Veitingar

Gallery Fiskur

Veitingar

***
Gott og ljótt

Fiskurinn var góður, ferskur og hæfilega lítið eldaður, jafnt pönnusteikt stórlúða sem hvítlauksristaður hlýri. Estragon-krydd hæfði stórlúðunni vel, sem og hvítlaukur hlýranum. Pönnusteiktur saltfiskur var vel útvatnaður og milt eldaður, borinn fram með lauk- og ólífublönduðu tómatmauki, sem yfirgnæfði ekki á þessum stað.

Hér var borin virðing fyrir hráefni. Í eldamennskunni var því leyft að njóta sín, öfugt við það, sem því miður tíðkast víða á snobbuðum stöðum, þar sem hráefni er eyðilagt með matreiðslubókastælum, sérstaklega þar sem hinn nýi og oftast dapri blandstíll að hætti uppa hefur haldið innreið sína.

Súpur dagsins voru aftur á móti flestar óvenjulega magnaðar af kryddi, kúmenkrydduð sveppasúpa og reyklaxkrydduð seljustönglasúpa. Hrásalat var alltaf frísklegt og girnilegt. Borið var fram tvenns konar og stundum þrenns konar brauð með smjöri og ólífuolíu.

Umgjörðin á Gallerý Fiski á horni Höfðabakka og Strengs er smekklaus og kuldaleg, þrátt fyrir grátt trégólf og ljósar borðplötur úr límviði. Hvítmálaðir veggir og loft, berir gluggar og perur, stálstólar og stálborð framkalla kuldann. Noregsbláar sessur og sófabök, Svíþjóðarbláar setur og stólbök, svo og Íshafsgræn skilrúm við anddyri og salerni garga hvert á annað.

Á verðlagi staðarins má ekki búast við lúxus í innréttingum. En ljósaskermar úr Ikea og gluggatjöld úr Rúmfatalagernum mundu gera gæfumuninn. Varla er meiningin að búa til eins konar fiskbúðarstemmningu, því að þá væru flísar heppilegri, svo sem sjá má í mörgum erlendum fiskréttahúsum. Umhverfið dregur fjögurra stjörnu matreiðslu niður í þrjár stjörnur í heildina.

Í hádeginu er staðurinn vinsæll í tveggja manna viðskiptahjali bindislausra verkstæðisformanna, sem vafalaust liði eins og fiskum á þurru landi, ef staðurinn væri smart. En þeir fá í hádeginu mat, sem er peninganna virði, súpu dagsins og val milli þriggja fiskrétta á 1290 krónur að meðaltali. Á fastaseðli, sem er notaður á kvöldin, kosta fiskréttir að meðaltali 1490 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjávarkjallarinn

Veitingar

****
Staður með stæl

Sjávarkjallarinn er í bakhúsi, sem tengist Geysishúsinu við Austurstræti með glerhúsi, gengið inn Vesturgötumegin. Steinhlaðinn og dimmur kjallari með köldum nútímainnréttingum er vel sóttur af erlendum ráðstefnugestum, sem hræðast ekki hátt verð og kunna við stílblöndu matargerðarinnar. Þetta er staður með stæl.

Veitingahúsið leynir sér ekki, þegar komið er inn í bíslagið. Gengið er niður tröppur, þar sem nokkur borð eru utan við steinhleðsluna. Þegar inn er komið, leynir sér ekki heldur fagmennskan í innréttingum og móttöku. Hér kostar 8.000 krónur að borða, hugsaði ég. Enda kom á daginn 6.000 krónur kvöldmatur og 2.000 krónur helmingur í fremur ódýrri rauðvínsflösku.

Þjónustan var faglega hress og svaraði öllu um matinn. Á matseðli voru fimm forréttir á 1.500 krónur að meðtaltali og sjö aðalréttir á 2.800 krónur að meðaltali. Einnig var boðið upp á tvo þriggja rétta seðla á 5.900 krónur að meðaltali. Mælt var með smakkseðli, þar sem maður gat smakkað af fjórum forréttum, fjórum aðalréttum og fjórum eftirréttum á 5.900 krónur.

Það reyndist vera hagstætt verð fyrir minnisstæða veizlu, þar sem borðið var í þrígang fyllt fjölbreytilegum diskum með fögrum og sumpart mjög góðum réttum. Þannig mátti kynnast fjölbreytilegum blandstíl matargerðar hússins. Við vorum fjögur, öll harla ánægð með útkomuna. Hér var kominn verðugur fulltrúi í dýrari, en ekki dýrasta kanti íslenzkra veitingahúsa.

Vínlistinn var óvenjulega og þægilega skipulagður eftir þrúgutegundum, en ekki vínsvæðum. Ég tók eftir áströlsku Penfold Koonunga Hill rauðvíni frá 2001, magnaðri blöndu af Cabernet Sauvignon og Shiraz. Það kostaði innan við 4.000 krónur flaskan, og vakti almennt hrós borðgesta, sem hesthúsuðu tvær flöskur með kvöldmatnum. Þetta var gott dæmi um, að rauðvín getur farið vel með fiski.

Meðan við biðum eftir matnum var okkur færður frábær beitukóngur á melónu og brauð með pistacio-hnetumauki og kryddaðri rósmarínolíu. Með reikningnum var okkur fært púrtvínsglas. Þetta var ókeypis rammi utan um mikla og góða veizlu, sem létti lund og magnaði samræðulist.

Bezti forrétturinn var undurljúfur humar, borinn fram með jarðsveppum og andalifur. Risahörpudiskur og kolkrabbi með koríander mislukkuðust hins vegar, af því að kolkrabbinn var allt of seigur. Sítrónukryddleginn lax var góður, svo og diskur af hráum japönskum sashimi-réttum með piparrót. Fallegt dádýrasalat með koríander enn og aftur var líka fyrirtaks forréttur.

Aðalréttirnir voru enn betri, sérstaklega blanda af ofurmeyru hreindýrakjöti og villistokkönd, en flögur af rauðrófu voru of áberandi í bragði. Einnig var góð blanda af skötusel og reyktri ýsu með austrænum lychee-ávöxtum. Lax með banana og hnetum var líka góður, í japanskt ættaðri sósu eins og sumir aðrir réttir staðarins. Lakari voru tveir saltfiskréttir, annars vegar djúpsteiktur og hins vegar steiktur. Sá síðarnefndi var ekki útvatnaður, afar saltur.

