Veitingar

Kínamúrinn

Veitingar

Kínamúrinn er notaleg matarhola, sem líður fyrir afleitt veitingahús með sama nafni, sem um hríð var rekið á þessum stað. Þetta nýja er miklu betra, býður sómasamlegan mat við vægu verði, eitt fárra frambærilegra hér á landi, sem kenna sig við austræna matreiðslu.

Við ramman reip er að draga við Hlemmtorg, þótt staðurinn sé áberandi. Reynslan sýnir, að í þessum húsakynnum hefur hver veitingastaðurinn á fætur öðrum lagt upp laupana: Kráin, Mamma Rosa, Zorba, Alex, Rauði sófinn og Prag, sumir hverjir betri en sá, sem nú storkar örlögunum.

Veitingasalurinn er óbreyttur frá fyrri tilvistarstigum, einfaldur vinkill umhverfis skenkinn, hóflega búinn Kínaskrauti og lágværum Austurlandahljómum í seinni tíð. Þjónusta er austræn og viðkunnanleg, í meira lagi undirgefin í samanburði við íslenzka hefð.

Í hádeginu fæst súpa og val milli nokkurra aðalrétta á 580 krónur að meðaltali. Á kvöldin er mest byggt á fjögurra og fleiri rétta syrpum á 1880 krónur að meðaltali. Hvort tveggja hlýtur að teljast notalegt fyrir viðskiptavini og gefur ekki tilefni til listrænna tilþrifa í eldhúsi.

Súpur eru misjafnar. Blönduð sjávarréttasúpa var tær og fremur þunn rækju- og fiskisúpa. Eggjadropuð sjávarréttasúpa var betri rækju- og skötuselssúpa. Blandaðir réttir kaldir reyndust vera spjótgrillað lambakjöt, pönnusteikt nautakjöt og fátækleg gúrka, sem gekk undir nafninu sjávarréttur.

Pönnusteiktur smokkfiskur var seigur, svo sem búast má við á austrænum veitingastað, gerólíkur hinni meyru matreiðslu hans á góðum Vesturlandastöðum. Pönnusteiktur koli var hins vegar milt eldaður, borinn fram með mildri sojasósu. Djúpsteiktur humar var í miklum, en léttum hjúp, góður á bragðið, borinn fram með súrsætri sósu.

Kong Pau-kjúklingur með hnetum var ekki heldur ofeldaður og ágætlega bragðsterkur, rétt eins og og Szechuan-pönnusteikt nautakjöt með sterkum pipar í sósunni. Milt var hins vegar snöggsteikt lambakjöt. Yfirleitt voru betri gætur hafðar á eldunartíma en tíðkast á austrænum veitingahúsum hér á landi.

Pönnusteikt grænmeti, sem fylgir næstum öllum réttum, fiski jafnt sem kjöti, er fremur staðlað, bambus, blaðlaukur, laukur, kínakál og gulrætur. Það bendir til, að kunnáttusvið kokksins sé í þrengsta lagi.

Sú kenning fékk byr undir báða vængi, þegar beðið var um sæta vorrúllu með þeyttum rjóma samkvæmt matseðli. Ekki var hægt að fá hana, heldur sæta vorrúllu með ís, þeyttum rjóma og súkkulaðisósu. Ekki var hægt að fá sleppt ísnum og sósunni, svo að sennilega kemur rétturinn fullgerður og frosinn í hús.

Djúpsteiktar eplakúlur voru góðar, bornar fram með vanilluís og þeyttum rjóma. Jasmín-te var ekki fáanlegt, sem bendir til, að metnaði staðarins sem Austurlandahúss sé í hóf stillt.

Jónas Kristjánsson

DV

Carpe Diem

Veitingar

François Fons ætti að stofna sérstaka matstofu fyrir sína skemmtilegu sérvizku, sem oft er bragðgóð. Hann hefur jafnan verið með fyrstu kokkum til að taka upp franskar nýjungar, svo sem nýfrönsku, léttu eldamennskuna fyrir tæpum tveimur áratugum og þá sveitafrönsku fyrir einum áratug. Hann getur áreiðanlega náð í viðskiptavini, ef hann rífst ekki of mikið við þá.

Fons hefur rekið inn nefið á ýmsum veitingastöðum og ekki alltaf staðið lengi við. Þess vegna er erfitt að benda á hann sem aðdráttarafl fyrir Carpe Diem. Hann getur verið farinn annað þegar þessi texti er lesinn. Auk þess er hann eðlilega ekki alltaf við. Í slíku tilviki kom dapurleg matreiðsla mér óþægilega á óvart.

Bourride-fiskisúpa hafði ekki snefil af fiskibragði og bragðaðist raunar eins og kokkurinn hefði misst saffran-staukinn ofan í súpuna, á jaðri þess að vera óæt. Skötuselur “að hætti François Fons” var eldaður sundur og saman, bragðlaus og borinn fram í ólystugum meðlætishaug. Lauksúpa “að hætti Halles” var mild og hversdagsleg laukssúpa með ristarbrauðsþaki. Betra var ofnsteikt íslenzkt grænmeti í eigin safa og balsamediki, kaldur og skemmtilegur forréttur. Góður var einnig meyr smokkfiskur með papriku og hvítlauk í góðri sósu þurrkaðra tómata.

Saltfiskur var fínn, borinn fram með olíuleginni sítrónu, bragðsterkri bökusneið kaldri og skinkubitum, baunagraut og ljósgulum, litlum baunum. Pönnusteiktar steinbítsræmur voru góðar, bornar fram með miklu af perlulauk og sveppum í brúnni og yfirgnæfandi Búrgundarsósu góðri. Hunangsgljáð og rósmarínkrydduð kjúklingabringa var meyr, borin fram í óviðkunnanlegum meðlætishaug með kartöfluþynnum og brúnni sósu. Verri var ofnsteiktur, grár og feitur lambahryggur á pönnusteiktum kartöfluþynnum undir haug af brúnni sósu.

Tatin-tertan var heit, en ekki köld og fólst í hálfum, bökuðum eplum, en nánast engu deigi og minnti lítið á uppskriftina. Karamellukrem var vanillubúðingur án karamellubragðs og karamellumarineraðar appelsínur voru súrar appelsínusneiðar án karamellubragðs.

