Veitingar

Laugaás

Veitingar

Eftir dýfuna fyrir ári hefur Laugaás tekið sér tak og eldað betur í vetur en nokkru sinni fyrr, að vísu á mun hærra verði. Hann hefur skilið við verðlagsbotninn og er kominn í flokk með Pottinum og pönnunni, Tilverunni, Jómfrúnni og Kínahúsinu. Þríréttuð máltíð með kaffi hefur hækkað úr 1.500 krónum í hittifyrra í 1.800 krónur í fyrra og núna í 2.200 krónur. En góðærið hefur náð til viðskiptavinanna, sem sækja staðinn eins ótrauðir og áður.

Matreiðslan hefur snarbatnað. Ánægjulegastir eru þriggja rétta tilboðsseðlar, sem náðu hámarki fyrir jólin, þegar velja mátti milli villigæsar, langvíu, sels, nautasteikur og lúðu á 2.000 krónur, rjúpu á 2.300 og hreindýrs á 2.500 krónur, allt með súpu og eftirrétti. Undanfarið hafa tilboðin verið hversdagslegri og ódýrari, en í öllum tilvikum með hagstæðum hlutföllum verðs og gæða.

Á tímabili var súpa dagsins meira að segja stundum tær grænmetissúpa, en ekki uppbökuð hveitisúpa. Þær hafa þó reynzt vera of mikill klassi fyrir viðskiptavinina, svo að þykku súpurnar eru komnar aftur, lífseigasti minnisvarði hinna myrku áratuga í íslenzkri matargerð. Meðal góðra grænmetissúpna voru sterk tómatsúpa og tómat- og paprikusúpa.

Laugaás er því miður hættur að vera fiskréttastaður með fjölbreyttu tilboði dagsins. Réttir dagsins hafa að undanförnu aðeins verið þrír hverju sinni, tveir fiskréttir og einn pastaréttur, sem kosta hver 1.090 krónur með súpu og rifnu hrásalati. Val á milli steinbíts og rauðsprettu dagsins er harla lítilfjörlegt í landi, þar sem fiskbúðir eru fullar af fjölbreyttum tegundum.

Pönnusteiktur steinbítur með pastaræmum og tómatsmjöri var hæfilega eldaður. Ostbökuð rauðsprettuflök með rækjum og grænmeti voru líka hæfileg. Kjúklingur með skrúfupasta var hins vegar í þurrara lagi og hvítlaukssósa í mildara lagi, ekki merkilegur réttur.

Villigæsakjöt var rautt, meyrt og vel úti látið, með eplabitum í þeyttum rjóma, einhver bezta gæsasteik, sem ég hef fengið hér á landi. Nautalund var líka meyr og fín, mikið pipruð, með mildri rauðvínssósu og ýmist fersku eða léttsteiktu grænmæti. Langvía og önd hafa ekki heldur brugðist mér. Enginn kjötrétta Laugaáss í vetur hefur verið lakari en þeir, sem hafa fengizt á dýrustu matstöðum landsins.

Eftirréttir dagsins eru yfirleitt léttir búðingar með ferskum berjum og fagurlitum ávaxtasósum. Venjulegt kaffi er gott.

Háværar glerplötur á borðum eru sorgleg afturför frá harðplasti með innfelldum múrsteinum, sem voru í gamla daga. Að öðru leyti hefur Laugaás verið sjálfum sér líkur í tvo áratugi.

Jónas Kristjánsson

DV

Apótekið

Veitingar

Þótt matarverð í Apótekinu á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis sé í hæsta flokki, tímir staðurinn ekki að veita gestum faglega þjónustu, heldur ræður fálmkennt fólk af leiklistarskólum og líkamsræktarstöðvum til að pósera með stælum í Armaní-fötum á strigaskóm.

Hér þýðir ekki að biðja um reyklaust borð, því að ekki er tekið mark á lögum og reglugerðum, “það þýðir lítið”. Þú ert settur niður við borð, þar sem hvolft hefur verið úr öskubakkanum og hann skilinn eftir óþveginn á eikarborðplötunni handa næsta gesti.

Staðurinn er vel hannaður og hæfir húsakynnum. Eftir miðju salarins er lágt skilrúm með sófum á báða bóga, litlum borðum og stólum á móti, en við háa glugga eru stærri borð með hefðbundnu sniði. Hátt og hvítt er til lofts og veggja og gott skyggni um stóra glugga til eldhúss og vínskápa.

Þetta er fín stæling á hönnun Conrans á Mezzo við Wardour Street í London, enda er gestagangur mikill. Það er stemning og samfelldur kliður, sem skapar Apótekið, ungir og líflegir gestir af auglýsingastofum og markaðsdeildum, sem tala mikið í gemsa við borðin og hafa lítið vit á mat, en geta slegið um sig með tilvísunum í innantómt slagorð “fusion”-matreiðslu.

Hér kostar 4.200 krónur á mann að borða þríréttað með kaffi á kvöldin, áður en kemur að víni. Þetta er verðlag, sem markaðurinn virðist bera, þótt betri staðir bíði hálftómir eftir gestum. Hagstæðari matseðill er í hádegi og fram til kl. 18:30, þegar hægt er að borða þríréttað með kaffi fyrir 2.210 krónur og tvíréttað með kaffi fyrir 1.810 krónur. Vínlistinn er ágætur og hóflega verðlagður.

Matseðillinn er hvorki spennandi né markviss. Þar er sitt lítið af hverju, frá japönsku sushi yfir í lambahrygg með kantarellu-sveppum og beikon-kartöflum, en heildarsvipurinn er óljós og þemað ekki neitt. Helzti kostur matreiðslunnar er nærfærni í eldunartíma, sem skiptir raunar mestu, en kryddnotkun er stundum kjarklítil.

Góður forréttur var ítalskt blaðsalat með grilluðu grænmeti, paprikusósu og hummus-klatta, vöfðum í salatblöð. Einnig þunnsneidd hörpuskel, nánast hrá, afar meyr og bragðfín með bragðlausum graslauk og djúpsteiktum tómati í deigi. Ennfremur Capri-salat með nokkrum lögum þunnra sneiða af tómati, mozzarella og rochet-salati. Lakari var bragðsterk sjávarréttasúpa með reyktri ýsu, kræklingi og grænmetisþráðum.

Sushi og sashimi staðarins var verksmiðjulegt, gervikrabbi úr surimi, fjórar fisktegundir á hrísgrjónabollum, bragðsterkar og bragðvondar kryddpylsur í hrísgrjónarúllu, allt framleitt löngu fyrir framreiðslu. Lambahryggurinn skartaði rifjum út í loftið og glæsilegum beikonfána og bjó yfir rósrauðu og ágætlega meyru, en bragðdaufu kjöti, sem hvarf í skugga sósu með beikonbragði og bakaðs klatta úr kartöflum og beikoni.

