Veitingar

Salatbarir Eika

Veitingar

Eiki skrifstofufólks
Salatbarinn hjá Eika í Pósthússtræti 13 er betri en sá upprunalegi, sem enn er opinn í Fákafeni 9. Pósthússtrætis-staðurinn er ekki eins kuldalegur; úrvalið er meira; súpurnar fjórar, en ekki tvær; og heitu réttirnir tveir eru ekki bara pöstur. Á hvorum stað kostar máltíðin 980 krónur.
Mötuneytislegur salatbarinn í Pósthússtræti er tvískiptur og hefur glugga á tvo vegu. Hér er oft mikið að gera. Skrifstofufólk úr nágrenninu kemur í hádeginu og blandar í plastöskjur til að fara með að tölvunni. Aðrir sitja í bakháum stólum við gamaldags og ljóta olíudúka á borðum og geta farið margar ferðir á barinn, svo að þeir blandi ekki öllu saman í graut.
Um daginn voru á boðstólum fjórar heitar og áhugaverðar súpur, fiskisúpa, lauksúpa, sveppasúpa og grænmetissúpa. Volgu réttirnir voru kartöflukaka og blandað grænmeti, hvort tveggja aðlaðandi. Margs konar brauð var á boðstólum og ótal tegundir af hráu grænmeti, svo og dósatúnfiskur, en engir baunaréttir voru sjáanlegir. Hér voru líka epli, appelsínur, kiwi og tvenns konar melónur. Kaffið var vont.

Eiki líkamsræktarfólks
Salatbarinn hjá Eika í Fákafeni hefur skánað að yfirbragði en versnað að innihaldi. Af tveimur súpum virtist önnur vera hveitisúpa, en hin var tært og ágætt tómatseyði. Brauðið var fjölbreytt. Volgu réttirnir voru fremur fráhrindandi pöstur og ekki sást lengur neinn baunaréttur. Hrásalatið var fjölbreytt og hér voru líka epli, appelsínur, vínber og melónur. Kaffið var þolanlegt.
Innréttingin er ekki lengur í hörðum grunnlitum og lampar eru komnir á borðin, sem enn standa í hernaðarlega þráðbeinum röðum með þröngu bili. Á langvegg er nú komin feiknarleg stækkun ljósmyndar af ýmsum jarðávöxtum. Hingað slæðist líkamsræktarfólk úr nágrenninu og ýmsir, sem halda, að þeir séu í megrun.

Vonlaus megrun
Kolvetnisríkir salatbarir sem þessir höfða til megrunarfólks án þess að gera neitt gagn sem slíkir. Það er ekki nóg að hafa bragðvondan dósatúnfisk einan sem prótein. Til skjalanna þurfa að koma heitir baunaréttir, sem geta verið mjög góðir. Þá er dauð fæða á borð við pöstu úr hvítu hveiti og hvít hrísgrjón ekki heppilegt megrunarfæði, ekki frekar en sykurblönduð jógúrt með ávaxtabragði eða niðursoðnir ávextir í sykurlegi.
Salatbarirnir tveir gagnast hvorki þeim, sem eru grænmetisætur og vilja jafnvægi í næringarefnum, t.d. forðast prótein-skort, né þeim, sem vilja grenna sig eftir nýjustu aðferðum, er flestar banna allt, sem lýtur að viðbættum sykri, alla sterkju og allt, sem gert er úr unnu korni. Þeir, sem ætla eftir offylli jólanna að gefa nýjársloforð um nýjan lífsstíl, verða að snúa sér annað. Meira um það eftir viku, í fyrstu veitingarýni nýs árs.

Jónas Kristjánsson

DV

Rex, Askur, jólahlaðborð

Veitingar

Góður og breyttur Rex
Matreiðslan á silfurgráum Rex í Austurstræti 9 hefur gerbreytzt síðan ég rýndi í hana fyrir tveimur árum, þótt gæðin séu svipuð. Hún leitar ekki lengur fjarlægra stranda, heldur fellur í hefðbundinn farveg og fremur traustan. Horfið er tandoori, satay og cajun úr matseðlinum og raunar flest það, sem gerði Rex að sérstæðum matstað.
Í staðinn eru komnir fornlegir réttir á borð við beikonvafinn lambahryggvöðva, sem raunar reyndist fagurlega upp settur í ltilum turnum og einstaklega bragðgóður. Ekki var síðri ofnbakaður lax í ljúfu engifersoði, sem hæfði fiskinum, borinn fram með Japans-sveppum og sætukartöflu-teningum. Rex er enn sem fyrr einn af alvöru-matstöðum borgarinnar.

Markhópurinn sést ekki
Fyrir tveimur árum lét ég í ljósi efasemdir um, að vönduð matreiðsla væri við hæfi á ímyndarhönnuðum veitingastað fyrir markhópa, svo sem tíðkast nú til dags. Fræga og fagra fólkið kæmi ekki til að pósera, ef aðrir gestir sýndu því minni áhuga en matnum. Of góður kokkur yrði rekinn til að trufla ekki þjóðfélagslega ímynd staðarins.
Skipt hefur verið um kokk í Rex, en sá nýi er góður líka, svo að markhópurinn lætur á sér standa. Við snæddum því ein sem jafnan endranær innan við risaglugga í silfurgráu umhverfi, sem er næstum því eins kuldalegt og áður, þótt gluggatjöld byrgi núna sýn út í stormgjá Austurstrætis fyrir utan og götuóeirða-felliveggi Ríkisins handan götunnar.

Askur er alltaf eins
Því meira sem krukkað er í innréttingar á steikhúsinu Aski við Suðurlandsbraut 4, þeim mun meira er staðurinn eins og hann hefur verið síðan svona staðir komust í tízku fyrir nákvæmlega tveimur áratugum. Salatbarinn er alltaf eins og matseðillinn er alltaf eins, nákvæmlega eins og framsækið fólk vildi hafa þetta fyrir 20 árum. Viðskiptavinirnir eru líka hinir sömu, en þeir hafa elzt.
Margt er gott um Ask að segja. Innréttingar eru ekki eins stirðar og þær voru, til dæmis hefur sófi við langvegg vikið fyrir básum. Glaðleg þjónusta er betri en hún hefur oft áður verið. Nú eru komnar hnappar á borðin til að kalla á þjónustu, ef menn fara að ókyrrast.
Súpa dagsins var bragðsterk tómat- og grænmetissúpa með litlum rækjum, sem höfðu stífnað og þornað. Salatborðið var ekki spennandi, en hafði þó að geyma nýsoðin egg og ýmiss konar brauð. Grillaður steinbítur dagsins bætti þessa máltíð, nákvæmlega eldaður og fallega upp settur með góðu sítrónusoði. Meðlætið var öllu lakara og einkenndist af ofsöltuðum grænmetisþráðum.

Hlaðborð á undanhaldi
Ánægjulegt er að sjá, hve mörg veitingahús eru aftur farin að hafna jólahlaðborðum og treysta sér til að hafa opið á venjulegan hátt á jólaföstunni fyrir gesti og gangandi. Hlaðborðin eru úrelt, enda veit fólk þá fyrst, hvað er ætt á borðunum, þegar það er orðið svo belgt, að það getur ekki nýtt sér þekkinguna.

