Veitingar

Argentína

Veitingar

Bæjarins bezta steikhús hefur dalað. Þótt nautakjötið á Argentínu sé enn af íslenzkum stofni, vel verkað og vel eldað, er það ekki alveg eins innanfeitt og safaríkt og það var áður fyrr, enda hafa bændasamtökin lengi verið að reyna að útrýma þessum bragðmikla stofni í þágu innfluttra nautakynja.

Þetta eru dýrustu og enn þá beztu nautasteikur landsins, seldar eftir þyngd og með vali milli fimm steikingartíma, bornar fram með bakaðri kartöflu og pönnusteiktu grænmeti, svo og fjórum sósum. Steikurnar kosta að meðaltali um 2.800 krónur og þríréttað með kaffi kosta þær um 4.600 krónur.

Nautasteikurnar góðu eru það eina, sem réttlætir verðlag, er jaðrar við Íslandsmet. Önnur matreiðsla er stöðluð og hversdagsleg, þótt hún sé traust. Þjónusta er góð, en hún er það líka víðast hvar í bransanum. Munnþurrkurnar eru úr pappír og duga ekki í viðureign við hrásalat, sem flýtur í sterkkryddaðri olífuolíu.

Sérkennileg aðkoma er að Argentínu um löng göng með hrjúfu gólfi inn að yfirbyggðum húsagarði. Þar er komið inn á þröngan bar með setustofum á annan veginn og veitingasal á hinn, þar sem gestir sitja í gæruskinnsklæddum básum og rýna í matseðla með hjálp vasaljósa í myrkrinu.

Dimman hæfir vel ljótum innréttingum úr groddalegu timbri og gervimúrsteinum. Við þekkjum formúluna frá argentínskum steikhúsum víða um heim og látum ekki hugfallast, því að undantekningarlítið glóir á góðar steikur á viðarkola-eldavél í salnum.

Maískökusneiðar á hrásalati voru bragðgóðar, salatið ferskt og olífuolían skemmtilega krydduð. Grillaður risahörpufiskur minnti hins vegar á surimi, bragðlaus og festulaus, eins í gegn, borinn fram með mildri chili-sósu. Bezti forrétturinn var kryddlegið andalæri, meyrt og gott, hóflega sykurgljáð, með plómusósu.

Lambahryggvöðvi með fáfnisgraskrydduðum sinnepsgjáa var miðlungi steiktur, þótt beðið væri um hann eins lítið steiktan og kjötið þyldi, borinn fram með steiktu grænmeti, sem hafði gleymzt á pönnunni. Sams konar grænmeti með nautakjöti við annað tækifæri var hins vegar snöggsteikt, stinnt undir tönn og gott.

Nautalundir eru bezta nautakjötið á staðnum, betri en piparsteikin, sem fylgir fast á eftir. Þótt kjötið sé nógu meyrt til að gera óþarfar sósurnar fjórar, er ekki hægt að skera það með gaffli eins og oft í gamla daga.

Eftirréttir, einkum ísar, eru minnisstæðir, en ekki merkilegir. Myndarlegur karamelluísturn var stinnt reðurtákn. Volg jarðarber voru borin fram með vanilluósu, sem dempuðu berjabragðið. Espresso-kaffi var þunnur þrettándinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Lækjarbrekka

Veitingar

Juan Mari Arzak í San Sebastian í Baskalandi tókst að gera mér gott úr saltfiski með súkkulaðisósu, en Lækjarbrekku heppnaðist ekki eins vel karfi með ávaxtasultu, sem kölluð var ávaxtasalat á matseðli. En karfinn var hóflega eldaður, hrísgrjónin fínt krydduð og fráhvarf frá hefðinni vel þegið.

Gestur utan af landi talaði hátt eins og í símann í gamla daga og þakkaði sérstaklega vel fyrir súpu dagsins, sem var uppbökuð hveitisúpa með miklu magni af fennikku, kölluð blaðlaukssúpa. Þetta er þjóðarsúpan sjálf, hvort sem hún heitir sveppasúpa eða eitthvað annað, sérkennileg leðja, sem menn hafa vanizt.

Þannig er matreiðslan í Lækjarbrekku, rambandi út og suður, góð, frambærileg eða vond eftir atvikum. Með annarri hendinni eru gerðar forvitnilegar tilraunir, en með hinni er farið eftir verstu hefðum.

Í forrétti eru boðnar ágætis lundasneiðar og hráar hangikjötssneiðar, en út á meðfylgjandi rauðlaukssalat var sett rauðrófusósa, sem sló réttunum út í rautt. Beðið var í aðalrétt um mildilega steikt lambakjöt, en það kom grátt á borð, of þurrt og of saltað, rétt eins og tíðkaðist fyrir áratugum á þjóðvegi númer eitt.

Vel heppnað var humarrisotto með vel fersku salati. Ofnbakaður saltfiskur var of saltur að hætti Íslendinga, undir stinna kartöfluflöguþakinu, sem kokkar læra í skóla, en sem betur fer ekki borinn fram með stökku grænmeti matseðilsins, heldur fersku salati, svo og tvenns konar olífumauki bragðmiklu.

Allir eftirréttir staðarins eru með ís, nema osturinn og skyrið. Þannig var meira að segja heitur crème brûlèe sykurskorpu-appelsínubúðingur borinn fram með súkkulaðiís og rann saman í ljóta blöndu. Skyrið var afar létt og gott, nánast eins og þeyttur rjómi, borið fram með of þéttu bláberja-ískrapi.

Pappírsþurrkur og álsmjör fylgja lágu hádegisverði hveitisúpu og aðalréttar á 1090 krónur, en tauþurrkur og tvenns konar smjör fylgja háu kvöldverði, þar sem þrír réttir og kaffi kosta um 4.070 krónur á mann.

Þjónusta er góð og lærð í Lækjarbrekku, velkist ekki í vafa um, hver hafi pantað hvað. Andrúmsloftið er notalegt, undir stjórn Borgundarhólmsklukku, sem slær á kortérs fresti og vekur upp angurværa fortíðarþrá, þegar slíkar klukkur ólu fólk upp fyrir einni öld í fullvissu þess, að heimurinn væri í föstum skorðum. Sem hann reyndist ekki vera.

Vinalegt hús á bezta stað bæjarins freistar útlendinga, sem verða ekki fyrir vonbrigðum, þegar þeir koma í gamlan og notalegan aðalsal, sem snýr að Bakarabrekkunni, með trégólfi og trélofti, þægilegum húsbúnaði og tilviljanaskreytingum.

