Veitingar

Humarhúsið

Veitingar

Bezta ástæðan til að sækja Humarhúsið heim kemur ykkur ekki á óvart, frábær humar, einkum í einfaldri matreiðslu, hvítvínsvættur og hvítlaukskryddaður og síðan grillaður hæfilega skamman tíma. Á boðstólum eru raunar ellefu mismunandi matreiðsluaðferðir á humri.

Löngum og hugmyndaríkum matseðli fylgir matreiðsla í hæsta gæðaflokki hér á landi. Stíllinn er þó ekki hreinn, því að mikið er kaffært í sósum og meðlæti er staðlað. Hvergi urðu þó bein mistök nema í hálfhráum, feitum og seigum andakjötssneiðum.

Lítið og notalegt humarhúsið er gamaldags og stílhreint að vönduðum antíkbúnaði. Á kvöldin glitra víðir málmdiskar og fagur borðbúnaður á hvítum dúkum í birtu léttra messingskróna. Fegurri veitingasalur er ekki til í landinu.

Hér er góður og fjölbreyttur, en ekki árgangamerktur vínlisti, sem leitar víða fanga í fjarlægum löndum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, Chile og Líbanon, þótt hefðbundin Ítalía og Frakkland séu í fyrirrúmi.

Verðlagið er hagstætt í hádeginu, þegar tær súpa og val milli þriggja fiskrétta fæst á 1190 krónur. Að kvöldi er þetta hins vegar einn af dýrustu matstöðum landsins. Þá kostar þríréttað með kaffi um 4.400 krónur á mann.

Hádegissúpan reyndist vera tær gæsasúpa með strimlum af gæsakjöti og grænmeti, frábær hvíld frá þykku hveitilímssúpunum, sem fást um alla borg. Til fyrirmyndar var bragðmildur saltfiskur í lögum, með kampavínssósu, einföldu hrásalati og steinselju í olíu. Meyr og fín var sesamhjúpuð risahörpuskel með maískornum, grænmetis-smábitum og baunaspírum.

Gott var sítrus- og kryddgrafið lamb með balsam-olíu og sesamfræjum. En bezti forrétturinn var rósmarínkrydduð og léttsteikt rjúpubringa með fjallagrösum og rauðvínssoðnum eplakúlum.

Pönnusteikt keila var hæfilega elduð, borin fram með þunnri piparsósu með grænum piparkornum heilum, fallegu hrásalati með miklum rauðlauk. Ristaður steinbítur var einnig hæfilega eldaður og fallega fram borinn með óvenjulega maukuðu og rjómuðu risotto með stórum og meyrum krabbabitum.

Andabringusneiðar á beini voru of léttsteiktar og fremur seigar, bornar fram með hindberjasósu, perlulauksultu og léttsteiktu grænmeti stöðluðu. Mun betra var léttsteikt lambafillet, fínt og meyrt, með döðlum, stórum sveppum, papriku, rifsberjum, bakaðri kartöflu og anís, en flaut í of mikilli rósmarínsósu.

Blönduð og gratineruð ber voru góð, sömuleiðis mjúk karamellu- og mokkaterta á stökkum hnetubotni, svo og hvítt og bragðmilt súkkulaðifrauð á ferskri hindberjasósu. Kaffi var gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Caruso

Veitingar

Þvert á íslenzka veitingahefð hefur hinn rustalega notalegi Caruso batnað og orðið ódýrari með aldrinum. Í verði og gæðum er hann kominn í hóp annarra hálfítalskra veitingastaða borgarinnar, Pasta Basta og Ítalíu, sem eru á sömu slóðum í miðbænum.

Þetta er groddastaður að umbúnaði. Setið er á sæmilegum málmstólum á viðargólfi við vönduð tréborð, dúklaus. Í hálfrökkrinu má greina hvíta veggi, rauðan múrstein og brún burðarvirki. Þægilegast og bjartast er að sitja í viðarskálanum úti við Bankastræti, þar sem hægt er að lesa matseðilinn við birtu frá götuljósunum.

Verðið er íslenzkur miðlungur, 3.700 krónur fyrir þríréttað með kaffi og í hádeginu tvenns konar val tvíréttað fyrir 990 krónur. Fyrir þetta fáum við óskólagengna þjónustu vinsamlega, þunnar pappírsþurrkur og smjör í álpappír, svo og jöklasalat og alfaspírur sem staðlað hrásalat með nánast öllum forréttum og eftirréttum.

Matreiðsluhefðin er að grunni ítalskrar ættar, með rísottum, pöstum og pítsum, en gælir eindregið við íslenzkan hvítlauksbrauða-smekk skyndibitafólks. Sjálf matreiðslan er hin sterka hlið staðarins, fremur traust og fyrirsjáanleg og einstaka sinnum áhugaverð, einkum í ítölskum hrísgrjónaréttum og grænmetissúpum, en síður í íslenzkum fiskréttum.

Beztir voru forréttir, svo sem magnað sjávarrétta-risotto með hörpufiski, rækjum, sveppum og lauk. Einnig ítölsk og tær grænmetissúpa með agnarsmáum grænmetisteningum, fjölbreyttum að lit, skemmtilega fram borin í víðri og pottlaga skál.

Bragðgóðir voru fylltir sveppahattar með miklum gráðaosti, eldaðir í hvítlaukssmjöri. Sama er að segja um matarmikið hrásalat kokksins, með stórum rækjum, eggjabitum, feta-osti, tvenns konar ólífum og þurrkuðum tómötum, svo og sinnepssósu til hliðar.

Spaghetti carbonara var eins og við mátti búast, ítalska útgáfan af eggjum og beikoni engilsaxa. Beikonvafin hörpuskel með sýrðum hvítlauksrjóma var meyr og fín, borin fram með ágætlega sveppablönduðum hrísgrjónum. Fiskitvenna var of mikið elduð, ýsan meira en laxinn, borin fram með sterkri gráðaostsósu og seigri kartöflu, upphitaðri.

Lambafillet var léttsteikt, smurt sinnepi og borið fram með maukgrillaðri kartöflu í stökku hýði og harðsteiktum, ostfylltum chili-pipar, eins konar mexíkönsku quesadilla.

Mjúk gulrótarterta með rjómaostsósu var bragðgóð, sem og hvítt súkkulaðifrauð á hindberjasósu. Espresso-kaffi var oftast gott, en einu sinni einkennilega þunnt, líklega úr röngum baunum.