Jónas Kristjánsson

DV

Humarhúsið, Pasta Basta, Ítalía

Veitingar

Humarhúsið í toppformi
Grafin villigæsabringa með trönuberjum var frábær forréttur og undurmeyr risahörpuskel á polenta-beði með bragðmildu graskers-risotto var enn betri. Grillhumar í hvítlauk var fínn eins og vera ber á Humarhúsinu og nákvæmt pönnusteikt rauðspretta með afar fínu engifersoðbragði var einhver bezti matur, sem ég hef fengið í vetur.
Humarhúsið hefur lengi verið gott, en er nú komið í þriðja sæti matargerðarlistar á Íslandi næst á eftir Sommelier og Hótel Holti. Antik-umhverfi og glansandi aðbúnaður og fagmannleg þjónusta gefa matreiðslunni ekki eftir.
Gott er að sjá, að Humarhúsið hefur slegið í gegn. Það var fullt á venjulegu kvöldi og borð nýttust um leið og þau losnuðu. Nú er komið gott fordrykkjarpláss í turnhúsinu meðan fólk bíður eftir borði. Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 4000 krónur af kvöldseðlinum, en dýrir humarréttir lyfta meðalverði fastaseðilsins í 4800 krónur.

890 króna pasta-hádegi
Hlaðborðið í hádeginu hefur batnað og kostar ekki nema 890 krónur, þótt annað sé dýrt á Pasta Basta. Þar voru um daginn þrenns konar pasta, dauflegt penne, betra spaghetti og ágætt tagliatelle með kræklingi í skelinni. Blóðbergs-risotto með rækjum var ágætt. Allt var þetta því miður bara moðvolgt. Betri var sterk tómatsúpa með oregano og bezt var raunar ítalska blaðsalatið.
Einkenni margra þemastaða á borð við Pasta Basta, Ítalíu og Út í bláinn er svipað verðlag og á sumum beztu veitingahúsum landsins, svo sem Humarhúsinu, Iðnó og Tveimur fiskum, þótt allt sé lakara á fyrrnefndu stöðunum, matreiðsla, aðbúnaður og þjónusta. Þríréttað á Pasta Basta með pasta sem aðalrétt kostar að meðaltali 3800 krónur og þríréttað með öðru en pasta kostar að meðaltali 4600 krónur, hvort tveggja með kaffi.

Ítalía í þrefaldri fýlu
Þrír fulltrúar veitingahússins Ítalíu hafa opinberlega kvartað um þrennt, þar á meðal að ég hafi sagt staðinn vera þjóðlegan íslenzkan matsölustað fremur en ítalskan og vil ég árétta þá skoðun. Pasta og pitsa nægja ekki til að kalla matreiðslu ítalska.
Þeir spurðu líka, hvaðan ég hefði, að notaður sé frystur fiskur. Ég spurði þjónustuna, sem fór fram í eldhús og kom með svarið, að fiskurinn væri frystur. Sú er heimildin og voru vitni að því. Ef starfsfólk veit lítið um matinn, stafar það af, að þar starfar ólært fólk á lágu kaupi, þótt verðið sé miðað við staði, sem hafa dýrt fagfólk í vinnu.
Þriðja atriðið, sem þeir kvarta um, er, að ég telji eftirréttinn tiramisu upprunninn í Bologna, sem þeir segja að hafi verið í Feneyjum. Sú var einmitt skoðunin, sem ég hafði fyrir nokkrum árum, þegar ég skrifaði bækur mínar um Róm og Feneyjar, en síðan þá hef ég skipt um skoðun og stend við hana.

Jónas Kristjánsson

DV

Iðnó, Út í bláinn

Veitingar

Kryddfrelsi í Iðnó
Matreiðsla, þjónusta og aðbúnaður hafa batnað í Iðnó, matsalnum á annarri hæð leikhússins við Tjörnina. Salurinn er núna skreyttur málverkum og risaglervösum. Þjónustan er fagleg og dúkar og þurrkur eru úr drifhvítu líni. Matreiðslan er spennandi á köflum, einkum vegna frjálslegrar kryddnotkunar.
Ekki er ég að segja, að hamagangur með kryddstauka gangi alltaf upp, en skemmtileg tilbreytni var í steinselju- og hvítlaukshúðuðum laxi. Enn betur gekk dæmið upp í glóðaðri smálúðu með skemmtilega ögrandi appelsínusósu. Hins vegar var fiskurinn í báðum tilvikum lítillega of lengi eldaður.
Frísklegt og litskrúðugt salat var einn forrétta forrétt og fínlegur og góður hrísgrjónagrautur risotto kom með laxinum. Iðnó er greinilega komið á kortið sem einn alvörustaðanna í matargerðarlist. Verðið á þríréttuðu með kaffi er þægilegt miðað við gæði, að meðaltali 3.700 krónur. Aðsókn mætti vera meiri.

Heitir og er Út í bláinn
Út í bláinn heitir og er nýr tapas-bar, spánskur smáréttabar í fremur skuggalegum og grófum, en hreinlegum og ótrúlega víðum kjallara Hlaðvarpans með berum burðarvirkjum. Þar sitja gestir í hóflegum þægindum í básum við tréborð með pappírsþurrkum, njóta hóflegar fagmennsku í þjónustu og punga út 4.300 krónum fyrir frjálst val tveggja tapas í forrétt, aðalréttar og eftirréttar af seðli og kaffis. Einnig er hægt að velja milli sex fastra tapas-blandna á 1.900 krónur. Stakir kosta smáréttirnir um 400 krónur hver og í hádeginu er boðin súpa dagsins og þrír smáréttir á hóflegar 890 krónur.
Saltfiskbollurnar í kryddaðri tómatsósu voru ekki úr nógu góðum ssaltfiski, krabbasalatið var fáfengilegt og beikonvafða hörpuskelin bauð aðeins beikonbragð. Hvítlauksbakaðir humarhalar voru of lítið skornir, svo að erfitt var að ná fiskinum út, en hann var meyr og bragðgóður, rétt eins og heili smokkfiskurinn, sem borinn var fram með sterkri paprikusósu og bjargaði heiðri staðarins. Ágæt voru koníakslegin jarðarber með þeyttum rjóma og espresso-kaffið var ekta.