Rauða og gula þemað í innréttingum Carpe Diem hefur verið eflt til að reyna árangurslaust að gera staðinn hlýlegri. Vélsmiðjuskreytingarnar hafa verið dempaðar, meðal annars með því að fjarlægja járnsoðinn vínrekk á miðju gólfi. Samt er þetta enn kaldur og stemmningarsnauður hótelsalur.

Hátt verðlag, 3.600 krónur fyrir þríréttað með kaffi, hæfir ekki tilviljanakenndri og brokkgengri matreiðslu staðarins og freistar ekki einu sinni embættismanna utanríkisráðuneytisins handan götunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kínahúsið

Veitingar

Á síðustu árum hef ég komið oftar í Kínahúsið við Lækjargötuna en nokkurt annað veitingahús. Margt er það, sem dregur, matreiðsla, verðlag og andrúmsloft, sem samanlagt gera Kínahúsið að einni af helztu matarvinjum miðbæjarins. Þar er framreiddur bezti Kínamatur landsins á hóflegu verði.

Stemningin er samt minnisstæðust, vingjarnleg og friðsæl, studd mildri tónlist austrænnar ættar að tjaldabaki. Einföld salarkynni lifna við vandaðar Kínaskreytingar á borð við ljósakrónur, útskorna tréskerma og skelplötumyndir. Vestræn þjónusta er hlýleg og látlaus.

Í hádeginu kostar rækjuréttur 575 krónur og þríréttað með súpu 675 krónur. Á kvöldin fást fimm smáréttir saman á 1375 krónur og ýmsar aðrar réttasyrpur á 1975 krónur að meðaltali. Meðalverð á þríréttuðu að frjálsu vali af löngum seðli með kaffi er 2.165 krónur.

Matreiðslan er vönduð og traust, alltaf eins, dag eftir dag og ár eftir ár. Djúpsteikingar eru hóflegar og eldunartímar skammir. Hér er sérstaklega eldað fyrir hvern og einn, en ekki ausið pottréttum upp úr hitakössum, svo sem víða tíðkast í veitingahúsum, sem sögð eru kínversk eða austræn.

Súpur eru yfirleitt matarmiklar, flestar eggjablandaðar, svo sem mild sjávarréttasúpa, sterk Pekingsúpa með andakjöti og sterk karríkrydduð andakjötsúpa. Bezt slíkra var humarsúpa með stórum og meyrum humarbitum. Súpa dagsins hefur verið tær og mild hvítkálssúpa, ekki áhugaverð.

Rækjur hafa reynst mér vel í ótal útgáfum. Algengastar og þó lakastar eru milt hjúpaðar, djúpsteiktar rækjur í súrsætri sósu. Betri voru pönnusteiktar rækjur með cashew-hnetum og rækjur í karrí með grænmeti. Aðrir sjávarréttir voru líka góðir, svo sem meyr og fínn hörpudiskur með sterkri ostrusósu. Of seigur var þó smokkfiskur með grænni papriku og bambusspírum.

Kjúklingar hæfa matreiðslu af þessu tagi, svo sem bragðsterkur Szechuan-kjúklingur með rauðri sósu, meðalsterkur kjúklingur í karrí eða mildur kjúklingur með grænmeti. Andakjöt er lakara og sízt er Pekingönd. Lambakjöt var sæmilegt með ostrusósu, sveppum og bambus. Vorrúllur hafa alltaf reynzt sérstaklega góðar, þunnar og stökkar, greinilega gerðar á staðnum.

Af eftirréttum er áhugaverðust eplarúlla, djúpsteikt pönnukaka með eplasultu. Jasmínte drekkum við með matnum og milt kaffi á eftir, ef tími vinnst til. Hingað fer ég oftast, þegar ég nenni ekki að elda.

Jónas Kristjánsson

DV

Iðnó

Veitingar

Iðnó er notalegast í björtu sumarveðri, þegar stórir og þétt settir bogagluggar veita útsýni yfir Tjörnina, en einnig þægilegt við kertaljós að kvöldi. Salurinn er smekklega gamaldags án þess að höfða til fortíðarþrár, gulbrúnn að lit, skreyttur panil neðan og veggsúlum á eina langhlið.

Lítið er um aðskiljanlegt dót, nema fuglastyttur í gluggum. Fyrst og fremst er allt vandað og stílhreint, borð og stólar, ísaumaðir dúkar undir glerplötum, tauþurrkur í hádegi sem að kvöldi og íhaldssamt borðstell. Að hætti evrópskra millistríðshótela eru pálmaplöntur á miðju gólfi.

Þessu fylgir traust og góð þjónusta og matreiðsla, sem stundum fer sínar eigin slóðir, en nær sjaldan hæstu hæðum. Enginn réttur var að neinu leyti misheppnaður, en fáir minnisstæðir. Með klofningi Tjarnarinnar í tvo veitingastaði hafa báðir erfingjarnir lækkað flugið í átt til meðalmennskunnar.

Frá systurstaðnum er ættuð kryddnotkunin, sem er helzti styrkleiki eldhússins, í mildri sesam- og balsamsósu með léttreyktri villigæsabringu, í saffran- og engiferblandaðri tómatsósu með hörpuskelfiski, í möndlublandaðri portvínssósu með silungi, og í hvítlauks- og fáfnisgrasasósu með lambarifjasteik.

Þetta kemur líka fram í súpunum, magnaðri tómatsúpu dagsins með steinselju og tómatbitum, og hvítvínslagaðri tómatsúpu með kræklingum í skelinni. Ljúflega eldaður hörpuskelfiskur var nærri eins góður og skemmtilega kryddaður humar að hætti hússins, borinn fram með rauðlauk og steiktum kartöfluræmum.

Sízti aðalrétturinn var ofeldaður silungur, skemmtilega húðaður smásöxuðum möndlum. Betri var olíusteiktur saltfiskur með hvítlauk og basilikum, undir hatti af kartöflustöppu og með rauðlauk til hliðar.

Kanínukjöt er á boðstólum, mitt á milli kjúklinga og grísakjöts og heldur betra, með blóðbergi og rauðvínssósu. Góð var hæfilega fituskorin og nákvæmlega elduð lambarifjasteik, fallega upp sett með kryddlegnum gulrótum. Bezti aðalrétturinn var eggjaspínatbaka fyrir grænmetisætur.