Þótt Caruso sé frambærilegur, á hann það sammerkt með ótal öðrum matsölustöðum borgarinnar, að fyrir svipað verð er betra að borða á Primavera eða Tjörninni.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjanghæ

Veitingar

Fátt er minnisstætt frá Sjanghæ, sem að útliti og innihaldi er eins og þúsundir annarra austrænna staða á Vesturlöndum, hvorki lakari né betri. Til dæmis voru djúpsteiktur rækjur hveitiþykkar og álíka ólystugar og á Asíu neðar við Laugaveginn. Ánægjulegast man ég eftir efnismiklum pappírsþurrkum og heitum dúkum, sem gestir fá eftir matinn.

Matreiðslan í Sjanghæ er austur-indísk fremur en kínversk, ættuð frá Indónesíu eða Vietnam, með þykkum sósum, þótt hún jóðli ekki beinlínis í þeim eins og á áðurnefndri Asíu og sé ekki heldur í hreinum pottréttastíl eins og á Bing Dao á Akureyri, botni tilverunnar. En hún er snöggtum lakari en kínverska matreiðslan þurra og ekta í Kínahúsinu við Lækjargötu, sem þar að auki er mun ódýrari staður.

Sjanghæ er innréttað í ferðamannastíl, mikið hólfað niður með reitagrindverki, skreytt upp á kínversku með reitalofti, rauðu teppi, Kínalugtum, blævængjum og kínverskum styttum í glerskápum. Þjónustan er sumpart góð og sumpart fáfróð, en jafnan elskuleg.

890 króna hádegishlaðborð bjó yfir smáum og þunnum vorrúllum ágætum, en var að öðru leyti ómerkilegt pottréttaborð með gríðarlega djúpsteiktum rækjum. Á kvöldin er boðið upp á margréttað fyrir 1980 krónur að meðaltali. Af seðli kostar þríréttað með kaffi um 3000 krónur.

Kjúklingur var yfirleitt frambærilegur. Svonefndur stökkur kjúklingur var fínlega djúpsteiktur með hnausþykkri sósu súrsætri til hliðar. Satay kjúklingur var tamarind-kryddaður í kókosmjólk. Gufusoðinn sapor kjúklingur, borinn fram í potti, var blandaður kasjú hnetum og sterkkrydduðu grænmeti.

Eggjadropasúpa var vel heit, þykk og matarleg. Skásti rétturinn var Gado Gado, steikt grænmeti, sem þó var með allt of mikilli hnetusósu, er minnti á kókosmjöl. Grænmeti með öðrum mat var yfirleitt staðlað og gott, brokkál, gulrót, laukur og sveppir, oftast blandað niðursoðnum ananas.

Gufusoðin sapor ýsa, borin fram í potti, var ekki nógu fersk. Pönnusteikt ýsa að hætti Malasíubúa var þurr af ofeldun, svo sem hættir til á austurlenzkum veitingahúsum hér á landi. Betri voru snöggsteiktar lambakjötsþynnur með hvítlauk. Ennfremur piparkryddaðar toban-svínakjötsþynnur, bornar fram í pönnunni.

Blandaðir ávextir fólu í sér mikið úrval austur-asískra ávaxta úr dósum, með ís og rjóma. Bezti eftirrétturinn var wan tan, djúpsteikt hveitiumslög utan um döðlur, borin fram með þeyttum rjóma. Kaffi var nothæft.

Jónas Kristjánsson

DV

Grillið

Veitingar

Því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins. Sömu veitingahús tróna nú á tindi íslenzkrar matargerðarlistar og fyrir tveimur áratugum, Holtið og Grillið. Aðrir staðir hafa risið og hnigið og Grillið verið brokkgengt á köflum síðustu árin, en í góðu formi síðustu vikur.

Grillið hefur árum saman verið í sama hefðarhamnum, glæsilegur útsýnissalur milliklassahótels með virðulegri og alúðlegri þjónustu, samfara einum allra dýrasta matseðli landsins. Þríréttað með kaffi kostar 4.600 krónur á mann áður en kemur að borðvíni. Slíkt verðlag gefur ekki kost á neinum mistökum.

Villusvigrúmið er takmarkað enn frekar með því að hafa fáa rétti á boðstólum, alla fasta og aðeins þrjá fiskrétti. Þetta má hafa til marks um, að við erum í hótelsal, en ekki ævintýrasal matargerðarlistar. Matseðillinn rambar raunar á barmi faglegrar fátæktar. Það er ekki spennandi að borða oft í Grillinu.

Með smjöri og þrenns konar brauði var borið fram svokallað papenade, ágætur grautur úr ansjósum, olífum og sólþurrkuðum tómötum. Fiðluleikari kom upp í salinn úr jólahlaðborðinu á jarðhæðinni og spilaði svo vel fyrir gesti, að messufall varð í borðhaldi um sinn. Þetta var fallega hugsað, en út úr stíl.

Forréttir voru undantekningarlaust minnisstæðir. Risahörpufiskur í sítrónukrydduðu hvítasmjöri var meyr og fínn. Næfurþunnar laxa- og lúðuþynnur á japanska vísu með kryddlegnu grænmeti voru vel heppnaðar. Skelflettur humar á spínatbeði með eplabitum í trjónuberjagljáa og jarðsveppaolíu var glæsilegur réttur með humri, sem bráðnaði á tungu.

Andabringukjöt var rautt, meyrt og gott, með ljúflega rjómasoðnu byggi, kumquat sítrusávaxtasósu og andapylsu, skemmtilegt og nútímalegt frávik frá hefðbundinni og hunangsgljáðri andakjötsmatreiðslu staðarins frá fyrri árum, sem hafði náð fullkomnun, en var orðin þreytt.

Gott linsubaunamauk ofan á pönnusteiktum kartöfluþráðum fylgdi rauðri, mildri og mjúkri villibráðarþrennu staðarins, gæs, rjúpu og hreindýri. Þetta var mun betri þrenna en sú, sem ég fékk hér fyrir tveimur árum, en samt ekki bezta villibráð bæjarins.

Sítrónuterta minnti á sítrónubúðing með brenndri sykurskorpu, nánast crème brûlée, bragðsterk, létt í maga og frískandi, borin fram með ískrapi og laufum úr þremur sítrusávöxtum, fyrirtaks endir á góðri og traustri máltíð, sem var hófleg að metnaði og sigldi með löndum. Kaffi var gott, en espresso þunnt.

Jónas Kristjánsson

DV

Mávurinn

Veitingar

Á matseðlinum segir, að Jónatan Livingston Mávur hafi “fengið viðurkenningu sem einn af tíu beztu veitingastöðum í Evrópu með áherzlu á fiskrétti og villibráð.” Það er stórt orð Hákot og stækkar, þegar menn treysta sér til að vitna í það sjálfir.

Í fyrsta lagi er Jónatan ekki fiskréttastaður, ekki einu sinni einn af tíu beztu á Íslandi, hvað þá í Evrópu allri. Hann hefur ekki einu sinni á boðstólum ferskan fisk dagsins, sem fæst þó á öðru hverju veitingahúsi borgarinnar, án þess að menn berji sér á brjóst.