Gerviblóm og græn vatnsglös á glerplötum yfir hekluðum dúkum eru hér við hæfi, alveg eins og ómerkar myndir og stórir speglar í svifstílsrömmum úr gylltum pappa. Of hávær dósatónlist spillir þessu andrúmslofti, en í horninu þegir flygill, sem orðinn er að skrautbar með heimsins bezta brennivíni, fínasta calvados.

Jónas Kristjánsson

DV

Naustið

Veitingar

Naustið er í þykjustuleik, hamborgarastaður frá þjóðvegi eitt, sem hefur rambað á vitlausan stað í notalegar og sögufrægar innréttingar við neðanverða Vesturgötu og þykist vera enn fínni en Holtið. Verðlagið er sama og á Holti og matseðillinn telur nærri hundrað rétti, þar á meðal fasana og elg, rétt eins og hér sé eitthvert Maxim’s.

Framboð sautján tegunda villibráðar er hluti af órunum. Á matseðlinum er tekið fram, að villibráðin sé háð árstíðabundnu framboði, en ekki hefur fengizt upplýst, hvenær árstíð fasana og elgs verður í Naustinu.

Stórkarlaleg matreiðsla var einkenni staðarins, nánast tilfinningalaus fyrir samsetningum í bragði eða lit. Hún lagði áherzlu á bragðsterkar sósur og kryddmokstur. Tómatsósa yfirgnæfði glóðarsteiktan silung og kryddjurtasósa yfirgnæfði lambalundir. Villibráðarsósa með svartfugli reyndist vera uppbökuð hveitisósa, þykk og ólystug.

Nöfn rétta og lýsingar eru af handahófi á matseðli. Kjötseyðið reyndist vera þunn sojasósa í ætt við japanska miso, en bragðsterkari og bragðverri. Það, sem heitir íslenzk skelfisksúpa í enska textanum, heitir suðurevrópsk Baskasúpa í íslenzka textanum.

Grafin gæs á stökku blaðsalati var sérkennilegur og ljótur réttur, þar sem ofkryddaðar gæsaræmur lágu ofan á haug af alfaspírum, en alls engu blaðsalati, svo og nokkrum bláberjum. Ofreykt hámeri var líka ofkrydduð, borin fram á mosagrænni sósu.

Kjötstrimlar að mexikóskum hætti reyndust vera þjóðvegar-eitt-gúllas af þykkum og seigum kjötbitum, eins og það var áður en Íslendingar lögðust í pylsur og borgara til að spara tennur og hraða meltingunni.

Svartfugl var borinn fram með soðnum grænmetishaug, sem í hafði verið stungið langri smjördeigssveðju með grænum sykurleka niður eftir annarri hliðinni. Þetta getur hafa átt að vera nútímalistaverk, ljótt og ólystugt.

Vínlistinn er óvenjulegur, byggist að mestu á fjölbreyttu framboði frá fáum framleiðendum og lítt þekktum, eins og konar vínkynning, þar sem tilraunadýrin borga fyrir sig.

Gaman væri að vita, hvað býr að baki stöðugum straumi ferðamanna í Naustið. Einhverjir hljóta að mæla með staðnum og væntanlega á einhverjum forsendum. Ekki er það vegna matarins og ekki út af verðinu, sem er rúmlega 4.200 krónur fyrir þrjá rétti og kaffi.

Tæpast getur það verið vegna þjónustunnar, sem er ættuð frá hamborgarastöðum við þjóðveg eitt og er ágæt sem slík. Maturinn er borinn rösklega á borð, en lítið sinnt um gesti þess á milli. Að ná auga þjóns er nánast útilokað, jafnvel þegar ekkert er að gera.

Miklu hefur verið breytt í innréttingum, meðal annars í aðalsalnum, þar sem nú er gengið niður sjávarmegin eftir krókaleið úr anddyri. Beina leiðin úr anddyrinu liggur hins vegar upp á loftið, þar sem innréttaður hefur verið salur, sem hentar vel, ef heilu rúturnar villast af þjóðvegi eitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Listasafnið

Veitingar

Ofnsteikt kálfakinn, vafin í mörgirni, borin fram með bragðmildum linsubaunum grænum var vel heppnað dæmi, sem sýnir, að Listasafnið á Hótel Holti ber í matargerðarlist af öðrum veitingastofum landsins. Þar fara saman frumlegir réttir og nærfærin matreiðsla, sem gerir jafnvel baunir að ljúfmeti.

Annað dæmi af þessu skemmtilega tagi var guðlaxatartar og karamellu-piparsteikt risahörpuskel undurmeyr, borin fram með eggjarauðu og sítrónublandaðri olífuolíu. Efnisval og efnistök voru einstæð. Ég fæ ekki svona mat heima hjá mér.

Ég minnist líka indæls kola- og hörpuskeljaragús með sveppum og graslauki, borins fram með skalottulauks-hvítvínssoði. Einnig er minnisstæður hrár lax með blöndu af eggjahvítu og kapers, höm og steinselju. Helzt vildi ég borða hvern forréttinn á fætur öðrum á Holti.

Fiskréttir voru óaðfinnanlegir. Þar á meðal var hæfilega lítið steiktur steinbítur með hvítlaukskrydduðu blómkáli, hæfilega lítið elduðu, borinn fram á blóðbergsblandaðri paprikusósu. Einnig hæfilega lítið kryddsteiktur karfi með osthrísgrjónum, spínati og rauðrófusósu.

Osthrísgrjónin með karfanum voru á ítalska vísu, steikt fyrst og síðan soðin í litlu vatni og loks blönduð Mascarpone bræðsluosti. Þau eru eins og linsubaunirnar fyrirtaks dæmi um, hvernig breyta má hversdagslegasta hráefni í veizlukost, sem ber af öðru hér á landi.

Ekki var gefið eftir í kjötréttunum. Á tungunni rann hæfilega lítið steikt aliandarbringa með gljáðum hreðkum, sætum hvítlauk í heilum rifjum og portvínsblandaðri berjasósu. Einnig ofnsteikt og bragðsterkt kálfainnralæri í eigin safa, með stappaðri sætukartöflu, stöppuðum hvítbaunum, fögrum og góðum spergli og grænum olífum

Með kálfakjötinu var bragðmild og fín kálfabrispylsa með þungum negultóni í bragði, enn eitt dæmið um, að Listasafnið á Holti hefur faglegan og listrænan styrk til að fara eigin leiðir og sigrast á óvenjulegum verkefnum.