Svokölluð eplakaka var sívalt frauð án eplabragðs á litlum brauðbotni, með þeyttum rjóma, gulri kanilsósu og rauðri berjasósu. Hefðbundin var súkkulaðiterta með koníakssósu, tvenns konar berjum og þeyttum rjóma. Kaffi var gott.

Iðnó er heldur dýrara en systurhúsið, 4.100 krónur á mann fyrir þríréttað með kaffi og 1.600 krónur fyrir súpu og aðalrétt í hádeginu. Verðlagið vekur spurninguna, hvort ekki sé komið nóg af dýrum sæmdarstöðum, sem líkjast hver öðrum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrír frakkar

Veitingar

Í hádeginu er hljómkviða gemsanna á Þremur frökkum. Þar mega þröngt sitja sátt landssamtök gemsaeigenda sem tala ýmist saman yfir borðum eða sundur inn í gemsana, sem hafa tekið við af tóbaki, sem helzti spillir heimsókna í matargerðarhús.

Að öðru leyti er Þrír frakkar notalega franskur staður að útliti og innihaldi. Upprunalegu, franskættuðu innréttingarnar eru þar enn og verður tæpast nokkru sinni breytt, svo vel heppnaðar eru þær. Miðlægur zinkurinn er að vísu úr harðviði og borðin úr smíðajárni, en dúkarnir eru smárósóttir.

Í hádeginu er franskt bistróverð, 85 frankar (995 krónur) fyrir súpu og val milli tíu aðalrétta. Á kvöldin kostar hins vegar 3.300 krónur fyrir þríréttað með kaffi, eins konar milliverð. Í báðum tilvikum er staðurinn þétt skipaður.

Þetta er einn af hornsteinum íslenzkrar matargerðarlistar og fiskhús landsins númer eitt. Það býður jafnan dagsseðil með tæpri tylft rétta úr fjölbreyttu vali fisktegunda, yfirleitt nákvæmlega elduðum og með alveg óstöðluðu meðlæti, en með osta-rjómasósum, sem líkjast hver annarri í seinni tíð.

Heimsókn er alltaf ævintýri. Verður makríll eða kolmunni á boðstólum í dag? Verður það guðlax eða túnfiskur? Eigum við heldur að halla okkur að einhverju kunnuglegra, til dæmis hunangsmjúkum saltfiski, sem fæst hvergi betri í landinu, afar fínt elduðum, stundum með kapers og rauðlauk, stundum með tómatmauki og ólífum?

Súpa dagsins er alltaf tær og tómatrauðleit grænmetissúpa með grænmetisþráðum, bragðgóð og leiðigjörn í senn. Tilbreyting er í forréttum á borð við ristaðan hörpufisk undurmeyran með rauðlauk eða ljúft reyktan lunda með hunangssinnepssósu.

Hér voru hæfilega steiktar gellur í blaðlauk með mildri rjómasósu, sem kölluð var tómatsósa. Einnig smjörsteiktur skötuselur með skelfiski og sömu sósu, sem í þessu tilviki var kölluð kampavínsrjómasósa. Enn fremur pönnusteikt steinbítsflök með grænmeti og ofangreindri sósu hússins, sem gengur undir ýmsum nöfnum.

Meiri spenna fylgdi pönnusteiktum makríl með vel rjómaðri grænpiparsósu brúnni, fínum mat. Einnig ferskum túnfiski í góðri kampavínssósu, furðanlega lítið grófum mat. Lakari var guðlaxinn, sem er að eðlisfari slakt hráefni, en var hér bjargað fyrir horn með súrsætri sósu, sem yfirgnæfði réttinn.

Hér fékkst líka hæfilega elduð nautahryggsneið, feit og meyr, borin fram með sveppum og pönnusteiktum hýðiskartöflubátum. Eftirréttir eru alltaf hinir sömu, heit eplabaka kanilkrydduð, létt súkkulaðikaka með vanillusósu og of þétt skyrterta. Allar tegundir kaffis eru góðar, bornar fram með heimalöguðum súkkulaðidoppum.

Góðum vínlista fylgir skemmtilegt orðfæri þekkts háls-, nef og eyrnalæknis. Vín eru þar “löng” og “samfelld”, eins og “jarðvegur” eða “svartur pipar” á bragðið, þau eru “létt í nefi” og “fara alla leið”. Ég er einkum feginn hinu síðastnefnda.

Jónas Kristjánsson

DV

Tjörnin

Veitingar

Neistaflug hefur minnkað í eldhúsi Tjarnarinnar við Templarasund. Þar fékk ég tæplega útvatnaðan og þurran saltfisk að hætti þeirra húsmæðra, sem elduðu í gamla daga af því að þær urðu að elda.

En þar fékk ég líka ljúfan kola pönnusteiktan, afar franskan, með mildri tarragonsósu, stinnum hrísgrjónum og kartöflum. Einnig meyra og fínlega blálöngu með mildri grænpiparsósu, gulrótarþráðum og baunum.

Bilunareinkenni sjást hér og þar. Kryddblönduð og uppvafin bleikjuflök í turni voru sniðug að sjá, en þurr undir tönn. Aftur á móti var ristaður smokkfiskur meyr og fínn, með tómati, hæfilega litlu karríi og ítölsku blaðsalati.

Tjörnin hefur að undanförnu gert bezt í ýmsu öðru en fiski. Stórir furusveppir íslenzkir með hæfilega litlum granaosti og madeirasósu voru hápunktur máltíðarinnar, undursamlegir í bragði. Grænmetisréttur dagsins var líka frábær, fínlegur baunaréttur með mildri sósu og góðu heildarsamræmi í bragði.

Matreiðsla kjöts hefur raunar batnað við brottför Rúnars. Lambasteik með döðlum og rauðvínssósu var rósrauð og fínleg. Reyksoðinn svartfugl var fallega upp settur í stjörnu ofan á eplasalati, með doppum af piparrótarsósu og jarðarberjum í kring.