Í öðru lagi eru framboð og gæði villibráðar ósköp svipuð því, sem fæst á öðru hverju veitingahúsi borgarinnar á vertíðinni. Með sjálfshóli vekur staðurinn væntingar, sem hann stendur ekki undir.

Sem dæmi um matreiðsluna má nefna langhala, fyrst pönnusteiktan og síðan ofnsteiktan innan í brenndum kartöfluþráðum, orðinn þurr af meðferðinni, borinn fram í sesamkryddaðri ostasósu og með kryddvættum grænmetisþráðum, sem virðast stöðluð mötuneytisfæða með flestum aðalréttum staðarins.

Sítrónuleginn langhali var borinn fram í leginum, með símyljukornum á diskbarmi, staðlaðri einkennisskreytingu flestra rétta staðarins. Pönnusteiktir sniglar voru í þurrara lagi, í hring utan um gljáðan perlulauk, sveppi og beikon á stökkri köku í miðju, bornir fram með rauðvínssósu.

Betri var hvítlauksristaður smokkfiskur í bleksósu og sinnepi, meyr og fínn, raðað í geisla út frá miðju rófu- og gulrótarþráða. Bezt var steinseljusalat með góðri blöndu af símyljukornum, tómötum, lauk og myntu í miðju, salatblöðum utar, vætt með sítrónusafa og olífuolíu.

Gæsabringa var sjálf hæfilega elduð, en lýtt með fylgihlutum, sem fólust í staðlaðri kartöfluböku staðarins og mildri hveitisósu uppbakaðri, sem kölluð var villibráðarsósa. Nautalund var góð, en lýtt af stöðluðu kartöflubökunni og uppbakaðri hveitisósu með skán.

Ferskir ávextir suðrænir voru bornir fram á glæsilegan hátt sem fylling í melónu, með hindberjum og blæjuberjum á diskbarmi, vættir með kirsuberjalíkjör og appelsínulíkjör í senn.

Hversdagslegri var þurr súkkulaðikaka með hindberjum og blæjuberjum, mangó, ís og rjóma. Gott bananabragð var að lagskiptri súkkulaði- og bananatertu, sem sögð var með enskri vanillusósu, en var með stöðluðu mangó, ís og rjóma.

Þótt eldhúsið spari sér vinnu með stöðluðum endurtekningum, er verðið fremur hátt, 4.200 krónur á mann fyrir þríréttað með kaffi. Þjónusta er fagleg og góð. Húsakynni eru notaleg og þægileg, en ekki fínleg. Heitir litir í tjöldum og vafningsplöntur á málmgrindarturnum vega á móti kuldalegum örljósum og groddalegum málverkum.

Margt er gott um Jónatan að segja, svo sem tauservéttur og tannstöngla, volgar bollur og væna tónlist, en sem fiskrétta- og villibráðarstaður siglir hann undir fölsku flaggi.

Jónas Kristjánsson

DV

Ný stjörnuflokkun

Veitingar

Veitingarýnendur þurfa að endurnýja sig eins og veitingahús þurfa að gera. Við verðum sífellt að vera með tilraunir, þótt sumar misheppnist. Þannig fleytum við okkur smám saman fram eftir leið.

Ég er búinn að taka margar rispur á veitingahúsum síðan ég hóf veitingarýni fyrir tæplega nítján árum. Hver syrpan hefur verið með sínum hætti, misjafnlega vel heppnuðum eins og gengur.

Stundum hefur einhvers konar einkunnagjöf fylgt greinaflokkunum, einkum fyrir gæði annars vegar og verð hins vegar. Einnig hefur komið fyrir, að ég hafi reynt að flokka gæðin í þrennt, matreiðslu, umbúnað og umönnun.

Að þessu sinni hef ég reynt að tolla í tízku annars konar rýni og nota einfalda stjörnugjöf, sem ætlað er að sameina einkunn fyrir verð og gæði. Mér hefur réttilega verið álasað fyrir að skýra ekki, hvað ég eigi við með nýju útgáfunni.

Stjörnugjöfinni er ætlað að sýna, hversu miklum árangri veitingahúsið nær í gæðum miðað við þær forsendur, sem það gefur sér í verði. Grafið hér á síðunni skýrir þetta. Á lárétta ásnum er verðið í krónum og á lóðrétta ásnum eru gæðin metin afstætt samkvæmt huglægu, en öguðu mati, byggðu á langri reynslu.

Veitingahús fá því fleiri stjörnur, sem þau eru ofar og lengra til vinstri á grafinu, sem skipt er í nokkur stjörnu-skábönd. Í hæsta stjörnuflokki eru gerólíkir staðir eins og Listasafnið og Laugaás. Þau ná sama árangri hvort á sínum forsendum, annað einkum á gæðum og hitt einkum á verði. Þrír Frakkar ná sama árangri með því að fara bil beggja.

Þessar stjörnur eiga ekkert skylt við stjörnurnar í Michelin. Ekkert íslenzkt veitingahús nær slíkum hæðum, að hægt sé að tala um stjörnur af tagi Michelins, nema þá helzt Listasafnið í Holti.

Jónas Kristjánsson

DV

Gæði og verð

Veitingar

Okkur var og verður illt, áður í höfðinu af glögginu sáluga, en núna í maganum af sex ferðum í fjörutíu rétta jólahlaðborð, sem er ein vinsælasta afþreying Íslendinga í mánuði ofneyzlunnar.

Þegar forfeður okkar sultu heilu og hálfu hungri kynslóð eftir kynslóð, hefur sennilega komizt í litninga okkar hæfni til að finna unað hríslast um okkur við að sjá borðin svigna undir hrokuðum diskum.

Tiltölulega lítið er um, að Íslendingar fari út að borða til þess að fara út að borða, nema þá í jólahlaðborð. Annars fara menn af sérstöku tilefni, en fáir af matarást. Hér er því þröngur markaður fyrir matargerðarlist utan jólahlaðborða.

Af grafinu hér á síðunni má sjá, að allur þorri veitingahúsa raðar sér á 3.000–4.500 króna bilið fyrir þríréttaðan mat og kaffi á mann, fyrir utan áfenga drykki. Örfáir staðir, flestir austrænir, brjóta þessa einhæfni og freista okkar í verði.

3.000–4.500 króna staðirnir dreifa sér um allt litróf gæðanna, frá algerri eymd upp undir eða upp í það, sem gæti gefið eina stjörnu í Michelin. Verra er, að betri staðir í þessum flokki hafa ekki verið neitt langlífari en lakari staðir.