Lakari voru eftirréttirnir, nokkrar tegundir af ís, óþekkjanleg og fljótandi tiramisu-ostakaka, heitur búðingur og súkkulaðifroða. Næst sleppi ég þeim og halla mér heldur að sterku kaffi, sem var gott.

Ef ég skipti veitingahúsum landsins í tvo misstóra flokka þeirra sem ég vil og vil ekki heimsækja aftur, er Sjávarkjallarinn fortakslaust í hópi þeirra tiltölulega fáu, sem kalla á frekari kynni.

Jónas Kristjánsson

DV

Nanna Rögnvaldardóttir: Matreiðslubók Nönnu. Iðunn 2001.

Veitingar

Höfundur kraftaverkabókarinnar Matarást frá 1998 hefur nú gefið út nærri eins stóra fylgibók, Matreiðslubók Nönnu, með 3600 uppskriftum í framhaldi af hinni þriggja ára gömlu orðabók matargerðarlistarinnar. Saman veita þessar tvær bókstaflegu þungavigtarbækur eins konar háskólamenntun í matargerðarlist.

Óþekkt vann Nanna Rögnvaldardóttir svo mikinn sigur með fyrri bókinni, að miklar kröfur eru sjálfkrafa gerðar til hinnar síðari. Fyrri bókin bar raunar af orðabókum matargerðarlistar á öðrum tungum, sem ég hafði þá séð og hef enn séð, þar á meðal hinum gamalfranska Larousse, sem margir útlendingar nota enn sem biblíu matargerðarlistar.

Síðari bók Nönnu gengur ekki svona langt, þótt hún sé rúmlega þrjú kíló að þyngd eins og hin fyrri. Hún er raunar minni að vöxtum en sum hliðstæð undirstöðurit uppskrifta í matargerðarlist á öðrum tungumálum. Hin bandaríska Joy of Cooking er til dæmis með tvöfalt fleiri uppskriftir í útgáfu frá 1963, sem ég nota stundum heima.

En Matreiðslubók Nönnu er á íslenzku og notar íslenzkar mælieiningar. Hún er ríkulega skreytt litmyndum alþjóðlegrar söluskrifstofu matargerðarljósmynda. Hún er skýrari og fegurri en erlendar bækur af þessum toga, til dæmis hin jafnstóra Blå kogebog frá Gyldendal. Uppskriftirnar eru tiltölulega einfaldar og miðast við hráefni, sem fæst hér á landi.

Uppskriftunum er raðað í hefðbundna flokka. Aftast eru tvær skrár, önnur nafnaskrá og hin flokkar uppskriftirnar eftir matreiðsluhefðum hvorki fleiri né færri en 130 landa og þjóða. Í klukkutíma leitaði ég árangurslaust að villum í skránum. Af því ræð ég, að nákvæmni sé ekki síðri í nýju bókinni en hinni fyrri, auk þess sem stafrófsröð broddstafa er orðin rétt.

Bókin er þjóðleg og alþjóðleg í senn. Þar má finna heimilismat á borð við ediksoðinn rauðmaga, plokkfisk á rúgbrauði og íslenzka kjötsúpu, franska klassík á borð við átta tegundir af frönsku soufflé og framandi rétti frá ýmsum heimshornum, svo sem tagína frá Túnis, grænlenskt selkjöt í hrísgrjónavellingi og fylltan lunda frá Færeyjum.

Með fjölbreyttar þungavigtarbækur Nönnu á hillunni fyrir ofan eldavélina þurfa íslenzk heimili tæpast fleiri, nema heimiliskokkurinn hafi brennandi áhuga á þröngum sérsviðum matargerðarlistar. Við skulum samt vona, að afrekið lami ekki framtak annarra höfunda. Þótt undirstöðuritin séu fengin, þurfum við áfram sérbækur og persónulegar bækur.

Jónas Kristjánsson

DV

Vanmetin veitingahús

Veitingar

Vanmetin veitingahús
Þrír Frakkar við Óðinsgötu er eina úrvalsveitingahúsið á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur slegið svo rækilega í gegn, að það er fullt út úr dyrum hádegis og kvölds alla daga vikunnar. Önnur úrvalshús búa oft við eyður á virkum dögum og bezta veitingahúsið treystir sér jafnvel ekki til að hafa opið hádegis. Þrátt fyrir ferðamenn er markaðurinn of lítill fyrir fimmtíu veitingahús með þjónustu og matargestir rata ekki endilega inn á tuttugu beztu staðina. Skyndibitastaðir taka svo auðvitað sinn toll.

Hótel Holt og Kínahúsið
Þegar ég tala um góð veitingahús, hef ég í huga metnaðinn, sem lýsir sér í verðlagi staðarins. Þannig get ég í sömu andrá sagt, að Hótel Holt við Bergstaðastræti og Kínahúsið við Lækjargötu séu vanmetin veitingahús, þótt þau hafi gerólíkt verðlag. Þau eru úrvalsstaðir, hvort með sínum hætti og hvort með sínu verðlagi og eiga það sameiginlegt, að vera oft ekki fullsetin í miðri viku, Holtið í hádeginu og Kínahúsið að kvöldi. Í erlendum stórborgum væru biðraðir á báðum stöðum, sem mundi auðvitað auðvelda þeim að halda uppi metnaði.

Tveir fiskar og Galileo
Ný veitingahús eiga oft erfitt með hasla sér völl, ekki sízt ef þau leggja fremur áherzlu á innri gæði en ytri markaðssetningu og töffaraskap ímyndartízkunnar. Þannig er enn sparlega setinn bekkurinn í ágætu fiskréttahúsi, Tveimur fiskum við Tryggvagötu og á spánnýjum Ítalíustað, Galileo við Ingólfstorg, sem slær við hinum, sem fyrir eru. Þessir staðir hafa fjárfest í gæðum frekar en stælum og eru því lengi að síazt inn í vitund áhugafólks um heimsóknir á veitingahús með þjónustu. Ágætum Sticks ‘n Sushi hefur gengið heldur betur að ryðja sér til rúms, enda er hann töluvert sér á parti.

Sommelier og Humarhúsið
Ef til vill er hugtakið vanmetinn teygt of langt til að láta það ná yfir tvo staði, sem væru upppantaðir margar vikur fram í tímann, ef þeir væru í stórborgarmiðju. Sommelier við Hverfisgötu og Humarhúsið við Amtmannsstíg eru oft vel setnir, einkum um helgar, en stundum má sjá þar eyður í miðri viku og Sommelier er harðlæstur í hádeginu. Með Hótel Holti og Tjörninni við Templarasund eru þetta þeir fjórir staðir í Reykjavík, sem helzt halda heiðri matargerðarlistar á lofti, en Tjörninni einni þeirra hefur tekizt að þétta aðsóknina nógu mikið til að falla ekki lengur undir hugtakið vanmetinn.