Auk þess að hafa fjarlægzt fisk má segja um matreiðslu Tjarnarinnar, að yfirleitt er hún næm eins og var hjá Rúnari, en fínlegri og daufari að frönskum hætti. Undantekningar eru til, svo sem skemmtilega indversk og mögnuð lime-karrí-kókossúpa dagsins.

Eftirréttir eru fáir en góðir. Fyrst er fræga að nefna gamla gúmmulaðið, súkkulaðitertu Rúnars. Bezt var raunar loftkennd Grand Marnier skyrkaka, notalega létt í maga. Ísinn var aftur á móti hversdagsleg tvenna með súkkulaðisósu.

Fyrir rúmu ári var Tjörnin bezta veitingahús landsins eftir að hafa í nokkur ár skipzt á um að hafa forustuna með Listasafninu á Holti. Nú virðist Tjörnin endanlega hafa gefið forustuna eftir og raunar annað sætið líka, gerir oftast vel, en ekki alltaf og mistekst raunar stundum.

Bilunin er ekki bara í matnum. Farið er að spara í fleiru en munnþurrkum í hádeginu. Settur var á vaktina ungþjónn, sem hafði ekki hugmynd um, hvað var í matnum á matseðlinum. Síðan komu elskulegar þjónustustúlkur og björguðu málum. En til eru staðir í bænum, þar sem starfsfólk veit, hver pantaði hvað.

Verðlag hefur lengi verið fast á Tjörninni. Þríréttað með kaffi kostar 3.560 krónur og súpa og réttur dagsins í hádeginu kosta 1.000 krónur.

Andrúmsloft afturhvarfs frá hvimleiðum nútíma er ekki eins notalegt og áður. Ég efast um, að samræmdur litur blár á panilveggjum og undirdúkum þjóni afturhverfinu. Áður höfðu haldið innreið sína samræmdar ljósakrónur.

Jónas Kristjánsson

DV

Primavera

Veitingar

Á Primavera trufla góðir þjónar ekki samræður gesta með spurningum um, hvernig smakkist maturinn. Að vafningalausum ítölskum hætti er slíkt gefið mál, sem ekki er til umræðu, nema gestir vilji endilega ræða það að fyrra bragði. Sjálfstraust hússins er gott og næg innstæða fyrir því.

Matreiðslan á annarri hæð við Austurstræti hefur farið batnandi þrátt fyrir vaxandi vinsældir og tekur nú flestu fram hér á landi. Bezt og ódýrust er hún sem fyrr í hádeginu, þegar þríréttuð veizla með miklu úrvali rétta kostar ekki nema 1.350 krónur á mann.

Forréttir voru yfirleitt léttir og nútímalegir. Góður var grillaður og mjúkur maísgrautur, borinn fram með tómötum og fínni hráskinku, afbragðs matur. Enn betri var hvítlauksristaður smokkfiskur, sem bráðnaði næstum á tungu, með gulum baunum og tómötum. Bezti forrétturinn var undurmjúk og fínleg spínatbaka með blaðsalati, sannkallað meistaraverk.

Hefðbundnari og þyngri matreiðsla var í sumum aðalréttum, ekki þó riffluðum pastarörum með brokkáli og hvítlaukssósu, nákvæmlega rétt soðnum. Ekki heldur í snöggbökuðum og ljúfum þorski með kartöflustöppu, hvítlauk og miklu af kapers. En dæmigerður var ofnbakaður lambaskanki með kartöflustöppu, grænmeti og fínu rauðvínssoði, ljómandi ítalskur og skemmtilega gamaldags.

Fínlegur og bragðgóður var rommbúðingur með hindberjasósu og kryddleginni appelsínu. Þurr og góð var möndlukaka með þeyttum rjóma. Að kvöldi voru eftirréttir einnig góðir, einkum undurlétt döðlu- og karamellukaka með sýrðum rjóma, sem hæfði vel. Góð var einnig fínleg og lagskipt ostakaka með kakóþaki.

Þótt matreiðslan sé líka góð á kvöldin, reyndist mér hún meira gamaldags, skör lægri og auðvitað dýrari, um 3900 krónur þríréttað með kaffi. Þorskakinnar voru of þurrar og festust milli tanna, bornar fram með góðum maísgraut og rauðvínssósu. Mild og einföld var grænmetisbaka með mozzarella-osti. Beztur forrétta var smjörsoðinn spergill grannur með mildu beikoni og kapersblandaðri olífu- og ediksósu.

Að kvöldinu var bezti aðalrétturinn cannelloni pönnukaka vafin um kjúklinga- og villisveppahakk, borin fram með miklu blaðsalati. Góðir og meyrir voru grillaðir sjávarréttir, rækjur og smokkfiskur, á tréspjóti, með óhóflega miklu af brenndu raspi gestakokks frá Brescia. Gamaldags matreiðsla í raspi var einnig á annars frambærilegri kálfasteik með kapers og ansjósusósu í stíl millistríðsáranna.

Þetta er staður með stíl. Hátt er til lofts, bjart og fagurt í matsalnum, þægilegir armstólar við glugga og fullbólstraðir stólar innar. Veggstór risaspegill gerir öllum kleift að sjá alla og gefur staðnum snobbað uppagildi, enda eru hér viðskiptamálsverðir í röðum á kvöldi sem í hádegi. Yfir staðnum vakir endurprentun Vorsins eftir Sandro Botticelli.

Hvítt lín er á borðum í hádegi sem að kvöldi, olífur, balsamsósa og ilmandi volgt brauð. Og þetta líka fína útsýni til embættis- og iðnaðarmanna, sem skjótast í Ríkið handan götunnar til að reyna að bjarga deginum fyrir horn. Þeir vita ekki, hve öfundsverð við erum innan við gluggana á Primavera, sem höfum þegar bjargað okkar degi.

Jónas Kristjánsson

DV

Hard Rock

Veitingar

Tommi er hættur og hávaði hefur aukizt, verð hækkað og gæði minnkað. Innihald hefur vikið fyrir umbúðum, örugg formúla aukinnar velgengni, enda er oftar en áður beðið eftir borðum á Hard Rock Café.

Staðurinn hæfir fólki, sem ekki þekkir annað en skyndibita og vill ekki annað en skyndibita; fólki, sem þolir tvöfalt verð fyrir góða hamborgara og daufa ímynd þess að vera úti að borða. Ósjálfstæðir viðskiptavinir eru ekki beinlínis að kaupa mat, heldur aðgang að þekktum stæl.

