Veitingar

Borg, Lón

Veitingar

Utanbæjarmenn á Borg
Þingmenn og þorpsbúar slæðast stundum í kvöldmat á Hótel Borg af inngrónum vana og búa kannski á hótelinu vegna nálægðar við Alþingi og helztu skömmtunarstofur þjóðfélagsins. Í hádeginu eru svo leifar kerlingafunda fyrri áratuga. Salurinn hefur losnað við forljóta hringbarinn á miðju gólfi, sem stakk í stúf við virðulega endurnýjað yfirbragð salarkynna millistríðsáranna, svo að andrúmsloftið er með stuðningi kertaljósa aftur orðið notalega gamal-evrópskt.

Tvískinningur og tóbakskóf
Veitingasalurinn heitir núna Brasserie Borg. Helmingur barsins er horfinn og hinn kominn út í horn. Áfram gildir tvískinnungurinn milli ölvunarhávaða Íslendinga í innra helmingi salarins og kvöldverðarþjónustu í gluggahelmingnum, þar sem afgreiddir eru ævintýrafælnir hótelgestir erlendir, sem ekki þora úr húsi. Vegna lélegrar loftræstingar var tóbakskófið þó sameiginlegt og hvergi sjáanlegt reyklaust afdrep í salnum.

Fátækleg íslenzka
Hvítt lín hefur blessunarlega leyst glerplötur af hólmi og kominn er tilboðsseðill, sem gefur færi á að borða þríréttað með kaffi fyrir 4400 krónur í stað 5700 króna, sem væri of hátt verð fyrir tilþrifalitla, en fagmannslega matreiðslu og sérkennilega þjónustu, er hvorki talar skiljanlega íslenzku né skilur íslenzku. Skemmtilega skrítnir þjónar voru raunar löngum aðalsmerki Hótels Borgar.

Lambarif með sykursósu
Bakaður saltfiskur var í þurrasta lagi, borinn fram með miklu gumsi, flókinn réttur, en hvorki fagur né góður. Skrautlega uppsett lambarif voru hins vegar ágæt, en því miður borin fram með væminni sykursósu. Forréttir voru betri en aðalréttir, góðar risarækjur með fínu grænmeti innbökuðu og heitreyktur lax ofan á kúskús-grænmeti. Eftirréttir voru þolanlegir, gamaldags súkkulaðiterta með vanillusósu og einföld ostaterta með kakódufti, kölluð tiramisú. (Brasserie Borg, Pósthússtræti 11, sími 551 1247)

Hlaðborð í Lóni
Leiðigjarnt hlaðborð hefur lengi verið sérkenni Lónsins á Hótel Loftleiðum og er enn, kostar 1590 krónur í hádeginu og 2600 krónur á kvöldin, þolanlegur kostur fyrir fanga Flugleiða í millilendingum, en tæpast nothæft fyrir aðra. Næstbezti hluti þess voru kaldir sjávarréttir, svo sem rækjur og hörpudiskur, reyktur og grafinn lax, en aðaltrompið fólst í ferskum ávöxtum niðursneiddum, jarðarberjum og vínberjum með þeyttum rjóma.

Þreytulegir réttir
Heitir réttir með skán í hitakössum voru hins vegar hvorki fallegir né góðir. Fiskur var ekki í hávegum hafður, en finna mátti frambærilega smálúðu í tómati. Tvær tegundir af ofelduðu og þurru kjöti voru sneiddar fyrir fólk, þegar búið var að finna skurðmeistarann. Ágætis gumsréttur úr byggi bjargaði kvöldverðinum fyrir horn. (Lón, Loftleiðum, sími 505 0925)

Jónas Kristjánsson

DV

Kínahúsið, Esja

Veitingar

Marktækt Kínahús
Eina kínverska veitingahúsið á landinu, sem ber nafn með rentu, er ódýrt Kínahúsið við Lækjargötu 8 (sími 551 1014), þar sem ég borða oft fyrir 595 eða 695 krónur í hádeginu og 1750 krónur á kvöldin. Þetta eru verð, sem sum hver hafa haldizt óbreytt árum saman. Fyrir það fæst sérlagaður og snöggeldaður kínverskur matur, sem ekki er mokað upp úr hitakössum og látinn jóðla í sósum eins og víðast hvar tíðkast á slíkum stöðum hér á landi.

Ódýrar veizlur
Í hádeginu fæst fyrir 595 krónur í Kínahúsinu matarmikil súpa, t.d. kjúklingasúpa, eggjadropasúpa eða deigbögglasúpa (Wun Tun), og aðalréttur með súrsætum rækjum og fyrir 695 krónur fæst súpan auk blöndu af þremur aðalréttum, djúpsteiktum rækjum og deigbögglum, kjúklingi í karrí, svínakjöti í ostrusósu og nautakjöti með grænmeti. Á kvöldin fæst súpa með fimm aðalréttum fyrir 1575 krónur og ferns konar viðameiri veizlutilboð fyrir 2350 krónur að meðaltali.

Notalegur staður
Matreiðslan og verðlagið síður en svo einu kostir Kínahússins, sem er notalega einfaldur og friðsæll staður með vingjarnlegri og látlausri þjónustu, þar sem gestir hallast að því að draga máltíð á langinn, bara af því að þeim líður vel. Raunar er ég alveg hissa á, að hinir Kínastaðirnir skuli þrífast í samanburði við þennan. Munið eftir að panta jasmín-te með matnum.

Esja er þægileg
Annar þægilegur matstaður í Reykjavík er veitingasalurinn á neðslu hæð Esjuhótels. Þar er þjónusta fagmannsleg og húsbúnaður vandaður, eins þreytlaus og á fyrsta degi. Þykkt teppi á gólfi dempar hljóð, mildir litir og mild lýsing tempra andrúmsloftið. Þetta er hinn fullkomni hótelstaður, ópersónulegur og notalegur í senn, sjaldgæft dæmi um, að nútímahönnun slái við gömlum skorti á hönnun.

Án hugmyndaflugs
Hugmyndaflug er bannorð í eldhúsi Esju. Matseðill og matreiðsla skera sig ekki úr meðalmennsku íslenzkrar veitingamennsku með eilíft sömu sýnisréttum fyrir einnota túrista og óbreytanlegu sjávarréttahlaðborði, sem kostar 1190 krónur í hádeginu og 2090 krónur á kvöldin, að súpu dagsins meðtalinni. Túristamatseðlar kosta 1320 og 1980 krónur, en að öðru leyti er verðlagið hátt, 4100 krónur þríréttað með kaffi.