Argentína og Indíafélagið
Fleiri ágæt veitingahús af ólíkum toga eiga öll það sameiginlegt, að þau hefðu gott af meiri aðsókn. Stundum er eyðilegt á Argentínu eða í Austur-Indíafélaginu. Utan ferðamennavertíðarinnar er stundum fátt um manninn í Lækjarbrekku og Pottinum & pönnunni. Creole Mex lagði beinlínis upp laupana um daginn eftir ágæta rispu í matargerðarlist. Á sama tíma er töluverður slæðingur af fólki á matstöðum, sem fátt hafa fram að færa, nema helzt stæla og sjónhverfingar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ópera, Hansen, Amigos, Asía

Veitingar

Gert út á ferðamenn
Matreiðslan í Café Óperu hefur batnað, en verðið hefur hækkað meira. Fyrir verðlag Hótel Holts fær maður mat í gæðaflokki Hótel Borgar. Þótt mér finnist sjálfum hálfhrá stórlúða ágætis matur, er ég ekki viss um, að fólk, sem ekki hefur sérpantað slíka matreiðslu, sætti sig almennt við niðurstöðuna. Þar á ofan er staðurinn groddalega innréttaður með berum borðplötum og daufri loftræstingu, sem losar ekki tóbaksfnykinn. Mér sýnist staðurinn vera ætlaður ferðamönnum, sem vitað er, að koma aldrei aftur. Hörpuskel með hvítu svartrótarmauki var eigi að síður ágætis matur.
(Café Ópera, Lækjargötu 2, sími 552 9499)

Groddalega eldað
Ég mundi ekki sakna A. Hansen í Hafnarfirði, ef hann væri lagður niður. Samt er húsnæðið að mörgu leyti notalegt, enda með því elzta, sem þekkist hér á landi. Þjónustan var af því tagi, sem spurði, hvort ég “ætlaði að skrifa um staðinn”. Matreiðslan reyndist tæpast vera frambærileg. Þið verðið þó að vara ykkur á fiskinum, sem kemur upp úr frysti og er settur í örbylgjuofn. Beðið var um léttsteikt lambakjöt, en það kom grásteikt á borð með ofelduðum sveppum og ógeðfelldri hveitisósu án gráðostsbragðsins, sem boðað hafði verið. Tvíreykt sauðafillet með daufri piparrótarsósu var hins vegar ágætur matur.
(A. Hansen, Vesturgötu 4, Hafnarfirði, sími 565 1130)

Endalausar tortillur
Amigos er ódýr matstaður með yfirbragði bjórkrár, en eigi að síður með góðri loftræstingu á reyklausa svæðinu og þjónustu á plani hefðbundinna veitingahúsa. Þetta er fjölskylduvænn Tex-Mex, sem þýðir, að hér er Texas-matreiðsla, sem byggir á tortillu-grunni frá Mexikó. Salöt voru að mestu úr gömlu og brúnu jöklasalati. Úthafsrækjan var vafin beikoni, svo að úr varð hreint beikonbragð. Hins vegar var gaman að Santa Fe kjúklingi upp úr lime-kryddlegi með góðri baunakássu og léttelduðu grænmeti. Skynsamlegast er hér að velja úr endalausum útgáfum af tortillum.
(Amigos, Tryggvag. 8, s. 511 1333)

Fundinn fókus
Eins árs hringferð minni um fimmtíu veitingahús höfuðborgarsvæðisins lauk á miðvikudaginn á Asíu, þar sem ánægjulegt var að finna, að staðurinn hefur fundið sér kínverskan fókus í stað þess að reyna að spanna alla Asíu. Matreiðslan hefur batnað töluvert, þótt hún jafnist ekki á við Kínahúsið, auk þess sem verðið hefur hækkað hlutfallslega. Svínakjöt á pinnum var gott sem fyrr, en lamb í lauksósu var ekki eins meyrt og lofað var á matseðli.
(Asía, Laugav. 10, sími 562 6210)

Jónas Kristjánsson

DV

Naustið, Rauðará

Veitingar

Ferðamannagildrur
Naustið og Rauðará hafa batnað frá því fyrir þremur árum, þegar ég kom þar síðast. Enn eru þetta dýrar ferðamannagildrur, sem þykjast vera fínar, en eru ekki lengur fáránleg veitingahús. Maturinn er ætur, þjónustan er kammó og innréttingarnar skemmtilegar. En mér mundi seint detta í hug að borga 5.000 krónur á mann fyrir þríréttað með kaffi á þessum stöðum, ef ég mætti ráða ferð.

Úr frysti í örbylgju
Þrátt fyrir heitið er Naustið ekki sjávarréttahús og býður engan fisk dagsins. Stórir humarhalar höfðu þurra bragðið, sem kemur í sjávarrétti, þegar þeir eru settir beint úr frysti í örbylgjuofn. Þetta varð enn ljósara, þegar pönnusteikti karfinn kom skraufaþurr á borðið. Laxakæfa og kaldur lax var hvort tveggja bragðlaust, en kryddhjúpaður saltfiskur var útvatnaður og frambærilegur. Þetta er ekki eldhús safaríks matar.

Firnalangur og forn
Vandræði eldhússins verða strax ljós af firnalöngum matseðli í fornum stíl með átján forréttum og kvarthundrað aðalréttum. Lítið virðist vera um Íslendinga í Nausti, en ferðamenn slæðast inn og telja líklega, að matreiðsla sjávarrétta eigi að vera svona á Íslandi. Þeir fá þunnar pappírsþurrkur og hauga af stöðluðu meðlæti, sem flýtur í sósum og felur leifarnar af eðlisbragði hráefnanna. Í kaupbæti fá þeir aðgang að notalegum innréttingum.
(Naustið, Vesturgötu 6­8. sími: 551 7759)

Einnota viðskiptamenn
Rauðará hefur hvítt lín umfram Naustið og frambærilegri matreiðslu í sérgrein staðarins, nautasteikum. Þær má fá í ýmsum stærðum og eldunartímum. Rauðará er gróf í innréttingum og niðursoðnum hávaða. Þjónustan var samræðufús, en ekki mikið gefin fyrir að hella vatni í glös. Hingað slæðist nokkuð af heimamönnum, sem eru vanir sjoppum við þjóðveg eitt, en flestir viðskiptamennirnir eru þó ferðamenn, sem eru einota, hafa aldrei komið hér áður og munu aldrei koma aftur.

