Veitingar

Carpe Diem

Veitingar

Góð matreiðsla skín gegnum grautarstælana á Carpe Diem, framúrstefnulegum, og hljóðbærum veitingasal Hótels Lindar við Rauðarárstíg. Hún lýsti sér m.a. í ljúfu nautaseyði með svartsveppaolíu, sem gaf indælt og frísklegt bragð í fennikkustíl. Súpan var utan seðils og sérlöguð handa gesti, sem neitaði einni af hinum hefðbundnu hveitisúpum íslenzkra veitingahúsa.

Grautarstælarnir eru í stíl hressilega groddalegra listaverka staðarins, sem gerð eru úr afgöngum frá vélaverkstæðum, svo sem tannhjólum og bílfjöðrum.

Upp af aðalréttum rís venjulega hraukur djúpsteiktra grænmetisþráða, aðallega úr graslauk og blaðlauk. Undir þráðunum ægir öllu saman í graut, fiski eða kjöti, hrásalati, léttsteiktu grænmeti og bakaðri kartöflustöppu, jóðlandi í fremur sætri sósu, oftast tómatsósu.

Fiskur dagsins var villtasta útfærsla þessarar einhæfu matreiðslu. Þar mátti finna í einum haug bita af karfa, lúðu, smokkfiski, hörpufiski og úthafsrækju, innan um hrásalat og léttsteikt grænmeti. Úr einni hlíð matarfjallsins skagaði bökuð kartöflustappa. Hver tónn var út af fyrir sig góður, en grauturinn í heild var samfelld lagleysa.

Þetta sérstæða og tæpast lystuga þema endurtekur sig í hverjum rétti á fætur öðrum og hefur þann kost einan að vera öðru vísi en annars staðar. Staðurinn vill skera sig úr og tekst það alla leið frá A til Ö.

Innréttingar eru kuldalegar, úr steinflísum, stáli og gleri, studdar skemmtilegri vélsmiðjulist og nýtízkulegum næfurljósum, innan um gula og rauða málningu. Sívalt og áberandi vínrekks-altari úr stáli í miðjum sal gefur tón, sem endurómar yfir í matreiðsluna.

Upphaflega var hún í hávaðasömum og kalifornískum Ítalíustíl, en hefur smám saman hneigzt nær hinni hefðbundnu og leiðigjörnu miðju íslenzkrar veitingamatreiðslu. Fátt er á breytilegum matseðli, sem getur hrist upp í fólki, nema væri humarinn með svörtu pasta og bleksósu, er hentar fremur með kolkrabba en humar.

Stundum er sjávarfangið fremur mikið eldað, svo að það verður seigt, til dæmis úthafsrækjur og smokkfiskur. Í annan tíma og oftar er það hæfilega snöggt eldað, en yfirleitt yfirgnæft í bragði af frekjulegu sósu- og meðlætisjukki.

Leifar frá Ítalíustílnum sjást fremur í nöfnum en innihaldi. Svonefnt carpaccio var ólíkt kryddlegnum nautasneiðum upprunalandsins, þykkar sneiðar, jóðlandi í sósu. Tiramisú ostakakan var þessi venjulega búðarkaka, sem hér á landi minnir lítið á Feneyjar. Espresso-kaffið var úr nýmóðins vél, sem mjólkar ágætu kaffi, en ekki espresso. Venjulega kaffið var betra

Þjónusta er fagleg og elskuleg, dósatónlist er þægileg, sérstaklega Johnny Cash, stólar eru í tæpu meðallagi þæginda, dúklausar borðplötur úr gleri eru án diska fyrir volgar heilhveitikollur, sem koma með flugvélasmjöri í körfu. Munnþurrkur úr pappír eru þykkar og góðar.