Sjávarréttaborð
Áhugaverðasti þáttur matreiðslunnar á Esju er heitt og kalt sjávarréttaborðið, þótt þar vanti tilfinnanlega gott hrásalat. Þar er oft góður lax kaldur, einnig sumir síldarréttirnir, einkum einfalda síldin kryddlegna. Plokkfiskurinn ber oft af heitu réttunum og stundum eru þar fiskitegundir, sem fást ekki í hverri fiskbúð, en allur líður heiti hlutinn fyrir að standa lengi í hitakössum.

Jónas Kristjánsson

DV

Einar Ben, Creole Mex

Veitingar

Einar Ben kúreki
Einar Ben heitir þemahús í veitingabransanum, sem hefur lifað í kyrrþey í fjögur ár í þremur sölum, bláum, rauðum og grænum, á annarri hæð í gömlu húsi í Veltusundi 1, notalegur staður með varfærinni og fínlegri eldamennsku. Staðarmenn hafa gefizt upp á réttum dagsins og bjóða nú aðeins fastan matseðil í eins konar kúrekastíl, rétt eins og þeir hafi ruglazt á Einari skáldi og Roy Rogers.

Allt bragð dauft
Svo varfærin er matreiðslan, að kryddnotkun mældist vart í bragði. Boðað turmeric-bragð fannst ekki að seljurótarmauki, boðað saffran-bragð fannst ekki að kartöflustöppu, engifer-bragð fannst ekki að engiferfroðu og boðað estragon-bragð fannst hvorki að smjöri né hvítlaukssósu. Að vísu er kostur, að hráefnið fái sjálft að njóta sín, en þá er hæpið að gefa í skyn í matseðlinum, að krydd sé notað í töluverðum mæli.

Fín meðferð hráefnis
Meðferð hráefnis var ágæt, humar vafinn í smokkfisk, risahörpuskel, lax og lambahryggvöðvi, allt saman meyrt og fínt. Meira að segja soðið grænmeti var stinnt undir tönn. Mikilvægustu boðorð nýfranskrar matargerðarlistar voru því að mestu í heiðri höfð á Einari Ben, þótt brenndir grænmetisþræðir kæmu eins og fjandinn úr sauðarleggnum með öllum réttum. Kartöflu-lagkaka með lambakjötinu var þurr og vond, minnti á Bæjaraland.
(Einar Ben, Veltustundi 1, sími 511 5090)

Creole Mex í stuði
Bezti staður Texas-Louisiana-Mexikó-matreiðslu í borginni er tvímælalaust Creole Mex í einskismannslandi við Laugaveg 178. Þar er matreiðslan nákvæmari eftirlíking upprunasvæðisins en í Amigos við Tryggvagötu og enginn ami af bjórfnyk, sem er orðin inngróinn í húsbúnaðinum á annars frambærilegum Amigos. Svo hefur Creole Mex erft tiltölulega vandaðar innréttingar frá fyrra veitingahúsi á sama stað og býður hina þægilegustu þjónustu.

Alls konar tortillur
Vel var skammtað á Creole Mex, tortillurnar stórar og fullar af kjöti, þar á meðal djúpsteikt og stökk chimi-changas, bökuð burritos og pönnusteikt enchiladas. Forréttirnir voru góðir, pönnusteikt fajitas og djúpsteikt nachos. Ágætur og skemmtilegur vert mætti hins vegar kynna sér betur hjá frúnni í eldhúsinu, hvernig hver réttur verður til, svo að hann geti betur satt fróðleiksfýsn gesta.

Næm eldun á fiski
Frúin í eldhúsinu kann fleira fyrir sér en tortillur, svo sem sjá mátti af svínfeitum eldissilungi eldsteiktum, sem var hæfilega eldað flak, milt kryddað og borið fram með stinnu grænmeti, en lítt merku kartölfusalati. Creole-humar með cajun-smjöri var lítill og illa skorinn, en meyr og ánægjulega bragðmildur miðað við nafngiftina.
(Creole Mex, Laugavegi 178, sími 588 1750)

Jónas Kristjánsson

DV

Shalimar, Caruso

Veitingar

Shalimar er ekki indverskur
Lítill og ljótur skyndibitastaður í Aðalstræti siglir undir fölsku Indlandsflaggi og heitir Shalimar, þótt kokkurinn kynni ekki stafrófið í indverskri eldamennsku. Þar var afgreitt undarlega þykkt brauð, sem kallaðist Nan, og undarlega þurr kjúklingur, sem nefndist Tandoori. Hvorugt minnti á samnefndan mat, sem boðinn er á indverskum veitingahúsum innan og utan Indlands. Fullyrt var, að leirofn væri á staðnum, en hann hlýtur að hafa verið bilaður.

Pottréttir í hitakössum
Á Shalimar eru einkum seldir pottréttir upp úr hitakössum að hætti mötuneyta. Kjúklinga-korma reyndist aðallega vera sósa með dálitlu af kjúklingabitum hér og þar. Linsubaunagrautur var frambærilegur, hrísgrjón voru undarlega misjafnlega rauð og Raita reyndist vera óblönduð jógúrt. Heill réttur eða tveir hálfir kostuðu 850 krónur og skrýtna brauðið 200 krónur að auki. Þjónusta á staðnum var kærulaus og gleymin.

Skaðar málstaðinn
Hér á landi er hægt að fá raunverulegan Indlandsmat í virðulegum umbúnaði Austur-Indíafélagsins við Hverfisgötu, sem er tiltölulega dýrt veitingahús fyrir fólk, sem er að fara út að borða. Því hefði verið fengur að raunverulega indverskum skyndibitastað í borgarlífinu fyrir fólk, sem er bara að nærast, en Shalimar þjónar ekki slíku hlutverki. Hann gefur ranga mynd af indverskri matargerð og skaðar málstað hennar.

Caruso er hálf-ítalskur
Caruso við Bankastræti er að rustalega notalegu útliti og góðri þjónustu aðeins ítalskari en Ítalía og Pasta Basta, en enginn þeirra þriggja er spennandi sem slíkur. Primavera í Austurstræti er nokkru dýrari staður, en er um leið eini staðurinn á landinu, sem getur kallað fram raunverulega Ítalíu í matargerðarlist.

