Veitingar

Tjörnin

Veitingar

Stuð hefur verið á Tjörninni að undanförnu, enda Rúnar Marvinsson oft við eldavélina. Sama er, hvar gripið er niður í fiskréttunum, allt frá sýnishornum hráfiskjar að japönskum hætti yfir í hefðbundna rétti staðarins á borð við eldsteikta tindabikkju með capers og pernod og kryddlegnar gellur eftir kenjum kokksins. Allt kemur þetta munnvatnskirtlum á fulla ferð strax við lestur matseðils.

Matreiðslan hefur stundum slaknað, þegar Rúnar er fjarverandi, sem gerist einkum á sumrin. Þótt aðrir séu góðir í eldhúsinu, býr Rúnar yfir óskólaðri og jarðbundinni eðlishæfni, sem lyftir matreiðslu hans á góðum stundum yfir slípaða lærdómslist skólagenginna meistara, sem eyða orku í marklítil og leiðigjörn formsatriði á borð við þau, sem verðlaunuð eru á sýningum.

Raunar ætti Tjörnin að vera á niðurleið. Gæðalögmálið segir, að veitingahús versni, þegar þau stækki. Tjörnin, sem fyrst rúmaði 35 manns, tekur núna rúmlega 90 manns til borðs, auk mikils rýmis í setustofum á þriðju hæð hússins. Nánast er kraftaverk, hvernig þröngt eldhúsið stendur undir útþenslunni, sem kann varla góðri lukku að stýra til lengdar.

Samræmdar og kantaðar ljósakrónur í aðalmatstofunum hafa í seinni tíð varpað skugga á ljúflega ósamstætt aðdráttarafl gamalla húsgagna úr ýmsum áttum, ísaumaðra og heklaðra dúka, blómaveggfóðurs og dúkkulísa. Ennfremur er sem fyrr ofhlaðið fyrirferðarmiklum sófasettum í fínlegar setustofur millistríðsáranna.

Tjörnin er fremur dýr, en ekki þó í hópi dýrustu veitingahúsa borgarinnar. Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er um 3.600 krónur fyrir utan vín. Í hádeginu er enn hægt að fá súpu og rétt dagsins fyrir 1.000 krónur. Þetta frábæra tilboð bragðast eins vel og aðrir réttir matseðilsins. Um daginn fólst það í dökkri og bragðmikilli grænmetissúpu og frábærlega hvítlauksristuðum kolaflökum með hrísgrjónum og öflugri karrísósu.

Fiskréttirnir eru síbreytilegir. Síðast voru meðal þeirra bakaður saltfiskur, heilsteiktur sólkoli, pönnusteikt eldislúða, smjörsteikt þorskhrogn og hvítlauksristaður smokkfiskur. Réttirnir voru ólíkir innbyrðis, en hver um sig magnaður. Kryddjurtir voru djarft notaðar í hvítlaukssósu, karrísósu, tómatsósu, ostasósu, piparrótarsósu og engifersósu. Ljúft var að draga afganginn af sósunum upp í litlu, mjúku brauðkollurnar, sem bakaðar eru staðnum.

Sítrónuleginn hrár fiskur hússins er oft á matseðlinum, nokkrar tegundir, svo sem lúða, rækjur, humar og þorskhrogn. Þau síðastnefndu hafa einnig verið á boðstólum smjörsteikt með rjómahvítlaukssósu og reyksoðin með piparrótarsósu. Fiskisúpa staðarins reyndist vera fínleg að venju, ekki of mikið rjómuð og með afar meyru sjávarfangi.

Eldhúsið hefur yfirleitt ekki sömu tilfinningu fyrir matreiðslu kjöts og sjávarfangs. Þungsteiktar skarfabringur flutu í gríðarlegu magni af dimmri portvínssósu og þurrum bláberjum. Hins vegar var stokköndin að þessu sinni meyr og ljúf, borin fram með döðlum og mildri koríandersósu.

Matreiðslan á Tjörninni hefur löngum verið hin fjölbreyttasta og frumlegasta á landinu. Um þessar mundir er hún tvímælalaust einnig hin bezta.

Jónas Kristjánsson

DV

Holtið

Veitingar

Þótt Holt sé eitt af beztu veitingahúsum landsins og hafi lengi verið traustasti og jafnasti gæðastaðurinn, hefur matreiðsla þess stundum verið mistæk upp á síðkastið. Fiskur er oft eins lítið eldaður og hann þarf að vera, en fyrir kemur, að hann er heldur lengi í eldun.

Matreiðslan er frumleg og matseðillinn breytilegur. Sem dæmi má nefna ristaðan humar. Í eitt skipti var hann í geislum út frá sítrónukryddaðri hrísgrjónaköku með granaostþaki. Í öðru tilviki í geislum út frá mjúku hörpufiskfrauði, borinn fram með kantarellu-sveppum og gulrótar-ediksósu. Í báðum tilvikum var humarinn meyr og fínn.

Aðrir forréttir hafa verið misjafnir. Rauð og fín var reyksoðin villigæs með góðri balsam-ediksósu. Ristaður kolkrabbi var hins vegar ekki nógu meyr, borinn fram með hæfilega kryddaðri hvítlaukssósu með rósmarín.

Stundum verður bilun í matreiðslu aðalrétta. Í hádegi var ofbökuð smálúða á salatbeði með kryddlegnum villisveppum, spergli og spínati. Við sama tækifæri var ristaður skötuselur ekki nógu meyr, borinn fram með súrsætri ananassósu.

Skömmu síðar var flest komið í lag að kvöldi, þó ekki villigæsabringa, sem var of þurr. En rósrauð rjúpa var afar meyr og fín, með einiberjasósu og hreðkumauki, svo og sveskjublönduðu innmatarmauki. Og rósrauð villiandarbringa var frábær, borin fram á salati og spínati, með pönnusteiktum kartöflusneiðum og mildri kardimommu-appelsínusósu.

Eftirréttir í hádegi voru ekki í frásögur færandi, þrenns konar tertur, þar á meðal ein, sem var einkum tvenns konar og tvílitt súkkulaði, og önnur, sem var ostakaka með súkkulaðisósu.

Mun betri voru tveir frumlegir eftirréttir að kvöldi. Þá var á boðstólum afar stökk napóleonskaka með banana- og appelsínubragði, með ananasbúðingi og heilum trönuberjum í ljósri eggja-rommsósu, sem sögð var dökk í matseðli. Ennfremur eldsteikt jarðarber í afar fínni sósu úr Mascarpone líkjör og appelsínubarkarþráðum.

Engrar bilunar gætir í ytra umhverfi Holts. Þjónusta er í úrvalsflokki sem jafnan áður. Árgangamerktur vínlistinn er hinn vandaðasti í landinu, greinilega undir áhrifum frá Chateau et Relais samtökunum, sem hótelið á aðild að. Þar er auðvitað langur listi af frönskum chateaux, en einnig úrval frá fjarlægum löndum, svo sem Ástralíu og Chile.

Einn helzti galli staðarins er, að innkoman er boruleg úr horni anddyris og beint að eldhúsdyrum. En það gleymist, þegar gestir eru sokknir í þægilega stóla innan um gamalkunn risamálverk íslenzkra meistara, þungan eðalvið, steinda glugga, úrvals borðlín og glæsilegan borðbúnað.