Eftirréttir voru fyrst og fremst léttir og skemmtilegir, hressandi mangófroða; feneysk ostaterta tiramisu með kirsuberjum, brómberjum og karamellusósu; og gullappelsínu-sulta með volgu súkkulaði, makkarónum og sósu úr mangó og ástríðuávöxtum.

Holtið felur ekki bara í sér óaðfinnanlegan mat. Þjónustan er einnig metnaðarfull, kunnáttusöm í smáatriðum og hefur allt á hreinu um matreiðsluaðferðir og víntegundir. Þetta er allt saman hluti af áratuga hefð, sem heitir Holt og er betri um þessar mundir en nokkru sinni fyrr.

Yfirstærðar-málverk, massífur góðviður og steindir gluggar eru hæfilega notalegur og friðsæll umbúnaður um þríréttaða veizlu með kaffi fyrir 4.400 krónur á kvöldin og aðeins 1.900 krónur í hádeginu; veizlu, sem hátt er yfir aðra staði hafin í sama verðflokki.

Jónas Kristjánsson

DV

Rauðará

Veitingar

Í Rauðará er eldsteikt. Ef þú vilt ekki nautasteik, geturðu fengið lambasteik, laxasteik eða steinbítssteik. Ef þú vilt þetta ekki piparteikt með piparsósu, geturðu fengið það sinnepssteikt með sinnepssósu. Með öllum réttum fylgir bökuð kartafla og þrautsteikt grænmeti. Þú getur valið fimm steikingartíma og tvær stærðir skammta, báðar stórar. Þetta er steikhús.

Ekki er allt staðlað. Grimmdarleg risamálverk Baltasars af þjáningum í helvíti geta valdið lystarstoli. Nautasteikin getur verið góð, en hún getur líka verið óæt. Yfirþjónninn er svo önnum kafinn við að vera kammó, að hann tekur ekki alvarlega ábendingar um, að nautakjöt sé skemmt. Og efnisrýrar pappírssérvéttur skera í augu á stað, þar sem ætlazt er til, að gestir borgi rúmlega 4.000 krónur fyrir þríréttað með kaffi.

Rauðará er afar hannaður og ýktur veitingastaður í gömlu brugghúsi við Rauðarárstíg. Úr veitingasal upp í koníaksstofu rís hringstigi, smíðaður innan í gömlum bruggkatli. Ráðizt hefur verið með loftpressu á múrsteinsveggi ketilsins og þannig búnar til syllur fyrir skraut. Hringstiginn er stolt hússins, skreyttur jólaseríu.

Bogahvelfingar, gluggaleysi, smíðajárn og kerti framkalla rómantík, þegar dósatónlistin er ekki stillt upp úr öllu valdi og gestir horfa ekki á málverkin. Leiðsögumenn senda hingað erlenda ferðamenn, sem vilja komast í steikhús. Þeir fá í kaupbæti yfirþjón, sem gengur milli borða og gernýtir brandarana sína.

Hér vantar ekkert nema þjónustulið skipað þrýstnum stúlkum og stæltum strákum í þjóðbúningum til að syngja tvíræðar þjóðvísur við undirleik fiðlusargara milli rétta. Þá gætum við verið hvar sem er á Bretlandseyjum og túristarnir yrðu jafnvel enn hamingjusamari.

Hér er líka hægt að fá gott að borða. Súpur reyndust ágætar; fínleg sveppasúpa og bragðsterk sjávarréttasúpa með laxi, lúðu og rækju, báðar hveitilausar, vel rjómaðar og bornar fram með hvítlauksbrauði. Mexikanskur salatréttur var líka góður, með fersku, fallegu og fjölbreyttu hrásalati í stökkri brauðskál, borinn fram með ferns konar sósum.

Humar í skelinni var ofeldaður og ofkryddaður, fallega fram borinn. Laxinn var líka ofeldaður og þurr. Sjávarréttir eru ekki aðalsmerki hússins, enda kannski ekki ætlast til slíks í steikhúsi.

Bezt tókst eldhúsinu upp í hvers konar kjöti öðru en nautasteik, svo sem fyrsta flokks kálfalundum, meyrum og fínum; rosalega meyrum og góðum kjúklingum í hunangshjúp og fínum lambalundum, skemmtilega hressilega krydduðum. Þessir toppar eru með því bezta hér á landi og benda til, að kokkinum geti hentað betur að stunda alvöru-matreiðslu en að eldsteikja ofan í ferðamenn.

Í eftirrétt var að íslenzkum hætti boðið upp á ís eða tiramisu-ostaköku, svo og súkkulaðikrem, sem kallað var belgísk súkkulaðikaka. Kaffi var hlutlaust.

Jónas Kristjánsson

DV

Mirabelle

Veitingar

Mirabelle við Smiðjustíg skilur eftir ljúfar minningar um fínan ætiþistil og fínni spergil. Við vandað hráefni bætist gamalfrönsk matreiðsla alla leið yfir í profiteroles og crème brûlée. Eftir enn eina kollsteypuna í eignarhaldi reykvískra veitingastaða er Mirabelle komin á gott skrið.

Undirtitill staðarins er Café-Brasserie, þótt hann sé hvorugt. Kaffihús býður ekki þríréttaðan mat á 4.000 krónur, áður en kemur að víni. Og brasserie þarf að hafa eitt af þrennu, matreiðslu frá Alsace, áherzlu á bjór eða messing í innréttingum. Ekkert af þessu er á Mirabelle.

Evrópska andrúmsloftið byrjar framan við vandfundið húsið, þar sem lítið miðborgartorg rúmar bæði tré og bílastæði. Stemmningin sígur síðan, þegar gengið er hjá berskjaldaðri fordrykkjastofu upp ljótan og frekjulegan stiga, sem endar á miðju gólfi í kuldalegu lagerplássi.

Þetta er opinn geimur í ljósum litum, með óhefluðum viði í útveggjum og beru steinlofti, einföldu gleri í gluggum og vel slípuðu trégólfi. Gluggatjöldin eru svo síð, að þau dragast í gólfinu. Yfirstærðar vínrekkur stúkar opið eldhús og yfirhlaðið fatahengi í salarmiðju sídregur að sér augað.

Brúnin lyftist aftur, þegar setzt er að borðum við hvíta dúka og munnþurrkur, sem eru úr taui, jafnvel í hádeginu. Gróft og gott brauð kemur á borð, stundum með sojakornum og stundum með olífubitum. Smörið er tvenns konar, venjulegt og sterkkryddað með hvítlauk og papriku.