Kartöfluklattar eru vinsælir í eldhúsinu. Blandaður spínati var slíkur klatti undir hæfilega eldaðri en ekki nógu ferskri rauðsprettu steiktri, með miklu af perlulauk og dálitlu af ætiþistlum. Harður kartöfluklatti, var undir graskersmauki, sem fylgdi rósrauðri og seigri andabringu. Betri aðalréttur var afar næmt grillaður lax, með brenndri skorpu og meyr að innan, í för með bragðdaufum þráðum af pasta og grænmeti og svokallaðri austurlenzkri kryddsósu bragðdaufri.

Ýmis ber með múskat-krapís voru borin fram í hafsjó af jarðarberja-dósasafa. Sérstaklega smart voru þrjár tegundir af crème brûlée skorpubúðingi og plómumauk í fjórum litlum skálum. Svokallað espresso-kaffi var bragðdauft, en venjulegt kaffi var nothæft.

Apótekið er einkum fyrsta flokks hönnun og markaðssetning, ímynd og umbúðir fremur en innihald.

Jónas Kristjánsson

DV

Laugaás

Veitingar

Sögufrægur Laugaás er farinn að éta viðskiptavildina. Matreiðslu hefur hrakað og verð hækkað um 23% frá sama tíma í fyrra. Nú kostar 1600 krónur að borða í stað 1300 króna áður. Samt flykkist leiðitamt fólk á staðinn.

Matseðillinn dofnaði í vetur og hefur verið óbreyttur síðan í marz. Villibráð og saltfiskur eru horfin, fiskréttum hefur fækkað, en kjöti og pöstum fjölgað. Kokkarnir fyrirverða sig og eru hættir að bera sjálfir fram aðalrétti. Þjónusta lætur fólk komast upp með að reykja í reyklausa hlutanum og á sumpart erfitt með að muna, hvað fólk hefur pantað.

Tvennt hefur batnað. Vínlistinn er lengri og hveitigrautur víkur stundum fyrir tærri grænmetissúpu sem súpa dagsins. Hins vegar hefur hveitigrautur magnazt svo í sumum sósum, að þær hníga varla undir skáninni. Komið hefur fyrir, að skammtar séu þriðjungi minni að magni en áður var. Eldunartímar hafa lengzt, einkum á fiski, kjúklingi og grænmeti. Og ýsan var í eitt skiptið ekki ný.

Glerplötur á borðdúkum undirstrika, að Laugaás er ekki lengur hefðbundin bistró að evrópskum hætti, heldur nýmóðins aðferð við að hagræða í atvinnulífinu. Staðurinn er nú kallaður: “Café Restaurant” til að minna á horfna daga.

Þrátt fyrir verðhækkunina heldur hann fjórum blómum, því að enn er hann tiltölulega ódýr.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjö rósir

Veitingar

Í hrásalati matreiðslumannsins fékk ég hörpudisk, sem konan á næsta borði fékk ekki. Ég fékk fulla skál af konfekti með kaffinu, en enginn annar matargesta. Mannamunur er fremur gróf og vonlítil aðferð við að svindla á prófi, enda gat hún ekki dulið tilfinningasnauða matargerð í eldhúsi Sjö Rósa á Grand Hóteli Reykjavík.

Svokölluð tortilla-skál var óraveg frá réttnefni, reyndist vera úr smjördeigi, með fallegu salati og þremur stórum rækjum í of miklum djúpsteikingarhjúpi. Súpa Bonne Femme var mestmegnis rjómi, á samkvæmt formúlunni að búa yfir kartöflum og blaðlauk, en reyndist fela í sér skinku, kjúklingabita og sveppi.

Betra var salat matreiðslumannsins, fallega grænt, en þó með of gömlu jöklasalati og síðan hörpudiski fyrir útvalda. Bezti forrétturinn var reyktur lax í fínlegum smjördeigsvöfflum og viðeigandi graslaukssósu, en ekki fannst kavíarinn, sem átti samkvæmt matseðli að fylgja.

Fiskur var ekki sterka hliðin á eldhúsi Sjö Rósa. Ofsoðinn barri í eigin soði var of þurr. Gufusoðinn steinbítur var einnig ofeldaður og þurr, enda liðu 45 mínútur frá því að hann var pantaður og þangað til hann kom á borð, borinn fram með mauksoðinni kartöflu, kryddlegnu salati í turnformi og grænmetisfroðu, sem var það eina góða við réttinn. Ofnbakaður saltfiskur var hins vegar ágætur, vel útvatnaður, borinn fram með tómatblönduðu grænmetismauki, ekta ratatouille.

Kjúklingarúllur voru þurrar, fylltar paprikumauki, með steiktum grænmetisþráðum, fallega útskorinni kartöflu, hæfilega steiktum sveppum og sítrónusósu með skán. Lambalundir voru lítillega ofgrillaðar og ekki farnar að þorna mikið, með þungri hveitisósu, bakaðri kartöflu og sólþurrkuðum tómötum.

Svokölluð Pina Colada terta reyndist vera ískarfa með þremur tegundum af ís, öllum eins á bragðið. Mjúkir súkkulaðidropar reyndust vera eins konar búðingur með mangósósu. Leynivopn matsveinsins í eftirréttum reyndust vera tveir búðingar í smábitum á diski. Kaffi var úr sjálfvirkri hnappavél.

Sjö Rósir eru í anddyri Grand Hótels Reykjavík, stúkuð af með lausum og lágum skilrúmum, svo og fölsku lofti með jöðrum salarins. Þyngdarpunktur staðarins er arinn, sem hangir úr loftinu og brennir afgöngum úr öskubökkum, sem gefa gamalkunna lykt. Parkett er á gólfi, hvítir dúkar og ekta blóm á borðum, snotur borðbúnaður og blá vatnsglös, sem virðast í tízku á veitingastöðum. Bólstraðir armstólar eru furðanlega lítið þægilegir. Þjónustan er skólagengin og kann sitt fag.

Stuttur matseðill með vali tveggja rétta kostar 1420 krónur í hádeginu og með vali þriggja rétta 2980 krónur á kvöldin. Af fastaseðli kostar þríréttað með kaffi 3400 krónur. Staðurinn virtist einkum sóttur af hótelgestum á kvöldin og í hádeginu af fólki, sem sækir fundi eða ráðstefnur. Fólk kemur ekki utan úr bæ til að borða hér og það er rétt hjá því.

