið Óðinn og dráttarbáturinn Magni í hárri elli. Veitingasalurinn er langur, hár og kuldalegur, alltof stór, yrði notalega þéttari með lausu skilrúmi um salinn miðjan. Ekki sakaði að fá sessur í stóla og faglegar innréttingar, þetta minnir á gamaldags mötuneyti. En eldhúsið er í fínu lagi.