Þemu leysa gæði af hólmi
Í kjölfar aukinnar sýndarmennsku í þjóðfélaginu hafa risið víða um bæ þemahús veitinga, þar sem reynt er að höfða til markhópa, einkum meðal ungs fólks, með leiktjöldum eða öðrum stælum. Gestir greiða alvöruverð, en samt er sparað flest það, sem kostar peninga og áður var talið til aðalsmerkja veitingahúsa, svo sem fagleg þjónusta, dúkuð borð og vönduð matreiðsla. Matreiðslan er oft sæmileg og getur verið góð á köflum, en er yfirleitt einföld og oftast lítt minnisstæð. Vinsældir margra þessara staða benda til, að bætt hafi verið úr brýnum skorti gervimennsku í veitingabransanum

Jónas Kristjánsson

DV

Tveir fiskar, Ítalía, jólahlaðborð

Veitingar

Tveir fiskar blómstra
Nýjar heimsóknir á Tvo fiska við Geirsgötu 9 hafa fært mér vissu um, að staðurinn stendur jafnfætis Þremur Frökkum og Tjörninni sem sjávarréttastaður. Eldunartímar fiskjar voru hárnákvæmir á keilu og rauðsprettu. Súpa dagsins var sérstætt frávik frá íslenzkum hefðum, fínleg tómat-minestrone, en ekki groddalega þykk crème.
Sushi-matreiðsla fer nú aðeins fram á kvöldin, svo að Tveir fiskar hafa gefið Sticks n’Sushi eftir Japansréttamarkaðinn. Á móti kemur, að í hádeginu er einstaklega ódýrt að borða á Tveimur fiskum. Súpa dagsins og val af aðalréttum kostar þá ekki nema 1.100 krónur. Samt er allt eins á kvöldi, hvítdúkuð borg og hvítar tauþurrkur, þjónusta fagfólks og matreiðslan í toppi. Miðað við gæði er þetta eitt bezta hádegisverðið um þessar mundir.

Íslenzk Ítalía
Við Laugaveg 11 er feiknarlega vinsælt veitingahús, þar sem hvert borð er setið hálfátta á kvöldin og biðröð komin hálfníu. Staðurinn er ekki ítalskur og heitir samt Ítalía, en ætti að heita Ísland. Þar sitja sáttir menn og konur afar þröngt í básum við glerplötur á borðum og borða pizzur og pöstur, þjóðarrétti kolvetnisærðra Íslendinga nútímans.
Af því að þetta er þjóðlegur íslenzkur staður, er fiski lítt hampað og fúslega viðurkennt, að rauðsprettan sé fryst. Aðeins ein matreiðsla er á ferskum fiski og rjómahvítvínssósan flæðir um allan disk. Kjötmatreiðsla er mun betri, en staðlað meðlæti er nákvæmlega hið sama og með fiskinum. Að íslenzkum hætti er boðið upp á tiramisu í eftirrétt og hér er hún þeirra fjarlægust upprunanum í Bologna, minnir á krem- og rjómatertu í erfidrykkju. Ég gafst upp í henni miðri.

Skelfileg jólahlaðborð
Jólahlaðborð höfða til okkar, afkomenda langsoltinna forfeðra. Fólk, sem nánast aldrei fer út að borða, flykkist í veitingahús, sem hafa orðið undir í hefðbundnum veitingum og bjóða jólahlaðborð í atvinnubótaskyni. Maturinn á jólahlaðborðum er fremur vondur í samanburði við venjulegan veitingahúsamat, en það er nóg af honum, eins og forfeður okkar töldu mundu verða í himnaríki. Þegar við höfum áttað okkur á, hvað af matnum er ætt, erum við orðin svo södd, að við getum ekki hagnýtt okkur lærdóminn. Matarsiðaðar þjóðir búa ekki við hlaðborð.
Venjuleg matreiðsla leggst niður á hlaðborðastöðunum í desember og gerir þá ónothæfa. Sem betur fer er nóg til af ágætum stöðum í öllum verðflokkum, sem ekki bjóða nein jólahlaðborð, svo að enginn er skyldugur til að ögra heilsu sinni. En vissara er að hringja á undan til að fullvissa sig um, að ekki hafi í laumi verið komið upp jólahlaðborði á staðnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Holt, Sommelier, Laugaás

Veitingar

Frábært á Holti í hádeginu
Frábært er að borða hádegismat í Listasafninu á Hótel Holti við Bergstaðastræti 37. Þar má velja milli fjögurra forrétta og fjögurra aðalréta og snæða þríréttað fyrir 1900 krónur fastar. Það er notalega lágt verð fyrir aðgang að sjálfri kjölfestunni í matargerðarlist landsins. Ef menn geta komið því við, er hagkvæmast að fara út að borða í hádeginu á Holti, enda er þjónustan þá jafngóð og endranær.
Styrkur Listasafnsins er hefðbundin og bragðmild “nouvelle” matreiðsla. Upp á síðkastið hefur eldhúsið samt byrjað að daðra við hina nýju og bragðsterku “fusion” matreiðslu, væntanlega vegna samkeppni frá Sommelier við Hverfisgötu. Þetta kom fram í forréttum, parmaskinku í rjúpusúpunni og hvítlauk á hörpuskelinni, en ristaður túnfiskur og steiktur þorskur fengu að halda hinni góðu hefð.

Nýr matseðill á Sommelier
Því miður er spútnikinn við Hverfisgötu 46 ekki lengur opinn í hádeginu, svo að Listasafnið hefur á þeim tíma dags enga samkeppni á toppnum. Sommelier heldur aðeins uppi merki matargerðarmusteris á kvöldin, en nú með nýjum matseðli. Verðið á þríréttuðu er um það bil 4.900 krónur með kaffi.
Þar eru spennandi forréttir á borð við engiferlegna hámeri með mangófroðu og laxaþynnur með svörtum sesamgljáa, girnilegir aðalréttir á borð við hreindýrasteik með súkkulaði-jarðarberjasósu og þorsk í kartöflujakka. “Fusion” æsingur nútímatízkunnar nær hámarki í eftirréttinum M&M&M, sem felur í sér skyr, mysuost og marineruð hindber.

Fryst rauðspretta á Laugaási
Þrátt fyrir hækkandi verð hefur Laugaási við Laugarásveg 1 farið svo hastarlega aftur, að nú er farið að nota þar frystan fisk við matreiðslu, jafnvel rauðsprettu, sem verður sérkennilega óæt við slíka meðferð. Í endurminningunni lifir síbreytilegur matseðill níunda áratugarins með mörgum ferskum fiskréttum. En nú er hún Snorrabúð stekkur og Laugaás úr sögunni sem fiskréttastaður.
Þessa varð vart þegar fyrir ári, en þá saknaði ég þess ekki svo mjög, því að boðnir voru ýmiss konar villibráðarseðlar á hagstæðu verði. Nú hefur þessu framtaki farið aftur, því að á þessari vertíð er bara boðin heiðagæs, fremur þurr og seig, þótt hún hafi verið hæfilega rauð. Á næsta borði pantaði maður snitsel og fékk með því franskar kartöflur í stað hinna hvítu, sem áttu að fylgja. Þetta sýnir allt mikið og vaxandi kæruleysi í eldhúsi.
Eitt gott hefur gerzt á Laugaási. Dúkarnir og hinar hvimleiðu glerplötur hafa verið teknar af borðum, svo að nú sjást aftur upphaflegu borðplöturnar með jurtabrenndu múrsteinunum fallegu.

Jónas Kristjánsson

DV

Lækjarbrekka, Primavera, Tjörnin

Veitingar

Villibráð í Lækjarbrekku
Lengst af hef ég ekki verið hrifinn af matreiðslunni í Lækjarbrekku, sem hefur fengið viðskiptavini sína fremur út á staðsetningu í Bankastræti 2 og gömul húsakynni en út á tilþrif í eldhúsi. Gömul hagfræðiregla segir, að þeir, sem hafa auðlind, gerast værukærir og sofna oft í skjóli hennar.
Þetta kann að vera að breytast í Lækjarbrekku. Um daginn kom mér þægilega á óvart, hversu vel tókst til með matreiðslu villibráðar. Þrenna af hreindýraorðu, sneiddri villigæsabringu og lunda var hóflega elduð og meyr, borin fram með villisveppasósu við hæfi. Í forrétt var boðin ágæt þrenna af reyktri súlu, gröfnum skarfi og andakæfu.