Grásteikt lambakjöt
Nákvæmnin í nautapiparsteikinni skilaði sér ekki yfir í lambahryggvöðvann, sem kom grásteiktur á borðið, þótt beðið væri um hann léttsteiktan (rare). Reyktur lundi var ágætur forréttur, en salatdiskur hússins var að mestu leyti einhæft jöklasalat. Meðlæti aðalrétta var staðlað, bökuð kartafla og léttsteikt grænmeti, sem jóðlaði í sætri sósu. Sykur var of mikið notaður við matreiðsluna, eins og raunar víðar hér á landi. Enginn munur var á venjulegu lambakjöti og svokölluðu ítalskt krydduðu, enda skortir metnað í eldhúsinu.
(Rauðará, Rauðarárstíg 37, sími: 562 6766)

Jónas Kristjánsson

DV

Búrgund

Veitingar

Góðbú í Búrgund
Beztu veitingastaðir Frakklands bera af erlendum eins og gull af eiri, enda tala Frakkar um kokka eins og aðrir Vesturlandabúar tala um frægðarfólk. Hjarta franskrar matargerðarlistar hefur lengi slegið í Búrgund, þaðan sem nýklassíska byltingin sigraði Frakkland á áttunda áratugnum. Í kjölfar vinnu í Lausanne fór ég vikulangt í minnisstæða pílagrímsferð milli góðbúa héraðsins í matargerðarlist árið 1986.

Öryggi hjá Girardet
Ferðin hófst raunar í nágrenni Lausanne í franska Sviss, þar sem Alfred Girardet á glæsilegan veitingastað í gömlu ráðhúsi í Crissier. Ég man eftir hlýju snillingsins, sem gaf sér tíma til að ræða við mig um frábæran humar með hvítri graslaukssósu. Löngu seinna naut ég að endurlifa þar hástig virðulegrar matargerðarlistar. Nú hefur Rochat tekið við stjórnartaumunum, en gæðin eru traust sem fyrr.
Crissier (Sviss): Hotel de Ville, 1 rue d’Yverdon, sími: 21 634 0505, fax: 21 634 2464

Ilmur hjá Blanc
Frá George Blanc man ég eftir mögnuðum ilmi blómagarðsins við ána Veyle, þar sem allt sameinaðist í meistaraverkum persónulegs matargerðarstíls, þar sem ilmur og bragð fengu að halda forræði sínu í litadýrðinni. Hann kunni bezt allra að sameina tindrandi ferskt hráefni og hárnákvæma eldamennsku. Kjúklingalifur með svartberja-edikssósu var hátindur pílagrímsferðarinnar.
Vonnas: George Blanc, sími: 47 450 9090, fax: 47 450 0880

Sjarmi hjá Troisgros
Frá nútímalegu veitingahúsi bræðranna og feðganna Troisgros andspænis járnbrautarstöðinni í Roanne man ég bezt eftir gamansamri og viðkunnanlegri framgöngu annars bróðurins, Pierre, sem gekk milli borða og útskýrði krabbasúpu með léttsýrðu grænmeti. Sonurinn Michel er nú orðinn yfirkokkur staðarins og heldur fyrra gæðastaðli.
Roanne: Freres Troisgros, Place Gare, sími: 47 771 6697, fax: 47 770 3977

Hráefni hjá Chapel
All hafði sinn sérstaka keim í undirfögrum veitingasalnum hjá Alain Chapel. Meira að segja brauð og smjör ilmuðu eins og franskt sumar. Hugmyndarík matreiðsla féll vel að heimsins ferskasta hráefni, einkum í saffrankryddaðri þykkvalúru. Nú hefur Philippe Jousse tekið við stjórnartaumunum í Mioannay og stjörnunum hjá Michelin hefur fækkað um eina.
Mioannay: Alain Chapel, sími: 47 891 8202, fax: 47 891 8237

Bocuse kóngur
Pílagrímsferðin endaði svo tveimur klössum neðar hjá Bocuse kóngi í úthverfi Lyon, þar sem hann hefur neglt firnastórt málverk af sér utan á húsið og nokkur minni málverk af sér innandyra. Ég kom raunar til hans aftur fyrir tveimur árum. Í bæði skiptin óð auglýsingakóngurinn útblásinn um sali.
Maturinn var í hvorugt skiptið hugmyndaríkur eða minnisstæður, nema hvað ekkert svartsveppabragð var að frægu svartsveppasúpunni í seinni heimsókninni. Gestir voru þá einkum fávíst peningafólk og kokkar frá Noregi, enda skilst mér, að franskir matgæðingar hafi fyrir löngu afskrifað hinn sjálfhverfa kóng.
Collonges: Poul Bocuse, Pont de Collonges Nord, sími: 47 242 9090, fax: 47 227 8587

DV

Grand

Veitingar

Hlutlaus hótelmatreiðsla
Veitingasalurinn á Grand hóteli hefur skánað og heitir ekki lengur Sjö rósir. Matreiðslan er komin upp í hlutlausan milliklassa að hætti hótela, sem þurfa að hafa mat handa þeim hótelgestum, sem ekki þora út fyrir dyr, en eru ekki að reyna að draga fólk utan úr bæ á forsendum matargerðarlistar. Væntingar matargesta eru engar og vonbrigðin þar af leiðandi engin. Matgæðingar meðal hótelgesta hér á landi eru hvort sem er svo fáir, að þeir rúmast allir á Hótel Holti.

Lapþunnt espresso
Fjórir stórir hörpudiskar voru einn forrétturinn á Grand, bornir fram með harðbrenndum laukþráðum og mildri Béarnaise-sósu með söxuðu spínati, sem ekki gaf neitt bragð, dæmigerður hlutleysisréttur að hætti keðjuhótela. Osthjúpaður lax var ofsoðinn og of þurr, borinn fram ofan á ágætum turni af kryddlegnu hvítkáli með kóríander og brúnni sósu til hliðar. Crème Brulée var létt og ágætt, borið fram í tveimur staupum. Svokallað espresso-kaffi var lapþunnt, enda kom það úr sjálfvirkri hnappavél.

Öfgar í skreytilist
Brúnni sósu með laxinum var slett til skrauts á breiða diskbarma, svo að ekki var hægt að leggja frá sér hnífinn án þess að óhreinka skaftið. Þetta er dæmi um skreytilist, sem er komin í svo miklar ógöngur meðal matreiðslumanna hér á landi, að hún skyggir ekki bara á matargerðarlist, heldur heftir beinlínis eðlilegt borðhald. Myndlistarárátta tröllríður mörgum veitingahúsum okkar, einkum þeim dýrustu, þar sem hún víkur raunverulegri matargerðarlist til hliðar.