Holtið er dýrt, um 4.100 krónur að kvöldi fyrir þrjá rétti og kaffi, að víni frátöldu. Í hádeginu er staðurinn þó beinlínis ódýr, býður þriggja rétta máltíð af úrvali fjögurra forrétta, sex aðalrétta og eftirrétta af vagni fyrir 1495 krónur. Það eru sannkölluð kjarakaup, þegar matreiðslan stenzt væntingar.

Jónas Kristjánsson

DV

Grillið

Veitingar

Grillið á Hótel Sögu verður ekki sakað um ævintýramennsku í matargerðarlist. Þar er öryggið fyrir öllu. Matseðillinn er fastur og stuttur, lítur varla við fiski og býður flóknar uppskriftir á dýrum réttum, sem farið er afar næmum höndum um í eldhúsinu. Þetta er vandaður staður fyrir kröfuharða íhaldsmenn, en höfðar síður til þeirra útlendu hótelgesta, sem hafa áhuga á fiski.

Enginn matseðill dagsins er í boði og á fastaseðlinum eru bara tveir fiskréttir, lax og skötuselur. Lax kemur árið um kring úr eldi og skötuselur árið um kring úr frystikistu, svo að daglegt markaðsframboð á fiski hefur lítil áhrif í þessum merkustu herbúðum flókinnar matargerðarlistar í landinu.

Árgangamerktur vínlisti er annað aðalsmerki staðarins, langur, fjölbreyttur og góður. Verðlag hans er sanngjarnt, þótt flaskan af heimsins dýrasta víni, Chateau Cheval Blanc, fari upp í 45 þúsund krónur. Hitt aðalsmerkið er svipmót staðarins eins og það kemur fram í afar góðri þjónustu, skemmtilegu útsýni og höfðinglegum innréttingum, sem að mestu eru upprunalegar. Eini svipgallinn er, að gangurinn að veitingasalnum er notaður sem stólageymsla.

Andakjöt reyndist vera hátindur matreiðslunnar. Hunangsgljáð andabringa með steyttum, grænum pipar, pönnusteiktum kartöfluþráðakökum, sykurbrúnuðum skalottulauk, fennikku og smásöxuðu grænmeti var prófuð í tvígang og reyndist jafnan frábær. Einnig var hægt að fá andakjöt í forrétt, soðið í eigin safa, borið fram með valhnetum á gufusteiktu jöklasalati.

Afar góðar voru fjórar meyrar úthafsrækjur í sætsúrri sósu chili-kryddaðri, bornar fram á koríander-kryddaðri kúskús-köku. Anísilmað grænmetisseyði var sérkennilegt og gott, með heilum anís og turni af léttelduðu grænmeti í miðju. Enn betri var heitur og sneiddur hörpuskelfiskur á kartöflunæfrum og rjómasoðnum blaðlauk.

Milli rétta var borinn fram milliréttur. Í annað skiptið var það Bourbon viskí-ískrap, sem Jim Beam var hellt yfir. Í hitt skiptið var það afar gott, bragðhreint og magnað tómatseyði.

Tæpastur aðalrétta var full mikið elduð villiþrenna, gæs, svartfugl og hreindýr með gráðostsósu og eplasalati. Afar góðar voru grillaðar lambalundir undir hvítlauks- og gulstöngulskryddaðri brauðskel og kartöfluturni, bornar fram með mildri sveppasósu. Grillaðar nautalundir voru magrar og bragðdaufar, en meyrar, bornar fram með léttsoðnu grænmeti, lítilfjörlegri svartsveppakæfusneið, góðri gæsalifur og enn betri Madeirasósu.

Exótískir ávextir reyndust vera margs konar ber og litlir ávextir í kringum ískrap. Passíuávaxtakaka var lítil hringlaga kaka með súkkulaðiískúlu, smásöxuðum ávöxtum og Grand Marnier líkjör. Hvítur búðingskremtígull með sítrónubragði og sterkri sítrónusósu var skemmtilegasti eftirrétturinn.

Verðlagið á Grillinu er afar hátt, um 4.440 krónur þríréttað á mann, fyrir utan drykkjarföng. Staðurinn er aðeins opinn á kvöldin.

Jónas Kristjánsson

DV

Humarhúsið

Veitingar

Humarhúsið er ein af notalegustu matstofum landsins, lítill staður með vönduðum húsbúnaði, sem hæfir gömlu húsi. Hér hafa nokkrir veitingastaðir verið í röð, en þessi hefur bezt viðmót að yfirbragði og þjónustu. Einnig er matreiðslan betri en hún hefur áður verið og er raunar af traustasta tagi.

Þetta er með dýrustu stöðum borgarinnar. Þríréttað kostar 3.400 krónur af fastaseðli, þótt ekki sé valinn tæplega 3.000 króna humar í aðalrétt. Einn af fimm réttum dagsins, aðallega fiskur, kostar 1.600 krónur að kvöldi og 1.200 krónur í hádegi. Þannig er Humarhúsið í hádeginu dýrari kostur en öndvegisstaðurinn Holt og hefur þó ekki einu sinni lín í munnþurrkum.

Hvítmálað loft og burðarviðir hæfa húsinu. Léttar messingskrónur hanga yfir vönduðum antíkborðum með stólum í stíl og gömlu trégólfi. Grænir plattar vernda nakin tréborð í hádegi og víðir málmdiskar að kvöldi. Borðsalurinn rúmar ekki nema 30 manns, en uppi á lofti er líka borðpláss í tveimur herbergjum inn af setustofu. Ella Fitzgerald og Louis Armstrong eru hæfilega lágt stillt. Þjónusta er góð, svo sem tíðkast hér á landi.

Vottur af tilþrifum er í hóflega verðlögðum vínlista, þótt árganga sé ekki getið. Þar má finna sýnishorn frá fjarlægum löndum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Chile, auk athyglisverðra tegunda frá hefðbundnum vínlöndum Evrópu, þar á meðal nokkurra sætra eftirréttavína. Stytt útgáfa vínlistans er boðin í hádeginu.

Tilþrif eru meiri í forréttum hlýraskinns-matseðils, sem hefur þá ágætu sérstöðu, að þar eru matreiðslumenn nafngreindir, Guðmundur Þór Gunnarsson og Hafsteinn Sigurðsson. Í senn er sjaldgæft og traustvekjandi, að slíkir þori að leggja nafn sitt við útkomuna á diskum gesta. Það vekur líka traust, að fiskréttir eru ekki á fastaseðli, heldur breytilegum seðli dagsins.

Tómatsúpa dagsins var vel rjómuð, þrungin tómatstrimlum og oregano-kryddi. Tært kálfaseyði dagsins var gott, með hæfilega stinnu grænmeti. Ítölsk fiskisúpa hafði tómat að grunni, mikið rjómuð og full af góðmeti úr hafinu.