Hávaðavænn sogar staðurinn til sín afmælisbörn og túrista, drykkjulið og barnafólk, býður raunar vel þegna barnagæzlu á kvöldin. Ómstríðir hátalarar yfirgnæfa tónlistar-myndbandarásina og barnsgrátinn en eiga í harðri samkeppni við drykkjuliðið.

Hringlaga harðviðarbar úr vörulista hefur hrokkið inn á mitt gólf og storkar upprunalegum rokkminjastíl hússins. Að öðru leyti er húsbúnaður að mestu óbreyttur og þjónusta jafn alúðleg og ágæt sem fyrr.

Hér borga menn 975 krónur fyrir hamborgara og 1090 krónur fyrir samloku, 1750 krónur fyrir aðalrétt og 3170 krónur fyrir þríréttað með kaffi. Aðalréttur og súpa í hádeginu kosta 745 krónur.

Súpa dagsins var í eitt skipti hefðbundin, uppbökuð sveppasúpa og í annað sinn hveitilaus tómatsúpa, hvor tveggja með brúnu fransbrauði. Hard Rock Salat reyndist eins og annað salat hússins vera næsta einfalt jöklasalat, ferskt og hlutlaust.

Nachos voru fyrrum betri, þegar hörðu tortilla-flögurnar voru bornar fram sérstaklega, en ekki í graut með álegginu. Santa Fe-hveitikökur voru bornar fram í stórri eftirréttaskál með jöklasalati, fylltar creole-krydduðu kjúklingahakki.

Fiskur dagsins tókst bezt. Pönnusteiktur karfi með mildri gráðostsósu var mátulega eldaður, svo og grillaður lax með mildri sjávarréttasósu, hvor tveggja fremur mikið pipraður, borinn fram með jöklasalati.

Lasagna dagsins var bragðsterk og kjötmikil, með mjúku hvítlauksbrauði og jöklasalati. Hversdagsleg var grilluð samloka með meyrum kjúklingi, bráðnum osti, lárperumauki og auðvitað jöklasalati.

Faitas var gott, tortilla-pönnukökur í bauk og snarkandi grillaður kjúklingur og grænmeti á pönnu með lárperumauki og ýmsum sósum. Glóðargrilluð nautalund var smá í sniðum, en vel elduð, borin fram með bakaðri kartöflu og frönskum kartöflum í senn, svo og hinu endalausa jöklasalati staðarins.

Ostakaka var hversdagsleg og mjólkurhristingur hnausþykkur, hæfilegur og síður en svo minnisstæður endir á metnaðarlítilli og íhaldssamri matreiðslu. Kaffi var sæmilegt, svokallað espresso, stundum lapþunnt og stundum sterkt og gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Smiðjan

Veitingar

Smiðjan hefur árum saman kúrt af gömlum vana í hundrað ára gömlum kjallara hins vinsæla og ágæta Bauta við hornið á móti Kea og nýtur samflotsins. Fáir koma til að njóta snyrtilegs og hefðbundins veitingarýmis, menntaðrar þjónustu og matreiðslu, sem alltaf er eins, mildilega gamaldags og notaleg.

Smiðjan hefur árum og sennilega áratugum saman verið eini staðurinn á Akureyri, þar sem ég þori að borða fisk. Síðast var fiskur dagsins hæfilega lítið steiktur og ríflega pipraður steinbítur með fullmikið elduðu grænmeti og góðum kartöflum hvítum, fínn matur.

Því meira sem við Smiðjan eldumst, þeim mun notalegra finnst mér að koma þangað. Síðan innréttingunni var breytt fyrir tæpum áratug og sett upp glerlist í stað eins konar glugga, sem engir voru fyrir, hefur umhverfið verið notalegt og ekki kjallaralegt, magnað af meltingarbætandi klassík á lágum nótum.

Básar eru á annan veg og laus borð á hinn, með bleikum dúkum og þurrkum. Enginn þreytubragur er á neinum búnaði. Stólar eru þægilegir og matseðillinn eins illa prófarkalesinn og hann hefur alltaf verið. Sennilega er þetta einhver elzti matseðill í daglegu brúki hér á landi og ætti að fara á náttúruminjaskrá.

Verðlagið er mitt á milli Fiðlarans og Játvarðs. Í Smiðjunni kostar 3.830 krónur þríréttað með kaffi, í Fiðlaranum 4.450 krónur og í Játvarði, bezta staðnum, aðeins 3.150 krónur. Kannski er það gallinn við Smiðjuna, að hún er dæmigerður miðlungur, ekki afgerandi í neinu, hvorki dýr né ódýr.

Kryddlegin rjúpnabringa í rifsberja-ediksolíu var bragðgóð, fagurlega upp sett á disk með fallegu og fersku salati og smásöxuðu grænmeti, fyrsta flokks réttur. Humar var ljúflega meyr, borinn fram með áberandi hvítlauks- og engiferkryddaðri rjómasósu og grænmeti.

Fyrir aðalrétti var boðið hrásalat með eggjasósu. Mikið blóðbergskryddaður og ofnsteiktur lambahryggvöðvi var grár, en samt ekki orðinn seigur, borinn fram með leiðinlega uppbakaðri títuberjasósu og óvenjulega hóflega elduðum kartöflusneiðum í ostasósu.

Skyrterta var létt með bláberjahlaupi að ofan, borin fram með marsala-rauðvínssósu, svonefndu zabaglione, hér kallað sabajon upp á frönsku. Ferskir ávextir líkjörsristaðir Grand Marnier voru volgir og góðir, bornir fram með fremur góðum vanilluís. Kaffi var notalegt, við staðarhæfi.

Jónas Kristjánsson

DV

Pasta Basta

Veitingar

Meyr smokkfiskbelgur fylltur mildri krabbakjötsblöndu og síðan sneiddur, borinn fram á undurljúfum risotto-hrísgrjónagraut, var dæmi um góð tilþrif í eldhúsi Pasta Basta við Klapparstíg. Annað dæmi var einfalt og ljúft risotto með gráðostssnerpu í bragði, borið fram með fallegri salatskreytingu.