Arnarhóll tjaldaði nýfranskri gæðamatreiðslu og dó. Ónefnt veitingahús í hæsta verðflokki býður fólki ljóta rétti bragðvonda og lifir góðu lífi. Þriðja húsið býður upp á skemmt nautakjöt.

Á meðan veitingahús í milliflokki verðlags leggur áherzlu á margs konar ferskan fisk á hverjum degi, lifa sumir dýru staðirnir upp úr frystikistum og örbylgjuofnum. Sums staðar vakna kokkarnir þá helzt til lífsins, að þeir séu í keppni á erlendum sýningum.

Veitingahús 3.000–4.500 króna verðflokksins ættu við heilbrigðar aðstæður vandlátra viðskiptavina að raða sér nálægt skálínu mitt á milli ása verðs og gæða, svo að gestir geti ráðið af verðinu, hver séu gæði staðarins, og geri tilsvarandi kröfur.

Þetta aðhald bregzt, svo sem sjá má af línuritinu, þar sem veitingastaðirnir raða sér út og suður án nokkurs sjáanlegs samhengis milli verðs og gæða. Þetta er afleiðing þess, að við erum fæst fær um að greina milli góðs og ills í matargerðarlist.

Önnur afleiðing ónæmis okkar fyrir matargerðarlist er tæplega tveggja áratuga stöðnun. Meðan listin hefur þróazt í nálægum löndum, hamast íslenzkir kokkar við að rjómabæta, smjörbæta, ostabæta og hveitibæta hvers konar hráefni.

Einkennistákn íslenzkrar matargerðar felast í uppbökuðum og rjómabættum sveppasúpum og smjörbættum sveppasósum, þykkri ostagratineringu og langvinnri eldun á viðkvæmum fiski. Þetta er nærri eins illt ástand og var fyrir tveimur áratugum.

Viðskiptavinir veitingahúsa vilja, að matur jóðli í dýrafitu. Við erum enn svo nálægt sulti og seyru forfeðranna, að rjómi, smjör, ostur og steikt hvítahveiti koma í stað matargerðarlistar. Menn greiða hér á landi fyrir magafylli, en ekki fyrir gæði.

Þess vegna lítur grafið á síðunni svona einkennilega út.

Jónas Kristjánsson

DV

Nanna Rögnvaldardóttir: Matarást, alfræðiorðabók um mat og matargerð, Iðunn, 1998.

Veitingar

Árum saman hef ég verið að leita að þessari bók í erlendum bókaverzlunum og upp á síðkastið einnig á Netinu, uppflettibók orða um mat og matargerð. Eftir árangurslausa leit í öðrum sveitum birtist hún núna skyndilega í túngarðinum heima og meira að segja á íslenzku.

Matarást Nönnu Rögnvaldardóttur er bókstaflega þungavigtarbók, 3 kíló og 700 síður. Ég fletti í henni fram og aftur til að finna eitthvað, sem vantaði í hana og fann ekki fyrr en í 24ðu atrennu. Ekki er neitt skráð undir brotnu hveiti eða cracked wheat, svo að ég varð sjálfur að vita, að það heitir bulgur á tyrknesku til að finna það í bókinni.

Annars er nánast allt hér að finna, íslenzk orð, ensk og frönsk og orð úr framandi matargerðarhéruðum. Hér eru grísku orðin og þau arabísku, japönsku orðin og þau indversku. Hér er fullt af staðreyndum, sem ég hafði ekki hugmynd um, svo sem að carpaccio hafi ekki verið fundið upp fyrr en 1961 og þá af Arrigo Cipriani í Feneyjum.

Sumt er leiðrétt af því, sem ég hef fengið skakkt í hausinn. Ég hélt, að tiramisù hefði borizt til Feneyja úr Miklagarði, en nú fæ ég að vita, að þessi góði réttur hafi ekki verið fundinn upp fyrr en í Trevisio árið 1965.

Í bókinni er munað eftir, að Guðrún Ósvífursdóttir hafi átt laukagarð, en því gleymt, að Steingrími Hermannssyni þykir grautur góður. Vitnað er í James Bond, sem vildi martíníið hrist en ekki hrært, í séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, sem mælti með salatáti, og í marga heiðursmenn þar á milli.

Hér fæ ég að vita, hvernig gerðir eru þjóðkunnir mömmuréttir á borð við fátæka riddara og falskan héra, innan um uppskriftir að gamalfrönsku tournedos Rossini og nýfrönsku crème brûlée eftir margfrægan Bocuse í Lyon. Bókin er sannkallað allsnægtahorn.

Meginefni bókarinnar er þrívítt. Á miðjum síðum er breiður dálkur, sem er alfræðiorðabók matar og matargerðar í 3.000 flettum. Inni í kili er mjórri dálkur með hliðartilvísunum í aðra kafla. Og úti á kanti er þriðji dálkurinn með uppskriftum, sem varða hliðstætt efni alfræðiorðabókarinnar.

1.600 slíkar uppskriftir eru í bókinni, ekki langar uppskriftir með tuttugu atriða innihaldi, heldur stuttar og viðráðanlegar uppskriftir fyrir venjulega kokka í venjulegu heimiliseldhúsi.

Ef ég ramba á hummus í alfræðiorðabókinni, get ég lesið um það, prófað uppskriftina við hliðina, eða lesið mig eftir hliðartilvísunum um tahini eða mezze, og vafrað þannig fram og aftur um bókina, rétt eins og ég sé kominn í gagnabanka á vefnum.

Til styrktar þessum þrívíða megintexta eru nokkrir formálar, sem skýra tilurð og notkun bókarinnar, síðan langur kafli litmynda af grænmeti og ávöxtum og síðast en ekki sízt ýmiss konar atriðisorða- og nafnaskrár aftast.

Prentvillur (“Hutingtonskíri”, bls. 693) eru sárafáar í bókinni og annar frágangur góður. Mér sýnist bókarheiti vanta framan á kápunni, þótt ráð hafi verið gert fyrir því í hönnun. Enn fremur hefur gallað forrit verið notað við stafrófsröðun, svo að broddstafir eru í bland við móðurstafi þeirra, en ekki á eftir, svo sem vera skal á íslenzku.

Þetta eru smámunir í samanburði við að geta horft fram á ótal ánægjustundir fram eftir vetri við að vafra fram og aftur í sérstæðu snilldarverki Nönnu Rögnvaldardóttur.

Jónas Kristjánsson

DV

Amigos

Veitingar

Amigos er meira Tex og minna Mex en áður var. Kryddið er meira sparað, enda er líklegt, að varfærnir viðskiptavinir kunni betur við sig í Texas en í Mexíkó. Fyrir bragðið er heldur minna gaman að borða hér en áður var og sorglegast að borða sætt snittubrauð og álpakkað smjör með súpunni.