Skemmtilegasti forrétturinn var japanskt sashimi, sýnishorn af kryddlegnum sjávarréttum, borin fram með prjónum. Þar mátti finna hráan lax, lúðu, humar, höfrung og raunar einnig lambakjöt. Þetta var tindrandi ferskt og gott. Fallegt humarsalat var líka ferskt og gott, með ferns konar osti, þar á meðal grana og feta; olífum, sólþurrkuðum tómötum og ávaxtabitum, borið fram með edikblandaðri olífuolíu.

Smjörsteikt lúða með humri, ætiþistli og saffransósu var léttelduð og afar góð; sömuleiðis smjörsteikt keiluflök með hvítlauksristuðu grænmeti og kapers. Af sjö rétta humarskrá hússins voru valdir pönnuristaðir humarhalar með saffran-smjörsósu, vel heppnaður matur.

Léttsteikt villigæsabringa með blönduðum hnetum og sykurgljáðum skalotlauk var afar góð. Eldsteikt piparsteik var meyr, en af bragðlausum Galloway grip, bragðbætt með magnaðri grænpiparsósu af indverskum ættum. Bragðmilt höfrunakjöt var mun betri og skemmtilegri matur, með engifer og blaðlauk.

Eftirréttir voru upp og ofan, frískleg skyrterta, blönduð ástríðuávöxtum; og kaffiblönduð rjómaostaterta, falin innan í hringlaga köku. Espresso kaffi var ekta.

Jónas Kristjánsson

DV

Kínahúsið

Veitingar

Djúpsteikingar-hjúpurinn er alltaf jafn þunnur og léttur. Eldunartímar eru alltaf jafn skammir og nettir. Kínahúsið við Lækjargötu hefur árum saman verið bezta kínverska veitingahúsið í Reykjavík, ódýrt og fyrirferðarlítið, alltaf eins og alltaf traust. Matseðillinn er ekki framgjarn, býður hvorki snáka né svöluhreiður, en Canton-ættuð matreiðslan er vönduð. Hingað fer ég oftast, þegar ég nenni ekki að elda.

Matsalurinn er hóflega skreyttur á kínverska vísu, með flóknum ljósakrónum, tréskurði í skermum, skelplötumyndum á veggjum og ýmsu kínversku skrauti í gluggum. Rautt og hvítt lín er á borðum og tágar í stólsetum og baki. Hnífapör eru vestræn, svo og lágvær dósatónlist í bakgrunni. Stuttur vínlisti er vel valinn og ódýr. Þjónusta er góð og látlaus á þessum einfalda og rólega stað.

Í hádegi voru boðnar djúpsteiktar rækjur súrsætar með hrísgrjónum og súpu dagsins á 495 krónur og að kvöldi á 595 krónur. Í hádegi var hægt að fá þrjá rétti saman á 595 krónur, djúpsteiktar rækjur í karrí, súrsætt svínakjöt og lambakjöt í ostrusósu. Að kvöldi var boðið þríréttað á 695 krónur, súrsætar rækjur, kjúklingur í karrí og lambakjöt í ostrusósu.

Verðlagið gerist ekki betra í bænum, en samt er hver réttur séreldaður af natni fyrir hvern viðskiptavin. Ef valið er af fastaseðli, kosta aðalréttir um 925 krónur að meðaltali og þríréttuð máltíð með kaffi tæplega 2000 krónur, sem telst ódýrt í veitingahúsi á Íslandi.

Matarlegar og fremur þykkar súpur voru hæfilega en ákveðið kryddaðar og góðar, þar á meðal hákarlauggasúpa, humarsúpa og sjávarréttasúpa, sem oft hefur orðið fyrir valinu. Súpur koma hér á undan aðalréttum, en ekki á eftir, svo sem löngum hefur tíðkazt í Kína, enda sést strax af hnífapörum, að Kínahúsið hefur teygt sig í aðlögun að vestrænum háttum.

Viðkvæmar rækjur fóru vel við næma matreiðslu, svo sem djúpsteiktar rækjur súrsætar, pönnusteiktar rækjur með cashew hnetum og rækjur í karrí með grænmeti. Smokkfiskur með grænni papriku og bambusspírum var hins vegar fullseigur, svo sem slíkum hættir til.

Vorrúllur voru sérstaklega góðar, úr afar þunnum og stökkum pönnukökum. Þær eru raunar ekki síður vestrænt fyrirbæri í matargerð en kínverskt. Kjúklingur var yfirleitt hóflega eldaður og meyr, svo sem kjúklingur í karrí og bragðsterkur kjúklingur Kung pho Szechuan. Lambakjöt í ostruósu var líka meyrt og gott.

Eftirréttir eru ekki merkilegir, enda tíðkast þeir lítt í Kína. Sykur er hins vegar ofnotaður í sjálfri matreiðslunni, einnig að kínverskum hætti, og veldur votti af smeðjubragði. Til mótvægis er gott er að drekka mjólkur- og sykurlaust jasmínte með matnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Primavera

Veitingar

Primavera býður freistandi seðil, en bregzt stundum á mest rómaða sviðinu, í matreiðslunni. Hún er oft góð, en stundum skortir næmi fyrir nákvæmni í mikilvægum smáatriðum, svo sem eldunartíma, sem verður óhæfilega langvinnur. Þetta kom fram í fiski og kjöti, pasta og grænmeti á einu og sama kvöldinu.

Matreiðslan var jafnbetri á afskekkta staðnum í Kringlunni, þar sem Primavera var áður. Nú er veitingahúsið komið í alfaraleið í sjálfu Austurstræti og er orðið vinsælt, svo að þar kann að vera að leita skýringanna á sveiflum eldhússins.

Frá fallega háum og nöktum matstað á annarri hæð er ágætt útsýni í hádeginu um risastóra glugga niður á þá, sem skjótast í Ríkið handan götunnar. Spegill nær yfir annan þvervegg allan og lengir staðinn mjög. Hinn þvervegg prýðir risastór eftirprentun Vorsins eftir endurreisnarmálarann Sandro Botticelli.

Brakandi hvítt lín er á borðum jafnt í hádegi sem að kvöldi, svo og firnaljót póstkort. Við gluggaborð eru þægilegir og fínir armstólar og við innri borð eru fullbólstraðir hægindastólar. Þjónusta er með ítölskum hætti, þótt íslenzk sé, örugg og vafningalaus.

Þetta er meðalstaður að verðlagi, aðalréttir á tæpar 1500 krónur, forréttir og eftirréttir á 750 krónur að meðaltali. Í hádeginu er 1240 króna tilboð þríréttað með vali milli þriggja forrétta og þriggja aðalrétta.

Vínlisti hússins er ítalskur og góður. Þar á meðal er Feneyjavín hússins, Pinot Grigio og Merlot. Meðal hvítvíns er Bianco di Custoza og Soave Classico og meðal rauðvíns er Tignanello, Barolo og Brunello di Montalcino.

Gott brauð er á borðum, oftast volgt, ennfremur olífur og hrist olífusósa með balsamediki. Tannstönglar koma orðalaust á borð eftir aðalrétti. Pasta er framleitt á staðnum.

Súpur voru ágætar, einkum hvítlaukskrydduð og tómatblönduð fiskisúpa með meyrum hörpufiski, humri og rækjum; en einnig tær og ljúfkrydduð grænmetissúpa. Ferskt grænmetissalat með sólþurrkuðum tómötum og kotasælu var fallegt, ferskt og gott.