Jónas Kristjánsson

DV

Lónið

Veitingar

Stéttaskipting Lónsins á Loftleiðum felst í, að íslenzkt kaupsýslufólk flykkist í vont hlaðborð fyrir 1395 krónur í hádeginu og á kvöldin tínast inn nokkrir hótelgestir, sem ekki þora í bæinn, og fá sér af góðu hlaðborði fyrir 2300 krónur. Þetta var sama hlaðborðið, vel vaktað og áfyllt um kvöldið, en látið eiga sig og verða ólystugt í hádeginu.

Uppbökuð og seigfljótandi spergilsúpa að séríslenzkum forneskjuhætti var súpa dagsins í öll fjögur skiptin, sem ég heimsótti staðinn, einkennisréttur staðarins, með tveggja sólarhringa gömlu brauði af ýmsu tagi og álpökkuðu smjöri. Sennilega er skipt um súpu mánaðarlega og brauð vikulega.

Þótt ekkert minni á bistró, heitir þetta Lónið Bistró. Notalegur hótelsalur er tilviljanlega innréttaður í mildum litum í afgangsplássi milli anddyris og Blómasalar, með mildri lýsingu og útsýni um stóra glugga út á þéttskipað bílastæði. Pappírsþurrkur og kerti eru á borðum og um helmingur borðanna óuppbúinn, rétt eins og verið sé að flytja.

Þjónusta var skóluð og góð, sumpart svo alþjóðleg, að hún skildi ekki íslenzku, enda fremur ætluð hótelgestum en fólki innan úr bæ.

Kryddleginn hörpufiskur var meyr og góður að kvöldi, en skorpinn og seigur í hádeginu. Tómatsalötin þrjú gljáðu af ferskleika að kvöldi, en láku niður í hádeginu, sennilega olíuhrist snemma morguns. Síld var góð, kryddlegnar rækjur, lax og graflax. Ýmiss konar fiskur í hlaupi var frambærilegur, en kaldur nautavöðvi óvenju seigur.

Heitir réttir voru sumir frambærilegir að kvöldi og pönnusteiktur þorskur beinlínis góður, enda nýkominn fram. En grátt og seigt var lambakjöt, sem sneitt var niður fyrir gesti eftir pöntun, og þar að auki svo illa vaktað í hádeginu, að gestir urðu að banka í borðið til að vekja á sér athygli. Í hádeginu voru heitir réttir yfirleitt illskilgreinanlegir og óásjálegir.

Eftirréttir voru einkum ísar og búðingar, svo og tvær tertur og blandað salat ferskra ávaxta, sem fólst einkum í melónubitum.

Af matseðli kostar um 3.100 krónur að snæða þríréttað með kaffi, frambærilegra en hlaðborðið, en jóðlandi í smjöri eða olíu að íslenzkum hætti. Ég þurfti að fá sérstaka skál til að láta renna í af diskunum. Með örbylgjuofni var náð óeðlilegri hitasnerpu í réttina um leið og þeir voru bornir fram.

Sjávarréttasúpa Provençale var bragðsterk og gleymanleg tómatsúpa með fiskbitum og olífum. Bakaður saltfiskur Romesco var sæmilegur, á heitri og bragðsterkri kássu af tómötum og kúrbít, undir þaki af söxuðum olífum bragðgóðum. Meyr og góð var grilluð risahörpuskel undir svonefndu humarravioli, sem var pastaplata, með grænmetisþráðum fljótandi í smjöri.

Steiktur og ostbakaður þorskur dagsins var milt eldaður og ágætur, með smjörblautum og ofelduðum grænmetisþráðum af fjölbreyttu tagi. Steinbítur í sítrónupiparsósu var ógirnilega grár ásýndum, en reyndist ágætlega eldaður, í sterku sítrónupiparsoði.

Grillaður lambahryggur var borinn fram sem tveir þriggja rifja kambar, hæfilega eldaðir og milt kryddaðir, bornir fram með hóflega brúnuðum kartöflum, bezti réttur staðarins. Ristuð andabringa með engifer-portvínssósu og rauðlaukssultu var hins vegar of gróf og þurr.

Bananafrauð var þétt og bragðlaust, með faglega sneiddri peru upp að stikli. Pressukönnukaffi var gott og nóg til af því.

Jónas Kristjánsson

DV

Yfirlit

Veitingar

Veitingahús Reykjavíkursvæðisins og Akureyrar raðast eftir verðlagi á láréttan ás, sem skipt er í fjóra kafla með krónupeningum, og eftir gæðum á lóðréttan ás, sem skipt er í fjóra kafla með stjörnum. Úr því fæst samanburður verðs og gæða, þar sem matstaðirnir raðast á mismunandi hagstæð skábönd, sem táknuð eru með blómum, frá einu upp í fimm.

Staða veitingahúsanna á skáböndunum var áður táknuð með stjörnum. Reynslan sýnir, að lesendur átta sig betur á samanburðinum, ef stjörnurnar eru miðaðar við gæðin ein án tillits til verðs. Því er búin til ný táknmynd, blóm, fyrir samhengi verðs og gæða.

Lítið samhengi er milli verðs og gæða

Þú færð misjafnt fyrir peningana í veitingahúsum Reykjavíkursvæðisins og Akureyrar. Sú er athyglisverðust niðurstaða könnunar DV og Fókuss á 45 matstöðum, sem staðið hefur í rúmt ár. Niðurstöður einstakra staða hafa birzt í Fókusi á föstudögum.

Samandregin niðurstaða könnunarinnar birtist í meðfylgjandi grafi, sem sýnir, að lítið samhengi er milli verðs og gæða. Til dæmis eru matstaðir af öllum gæðaflokkum á dýrasta verðbilinu, þar sem fólk borðar þríréttaðan kvöldmat fyrir 4000–5000 krónur á mann. Sjö beztu veitingahúsin eru að meðtali ekki dýrari en þau átján, sem fylgja þeim næst í gæðum.

Afar fá veitingahús eru á verði innan við 3000 krónur, sjö af fjörutíuogfimm. Algengt er, að matstaðir séu með svipað eða upp undir það svipað verð og Listasafnið á Holti, 4400 krónur, án þess að standast samjöfnuð í gæðum. Meðan staðirnir spanna allt gæðalitrófið, hnappast þeir langflestir í verðlagi á tiltölulega þröngt bil frá 3.000 krónum upp í 4500 krónur.

Við höfum breytt táknmyndum einkunna á þann veg, að samhengi verðs og gæða er nú táknað með misjöfnum fjölda blóma, frá einu upp í fimm. Gæðin ein út af fyrir sig, án tillits til verðs, eru nú táknuð með stjörnum, frá einni upp í fjórar. Verðlagið er táknað með krónupeningum, frá einum upp í fjóra.