Vatn er drukkið úr óbrjótanlegum, íslenzkum þjóðernis-kaffiglösum, sem komin eru í tízku í veitingabransanum samkvæmt formúlunni, að tízkan þurfi að vera svo ljót, að auðvelt sé að skipta um hana tvisvar á ári. Þessi ruddalegi glasastíll er líka á Einari Ben.

Góð og hefðbundin var reykt laxakæfa með steinselju og tómati. Enn betri voru gufusoðinn spergill og ætiþistill með anísblandaðri smjörsósu. og stökkum kúrbít. Betri spergil hef ég ekki fengið hér á jaðri freðmýrabeltisins.

Fiskisúpa var fremur góð, en fiskhlassið í henni miðri var fremur þurrt, þorskur og lax. Tómatsúpa var bragðmikil og bragðgóð, full af grænmeti.

Þorskasteik var nákvæmlega rétt grilluð, borin fram á sveppum í soðnu rauðvíni. Piparristaður steinbítur var örlítið meira eldaður, en samt góður, borinn fram með pönnusteiktu grænmeti og daufri hvítlaukssósu.

Fínar voru steiktar andabringur með ætiþistli, rjómasoðnu spínati, grilluðum kartöfluþráðum og appelsínusósu, sem skilaði sér hæfilega í gegn í bragði.

Crème brûlée var léttur búðingur með nettri karamelluskán, afar góður eftirréttur. Profiteroles reyndust hins vegar vera þungar og kaldar vatnsdeigsbollur með ís og heitri súkkulaðisósu. Kaffi var gott.

Að lokum má súpa hveljur yfir reikningi, sem nemur 4.000 krónum á mann. Hagkvæmara er að koma í hádeginu, þegar tvíréttað kostar ekki nema 1.270 krónur á mann, þótt ekkert sé gefið eftir í matreiðslu, aðbúnaði og afbragðs þjónustu.

Jónas Kristjánsson

DV

Skólabrú

Veitingar

Fagurt og frægt hús á einni beztu lóð miðbæjarins, hóflega merkt að utan, vekur væntingar, sem dempast af æpandi rauðri forstofu, en rísa aftur í stílhreinum og sældarlegum matsal. Húsbúnaður Skólabrúar er vandaður og látlaus, allt frá mataráhöldum yfir í málverk, frá línþurrkum yfir í ljósakrónur.

Umferðargnýrinn heyrist varla og dósatónlistin er lágvær. Þjónusta er kurteis og hófsöm. Gestir raða sér í þægilega armstóla og fá sér bita af sætu brauði snarphituðu. Ég reikna franskættaðan matseðilinn og fæ út, að þríréttað með kaffi kosti heilar 4.500 krónur, áður en kemur að víni.

Matreiðslan er fögur og fín, vönduð og létt, en dálítið frosin. Matseðillinn er fastur og virðist ekki taka tillit til árstíðabundins framboðs af sjávarfangi og villibráð. Hér ræður fagleg nákvæmni fremur en listræn tilþrif. Kuldaleg og blóðlaus Skólabrú stingur að því leyti eins og flestu öðru í stúf við hlýlegan og fjörugan keppinautinn Við Tjörnina á hinu horni Kirkjutorgs.

Sjávarréttasúpa og humarsúpa voru mildar og ljúfar, einfaldar að sniði. Lúðukæfa með rauðpiparkornum bráðnaði á tungu. Góð verkun var á grafinni súlubringu og taðreyktum lunda, fagurlega fram bornu á næfurþunnu, lauflaga hrökkbrauði. Bragðgóður humar og hörpuskel voru með sama umbúnaði á sams konar hrökkbrauði.

Góður hlýri, sæmilegur lax og of þurr karfi voru saman á sjávarréttadiski, með óvenjulega góðum hrísgrjónum, blönduðum grænmeti, og nákvæmlega elduðum kartöflum. Ég hefði viljað hlýrann einan. Þessar blöndur rétta, súla og lundi, humar og hörpuskel, hlýri og lax og karfi, segja óbeint, að í eldhúsinu eigi menn erfitt með að ákveða sig. Niðurstaðan verður þá eins konar sýnishorn, meðaltal eða hlutleysi.

Létteldað Skólabrúarlamb er sérgrein staðarins, afar meyrt og fínt, borið fram á sveppa- og spínatbeði með kartöfluflöguköku. Léttsteiktur lundi var fagur réttur og fremur góður, borinn fram með blóðbergs- og bláberjasósu.

Allar léttar ostakökur eru kallaðar Tiramisu á Íslandi, þótt þær séu óþekkjanlegar sem slíkar, ekki sízt á Skólabrú. Mangókrap í sítrónukörfu var ofurlétt og gott. Pina Colada ís var grófur og góður. Espresso-kaffi var fremur þunnt og borið fram á undan eftirétti, þótt beðið væri um það á eftir, enda skilja íslenzkir þjónar alls ekki, að sumir vilji slíkt kaffi sér á parti. Venjulegt kaffi var hins vegar gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Laugaás

Veitingar

Laugaás er franskt bistró að íslenzkum hætti. Þessi nágranni sundlauganna hefur árum saman dregið til sín hverfisbúa, sem ekki nenna að elda í kvöld, barnafjölskyldur utan úr bæ, ferðamenn utan af landi og frá útlöndum.

Í Frakklandi fer fólk í bistró til að borða góðan alvörumat fyrir 100 franka á mann í stað þess að éta hamborgara og pítsur. Á Íslandi fer almenningur af sömu ástæðum í Laugaás og borgar líka 100 franka, það er að segja 1.300 krónur fyrir súpu og aðalrétt.

Ef innréttingin væri óhreinni og þreyttari, gæti hún verið frönsk. Þarna eru köflóttir borðdúkar, ljósaskermar og gluggatjöld, svo og þægilegir tréstólar. Full þjónusta er komin til sögunnar og borð boðstólum.

Andrúmsloftið er mettað venjulegu fólki, innlendu og erlendu, sem nýtur slökunar og samræðna yfir mat, er ekki stendur á sporði þess, sem annars staðar er boðið á 3.600 krónur á mann. Hér koma hvorki uppar né ímyndunarfræðingar. Hér hef ég aldrei heyrt í gemsa.

Í hádeginu fást hefðbundnir dansk-íslenzkir millistríðsréttir á 890 krónur með súpu. Þar á meðal var indæll plukfisk, þar sem saman var blandað ýsu, kartöflum og lauki, borinn fram með volgu rúgbrauði. Ennfremur angurværar frikadeller með rauðrófum og pönnueggi. Það vantaði ekkert nema rødgrød med fløde.