Berskjaldaður matsalur
Fremur vandræðalega hannaður matsalur Grands er jafn berskjaldaður sem fyrr í anddyri hótelsins. Gamaldags básar með veggjum draga staðinn niður á bjórstofuplan, en opinn arineldur á miðju gólfi lyftir hins vegar staðnum og hamlar gegn skarkala frá anddyri. Stíllinn minnir á anddyri Hótel Sögu fyrir nýjustu breytingarnar, sem meðal annars fólu í sér brýnan aðskilnað anddyris og matsalar.

Reykvísk keðjuhótel
Hótel Holt er eina hótelið í bænum, sem leggur áherzlu á fína matargerðarlist í nýklassískum stíl. Næst á eftir koma Óðinsvé, þar sem meiri áherzla er þó á sjónvarpsfrægð en matargerðarlist. Þessir tveir hótelsalir draga til sín gesti utan úr bæ, en hinir þjóna nærri eingöngu hótelgestum. Grillið á Sögu er ásamt Perlunni annar af tveimur hátindum hinnar úrkynjuðu skreytilistar. Borg, Esja, Grand og Loftleiðir varðveita hina hlutlausu og stórslysalausu eldamennsku, sem fylgir keðjuhótelum um allan heim.
(Grand Brasserie, Sigtúni 38, sími 568 9051)

Jónas Kristjánsson

DV

Argentína, Hornið

Veitingar

Sérhæfðir veitingastaðir
Argentína og Hornið eru gróin og traust veitingahús, sem fundu sér stað í lífinu á fyrsta degi og hafa verið þar síðan, Argentína í nautasteikinni og Hornið í pöstunni og pítsunni. Fólk sækir þessa staði frá þeim sjónarhóli og verður sjaldan fyrir vonbrigðum, af því að stjórnendur staðanna hafa úthald til að halda staðli ár eftir ár. Slíkum veitingahúsum vegnar yfirleitt betur en hinum, sem ekki hafa eindreginn fókus.

Nautasteik Argentínu
Argentína er með dýrustu veitingahúsum landsins, 5800 krónur á mann þríréttað með kaffi áður en kemur að víni. Húsakynni eru ekki aðlaðandi, farið er um langan undirgang til að komast inn í dimman matsal með groddalegu tréverki. Básum hefur verið fækkað til bóta, svo að salurinn er opnari en áður. Staðurinn er samt áfram innilokunarlegur. Kostur er þó við myrkrið á staðnum, að maður sér illa, hversu ljótur staðurinn er.

Einhæf kartafla bökuð
Ef fólk fer út að borða með því hugarfari að fá sér nautasteik, er Argentína kjörin, því að hráefni nautakjötsins er þar jafnan gott, en getur verið misjafnt á hinum dýru matstöðunum í bænum. Mestu máli skiptir, að tímasetning nautasteikinga í eldhúsi er nákvæm, en meðlætið er einhæft, bökuð kartafla. Kryddlegið nautakjöt carpaccio var fínn forréttur og sömuleiðis hvítlauksgrillaðar risarækjur. Eftirréttir voru afar sætar og óhollar hitaeiningabombur. Þjónusta er ágæt og fumlaus.
(Argentína, Barónsstíg 11, sími 551 9555)

Pöstur og pítsur Hornsins
Hornið er hversdagslegri og ódýrari staður, sem selur pöstur á 1460 krónur, pítsur á 1300 krónur, fiskrétt dagsins með súpu á 1120 krónur og hefðbundna þrírétta máltíð með kaffi af fastaseðli á 3700 krónur áður en kemur að víni. Ef frá eru taldir skyndibitastaðir, er þetta fyrsti pöstu- og pítsustaðurinn í bænum og skartar enn óbreyttum innréttingum í kaffihúsastíl að baki stórra útsýnisglugga að fáförnu Hafnarstræti.

Góðar tímasetningar
Hefðbundinn matur er frambærilegur á Horninu. Þorskurinn var hæfilega skammt eldaður, mikið pipraður og borinn fram með sterkri tómatsósu, pastaræmum, léttsteiktu grænmeti og miklu af olífum. Lambafillet var líka hæfilega skammt eldað, milt kryddað og safaríkt, með ágætu jafnvægi í bragði blandaðs meðlætis annars vegar og fiskjar hins vegar. Kokkurinn missti hins vegar tökin á hörpuskeljar-forrétti og lét balsamsósu fljóta í miklu magni um diskinn, en hörpufiskurinn sjálfur var meyr.
(Hornið, Hafnarstræti 15,
sími 551 3340)

Jónas Kristjánsson

DV

Eldhúsið, Sjanghæ

Veitingar

Þjónustan ein batnaði
Eldhúsið og Sjanghæ styðja kenninguna um, að því meira, sem hlutirnir breytist, því meira séu þeir eins. Breytingar á eignarhaldi og umbúnaði hafa aðeins megnað að bæta þjónustu, sem er orðin þægileg á báðum stöðum. Matreiðsla er enn slök á báðum stöðum, verð sérrétta er hátt og hlaðborðin í hádeginu hafa síður en svo orðið árennileg við umskiptin. Þau geta hins vegar óneitanlega hentað svöngum og blönkum.

Skyndibitar á færibandi
Skyndibitabar með færibandi rétta hefur verið settur upp fremst í húsnæði Eldhússins í Kringlunni. Nokkrir kaldir smáréttir fara hring eftir hring á færibandi til minningar um kvikmynd Chaplins um Nútímann. Þetta var fljótleg og frambærileg fæða, sérstaklega hrásalatið, og hlífir pyngjunni óneitanlega. Aðrir réttir á bandinu voru pasta, kæfa, samlokur, sushi og tertusneið. Frambærileg spergilsúpa var innifalin 420 króna meðaltalsverði færibandsréttanna. Súpa með tveimur smáréttum var full máltíð á 840 krónur.