Miðjuverð þriggja rétta með kaffi er groddalegt eins og listaverkin, hefur farið hækkandi að undanförnu og er nú um 3250 krónur á mann. Súpa, réttur dagsins og kaffi kosta í hádeginu 1150 krónur, sem er öllu aðgengilegra. Glas af frambærilegu húsvíni kostar 330 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV

Amma Lú

Veitingar

Sá fáheyrði atburður hefur gerzt í veitingabransanum, að risið hefur skemmtistaður, sem hefur góðan og hugmyndaríkan mat á boðstólum. Þetta er brot á öllum hefðum innanlands sem utan og veldur því, að ég brýt að þessu sinni þá hefð að fjalla í veitingarýni minni aðeins um hreina matsölustaði, danslausa og prógrammlausa.

Amma Lú í kjallara Borgarkringlunnar er eins og klúbbur, ekkert auðkenndur að utanverðu og mildilega þungt innréttaður úr daufbrúnum viði, með bogariðum, bókahillum og börum. Heildaráhrifin eru fremur virðuleg, að minnsta kosti á þeim tíma sólarhringsins, sem ég þekki til, það er á matmálstíma og fram undir miðnætti.

Annað fáheyrt við matinn á Ömmu Lú er, að á föstudagskvöldum hefur að undanförnu verið á boðstólum þriggja rétta matseðill á 1993 krónur á mann auk drykkjarfanga. Velja má milli fjögurra forrétta, fjögurra aðalrétta og þriggja eftirrétta. Þetta er hreint gjafverð.

Eldhúsið kom strax á óvart með heimabökuðu brauði, grófu hvítlauksbrauði með basilikum og hvítu anisbrauði með rúsínum og banönum. Síðara brauðið er ólíkt öllu öðru, sem ég hef prófað á langvinnum ferli.

Góð fiskisúpa var gerð úr sterku humarsoði með stórum hörpufiski. Andakjötsræmusalat var fallega sett á disk og frísklegt. Ostapastabögglar voru ekkert sérstakir, en bornir fram með góðri gráðostsósu. Fegursti forétturinn var reyktur lax á steiktum kartöfluþráðum.

Grillaður nautahryggsvöðvi var mjög góður, grísalundirnar frambærilegar, svo og silungurinn. Grísinn var húðaður með ágætis innmatarfyllingu, svonefndri netju. Bezt var kjúklingabringan, borin fram með linsubaunum, sem gáfu réttinum austrænan svip og ilm.

Súkkulaðibúðingur var mildur og fínn. Pönnukaka var of þykk fyrir minn smekk. Beztur var skozkur karamellubúðingur, kallaður vanillubúðingur. Kaffi var gott og reikningurinn beztur, aðeins 1993 krónur á mann.

Á laugardagskvöldi kostar þríréttað svipað og á beztu matstöðum landsins, um 3100 krónur að meðaltali, fyrir utan drykkjarföng. Matseðillinn er þá allt annar og einnig var boðið upp á óvenjulega hluti á borð við ferskar ostrur og ferskan stórhumar frá útlöndum. Ostrurnar voru ágætlega ferskar og humarinn frambærilegur.

Á seðlinum var úrvals fiskisúpa karríkrydduð; góð gæsabringa rúmlega léttreykt; og fínasti hörpufiskur af stærstu gerð með góðu og léttu hvítlaukshlaupi.

Í aðalrétt var lambalæri með góðu gulrótarmauki og ristuðum hvítlauk. Einnig góð önd, steikt á pönnu, borin fram með ferskjum. Og nautalundir með fínu bragði af pecanhnetuhjúp, bornar fram með kartöfluflöguköku.

Súkkulaðiterta í skákborðsstíl var ekki góð. Hins vegar var góður lime-búðingur með kiwimauki. Marsipanhúðaðar perur voru fremur góðar, en berjafylltar pönnukökur voru þykkar eins og í fyrra skiptið.

Matreiðslan var í heild af betra taginu og kom á margan hátt á óvart með hugmyndaflugi í smáu sem stóru, svo sem reynt hefur verið að lýsa hér að ofan.

Ég veit ekki, hvernig Amma Lú er sem skemmtihús. En þetta er örugglega alvöru matstaður með metnað.