Nánast óbreyttur í fimm ár
Caruso hefur haldizt nánast óbreyttur í fimm ár, allt frá smjöri í álpappír yfir í efnisrýrar pappírsþurrkur. Þar koma margir ferðamenn fyrri part kvölds, enda er staðurinn vel í sveit settur. Vínlistinn er ekkert sérstaklega ítalskur og matseðillinn hóflega. Innihaldslaus kynningarbæklingur er á ensku með íslenzkum myndatextum. Espresso-kaffið var þunnt að amerískum hætti.

Matreiðslan fer batnandi
Matur er fremur góður í Caruso og hefur farið batnandi með árunum, þvert gegn íslenzkri hefð. Hvítlauksristuð hörpuskel var vel úti- látin og bragðgóð. Lax að hætti Ítala var hæfilega lítið soðinn, húðaður tómatmauki og borinn fram með hæfilega lítið soðnu grænmeti. Þessi ítalska framsetning á laxi gekk alveg upp, nema hvað þarflausar kartöflur voru ekki góðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Grillið

Veitingar

Grillið er langdýrast
Grillið á Hótel Sögu hefur lært af reynslu Radisson-keðjunnar og er orðið langdýrasta veitingahús á Íslandi, hefur hækkað verðlag sitt um 40% á tveimur árum. Þar kostar 6.700 krónur á mann að borða þríréttað með kaffi, áður en kemur að víninu. Mun betri veitingahús á borð við Holt og Sommelier taka um og rúmlega 5.000 krónur á mann.

Matur sem skreyting
Grillið er eins og Perlan veitingahús flókinnar skreytilistar, sem íslenzkir kokkar stunda grimmt um þessar mundir. Allir réttir eru fyrirfram vandlega útfærðir frá fagurfræðilegu sjónarmiði. Málið vandast í eldhúsinu, þegar beðið er um eitthvað, sem ekki er á matseðlinum. Ég bað um jarðarber með rjóma og fékk sneidd jarðarber í hrúgu og rjóma í skál. Eldhús Perlunnar gat hins vegar haldið uppi myndlistarmerkinu og búið til listaverk úr óvæntri ósk af þessu tagi.

Hörð smálúða
Maturinn í Grillinu er yfirleitt fremur góður, raunar betri en í Perlunni, þótt hvorugur staðurinn geti talizt neinn merkisberi matargerðarlistar. Grillið bilaði í einföldu atriði, réttri tímasetningu á pönnusteikingu smálúðu. Hún var ofsoðin og hörð að hluta, en rétturinn var fallegur sem uppstilling á listaverkasýningu. Hafa má matreiðslu á viðkvæmum fiski til vitnis um, hvort eiginleg matargerðarlist sé í heiðri höfð eða víki fyrir öðrum sjónarmiðum, svo sem myndlist.

Mild og góð krydd
Bezti kostur matreiðslunnar í Grillinu var mild og góð kryddnotkun að frönskum hætti, andstæða tízkufyrirbærisins “fusion”, sem skellir æpandi kryddi í milda rétti til að þjóna kynslóð, sem hefur eyðilagt bragðlaukana með tómatsósum og sinnepi. Það sem setur gamla og nýja franska matreiðslu á stall langt fyrir ofan aðrar matreiðsluhefðir heimsins er einmitt milt samspil í bragði, þar sem grunnbragð hráefna fær að njóta sín.

Minta með nauti
Bezti réttur Grillsins í prófuninni voru ristaðir humarhalar með kóngasveppum, ekki bara fínt og fagurlega upp settir, heldur einnig meyrir og ilmandi af sjálfu hráefninu. Grilluð nautalund var líka meyr og góð, naut hóflegrar meðferðar á mintu, en uxahalamaukið, sem fylgdi, var ekki til bóta. Hæst náði skreytilistin í þremur eftirréttum á einum diski, súkkulaðiturni, grænertuís og brenndum búðingi. Aðeins dísætir eftirréttir eru á matseðlinum.

Sagan stendur kyrr
Höfuðprýði Grillsins er, að það hefur haldizt óbreytt síðan elztu menn muna. Það er fastur punktur í tilverunni. Inniviðir eru alltaf þeir sömu og þjónustan er nánast alltaf jafngóð. Matreiðslan er því miður frosin í þessum sömu stellingum fyrri tíma, sem væri kannski hægt að fyrirgefa, ef verðlagið hefði líka frosið í gömlum tölum.

Jónas Kristjánsson

DV

Netvæn veitingahús

Veitingar

Níu netvæn veitingahús
Níu veitingahús á höfuðborgarsvæðinu reyndust í prófun um síðustu helgi hafa frambærilega heimasíðu á veraldarvefnum og gátu svarað borðapöntun sómasamlega á Netinu innan sólarhrings. Það getur varla talizt merkileg netvæðing, þótt miðillinn eigi að henta veitingahúsum, sem geta þannig komið breytilegum matseðlum og verðlagi á framfæri á einfaldan hátt. Klukkan 15.30­16 á sunnudaginn fór tölvupóstur með fyrirspurn um borðpöntun kl. 20 á mánudagskvöldi til allra veitingahúsa, sem höfðu skráða heimasíðu á Veitingavefnum (veitingavefurinn.is).

Listacafé fyrst til svara
Fyrst til svara varð Listacafé við Engjateig og skömmu síðar Salatbarinn hjá Eika í Fákafeni. Þriðja í röðinni var Apótekið við Pósthússtræti, sem öll sendu tölvupóst til baka á sunnudeginum. Á mánudagsmorgni komu svör í þessari röð, frá Skólabrú við Kirkjutorg, Argentínu við Frakkastíg, Hótel Borg við Pósthússtræti, Grand Hótel við Sigtún og Creole Mex við Laugaveg 178. Eldhúsið í Kringlunni svaraði símleiðis um svipað leyti. Önnur veitingahús voru ekki búin að bregðast við rúmum sólarhring eftir pöntun og tveim klukkustundum fyrir áætlaðan matartíma eða áttu við annan vanda að stríða.

Á Netinu í þykjustunni
Engin svör við fyrirspurninni bárust í tæka tíð frá A. Hansen í Hafnarfirði, Einari Ben. í Veltusundi, Kringlukránni í Kringlunni, Rauðará við Rauðarárstíg og Thor í Hafnarfjarðarhöfn, sem öll eru með heimasíðu með tölvupóstfangi fyrir borðapantanir.
Heimasíður Café Bleu í Kringlunni, Hard Rock í Kringlunni, Humarhússins við Lækjargötu, Hótel Holts við Bergstaðastræti, Iðnós við Vonarstræti, Jónatans Livingstone Máfs við Tryggvagötu, Lækjarbrekku við Bankastræti, Naustsins við Vesturgötu, Rex í Austurstræti, Tjarnarinnar við Kirkjutorg og Viðeyjarstofu sýndu ekki matseðil eða tölvupóstfang eða virkuðu alls ekki. Þær lágu alveg niðri hjá Pasta Basta við Klapparstíg og Sommelier við Hverfisgötu, en viðbrögð veitingastjóra Perlunnar voru ótrúlega ókurteis.