Mexíkósk matargerðarlist er ættuð frá Aztekum og Spánverjum og lítillega Frökkum, með hinum merkari í heimi. Þótt kryddið og grænmetið sé gerólíkt, minnir hún dálítið á indverska, notar sterkt krydd og lítinn sykur, grænmeti fremur en kjöt. Báðar hefðirnar eru hollar, en einhæfar til lengdar.

Amigos býður mikið úrval af flatkökum úr hveiti og maís, sem einkenna matargerðarlist Mexíkós: Hefðbundnar tortillas úr maís; stórar og mjúkar burritos; oststeiktar enchiladas-maísrúllur; djúpsteiktar, en ekki stökkar tacos; gufusoðnar tamales-maískökur; pipraðar quesadillas-hveitikökur; upprúllaðar, djúpsteiktar og stökkar taquitos; djúpsteiktar og stórar chimichangas; og óvafðar fajitas, sem gestir fylla sjálfir.

Sömu atriðin eru endurtekin í sífellu í fyllingum og meðlæti mismunandi pönnukökutegunda, svo sem salsa-grautur, lárperumauk, pintobaunamauk, tómatsósublanda, bræddur ostur, sýrður rjómi, chili-pipar og jöklasalat. Þegar ýmsar tegundir af fyllingum eru látnar fylgja ýmsum tegundum af flatkökum, er niðurstaðan langur matseðill að kínverskum hætti.

Erfitt er að spá fyrirfram í matreiðsluna, sem er upp og ofan, einkum í hliðaratriðum. Þykk og þrælsterk tómatsúpa dagsins með kjúklingabitum var skemmtilega mögnuð, en ostfyllt paprika hafði gleymzt á pönnunni og kanilkrydduð chimichanga verið tekin of snemma af henni. Baunaréttir voru yfirleitt góðir, en kjöt of þurrt, til dæmis naut í taco og kjúklingur í fajitas. Bezt tókst matreiðslan, þegar hún var Mex fremur en Tex, með grænmeti fremur en kjöti, með hörðu kryddi fremur en vægu.

Ostgrilluð guesadilla var vel bökuð og hörð, djúpsteikt flauta var líka vel bökuð, djúpsteikt enchilada var þægilega mjúk, djúpsteikt taco var ágætlega hálfstökk, faijta-pönnukaka var hæfilega þunn, en djúpsteikt chimichanga var of þykk og ekki bökuð í gegn.

Rúmgóð og dimm húsakynni eru hönnuð í heildstæðum, spönskum Texasstíl veitingastaða af Tex-Mex ættum, með snyrtilegum húsgögnum, illa sópuðu gólfi, vestrænni aulatónlist og góðri þjónustu notalegri. Í hádeginu er hægt að fá súpu og tortillu með fiski eða kjöti á 890 krónur. Á kvöldin er þríréttað með kaffi á 3200 krónur að meðaltali.

Jónas Kristjánsson

DV

Tilveran

Veitingar

Saltnotkun hefur minnkað til bóta, en eldunartímar á fiski eru enn óþarflega breytilegir á Tilverunni, sem um nokkurt skeið hefur haldið uppi merki framúrskarandi hagstæðs verðs á frambærilegum mat í Hafnarfirði. Þetta grænþiljaða og bleikmálaða friðarríki er búið að festa sig í sessi á horni Fjarðargötu og Linnetstígs.

Afspyrnuljótir pipar- og saltstaukar í formi grænmetis og ávaxta skera í augun, þar sem rúmt er setið við heimilislegar aðstæður í þægilegum stólum við kögurdúkuð borð undir lágværri tónlist og reynt að horfa á lítil og skemmtileg málverk frá Spáni.

Á kvöldin er hægt að velja milli sex rétta, auk súpu og eftirréttar, fyrir 1700 krónur að kaffi meðtöldu. Val milli fimm rétta, auk súpu, í hádeginu kostar 870 krónur. Þetta verðlag er hvergi slegið út á boðlegum veitingastað á Íslandi, nema á Laugaási í Reykjavík, og takmarkar annan metnað staðarins.

Þjónustan er elskuleg og kemur nógu af köldu vatni og mjúku brauði á borðið, meðan beðið er eftir matnum. Vínlistinn er stuttur, vel valinn og ódýr, með góðu Chile-víni í glasatali. Það eru einmitt svona staðir, sem við þurfum fleiri af til að fá almenning til að lyfta smekk sínum af skyndibitaplani yfir á fyrstu þrep almennilegs mataræðis.

Blaðlaukssúpa dagsins var því miður eins og oftar áður hefðbundin uppbökun á hveiti. Grænmetissúpa dagsins var skárri, einkenndist af tómati og ristuðum brauðteningum. Bezta súpan var tært grænmetisseyði með miklu af rækjum, laxi, lúðu, kræklingi og sveppum, hressileg vetrarsúpa. Salat dagsins var ferskt, en einkenndist af jöklasalati, borið fram með örlitlu af rækjum og skinkuræmum.

Hæfilega elduð og eins góð og hún gerist bezt á landinu var steikt tindabikkja með skemmtilega sterku sítrónusmjöri, hæfilega elduðum kartöflum og góðu hrásalati, tvímælalaust bezti réttur staðarins. Hins vegar var tvenna staðarins, rauðspretta og steinbítur, of mikið elduð, með hæfilega elduðum kartöflum, of þykktri humarsósu og sæmilegu hrásalati.

Hin tvenna staðarins, lamb og grís, var einnig ofelduð, einkum grísinn, sem var orðinn þurr. Með henni var samt ágætlega léttsoðið grænmeti og kartöflustappa, bökuð í hálfu hýði af stórri bökunarkartöflu, rauðlaukur og tómatar. Svipað meðlæti, og kryddlegnar perusneiðar að auki, fylgdi hæfilega léttsteiktum svartfuglsbringum með þunnri og góðri, en hlutlausri gráðostasósu.

Ís staðarins var lagskiptur vanillu og súkkulaðiís fíngerður með kiwi og vatnsmelónusneiðum. Ostakaka staðarins var einföld og bragðmild, lítið þéttari en búðingur. Kaffi var þunnt, en gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzk veitingahús

Veitingar

Íslenzkum veitingahúsum hefur farið aftur á síðasta áratug aldarinnar eftir stöðnun á síðari hluta níunda áratugarins. Hveitisúpurnar hafa fest sig í sessi; fita flýtur um diska; rjómi, smjör og ostur eru enn töfralausn margra matreiðslumanna.

Um og upp úr 1980 varð bylting í matargerð á Íslandi. Á nokkrum stöðum, einkum í Grillinu og á Holti og síðar í Arnarhóli heitnum leysti létta, nýfranska línan af hólmi hina þungu, dönsku matreiðsluhefð millistríðsáranna. Á skömmum tíma tóku íslenzk veitingahús forustu í matargerðarlist Norðurlanda og öfluðu sér fjölþjóðlegrar viðurkenningar, sem þau eru enn að éta út.