Sætudýrkun í Eldhúsinu
Ástæðulítið er að hætta sér innar í Eldhúsið. Hlaðborðið felur í sér sómasamlega súpu, þrjá magafyllingarrétti í hitakössum og ýmislegt efni til eigin hrásalatgerðar á 950 krónur. Af sérseðli prófaði ég ferska fisktvennu ofgrillaða, steinbít og heitreyktan lax. Dísæt hunangssósa var með skán og steiktir kartöflustöppu-klattar voru skorpnir. Dísætt ávaxtamauk klæddi laxinn. Kokkurinn virðist hafa dálæti á sætu bragði og þessi samsetning var ekki sannfærandi. Matarverð af sérréttaseðli er 4300 krónur þríréttað með kaffi.
(Eldhúsið, Kringlunni, s. 581 4000)

Básar horfnir í Sjanghæ
Búið er að rífa básana, sem voru fremst í Sjanghæ við Laugaveg 28 og opna þannig salarkynnin betur en áður. Meira er af vönduðum skreytingum og húsbúnaði, þar á meðal fínir tréstólar útskornir og nokkur enn fínni, útskorin borð. Vínglös eru á fæti á borðum. Staðurinn gæti nánast talizt virðulegur að kvöldi, ef þunnar pappírsþurrkur og auglýsingaútvarp drægju ekki niður. Mesta aðdráttaraflið hefur þó 890 króna hádegishlaðborð.

Þykkur hveitihjúpur
Á matseðlinum í Sjanghæ eru ýmis freistandi heiti rétta, sem ég ætla að prófa síðar. Nokkrir fastaseðlar fjögurra og fleiri rétta eru að meðaltali á 2900 krónur með kaffi. Einn þeirra var fimm rétta og hafði að geyma vel heita og hálftæra kjúklingasúpu með sveppum, sæmilega meyran kjúkling með cashew-hnetum og snöggsteiktu grænmeti, svo og frambærilegt lambakjöt með brokkáli í ostrusósu, en því miður einnig súrsætar rækjur í þykkum og ólystugum hveitihjúp og afar seigt svínakjöt með sætri sósu dökkri.
(Sjanghæ, Laugavegi 28, 551 6513)
Jónas Kristjánsson

DV

Þrír Frakkar, Sticks’n Sushi, Kínahúsið, Jómfrúin

Veitingar

Fjórir uppáhaldsstaðir
Átta veitingastofur í Reykjavík hafa sérstaklega hagstætt hlutfall verðs og gæða. Um fjórar þeirra í dýrari kantinum var fjallað í þessum þætti í síðustu viku, úrvalsstaðina Sommelier, Holt, Tjörnina og Humarhúsið, sem gott er að heimsækja til hátíðabrigða. Hér verður hins vegar fjallað um ódýrari flokk hagstæðu matstaðanna, Þrjá Frakka, Sticks ‘n Shushi, Kínahúsið og Jómfrúna, sem gott er að leita til hversdagslega án sérstaks tilefnis. Hver þeirra hefur sína sérstöðu, en allir eru þeir uppáhaldsstaðir.

Þrír frábærir Frakkar
Þrír Frakkar eru frábær blanda notalega franskrar hönnunar innréttinga, góðrar stemmningar glaðværra gesta, fjölbreytts og síbreytilegs framboðs sjávarrétta og síðast en ekki sízt ótrúlega hóflegs verðlags. Þetta hefur árum saman verið helzta fiskhús landsins með nákvæmum eldunartímum á ýmsum sjaldséðum fisktegundum. Munið að panta borð, því að færri komast að en vilja. Súpa og aðalréttur kosta um 1735 krónur á kvöldin.
(Þrír Frakkar hjá Úlfari, Baldursgötu 14, sími 552 3939)

Ekta japanskt sushi
Sticks ‘n Sushi er andstæða Þriggja Frakka, nútímalega og uppalega hannaður að hætti japanskrar naumhyggju, þar sem boðinn er eikargrillaður trépinnamatur og hrár ferskfiskur í ýmsum birtingarmyndum, einn og sér, á hrísgrjónabollu eða í þangrúllu. Þetta er japanska framlagið til heimsmenningar mataræðis og eini marktæki fulltrúi þess hér á landi. Súpa og nokkrar tegundir af fiski og pinnamat kosta um 2400 krónur á kvöldin.
(Sticks ‘n Sushi, Aðalstræti 12, sími 511 4440)

Kínahúsið bregzt ekki
Oftast á ævinni hef ég komið í friðsælt Kínahúsið, þar sem kínversk eldamennska haggast hvergi í lífsins ólgusjó. Þetta er kyrrlátur og vinalegur staður einfaldra innréttinga og sérlagaðs matar á hvern disk eða fat fyrir sig, ánægjulegt dæmi um heiðarlegan fjölskyldu-veitingastað, sem heldur sínu striki án þess að hafa komizt í tízku, kjörinn staður fyrir hversdagslega fastagesti. Fjögurra smárétta matseðill kostar um 2300 krónur á kvöldin, en stundum er tilboðsverð.
(Kínahúsið, Lækjargötu 8, sími 551 1014)

Jómfrúin eldist hratt
Þótt þreytubrags sé stundum farið að gæta í danskri nostalgíu Jómfrúarinnar, einkum í eldra brauði og þykkri sósum en áður var, nær hún verðlagsins vegna enn í hóp fjögurra hagstæðu veitingahúsanna. Fyrir utan smurbrauð fæst hér klassík á borð við frikadeller, hakkebøf og ribbensteg upp á dönsk millistríðsár. Aðalréttur með hálfsneið á undan kostar að meðaltali 1590 krónur. Þetta er raunar staður fyrir frúkost, aðeins á sumrin opinn á kvöldin.
(Jómfrúin, Lækjargötu 4, sími 551 0100)
Jónas Kristjánsson

DV

Sommelier, Holt, Tjörnin, Humarhúsið

Veitingar

Hver með sínum hætti
Fjórir veitingastaðir í Reykjavík eru nógu góðir til að koma til álita sem stjörnustaðir, ef gefin væri út Michelin-rauðbók um gistingu og mat á Íslandi, Sommelier við Hverfisgötu, Hótel Holt við Bergstaðastræti, Tjörnin við Templarasund og Humarhúsið við Amtmannsstíg. Þeir skara fram úr öðrum í matargerðarlist, hver með sínum hætti. Sommelier og Holt sigla á toppinn á matreiðslunni einni, en Tjörnin og Humarhúsið hafa stuðning af notalegum húsakynnum.