Saltfiskurinn var vel útvatnaður, borinn fram með sterkri tómatbasilsósu og miklu af olífum, en hvorki lauki né papriku, hvergi betri í landinu nema í Þremur Frökkum. Rauðar og meyrar skarfabringur voru líka góðar, bornar fram með sólberja- og grænpiparsósu.

Auk skarfa má fá lunda, grágæs og sel af villibráðarseðli. Af fiskréttum má nefna djúpsteiktan steinbít í súrsætri sósu, pönnusteikt ýsuflök með lauk og tómati og ofnbakaða bleikju með rækjum. Í öllum tilvikum er eldun fiskjar traust og eldunartímar skammt yfir eðlilegu marki.

Laugaás gælir líka við illræmda þjóðarrétti á borð við djúpsteikta ýsu í deigi með béarnaise-sósu og frönskum kartöflum og glóðarsteikt lambalæri með sömu béarnaise-sósunni og sömu frönsku kartöflunum.

Súpur Laugaáss eru ómerkar hveitisúpur að þjóðlegum hætti. Hrásalatið er jafnan nákvæmlega eins ár eftir ár, áratug eftir áratug, raspað hvítkál með þúsundeyjasósu. Og í eldhúsinu elska menn þjóðlega ostbökun fiskrétta, svokallaða gratineringu.

Einn bezti matur Laugaáss reyndist vera fiskisúpa, þykk chowder að bandarískum hætti, ljósrauð rækju- og laxasúpa með þeyttum rjóma, afar bragðgóð og matarleg.

Jónas Kristjánsson

DV

Einar Benediktsson

Veitingar

Svartfuglinn á Einari Benediktssyni var lakari en í Óðinsvéum og saltfiskurinn lakari en í Laugaási, eins og við er að búast af stað með stæl. Slíkir leggja jafnan meiri áherzlu á umbúðir en innihald. Einar Benediktsson við Hallærisplanið er fremur þemahús en veitingahús.

Nútíminn vil þemu af þessu tagi, sjaldan með góðum mat eins og Hard Rock Café, oftast með vondum mat og stundum afspyrnu vondum eins og Planet, Hollywood og Fashion Café, sem fara sigurför um heiminn. Einar Benediktsson býður yfirleitt ekki vondan mat og verður þar af leiðandi seint eins vinsæll.

Þema Einars Benediktssonar er skáldið sjálft, gáfaðasti aldamótamaðurinn. Matseðillinn er skemmtilegur, með drykkjusögum af Einari og nokkrum ljóðum hans, uppsettur út í kúrekahött, með slöngvivað, skrítnum römmum og undarlegum fyrirsagnastungum.

Veitingasalirnir tveir eru á annarri hæð í gömlu húsi, annar fyrir reyklausa og hinn fyrir reykfólk. Málaðir veggir, viðargólf, ljósakrónur, gifslistar og hvítlakkaðar hurðir falla vel að húsinu, en ofur-gluggatjöld og risamálverk af þekktum Íslendingum síður.

Notaleg eru brún viðarborð á steypujárnsfótum, með ofurlitlum borðlömpum, tauþurrkum og óbrjótanlegum kaffiglösum, sem tíðkuðust í sveitinni í gamla daga og þykja nú smart, af mér óskiljanlegum ástæðum. Lágvær dósatónlist truflaði ekki.

Nokkrir réttir breytast frá degi til dags, tveir forréttir og tveir aðalréttir, einnig salat, fiskur og grænmetisréttur. Þar fyrir utan er fjölbreyttur og forvitnilegur fastaseðill og ágætur vínlisti.

Skemmtilegasti rétturinn var svokölluð humar- & skelfiskveisla Einars Ben. á hrokuðu fati. Þar var furðulega meyr skelfiskur, öðuskel, bláskel og hörpuskel, einnig humar og risarækjur, smokkfiskur og ferskvatnskrabbi.

Japanskt hvalasashimi var líka gott, ljós hrefna og dökkur höfrungur með piparrót og engifer, borið fram með prjónum. Laxatartar með hefðbundnu meðlæti, eggjarauðu, kapers og rauðlauk, var glæsilegt, fallegt og gott. Stökkt salat með hunangsteiktum kjúklingum var fremur skrautsýning en matur, en kjúklingurinn var ekki þurr.

Þegar hér var komið sögu virtist góði kokkurinn hafa örmagnazt og farið heim, því að við tóku örbylgjuofnalegir aðalréttir. Minnisstæðastur var saltfiskur, sem hafði gleymzt að útvatna, saltur og rammur, en samt sagður að hætti Baska.

Beðið var um svartfugl léttsteiktan, en hann kom næstum grásteiktur, gríðarlega oregon-kryddaður og ekki nógu meyr. Staðlað meðlæti, ostbakaðar kartöfluþynnur, fylgdi líka rósmarínlegnum lambahryggvöðva, sem var sæmilegur matur, en svo sem ekki bæjarferðar virði.

Hringlaga sítrónuskyrterta með bláberjasósu var frambærileg, einnig svonefnd afmælisterta Einars, ostakaka að hálfu, með vanilluósu. Kaffi var gott, meira að segja espresso.

Verðið er uppalegt, svo sem tíðkast á stöðum með stæl, aðalréttir á tæpar 1.900 krónur, þríréttuð máltíð á tæpar 3.700 krónur og kaffi eftir mat á 200 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV

Mirabelle

Veitingar

Matur er merkilega góður á ljóta tízkustaðnum Mirabelle við Smiðjustíg, eldunartímar nokkurn veginn við hæfi og fæðan ekki skreytt úr hófi fram. Flest er til sóma úr eldhúsinu, frá brauðkollum forrétta yfir í pönnukökur eftirrétta.

Þótt Mirabelle heiti frönsku nafni og hafi Café – Brasserie að undirtitli, er staðurinn ekkert af þessu. Hann státar ekki af matreiðslu frá Elsass, öli og innréttingum úr messing, sem vænta mætti af Brasserie. Kaffið er þynnkulegt, svo að varla er hér Café. Og matreiðslan er ekki frönsk, heldur kalifornísk.

Virðuleg aðkoma er um lítið torg framan við anddyrið. Fyrir innan er stór og dimm setustofa og fyrirferðarmikill stigi upp í stóran, bjartan og hráan veitingasal, sem hefði getað verið á járnbrautarstöð áður en menn fóru að snurfusa slíka staði. Hvítmálað er yfir óheflaðan við í veggjum og beran stein í lofti, en trégólfið er snyrtilega slípað. Áberandi vínrekkur afmarkar opið eldhús.