Ofnbakað eggaldin parmiggiano er spennandi forréttur, sem hefði verið góður, ef eggaldinið hefði verið minna brennt og vottað hefði fyrir grana-osti í bragði. Bragðdaufir gnochi-pastahlunkar höfðu lítinn stuðning af myrtilsveppum og bragðdaufri rjómasósu. Mun betri voru tagliatelle-pastaræmur með sólþurrkuðum tómati og humar.

Í hádegi var fiskiþrenna kola, steinbíts og lax með fáfnisgrasasósu hæfilega steikt og bragðgóð, en að kvöldi var grænmetishjúpaður steinbítur með basilíkusósu ofsteiktur og bragðdaufur.

Grísahryggsneið með rósapiparsósu var hæfilega steikt og skemmtilega krydduð í hádegi, en að kvöldi var kálfasneið milanaise lítið annað en eggjarasp og bragðaðist eins og eggjarasp.

Tiramisu var létt lagkaka úr osti, fjarskyldur ættingi samnefnds Feneyjaréttar. Marineraðar sveskjur með espressosósu voru góðar, en bornar fram á þykkum og grjóthörðum kökubotni. Pavé reyndist vera munaðarfull súkkulaðiterta með ís, þreyttum rjóma og möndluflögum. Allt kaffi var gott í Primavera, jafnt ítalskt og danskt pressað.

Ef ég vissi, hvenær matreiðslan er góð og hvenær ekki, kæmi ég oftar í þennan skemmtilega stað.

Jónas Kristjánsson

DV

Madonna

Veitingar

Flest virðist úr pappa innanhúss, þar á meðal múrveggir og marmarasúlur. Vínviðarhafið með berjaklösum er úr plasti. Þetta gaf þá leiksviðstilfinningu, að öll innréttingin mundi hrynja, ef slegið væri í hana á einum stað. En ofhlæði Madonnu við Rauðárstíg er þægilegt og rómantískt, stutt lágværri óperutónlist og svo daufri lýsingu lampa og kerta, að nálgast myrkur um miðjan dag.

Þröngur inngangur fyrir miðju skiptir staðnum í tvo jafna og svipaða hluta, með gangvegi og eldhúsafgreiðslu á milli. Á veggsillum er mikið af tómum vínflöskum frá Spáni og alls konar kraðaki. Á veggjum eru ítölsk mótíf í ótal smámyndum. Þjónusta er góð og bezt, þegar hún er ítalskrar ættar.

Flest borðin eru í þröngum og bakbröttum básum fyrir kjörþyngdarfólk, en aðrir geta setið á virðulegum tréstólum úti á gólfi. Undir glerplötu er borðdúkur og ofan á er samstætt blómamynztur í kryddstaukum, olíukönnu, blómavasa, öskubakka og jafnvel lampa.

Rómantíska stemningin kostar ekki mikið. Tólf tommu pizzur kosta 980 krónur og níu tommu 870 krónur, pösturnar 950 krónur. Í hádeginu kosta súpa og einn af réttum dagsins að meðtaltali 935 krónur og þríréttað að kvöldi 1945 krónur. Ef valið er af matseðli kostar þríréttuð máltíð með kaffi um 2620 krónur.

Stuttur vínlisti býr yfir traustu og ódýru vín frá Spáni, Frakklandi og Ítalíu, sum til í hálfflöskum. Húsvínið er raunar franskur Merlot ágætur, á 430 krónur glasið.

Humarsúpa var vel rjómuð, rauð og matarleg, með meyrum humri, afar vel heppnuð. Lauksúpa var snarpheit og góð, undir þykku lagi af brauði og osti. Grænmetissalat var stökkt og ferskt og fjölbreytt, með jöklasalat að grunni og ostasósu til hliðar. Ítalskt salat var með olífum, salami og túnfiski til viðbótar.

Grænmetispitsan var góð, bæði botn og fylling. Fettucine pastaræmur með humri í skelfisksósu voru afar vel heppnaðar, mátulega soðnar og bragðljúfar.

Í hádegi var pönnusteikt ýsa sennilega fryst og lítillega of lengi elduð, þynnri hlutinn fremur þurr, en þykkri hluti sæmilegur, borin fram með fersku hrásalati, ofbakaðri kartöflu og ostasósu. Að kvöldi var léttilega smjörsteiktur skötuselur mun betri, en lítillega ofsaltaður, borinn fram með léttsteiktu grænmeti, hæfilega bakaðri kartöflu og hlutlausri hveitisósu.

Lambahryggvöðvi var lítillega ofsteiktur, en þó rósrauður, með sojabættri rjómasósu fínni og vel kryddaðri, nákvæmlega rétt steiktu grænmeti og bakaðri kartöflu.

Súkkulaðifrauð var ómerkur eftirréttur. Eplakaka var fremur þurr, með þeyttum rjóma og ís. Bezt var óvenjulega létt ostakaka með sítrónubragði, borin fram með sultu, þeyttum rjóma og ávaxtasneiðum. Espresso kaffi var ekta, en allt of veikt.

Úrval rétta var fábreytt og framsetning þeirra stöðluð, en sjálf matreiðslan yfirleitt í góðu meðallagi, einkum á kvöldin, þegar nákvæmni var beitt í eldunartíma á grænmeti, pasta og fiski. Og þetta er ódýrasti Ítalíustaðurinn, sem ég veit um í bænum.

Jónas Kristjánsson

DV

Tilveran

Veitingar

Hafnarfjörður er loksins kominn í veitingasöguna. Þar sem Linnetstígur mætir Fjarðargötu hefur verið opnuð eins konar hverfismatstofa, sem býður frambærilegan mat á viðráðanlegu verði í notalegu umhverfi. Tilveran er eins konar Laugaás í sparifötum.

Veitingasalurinn er opinn og fremur hljóðbær, með sumargrænu og samræmdu ávaxtamynztri í gluggatjöldum, borðdúkum og áklæði notendavænna armstóla. Breytilegar málverkasýningar eru á þægilega grænum og gulrauðum veggjum. Eina feilnótan felst í óvenjulega smekklausum kryddstaukum á borðum. Þjónusta er þægileg, en oft óskóluð og stöku sinnum ruglingsleg. Að tjaldabaki er lágvær dósatónlist.

Staðurinn er vel sóttur og stemningin góð. Þarna er venjulegt fólki úti að borða til spari, hjón eða barnafólk, enda kostar þríréttuð kvöldmáltíð ekki nema 2.100 krónur á mann að meðaltali, að kaffi meðtöldu, og ekki nema 1.530 krónur að meðaltali, ef valið er af seðli dagsins. Í hádeginu kosta súpa og val af seðli dagsins um 830 krónur að meðaltali.

Vínlistinn er líka ódýr og vel valinn. Vín hússins frá Chile kostar 400 krónur glasið. Heilar flöskur af traustum tegundum kosta 2.000-3.000 krónur, Villa Antinori og Santa Cristina frá Toskaníu, Monticello Crianza frá Rioja og Chateau Cadillac frá Bordeaux. Lýsingar fylgja í stíl Einars Thoroddsens.