13% netvæðing
Niðurstaða prófunarinnar var því sú, að af um sjötíu veitingahúsum á höfuðborgarsvæðinu voru níu, sem höfðu nothæfa heimasíðu með matseðli og verði á Netinu og svöruðu skilmerkilega borðapöntun með ósk um reyklaust svæði og fyrirspurn um, hvort matseðlar og verð á heimasíðunni væru enn í gildi. Þetta er um 13% netvæðing. Sextán önnur hús voru með ófullkomna eða bilaða heimasíðu, þar sem mikið fé hefur farið fyrir lítinn árangur.

Jónas Kristjánsson

DV

Lækjarbrekka-verðlag

Veitingar

Lofgerð um Lækjarbrekku
Austurrískur góðvinur minn velktist ekki í vafa. “Lækjarbrekka er bezti veitingastaður í heimi,” sagði hann og dásamaði rækjurnar, sem samkvæmt lýsingu hans voru í rauninni grillaður humar. Ég get ekki skrifað undir allt lofið, en viðurkenni, að rómantíska veitingahúsið í Bakarabrekkunni hefur batnað á allra síðustu árum og nýtur þess greinilega í viðskiptum.

Sérhæfing í villibráð
Eldamennskan, sem áður rambaði út og suður í Lækjarbrekku, er orðin traust og sérhæfir sig í humar og villibráð. Humarinn er að vísu ekki eins jafngóður og í Humarhúsinu, en villibráðin er ein hin bezta á landinu. Hér er hægt að fá í einum málsverði reykta súlu, grafinn skarf, andakæfu, hreindýrasteik, villigæsarsneiðar og lundabringu, sem er allt hið frambærilegasta og kostar 4.580 krónur með eftirrétti.

Humar beztur grillaður
Gaman er að prófa grillaðan, innbakaðan og djúpsteiktan humar saman í einum aðalrétti á Lækjarbrekku, þótt ekki sé nema til að staðfesta enn einu sinni, að snögg grillun er langbezta matreiðsluaðferðin á bragðmildum humar og að milt kryddað og bráðið smjör er bezta viðbitið með honum.

Nokkrir mínusar
Hægt er að láta glerplötur borðanna fara í taugar sér á Lækjarbrekku; lélegt húsvín frá Frakklandi; blá vatnsglös; lapþunnt kaffi; skrítna eplaköku; og smekklausar eftirprentanir á veggjum. Ég saknaði líka Borgundarhólmsklukkunnar, sem áður sló stundarfjórðunginn virðulega. En allt er þetta bætt með fyrirtaks framgöngu kvenþjóna, sem láta sér annt um gesti.

4.900 króna kvöldmáltíð
Lækjarbrekka hefur ekki bara fikrað sig upp í gæðum, heldur líka í verði. Hún er komin upp í næstdýrasta flokk veitingahúsa, þar sem meðal annars eru betri staðir á borð við Sommelier og Humarhúsið, en einnig lakari staðir á borð við Skólabrú og Jónatan. Gera má ráð fyrir, að þriggja rétta máltíð með kaffi kosti 4.900 krónur, áður en kemur að víninu.
(Lækjarbrekka, Bankastræti 2, 551 4430)

Verðlag hækkar ört
Verðlag veitingahúsa hefur hækkað heldur meira undanfarin misseri en meðalverðlag í landinu, þótt sumar verðskrár hafi staðið í stað. Sem dæmi um hækkanir má nefna, að Lækjarbrekka, Perlan, Primavera og Jónatan hafa hækkað um 15% á tveimur árum, en Ítalía Madonna og Askur hafa staðið í stað. Meginlínan virðist vera sú, að dýru staðirnir verða dýrari og verðbil veitingahúsanna fer vaxandi. Það er út af fyrir sig eðlileg þróun, því að verðbil hefur verið of lítið hér á landi, en getur leitt til minni aðsóknar á dýrari staðina og meiri grisjunar þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Skólabrú

Veitingar

Glæsileg Skólabrú
Skólabrú er með glæsilegustu veitingastöðum landsins, í virðulegu húsi á einu bezta horni bæjarins aftan við Dómkirkjuna. Þar tindrar kristall við kertaljós og drifhvítt lín. Smóking-klæddir þjónar með skólagöngu að baki svipta hjálmum af aðalréttum fyrir alla borðgesti í senn. Hefðbundnar leikreglur eru í heiðri hafðar á einu af dýrustu veitingahúsum landsins, 5.100 krónur þríréttað á mann.

Gölluð Skólabrú
Gamalkunnir útlitsgallar skera enn í augu. Forstofurnar eru enn áberandi rauðar, þótt önnur húsakynni staðarins séu í mildum litum, sem hæfa aldri hússins. Uppi í risi er enn misræmi milli málaðrar veggklæðningar gamla tímans og olíuborinnar sumarhúsaklæðningar nýja tímans. Vondur frágangur er á skilum þessara tveggja tímabila í klæðningasögunni.

Reyklaus Skólabrú
Reykingar eiga verr við í veitingasölum en á öðrum opinberum stöðum. Þær valda ekki aðeins náunganum óþægindum, heldur draga verulega úr næmi hans á bragð og ilm matar og drykkjar. Því ættu matstaðir að virða betur en aðrir lög um reykingar. Skólabrú er ein fárra, sem það gera. Á matseðli hennar er reykingafólk vinsamlega beðið um að reykja ekki í matsalnum, heldur nota reykstofuna uppi í risi. Fólk líka beðið um að slökkva á farsíma.

Hefðbundin Skólabrú
Matreiðslan er hefðbundin og traust, en ekki frumleg, byggir of mikið á stöðluðum einingum að hætti ódýrari staða. Kartöflukökusneiðar, ferskur smáspergill og djúpsteiktir grænmetisþræðir fylgdu öllum aðalréttunum, sem prófaðir voru. Matseðillinn er fastur og breytist aðeins ársfjórðungslega. Hann býður sitt lítið af hverju og er engan veginn eins spennandi og seðlar toppstaða á borð við Holt og Sommelier. Leiðigjarnt væri að borða vikulega á Skólabrú.