Í lista yfir matstaði í Lífinu eftir vinnu hér í Fókusi hafa nýju táknin verið tekin í notkun. Þeir, sem vilja rifja upp rýni í einstök veitingahús, geta fundið upphaflegu greinarnar á vefnum á vísir.is/fokus

Jónas Kristjánsson

DV

Esja

Veitingar

Esja venst vel. Vandaðar innréttingar hafa haldizt óbreyttar og lítið slitnað með árunum, þrátt fyrir mikið álag. Þykkt teppi temprar ferðamannaglauminn og lágstillt dósatónlist truflar engan. Mild ljós, mildir litir og speglar með hengiplöntum tempra hinar ströngu og þéttu mötuneytisraðir borðanna. Þótt Esjan sé ópersónuleg, er hún um leið næsta hlýleg.

Þríréttað val af fastaseðli kostar 3600 krónur með kaffi, sem er allt of mikið. Okrið er temprað með súpu dagsins og sjávarréttahlaðborði, sem kosta 1100 krónur í hádeginu og 1900 krónur á kvöldin, svo og tveimur seðlum dagsins á 1200 og 1900 krónur. Þjónusta er góð og veit hver pantaði hvað, jafnvel við fjölmenn borð.

Af lítt breytilegu og leiðigjörnu sjávarréttahlaðborði geta ferðamenn kynnt sér sýnishorn ýmissa fisktegunda og matreiðsluaðferða. Þar voru í hitakössum ufsi, karfi, ýsa, blálanga og steinbítur. Þar var djúpsteikt, súrsætt, smjörsteikt, kryddlegið, svo og fiskibollur og plokkari. Í kalda hlutanum voru nokkrar verkanir á síld og laxi, rækjur og lax í hlaupi og ýmislegt til salatgerðar. Þetta var fróðleg kynning, en ekki bragðgóð.

Súpur voru flestar hveitilausar og frambærilegar, þar á meðal tær tómatsúpa dagsins með grænmeti, þunn lauksúpa með brauðskorpuþaki og þykk fiskisúpa úr humarsoði með rækjum og stórum hlunkum af lúðu og laxi.

Í sveiflukenndri eldamennsku bar nokkuð á löngum eldunartímum. Það sem heitir snöggsteikt á matseðli var yfirleitt ofeldað. Ofsteiktur (“snöggsteiktur”) risahörpufiskur var með of sterkri saffransósu og grænmeti í tartalettu. Ofsteiktir (“snöggsteiktir”) sjávarréttir voru með of sterku karrí, bornir fram með rækjum, hnetum, hrísgrjónum og eins konar laufabrauði.

Rjómasoðinn karfi var hæfilega eldaður, borinn fram með rækjum og hæfilega mildri gráðostsósu. Glóðaður lax var lítillega ofeldaður, með þykkri og rauðri paprikusósu, heilum sesamfræjum og brenndu grænmeti.

Léttsteiktur lambahryggur var bezti rétturinn, meyr og góður, borinn fram með fínu hvítlauks- og rósmarínseyði, léttsteiktu grænmeti og bökuðum tómötum með osti og raspi. Ofsteikt gæs með ofsteiktu grænmeti, eplum og villisveppasósu var hins vegar ekki merkilegur matur.

Ostaterta var hefðbundin og létt, með mikilli sultu og þeyttum rjóma. Crème caramel reyndist vera léttur vanillubúðingur með þunnri karamellusósu. Charlotta með koníaksfyllingu og ávaxtasósu reyndist vera hörð kaka utan um ís, borin fram með jarðarberjum og þeyttum rjóma. Kaffi kom úr sjálfsala.

Jónas Kristjánsson

DV

Borg

Veitingar

Gamlir og sögufrægir hótelveitingasalir eru víða við aðaltorg gamalla borga í Evrópu, gamlir og sögufrægir, rykfallnir og þreytulegir. Borgin við Austurvöll var fyrir nokkrum árum gerð upp í gamla stílnum, með bleikum veggjum og grænum tjöldum, gömlum og þægilegum húsbúnaði. Yfirþyrmandi afgreiðslubar var bætt við á miðju gólfi og varðveitt korkgólf, sem hefur séð fífil sinn fegri.

Borgin dregur ekki að sér gesti á kvöldin, þegar þar sitja nánast eingöngu hótelgestir við glerplötuborð. Í hádeginu er hins vegar líflegt vegna staðsetningarinnar og sögufrægðarinnar. Þá má líta hér sams konar fólk og á systurstöðum meginlandsins, ráðsettar frúr að skiptast á kjaftasögum um leið og þær njóta góðrar fagþjónustu og tilþrifalítillar matargerðar nútímans að hætti íslenzkra miðlungsstaða.

Maturinn á Borginni var löngum fremur vondur, en hefur batnað með árunum og verið frambærilegur í seinni tíð. Fiskur hefur loksins haldið innreið sína löngu á eftir öðrum matstöðum. Mikið er um endurtekningar þess, sem er til í miklu magni í eldhúsinu. Polenta maískökur birtust með ólíklegustu réttum, tvenns konar hrísgrjón, svo og dísætar biscotta grjótkökur.

Forréttir voru ágætir. Hin gamalkunna gulrótarsúpa dagsins var snarpheit, fremur bragðgóð og ekki of þykk, með fljótandi brauðteningum. Heit Maryland-krabbakaka var fínleg og bragðgóð, með smásöxuðu og stökku grænmeti og ítölsku rauðsalati. Kryddlegið og pönnusteikt grænmeti var líka gott, borið fram með grjótkökum, ítölsku salati, ólífum og kotasælu. Kryddjurtagrafinn nautahryggvöðvi með engiferlegnum sveppum og sinnepskremi hafði skemmtilegan anískeim.

Gufusoðinn lax var skemmtilega upp settur í kúf utan um fiskifroðu ofan á grænmetisteningum og tvenns konar stinnum hrísgrjónum. Þrátt fyrir tilþrifin var laxinn ekki ofsoðinn og naut sín vel með ítölsku blaðsalati. Wok-pönnusteiktir sjávarréttir reyndust vera rækja, hörpudiskur og smátt skorinn fiskur og smásaxað grænmeti, svo og tvenns konar hrísgrjón, allt með sojabragði úr hófi fram.

Hörpuskel og lax voru hæfilega pönnusteikt, með maísköku, ætiþistli og vatnagrasasósu. Skemmtilega sinnepsristaður þorskhnakki var lítillega of þurr, sat ofan á grænmetisblönduðum hrísgrjónum og borinn fram með of þykkri humarsósu. Appelsínubökuð andabringa var fremur meyr, borin fram með áðurnefndri maísköku og ágætri sósu úr appelsínum og engifer.