Kryddflóð á Primavera
Primavera hefur löngum verið vanmetin veitingastofa með léttum nútímastíl á ítölskum matreiðsluhefðum á annarri hæð í Austurstæri 9, fyrir ofan Rex. Nýlega varð ég samt var við bilunareinkenni í þjónustu og matreiðslu. Áhugalaus ungþjónn tók ekki við kápum gesta, þótt ekkert væri að gera, og svaraði ekki augnaráði eins og þjálfaði þjónninn kunni.
Kapers er frekt í bragði og yfirgnæfði einn meyrasta og bezta smokkfisk, sem ég hef lengi fengið. Sterkkryddað brokkálsmauk yfirgnæfði hárnákvæmt eldaðan þorsk. Majoram-krydd yfirgnæfði fínlega eldaðan skarkola. Í öllum tilvikum var undirstaðan hárfín í eldamennskunni, en heildardæminu spillt með óhóflegri kryddnotkun. Ég held, að tízkufyrirbæri, svonefnd “fusion” eldamennska hafa eitthvað verið misskilin í eldhúsinu á Primavera.

Gellur við Tjörnina
Veitingahúsið Við Tjörnina hefur látið Sommelier við Hverfisgötuna um að berjast við Listasafnið á Hótel Holti um forustuna í matargerðarlist á Íslandi og lætur reka á næsta gæðaþrepi fyrir neðan. Sjaldgæft er orðið að hitta á Rúnar Marvinsson í eldhúsinu. Áður fyrr voru fjarvistir hans harmaðar, því að varaskeifurnar jöfnuðust ekki á við meistarann. Núna hefur bilið minnkað, svo að sveiflurnar í gæðum milli heimsókna eru minni en þær voru áður. Tjörnin er orðin traustari.
Um daginn fékk ég enn einu sinni einkennisrétt staðarins, kryddlegnar gellur. Þrátt fyrir Rúnarsleysi voru þær frábærar eins og þær hafa beztar verið áður. Enginn veitingastaður landsins stenzt samanburð við Tjörnina í matreiðslu á gellum.
Ég fékk líka japanskan forrétt, ágætan fisk kryddleginn og hversdagslega Maki-rúllu, sem mig grunar, að hafi komið úr verksmiðju vestur á fjörðum. Núna bjóða allir sótraftar slíkar gervirúllur og þar á ofan eru komnir til skjalanna tveir staðir, Tveir fiskar og Sticks ‘n Sushi, sem bjóða alvöru Maki-rúllur. Enn og aftur sjáum við, að bágt er að standa í stað, meðan öðrum munar götuna fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Prag

Veitingar

Vont í Prag
Fáið ykkur ekki hefðbundinn tékkneskan mat í veitingasölum á borð við Zlatá Praha eða Francouzská í Prag. Soðið kjöt með stöppuhlunkum og stífri sósu er ekki gott og þjónustan er nánast sovézk. Þjóðleg matreiðsla tékknesk gengur ekki í Vesturlandafólk.
Til að skoða júgendstíl í aldargömlu menningarhúsi borgarinnar, Obecní Dùm, er betra að beygja til vinstri í anddyrinu og fara í kaffihúsið Café Nouveau, sem er næstum eins glæsilegt listaverk og matsalurinn Francouzská.

Gott í Reykjavík
Íslendingar með heimþrá þurfa þó sízt allra að svelta í þessari fallegu borg gróinnar menningar Mið-Evrópu. Reykjavík er fjörug og góð matstofa á bezta stað við aðalgötuna milli Karlsbrúar og Gamlabæjartorgs, stofnuð og rekin af Þóri Gunnarssyni ræðismanni. Þar fengum við okkur ágætan saltfisk að hætti Katalúna og þorsk dagsins, svo og fyrirtaks Miðjarðarhafssalat, en hin fræga fiskisúpa var of þykk.
Reykjavik, Karlova 20, s. 2222 1218, 1.400 kr. ísl.

Læsilegt Pravda
Tvö ágæt og vinsæl veitingahús með stæl eru við Parizská, sem liggur norður frá Gamlabæjartorgi. Annað er silfurmálmslegið og kuldalega nútímalegt Pravda, sem býður einn forrétt, einn aðalrétt og einn eftirrétt frá hverri af fjórum miðstöðvum matargerðarlistar í heiminum, ekki þó frá útgáfuborg samnefnds dagblaðs. Ítölsk og frönsk grænmetissalöt voru góð, svo og austurlenzkt kryddaður lax. Japönsk ananassúpa var fín.
Pravda, Parizská 17, s. 232 6203, 1.600 kr. ísl.

Barock fyrirsætur
Handan götunnar er Barock í sömu eigu, hefðbundnari útlits, með stórum ljósmyndum af frægum fyrirsætum á veggjum. Þar er margvíslegur Asíumatur eldaður að smekk Vesturlandabúa. Sushi smáréttir voru fremur góðir, svo og réttir eldaðir á Wok pönnu, en beztur var grillaður matur á tréspjótum.
Barock, Parizská 24, s. 232 9221, 1.800 kr. ísl.

Perlan í Prag
Pragverjar eiga sína Perlu á efstu hæð í húsi, sem er miklu frægara en Perlan í Reykjavík. Þeir kalla það Dansandi húsið, Tacící dum, hannað af Frank Gehry og reist 1996. Perlan er eitt glæsilegasta og bezta veitingahús borgarinnar og um leið það dýrasta, þótt það slái ekki reykvísku Perlunni við á því sviði.
Perle de Prague, Rasínovo nábrezi 80, s. 2198 4160, 2.400 kr. ísl. á mann þríréttað.

Kampa Park kvöld
Þótt Tékkar eigi ekki nútímahæfa matreiðsluhefð, hafa þeir góða villibráð og geta eldað hana á vestræna vísu. Bezta villibráðin og notalegasta kvöldstemmningin var á Kampa Park á norðurenda eyjarinnar Kampa, undir Karlsbrú. Þar er hægt að borða úti við ána, þegar gott er veður, annars inni við arineld. Á þessum veizlulega stað voru andarbrjóst og steik af tvenns konar dádýrum í fínasta lagi, svo og skógarber í eftirrétt.
Kampa Park, Na Kampe 8, s. 5731 3493, 2.300 kr. ísl. á mann þríréttað.

Jónas Kristjánsson

DV

Sticks ´n Sushi

Veitingar

Japanskt stríðsöskur
Nakinn staður með stórum gluggum án tjalda, hvítu lofti og ljósum veggjum án mynda, rauðu gólfi og svörtum búnaði með hörðum setum í beinum röðum japanskrar herfylkingar. Þjónninn grýtti á okkur kveðju með japönsku stríðsöskri. Ísafoldarhúsið gamla er komið fagurlega endurgert í Aðalstræti og orðið að japönsku veitingahúsi spartverskrar naumhyggju.
Reyktur eikarilmur leyndi sér ekki og yfirgnæfði pylsufnykinn frá Ingólfstorgi, sem læddist inn með okkur. Eikarkolagrillun er ein sérgreina staðarins. Aðaltrompið er þó sushi, himinhátt að gæðum yfir verksmiðjuvörunni, sem menn kaupa í stórmörkuðum og minni háttar veitingastöðum.