Mistæk Skólabrú
Ódýrt vín mánaðarins var óvenjulega þrunginn Merlot frá Chile. Smáar og volgar kjallarabollur voru góðar. Eldunartímar á lambi og nauti voru nákvæmir. Kaffi var gott, með heimalöguðu konfekti. Djúpsteiktir grænmetisþræðir voru hins vegar með brunabragði; heitreykt bleikja var of mikið reykt; og sveppakrem með nautasteikinni var ofhlaðið blóðbergi, kryddi sem óspart er notað á Skólabrú.

Óbreytt Skólabrú
Fyrir níu árum var veitingahús fyrst stofnað í þessu sögufræga augnlæknishúsi. Það stóð ekki undir væntingum, sem tengdust einum allra bezta matreiðslumanni landsins á þeim tíma. Skólabrú fór dræmt af stað og hefur síðan skipt oftar en einu sinni um aðstandendur. Einkenni matreiðslunnar hafa samt haldizt í sviptingunum áranna, virðulegar og vandaðar uppskriftir, sem sjaldan er skipt um.
Skólabrú, Pósthússtræti 17,
sími 562 4455, http://www.skolabru.is

Jónas Kristjánsson

DV

Indland

Veitingar

Indversk veitingahús
Fróðlegt og gaman er að bera saman indverska veitingastaði í upprunalandinu, í höfuðstöðvum indverskrar menningar á Vesturlöndum og á hjara veraldar. Veitingarýnin í dag fjallar um þrjá indverska veitingastaði, Gaylords í Delhi, Gophal’s í London og Austur-Indíafélagið í Reykjavík.

Gaylords í Delhi
Indverskir embættis- og kaupsýslumenn mæla sér mót á einu bezta veitingahúsi Indlands, Gaylords í miðju höfuðborgarinnar, gamal-vestrænt innréttuðu, með skrautrömmuðum speglum á veggjum og borðum á svölum yfir aðalsal. Þar má fá rétti frá ýmsum héruðum landsins og maturinn er hóflega kryddaður á indverskum mælivarða.

Troðnar slóðir
Matseðill Gaylords fór troðnar slóðir og matreiðslan reyndist átakalítil. Mér reyndist vel að panta hálfan kjúkling, smurðan jógúrt og karrí og bakaðan í tandoor-leirofni, baunarétt hússins; einnig grænmetisblönduð hrísgrjón að kasmírskum hætti; svo og jógúrtsoðið lambakjöt í rauðrófusafa; og loks kotasælu með spínati. (Gaylords, Regal Building, Connaught Circus, Delhi, sími 336 0717, miðjuverð 1.700 krónur á mann)

Gopal’s í London
Gott veitingahús af indverskum toga í London er stílhreint og snyrtilegt Gopal’s í lítilli hliðargötu út frá Frith Street í Soho, þétt skipað, þjónustuljúft og þægilegt, með indverskum málverkum og speglum á rjómalitum veggjum. Mörg betri indversk hús eru í London, en þetta er vel í sveit sett og traust að gæðum, enda reyndist það nokkru betra en Gaylords.

Tilþrif í eldhúsi
Matseðillinn var mun frumlegri á Gopal’s og matreiðslan ólíkt tilþrifameiri. Mér reyndist vel að panta ferskt afskeljað krabbakjöt, soðið í kókos og kryddi, borið fram á rauðkálsblaði; einnig kartöflustöppuköku fyllta baunum, lauk, chili-pipar og kóríander-blöðum; svo og karrísoðinn fisk með kókoshnetusósu; og loks sveppi soðna í mildu kryddi. (Gopal’s, 12 Bateman Street W1 London, sími 434 0840, miðjuverð 2.900 krónur á mann)

A-Indíafélagið í Reykjavík
Árum saman hefur snyrtilegt og þjónustulipurt Austur-Indíafélagið verið eina indverska veitingahúsið í Reykjavík, vandað að búnaði og indverskum skreytingum og upp á síðkastið betra en nokkru sinni fyrr. Í gæðum stenzt það fyllilega samanburð við Gaylords í Delhi, en fellur í skugga Gopal’s og ýmissa annarra indverskra staða í London, sem greinilega er orðin Mekka indverskrar matargerðar.

Kórrétt og vandað
Matseðillinn fór troðnar slóðir, en matreiðslan var vönduð. Mér reyndist vel að panta hálfan kjúkling, smurðan jógúrt og karrí og bakaðan í tandoor-leirofni, baunir í stökku brauði; einnig kóríander-kryddaðar rækjur; svo og kotasælubita í saffransósu með sterku koríanderbragði. (Austur-Indíafélagið, Hverfisgötu 56, Reykjavík, sími 552 1630, miðjuverð 4.200 krónur á mann)

Jónas Kristjánsson

DV

Madonna, Mávurinn

Veitingar

Madonna ratar ekki
Madonna við Rauðárstíg 27­29 ratar ekki heim. Svokallað ítalskt salat sérkennilegt fólst í sjálfstæðum geirum af túnfiski, skinkubitum, pylsuneiðum, olífum og sveppum, borið fram með sýrðum rjóma krydduðum. Svokallað espresso-kaffi reyndist vera lapunnt americano úr fjölkaffivél. Svo illa ítölsk er hún þar á ofan, að vínlistinn er aðallega spánskur.

Allur fiskur frystur
Allur fiskur reyndist vera úr frysti, allt frá seigum og þurrum skötusel með yfirfljótandi holland-aise-sósu yfir í þurra ýsu með smjöri. Humarsúpa dagsins með þeyttum rjóma var hins vegar fín í tvígang. Beðið var um lítið steikt lambakjöt, en það kom næstum grátt á borð, borið fram með ofelduðu og ofsöltuðu grænmeti og brúnni hveitisósu. Svipaða sögu var að segja af nautalund, þar sem brúna hveitisósan flaut um allt. Í öllum heimsóknum reyndist eftirréttur dagsins vera Royal-ættaður súkkulaðibúðingur.

Leiktjöld úr frauðplasti
Aðalréttir dagsins eru fjórir og kosta 1560 krónur með súpu og eftirrétti. Þetta er í rauninni ekkert “ristorante”, heldur skyndibitastaður í rólegum gír. Fáið ykkur ekki mat, heldur pitsu á 1090 krónur eða pöstu á 1350 krónur. Þröng og básaskipt veitingastofan er fremur notalega gamaldags með óþægilegum glerplötum á borðum, tvískipt í reyksal og reyklaust, hlaðin leiktjöldum úr frauðplasti og langmesta magni gerviblóma, sem ég hef séð á einum stað.