Hrísgrjón mynda samt ekki einkennisrétti staðarins, heldur óteljandi tilbrigði af góðum pöstum sem lagaðar eru á staðnum. Sedani-pastarör voru skemmtilega hóflega soðin upp á ítölsku, með bragðsterkum kryddpylsubitum, papriku, sveppum og vorlauk í óhóflega mikilli ólífuolíu.

Pastahrósið nær ekki til 890 króna hlaðborðsins í hádeginu, sem byggist á ferns konar köldum pöstum með blönduðum sjávarréttum, með túnfiski, tómati og rauðlauk, með kjúklingum og sveppum og með kryddlegnu hrásalati. Betra var að halla sér að fersku og skrautlegu blaðsalati með balsam-olíusósu og hlutlausu fiski-risotto með parmiggiano-osti. Hlaðborðinu fylgdi líka tær tómatsúpa, sérkennilega og skemmtilega skarpt krydduð með blóðbergi, basilikum og estragon.

Þríréttað tilboð dagsins kostar 2.380 krónur. Það fól í sér áðurnefnt gráðosts-risotto á undan og þrenns konar ís í stökkri pönnuköku með berjasósu á eftir. Aðalréttur þess var hunangsgljáð kjúklingabringa, of mikið elduð og ekki nógu meyr, borin fram ofan á ómerkilegum bauna- og grænmetisgraut, fljótandi á miklu magni af brúnni sósu og með skúffusteiktum kartöfluþynnum og einföldu hrásalati á hliðardiski.

Snöggsteikt hörpuskel var meyr, borin fram á afar ljúfu sítrónu- og hunangs-risotto. Kryddlegið nautafillet á salati, með furuhnetum og hindberja-ediksolíu, var tæpast nógu mikið legið, borið fram með fallegri salatskreytingu. Feneysk ostakaka skúffulöguð var góð að venju, en borin fram með miklu magni af óþarfri súkkulaðisósu volgri. Franskar vatnsdeigsbollur profiteroles með vanillukremi og sömu volgu súkkulaðisósunni voru þær beztu, sem ég hef fengið í bænum.

Fyrir mat er boðið ágætt og volgt brauð, bakað á staðnum. Snöggtum lakara var harðristað hvítlauksbrauð. Réttir af fastaseðli eru yfirleitt dýrir, pöstu á 1520 krónur og þríréttað með kaffi á 3.610 krónur. Þrátt fyrir verðlagið eru notaðir afgangar af mislitum og and-ítölskum pappírsþurrkum úr barnaboðum. Lítt skólað þjónustufólk er sumt hvert of uppáþrengjandi, truflar samræður gesta með sífelldri spurningu um hvernig maturinn sé.

Umgerð staðarins hefur lítið breytzt. Fremst er þröngur, groddalegur og notalegur kjallari framan við opið eldhús, með messingi milli bása, landakortum í stað veggfóðurs, ýmsu rusli til skrauts á veggjum og nýlegum örljósum í lofti. Inn af er glerskáli sem orðinn er notalegur síðan gróðurhafið náði sér upp. Innst er svo tjaldskáli sem tekur við reykingafólki, sjálfhverfum leiklistarspírum og öðru yfirfalli staðarins.

Jónas Kristjánsson

DV

Bing Dao

Veitingar

Kínversku veitingahúsi var fyrir fáum árum djarflega skákað inn á aldamótagömul pakkhúsloft Gránufélagshúsanna frá aldamótunum við Strandgötuna utanverða á Akureyri. Ég minnist þess að hafa fengið góðan mat snemma á ferli þess. Nú rífst kokkurinn svo hátt á íslenzku inni í eldhúsi að það heyrist fram í sal.

Hreinsað hefur verið út af loftinu svo að burðarvirki og fulningur norræns kaupskaparhúss sést. Vandað timburgólf hefur verið lagt og síðan komið fyrir hálfum gámi af Kínalugtum og -blævængjum milli stoða, bita og skástífa. Niðurstaðan er Bing Dao, svo fáránleg, að hún jaðrar við að vera skemmtileg.

Andstæðurnar skerptust enn, þegar spariklæddur og fagmenntaður þjónn af íslenzkum víkingaættum vísaði kurteislega til sætis við græna dúka og bleikar tauþurrkur undir litlum gluggum, sem veittu útsýni yfir snyrtilega strandlengju til skemmtiferðaskipa á Pollinum. Staðan í skákinni byrjaði ekki að gliðna fyrr en komið var að kínverska matnum.

Fyrst kom á borð ristað brauð með frosnum smjörkúlum. Tim Yum súpa var sterkt kryddsoð með grænmeti, ekki merkilegt. Léttsteikt grænmeti með indversku karríi var válegur fyrirboði aðalrétta, ljótur réttur undir miklu magni þykkrar hveitisósu.

Við annað tækifæri var kokkurinn ljúfari. Þá hvítlauksristaði hann meyran hörpufisk, sem borinn var fram á salatbeði með hörðum og stökkum hrísgrjónanúðlum. Enn fremur léttsteikti hann meyran smokkfisk á hrísgrjónabeði með sterkri ostrusósu.

Kjúklingar eiga að henta kínverskri matreiðslu. Heldur mikið eldaður kjúklingur í sterkri apríkósu- og karrísósu var betri en þurrir kjúklingabitar í mikilli og þykkri hnetu-hveitisósu með kínverskum sveppum, ljótur réttur. Líklega er til of mikils mælzt, að íslenzkur kokkur skilji kínverska matreiðslu.

Samt tók ekki steininn úr fyrr en kom að valinu úr kafla íslenzkra rétta á matseðlinum. Grillaðar lambalundir voru gráar og seigar, nánast harðar, bornar fram með saffrankryddaðri eggjasósu og ofsteiktu grænmeti. Kokkurinn hafði yfirgefið Vesturlönd án þess að hafa fundið Austurlönd.

Ískrem reyndist vera bráðinn vanilluís, borinn fram með ferskum ávaxtabitum. Ostakaka hússins var hin þéttasta sem ég man eftir að hafa fengið. Kaffi var í lagi.

Tapskákirnar á Bing Dao voru ekki gefnar. 3450 krónur greiðast að meðaltali fyrir þríréttað. Í hádeginu fæst hlaðborð með súpu, heitum réttum og köldum á 790 krónur, sýnu vænlegri kostur, sem ég hef ekki prófað.