Svokölluð eplaterta var ekki terta, heldur nokkrir soðnir eplabátar á fyrrnefndri grjótköku, bornir fram með hlutlausum vanilluís og kanilblandaðri karamellusósu, alls ómerkur eftirréttur. Líkjörvættur crème brulêé búðingur var bragðbetri, en einkenndist einnig af grjótköku. Frambærilegust var sívöl tiramisu ostaterta í kunnuglegum stíl með kaffisósu og jarðarberjasósu. Kaffi var í lagi, borið fram með konfekti.

Þríréttað með kaffi kostaði 4100 krónur á mann, en súpa dagsins og fjölbreytt úrval aðalrétta kostuðu að meðaltali 1200 krónur í hádeginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Askur

Veitingar

Askur við Suðurlandsbraut tjuggutjuggar eins og gömul eimlest, sem ekki fæst til að gefa upp öndina, af því að tækin voru svo vel smíðuð í gamla daga, þegar hún varð til sem millistig veitingahúss og skyndibitastaðar, heimaland kokkteilsósunnar. Allt er enn eins og ævinlega á Aski, þar á meðal matseðillinn. Svo langt er síðan staðurinn steinrann, að óþarfi er að gera veður út af því núna.

Á sunnudögum hefur verið steikarskurður í hádeginu og aðra daga frekar ólystugt hlaðborð, sem einkenndist af mjögsoðnu grænmeti, djúpsteiktri ýsu og miklum sósum, en bjargaðist fyrir horn með beikonfylltum kartöflum, meyru svínafleski og góðri rauðsprettu með þrenns konar papriku.

Aðgangur að óvenjulegum salatbar fylgir öllum aðalréttum staðarins. Barinn státaði af tveimur og þremur tegundum af olífum, ýmsum baunategundum, hnetum, sultuðum og kryddlegnum lauk, gráfíkjum og niðursoðnum ætiþistli, fyrir utan ýmislegt af hefðbundnara tagi, en engum sveppum. Þar voru sósur og tvenns konar edik, en engin olífuolía. Einnig súpa dagsins, uppbökuð hveitisúpa af skárra taginu, en ekki alltaf nákvæm að heiti, því að brokkálssúpa með syndandi brokkáli var eins og sveppasúpa á bragðið. Ágætt brauð fylgdi.

Stórlúða dagsins var hæfilega elduð, greinilega fersk og bragðgóð, borin fram með kryddsmjöri, fjölbreyttu og fallegu grænmeti léttsteiktu, og bakaðri kartöflu, sem er einkennistákn staðarins. Smjörsteikt rauðsprettuflak var snarpheitt og meyrt, jóðlandi í smjöri, með milt elduðu blómkáli og brokkáli, svo og sveppum og tvenns konar papriku og auðvitað bakaðri kartöflu. Sú breyting hefur raunar smám saman orðið á Aski, að fiskur er orðinn sterkasta hlið eldhússins og fer vel á því.

Uppáhald fjárbóndans var sagt vera grillað lambafillet, en mér fannst það vera innralæri, vel kryddað villijurtum og borið fram með mikið steiktum lauk og grimmt elduðu káli, svo og bakaðri kartöflu. Lakasti aðalrétturinn var barbeque blanda svínarifja og kjúklingalæra. Rifin voru sæmileg, en kjúklingurinn þurr og frönsku kartöflurnar gervilegar.

Sæmilegasta eplabaka með vanilluís og þeyttum rjóma kom á borð með súkkulaðisósu. Ostaterta var nánast ostlaus, eins og Royal búðingur að áferð og bragði, borin fram með jarðarberjum og blæjuberjum. Kaffivatn að amerískum hætti var frambærilegt sem slíkt.

Hádegishlaðborð kostar 1090 krónur, salatbarinn 870 krónur, réttur dagsins með súpu 1290 krónur og þríréttað af matseðli kostar 2370 krónur. Þetta höfðar til stórfjölskyldna á ferðalagi utan af landi, vel stæðra einstaklinga, sem ekki nenna að elda, og slæðings af ferðamönnum.

Húsakynni hafa lengi verið óbreytt og fremur kuldaleg, en barnavæn. Langsófar eru með veggjum, stólar á móti og á milli þeirra hentug tveggja manna borð, sem slá má saman að vild. Dósatónlist er stundum með háværara móti. Sennilega er þjónustufólk á of lágu kaupi og hættir fljótt, því að sífellt voru að birtast ný andlit, sem kunnu enn lítið til verka.

Jónas Kristjánsson

DV

Hádegið

Veitingar

Hádegið frá mánudegi til föstudags er hagkvæmasti tíminn til að fara út að borða, ef fólk getur komið því við fyrir önnum. Þá gilda allt önnur verð en aðra daga, sumpart gjafverð, til dæmis á sumum af beztu veitingahúsum landsins, svo sem í Listasafninu á Holti, Humarhúsinu, Primavera og Þremur Frökkum.

Þetta truflar að vísu lífsstílinn, ef fólk er vant að borða almennilega á morgnana og kvöldin og að fá sér aðeins snarl á hlaupum í hádeginu. Viðskiptamálsverðir, sem voru vinsælir fyrr á árum, eru vegna tímaskorts að mestu úr sögunni. Þetta kann að vera skýringin á, hversu illa veitingahús eru sótt í hádeginu og hversu langt þau ganga mörg hver í tilboðum sínum.

Listasafnið í Holti við Bergstaðastræti býður úrvals þjónustu og breytilegan þriggja rétta matseðil með vali í öllum þáttum fyrir tæpar 1800 krónur. Fyrir þetta verð er boðin matreiðsla, sem að gæðum gefur ekki eftir því, sem boðið er á kvöldin, landsins bezta matreiðsla um þessar mundir, frönsk cuisine nouvelle með ferskum hráefnum, nettum eldunartímum, lítilli fitu og engu hveiti, áherzlu á fisk og grænmeti.

Þriggja rétta matseðill með vali í öllum þáttum er einnig í boði á Primavera við Austurstræti fyrir 1350 krónur. Þar er eldað upp á eins konar ítalska cucina novella, sem er svipuð þeirri frönsku, en einfaldari í sniðum. Primavera er þó ekki eins stílhreint í matargerðarlist og Listasafnið og rambar stundum út af línunni.

Jómfrúin við Lækjargötu er indælt afturhvarf til fortíðar og býður nokkra rétti dagsins að hætti gamaldags danskra frokost-veitingahúsa á tæpar 900 krónur að meðtaltali og enn fjölskrúðugra úrval smurbrauðsneiða að hætti Idu Davidsen á 750 krónur heilar og 475 krónur hálfar.