Jónas Kristjánsson

DV

Reykjavík

Veitingar

Reykjavík fékk slæma útreið í skoðanakönnun ferðatímaritsins Condé Nast Traveler um, hvaða borg heimsins hefði verstu veitingahúsin. Þessi niðurstaða er afar skaðleg fyrir ferðaímynd landsins, því að þetta er eitt allra þekktasta og mest selda ferðatímarit í heimi.

Öfugir vinsældalistar af þessu tagi hafa tilhneigingu til að hafa varanleg áhrif, sem engin leið er að bæta með auglýsingaherferðum. Skoðanakannanir eru yfireitt óhlutdrægt ritstjórnarefni, sem hefur meira vægi en kynningarefni frá aðila, sem hefur hagsmuna að gæta.

Niðurstaða könnunarinnar kemur okkur í opna skjöldu. Íslenzkir gagnrýnendur á sviði veitinga hafa fremur talið ástandið í Reykjavík vera gott í samanburði við erlendar borgir. Erlendir kunnáttumenn á þessu sviði hafa yfirleitt stutt þetta álit að fenginni reynslu.

Fyrsta hugsunin eftir lestur tímaritsins er, að einhver mistök hafi átt sér stað við úrvinnslu skoðanakönnunarinnar, til dæmis að víxl hafi orðið á borgum. Þetta er langsótt skýring, svo að við neyðumst til að líta í eigin barm til að leita að því, sem hlýtur að vera í ólagi.

Hafa verður í huga, að þeir, sem róma íslenzk veitingahús, eru yfirleitt að tala um nokkra veitingastaði í Reykjavík. Þetta eru yfirleitt frekar fínir staðir, sem margir ferðamenn tíma ekki að sækja. Þótt þetta séu dýrir staðið, eru þeir ekki dýrari en hliðstæðir staðir í útlöndum.

Verðbilið frá venjulegum stað yfir í dýran stað er miklu þrengra hér á landi en í útlöndum. Þótt dýrari staðirnir í Reykjavík standist samkeppni við hliðstæða staði í útlöndum, gera ódýrari staðirnir það ekki. Það eru ódýru staðirnir í borginni, sem eru allt of dýrir.

Erlendir ferðamenn laðast sennilega að stöðum, sem þeir búast við, að séu ódýrir og frambærilegir í senn. Í þessum hópi eru vestrænir skyndibitastaðir fyrir hamborgara, pítsur og pítur, svo og austræn veitingahús af ýmsu tagi. Á þessum alþýðlegu sviðum fáum við mínus.

Enn verra er ástandið, þegar komið er út á þjóðvegina. Þar ríkir víðast undarleg verðlagning, þar sem hamborgarasjoppur við benzínstöðvar eru að reyna að herma eftir verðlagi fínu staðanna. Þessar sjoppur eru misjafnar að gæðum, en almennt séð á óvenjulega lágu plani.

Verið getur, að erlendir ferðamenn séu með í huga þessa utanbæjarstaði, þegar þeir gefa Reykjavík lága veitingaeinkunn. Við vitum alténd, að þetta eru staðir, sem margir útlendingar neyðast til að skipta við, af því að ekki er kostur á neinum öðrum á viðkomandi svæði.

Annað atriði, sem dregur okkur niður í áliti ferðamanna, er svimandi hátt verð á bjór. Útlendingar telja hann vera hversdagslega fæðu á borð við kartöflur, en stjórnkerfið á Íslandi telur hann vera eina helztu lúxus-vöruna, sem beri að skattleggja upp fyrir topp.

Þriðja atriðið er óbeins eðlis, hin opinberu mötuneyti. Þau eru óhagkvæm í rekstri og tefja útbreiðslu ódýrra hádegisverðarstaða í borginni. Framkvæma þarf ágæta nefndartillögu um, að starfsfólk fái að nota hina niðurgeiddu matarmiða sína á frjálsum veitingastöðum.

Aðilum íslenzkra ferðamála ber að taka málið föstum tökum. Skilgreina þarf, hvað það er, sem erlendum ferðamönnum fellur ekki, og reyna síðan að bæta þá þætti, sem lakastir eru. Afleitt er, ef hluti ferðaþjónustunnar kemst upp með að skaða hagsmuni heildarinnar.