Súpur dagsins voru yfirleitt rjómaðar hveitisúpur, heitar og miklar, hver annarri líkar, bornar fram með volgu, sætu og hvítu brauði. Það voru seljustöngulsúpa, blaðlaukssúpa og blómkálssúpa, sem hér var raunar kölluð grænmetissúpa. Skelfisksúpa af aðalseðli var mun betri, sennilega hveitilaus.

Grænmetissalat með túnfiski, camembert-osti og olífusósu var bezti forrétturinn, efnismikill og fjölbreyttur og einkum þó vel ferskur.

Fiskréttir voru lítillega ofeldaðir og sumir ofsaltaðar, en hvorugt til mikils skaða. Smjörsteikt smálúðuflök voru fremur góð og grænmetið hæfilega léttsteikt, en sveppasósa var fremur hlutlaus. Í annað skipti var pönnusteikt lúða dálítið sölt, borin fram með fallegum sveppum og hæfilega léttsteiktu grænmeti.

Ristuðu lambalundirnar voru lítillega ofeldaðar eins og fiskurinn, bornar fram með villisveppasósu og skemmtilega bakaðri kartöflustöppu á hýðisbotni, soðinni peru, léttsteiktu grænmeti og hveitilausri sveppasósu. Piparsteikin var hins vegar fín, meyr og ljúf, borin fram með hveitilausri piparsósu og sama staðlaða meðlætinu.

Bezti maturinn var léttsteikt svartfuglsbringa með gráðostsósu, hæfilega lítið elduð og bráðnaði á tungu. Meðlæti og framsetning var svipuð og með öðru kjöti og ostasósan var of hlutlaus.

Heimalagaður ís hússins var borinn fram með þeyttum rjóma, súkkulaðisósu og ávaxtasneiðum. Ostakaka hússins var alveg eins og Royal-búðingur að áferð og bragði. Heit eplabaka með þeyttum rjóma var hins vegar góð.

Matreiðslan í Tilverunni er ekki framúrstefnuleg eða hugmyndarík, heldur frambærileg og stöðluð, betri í kjöti en fiski, sem er einmitt einkenni miðlungsstaða með þröngt svigrúm til metnaðar. Við pöntun er skynsamlegt að biðja um, að salti og eldunartíma fiskrétta sé í hóf stillt.

Jónas Kristjánsson

DV

Samurai

Veitingar

Innrétting í Samurai er einföld og vönduð að japönskum hætti, andspænis Gamla Bíói við Ingólfsstræti. Hrár fiskur í sushi og sashimi er yfirleitt ferskur og fallegur að japönskum hætti. Og verðlag er hátt að japönskum hætti. En tilfinningasnauð og ofgerð matreiðsla staðarins er hins vegar ekki merkileg og úr stíl við önnur sérkenni.

Gráblátt er í gólfi og lofti og ljósbrúnt í veggjum, undir japönskum listaverkum. Rúmt er um smekklega valin tréborð og tréstóla. Reitaðir tréskermar skipta staðnum í þrjá hluta, sem stór pottablóm gera fremur notalega. Nokkrir barstólar eru við sushi-barinn, þar sem kokkurinn setur saman hráa fiskbita.

Gestir fá volga dúka fyrir máltíð að hreinlátum hætti Japana. Þjónusta er elskuleg og fremur hæglát. Á leiðbeiningarsíðu í matseðli er því haldið fram fullum fetum, að bjór og viskí henti vel með japönskum mat, en ekki minnzt á te. Þetta sérstæða viðhorf kann að skýra metnaðarlitla matreiðslu. Töluvert er um gesti, einkum viðskiptakarla og jafnvel Japani.

Bezt er að fá sér hráa fiskinn, því að hann er yfirleitt ferskur og góður, lax, silungur, úthafsrækjur, lúða, humar, gervikrabbi, laxahrogn, smokkfiskur, rauðspretta og karfi. Sushi útgáfur hans eru mótaðar með hrísgrjónum, en sashimi án þeirra. Réttirnir eru bornir fram með sterkri piparrót og sojasósu til hliðar. Fimm saman kosta sushi 650 krónur, sjö kosta 860 og níu kosta 1020 krónur. Sama magn af sashimi kostar 780 krónur, 1080 krónur og 1440 krónur.

Mikið úrval smárétta er á matseðlinum og kosta um 600 krónur hver. Þrír eða fjórir saman mynda þeir heila máltíð fyrir einn. Aðrir kaflar matseðilsins fjalla um núðlusúpur, hrísgrjónarétti, pottrétti, súpur og djúpsteikingar.

Yaki Ramu voru hæfilega grillaðir og bragðgóðir lambakjötsbitar á teinum. Furai Mono var djúpstekt og hlutlaus blanda af svínakjöti, kjúklingum og rækju í of miklum steikarhjúpi. Masu Yaki var grillaður silungur sæmilegur með sætri sósu. Yakitori voru ofgrillaðir kjúklingabitar á teinum. Oyalu Don voru egg, ofeldaður kjúklingar og laukur á hrísgrjónabeði í súpuskál. Yakitori Don voru eggaldin, paprika, seigur kjúklingur, og kryddlegnir hvítkálsþræðir á hrísgrjónabeði í súpuskál. Miso-súpan skildist sundur, einkum í hádeginu.

Samurai gefur takmarkaða innsýn í japanska matreiðslu, hina einu í heiminum, sem stenzt samjöfnuð við hina franskættuðu matreiðslu Vesturlanda. Sú japanska einkennist af áherzlu á bragði og gæðum hráefnanna, snöggri eða engri matreiðslu þeirra, einfaldri og litríkri framreiðslu. Japanskir kokkar kunna vel með þang og þara að fara og ættu að því leyti að geta verið okkur til fyrirmyndar.

Bezt er hér að halda sig við sushi og sashimi. Þessir réttir eru að vísu ekki eins girnilegir og slíkir réttir voru nokkur haust í boði á Borginni, en þeir eru frambærileg kynning á því, hvernig góður japanskur matur er einfaldastur. Að öðru leyti má skola matnum niður með viskíi og gleyma honum.

Jónas Kristjánsson

DV

Austur-Indíafélagið

Veitingar

Ein bezta ástæða heimsóknar til London er að fá sér snæðing á einu af indversku veitingahúsunum, sem þar skipta hundruðum. Nokkru ódýrara er þó að skreppa á Hverfisgötuna og fá sér að borða á Austur-Indíafélaginu. Þar er vönduð matreiðsla, fremur skólabókarleg og nánast kórrétt. En hún er ekki tilþrifamikil og einkum er hún dýr. Hún mun því ekki leiða sparsemdarfólk inn í leyndardóma indverskrar matreiðslu.

Hin fjölbreytta indverska matreiðsluhefð er með hinum merkari í heiminum, skemmtilegri en til dæmis kínversk. Frá fljótasvæðunum í norðri eru mongólsk áhrif með lambakjöti, jógúrt og hveiti. Frá Dekan-skaga í suðri koma sterkt kryddaðir grænmetisréttir, kókos og hrísgrjón. Frá fenjunum í austri eru svo til dæmis kotasæla og baunasúpur.