Ítalíulaust Ísland
Sorglegt er, að ekki skuli vera til neitt almennilega fjörugt ítalskt veitingahús hér á landi, laust við bása, glerplötur og pappír í þurrkum, með fallegu salati Miðjarðarhafslanda, ferskt löguðu pasta hússins og bragðþrungnu risotto, ítölskum réttum á borð við saltimbocca og ossobuco, mögnuðum gorgonzola-osti, léttu borðvíni hússins, massífu bezta kaffi í heimi og hinni heimskunnu ítölsku þjónustu.

Fisklaust fiskhús
Árum saman hefur engan ferskan fisk ófrosinn verið að fá í Jónatan Livingstone Mávi, þótt enn sé haft í matseðlinum eftir ónafngreindum erlendum aðila, að þetta sé eitt af tíu beztu fiskréttahúsum heims. Jónatan er ekki einu sinni einn af þeim tíu verstu, því að hann er alls enginn fiskréttastaður. Það er alltaf leiðinlegt að sjá engan bilbug á þvættingi og bulli í sölumennsku.

Tilþrif í kryddi
Matreiðsla Jónatans mávs var upp og ofan, skemmtilega krydduð á köflum, svo sem sesamfræ með grafinni gæs, stundum úr hófi fram, svo sem í fjölkrydduðum grillhumar. Sósur og soð flæddu í miklu magni um diska. Grænmeti var ofsoðið, en réttir eldunartímar voru í kjötréttum og humar. Staðurinn er lítt breyttur, þjónusta er ágæt og verðlagið komið upp í 5.000 krónur þríréttað með kaffi.

Jónas Kristjánsson

DV

Boston

Veitingar

Legal Sea Foods í Boston
Legal Sea Foods er vönduð keðja fiskveitingahúsa í Boston, undantekningin, sem sannar regluna um, að keðjur reki jafnan vonda veitingastaði. Einna skemmtilegasta útibúið er við stóra útsýnisglugga og vandaðar innréttingar í verzlunarkringlu Prudential skýjakjúfsins í Back Bay, þar sem fólk bíður oft í röðum eftir að komast inn og fá að snæða einna ferskustu sjávarrétti borgarinnar í tandurhreinu, en hávaðasömu umhverfi, þar sem þjónagerið hleypur nánast fram og aftur.

Frægast er Clam Chowder
Frægasti rétturinn í Legal Sea Foods er þykk fiskisúpa, Clam Chowder ($3.50), sem er einkennisréttur borgarinnar og sumir forsetar Bandaríkjanna eru sagðir hafa fengið sér á þessum stað. Hún var bragðmikil, en ekki minnisstæð. Betri var viðarkolagrillaður regnbogasilungur, að Cajun-hætti frá New Orleans, með bakaðri kartöflu ($12). Hér fást alltaf hráar ostrur og aðrar skeljar, sem óhætt er að leggja sér til munns, enda er veitingahúsið með eigin sjávarrétta-rannsóknastofu. Hvítvínslistinn er einn hinn bezti í allri borginni og hófsamlega verðlagður.

Risahumar á Anthony’s Pier
Ég á alltaf góðar minningar um Anthony’s Pier 4 úti á bryggju í Waterfront hverfinu í Boston, síðan eigandinn ók mér sjálfur út á flugvöll í óvæntu verkfalli leigubílstjóra fyrir um það bil þremur áratugum. Þá var staðurinn fremur lítill og ekki enn orðinn frægur, en nú rúmar hann 1.000 manns innan við risastóra glugga á þrjá vegu og forstofurnar eru skreyttar hundruðum ljósmynda af frægum gestum, að vísu engri af mér. Verðlagið hefur alltaf verið fremur hátt, en hefur ekki hækkað með árunum. Ágætur Nýja-Englands-humar er einkennisréttur Anthony’s Pier og getur hæglega farið upp í 50 dollara á mann sem aðalréttur.

Aðrir fiskréttastaðir í Boston
Allur fiskur er góður á Anthony’s Pier, en slær ekki við stöðum eins og nágrönnunum No Name og Jimmy’s Harborside eða Legal Sea Foods, Turner Fisheries og Skipjack’s inni í miðborg Boston. Fyrir Íslendinga eru slíkir staðir áhugaverðir vegna tilbreytingarinnar, sem felst í, að tegundir sjávarafla eru sumpart allt aðrar en hér.

Faneuil markaðurinn
Mannlíf í Boston er mest á Faneuil markaðinum í borgarmiðju. Þar er allt fullt af smábúðum, sem selja mat og ýmsar nauðsynjar, svo og hefðbundið ferðamannaglingur. Við hlið hans er hótelið Regal Bostonian, þar sem uppi er dýr og fínn útsýnis-fiskiveitingasalur með fínni skeljasúpu á 7 dollara og ljúfum laxi á 25 dollara.

Morton’s steikhúsið
Eftir allan þennan fisk er hægt að hvíla sig með því að fara í helzta steikhúsið í Boston, Morton’s of Chicago á horni Boylston-götu og Exeter-torgs, þar sem bezta nautasteik Nýja-Englands er seld á 32 dollara. En þá er gott að hafa verið í svelti, því að skammturinn er sennilega ekki minni en 500 grömm. Morton’s var hálfgerður vindlakarlaklúbbur fyrr á árum, en hefur mildazt með árunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Amsterdam

Veitingar

Rijsttafel í Amsterdam
Ég skal játa, að mér finnst ég eiga dálítið í indónesíska matstaðnum Sama Sebo í Amsterdam. Þegar leiðsögubók mín um borgina kom út í fyrstu útgáfu árið 1984, setti ég hann á stall sem uppáhaldsstað minn í borginni. Þá var Sama Sebo óþekktur staður, en er nú kominn í öll leiðsögureit, þar á meðal rauða Michelin. Sérgrein staðarins var og er Rijsttafel, sem er veizluborð um það bil tuttugu smárétta frá Indónesíu.