Jónas Kristjánsson

DV

Ópera

Veitingar

Ekki veit ég hvers vegna hvítlauksristaður, frekar þurr, en ekki beinlínis seigur skelfiskur heitir Brak og brestir á matseðli Cafés Óperu. Þetta voru rækjur, hörpudiskur og kræklingur, sem bjargað var fyrir horn með ágætlega krydduðu og rjómuðu skelfisksoði. Undarlegir stælar af ýmsu tagi einkenna oft veitingahús, þar sem takmarkaður áhugi er á matreiðslu.

Salat Lyonnaise er skólabókaræfing, sem ætti að gefa möguleika, en hér var það einfalt jöklasalat með ristuðum brauðteningum, eggi og agnarögn af reyktu fleski, næsta ómerkur forréttur. Betri var rifinn hrálax með jöklasalati, eggjarauðu, rauðrófu og kapers, nákvæm og eðlileg stæling á buff tartar.

Ekki veit ég, hvers vegna steinasteik með humar og grófskornu grænmeti heitir Brim og boði á matseðlinum. Hins vegar veit ég, að gestir eiga auðvelt með að sigla í strand, þegar þeir hafa ekki einu sinni hliðardisk til að reyna að jafna steikartíma í tveggja tíma borðhaldi. Rétturinn ætti að heita Of og van í senn. Hráefnið er raunar meyrt og ferskt, en ókryddaður Galloway er bragðlaus.

Steinasteikin hefur árum saman hentað athafnafíklum, sem vilja heldur borga 2.890 krónur á steikina og 4.460 krónur á þríréttaða máltíð fyrir að fá að steikja undir þaki í miðborginni í stað þess að þurfa að grilla ókeypis í roki og rigningu úti í garði heima hjá sér. En hafa verður í huga, að verðlagið er nálægt Íslandsmeti.

Fiskur er ekki í náðinni í eldhúsinu. Þunnar sneiðar af grillaðri stórlúðu voru einstaklega þurrar, greinilega frystar, bornar fram með miklu af rækjum, grænmeti á teini, bakaðri kartöflu og ágætri hvítlaukssósu. Grimmdarsteiking var líka á andakjöti í sterkri og svartri sósu, sem hét glóaldinsósa, en meðfylgjandi grænmeti var hóflega steikt.

Eftirréttir voru ekki merkilegir. Þurr terta með ostarönd var kölluð bakaður ostamarmari, borin fram með tvenns konar súkkulaðisósu, ljósri og dökkri. Epli var hóflega djúpsteikt með óvenjulega þéttum ávaxtaís og mangósósu. Minnissstæðast, frumlegast og bezt var súkkulaðihúðað spaghetti, sem dempaði sætubragðið af sósunni.

Á löngum og hægum hnignunartíma matreiðslunnar hefur Ópera jafnan verið vel sótt. Krárstemning er oftast góð í þægilegum tréstólum við glansandi viðarlíki í borðum. Umgerðin er notaleg á efri hæð gamla hússins á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Lítillega ofhlaðnar rustaskreytingar hæfa gömlu húsi, marrandi trégólfi, bitalofti og rómantískum smágluggum með fortíðarútsýni til Bernhöftstorfunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Fiðlarinn

Veitingar

Lengi lifði Fiðlarinn á þaki Akureyrar á glæsilegu útsýni til þriggja átta og til þeirrar fjórðu af barnum út fjörðinn. Matreiðslan stóð ekki undir háu verði en nú hefur hún batnað. Þjónustan var alltaf góð og er það enn hjá yfirþjónum en of mikið er treyst á lærlinga.

Háir gluggar, viðarloft, glerkúluljós og rauðir litir í teppi, stólum, dúkum og gluggatjöldum, veita virðulegt yfirbragð, sem hangandi píanó og fiðla í lofti hlaða listrænni spennu. Nokkrar gerðir árgangspúrtvíns í löngum vínlista gefa í skyn, að hér sé alvara á ferð. Þetta er hæfileg umgerð um 4.450 króna skýjareikning fyrir þríréttað með kaffi.

Kjúklingalifrarkæfa var sérkennilega römm og minnisstæð, með furuhnetum og rúsínum í ediksolíu, fyrsta flokks tilraun. Fjórar risahörpuskeljar á trépinna voru bragðlausar út af fyrir sig en skemmtilega kryddaðar sítrónugrasi, hvítlaukssmjöri og mórillusveppum, bornar fram með bragðmiklum hrísgrjónum.

Skemmtilegar en ofkeyrðar andstæður voru í sterklega saffran- og sítrónukryddaðri kræklingasúpu, sem sýndi eins og lifrarkæfan tilþrif og frískleika í eldhúsi.

Fiskur er ekki spennandi á matseðli, engin breyting frá degi til dags, heldur hefðbundið lágmarksframboð fjögurra fisktegunda, sem auðveldast er að geyma í frysti, svo sem eldislax og skötusels. Betra er að halla sér að kjötinu á Fiðlaranum, en fara í Smiðjuna, ef maður vill fisk á Akureyri.

Heilsteikt nautalund var meyr og bragðlaus, sennilega úr Hrísey, ekki merkileg út af fyrir sig, en haldið uppi af perlulauk, sveppum og höm að Búrgundarhætti, svo og ágætlega kryddaðri kartöflustöppu.

Lambalundir voru bezti réttur staðarins, innbakaðar í ristuðum kartöflum, fallega upp settar í þremur turnum, bornar fram með rósmarínsósu og góðu salati. Þetta var dæmi, sem gekk upp, Stradivarius Fiðlarans.

Eftir risið kom hnig eftirréttanna, sem voru eingöngu ísar. Vanilluís með jarðarberjum var vanilluís með jarðarberjum, en maple-ís með sítrónubúðingi og hindberjasósu var sér á parti, fallegur og hressandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Játvarður

Veitingar

Lifnað hefur yfir matargerð á Akureyri meðan Reykjavík hefur árum saman staðið í stað. Fiðlarinn hefur batnað og kominn er til sögunar Játvarður á horni Strandgötu og Glerárgötu, skemmtilega hannaður staður með fínlegri matreiðslu, ef sneitt er hjá fiski, svo og elskulegri þjónustu, sem getur svarað spurningum um matinn.