Innan við einfalt gler eru afar síð gluggatjöld, sem dragast í kös á gólfinu. Við drögum frá og ljóskastarar fyrir utan lýsa beint framan í okkur. Grænar glerplötur eru borðum, tauþurrkur og óbrjótanleg kaffiglös eins og voru í sveitinni í gamla daga. Dósatónlistin var illbærileg síbylja, þar sem tromma og bassi voru í fyrirrúmi.

Litlar og heitar brauðkollur staðarins reyndust vera til fyrirmyndar. Fimm sveppa súpa var mjög fín, með hæfilega ákveðnu bragði, þar sem mintan var fremst meðal jafningja. Olífur og óvenjulega góður hummus-baunagrautur að arabiskum hætti mynduðu einfaldan og skemmtilegan forrétt.

Ofnbakaður steinbeitur, eini fiskrétturinn, var milt eldaður, skemmtilega kryddaður og bragðgóður, borinn fram með vanillusósu, sem hæfði ótrúlega vel, og spaghetti-hlunki, sem hæfði illa. Kryddhjúpaður lambavöðvi rambaði rétt innan marka hæfilegs eldunartíma.

Dísætur sykurbúðingur með sítrónubragði og jarðarberjasósu var kallaður sítrónuterta. Bezti réttur hússins var Tatin-peruterta, þykk og heit pönnukaka með perum. Kaffi var þunnt, meira að segja espresso.

Vínlistinn er skemmtilegur og fjölbreyttur, aðallega frá Toskaníu, Rioja, Chile og Suður-Afríku. Tólf tegundir eru seldar í glasatali á 550 krónur glasið.

Hér er dýrt að borða á kvöldin. Aðalréttir kosta tæpar 2.000 krónur og þríréttað með kaffi rúmlega 3.600 krónur. Í hádeginu er lítið spennandi, en greinilega vinsælt hlaðborð með heitum og köldum réttum á 990 krónur.

Staðartromp er 3.200 króna sælkeramáltíð, sem fól í sér gott villisveppakaffi (!), mjög létta og góða tómattertu með skinku, meyran hunangskjúkling með bökuðum kartöflureimum, afar góða súkkulaðitertu með pistasíum, og kaffi með konfekti.

Jónas Kristjánsson

DV

Óðinsvé

Veitingar

Í Óðinsvéum eru Flúðasveppir kallaðir jarðsveppir. Þar er oft góður matur og stundum ekki, jafnvel í einni og sömu máltíðinni.

Fyrst var borið á borð salat, sem hét Caecar-salat, en átti fátt skylt með hinu fræga Kaliforníusalati. Í stað blaðsalats var jöklasalat og í stað pönnuristaðra brauðteninga var svínahöm. Þetta var á ólystugu kafi í parmiggiano-sósu, sem betur hefði verið borin fram sér.

Skömmu síðar var heiðri hússins bjargað með fyrsta flokks aðalrétti, afar meyrum og rauðum svartfuglsbringum með eplasalati, stinnum grænmetisþráðum og rifsberjum.

Óðinsvé eru fín og þar eru handþurrkur úr líni jafnt í hádegi sem að kvöldi. Þau eru vistleg, einkum á reyklausa svæðinu, en flestir vilja vera í garðstofunni, þar sem má reykja. Búnaður og innréttingar eru gamalgrónar, enda er hönnunin vel heppnuð. Vandaðir viðir vel renndir vitna til festu og öryggis. Lýsing er mild og dósatónlist lágvær. Ágæt málverk Hrings og Karólínu lyfta stílnum enn frekar.

Við sökkvum niður í þægilega armstóla við vel dúkuð borð og tökum eftir, að verðlag matseðilsins er hátt. Svipað verð er skráð við nöfn rétta á málaratrönum, sem bornar eru milli borða. Vínlistinn er nýr og óvenjulega spennandi, sameinar nýstárleg merki og tiltölulega hagstætt verð.

Góður var þunnt sneiddur, þurrkaður lambavöðvi, afar meyr og vel kryddaður, með “jarðsveppum” a la Flúðir. Bezti forrétturinn var heit og góð kjúklingalifur og meyr og fínn humar með sérstaklega góðum og grænum pastaræmum á sæmilegri pönnuköku. Afar fín pönnusteikt rauðspretta með miklu af rækjum og ristuðum möndlum, svo og djúpsteiktum grænmetisþráðum var einna bezti aðalrétturinn.

Frambærilegir voru kjúklingavængir og -læri, sterkkryddaðir chili og papriku. Ennfremur meyr Tandoori-kjúklingabringa með indverskum kryddum á grænmetisbeði og grænu pasta með sterkri pastasósu. Sama var að segja um eftirréttina, volgan mokkabúðing Crème brûlée með skorpu, og afar létta og skrautlega Tiramisu ostaköku feneyska.

Lakar tókst til með glóðaðar kjúklingabringur með ostgljáðu blómkáli, stöðluðu grænmeti og sterkri sósu, fremur hveitilegri. Svipuður var grásteiktur lambavöðvi, tæplega volgur, með miklu magni af bragðdaufri hveitisósu. Jöklasalatið endurtók sig undir nafni kjúklingasalats með þurrum kjúklingabitum, bökuðum feta-osti, olífum og tómötum.

Girnilegasti þáttur Óðinsvéa er 1190 króna hádegishlaðborð, sem sameinar átta tegundir af óvenjulega góðri síld, tæra og skemmtilega lauksúpu með góðum brauðkollum, grafinn og reyktan lax, kryddlegnar rækjur og tvo heita rétti, sem báðir voru bragðgóðir, þótt þeir lægju í hitapottum, plokkfisk og steinbít.

Jónas Kristjánsson

DV

Thailand

Veitingar

Thailand er út úr kú, óvenjulega ljótur kvöldverðarstaður með fremur dýrum mat, en stundum bragðgóðum, á annarri hæð við Smiðjustíg, milli Laugavegs og Hverfisgötu. Þótt aðalréttir kosti 1.600 krónur og þríréttað með kaffi um 3.300 krónur, er ekki mikið lagt í kostnað.

Rýrar munnþurrkur úr pappír duga skammt, þegar lagt er til atlögu við heilsteiktan karfa, sem er flaggskip staðarins, þakinn engifer-sósu og skreyttur djúpsteiktu grænmeti, stundum hóflega eldaður, en oftar ofeldaður og stundum grimmdarlega, svo sem hættir til í austrænni matreiðslu.