Þegar íslenzk veitingamennska er sumpart rómuð og sumpart talin alræmd, hlýtur það að byggjast á einhverju misræmi, sem breyta má í hagstætt jafnvægi.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinsældalistinn

Veitingar

Að minnsta kosti sjö veitingahús í borginni eru dýrari en bezta matargerðarmusterið. Hótel Holt í Þingholtsstræti er orðinn betri kostur en nokkru sinni fyrr, því að verðlagi þess hefur verið haldið í skefjum. Á kvöldin kostar þar um 3.300 krónur að borða þrjá rétti, að drykkjarföngum frátöldum. Á öðrum fínimannsstöðum borgarinnar er hliðstætt verð frá 3.500 krónum upp í 3.700 krónur á mann.

Tvö næstbeztu matargerðarmusterin eiga það sameiginlegt að hafa haldið verðlagi í skefjum. Það er Við Tjörnina í Templarasundi, þar sem þríréttaður matur kostar 2.900 krónur, og Þrír Frakkar hjá Úlfari við Baldursgötu, þar sem hann kostar 2.800 krónur. Þetta verð er nálægt meðalverði reykvískra veitingahúsa og gæðin gefa ekkert eftir því, sem bezt þekkist í útlöndum.

Þessi þrjú veitingahús hafa um nokkurt skeið verið stjörnustaðir landsins. Þangað er gott að fara með útlendinga og aðra gesti, sem hafa vit á mat. Og þangað er gott að fara, þegar ætlunin er bara að fara út að borða. Allt eru þetta litlir og þægilegir staðir, hver með sínum hætti, Holtið virðulegast, Tjörnin rómantískust og Þrír Frakkar franskastir.

Í næsta gæðaflokki eru nokkur hús í verðflokknum 2.100 krónur til 2.500 krónur. Allt eru þetta traustir matstaðir með hagstæðu hlutfalli verðs og gæða. Tælenski staðurinn Siam á/899 Skólavörðustíg er í 2.100 krónum, íslenzki staðurinn Askur við Suðurlandsbraut í 2.200 krónum, bandaríski staðurinn Hard Rock Café í Kringlunni í 2.300 krónum, nautasteikhúsið Argentína á Barónsstíg í 2.400 krónum og ítalski staðurinn Pasta Basta á Klapparstíg í 2.500 krónum.

Landsins beztu steikur úr gamla, íslenzka nautakyninu fást í Argentínu. Ferskt pasta fæst í Pasta Basta, sem þar að auki er notalega innréttað. Hefðbundinn matarsmekkur Íslendinga fær útrás á Aski. Hard Rock Café gefur innsýn í góðar hliðar bandarískrar matargerðarlistar og er þar að auki sérkapítuli í hönnun veitingahúsa. Siam er bezti fulltrúi austrænnar matargerðarlistar í landinu, lítil og rómantísk matstofa.

Í ódýrasta kanti veitingahúsa höfuðborgarinnar eru nokkur hús, sem eru svo góð, að þangað er hægt að “fara út að borða” til að eiga kvöldstund og ekki bara til að seðja hungur sitt. Það er einfalt Kínahúsið við Lækjargötu, þar sem þríréttað kostar 1.700 krónur, sparibúinn Laugaás á Hótel Esju, þar sem það kostar 1.300 krónur, hálfítalskt og örsmátt Hornið í Hafnarstræti á 1.300 krónur og loks gamli, góði, hversdagslegi Laugaás á Laugarásvegi, þar sem það kostar 1.100 krónur.

Ýmsar aðrar matstofur eru góðir, en þessar hafa vakið sérstaka athygli mína á yfirreið um veitingamarkaðinn, sem lauk í síðustu viku. Verðlagið er miðað við kvöldmáltíð af valseðli. Hafa verður í huga, að í hádeginu er á sumum þessum stöðum og ýmsum öðrum hægt að fá mjög ódýran mat. Um það atriði verður fjallað í næstu grein, sem birtist í fyrsta föstudagsblaði eftir áramót og verður þá lögð höfuðáherzla á verðlagið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ódýrt í hádeginu

Veitingar

Ódýrt er að borða í hádeginu á ýmsum góðum veitingastöðum í Reykjavík. Lægst er verðið í Kínahúsinu við Lækjargötu, þar sem kjúklingasúpa og rækjuréttur kosta 495 krónur í hádeginu. Og hagstæðast er verðið í stjörnuveitingahúsinu Við Tjörnina í Templarasundi, þar sem súpa og réttur dagsins kosta 800 krónur í hádeginu.