Við indverska matreiðslu, eins og raunar aðra matreiðslu en fransk-vestræna og japanska, er sá galli, að hráefnið sjálft fær ekki að njóta sín, heldur er það kryddið, sem látið er gefa tóninn. Þetta getur orðið leiðigjarnt til lengdar. Og tilgangslítið er að nota dýrt hráefni á borð við humar og nautalundir,.

Indversku innréttingarnar eru að mestu óbreyttar frá tíð Taj Mahal, sem hér var áður, ógnarlangar breiður af slæðum í lofti og indversk listaverk á veggjum. Heildarsvipur er virðulegur, parkett gljáandi og tónlist indversk. Þjónusta er afar indversk, sem sagt kurteis. Þrátt fyrir hátt verðlag er ekki mikið lagt í lín. Borðplötur eru glerlagðar og munnþurrkur úr efnisrýrum pappír. Og básar eru of þröngir á svona dýrum stað.

Við fáum okkur Poppadum, grillaðar og stökkar brauðflögur, meðan við skoðum matseðilinn. Þær eru bornar fram með koríander-sultu og tveimur öðrum kryddsultum. Með matnum borðum við Nan, mjúkar flatkökur, steiktar í leirofni. Hrísgrjónin pöntum við annað hvort Pulao, kryddsoðin, eða Biryani, með kanil, kardimommum, negul, anís og grænmeti.

Samósurnar voru einna skemmtilegustu forréttirnir, léttkryddaðar kjöt- eða grænmetisblöndur, vafðar í heilhveitiþríhyrninga og djúpsteiktar. Pagórurnar voru líka góðar, smásaxaður laukur, djúptsteiktur í kjúklingabaunadeigi, með koríander-sultu.

Tandoori-réttirnir eru einkennisréttur margra indverskra veitingastaða, meðal annars þessa. Það er jógúrt- og kryddhúðað kjöt, sem steikt er í Tandoor-leirofni. Skemmtilegi rétturinn af þessu tagi og oftast meyr var hálfi kjúklingurinn, sem borinn er fram snarkandi á pönnu.

Indversk framreiðsla veitinga hentar hópum, því að réttirnir eru ekki bornir fram á diskum, heldur fötum, sem síðan er haldið volgum á kertakössum á miðju borði. Allir geta smakkað á öllu og haldið uppi gáfulegum samræðum um réttina og samanburð á þeim.

Einstaklega gott indverskt kaffi er á boðstólum, höfugt og ilmríkt, en kostar því miður 250 krónur bollinn. Búast má við, að þriggja rétta máltíð losi 3.000 krónur á mann. Eftirréttir eru ekki merkilegir, enda nota Indverjar þá lítið. Eftir mat fá gestir heita andlitsdúka og frískandi sælgætis-smákúlur með kryddfræjum.

Jónas Kristjánsson

DV

Salatbar Eika

Veitingar

Bezti salatbarinn, sem ég hef fundið í borginni, er Salatbarinn hans Eika í afskekktri götu að nafni Fákafen í Skeifunni. Þar er aðeins salat á boðstólum, allt tindrandi ferskt, meira að segja jöklasalatið. Tegundirnar eru milli tuttugu og þrjátíu og verðið aðeins 700 krónur á mann, að kaffi inniföldu.

Matstaðurinn er hins vegar afar kuldalegur og fráhrindandi, þótt hreinlegur sé. Það er ekki innréttingum að kenna, því að sjálfsafgreiðsluborð með spegli og ljósum er aðlaðandi og bakháir tréstólar eru fallegir.

Fyrst og fremst er litavalið afar hart. Línuna gefur ljótur, dimmblár litur á nöktum langvegg, studdur gulum og rauðum lit á öðrum veggjum og hræðilegum vaxdúkum á borðum, grimmdarlega bláum og rauðum. Þá gefa risastórir og naktir gluggar útsýni til vetrarmyrkursins.

Hér þarf fyrst og fremst að skipta um borðdúka, mála alla veggi að nýju af smekkvísi með náttúrulega mildum litum og koma pottablómum og gluggatjöldum fyrir í glugganum. Náttúrulegur matur kallar á náttúrulega liti, ekki grunnliti litaspjaldsins.

Taka má salatborðið í fjórum áföngum. Fyrst eru það súpurnar, sem jafnan eru tvær, önnur tær og hin þykk, en ekki uppbökuð, oft karrísúpa eða spergilsúpa. Þetta eru svo sem engar verðlaunasúpur í stíl viðurkenninga, sem hanga á veggnum fyrir ofan, en góðar og hollar og hlýlegar í vetrarkuldanum, einu heitu réttirnir á staðnum. Með súpunum eru nokkrar tegundir af fallegu brauði.

Þá er gott að blanda sér hrásalat úr jöklasalati, rauðlauk, tómati, gúrkum, papriku, baunaspírum og alfaspírum, eggjum og ostbitum. Olífuolía og vínedik eru á staðnum, en litlar skálar og kryddstauka vantar til að blanda sér tæra salatsósu, til dæmis vinaigrettu. Þykkar salatsósur forblandaðar eru hins vegar sex að tölu.

Næst er rétt að snúa sér að blönduðum salötum hússins. Oftast eru tvö baunasalöt, annað úr forsoðnum nýrnabaunum og hitt úr bökuðum baunum. Kartöflusalöt eru yfirleitt tvö, annað í eggjasósu og hitt í karrísósu. Pastategundir eru fjórar. Þá er venjulega túnfiskamauk og rækjusalat í eggjasósu. Loks eitthvað af kryddlegnu grænmeti, svo sem gulróta- og rófuþráðum.

Máltíðin endar svo á ávöxum úr ávaxtakörfu og ávaxtasalati, oftast melónusneiðum, eplabitum í mjólkursósu og vínberjum með ostbitum. Við getum hins vegar sleppt kaffinu, því að það er með bandarísku lagi, sér í botn með mjólk í.

Jónas Kristjánsson

DV

Amigos

Veitingar

Loks fást góðir og bragðsterkir pönnukökuréttir af mexikóskum ættum í Reykjavík, á nýlegum veitingastað við hlið Jónatans Máfs í Tryggvagötu. Þar má af löngum matseðli velja flestar þekktustu tegundir af maís- og hveitikökum og verða aldrei fyrir vonbrigðum.

Þetta eru hinar hefðbundnu tortillas úr maís; svo og stórar og mjúkar burritos; oststeiktar enchiladas-maísrúllur; djúpsteiktar, en ekki stökkar tacos; gufusoðnar tamales-maískökur; piparaðar quesadillas-hveitikökur; upprúllaðar, djúpsteiktar og stökkar taquitos; djúpsteiktar og stórar chimichangas; og óvafðar fajitas, sem gestir fylla sjálfir.

Mexikósk matreiðsla er með hinum merkari í heimi, að grunni frá Aztekum hinum fornu, blönduð áhrifum frá Spánverjum og síðar Frökkum. Maís, kakó, kartöflur, tómatar og vanilla komu upprunalega frá Mexikó og hafa flætt um allan heim. Nú á dögum einkennist mexikósk eldamennska einkum af maís-pönnukökunum.