Aðrir góðir matreiðslustaðir hafa minna úrval í hádegistilboðinu. Þrír Frakkar, í notalegum húsakynnum við Baldursgötu, bjóða ágæta og tæra súpu og fjölbreytt val af vel matreiddum fiskréttum á tæpar 1000 krónur að meðtali.

Humarhúsið við Lækjargötu er í þessum flokki með góða og tæra súpu og val milli nokkurra aðalrétta á tæpar 1200 krónur að meðaltali. Staðurinn sameinar góða og stílhreina matreiðslu og þægileg og stílhrein húsakynni.

Lækjarbrekka í sömu húsaröð við Lækjargötu býður þykka hveitisúpu að íslenzkum hætti og fjölbreytt val misjafnt eldaðra aðalrétta á tæpar 1100 krónur. Þótt eldamennska sé brokkgeng, er þjónusta góð og aðstæður notalegar.

Tilveran við Linnetstíg í Hafnarfirði býður svipaðan kost, þykka hveitisúpu og nokkra aðalrétti á tæpar 900 krónur að meðaltali. Laugaás við Laugarásveg var á svipuðum nótum í stíl og gæðum, en hefur því miður ekki borið sitt barr að undanförnu. Þar kostar súpa og val milli aðalrétta 1300 krónur að meðaltali.

Kínamúrinn við Hlemmtorg hefur léttari matreiðslu og býður súpu og val milli nokkurra aðalrétta á tæpar 600 krónur. Lægra verður tæpast komizt í verðlagi. Kínverska matreiðslan er raunar betri í Kínahúsinu við Lækjargötu, þar sem er boðinn fastur rækjuréttur á tæpar 600 krónur.

Af stöðum með engu eða þröngu vali í hádeginu ber fremsta að nefna Tjörnina við Templarasund, þar sem súpa og fiskur dagsins fást á 1000 krónur. Þarnæst Rex við Austurstræti, þar sem val milli tveggja rétta kostar 1200 krónur. Síðan Iðnó við Tjörnina, þar sem súpa og fiskur dagsins kosta 1600 krónur.

Creole Mex efst við Laugaveg býður súpu dagsins, og val milli nokkurra aðalrétta á tæpar 800 krónur. Caruso við Bankastræti er með tvenns konar val tvíréttað á tæpar 800 krónur. Ítalía við Laugaveg og Hard Rock í Kringlunni bjóða súpu og aðalrétt á 750 krónur. Í Madonnu við Rauðarárstíg kosta súpa og aðalréttur tæpar 800 krónur og á Amigos við Tryggvagötu tæpar 900 krónur.

Góð salatborð eru á nokkrum stöðum, einkum hjá Eika við Fákafen og Pósthússtræti á tæpar 800 krónur, Pottinum og pönnunni við Nóatún á tæpar 900 krónur og á Aski við Suðurlandsbraut.

Yfirleitt eru þetta staðir, sem hafa fengið jákvæða umsögn í veitingarýni DV á undanförnum mánuðum. Fleiri staðir eru á lágum nótum í hádegisverði, en státa ekki af svo frambærilegri matreiðslu, að hægt sé að mæla með þeim.

Jónas Kristjánsson

DV

Jómfrúin

Veitingar

Amma mín gaf mér bolsíur og aura fyrir bílæti og eldaði upp á dönsku frikadeller, hakkebøf og ribbensteg. Í minningunni finnst mér það hafa verið merkari matur en kjötbollur, hakk og svínarif, sem ég kynntist síðar í Múlaköffum og mötuneytum nútímans sem svokölluðum íslenzkum heimilismat.

Jómfrúin í Lækjargötu gælir við nostalgíuna með því að staðfesta þetta. Þar er notað kjötsoð, en ekki uppbökuð hveitisósa. Eldunartímar eru hafðir fremur hóflegir. Eftir margra áratuga eyðimerkurgöngu Íslendinga getum við nú aftur fengið danskan frokost í Reykjavík og andað að okkur ilminum úr Store-Kongensgade.

Frikadellur Jómfrúarinnar voru dæmigerðar fyrir þetta, betri, þéttari og betur kryddaðar en kjötbollur, bornar fram með hvítum kartöflum og köldu meðlæti, rauðkáli, sýrðri gúrku og sultutaui, svo og kjötsoði í sérstakri skál, svo að það flæddi ekki um matinn.

Ribbensteg með stökkri og harðri pöru hossaði hins vegar ekki fortíðarþrá minni eins mikið, borin fram með hvítum kartöflum, sýrðri gúrku, rauðrófu og rauðkáli, svo og kjötsoði. Betri var hæfilega pönnusteikt bleikja á þunnri og sítrónublandaðri heslihnetusósu með rúgbrauði og sýrðum rjóma.

Þetta var meðal þess, sem oft er á boðstólum á fimm rétta krítartöflu við diskinn. Aðalsmerki staðarins eru þó ekki hefðbundnir frokostréttir danskir, heldur tuttugu tegundir af dönsku smørrebrød að hætti Oscars og síðar Idu Davidsen, þar sem Jakob Jakobsson var í læri.

Minnisstæðast smurbrauða er alveg mátulegur gorgonzola-ostur með tómati og hrárri eggjarauðu á fransbrauði. Fínlega og bragðgóða lifrarkæfu með stökkri, en ekki harðri pöru, á rúgbrauði ber næsthæsta í minningunni, ýmist með rauðkáli, djúpsteiktri steinselju eða púrtvíni og piparrót. Vandlega byggður píramídi af furðanlega meyrum úthafsrækjum á fransbrauði er líka minnisstæður, svo og ljúf lambalifur á rúgbrauði, með steiktum lauk, soðnum eplabátum og sultutaui.

Heitir réttir kosta um 890 krónur, hálfsneiðar um 475 krónur og heilar smurbrauðssneiðar um 750 krónur. Hálf önnur sneið í hádegismat kostar um 1200 krónur. Staðurinn er á sumrin opinn á kvöldin og þá mundi þríréttað með kaffi kosta um 1800 krónur.

Jómfrúin líkist raunar ekki hefðbundnum og huggulegum dönskum frokostsstöðum á borð við Slotskælderen, Sankt Annæ eða Kanal Caféen, heldur ber hún norrænan fúnkissvip frá Idu Davidsen. Jómfrúin er löng og mjó, björt og smart, með viðarþiljum í lofti og stórum gluggum inn í garð, stífri röð Tívolí-plakata á langvegg og gervi-tréstólum við reitadúkuð borð. Fremst er skenkur, þar sem skoða má sýnishorn af smurbrauðinu.