Síðan hefðbundnir viðskiptamálsverðir lögðust að mestu af á Íslandi hefur of lítið verið um að vera í hádeginu í veitingarekstri. Kvöldin eru vinsælli hjá viðskiptavinunum. Þetta hefur lækkað hádegisverðlag sumra veitingahúsa og kallað á margvísleg tilboð, sem sum hver eru svo freistandi, að fólk ætti að gefa þeim meiri gaum.

Kínahúsið er bezti austurlandastaður borgarinnar og um leið einn hinn ódýrasti. Rækjurnar eru djúpsteiktar, með þunnum steikarhjúp, og bornar fram með súrsætri sósu. Fyrir 595 krónur fæst þetta sama og til viðbótar karrílamb og hnetukjúklingur. Gæðin eru hátt yfir hamborgarastöðum og pizzubúlum höfuðborgarsvæðisins.

Sumir austurlandastaðirnir bjóða hlaðborð í hádeginu. Góð kjör eru í Asíu við Laugaveg, þar sem súpa og sex réttir kosta 790 krónur. Gæðin takmarkast af því, að maturinn er geymdur í hitakössum, en við slíku er lítið að gera, ef menn sækjast eftir aðgangi að hlaðborði.

Sama lága verðið er á hlaðborðinu í Sjanghai, aðeins ofar við Laugaveg. Þar eru einnig súpa og sex réttir á borðum, en eldamennskan er fremur kæruleysisleg.

Bezti Ítalíustaðurinn í borginni, Pasta Basta við Klapparstíg, býður súpu og pastahlaðborð í hádeginu á litlar 720 krónur. Þetta er girnilegur og góður matur, en pastað er auðvitað kalt, því að það mundi spillast, ef því væri haldið heitu. Í verðinu eru fimm tegundir af pasta, sem er gert á staðnum, eins og brauðið, sem fylgir súpunni.

Hefðbundið salatborð er þekktast, einna ódýrast og sennilega bezt í Pottinum og pönnunni við Nótatún. Súpa og salat kostar 790 krónur. Sama verð er á kvöldin, svo að þá er veitingastaðurinn í hagstæðasta kanti. Með eftirrétti fer hlaðborðsverðið í 890 krónur. Svipað salatborð er á boðstólum í samnefndu steikhúsi við Laugaveg.

Bezta hlaðborðið, bæði heitt og kalt, með mörgum kjötréttum, er í Aski við Suðurlandsbraut. Salatbarinn er girnilegasti þáttur þessa hlaðborðs, sem kostar 890 krónur í hádeginu og hefur raunar lækkað töluvert í verði.

Ýmsir aðrir veitingastaðir bjóða hádegisverð á minna en 1000 krónur á mann. Það kostar til dæmis 790 krónur að borða á Pisa í Austurstræti, 890 krónur í Lækjarbrekku í Bankastræti, 895 krónur í Prag við Hlemmtorg, 950 krónur í Óðinsvéum við Óðinstorg og 990 krónur í glæsilegum Primavera í Húsi verzlunarinnar.

Raunar kostar ekki nema 1395-1595 krónur að borða í hádeginu í bezta veitingastofu borgarinnar, Hótel Holti. Þetta verð er í rauninni sáralágt í samanburði við gæðin.

Fáir gera sér svo grein fyrir, að það kostar ekki nema 800 krónur að borða í hádeginu á einum af þremur beztu stöðum landsins. Hádegistilboðið við Tjörnina í Templarasundi er einstakt í sinni röð, af því að staðurinn er rómantískur og matreiðslan oftast í meistaraflokki.