Indrapura er ný stjarna
Vegna þessarar forsögu er mér þungbært að viðurkenna, að Sama Sebo hefur ekki þolað frægðina. Á allra síðustu árum hefur hann orðið að sálarlausri verksmiðju með lélegri matreiðslu og ruddalegri þjónustu. Nú orðið fer ég ekki þangað til að fá mér Rijsttafel, heldur í veitingahúsið Indrapura, sem er notalegur staður vandaðrar matreiðslu frá Indónesíu, vel í sveit settur við Rembrandtsplein 42, sími 623 7329. Rijsttafel-veizla með öllu kostar um 85 gyllini á mann.

Pönnukökur Upstairs
Það má nánast teljast til helgisiða í hverri heimsókn til Amsterdam að klifra upp þröngan hænsnastigann í pönnukökuhúsið Upstairs við Grimburgwal 2, rétt við Rokin. Þar komast ekki nema tólf manns fyrir í einu og sitja þröngt. Risastór engifer-pönnukaka að hollenzkum hætti kostar 13 gyllini, en hægt er að fá ótal umfangsmeiri fyllingar.

Café American og Mata Hari
Annar pílagrímastaður er Art Nouveau kaffistofan á jarðhæð American hótelsins við Leisekade 97, rétt við Leidseplein, þar sem haldin var brúðkaupsveizla njósnakvendisins Mata Hari. Þetta er einn helzti stefnumótastaður miðborgarinnar, kjörinn til að fá sér kaffi og tertu og virða fyrir sér aldargömlu innréttingarnar, frostglerjaðar ljósakrónur, víðfeðm bogarið og steinda glugga. Kaffi og terta kosta 12 gyllini.

Hefbundinn Oesterbar
Beztu sjávarréttastaðirnir í Amsterdam eru enn hinir sömu og þeir voru í bókarútgáfunni frá 1992. Beztur er líflegur og berangurslegur Oesterbar, þægilega vistaður við Leidseplein 10, sími 626 3463, að vísu með heldur grófari þjónustu en áður. Miklar vinsældir hafa hins vegar ekki skaðað matreiðsluna neitt.

Sólflúra og þykkvalúra
Í Oesterbar er hægt að fá hina ljúfustu fiska og sjávardýr, sem ekki veiðast hér við land, svo sem ostrur, sólflúru og þykkvalúru. Bezt er að panta einfalda matreiðslu, til dæmis grillun, því að þá er eldunartíminn undantekningarlaust hárnákvæmur. Matur kostar um 120 gyllini á mann, en getur farið upp í 200 gyllini, ef menn fá sér dýra rétti á borð við humar.

Jónas Kristjánsson

DV

Perlan, Carpe Diem

Veitingar

Perlan er sólkerfi
Perlan á Öskjuhlíð er meira en geimstöð. Hún er sólkerfi, þar sem svigrúmið um hvert borð er veröld út af fyrir sig og fyrir utan glugga glittir í önnur sólkerfi, hugsanlega með lífi á einhverjum hnöttum. Þetta er þáttur aðdráttarafls Perlunnar, dýrasta, fínasta og sérstæðasta matsalar landsins, þar sem fólk nýtur afbragðs móttöku og þjónustu og fær fyrirtaks forrétti og eftirrétti.

Biluð smáatriði
Eins og oftar áður eru það smáatriði í aðalréttum, sem bila í Perlunni og spilla heildarmyndinni. Með glóðaðri nautalund var borinn fram þurr og harður kjötkökkur, tæplega tomma á kant, sem virðist hafa heitið uxabrjóst á matseðlinum. Ef honum hefði verið sleppt, hefði rétturinn í heild verið frábær. Undir andabringu var hörð plata af brenndum kartöfluþráðum. Ef henni hefði verið sleppt, hefði rétturinn í heild verið frábær.

Minnisstæðir réttir
Fínlegt villisvepparisotto með spínati og parma-osti bráðnaði á tungu. Bleik laxahrogn á rússneskum blini-pönnukökum voru annar góður forréttur. Mangókrap í freyðivíni var fínt og flott. Klassiskur eftirréttur er créme brûlèe búðingur með karamelluskorpu, betur gerður en víðast annars staðar. Enginn vandi var að fá blandaða ávexti og ber með rjóma fyrir þá, sem reyna að forðast sykurfyllerí eftirrétta.

Bocuse gabbar kokkana
Þrátt fyrir góða kosti Perlunnar vekur hún mér ekki þá kennd, að of langt sé síðan ég kom þar síðast. Mér finnst hún vera köld umgerð um skrautlega rétti að hætti Bocuse, sem er snjall auglýsingamaður í dulargervi kokks í úthverfi Lyon. Ég hef tvisvar borðað þar og nenni því ekki aftur. En hann er duglegur við að búa til Bocuse-verðlaun og aðra markaðssetningu og gabb, sem íslenzkir matreiðslumenn hlaupa á eftir. Af hverju fóru þeir ekki í myndlistarskóla?

Fisklykt á Carpe Diem
Sérstætt er, að veitingahús skuli geta boðið gestum þídda og gamla ýsu í senn. Frystingin á að varðveita ferskleikann, þótt hún eyðileggi ýsubragðið, og á að geta komið í veg fyrir, að fiskur verði svo gamall, að hann fari að lykta svo, að karrísósan megnaði ekki að milda lyktina. En þetta tókst eldhúsinu á Carpe Diem í Hótel Lind við Rauðarárstíg 18 í hádeginu um daginn. Þar á ofan voru ofbökuðu kartöflurnar upphitaðar.

Fínlegt umhverfi
Aðrir þættir á Carpe Diem sýndu ekki merki slóðaskaparins í eldhúsinu. Allt var uppdúkað og fínt í hádeginu, jafnvel tauþurrkur á borðum og tindrandi fín vatnsglös, sem eiga að hæfa fínum hótelsal. Salatborðið var að vísu lítið, en stóð ekki öðrum slíkum á sporði í fjölbreytni. Ég gat því bætt mér upp ýsuna og kartöflurnar með hollustufæði. En grænmetissúpan virtist hveitileg, svo að ég lagði ekki í hana, og brauðið var bara hvítt snittubrauð.