Amigos er stór og rúmgóður staður, hannaður í spönskum Texasstíl, með skemmtilega grófum og ljósrauðum veggjum ofan við grænar þiljur. Við sitjum á miðlungi þægilegum tréstólum með sessum við svört borð á vönduðu timburgólfi. Stemmningin er góð og niðursoðin tónlist stundum í hærri kanti.

Góð þjónusta, öflug og glaðleg, er aðalsmerki staðarins. Þjónustustúlkan mundi nákvæmlega, hver hafði pantað hvað og kom tólf mismunandi réttum til skila án þess að þurfa að spyrja neins. Þetta gerist ekki einu sinni á dýrustu veitingastöðum landsins. Verðlagið er í meðallagi, aðalréttur á 1.245 krónur að meðaltali og þriggja rétta máltíð með kaffi á 2.535 krónur að meðaltali.

Sömu atriðin eru endurtekin í sífellu í fyllingum og meðlæti mismunandi pönnukökutegunda, svo sem hrísgrjónaklatti, lárperumauk, pintobaunamauk, tómatsósublanda, bræddur ostur, sýrður rjómi, chili-pipar og jöklasalat.

Muchos Nachos var skemmtilegur forréttur, matarmikið og létt salat með stökkum tortillaflögum úr maís. Annar góður var Cevice, sterklega sítrónuleginn og meyr fiskur, klæddur stökkri pönnukökuskel. Camarones Chimichanga voru góðar rækjur, djúpsteiktar í mjúkri og víðáttumikilli hveiti-tortilla-köku, skyldri burritos.

Tortilla kjúklingasúpa var góð og þykk og kraftmikil tómat- og grænmetissúpa með bræddum osti og stökkum tortilla-ræmum. Osta-Chili Relleno var djúpsteiktur og bragðsterkur chili-pipar, fylltur bráðnum osti. Fajita voru óvafðar hveitikökur, sem gestir fylltu sjálfir margvíslegu innihaldi, matarmikill réttur.

Texasáhrif voru í Chili Con Carne, eins konar ofurkryddaðri lasagna úr nautahakki og tortilla-plötum, borinni fram með stökkum maískökum, fremri amerísku útgáfunni. New York áhrif voru í Buffalo Wings, sem er sniðug aðferð til að losna á góðu verði við kjúklingavængi sem enginn vildi áður borða eða borga.

Maískökurnar frá Mexikó gefa færi á sætum eftirréttum að íslenzkum pönnukökuhætti. Þeirrar ættar eru kanillegin epli í djúpsteiktri maísköku, með þeyttum rjóma og súkkulaðisósu.

Jónas Kristjánsson

DV

Caruso

Veitingar

Notalegur formúlustaður undir ítalska nafninu Caruso er nýlegur af nálinni í Bankastræti. Gamalkunn formúlan felst í að rífa húsnæði niður í fokhelt, leyfa hressum stílista að leika lausum hala við framleiðslu á ímynd og bjóða síðan tilviljanakennda matreiðslu með bragðsterkum sósum á fremur háu verði.

Unnt er að komast hjá annmörkunum með því að halla sér að pizzum, sem hvorki eru lakari eða dýrari en gengur og gerist í bænum, kosta að meðaltali 1050 krónur og eru matarmiklar. Pitsa vegetali var fremur góð, hvorki hörð né seig, með hlutlausri sósu og ekki minnisstæðri.

Kaffið hét espresso, borið fram í litlum bollum. Það var svipað venjulegu kaffi, þunnt og ómerkilegt. Tiramisú var rangnefni eins og kaffið, íslenzk verksmiðju-lagterta með ostakökulögum, með miklu af þeyttum rjóma, súkkulaði- og jarðarberjasósu.

Beikonvafðar rækjur eru dularfullar á matseðli og reyndust vera aulafyndni. Þær bjuggu yfir yfirgnæfandi beikonbragði í bland við bragð af sætri púðursykursósu. Enn sterkara bragð var að jalapeno-piparkrydduðum úthafsrækjum, fremur seigum, blönduðum pönnusteiktu grænmeti á borð við rauðlauk, jöklasalat, grænan pipar og sveppi. Eldbragðið var skemmtilegt, en óþarft að blanda rækjum í það.

Sumt var ágætt í matreiðslunni. Þar á meðal voru fylltir sveppahattar með gráðosti og hæfilega kryddaðir hvítlaukssmjöri. Ennfremur kúrbítssneiðar undir ostþaki, með mildri tómat-basilikum-sósu. Einnig milt makkarónupasta með góðum smokkfiski og rækju í tómatsósu. Á óvart kom, að skötuselur var meyr og ferskur og ekki þíddur, borinn fram með góðu hrásalati, en því miður yfirgnæfður af laukkryddaðri tómatsósu.

Vel tókst til með fiskisúpu staðarins, þykka og bragðsterka tómatsúpu með nokkrum rækjum og smokkfiskhringjum. Laukblönduð tómatsúpa dagsins var líka þykk og matarleg, borin fram með smurðum pizzugeirum, snarpheitum úr ofni. Langbezt var ferskt salat í miklu magni, mestmegnis jöklasalat, ekki enn orðið brúnt, með rauðlauk, feta-osti, ætiþistilhjörtum og töluverðu af rækjum, borið fram í olíuedikssósu.

Lambahryggsneið var næsta grá og þétt, en sæmilega góð, með brakandi fiturönd og sterkri tómatsósu og bakaðri kartöflustöppu. Eins og í mörgum öðrum réttum staðarins var sósan hinn ríkjandi þáttur. Sama var að segja um ofeldaðan eldislax, engifer- og piparsteiktan, fátæklegan að magni, borinn fram með skúffubökuðum kartöfluskífum, sætri tómatrjómasósu og hvítlauksbrauði.

Vínlistinn er hversdagslegur, að mestu frá Gancia, jafnlítið spennandi og hvíta fransbrauðið, sem borið var á borð í upphafi máltíðar. Til var þó Chianti Classico frá Ricasoli á 2.150 krónur.

Þjónusta var óskóluð og ljúfmannleg. Slæðingur var af erlendu ferðafólki og innlendum saumaklúbbum, en markhóp ósjálfstæðra ungmenna vantaði. Ímyndin hefur ekki selzt enn.

Bezt er að sitja við lítil borð í notalegri garðstofu úti við götu. Innra er skuggsælla að sitja við stór borð umhverfis skrautlegan bar og pizzuofn. Innréttingar eru hráar, meðal annars burðarbitar í lofti, en vandaður viður er í nöktum borðplötum.

Miðjuverð þriggja rétta og kaffis er í skýjunum, 3.325 krónur. Hádegistilboð er samt frambærilegt, 870 krónur fyrir súpu og rétt dagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Grænn kostur

Veitingar

Ódýrasti og skemmtilegasti sprotinn á tízkumeiði grænmetismatstofa er lítil sjálfsafgreiðsluhola að húsabaki við Skólavörðustíg og kallar sig réttilega heilsubitastað. Grænn kostur heitir hann, þrauthannaður að fransk-ítölskum hætti nútímans og svo ljótur að innréttingum, að hann getur næstum talizt smart.

Svipur staðarins er napur, glansandi málmur, og groddalegur krossviður, fjólublá málning og stælleg næfurljós, háir barstólar við hringlaga smáborð, steinflísar í gólfi og stórir gluggar út að bílageymslunni að Bergsstöðum.