Húsakynni eru hrörleg og lítið fyrir þau gert, máluð brún í hólf og gólf. Berar perur hanga í salarlofti og undarlegar fjölskylduljósmyndir í stigagangi. Byrgt er fyrir glugga, með speglum á aðra hlið og fallhlerum á hina, rétt eins og stríðið sé að koma. Þröngt og óþægilega er setið á þreytulegum sessum í bakbröttum bekkjum við glerplötuborð. Lamandi þungi umbúnaðarins yfirgnæfir austræna og elskulega þjónustu.

Margt er gott á Thailandi á góðum degi, einkum bragðsterkar og hressandi sítrónusúpur af ýmsu tagi, til dæmis rækjusúpan Tom-yam-kung. Beztar voru bragðmildar Phat-thai núðlur með rækjum, hrísgrjónum, baunaspírum og jarðhnetum, mildar og góðar. Góður var kjúklingur í sterku karríi, basíl-myntu og kókosmjólk, sem er rjómi tælenzkrar matreiðslu. Einnig meyr kræklingur í chili og basíl-myntu.

Kjúklingabitar á bambusspjótum voru hins vegar þurrir og gervilegir. Djúpsteiktar ferskvatnsrækjur voru hæfilega stinnar, en ofklæddar í hjúpi. Salöt voru einföld og bragðsterk og salatsósur magnaðar. Kryddi virðist grýtt á báða bóga í eldhúsinu, ólíkt því sem ég hef kynnzt í tælenzkri matreiðslu erlendis.

Við prófuðum ekki hálfkæringsnefnda sjávarrétti drukkna sjómannsins, en hroðalega bragðsterkir “dínamítpinnar” þræddu heilan chili-pipar, heilt hvítlaukslauf og eina rækju. Ég set spurningamerki við framboð rétta af slíku tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrír frakkar

Veitingar

Þrír frakkar eru notalegt veitingahús við Vitastíg, lítið og þrískipt í aðalstofu, glerskála og herbergi, með örfáum borðum á hverjum stað. Andrúmsloftið er notalegt og matreiðslan hátt yfir öðrum stöðum í sama verðflokki.

Hér ræður ríkjum Úlfar Eysteinsson tilraunakokkur, sem býður gestum naslfæði úr þurrkaðri loðnu og úr saltfiskroði, bæði sítrónukrydduðu og hvítlaukskrydduðu. Þetta er fiskréttahús með nákvæmum eldunartíma og fjölbreyttum eldunaraðferðum, einn beztu veitingastaða landsins.

Verðlagið er staðarsómi. Á breytilegum dagsseðli eru um það bil níu aðalréttir, sem kosta að meðaltali 1.400 krónur á kvöldin og 800 krónur í hádeginu, að súpu dagsins innifalinni. Eftirréttir kosta um 600 krónur og kaffi 160 krónur. Hvergi í bænum er hlutfall verðs og gæða eins hagstætt og í Þremur frökkum.

Súpa dagsins er yfirleitt tær grænmetissúpa, dökk og sterk, mun betri en uppbökuðu súpurnar, sem tíðkast víðast hvar. Grænmeti með aðalréttum felst yfirleitt í ofsoðnum gulrótum. Eftirréttirnir eru alltaf hinir sömu og orðnir dálítið leiðigjarnir, þótt góðir séu, annars vegar frábær skyrterta, sem bráðnar á tungu, og hins vegar nokkuð góð eplabaka kanilkrydduð.

Hrár hvalur að japönskum hætti er einkennisréttur staðarins, bragðgóður og meyr, borinn fram með sojasósu og piparrót. Nautakjöt er jafnan gott, bragðmikið og meyrt, betra en víðast hvar í bænum. Reyktur lundi var borinn fram þunnsneiddur með hunangssinnepssósu og rauðlauk, fínn matur.

Fiskurinn er aðalatriði matseðilsins, saltfiskur, keila, rauðspretta, plokkfiskur, gellur, steinbítur, lúða, keila, skötuselur og hvaðeina, sem fæst á hverjum tíma, borið fram með hvítum kartöflum. Fjölbreytnin hefur því miður heldur farið minnkandi allra síðustu árin, þótt framboðið á markaði hafi aukizt.

Eldunin felst meðal annars í gufusuðu, ostbökun, grillun, pönnusteikingu eða heilsteikingu, sumpart eftir eðli fisktegunda og sumpart eftir kenjum kokksins. Fjölbreytnin er þó jafnan innan gamalþekkts ramma, sem tímabært er að víkka. Sósur eru fjölbreytilegar og gráðostsósan einstök að gæðum.

Soðinn saltfiskur með hamsatólg að íslenzkum hætti var fallegur, bragðmildur og góður, borinn fram með seyddu rúgbrauði. Ostbakaður saltfiskur með tómatmauki, olífum, hvítlauk og osti var einnig góður, með sterkum tómatkeim að hætti Íberíumanna. Steikt fiskbuff var nokkuð gott, borið fram með lauksósu.

Hvítlauksristaðir keilustrimlar voru góðir, með súrsætri sósu, léttri og sætri. Heilsteikt rauðsprettuflök með rækjum voru með ostþaki, sem er ofnotað í matreiðslu staðarins. Soðnar nýjar gellur voru góðar, hvorki slepjulegar né ofsoðnar, bara mátulegar. Grillsteiktur steinbítur er gamalkunnur réttur á seðlinum og stendur alltaf fyrir sínu, oftast borinn fram með rjómapiparsósu.

Umgerð veizlunnar er óbreytt frá tíð smekkvísra fyrirrennara Úlfars, smágerð og heimilisleg. Þjónusta er góð, eins og á öðrum gæðastöðum, en einkum dugnaðarleg.

Jónas Kristjánsson

DV

Pasta Basta

Veitingar

Pasta Basta hefur notað vinsældir sínar til að klifra upp verðlistann og er núna orðið eitt af dýru veitingahúsunum. Þríréttað með kaffi kostar tæpar 3.400 krónur. Þótt pasta verði fyrir valinu, fer verðið í 3.200 krónur. Framhjá háa verðinu má komast með því að taka tilboði dagsins á 2.380 krónur, en þá er ekkert val milli rétta. Hlaðborð í hádeginu er hins vegar ódýrt, þrjú pöstu, hrísgrjónaréttur, salat, súpa og brauð á 790 krónur.

Matreiðslan var yfirleitt góð og pastað búið til á staðnum. Nóg fékkst af volgum brauðkollum með smjöri og frjáls aðgangur var að klementínum í skál. Þjónusta var góð, sumpart ítölsk. Úrval ítalskra vína árgangamerktra er á seðlinum, aðallega Chianti og fleiri Toskaníuvín. Í sumum tilvikum er hægt að velja milli tveggja árganga af sama merki. Þrátt fyrir hátt verðlag eru munnþurrkur ekki úr líni.