Drykkjarföng eru ekki meðtalin í krónutölum þessarar greinar, nema kaffi er víða innifalið í hádegisverði.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinsældalistinn

Veitingar

Að minnsta kosti sjö veitingahús í borginni eru dýrari en bezta matarmusterið. Hótel Holt í Þingholtsstræti er orðinn betri kostur en nokkru sinni fyrr, því að verðlagi þess hefur verið haldið í skefjum. Á kvöldin kostar þar um 3.300 krónur að borða þrjá rétti, að drykkjarföngum frátöldum. Á fínimannsstöðum borgarinnar er hliðstætt verð frá 3.500 krónum upp í 3.700 krónur á mann.

Tvö næstbeztu matargerðarmusterin eiga það líka sameiginlegt að hafa haldið verðlagi í skefjum. Það er Við Tjörnina í Templarasundi, þar sem þríréttaður matur kostar 2.900 krónur, og Þrír Frakkar hjá Úlfari við Baldursgötu, þar sem hann kostar 2.800 krónur. Þetta verð er nálægt meðalverði reykvískra veitingahúsa og gæðin gefa ekkert eftir því, sem bezt þekkist í útlöndum.

Þessi þrjú veitingahús hafa um nokkurt skeið verið stjörnustaðir matargerðarlistar landsins. Þangað er gott að fara með útlendinga og aðra gesti, sem hafa vit og áhuga á mat. Og þangað er gott að fara, þegar ætlunin er bara að fara út að borða. Allt eru þetta litlir og þægilegir staðir, hver með sínum hætti, Holtið virðulegast, Tjörnin rómantískust og Þrír Frakkar einfaldastir.

Í næsta gæðaflokki eru nokkur hús í verðflokknum 2.100 krónur til 2.500 krónur. Allt eru þetta traustir matstaðir með hagstæðu hlutfalli verðs og gæða. Tælenski staðurinn Siam á Skólavörðustíg er í 2.100 krónum, íslenzki staðurinn Askur við Suðurlandsbraut í 2.200 krónum, bandaríski staðurinn Hard Rock Café í Kringlunni í 2.300 krónum, nautasteikhúsið Argentína á Barónsstíg í 2.400 krónum og ítalski staðurinn Pasta Basta á Klapparstíg í 2.500 krónum, allt með sams konar útreikningi.

Landsins beztu steikur úr gamla, íslenzka nautakyninu fást í Argentínu. Ferskt pasta fæst í Pasta Basta, sem þar að auki er notalega innréttaður staður. Hefðbundinn matarsmekkur Íslendinga fær útrás á Aski. Hard Rock Café gefur innsýn í góðar hliðar bandarískrar matargerðarlistar og er þar að auki sérkapítuli í hönnun veitingahúsa. Siam er bezti fulltrúi austrænnar matargerðarlistar í landinu, lítil og rómantísk matstofa.

Í ódýrasta kanti veitingastaða borgarinnar eru nokkur hús, sem eru svo góð, að þangað er hægt að fara út að borða til að eiga kvöldstund og ekki bara til að seðja hungur sitt. Það er einfalt Kínahúsið við Lækjargötu, þar sem þríréttaður matur kostar 1.700 krónur, sparibúinn Laugaás á Hótel Esju, þar sem hann kostar 1.300 krónur, hálfítalskt og örsmátt Hornið í Hafnarstræti á 1.300 krónur og loks gamli, góði, hversdagslegi Laugaás á Laugarásvegi, þar sem hann kostar 1.100 krónur.

Ýmsar fleiri matstofur eru góðar, en þessar hafa vakið sérstaka athygli mína á yfirreið um veitingamarkaðinn, sem lauk í síðustu viku. Verðlagið er miðað við kvöldmáltíð af valseðli. Hafa verður í huga, að í hádeginu er á sumum þessum stöðum og ýmsum öðrum hægt að fá mjög ódýran mat. Það er annar handleggur og um hann verður fjallað í annarri grein, sem birtist væntanlega á þessum stað í fyrsta föstudagsblaði eftir áramót.