Vafasamt er, að orðsporið haldist endalaust. Bandaríkjamenn eru fjölmennastir í hópi þeirra erlendu ferðamanna, sem notfæra sér þjónustu vandaðra veitingahúsa hér á landi. Þeir munu smám saman átta sig á, að íslenzkir matreiðslumeistarar standast ekki lengur samanburð við það, sem þeir þekkja heima fyrir.

Nánast ekkert hefur gerzt í matargerðarlist Íslendinga í tæpa tvo áratugi. Til viðbótar við nýfranska “cuisine nouvelle” á Grilli, Holti og Arnarhóli kom þó snemma jarðbundið “cuisine terroir” á veitingahúsinu við Tjörnina, í kjölfar hliðstæðra breytinga í Frakklandi, höfuðvígi matargerðarlistarinnar.

Hljómgrunninn vantaði fyrir þessar framfarir. Viðskiptavinirnir héldu áfram að biðja um rjómabættar sveppasúpur og meira magn af rjómabættum sveppasósum út á steikurnar. Matreiðslumenn hrökkluðust frá hreinni útgáfu hinna nýju matreiðsluhefða til þess að taka tillit til gamaldags þarfa heimamarkaðarins.

Á sama tíma hafa báðar nýfrönsku línurnar fest sig í sessi í umheiminum. Beztu matreiðslumenn Norðurlanda hafa tekið þær upp og farið fram úr íslenzkum starfsbræðrum sínum, sem enn berjast við að vinna sigur í matreiðslusýningum á sviði afturhaldssamrar matargerðarhefðar.

Sigur “cuisine nouvelle” og “cuisine terroir” hefur hvergi orðið eindregnari en í Bandaríkjunum, þar sem vel stætt fólk er almennt meðvitað um nauðsyn þess að losna við óþarfa fitu og óþarft kólesteról úr mat. Þeir ferðamenn frá Bandaríkjunum, sem hafa ráð og áhuga á að koma hingað, eru margir orðnir vanir léttu mataræði.

Góð veitingahús á Manhattan bera af góðum veitingahúsum í Reykjavík eins og gull af eiri. Þar nota matreiðslumeistarar ekki hveiti, rjóma, smjör eða ost í matreiðslu. Þeir nota jurtaolíur og fara sparlega með þær. Hitaeiningafjöldi er minni og kólesteról minna en hér. Eðlisbragð hráefnisins fær að njóta sín.

Okkar mönnum ber að vakna, þegar fiskur og annað sjávarfang er orðið að meginþætti matargerðarlistarinnar á Manhattan. Þar er hráefnið nærri eins gott og hér á landi, en matreiðslan heldur nærfærnari og fjölbreytnin margfalt meiri en hér. Þeir þurfa ekki lengur að koma til Íslands til þess að fá góðan fisk.

Á góðum veitingahúsum á Manhattan er fiskur kominn upp fyrir nautasteikur í verðlagi og á eftir að fara mun hærra eins og reynslan hefur orðið í Frakklandi og Suður-Evrópu. Því er mikil framtíð fólgin í aðgangi að góðu sjávarfangi og kunna að fara með það að hætti þeirra nútímamanna, sem fylgjast með þróun matreiðsluhefða.

Þess vegna er kominn tími fyrir íslenzka veitingamenn og matreiðslumeistara að hætta að sofa á lárviðarsveigum atburða, sem gerðust fyrir tæpum tveimur áratugum. Þeir beztu þurfa að hlaupa í bátana og róa lífróður á eftir þeim, sem hafa verið að sigla fram úr þeim á síðasta áratug aldarinnar.

Þar sem almenningsálitið er fornt í sniðum á þessu sviði hér á landi, er nauðsynlegt fyrir þá að taka forustu um að breyta því. Þeir geta leitað samstarfs við líkamsræktarfólk, útivistarfólk og aðra þá, sem líklegastir eru til að vilja matargerðarlist í samræmi við nýjan lífsstíl.

Eftir að hafa í tæpa tvo áratugi hvatt Íslendinga til að fara út að borða á góðum veitingahúsum er satt að segja hart að sjá engan árangur og þurfa að fara til Manhattan til að hafa gaman af að fara út að borða.

Jónas Kristjánsson

DV

New York

Veitingar

Ekki mundu mörg íslenzk veitingahús standast samanburð, ef þau væru flutt til Manhattan. Í þeim hópi væru örugglega Listasafnið á Holti, Þrír Frakkar og Laugaás, hvert í sínum flokki verðs og gæða. Líklega einnig Tjörnin og Primavera, en ekki miklu fleiri, kannski Rex og Játvarður á Akureyri. Þótt fleiri séu góð, þá stæðust þau ekki samkeppnina fyrir vestan, þar sem margir berjast um hituna á hverju sviði.

Skemmtilegra er að fara út að borða í New York en Reykjavík, af því að fjölbreytnin er meiri í gæðum og verði, hefðum og andrúmslofti. Raunar er borgin við Hudson tekin við af borginni við Signu sem heimsins mesta gósenland matgæðinga, af því að París er sérfrönsk, en Manhattan suðupottur heimskringlunnar allrar, þar á meðal fjarlægra Austurlanda, sem geta kennt okkur margt í matargerðarlist.

Í Reykjavík væri ekki markaður fyrir Kóreustað á borð við Hangawi, þar sem gestir sitja á sokkaleistunum á gólfinu og snæða grænmetisrétti í nánast guðrækilega austrænu umhverfi. Og hér heima er aðeins boðið upp á daufa eftirlíkingu af japönsku sushi, undursamlegum smáréttum úr hráu sjávarfangi, svo sem fást í annarri hverri þvergötu í miðri Manhattan. Hér eru ekki vel stæðir Kóreumenn og Japanir á hverju strái til að halda slíkum stöðum uppi.

Verð er ekki miklu hagstæðara en í Reykjavík. Algengt er á góðum stöðum að þríréttað með kaffi kosti um 36 dali eða 2.500 krónur á mann, en hér færi hliðstætt verð yfir 3.000 krónur. Dýrustu staðir bandarískrar matreiðsluhefðar halda sér á 54 dala eða 3.700 króna verði, sem er lægra en hæsta verð í Reykjavík. Það eru aðeins allra dýrustu frönsku og japönsku húsin, sem sleikja 72 dali eða 5.000 krónur á mann, svipað og allra dýrstu matsalir Reykjavíkur.