Hefðabræðsla á Sommelier
Nýliðinn Sommelier hefur mestan metnað. Þar er farin ný og spennandi leið hefðabræðslu fusion-matreiðslunnar, sem blandar saman nýfrönskum matreiðslugrunni fínlegum og austrænni kryddnotkun kraftmikilli. Þessi hættulega leið krefst nærfærni og hófsemdar, sem hefur að mestu tekizt á Sommelier. Skýr dæmi um þetta eru jarðarber með balsamediki og hörpuskel með karamellusósu. Ýmsir aðrir staðir í borginni gæla við fusion, en ná ekki að bræða saman hefðirnar.
(Sommelier, Hverfisgötu 46, s: 511 4455)

Frönsk nýklassík á Holti
Holt er öldungurinn, jafn og traustur áratugum saman, með nýklassíska nouvelle-matreiðslu franska í hávegum. Sérvalið hráefni fær að njóta sín, nákvæmir og léttir eldunartímar, hárfín kryddnotkun, léttar og ljúfar sósur og fagurt útlit, sem ekki er látið skyggja á innihaldið. Holtið missir sig ekki út í einhæfa skreytilist og stirða matseðla að hætti dýru staðanna. Að nýklassískum hætti skiptir Holtið ört um rétti og prófar óvæntar nýjungar. Öldungurinn er frískasta veitingahús landsins.
(Hótel Holt, Bergstaðastræti 37, s: 552 5700)

Jarðbundið við Tjörnina
Tjörnin hóf göngu sína með jarðbundna terroir-matreiðslu sjávarrétta í persónulegum stíl með þrunginni kryddnotkun, en hefur með kynslóðaskiptum í eldhúsi fært sig nær hefðbundinni nýklassík, sem nýlega kom frábærlega í ljós í hunangssteiktum steinbít með engifersósu og steiktri smáskötu með kapers, hvort tveggja með sekúndu-nákvæmni í eldunartíma. Beztu kryddlegnar gellur í heimi eru svo dæmi um jarðbundna stílinn, sem dregur fram sérstöðu staðarins í veitingaflórunni.
(Við Tjörnina, Templarasundi 3, s: 551 8666)

Humarhúsið er fegurst
Humarhúsið er sjávarrréttastaður, sem hefur hægt og bítandi unnið sig upp í úrvalsflokkinn, svo að matreiðslan hæfir nú fegursta veitingasal landsins. Hún hefur fetað sig frá þungri klassík yfir í létta nýklassík, sósur eru sparlegar notaðar og meðlæti er ekki lengur staðlað. Kryddnotkun er orðin næm og fínleg, svo sem nýlega mátti greina í engifersoði með steiktri rauðsprettu. Sérgrein staðarins var upphaflega fjölbreytt matreiðsla humars, en svigrúm matreiðslunnar hefur fyrir löngu sprengt þann ramma.
(Humarhúsið, Amtmannsstíg 1, s: 561 3303)
Jónas Kristjánsson

DV

Galileo

Veitingar

Fallegur Galileo
Galileo er spánnýr veitingastaður á horni Hafnarstrætis og Vesturgötu, látlaust og snyrtilega innréttaður á fjórum gólfum; listsýningasal í kjallara, kaffistofu uppi á lofti og veitingasölum á tveimur aðalhæðum. Rifið hefur verið innan úr húsinu, svo að burðarvirkin njóta sín. Inn hafa verið settir sveigðir tréstólar og járnborð með borðplötum úr marmarasalla, fagur borðbúnaður, tauþurrkur og kertaljós. Einni skuggi innréttingarinnar er fyrirferðarmikil matargerðarvél að baki afgreiðsluborðs.

Fínleg matreiðsla
Matarmiklir portobello-sveppir voru pönnusteiktir með mikilli steinselju og litlum hvítlauk, kraumaðir í hvítvíni, fínn réttur. Sjávarréttasalat var mun lakari forréttur, því að litlu rækjurnar voru harðar og farnar að taka lykt, en salatið var fallegt, með humar, hörpuskel og kræklingi í skelinni. Fiskur dagsins var fínlega eldaður og skemmtilega barbeque-kryddaður karfi, borinn fram með ágætum saffran-hrísgrjónagraut. Lambalundir voru góðar, heldur meira steiktar en um var beðið, með litlum og góðum kantarellu-sveppum. Ostar hússins voru hæfilega þroskaðir og ítalskur panna cotta búðingur var léttur í maga.

Ítalskt svigrúm
Eftir aðeins eina heimsókn við upphaf Galileos er of snemmt að gefa matreiðslunni einkunn. Hún hefur farið vel af stað og virtist í notalega góðum klassa ítölskum, en bar merki stöðlunar í grænmeti með aðalréttum, bæði fiski og kjöti. Tíminn leiðir í ljós, hvort staðarmenn hafa úthald í harðri samkeppni reykvískrar veitingaflóru eða koðna niður eftir góða byrjun eins og Rex og ýmsir fleiri. Nú er lag í framboði ítalskrar matreiðslu, því að heldur hefur sigið metnaður ítölsku matstaðanna, sem fyrir voru í borginni.

Ekkert fusion hér
Ástæða er til að fagna hverjum nýjum veitingastað, sem ekki fylgir fusion-tízkunni. Sú blanda andstæðna vestrænnar matreiðslu og austrænnar kryddnotkunar er hættuleg í meðförum og þarfnast nærfærni. Hún gengur upp á Sommelier, þar sem vandað er til verka. Víðast annars staðar í bænum er fusion lítið annað en aðferð við að fá tómatsósu- og sinnepkynslóðir til að borða utan skyndibitastaða. Í því skyni skella menn æpandi kryddi í eðlismilda rétti. Galileo er laus við þennan áleitna vanda nútímans.

Sanngjarnt meðalverð
Þetta er staður meðalverðs. Þrír réttir með kaffi kosta um 4400 krónur á mann, minna en á ýmsum lakari stöðum í miðbænum. Þjónustan er notaleg, staðurinn smart, matseðillinn áhugaverður og dósatónlistin lágvær. Staðurinn er bara opinn á kvöldin, enda kvarta veitingamenn um, að fólk fari ekki út að borða í hádeginu, þrátt fyrir lægra verð. Það mundi batna, ef útgáfa matarmiða leysti mötuneyti í stofnunum og fyrirtækjum af hólmi.
(Galileo, Hafnarstræti 1-3, sími 5529500)
Jónas Kristjánsson

DV

Kringlan

Veitingar

Krimmi á Kringlukránni
Framlágur smákrimmi sat við borð með grátandi stelpu og útskýrði fyrir henni, að hann lemdi hana, af því að hún gerði hann svo æstan. Þetta var allur gestahópurinn á víðáttumikilli og snyrtilegri Kringlukrá. Breytileg lofthæð, óreglulegir veggir og hlykkjótt afgreiðsluborð milda stærðina og gera salinn að notalegasta veitingarými Kringlunnar til að drekkja sorgum undir þreytandi síbylju útvarps.

