Utanbæjarmenn á Borg
Þingmenn og þorpsbúar slæðast stundum í kvöldmat á Hótel Borg af inngrónum vana og búa kannski á hótelinu vegna nálægðar við Alþingi og helztu skömmtunarstofur þjóðfélagsins. Í hádeginu eru svo leifar kerlingafunda fyrri áratuga. Salurinn hefur losnað við forljóta hringbarinn á miðju gólfi, sem stakk í stúf við virðulega endurnýjað yfirbragð salarkynna millistríðsáranna, svo að andrúmsloftið er með stuðningi kertaljósa aftur orðið notalega gamal-evrópskt.
Tvískinningur og tóbakskóf
Veitingasalurinn heitir núna Brasserie Borg. Helmingur barsins er horfinn og hinn kominn út í horn. Áfram gildir tvískinnungurinn milli ölvunarhávaða Íslendinga í innra helmingi salarins og kvöldverðarþjónustu í gluggahelmingnum, þar sem afgreiddir eru ævintýrafælnir hótelgestir erlendir, sem ekki þora úr húsi. Vegna lélegrar loftræstingar var tóbakskófið þó sameiginlegt og hvergi sjáanlegt reyklaust afdrep í salnum.
Fátækleg íslenzka
Hvítt lín hefur blessunarlega leyst glerplötur af hólmi og kominn er tilboðsseðill, sem gefur færi á að borða þríréttað með kaffi fyrir 4400 krónur í stað 5700 króna, sem væri of hátt verð fyrir tilþrifalitla, en fagmannslega matreiðslu og sérkennilega þjónustu, er hvorki talar skiljanlega íslenzku né skilur íslenzku. Skemmtilega skrítnir þjónar voru raunar löngum aðalsmerki Hótels Borgar.
Lambarif með sykursósu
Bakaður saltfiskur var í þurrasta lagi, borinn fram með miklu gumsi, flókinn réttur, en hvorki fagur né góður. Skrautlega uppsett lambarif voru hins vegar ágæt, en því miður borin fram með væminni sykursósu. Forréttir voru betri en aðalréttir, góðar risarækjur með fínu grænmeti innbökuðu og heitreyktur lax ofan á kúskús-grænmeti. Eftirréttir voru þolanlegir, gamaldags súkkulaðiterta með vanillusósu og einföld ostaterta með kakódufti, kölluð tiramisú. (Brasserie Borg, Pósthússtræti 11, sími 551 1247)
Hlaðborð í Lóni
Leiðigjarnt hlaðborð hefur lengi verið sérkenni Lónsins á Hótel Loftleiðum og er enn, kostar 1590 krónur í hádeginu og 2600 krónur á kvöldin, þolanlegur kostur fyrir fanga Flugleiða í millilendingum, en tæpast nothæft fyrir aðra. Næstbezti hluti þess voru kaldir sjávarréttir, svo sem rækjur og hörpudiskur, reyktur og grafinn lax, en aðaltrompið fólst í ferskum ávöxtum niðursneiddum, jarðarberjum og vínberjum með þeyttum rjóma.
Þreytulegir réttir
Heitir réttir með skán í hitakössum voru hins vegar hvorki fallegir né góðir. Fiskur var ekki í hávegum hafður, en finna mátti frambærilega smálúðu í tómati. Tvær tegundir af ofelduðu og þurru kjöti voru sneiddar fyrir fólk, þegar búið var að finna skurðmeistarann. Ágætis gumsréttur úr byggi bjargaði kvöldverðinum fyrir horn. (Lón, Loftleiðum, sími 505 0925)
Jónas Kristjánsson
DV