Hér er ferskara sjávarfang, en þar er fjölbreytnin meiri. Hér eru menntaðri þjónar og kokkar, en stundum íhaldssamari. Vestan hafs forðast góðir kokkar fitu og feitar sósur og leggja meiri áherzlu á fersk og falleg salöt. Í New York er harðlega bannað að reykja á veitingahúsum, en hér sjást víða ekki einu sinni reyklaus svæði, heldur er tóbaksreyk leyft að spilla matarilmi um allan sal í trássi við reglugerðir.

Ekki þarf að leita uppi sérstaklega dýr veitingahús á Manhattan til að fá betra lambakjöt en okkar bragðdaufa fóðurkálskjöt, sem við ímyndum okkur gott. Og auðvitað er nautakjöt betra á góðum stöðum vestan hafs en á hliðstæðum stöðum hér á landi. Bandarísk steikhús eru enn sem fyrr kapítuli út af fyrir sig.

Veitingahús eru sterkur þáttur í lífi íbúa New York. Þeir borða meira en helming máltíða sinna úr mat, sem eldaður er annars staðar en heima. Þeir fara út að borða oftar en þrisvar í viku að meðaltali og borga meira en 30 dali eða 2.100 krónur í hvert sinn á mann. Þeir halda því betri aga á bransanum heldur en Íslendingar, sem vilja gera annað fyrir peningana sína en borða fyrir þá.

Hástig bandarískrar matreiðslu er á nokkrum stöðum á Manhattan, sem eru að skapa bandaríska klassík, leita víðar fanga en í Frans, losa sig undan franskri formfestu, létta yfirbragð og andrúmsloft, án þess að hvika neitt frá gæðum matreiðslunnar. Þetta er önnur þróun en í Kaliforníu, sem orðin er uppspretta veitingastaða með umbúðir í stað innihalds.

Topparnir eru notalegir staðir á borð við Union Square Café, Gotham Bar & Grill og Grammercy Tavern, sem eru unaðslegri heim að sækja heldur en dýrari draumastaðir á borð við Lucas Carton, Taillevent og Grand Vefour í París. Þess vegna er við hæfi að segja, að Manhattan sé að verða Mekka matargerðarlistar.

Bandarískt kaffi er jafn þunnt og vont sem fyrr, en gott espresso fæst á öllum góðum veitingahúsum. Þunnt gervi-espressó úr hnappavél, sem boðið er víðast hvar í Reykjavík, hef ég ekki séð á veitingastöðum á Manhattan.

Jónas Kristjánsson

DV

Rex

Veitingar

Ég bjóst við vondum mat í hönnuðu umhverfi fyrir markhópa, þar sem fræga og fagra fólkið póserar og aðrir stara, en enginn hugsar um matinn, enda yrði kokkurinn rekinn, ef hann truflaði þjóðfélagslega ímynd staðarins með ætum mat.

Rex í Austurstræti kom mér á óvart með góðri, fjölbreyttri og oftast vandaðri matreiðslu, með áherzlu á einföld og falleg salöt, misjafnt eldaðar pöstur og hæfilega eldaða fiskrétti. Hér má fá marga rétti sem ekki fást annars staðar í bænum.

Matreiðslan bregzt í ýkjunum, svo sem í skerandi grunnlitum, blóðrauðu kúskusi og fagurgrænni kartöflustöppu. Samt er hún huglaus í hugrekkinu, þegar kemur að heillandi fjarlægum nöfnum á borð við tandoori og satay og cajun. Bragðdaufu útgáfurnar hér eiga fátt sameiginlegt með upprunalegu réttunum annað en uppskriftir að sósum. Meira að segja espresso-kaffið er þunnt.

Rex er snjóhvítur og silfurgrár, kaldur og harðneskjulegur, með risastórum gluggum út að vetrarveðrum stormgjárinnar fyrir utan og gæti verið notalegur í 35 stiga hita. Búnaður og skraut er úr silfurgráu áli og gamla gifsflúrið er einnig silfrað. Breið og glansandi steinflísabraut liggur frá anddyri að baklýstum bar. Meðfram þverveggjum eru silfraðir og óþægilegir sófar og á móti þeim silfraðir og þægilegir álstólar við þétta röð smáborða.

Þjónusta var undantekningarlaust fagleg og góð, látlaus og mundi, hver hafði pantað hvað. Tauþurrkur eru á borðum jafnt í hádegi sem að kvöldi. Vínlistinn er fjölbreyttur og djarfur, felur meðal annars í sér Chateau Musar frá bjartsýnismanninum Serge Hochar í Líbanon.

Salöt voru flest góð, byggð á ítölsku rosa, með feta-osti og tómötum. Með einu þeirra komu þó þurrir og daufir kjúklingabitar, en ekki stífkryddaðir og grillaðir á spjóti eins og ætla hefði mátt af matseðlinum. Bezta salatið var fallegt Rex-salat með góðum og heitum linsubaunum og kryddlegnu hrásalati. Andasúpa var tær og góð, með hörpudiski, sem hæfði ekki öndinni og varð torkennilegur í bragði.

Falafel reyndust vera baunabollur, harðar að utan og mjúkar að innan, réttilega, en þó feimnislega kryddaðar með kóríander, ómur frá arabískum heimi. Hrísgrjónablandaður humar, vafinn í lárviðarblöð, var góður, borinn fram með ávaxtasalati og blóðrauðum kúskus-sívalningi úr sprengdu hveiti, skemmtilegur réttur.

Steikt og dimmgrænt spaghetti, basilikum-kryddað með kjúklingi var fullmikið eldað, en eigi að síður gott. Ljósgrænar tagliatelle-ræmur með hörpuskel, sköfnum parmiggiano-osti og svörtum pipar voru nákvæmlega rétt eldaðar og bragðgóðar eftir því.

Grillaður koli var hæfilega eldaður, með fínni og tærri saffransósu og ítölsku hrásalati, fallegur og góður matur. Cajun lúðan var líka hæfilega elduð og einkar bragðgóð, en var of dauft krydduð til að vera cajun, borin fram með fagurgrænni og basilikum-kryddaðri kartöflustöppu.

Kjúklingur var kallaður tandoori, misheppnaður og þurr, húðaður, en ekki brenndur með sósu. Réttinum bjargaði frábær blanda af hrísgrjónum og lime.

Mikado-ís var borinn fram með volgum spergli og jarðarberjum, óvenjulegur eftirréttur. Ostakakan reyndist vera mjúkt ostakrem á hörðum kökubotni, þakið ostaþráðum, áhugaverður réttur.

Tvíréttað í hádeginu kostar 1.200 krónur. Á kvöldin er meðalverð aðalrétta 1525 krónur og þríréttuð máltíð fer í 3.600 krónur. Gestir voru fáir og litu út fyrir að vera venjulegt fólk.