Matseðill með gloppum
Ekki var búizt við mörgum matargestum, því að ýmislegt á matseðlinum var ekki fáanlegt. Ég fékk þó matarmikla og mikið rjómaða sjávarsúpu með rækjum og hörpufiski; seigan smokkfisk á sterkri tómatsósu; steiktan steinbít með mildri og fínni chili-sósu; svo og hversdagslegt hakkabuff með kapers, sem bjargaði réttinum. Staðlað meðlæti var eins með kjöti og fiski. Sem matstaður var kráin þolanleg, en ekki mikið meira.

Rangali á Café Bleu
Gestir Borgarleikhússins hafa ekki í góð hús að venda, ef þeir hyggjast fá sér að borða fyrir sýningu. Matstaðir Kringlunnar eru eiginlega upphafnir skyndibitastaðir, ekki sambærilegir við meðaltal matstaða utan hins verndaða umhverfis. Að hætti Kringlunnar eru þetta staðir ímyndar umfram innihald. Að Café Bleu frátöldu eru þeir mikið og sumpart vel hannaðir sem húsnæði, en matreiðslan er ekki girnileg, einna skást og sérkennilegust í Café Bleu, óvenjulega stíllausum rangala síbreytilegs útlits, þar sem lífleg og vökul þjónusta er bezti kosturinn.

Hard Rock er að þreytast
Elzti og háværasti staðurinn á svæðinu er Hard Rock, sem hefur slakað á matreiðslu og þjónustu, sem núna er meira elskuleg en athafnasöm, enda þarf staðurinn ekki lengur að gera hosur sínar grænar fyrir barnafólki og túristum, sem koma hvort sem er. Ég fékk engin hnífapör með lítt glæsilegum rétti, hæfilega creole-grilluðum og góðum steinbít með litlum og hörðum rækjum. Grænmetissalatið var líka fremur gott og lítt glæsilegt.

Færiband komið í Eldhúsið
Ég á erfitt með að ræða Eldhúsið, því að ég hef komið þar fjórum sinnum og alltaf fengið óvenju illa gerðan mat. Nú sýnist mér hafa verið skipt um eigendur og matseðil, svo að ég þarf sjálfsagt að skipta um skoðun, en ég treysti mér varla til að reyna einu sinni enn. Takmörk hljóta að vera fyrir því, hvað maður leggur á sig fyrir hugsjónina. Ég var samt nýlega kominn inn úr dyrunum, en sá þá, að innan við anddyrið hafði verið smíðaður risavaxinn matbar með réttum á færibandi, í bókstaflegum skilningi. Mér féllust hendur og ég lagði á flótta.

Svipað milliverð
Allir þessir staðir eru á svipuðu milliverði, á kvöldin að meðaltali þríréttað með kaffi á 3.200 krónur í Café Bleu, 3.400 krónur á Hard Rock, 3.600 krónur á Kringlukránni og eitthvað hærra í Eldhúsinu.
Jónas Kristjánsson

DV

Þrír Frakkar

Veitingar

Þrír sneisafullir Frakkar
Eins og þeir eiga skilið eru Þrír Frakkar hjá Úlfari sneisafullir af háværu fólki í hádegi og að kvöldi árið um kring og loka þannig þríhyrningi matreiðslu, umhverfis og stemmningar, sem gerir veitingahús að hornsteini í lífi borgar. Ekki skaðar verðlagið, átta fiskréttir að meðaltali á 1190 krónur í hádegi og 1735 krónur að kvöldi, hvort tveggja að tærri grænmetissúpu dagsins innifalinni. Þríréttað val af fornlegum fastaseðli með kaffi kostar 3700 krónur á mann.

Nákvæmur eldunartími
Réttur eldunartími fiskjar er aðall góðrar matreiðslu Úlfars Eysteinssonar á Þremur Frökkum, sem haldizt hefur óbiluð frá árdögum staðarins, þótt hugmyndaflugið hafi daprazt svo, að nú eru sömu tilbrigðin endurtekin í sífellu, staðlað meðlæti með mörgum réttum, svo og ostasósur og ostbökun út í eitt. Sjaldgæfum fisktegundum hefur fækkað á matseðli, sem þó slær við öðrum matseðlum á Íslandi með því að breytast tvisvar á dag.

Silkimjúkur saltfiskur
Afbragðsgóður plokkfiskur með rúgbrauði er einkennisréttur Þriggja frakka. Enn betri er silkimjúkur saltfiskur, fínlega eldaður í ýmsum útgáfum, sem breytast frá degi til dags, stundum með hamsatólg, í annan tíma ostbakaður eða þá með kapers og rauðlauk og einnig suðrænn með tómatmauki og olífum. Síðast man ég eftir nákvæmt grilluðum þorski í mildri sinnepssósu. Þá voru líka boðnar gellur, rauðspretta, smálúða, karfi, steinbítur, tindabikkja og barri.

Fiskhús Íslands eru fá
Ferskur og fjölbreyttur fiskur ætti að vera aðall íslenzkra veitingahúsa í nútíma ferðamannaflóðsins. Samt eru hér bara þrjú fiskhús. Fyrir utan Þrjá Frakka eru það áðurnefndir Tveir fiskar og Tjörnin. Sticks’n Sushi í Aðalstræti er líka góður fiskistaður, en japanskrar ættar. Laugaás við Laugarásveg er úr sögunni, hættur að vera með breytilegan fiskimatseðil dagsins og tilbiður frystikistuna eins og flestir matstaðir landsins, ekki sízt þeir yngstu og verstu.

Notalegur og glaður
Þótt fiskimatreiðslan sé eins góð á Tveimur fiskum við Tryggvagötu og enn betri á Tjörninni við Kirkjutorg, hafa Þrír Frakkar eina hlið þríhyrningsins, stemningu gestanna, umfram Tjörnina og tvær hliðar þríhyrningsins umfram Tvo fiska, stemningu gestanna og notalega gamaldags húsakynni í þremur litlum og þröngum stofum, studd elskulegri þjónustu, sem heldur streitulausum dampi, þótt oft sé mikið að gera. Ekki má gleyma, að þetta er einn af fáum stöðum, sem tekur mark á reglum um reyklaus svæði, en loftræstingin mætti þó vera betri í þrengslunum, þegar þau eru mest.

(Þrír Frakkar hjá Úlfari, Baldursgötu 14, sími 552 3939)
Jónas Kristjánsson

DV