Játvarður er þrauthannaður niður í smáatriði á borð við stílhreinan matseðil og framsetningu rétta á diski. Fallegur vínrekkur blasir við anddyri. Veitingasalurinn er allur á mjóddina til beggja hliða, skiptur að endilöngu með súlnaröð og svörtum skermum. Grófar flísar í gólfi og fínleg örljós í lofti falla að smekkvísi heildarinnar.

Hér er milliverð á matseðli, aðalréttir á 1.610 krónur að meðaltali og þríréttað með kaffi á 3.150 krónur. Undir sefandi tónum Frankie Boy og Bing Crosby gátum við því sætt okkur við glerplötu, óbrjótanleg vatnsglös og pappírsþurrkur ofan á dúklögðu borði.

Fagrir og fínir forréttir nutu sín vel á kryddlegnum grænmetisþráðum. Pönnusteiktur humar og skötuselur rann á tungu með fínlega kryddaðri hvítlaukssósu þunnri. Sama var að segja um ristaða hörpuskel með sterkri sojasósu og eldsteikta snigla með bragðmildri hvítlauks- og engifersósu.

Lárperu og fetaost skorti að mestu í jöklasalat, sem kallað var ferskt sumarsalat, en þurrkaðir tómatar og hæfileg edikolía björguðu réttinum næstum fyrir horn. Lakasti rétturinn var harðsteiktur karfi í smjöri, borinn fram með mildri mandarínusósu og langsteiktum kartöflum. Raunar er ekki auðvelt að fá góðan fisk utan Reykjavíkur.

Aðra og betri sögu er að segja af kjötréttunum. Afar gott var ofnbakað og mjúkt kálfainnanlæri með mildri salvíusósu og milt hvítvínsoðnu grænmeti. Sama var að segja um feitar og safaríkar lambahryggsneiðar með þunnri og sterkri rósmarínsósu. Léttsteiktar og rósrauðar svartfuglsbringur voru í svipðum gæðaflokki, með þunnri og bragðmildri sólberjasósu.

Ostadiskur var ómerkilegur eftirréttur. Góður var hins vegar léttur súkkulaðifroðuturn með skógarberjasósu og og góð var sæt konfektterta með ferskum ávöxtum og ástríðualdinsósu. Kaffi var gott.

Játvarður er í steyptri jarðhæð, sem varð til við að tékka upp tvílyft timburhús. Hann er upplyfting í bókstaflegri merkingu eins og í menningu og matargerð.

Jónas Kristjánsson

DV

Ítalía

Veitingar

Við vorum komin hálfa leið til Ítalíu. Veitingamaðurinn á Laugavegi 11 stóð við skenkinn og vakti traust með því að kallast í síma á við birgjana, svo að ómaði um allan sal. Ítalska og íslenzka víxluðust á ýmsa vegu með hæfilegum úða af perfetto og ciao .

Eignarhaldið er ítalskt, kokkarnir eru ítalskir, gæðaþjónustan er hálfítölsk, vel valið vínið er að mestu ítalskt og tilviljanalegar veggskreytingar eru ítalskar. Það, sem tæpast hékk í ítölskunni, var matreiðslan, sem þætti í slöku meðallagi heima fyrir. Bakaðar kartöflur og amerískar pítsur eru raunar einkennistákn hennar.

Fullmikið elduð pöstu og hrísgrjón gátu ekki talizt stinn upp á ítölsku og bezt gæti ég trúað, að pastað væri úr pökkum. Hvort tveggja var þó gott á mælikvarða íslenzkrar hefðar. Pítsur staðarins voru gallalausar, jafnar og mjúkar, með hæfilega hörðum kanti.

Ítölsk matreiðsla er eðlisgóð, einföld og eðlileg, hættir sér ekki í franskar flækjur og ofgerir ekki. Íslenzk áhrif valda því hins vegar, að Ítalía við Laugaveginn víkur af sporinu með óhóflegum sósum og olíum, sem deyfa aðalbragðið og sjónmenga réttina.

Sjávarrétta-spaghetti leið fyrir þetta, flaut miður kræsilega í mildri tómatsósu, en var eigi að síður bragðgott. Betur tókst til með tómatsósulaust sjávarrétta-risotto, þar sem góða, steikta hrísgrjónabragðið náði fram að koma.

Yfirþyrmandi ostaþak á fiski dagsins skyggði á góða smálúðubragðið. Spínatgrunnurinn var hins vegar góður, átti vel við fiskinn og fól í sér hæfilegt meðlæti að ítölskum hætti. Bakaða kartaflan var utangátta.

Of mikið olíuvætt árstíðarsalat með blönduðum sjávarréttum var ofviða þunnum pappírsþurrkum. Blaðsalatið var þó ljómandi ferskt og sjávarréttirnir meyrir og bragðgóðir. Pönnusteiktu, hvítlaukskrydduðu og snarpheitu sveppirnir voru betri og einfaldari forréttur, en bornir fram með heilhveiti-geymslubrauði.

Annar bezti rétturinn var eldbökuð og mintukrydduð lambakóróna, bleik og mjúk, borin fram að bandarísk-íslenzkum hætti með hrásalati og gettu nú: Bakaðri kartöflu. Hinn bezti rétturinn var feneysk tiramisu, kaffi- og kakókrydduð ostakaka, hæfilega þurr, með þeyttum rjóma og vínberjum.

Súpur eru staðarsómi, indæl hvíld frá íslenzkum kremsúpum. Jafnvel linsubaunasúpa reyndist vera góð, matarleg og létt í senn, tómatlöguð grænmetissúpa. Súpa dagsins með aðalrétti dagsins fæst á góðu verði í hádeginu, 750 krónur. Annars er verðlagið fremur hátt, tæpar 3.800 krónur að meðaltali þríréttað með kaffi.

Ítalía hefur frá upphafi verið vinsæl meðal ungs sporgöngufólks og ferðamanna, sem sitja þröngt og sátt í gerviblómahafi og drekka vín úr eftirréttaskálum. Andrúmsloftið er fjörlegt og gott, en ég sakna Ítalíu.

Jónas Kristjánsson

DV