Hrár fiskur
Minnisstæðast af eikargrilluðu var beikonvafinn emmenthaler ostur, kjúklingur með blaðlauk og andabringa, allt saman undurmeyrt og gott, en dökka kjötið var örlítið ofgrillað. Þyngra var að gera upp á milli alls hins góða sushi, en vinninginn höfðu laxahrogn og humar, tígrisrækja og hörpudiskur.
Matreiðslan er hér aðeins fern. Hrár fiskur á hrísgrjónaköggli heitir sushi, hrár fiskur einn út af fyrir sig sashimi, hrár fiskur og hrísgrjón í þangrúllum maki og eikargrillaður matur á tréprjónum heitir yakitori. Með matnum er svo stöðluð sojabaunasúpa, sem heitir miso, piparrótarmauk, sem heitir wasabi og loks engifer.

Japanskur kokkur
Íslenzkir þjónar eru fagmenn, sem þekkja allt út í æsar. Þolinmóðir geta þeir svarað vinsamlega ýtrustu spurningum. Í kjallaranum sá Philip Kamata í láni frá móðurskipinu við Nansensgade í Kaupmannahöfn um að eldamennskan væri eins japönsk og innréttingarnar.
Hvað gera staðarhaldarar, þegar Kamata fer utan? Getur íslenzkur matreiðslumaður haldið Sticks ‘n Sushi í sama toppgæðaflokki og hann hefur verið fyrsta mánuð ævinnar undir japanskri handleiðslu?

Gott verð
Þetta er eina alvöru Japanshúsið í veitingaflóru landsins. Einu sinni var til Samurai í Ingólfsstræti, sem fór vel af stað, en varð snemma lélegur og andaðist fyrir löngu saddur lífdaga. Fremur gott sushi hefur að undanförnu verið reitt fram á Tveimur fiskum við Geirsgötu, en stenzt þó ekki samanburð við Sticks ´n Sushi. Annað sushi hér á landi en þetta tvennt stendur ekki undir nafni.
Fimm matseðlar búa yfir tíu einingum, mismunandi blöndum af sushi og yakitori og kosta 2.300­2.500 krónur á mann. Margar tegundir af sushi, sashimi, maki og yakitori fást í stykkjatali, algengast á 290­340 krónur stykkið. Hagkvæmir eru fimmtán bitar af maki á 1.980 krónur.
Í hádeginu er boðið upp á miso, tvenns konar maki, tvenns konar sushi og tvenns konar yakitori á 1.160 krónur, fínt verð, enn ein tilraunin til að fá okkur úr mötuneytunum til að borða úti í hádeginu.
Sticks ´n Sushi
Aðalstræti 12, sími 511 4440
Opið í hádeginu og á kvöldin.

Jónas Kristjánsson

DV

Siggi Hall

Veitingar

Eðlilegt framhald af sjónvarpsfrægð kokks er, að hann flytji fyrirlestra út og suður, gefi út uppskriftabækur og stofni eigið veitingahús. Það síðasta hefur Siggi Hall einmitt gert á Óðinsvéum í Þingholtunum, þar sem aðdáendur hans geta snætt dýrasta mat í landinu, barið átrúnaðargoðið augum og hlegið að gamansögum þess.

Því settist ég með hálfum huga inn í musteri endurvinnslu frægðar, en varð að lokum feginn, því að Siggi Hall sér vel, hvar ekki er hans þörf og ónáðar ekki gesti, sem eru önnum kafnir að tala um eitthvað annað en hann. Siggi Hall er samt vel sýnilegur og virðist ekki elda neitt sjálfur, er mest í salnum og tekur tilviljanakenndan þátt í þjónustunni.

Umbúnaður veitingasalarins á Óðinsvéum hefur batnað yfir í meiri fúnkis að hætti norrænna hótela. Garðstofa og aðalsalur hafa verið tengd í bjarta heild með stórum gluggum og ljósaljósbláum veggjum og möttum glerskilrúmum. Fínt parket er á gólfinu, bakháir stólar eru þægilegir og borðföng eru stílhrein með hvítu líni. Nakinn staðurinn verður ekki notalegur, fyrr en hann er orðinn hálfsetinn og skvaldrið rennur saman í lystuga hljómkviðu um áttaleytið á kvöldin. Í hádeginu er ekki opið.

Matseðlar eru tveir, annar stuttur og óbreytilegur, með hefðbundnum réttum Sigga Hall, en hinn er nokkru lengri og sagður munu breytast eftir árstíðum. Munur seðlanna er að öðru leyti ekki mikill og báðir fara með löndum. Borðvínaseðillinn er langur og áhugaverður, en gefur aðeins eitt færi á víni í glasatali.

Gott hrásalat með meyrt elduðum hörpudiski var ekki mikið truflað af saffrani og svartsveppum í kryddinu. Enn betri voru niðursneiddir portobello-risasveppir, bakaðir með hvítlauk og basilíku og bornir fram á rúkóla-blaðsalati og ristuðu brauði, með ólífum, dvergtómötum og parma-osti.

Fín laxahrogn með grænkrydduðu laxamauki voru hressandi forréttur og sama var að segja um smábita af hráum saltfiski Esqueixada, vel útvötnuðum, með smábitum af rauðlauki, tómötum, papriku og óvenjulega sterkum ólífum, gott dæmi um, að saltfiskur er yfirleitt miklu betri með spönskum hætti en íslenzkum.

Saltfiskur var einnig góður steiktur, með brenndri skorpu og mjúkur innan, borinn fram með sérrí-legnum rúsínum á spínati og rækilega múskat-krydduðum kartöflusneiðum. Pönnusteiktur skötuselur var meyr og góður, borinn fram með mögnuðum, humarsteiktum hrísgrjónum, blönduðum spínati og papriku.

Kjötréttir reyndust vera veikasta hlið veitingastaðarins. Andabringur með sykurbrenndri skorpu voru fremur mikið eldaðar og ómerkilegar, bornar fram með afar hefðbundnum kartöfluklatta og ræmum af sveppum og gulrótum, en allt þetta drukknaði í feiknarlegu magni af ágætri shiitake-sveppasósu. Gífurlegt magn hlutlausrar sósu drekkti líka blóðbergskrydduðum og fremur mikið elduðum lambarifjum að hætti Sigga Hall.

Eftirréttir voru ekki minnisstæðir, bezt var ekta Crème Brûlèe og lökust var einföld sítrónuterta, en súkkulaðifroða með skornum jarðarberjum og vatnsdeigsbollur með ís og heitri súkkulaðisósu voru þar á milli. Kaffi var gott.