Jónas Kristjánsson

DV

Creole Mex

Veitingar

Formúlan er líkleg til árangurs, tveir eigendur, annar í eldhúsi og hinn í sal, og fókusinn á matreiðsluhefðum skilgreinds svæðis, í þessu tilviki suðurstrandar Bandaríkjanna, Louisiana, Texas og Nýju-Mexíkó. Útkoman er falleg, bragðgóð og matarmikil í Creole Mex á Laugavegi 178, þar sem einu sinni var Smárakaffi, síðan Halti haninn, svo Gyllti haninn, þá Gullni haninn og loks Safari, áður en núverandi myndbirting kom til skjalanna í vor.

Innréttingar eru frá tíð Gullna hanans, viftur, speglar og tréverk í lofti, veggbogarið milli hálfsúlna, viðarpanill upp eftir veggjum, plastplötur og trérammar á berum borðum, vandaður húsbúnaður. Inn í þetta hefur verið komið fyrir mexikóskum skreytingum, höttum, vefnaði og ljósmyndum, svo og mexíkóskri músík, einnig kaktusum, gerviblómum og rómantískum kertaljósum.

Eina ómerkilega atriði matreiðslunnar var súpa dagsins, uppbökuð hveitisúpa að dönsk-íslenzkum hætti millistríðsáranna. Hún var þáttur í tveggja rétta hádegistilboði á 795 krónur. Annars kosta aðalréttir um 1560 krónur og þríréttað með kaffi 3.000 krónur. Allt er þetta hóflegt á íslenzkum mælikvarða.

Í hádegistilboðinu er val milli nokkurra aðalrétta. Fallegur og bragðgóður réttur fólst í Creole-krydduðum kjúklingavængjum með hrísgrjónum og salati. Enn betri var Chinichanga frá Mexíkó, stór tortilla-kaka úr maísmjöli, vafin utan um kjúklingabita, borin fram á glæsilegan hátt með djúpsteiktum og stökkum brauðræmum efst, pönnukökunni næst og blöndu af hrísgrjónum og steiktu grænmeti neðst.

Glæsilegur og góður forréttur var lárperusalat með góðri sjávarréttablöndu ofan á djúpsteiktu brauði. Mjög bragðsterkar voru Nachos, djúpsteiktar brauðræmur með jalapeno-pipar, papriku, osti og lárperumauki. Slökust var Quesadilla, fremur bragðsterk, djúpsteikt kaka, fyllt osti og chilli-pipar, með salsa og sýrðum rjóma.

Gamalkunnur aðalréttur frá Hard Rock var Fajitas, sem kom á þremur diskum, pönnukökur í kökuboxi, snarkandi kjúklingabitar á pönnu og í þriðja lagi meðlæti, einkum hrásalat. Þetta var gott, rétt eins og mjúka Burrito tortillan, vafin utan um kjöt- og baunahakk.

Bezti aðalrétturinn var nákvæmlega hæfilega eldsteikt silungsflak, borið fram á hvolfi, með uppbrettu roði til hálfs, ofan á hrísgrjónum og ristuðu grænmeti, með sítrónublandaðri eggjasósu. Betri gerist matreiðslan ekki í beztu sjávarréttahúsum.

Ágætir voru þrír pílárar af súkkulaði-lagköku með ávaxtasalati og þeyttum rjóma og enn betri var hunangs-engiferís með myntu-súkkulaðibitum og þeyttum rjóma. Vonandi verður þessi staður langlífari en fyrirrennararnir á staðnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Madonna

Veitingar

Það kemur spánskt fyrir sjónir, að Spánarvín skuli vera kjölfesta vínlistans á veitingahúsi, sem kallar sig “ristorante” og “í ítölsku umhverfi”. Og ekki er mikill Ítalíusvipur á að bjóða þunnt kaffi úr sjálfsala og kalla það espresso.

Gervimúrsteinn og gervimarmari, gervisúlur og gervibitar, vafnir gerviblómahafi, og dauflega kertalýst myrkur um miðjan dag eiga að höfða til ástarævintýra með contessum við hrundar hallir á hæðunum við Flórens, en virka í raun eins og leiksvið.

Þegar kjörþyngdarfólk hefur troðið sér í bakháa bekki og hinir hafa setzt í stólana fyrir framan, kemur í ljós, að þetta er notaleg og næstum rómantísk veitingastofa með góðri þjónustu og frambærilegum Ítalíumat fyrir lægsta verð, sem þekkist hér á landi.

Hér borga menn í hádeginu 785 krónur fyrir súpu og pöstu og 885 fyrir súpu og fiskrétt. Annars kosta níu tomma pítsur 950 krónur, pöstur 1050 krónur, alvöruréttir 1590 krónur og þríréttað með kaffi 3100 krónur. Þetta verð er til fyrirmyndar.

Gengið er þröngan gang inn að þröngum skenk með reyksal til hægri og reyklausan til vinstri, þar sem öflugar loftviftur halda góðu lofti. Lágvær óperutónlist hefur í seinni tíð vikið fyrir lágværu jarmi í Eurovision-stíl, sem hverfur í kliðinn við borðin, þar sem jafnan er setinn bekkurinn.

Rjómuð og rauðleit humarsúpa, þakin þeyttum rjóma, var meyr og matarmikil, borin fram með hvítlauksbrauði, sem fylgir mörgum réttum staðarins. Ítalskt salat með ólífum, pepperoni, skinku, túnfiski og rækjum reyndist vera heil máltíð. Gott var ferskt og fjölbreytt grænmetissalat með ostasósu.

Meira spennandi forréttir voru hvítlauksristaðir og meyrir sniglar með mikilli hvítlauksrjómasósu ofan á beði jöklasalats. Og smávaxinn hörpuskelfiskur, örlítið of mikið pönnusteiktur í mildu raspi og sterkri freyðivínssósu.

Góð var pitsa Veneziana með eggjum, beikoni og lauk, svo og hæfilega brakandi kanti. Pöstur voru enn betri, nákvæmlega soðnar, svo sem fettucini með humri í skelfisksósu. Spaghetti carbonara var líka léttsoðið, en hins vegar ofhlaðið grana-osti og skorti alveg skinku og harðsoðin egg.

Mildilega pönnusteikt ýsa í mildu karríi var frambærileg, en benti til, að fiskur kæmi ekki daglega í húsið. Hæfilega smjörsteiktur skötuselur í hvítvínssósu var líka góður, en pönnusteikt grænmeti með honum stakk í stúf. Bökuð kartafla virtist fylgja öllum fiskréttum.

Súkkulaðifrauð var létt og hlutlaust, með þeyttum rjóma. Ostakaka var hæfilega mjúk og góð, en ofhlaðin ávöxtum, þeyttum rjóma og aðallega sultu. Það er vel hægt að hugsa sér að koma hér aftur.

Jónas Kristjánsson

DV