Gamli kjallarinn framan við opið eldhúsið er notalegasti hluti staðarins. Nýtízkulegur og kuldalegur er glerskálinn uppi á palli fyrir innan. Lakast er að vera í tjaldi, sem er að baki glerskálans og notað um helgar. Í gamla kjallaranum er hvítmálað timburloft, minjagripakraðak á vegghillum ofan við litla glugga, smámyndir, magaorgel og ítölsk landakort á veggjum. Þetta er barnavænn staður, sem býður upp á liti og pappír.

Forréttirnir reyndust bezt. Góðir voru stórir og beikonvafðir sveppahattar á salati, fylltir hvítlaukssmjöri og meyrum sniglum. Kryddlegnar nautakjötsþynnur carpaccio voru góðar, með áberandi bragði af grana-osti, en litlu af boðuðu jarðsveppa-safabragði. Polenta-maísgrautur var góður, með miklu af fínum porcini-sveppum smjörsteiktum.

Lakari var hvítlauksristað sjávarmeti á brakandi hrásalati, hörpufiskur og humar góður, rækjur litlar og bragðdaufar og kræklingur í skelinni þurr og vondur, sumpart skemmdur. Minestrone súpa hússins var afar bragðsterk tómatsúpa með grjóthörðum brauðteningum.

Fiskréttir voru misjafnir, sósur þeirra sumpart yfirgnæfandi og meðlætið að mestu staðlað, kartöfluflögur undir bræddum osti, spínat og maísgrautur. Grilluð Klausturbleikja var hæfilega elduð og safarík, með góðri hvítlaukssósu, en ekki fann ég reyktan hvítlauk, sem boðaður var. Gufusoðinn sólkoli var einnig hæfilega eldaður, á kafi í grana-ostasósu og með blönduðu tómatmauki. Fiskifantasía fólst í ofeldaðri bleikju, smálúðu og skötusel í mikilli tómatsósu.

Í samræmi við heiti staðarins var pasta afar fjölbreytt og undantekningarlaust gott, enda mótað á staðnum. Sedani pastarör voru með miklu af kjúklingakjöti, sveppum og tómötum. Súkkulaðiterta hússins var þétt og góð. Tiramisu ostakaka var ekta feneysk og ekki lagskipt, hin bezta í bænum. Kaffið var að sjálfsögðu ítalskt og indælt.

Jónas Kristjánsson

DV

Mávurinn

Veitingar

Mávurinn við Tryggvagötu andspænis Hafnarbúðum ber svip milliverðsstaða, en er ein af dýru matstofunum. Þótt hann sé kallaður “við sjávarsíðuna”, er hann ekki hefðbundinn sjávarréttastaður, enda ekki í boði neinn fiskréttur dagsins annar en sjö fiska sýnishorn fyrir útlendinga. Raunar er alls enginn seðill dagsins.

Þótt staðurinn veki sumpart væntingar, sem ekki rætast, er hann samt góður. Matreiðsla fiskrétta er með hinni vönduðustu, sem þekkist í borginni og þjónusta fyrsta flokks. Andrúmsloftið er notalegt innan um undarlegar innréttingar, sérkennilega trektarstóla, örljósanet í lofti, ljót risamálverk á veggjum og lifandi blóm á glerplötum borðanna.

Þetta er lítill staður með of háværri tónlist, aðeins opinn á kvöldin. Vinstra megin inngangs er bar og setustofa með djúpum sófum. Hægra megin er veitingarými fyrir um 30 manns. Fínust eru salernin að tjaldabaki, þar sem hver gestur fær eigið handklæði.

Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 1940 krónur fyrir utan vel valin og ekki dýr vín, meðal annars frá Chile, Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Rækilegar útskýringar fylgja vínlistanum, en árgangar eru ekki skráðir, svo að útkoman er þykjustuleg.

Volgar brauðkollur hússins og smjördeigsferningar komu fljótt á borð. Ennfremur sýnishorn af kryddlegnum laxi eða kryddlegnu lambakjöti meðan beðið var eftir forrétti. Milli forrétta og aðalrétta var borið fram freyðivínskrap. Allt sló þetta virðulegan, franskan tón. Hversdagslegra var staðlað meðlæti á hliðardiskum með aðalréttum.

Pönnusteiktir sniglar voru meyrir, blandaðir gljáðum perlulauk, sveppum og beikoni, í afar sterkri og sætri rauðvínssósu. Hvítlauksristaður smokkfiskur var líka meyr og góður, með rósmarínkryddaðri og mildri kampavínssósu. Sjávarsíðusúpa reyndist vera gott og milt humarsoð með fínskornum skelfiski.

Anísleginn lax var góð tilbreyting frá graflaxi, með litlum tómati, lárperumauki, sinnepi, laxahrognum og bragðsterkum ostakexgrindum, svo og hrásalati í stökku næfurbrauði, sem mótað var eins og blóm. Kryddlegið lamb var fremur gott, með fallegu hrásalati, blönduðu feta-osti og olífum. Hreindýrakæfa var gróf, með furuhnetum, portvínslegnum rúsínum og góðu hrásalati.

Einna bezti forrétturinn var blandað hrásalat með rauðlauk, feta-osti, litlum tómötum, olífum, nokkrum tegundum af litlum hnetum og bragðsterkri ostakexgrind. Þessi skrautlegi réttur var borinn fram í fagurri skál úr stökku næfurbrauði úr smjördeigi og tómatsósa látin koma á óvart í sérstakri skál.

Mávurinn sérhæfir sig í matreiðslu sjaldséðra fiska. Pönnusteiktur langhali var hæfilega og skemmtilega eldaður í kartöfluþráðaskel, mjúkur og fínn, stinnur og hvítur, með humarbitum. Grillaður barri var einnig meyr og fínn, með blaðlauk og hvítvínsblandaðri smjörsósu. Ekki var lakari heitreykt og hringvafin bleikja með beðju af gulrótarþráðum og milt engifer-kryddaðri gulrótarsósu. Góða heitreykingarbragðið leyndi sér ekki.

Kjötréttir reyndust lakari. Folaldasteik var meyr, en bragðdauf, með hæfilega sterkri grænpiparsósu. Lambasneiðar voru sæmilegar, með furuhnetum, sveppum og tómatsafa. Villibráðartvenna var misheppnuð, með ólseigri gæs og frambærilegum svartfugli, borin fram með afar sterkri plómusósu með yfirgnæfandi kóríanderbragði.

Jónas Kristjánsson

DV