Jónas Kristjánsson

DV

Potturinn og pannan, Tilveran, ódýrir staðir

Veitingar

Bylting á Potti og pönnu
Pottinum og pönnunni við Nóatún hjá Brautarholti var bylt að útliti fyrir áramótin. Bása- og timburstíllinn hvarf, en við tók bjartur og opinn stíll að nýrri tízku. Útbyggingin hefur verið breikkuð og salurinn stækkaður, svo að rýmra er milli bólstraðra stóla og viðarborða. Aðbúnaður er notalegri en áður var, vatnskönnur koma á borð og falleg glös. Súpa, salatbar, aðalréttur og kaffi kosta 1830 krónur

Innihaldið er óbreytt
Allt annað er nákvæmlega eins í Pottinum og pönnunni. Þar er sama glaðbeitta þjónustan, sama lága verðið, sami leiðigjarni matseðillinn, sama frambærilega matreiðslan og sama sögufræga og góða salatborðið, sem Úlfar Eysteinsson matreiðslumaður gerði frægt á þessum stað árið 1982. Þetta er einn af föstu punktunum í tilverunni, þótt eigendur hafi komið og farið. En viðskiptavinir eru orðnir átján árum eldri en þeir voru fyrst.

Salatborð er hornsteinn
Óbrigðult salatborð er hornsteinn Pottsins og pönnunnar. Hveitisúpurnar eru leiðinlegar, en stundum sjást betri súpur tærar Væg matreiðsla notar rétta eldunartíma og dauf matreiðsla býður piparsósu, sem ekkert bragð er að. Fyrir nokkrum kvöldum mátti velja milli silungs, fiskiþrennu, gríss og nauts, sem reyndist vera fyrirmyndar piparsteik með léttelduðu grænmeti í vandaðri kantinum.

Tilveran breytist ekki
Enn ódýrari fjölskyldumatstaður er alþýðleg Tilveran við Linnetstíg hjá Fjarðargötu í Hafnarfirði, þar sem súpa, aðalréttur og kaffi kosta 1150 krónur. Þessi staður kom til sögunnar árið 1996 og hefur unnið sér verðugar vinsældir. Svipmót staðarins er þægilega gamaldags, þjónusta notaleg og matreiðsla traust, allt svo sem verið hefur frá fyrsta degi.

Fiskur er beztur
Fiskréttir hafa reynzt mér beztir í Tilverunni. Pönnusteiktur steinbítur var hæfilega eldaður og borinn fram með mildri engifersósu. Smjörsteikt rauðspretta var líka hæfilega elduð, borin fram með mildri saffran-sósu. Ofnbakaður saltfiskur var vel útvatnaður, hvítur og bragðmildur, svo að hann gerist vart betri. Hreindýra-gúllas var meyrt, en skorti hreindýrsbragð og var því miður með kekkjaðri kartöflustöppu.

Aðrir ódýrir staðir
Fyrir utan Pottinn og pönnuna og Tilveruna eru ekki til margir frambærilegir veitingastaðir með fullri þjónustu í lægri verðkantinum. Laugaás við Laugarásveg er þar líka, lengi einn af mínum uppáhaldsstöðum, en hefur verið reikull í spori undanfarin misseri. Annar uppáhaldsstaður er Kínahúsið í Lækjargötu, sem ár eftir ár býður vönduðustu austrænu matreiðsluna hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Næstu grös, Grænn kostur

Veitingar

Næstu grös eru grín
Næstu grös á horni Laugavegs og Klapparstígs er kuldalega skandinavískt mötuneyti í sjúkrahælisstíl, þar sem veiklulegu fólki eru skammtaðir lítt kryddaðir og sjúklega bragðdaufir grænmetisréttir. Ótalmargt er hægt að gera fyrir hýðishrísgrjón, til dæmis í formi risotto, og fyrir ab-mjólkursósu, til dæmis með kryddjurtum, en það er ekki gert hér.
Um daginn var annar aðalrétturinn pæ og hinn lasagna, en enginn baunaréttur, svo að þetta varð dagur prótein-skorts. Hressileg tómat- og lauksúpa bætti úr skák, rétt eins og bragðsterk kókossúpa hafði gert nokkru áður. Aðeins eitt brauð var á boðstólum, ágætis súrdeigsbrauð. Hallærislegt var hrásalat, sem víða annars staðar er tilefni listaverka, en var hér aðallega jöklasalat.
Miðjuverð aðalrétta er 700 krónur og 1.000 krónur, ef súpan er með. Fyrir 400 krónur getur fólk síðan bætt sér upp hversdagsgráma staðarins með einni af sykurbombum skenksins, þremur glæsitertum, en ekki gera þær mikið fyrir megrunina. Alls engir ávextir eru í boði. Ég held, að þessi staður sé hálfgert spé og hafi verið það árum saman.

Grænn kostur er sykurfrír
Meira vit er í sykurfrírri og hvítahveitisfrírri grænmetisfæðu, sem hentar megrunarfólki á Grænum kosti í bakhúsi á horni Skólavörðustígs og Bergsstaðastrætis. Þar er matreiðslan fjörlegi og undir meiri áhrifum fjarlægra landa. Þar eru til dæmis karrí og kúskús, samósur, chutney og guaccamole.
Hér hef ég nýlega fengið ágætis sojabaunakarrí, kjúklingabaunabollur og linsubaunabuff. Hrásalöt eru því miður ekki merkari en á Næstu grösum, einnig mestmegnis jöklasalat. Engir forréttir eru í boði, en hinar fögru og frábæru tertur eru sykurlausar, með kosti á þeyttum rjóma, sem nú er aftur orðinn hollur. Aðalréttur kostar 640 krónur og 800 krónur með ábót. Terta kostar 300­350 krónur til viðbótar.
Þetta er feiknagóður heilsu-skyndibitastaður, þar sem fólk situr á hænsnaprikum við pínuborð í óvenjulegum innréttingum, sem virðast sérstaklega hannaðar til að fólk hafi sig burt sem fyrst, svo að hægt sé að taka við nýjum viðskiptavinum.

Enn vantar grænmetisstað
Til viðbótar við Grænan kost vantar notalega innréttaðan stað, þar sem hægt er að gefa sér góðan tíma við að setjast niður í blómahafi og fá afgreidda á borðið lífræna grænmetisfæðu, sykur- og hvítahveitisfría að hætti Græns kosts, aukna og endurbætta með tærri súpu og fögrum forrétti, verulega litskrúðugu hrásalati og meiri áherzlu á ferska ávaxti. Salatbarir Eika eru prótein-slappir og megna ekki að fullnægja þessum órum.
Vel matreidd grænmetisfæða getur verið bragðbetri og fallegri en hver önnur fæða, auk þess sem hún er nytsamleg, hvort sem hugsað er um heilsuna eða línurnar. Ef umhverfið á grænmetis-veitingastað að hætti Græns kosts væri þar á ofan notalegt, mundi fólk flykkjast þangað til að efna nýársloforðin.

Jónas Kristjánsson

DV