Samt er andrúmsloftið gott, starfslið glaðlegt og viðskiptavinir greinilega með lífsstíl. Með óviðurkvæmilegri alhæfingu mætti segja, að á Grænum kosti borði ungt og glatt fólk; á Næstu grösum borði magaveikt fólk og þekktir sérvitringar; og á Grænu og góðu borði sorgbitið fólk á miðjum og meðvituðum aldri.

Allir grænmetisstaðir borgarinnar hafa að markhópi fólk, sem vill ekki eða má ekki borða óþverrann í mötuneytunum, sem eru alfa og ómega íslenzkrar matargerðar. Fólk snæðir hér hversdagslega, en ekki til spari. Verðlag Græns kosts endurspeglar það betur en hinna staðanna, enda er þetta sá staðurinn, sem slegið hefur í gegn.

Hér fást tveir heitir réttir dagsins á 495 krónur hálfur skammtur og 650 krónur heill. Ýmsar minna áhugaverðar bökur og svokallaðar samósur fást á 300 krónur, upphitaðar í örbylgjuofni. Tertusneiðar kosta 200 krónur, en ekki eru á boðstólum ferskir ávextir, sem þó ættu að vera aðalsmerki eftirrétta á slíkum stað.

Matreiðslan er hér lítillega fjölbreyttari en á hinum stöðunum, sem yfirleitt bjóða aðeins einn rétt dagsins. Hún er líka hressilegri og frjálslyndari í meðferð á kryddi, undir áhrifum matreiðslu úr þriðja heiminum. Grænn kostur sannar, að grænmetisfæði þarf alls ekki að vera bragðdauf þjáning.

Matreiðslan er í kórréttu samræmi við sjónarmið náttúrulækningamanna, notar til dæmis ekki póleruð hrísgrjón eins og gert er á Næstu grösum. Hér er einnig daðrað við hugmyndafræði þeirra, sem ekki vilja sykur eða hveiti. Sykur er raunar alls ekki notaður á staðnum og jafnan er annar aðalrétturinn hveitilaus. Hér rúmast í senn mest sérvizka og mest tilbreyting.

Meðal þess, sem hér hefur sézt á boðstólum, er mildur karrípottur með sojabaunum, steiktu grænmeti og lífrænum hýðishrísgrjónum; sterkur karrípottur með kjúklingabaunum, kartöflum og aprikósusósu; norður-afrískt húmmus með karrígrænmeti; linsubaunabuff, kjúklingabaunabollur og gulrótaborgarar. Allt voru þetta bragðgóðir og bragðríkir réttir.

Hrásalat er sæmilegt, en getur tæpast keppt við það, sem kemur úr eldhúsi ýmissa veitingahúsa, sem ekki kenna sig við grænmetisfæði. Þetta er stílbrot í kerfinu eins og skorturinn á ferskum ávöxtum. Tvennt bætir úr skák, að hrásalötin eru tvö og að gestir geta sjálfir lagað sér olífuedikslög.

Líklega er það heiftarleg óvild ríkisstjórnarinnar í garð innflutts grænmetis, sem veldur því, að ódýr veitingahús hafa ekki ráð á fallegu hrásalati. Í sérhagsmunagæzlu sinni spillir hún þannig heilsu þjóðarinnar eins og öðru.

Jónas Kristjánsson

DV

Kínamúrinn

Veitingar

Enginn talaði íslenzku á Kínamúrnum og þjónninn litla ensku, eigandinn heldur meiri. Ofan á tungumálaerfiðleika bætist stjórnsemi eigandans, sem heldur stíft fram einhverju öðru en því, sem valið er af seðli, hugsanlega því, sem hentugast er að elda hverju sinni.

Þjónustan var laus við fagmennsku, ruglaði réttum milli borða og kom til skila tveimur réttum af fjórum, bar fram kökudiska í stað matardiska og teskeiðar í stað mataráhalda, skildi ekki beiðni um löglegan reikning og bætti við hann teverði, sem var innifalið.

Erfitt er að finna tilgang með svona sérstæðu veitingahúsi ofan á allar kínversku matstofurnar, sem fyrir eru. Staðurinn er samkvæmt reynslunni frekar vonlítill, þótt hann sé við Hlemmtorg, því að hér hefur hvert veitingahúsið á fætur öðru lagt upp laupana.

Gömlu og þægilegu innréttingarnar hafa að mestu verið látnar halda sér. Nokkru hefur verið aukið af skreytingum til að gefa kínverska stemmningu, en í engu ofgert. Rauðir litir eru áberandi, lýsing notaleg og stemmningin róleg, enda fátt um gesti.

Matseðillinn er langur að kínverskum hætti og réttirnir heita mismunandi nöfnun, en eru eigi að síður hver öðrum líkir. Svo virðist sem til séu ótal kínverk orð yfir djúpsteikingu, sem er mesta dálæti matsveinsins.

Við biðjum um Yu Siang, Wu Siang, Hoi Sin, Chen Pee, Gu Lao, Gao Pao og svo framvegis og fáum næstum alltaf eitthvað djúpsteikt og sætt, yfirleitt með miklum steikarhjúp og einhverri útgáfu af súrsætri sósu, afar sætri. Notað er ótæpilegt magn af MSG-kryddi á pinnaréttum.

Súpurnar eru áberandi beztar á Kínamúrnum. Svonefnd West Lake Soup var eggjadropasúpa úr nautasoði með gúrku og rækjum. Á öðrum stað hét eins súpa einfaldlega eggjadropasúpa og var jafngóð fyrir það. Svonefnd sterksúr súpa var bæði sterk og góð.

Djúpsteiktur Wu Siang fiskur var kominn með ellilykt, en olli þó engum meltingartruflunum, enda hefur sögumaður fengið góða þjálfun vítt um lönd. Djúpsteikt lambakjöt var aðallega hjúpur og framkallaði samkeppni borðfélaga í leit að innihaldi.

Annað sérkenni staðarins er, að það, sem heitir kjúklingur á seðli, verður að nautakjöti á diski, nautakjöt á seðli verður að kálfakjöti á diski, kálfakjöt á seðli verður að svínakjöti á diski og svínakjöt á seðli verður að kjúklingi á diski. Þetta getur leitt til skemmtilegrar eftirvæntingar við borðið og kemur að gagni, ef umræðuefni skortir.

Ef þessi staður væri í skáldsögu, væri hann ekki í rauninni matstofa, heldur framhlið fyrir eitthvað rosalega spennandi að tjaldabaki, til dæmis atburði úr James Bond bíómynd.

Í boði eru tíu raðir af þremur, fjórum eða fimm réttum, fyrir utan súpu. Þeir kosta frá 980 krónum, en miðjuverðið er 1.590 krónur. Ég held, að innihald þeirra sé að mestu hið sama, þótt textinn sé mismunandi. Í hádeginu fæst réttur dagsins á 550 krónur.

Eiginlega er ekki rétt að kalla þetta kínverskan matstað. Nær er að ætla, að staðurinn sé ættaður frá tunglinu.

Jónas Kristjánsson

DV