Siggi Hall á Óðinsvéum er með betri veitingahúsum landsins, í flokki með stöðum, sem selja þríréttað með kaffi á 4.000 krónur. Hér kostar slíkt hins vegar 5.100 krónur, svo að menn borga þúsund kall fyrir aðgang að endurvinnslu sjónvarpsfrægðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sommelier

Veitingar

Hinn torfundni Sommelier við Hverfisgötu 46 (sími 511 4455) hefur strax í upphafi ferils skotizt upp á tind íslenzkrar matargerðarlistar. Metnaðarfullur staðurinn sameinar þrennt í senn, einn allra bezta matinn, mest úrval góðs borðvíns og lærðustu ráðgjöf af hálfu starfsliðs. Það er unun að koma hér, — aftur og aftur.
Stjórnandi og sál Sommeliers er Haraldur Halldórsson, sem áður var veitingastjóri Holts með glæsibrag. Yfirvínþjónn er Þorleifur Sigurbjörnsson, sem deilir yfirgripsmikilli vínþekkingu og faglegum metnaði með Haraldi. Hundruð borðvína eru á boðstólum, þar af nokkrir tugir í glasatali, enda býður staðurinn glas af nýju borðvíni með hverjum rétti.

Til hliðar við veitingasalinn er hitastillt vínsmökkunarstofa að baki glerveggja, þar sem þúsundir vínflaskna eru geymdar. Þar er boðið upp á vínsmökkun við ákjósanlegar aðstæður. Gestir standa við hringborð og spýta í dall í miðju borði, meðan þeir læra sérkennilegan og sumpart ýktan orðaforða listgreinarinnar.

Í eldhúsinu býður Alfreð Ómar Alfreðsson einu metnaðarfullu tilraunina hér á landi til svonefndrar “fusion” eldamennsku, sem fellst einkum í að byggja á nýfrönskum grunni og bæta við hann austurlenzku kryddi. Þetta er ævintýraleg og vandasöm matreiðsla, sem tekst furðanlega oft á Sommelier.

Ég kynntist fyrst “fusion”, sem kalla mætti hefðabræðslu, fyrir áratug hjá Juan Arzak í San Sebastian í Baskalandi, þegar hann bauð mér saltfisk með súkkulaðisósu, ótrúlega, en vel heppnaða blöndu. Rúnar Marvinsson við Tjörnina fór um svipað leyti að gæla við þessa stefnu með því að spinna saman íslenzkar og japanskar hefðir með sushi og soja.

Franskur grunnur þessarar matreiðslu byggist á eðlisbragði hráefnisins, sem er svo fínlegt, að það þolir ekki sterku kryddin að austan, nema varlega sé farið. Þetta fann ég um daginn á Aujourdhui í Boston, sem bauð kryddlegið rauðkál með dádýrasteik. Alfreð tókst hins vegar í tvígang að galdra jarðarber með balsam-ediki og tequila-sósu, sem því miður voru ekki lengur á matseðlinum um síðustu helgi.

Á Sommelier fékk ég hörpuskel með karamellusósu í forrétt og nautarifjasteik með lakkrísgljáa í aðalrétt, hvort tveggja vel heppnaðar blöndur. Fremur seigt nautakjöt minnti mig hins vegar á augljósa hættuna við að víkja frá hinni róttæku áherzlu nýfranska stílsins á hráefnið sjálft, gæði þess og eðlisbragð. Karamellusósan og lakkrísgljáinn minntu mig á hættuna á, að heildarbragðið slái yfir í sætt.

Hráar þunnsneiðar, fyrst af laxi og síðan af túnfiski, voru góðar, í bæði skiptin með pipargljáa, í fyrra skiptið chili-pipar og í síðara skiptið jalapeno-pipar. Kókossúpa með sítrónugrasi og mintu var frábær og enn betri var hún með kjúklingabitum, sítrónum og saffran. Frábær var reyktur skötuselur með ítölsku salati og mangómauki, svo og djúpsteiktir laxaturnar.

Saltfiskur var í tvígang tæpast nógu vel útvatnaður, í fyrra skiptið með gnægð af olífum og í síðara skiptið með pepperoni-kryddpylsu. Ég fæ betri saltfisk annars staðar. Annar fiskur var mjög góður, næmt pönnusteiktur þorskur, borinn fram í tærri súpu, og eins næmt grillaður steinbítur með þara.

Lambahryggvöðvi með epla- og rúsínublönduðu kúskus og lambasoði var frábær og skemmtilega fram borinn á tvenns konar hátt fyrir tvo matargesti. Kjúklingur með byggblönduðum og olíusteiktum hrísgrjónum var þéttur og meyr og hæfilega bragðmildur.

Eftirréttir voru góðir, frískleg lime-terta með hindberjasósu, ítölsk ostaterta með berjasultu, svo og súkkulaðifrauð með mangóteningum. Kaffi var óvenjulega gott, borið fram í kaffibrúsum með stæl.

Ætla mætti af framansögðu, að Sommelier væri með dýrustu stöðum landsins. Svo er alls ekki. Þríréttað með kaffi kostar um 3.700 krónur á mann á kvöldin og tvíréttað með kaffi 1.600 krónur í hádeginu, hvort tveggja fyrir utan vín. Þetta er hreint gjafvirði fyrir gæðin, sem eru á boðstólum og getur varla haldizt lengi.

Salarkynni eru sérhönnuð og látlaus, en fremur hljóðbær, sem var einkum til baga, þegar skallabulla með tveggja tíma vindil og bjórglas blaðraði hvað eftir annað í farsíma um Oz. Slíkir fiskar á þurru landi eru betur settir á Apótekinu og eiga ekki erindi hingað, þeirra sjálfra vegna og okkar hinna.

Ekkert reyklaust svæði er þarna, þótt lög mæli svo fyrir, og dregur það úr möguleikum allra viðstaddra til að njóta matarilmsins, því að furðu margir reykja þindarlaust undir borðum. Fyrr eða síðar verður Sommelier að ákveða, hvers konar viðskiptivini hann vill.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrír frakkar

Veitingar

Sjávarútvegs- og verktakadeildir landssambands gemsaþræla hlæja hrossahlátri í hádeginu á Þremur frökkum, meðan ímyndardeildir sambandsins hvíslast á í Apótekinu. Hljómkviða gemsanna rennur saman við masið og drukknar í þröngum húsakynnum Þriggja frakka, þar sem hvert sæti er skipað. Á kvöldin er líka fullt, en þá er að mestu slökkt á gemsunum.

Húsakynnin eru franskt bistró, miðlægur bar, hliðarskonsur og litsterkir borðdúkar. Verðið í hádeginu er franskt bistró, 99,99 frankar. Stemningin er franskt bistró, þröng og glaðleg. Maturinn er fiskur og aftur fiskur með ívafi af hval og nauti, hráefnið ferskt og fjölbreytt og matreiðslan í góðu jafnvægi. Naut og hvalkjöt fást raunar tæpast betri annars staðar hér á landi.

Á Þremur frökkum fæst daglega allur fiskur nema ýsa. Oft fæst eitthvað óvenjulegt, svo sem makríll, kolmunni eða guðlax. Yfirleitt eru um átta nýir fiskréttir á boðstólum, t.d. þorskur, steinbítur, rauðspretta, lúða, skötuselur, tindabikkja, gellur og saltfiskur, sem hvergi er betri en hér, að ógleymdum plokkara með rúgbrauði, sem er hreint afbragð. Ostbökun er óþarflega mikið notuð, en þykk ostarjómasósa er sem betur fer heldur minna notuð en áður.

