Fjögur draumahús í New York
Zagat leiðsögubókin um veitingahús New York er komin út fyrir 2005 og staðfestir toppstöðu uppáhaldsveitingahúsa minna, Oyster Bar, Gramercy Tavern, Gotham Bar og Union Square Cafe. Aðeins Oyster Bar er nógu gamall til að hafa verið í leiðsögubók minni frá 1988, en öll hafa þau lengi verið á vefsíðu minni traveltest.is.
Samanlagt eru þetta veitingahúsin fjögur, sem velgja París undir uggum sem þungamiðju matargerðarlistar í heiminum. Að vísu er París enn bezt í nýklassískri og nýfranskri eldamennsku, en New York hefur tekið við sem forustuborg í leit kokka inn á ný svið, þar sem tekin eru inn áhrif frá matreiðslu í öðrum löndum og heimshlutum, Ítalíu, Rómönsku Ameríku og Asíu.
Öll þættu þessi fjögur veitingahús ódýr á Íslandi,enda hefur dollarinn hríðfallið í verði. Þríréttaður kvöldmatur kostar 3000-4000 krónur á mann þar á bæ, helmingi minna en hann kostar á toppstöðum Reykjavíkur. Ef Iceland Express flygi til New York, mundi ég afskrifa Reykjavík gastrónómískt og fara nokkrum sinnum á ári til New York til að fara út að borða.
Oyster Bar er bezta sjávarrétta- og borðvínshúsið í New York. Þar er ekki notaður fyrstir eða örbylgjuofn og ekki stunduð svo flókin matreiðsla, að fiskbragðið hverfi. Mest er gufusoðið og grillað. Í kjallara Grand Central járnbrautarstöðvarinnar á horni 42. strætis og Vanderbilt brautar sitja gestir í bergmáli undir risastórum hvelfingum, þar sem fjöldi af berum ljósaperum lýsa franskt reitaða dúkana. Síminn er 212 490 6650, lokað sunnudaga.
Gramercy Tavern er að grunni krá með skrautlegum bar frammi, og huggulega innréttuðu veitingasvæði í blómaskrúði innan við hann. Þar er boðinn fastur matseðill á 70 dollara, matreiðslan er bandarísk og margvísleg góðvín eru seld í glasatali. Þjónusta er afar þægileg og alþýðleg á þessum hávaðasama stað við 20. stræti milli Broadway og Park brautar. Síminn er 212 477 0777,lokað í hádeginu um helgar.
Gotham Bar leggur áherzlu á einfaldar og ákveðnar línur í bragði og ilmi, matreiðslan er bandarísk og gefur gott verð á föstum matseðli í hádeginu. Matsalurinn er á tveimur misháum gólfum í nútímalegum stíl með risavöxnum ljósaskermum í lofti. Hressir gestir sitja mest á neðra gólfinu við 12. stræti milli 5. brautar og University Place. Síminn er 212 620 4020.
Union Square Cafe býður upp á sveitalega matreiðslu, ættaða frá Ítalíu, og býður hógværa, ítalska þjónustu. Borðað er í þremur sölum, sem alltaf eru fullir af fjörugu fólki í þægilegum stólum við 16. stræti milli 5. brautar og og Union Square. Síminn er 212 243 4020, lokað í hádeginu á sunnudögum.
Ég held það væri ráð fyrir íslenzka veitingamenn að sækja þessa staði og kanna, hvort ekki sé hægt að læra eitthvað af þeim.
Jónas Kristjánsson
DV