Í gestum mælt er þetta er fínasta veitingahús landsins. Meðfram langvegg sitja þekktir menn á miðjum aldri við nærri fullt hús í hádeginu og nikka hver til annars, stjórnmálamenn, fréttamenn, sendiherrar og kverúlantar, en alls engir uppar, sem vita ekki einu sinni, hvað frokost er. Starfsfólk er jafn alúðlegt við gestina og það er við þröngt svið matargerðarlistar staðarins.

Hér vantar ekkert nema rødgrød med fløde í eftirrétt.

Jónas Kristjánsson

DV

Hornið

Veitingar

Stóru ljósaskermarnir eru horfnir, en að öðru leyti hefur Hornið á Pósthússtræti og Hafnarstræti verið eins frá upphafi. Í tvo áratugi hefur þetta rólega og litla Ítalíuhorn með stórum gluggum einskis útsýnis staðizt umbyltingar veitingabransans og er hvorki betra né verra en áður.

Hæð risaglugganna frá götu og pottaplöntur í gluggunum valda því, að gestir eru ekki berskjaldaðir, þegar þeir sitja fyrir innan á nettum kaffihúsastólum á grófu flísagólfi við kringlóttar marmaraplötur á stálfæti. Þetta er notalegt reykhús með timburveggjum, gifsskreytingum og bláum lit á súlum og bitum.

Tóbaksfnykurinn er inngróinn, enda fjölmenna hér í hádeginu kvennaþing, þar sem allar reykspúa í takt, en á kvöldin fjölmenna smábarnafjölskyldur og reykja ekki. Staðurinn er ekki bara fjölskylduvænn, heldur líka einstaklingavænn, því að hér sitja menn einir og lesa dagblöðin úr blaðagrindinni.

Þjónustufólk er gott eins og venjulega hér á landi, man hver pantaði hvað, setur vatn í karöflum og volgar brauðkollur með álsmjöri á borð. Pappírsþurrkur eru eins þunnar og hægt er, án þess að sjáist í gegn. Matreiðslan byggist á pítsum og vel gerðum pöstum og kann ýmislegt fleira með sóma, en er þó gefin fyrir að hrúga ýmsu kraðaki á diska. Bökuð kartafla fylgir öllum aðalréttum og mjúkt hvítlauksbrauð mörgum þeirra.

Súpur dagsins reyndust vera aðall staðarins, til dæmis ítölsk grænmetissúpa tær, falleg og góð, með fjölbreyttu grænmeti. Einnig indversk grænmetissúpa, svipuð að gerð, en karríkrydduð. Gott hrásalat með fetaosti, þrenns konar hnetum og tvenns konar ólífum var of mikið olíuvætt. Eggjakaka með ristuðu brauði var einnig góð.

Hæfilega skammt elduð var tagliatelle-pasta dagsins með sjávarréttum, ýsu, kræklingi, hörpudiski og rækjum, en ýsan var ofelduð. Spaghetti Orientale var líka hæfilega eldað, hóflega karríkryddað, með rækjum og grænmeti.

Skelfisk-risotto var ekki síður gott, í mótaðri köku á miðjum diski, með kræklingi í skelinni, hörpudiski, rækjum og sóltómötum í kring, svo og fallegu hrásalati á hliðardiski. Fiskitvenna var lakari, lúðan að vísu fín, en karfinn þurr, með bakaðri kartöflu, sem stakk í stúf.

Terta hússins reyndist vera brún djöflaterta með súkkulaðikremi og þeyttum rjóma. Það, sem kallað var tiramisú á matseðli, reyndist vera skrítin lagterta með tveimur dísætum kremlögum, en ekki minnsta votti af ostbragði, furðulegt fyrirbæri og engan veginn gott. Báðar terturnar voru með þeyttum rjóma. Kaffi var gott, sérstaklega espresso, eitt hið allra bezta í bænum.

Þriggja rétta máltíð með kaffi kostar hér 3.400 krónur og pasta í hádeginu kostar 985 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV

Potturinn og pannan

Veitingar

Einn af ódýrustu alvörustöðum borgarinnar býður eitt bezta og ferskasta salatborðið, með fallegum og hæfilega þroskuðum sveppum, rauðlauk og eggjum, blaðlauk, tvenns konar papriku og ýmsu öðru góðu hráefni, svo og margs konar brauði, en litlu af blönduðu gumsi. Þar voru líka ávextir handa þeim, sem ekki kæra sig um ís og niðursoðna ávexti með sykursósum í eftirrétt. Að kvöldi var reyktur og grafinn lax á borðinu.

Alþýða og útlendingar hafa löngum hallað sér að Pottinum og pönnunni, sem næst gengur sögufrægum Lauga-ási að hófsemi í verðlagi. Salatborð með súpu og kaffi kostar 890 krónur. Með aðalrétti að auki fer verðið í 1.600 krónur og má þá velja milli sjö rétta.

Í hádeginu voru heitir réttir innifaldir í verði salatborðsins, flestir fremur vondir, einkum þurr fiskur og þurrt kjöt. Ætar voru kartöflur, saltkjöt og eggjakaka með skinku.

Súpurnar voru frambærilegar hveitisúpur, með miklu af blómkáli, spergli eða hverju því innihaldi, sem gaf súpunni nafn hverju sinni. Brauð var undantekningarlaust gott og smjörið í snyrtilegum kúlum, en ekki vafið í álpappír að hætti flugfélaga.

Hveiti og egg voru óspart notuð í sósur og mikið magn notað af klassískum sósum, svo sem hollandaise og béarnaise, sem skafa má af til að gera matinn lystugri. Algerlega staðlað meðlæti, hvort sem snæddur var fiskur eða kjöt, var bökuð kartafla með smjörklípu og fjölbreytt grænmeti, hóflega pönnusteikt.

Grillaður karfi var merkilega mjúkur, betri en víða annars staðar í bænum, borinn fram með möndlublandaðri hveitisósu bragðsterkri. Rauðspretta var einnig ágætlega elduð, með hvítlaukssósu. Fiskiþrenna með rauðsprettu, skötusel og hörpudiski var nokkru lakari, svo sem venja er um slíkar þrennur. Tvær gerðir af sósu í miklu magni runnu hvor í bland við hina og spilltu réttinum.

Grillaður lambavöðvi var hæfilega eldaður, meyr en bragðlaus, svo sem títt er um íslenzkt lambakjöt. Gamalkunn béarnaise-sósa og fallegir sveppir bættu réttinn. Hægt var að tína saman góðan eftirrétt úr melónu, graskeri og döðlum af salatborði. Kaffi var frambærilegt.

Innréttingar staðarins hafa verið óbreyttar frá ómunatíð, en eru ekki þreytulegar, því að viðhald er í lagi og snyrtimennska til sóma. Staðurinn er vel hannaður og notalegur, með salatborð sem þungamiðju. Gestir sitja sumpart á bekkjum í tiltölulega þægilegum básum og sumpart á góðum stólum úti á gólfi. Gegnheil viðarborð eru dúklaus, vatnsglös á fæti eru fín, en pappírsþurrkur rytjulegar.