Svo oft hef ég komið hér, að ég er fyrir löngu orðinn leiður á tæru grænmetissúpunni, þótt hún sé hátt hafin yfir kremsúpur annarra íslenzkra veitingastaða. Tilbreyting væri í einföldu hrásalati eða sneið af kryddaðri fiskikæfu sem forrétti dagsins. Framþróun hefur skyndilega orðið í eftirréttum staðarins, því að nú fæst notalega létt og volg frönsk súkkulaðiterta og létt og fín ísterta, sem eru miklu betri en hversdagslegir fyrri eftirréttir staðarins.

Raunar er allur matur góður á Þremur frökkum, jafnvel kaffið, sem borið er fram með súkkulaðidropum staðarins. Meira máli skiptir, að matreiðslan er nánast alltaf eins, svo að hægt er að treysta henni. Úlfar Eysteinsson hefur fundið manneskjulega formúlu fyrir veitingastað og hefur úthald til að halda henni uppi ár eftir ár eftir ár. Þrátt fyrir ágæta nýjung og oft vandaðri matreiðslu í Tveimur fiskum Hafnarbúða eru Þrír frakkar ennþá Hið íslenzka fiskhús, þangað sem maður freistast til að fara með erlenda gesti.

Þjónustan er glaðleg og hlýleg og hugsar vel um gesti. Við pöntun er spurt um reyk eða reyklaust, einn fárra staða, sem hefur frumkvæði að slíku. Tvíréttað með kaffi kostar 1070 krónur í hádeginu og þríréttað með kaffi kostar 3500 krónur á kvöldin, hvort tveggja hóflegt á hérlendum mælikvarða. Þrír frakkar eru traustur klettur í ólgusjó og vaxandi sýndarveruleika íslenzkrar veitingamennsku.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveir fiskar

Veitingar

Loksins er kominn til skjalanna veitingastaður, sem hefur eitthvað fram að færa til viðbótar því, sem fyrir er. Tveir fiskar í Hafnarbúðum er vandaður sjávarréttastaður með ágætum hráfiski að japönskum hætti, yfirlætislaus og siðmenntaður, ólíkur flestum matstofum, sem opnaðar hafa verið undanfarna mánuði.

Að vísu eru Tveir fiskar mjög dýrir. Þríréttuð máltíð með kaffi kostar að meðaltali 2890 krónur í hádeginu og 4340 krónur á kvöldin. Stundum er í boði fast verð á matseðli með vali milli einstakra rétta og þá hefur þríréttað með kaffi kostað 2100 krónur í hádeginu og á kvöldin, sem er frábært verð. Eina leiðin til að vita, hvenær háa verðið gildir og hvenær frábæra verðið, er að spyrja áður í síma 511 3474 og haga seglum eftir því.

Hafnarbúðir eru upphaflega illa hannaðar, svo að útsýnið er ekki út á höfnina til smábátanna, heldur austur eftir Geirsgötu til Arnarshóls. Anddyrið er fremur tómlegt, en innrétting veitingasalarins sjálfs er hins vegar góð. Þar ræður að mestu ríkjum japönsk naumhyggja, berir veggir, með brúnni leirflísarönd sjávaraflamynda á aðra hönd og bláum postulínsflísum á hina. Framan við bláu flísarnar sker í augu sushi-skenkur úr massífum og grófum burðarviðum.

Við skenkinn stendur kínversk matmóðir með þjálfuðu handbragði og býr til marga tugi tegunda af japönskum hráfiski, sushi-hrísgrjónaklatta, maki-hrísgrjónarúllur og sahsimi án hrísgrjóna. Þessi matreiðsla á staðnum ber eins og gull af eiri af verksmiðjuframleiddu sushi, sem borið er fram á flestum nýju veitingastöðunum. Hún er raunar merkasta framlagið til menningarárs Reykjavíkur, sem ég veit um.

Fimm stykki af hráfiski eru í forrétti og tíu í aðalrétti. Það geta verið sex hrísgrjónaklattar með smálúðu, karfa, hörpuskel, túnfiski, humri og lax og fjórar hrísgrjónarúllur með surimi, túnfiski, ál og osti. Ekki eru síðri kaup í sérpöntuðum hráfiski, svo sem hrísgrjónaklöttum með ölduskel og ál og hrísgrjónarúllum með loðnuhrognum og krabbakjöti.

Fiskur hefur undantekningarlaust verið nákvæmlega og nærfærnislega eldaður að nýfrönskum hætti með höfuðáherzlu á eðlisbragð hráefnisins. Þar á meðal var pönnusteikt tindabikkja með rauðvínssósu, afar góðum olífum og grilluðum kartöfluþráðum. Ennfremur grilluð keila með fínasta mauki seljustöngla og epla og með balsamik-olíusósu. Einnig smjörsteiktur karfi með soðsósu og sprengdu hveiti. Ekki sízt ofnbakaður þorskur með smjörsteiktum grænmetisþráðum, kúskus og smásöxuðum og ristuðum og mikið pipruðum eplum.

Forréttir voru til fyrirmyndar. Frábær var frönsk fiskisúpa tær með mörgum tegundum fisks í þunnum sneiðum, svo og kræklingi í skelinni. Litlu síðri var tær graskersúpa, óvenjulegur réttur. Ennfremur hráar túnfiskþynnur með balsamik-olíusósu, laxahrognum, blaðsalati og furuhnetum. Næstum eins góð var risahörpuskel á tómatgrunni með steiktum eggaldinþynnum. Indæll var kryddleginn og léttsteiktur svartfugl með soja og sætri og fínni rauðrófusósu. Mögnuð og ilmrík voru steikt hrísgrjón með villisveppum og risarækjum.

Eina feilnótan í matreiðslunni var seig andabringa krydduð með engifer og sesam, of lengi elduð, borin fram með rófubitum. Sítrónuterta var einföld og létt, borin fram með þrenns konar ferskum berjum. Kaffi var gott, bæði espresso og pressukaffi.

Hér er drifhvítt í dúkum og þurrkum. Hér er borðbúnaður hvorki ferkantaður né marglitur, heldur einlitur og siðmenntaður. Hér er fjölbreyttur og fínn vínlisti, með ýmsu góðu víni hússins. Hér er þjónusta fagleg og vinsamleg, stundum seinleg, þegar mikið er að gera. Hér koma vatn og volgar brauðkollur á borð eftir þörfum. Þetta er menningarauki.

Jónas Kristjánsson

DV

Café Bleu

Veitingar

Café Bleu felur í sér hvert rýmið á fætur öðru í U utan um nokkra skyndibitastaði á veitingasvæði Kringlunnar. Inngangurinn er um annan endann á u-inu, þar sem er kaffiborða- og tágastólasvæði með útsýni yfir neðri hæðina. Í hinum endanum á u-inu er stórt og dimmt glerbúr, eins konar reyksalur með mörgum litlum borðum. Milli endanna er reyklaust svæði, vinkillaga rangali með föstum básum. Hver stíllinn tekur við af öðrum, ef stíl skyldi kalla.