Þjónusta var öflug og ágæt, en dálítið kammó, þegar karlar á sextugsaldri voru kallaðir “strákar” upp á amerísku. Og dósatónlistin var stundum hátt stillt.

Jónas Kristjánsson

DV

Perlan

Veitingar

Dýrasti og glæsilegasti veitingasalur landsins býður vandaða, en gerilsneydda matreiðslu. Engir dagsréttir eru á stuttum matseðli Perlunnar, ekki einu sinni fiskur dagsins, enda mundu frávik sennilega trufla einbeitingu í eldhúsi. Í flókinni matreiðslu er lögð meiri áherzla á glæsibrag en bragðgæði. Sumir forréttir og eftirréttir eru listaverk að útliti, en að öðru leyti ekki minnisstæðir.

Karíbahafssalat var fagurt blaðsalat, allt of mikið sítrónuvætt, með góðri mangó- og lárperublöndu í sérstakri skál. Meyrar og bragðgóðar andabringu-ræmur voru bezti forrétturinn, klæddar sesamfræjum, bornar fram í spínati, sem virtist sykrað. Gulrótakæfa með karsa, graslauk og sýrðum rjóma var mild og hlutlaus.

Góður var grillaður barri, en skorti eðlisbragð, borinn fram á pönnuköku, með fyrirtaks humri og ágætum villispergli. Risahörpuskel var eins góð og annars staðar, með bragðsterku grænmetismauki. Vel heppnaður var ofnbakaður eldislax undir spergilþaki, borinn fram með mildri engifersósu.

Lambahryggvöðvi var ekki eins léttsteiktur og sagt var á matseðli, of mikið kryddaður og ekki nógu meyr, með steiktum grænmetisteningum, sveppum og sinnepsblandaðri rósmarínsósu. Andakjöt var gott, enda einfalt, með grænpiparsósu, andalifur og mauki mangós og epla.

Vel heitt crème brûlèe var óvenjulega gott, með þunnri skorpu og ekki of harðri. Heitt súkkulaðifrauð var bragðsterkt, fallegt og gott, með chartreuse-líkjör og vanillukremi. Mangó-krapís var sterkur og góður. Of eindregið sítrónubragð var að sítrónutertu. Kaffi var fyrsta flokks, bæði pressukaffi og espresso.

Öguð og fumlaus þjónusta veit nákvæmlega hver pantaði hvað, bezta þjónusta í landinu, laus við óþarfa afskiptasemi eða ótímabærar spurningar, sem tröllríða íslenzkum veitingahúsum. Volgir dúkar komu eftir aðalrétt. Þjóðleg og rómantísk tónlist var of hávær á köflum. Vínlisti er fjölbreyttur og svo vandaður, að húsvínið er fyrsta flokks.

Perlan er heljarmikið og yfirþyrmandi geimskip, glæsilegt leiksvið, þar sem góðærismenn og erlendir gestir þeirra borða þríréttað með kaffi fyrir 4.700 krónur á mann, áður en kemur að víni. Út um raufar milli gildvaxinna gluggapósta má sjá borgarljós, sem minna fremur á stjörnuþokur en sorg og gleði borgarlífsins. Þetta er ekki útsýnisstaður, heldur magnaður innsýnisstaður, griðastaður þeirra, sem næga hafa seðlana.

Jónas Kristjánsson

DV

Austur-Indíafélagið

Veitingar

Austur-Indíafélagið við hlið Regnbogans við Hverfisgötu er bezti matstaður austrænnar matargerðar hér á landi, snyrtilegur staður með kórréttri, en tilþrifalítilli matreiðslu, sem stundum á það til að láta þurran Tandoori-kjúkling frá sér fara.

Tandoori-kjúklingur er kryddleginn í jógúrt og karríi áður en hann er bakaður í leirofni, einkennisréttur norðurhéraða Indlands. Hann er bragðljúfur, en nýtur sín ekki, nema hann sé meyr, sem á að vera auðvelt. Þeim mun meiri eru vonbrigðin, þegar þetta bregzt.

Flest annað var gott, til dæmis meyr og bragðsterkur Bagdað-kjúklingur í kókossósu með döðlum og þurrkuðum ávöxtum, sem gáfu réttinum sætubragð, bezti aðalrétturinn. Skemmtilega eldsterkt var Vindaloo-lambakjöt frá Goa með kartöflum og tómötum, einn þekktasti réttur suðurhéraða Indlands.

Papad eða Poppadum, grillaðar og stökkar brauðflögur, fóru vel við Raita, ídýfu úr sýrðum rjóma og smásaxaðri gúrku. Einnig hæfðu þær þrenns konar sultu, mildri úr koríander, sterkri úr tamarind og millisterkri úr lauk.

Chiche Sheeh Kabab var nafn á aflangri, mjúkri og bragðgóðri kjúklingapylsu, kryddaðri með engifer, hvítlauk og koríander, borin fram með paprikuþráðum í sérstakri skál. Bezti forrétturinn voru djúpsteiktar pagórur úr söxuðum lauk og léttkrydduðu kjúklingabaunadeigi, bornar fram með mildri koríander-sultu.

Smáatriðin voru flest vönduð. Nan-brauð var bakað á staðnum, þynnra og betra en það, sem selt er í stórmörkuðum. Pulao-hrísgrjón voru hæfilega elduð. Hins vegar fólst grænmeti dagsins í ómerkilegum, sykurbrúnuðum kartöflubitum. Indverskt kaffi var gott, með kardimommukeim.

Matsalurinn er léttari og bjartari en áður, enda hefur verið dregið frá gluggum. Slæðubreiður eru enn í lofti, en skipt hefur verið um indverskar veggskreytingar til bóta, málverk og tréstyttur. Húsbúnaður er vandaður, einkum renndir tréstólar, fínt parkett og ljósir viðarbásar á miðju gólfi. Kuldalegar glerplötur eru enn á borðum, blúnduþurrkur eru úr taui.

Austur-Indíafélagið er staður meðalverðs. Aðalréttir kosta um 1700 krónur og þríréttað með kaffi kostar 3200 krónur. Staðurinn er eingöngu opinn á kvöldin.

Þjónusta var góð, en umbúnaður hennar lakari en áður. Heitir andlitsdúkar komu ekki lengur eftir mat og reikningurinn var handskrifaður. Róandi indversk músík var, þegar við komum, en vestræn graðhestamúsík, þegar við fórum.

Jónas Kristjánsson

DV