Þjónusta er vakandi og jákvæð og bætir upp losarabrag hönnunarinnar. Vel er séð fyrir nógu vatni og meiru af góðu kryddbrauði, án þess að beðið sé um það. Með brauðinu fylgir ágætis kryddolía í stað smjörs, til heilsusamlegrar fyrirmyndar. Lúxus er lítill, engir dúkar á borðum og munnþurrkur úr pappír. Staðurinn er oft fullsetinn í hádeginu.

Café Bleu er ódýrastur af hefðbundnum matstöðum fullrar þjónustu á þessu svæði. Þríréttað með kaffi á kvöldin kostar þar 3.200 krónur, 3.600 í Hard Rock og 4.100 í Eldhúsinu. Í hádeginu er tilboð dagsins 790 krónur án súpu í Café Bleu, en 950 krónur með súpu í Hard Rock og Eldhúsinu.

Matseðillinn er tilraun til að geðjast sem flestum, blendingur þekktra rétta úr ýmsum áttum, sitt lítið frá Indlandi og Kína, Thailandi og Japan, Rússlandi og Norður-Afríku, en mest frá Ítalíu og Frakklandi, svo og franskar og bökuð frá Ameríku og kremsúpa frá Íslandi. Espresso-kaffi er ekta og danskt kaffi gott, en vondur er langi saltbrauðsstauturinn, er fylgir nánast öllum réttum sem einkennistákn staðarins.

Tærar súpur dagsins voru ágætar, mild gulrótarsúpa og hæfilega sterk tómat- og blaðlaukssúpa. Kremsúpa dagsins var blessunarlega þunn sem slík, mild og notaleg tómatfiskisúpa án sterka humarskeljabragðsins, sem víða er keyrt upp í veitingahúsum hér á landi.

Sushi er svipað og víðast annars staðar í bænum, líklega úr fabrikku úti á landi, í algerri þversögn við hugmyndafræði þessarar matreiðslu í Japan. Pönnusteikt og bragðdauf rispahörpuskel var losaraleg og virtist vera úr surimi-fabrikku, borin fram með fallegu salati og litskrúðugum sósum.

Ágæt voru grilluð eggaldin með kúskus, hrásalati, ostbökuðum tómati og sesamkryddaðri olíu. Eldislax var góður matur, hæfilega grillaður, brenndur utan og mjúkur að innan. Í annað skiptið lá hann undir ofsöltuðum, djúpsteiktum kartöfluþráðum og ofan á sveppasteiktum hrísgrjónum og þurrkuðum tómötum. Í hitt skiptið var engifer stungið í rifur í roðinu og laxinn borinn fram með mildu súrkáli og maukuðum seljustönglum, fyrirmyndar réttur.

Lakari var lúðan, sem var þurr og bragðdauf, greinilega úr frysti, borin fram með parma-osti, sólþurrkuðum tómötum, jóðlandi í olífuolíu og maukuðu spínati. Sinnepsgljáðar grísalundir voru líka of þurrar og bragðdaufar, bornar fram með eins konar káljafningi í sýrðum rjóma. Bezti kjötrétturinn var óvenjulega bragðsterkur, indverskur tandoori-kryddaður kjúklingur, afar meyr og safaríkur, með fullsaltri skorpu, borinn fram með smásöxuðu og pönnusteiktu grænmeti.

Matreiðslan á Café Bleu var aldrei vond og stundum nokkuð góð. Þar er hver stíllinn á fætur öðrum eins og í innréttingunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Eldhúsið

Veitingar

Fegnastur varð ég, þegar Eldhúsið gleymdi mér og tók ekki niður matarpöntun. Eftir hóflega bið hafði ég löglega afsökun fyrir því að standa upp og rölta niður rúllustigann til Hard Rock Café og fá mér almennilega að borða á lægra verði.

Eldhúsið er mötuneyti og steikhús, en fyrst og fremst vönduð pakkning án markverðs innihalds. Umbúðirnar eru rustalega smart og minna á leikhús. Skilrúm eru úr frauðplasti, útveggir eru úr gleri með árituðum spakmælum. Opið er inn í eldhús og lagnakerfið er ekki falið með fölsku lofti. Á palli yfir miðjum sal er annexía með setustofu.

Við erum sett til borðs á tréstóla með sessum við tréplötur á steypujárnsfæti og fáum matseðil, sem ekki er síður töff en hönnun staðarins. Þar eru endalausir listar rétta og verðlagið er uppi í skýjunum. Meðalverð þríréttaðrar máltíðar með kaffi er 4.100 krónur á mann.

Í hádeginu er mikil og alþýðleg aðsókn og reyklausi hlutinn jafnan fullsetinn. Þá virðast flestir gestir önnum kafnir og skófla markvisst í sig af hlaðborði á 950 krónur með súpu, sem gerir 1.150 krónur með kaffi. Á hlaðborðinu reyndist vera lítt girnileg mötuneytisfæða, sitt lítið af salatefnum í litlum skálum og nokkrir heitir réttir í hitakössum, svo og ágætlega þunn sveppasúpa, sem bar af öðrum réttum hlaðborðsins. Heitu réttirnir voru brúnaðar risakartöflur, ólystugar svínakótilettur, dauft kryddaður pottréttur og hörpufisk-tómatsósu-pasta, sem ekki var árennilegt.

Þeir fáu, sem koma á kvöldin, eru skuggalegri og fá sér fremur hamborgara eða langlokur á heilar 1.200 krónur en einhvern réttanna af langa seðlinum. Spönsk bruschetta reyndist vera langskorið snittubrauð með tómabitum, osti og feiknamiklu af olífum, sem yfirgnæfðu í bragði. Sashimi var betri forréttur, fjórar tegundir af ferskum og hráum fiski á hrísgrjónakúlum. Beztur var djúpsteiktur smokkfiskur, ágætlega meyr og fagurt upp settur, með sinneps- og hvítlaukssósu.

Aðalréttir voru lakari. Bakaður saltfiskur bragðdaufur var borinn fram í djúpri pönnu, mest tómatbitar, dálítið af þistilhjörtusneiðum og bræddum osti, en minnst af fiski. Hunangssteinbítur var mun betri, ágætlega meyr, eldaður upp á japönsku með engifer fremur en hunangi. Kolagrilluð keila með yfirgnæfandi tómatsósu var sjálf ágæt, en borin fram með upphitaðri kartöflu og brenndum grænmetisræmum. Hunangssteiktur kjúklingur var afar þurr, enda þarf víst nú orðið að elda af nokkurri grimmd úr honum kamfýluna.

Flest var sparað til að tryggja, að kúnninn fengi ekki of mikið fyrir háa verðið. Kotroskinn gutti í móttökunni var úti að aka, þjónusta ólærð og munnþurrkur úr pappír. Þetta er mötuneyti í hádeginu og á kvöldin tómatsósu-steikhús, sem dreifir um sig olífum, en tekst ekki að minna á Miðjarðarhafið. Eldhúsið í Kringlunni er dæmigerður sýndarveruleiki nýrrar aldar, sóun á fjármunum viðskiptamanna og hlýtur því að dafna vel.

Jónas Kristjánsson

DV