Jónas Kristjánsson

DV

Prag

Veitingar

Notalegur veitingastaður hefur byrjað göngu sína á erfiðum krepputíma á erfiðum stað, þar sem mörg veitingahús hafa risið og hnigið og hrunið, við ofanvert Hlemmtorg. Þetta er Prag, lítil og vingjarnleg matstofa, þar sem áður var Rauði sófinn. Það er ánægjulegt að ljúka hringferð um veitingahús borgarsvæðisins með pistli um nýjan stað, sem hefur reynzt eiga erindi í erfiða samkeppni.

Húsakynnin eru lítillega breytt. Þau eru orðin hlýlegri og vistlegri en nokkru sinni fyrr. Innviðir eru úr tré, grænmáluðu hið neðra og gulleitu ofar. Grænt er höfuðlitur staðarins, í þéttum gluggapóstum, lömpum og pappírsþurrkum. Húsbúnaður er þungur og vandaður, en fjölbreytilegur, því að við hvert borð eru stólar með sínu lagi. Heklaðir dúkar eru undir diskum. Viðargólf er fallegt og á því eru dýr teppi. Skreytingar eru lítt breyttar.

Þjónusta er góð, svo sem alvanalegt er orðið. Úreltir eru orðnir fordómarnir um, að þjónustustörf hæfi ekki Íslendingum. Þvert á móti er óhætt að fullyrða, að þjónusta veitingahúsa sé að meðaltali hvergi betri í Evrópu en einmitt hér á landi, menntuð og alúðleg í senn.

Prag er um sinn aðeins opin á kvöldin, en verður um miðjan mánuðinn opin að nýju í hádeginu á virkum dögum, svo sem var til skamms tíma. Í tilboði dagsins er súpa og val milli tveggja fiskrétta á 890 krónur í hádeginu og 1180 krónur að kvöldi. Af stuttum fastaseðli kostar um 2715 krónur að borða þríréttað.

Vínlistinn er slakur, einkum í rauðvíni. Af hvítvínum eru helzt drykkjarhæf Mouton Cadet og Sancerre. Að þessu leyti minnir fátækt staðarins einmitt á veitingastaði hins forna Habsborgararíkis Evrópu, en matreiðslan minnir sem betur fer ekki mikið á þunga matreiðslu Vínarborgar, Budapest og Prag. Hún er íslenzk og góð.

Fyrst var borin fram ídýfa með gulrótar- og gúrkulengjum, stundum paprikulengjum. Með súpunni komu góðar brauðkollur, hvítar og volgar, svo og smjör í bolla. Súpur voru miklar að vöxtum og bragðsterkar að miðevrópskum hætti. Meðlæti með aðalréttum var yfirleitt staðlað.

Lauksúpa dagsins var of áfengisblönduð og eftir því bragðsterk. Spergilsúpa dagsins var bragðsterk og þykk, fremur góð. Fiskisúpa var karríkrydduð og vel rjómuð, með lúðu, laxi, hörpu og rækjum.

Laxakaka var frábær, betri en í beztu stöðum Parísar, létt og mjúk og ljúf, með fínlegri eggjasósu og ristuðu brauði. Hvítlauksristaðir sniglar voru frambærilegir.

Fiskurinn gekk vel. Steikt heilagfiski með camembert- ostasósu var hæfilega eldað og bragðgott, sömuleiðis gufusoðinn steinbítur með skelfisk- og sveppasósu. Ostbakaðir sjávarréttir voru góðir, rækja, harpa og lúða.

Buff Praha var hakkabuff úr góðu kjöti, létt og gott, með hrásalati, bakaðri kartöflu og þremur ídýfum, rauðrófumauki, sýrðri rjómasósu, steinseljusmjöri. Mjög góð var piparsteik með sama meðlæti og þrenns konar piparkornum, rauðum, grænum, svörtum. Steikin var í sama hágæðaflokki og í Þremur frökkum og Argentínu.

Sítrónu-ostakaka var góð, enda beint frá Osta- & smjörsölunni, sem hefur náð ágætum árangri á þessu sviði. Svonefndar Prag-pönnukökur voru góðar, bornar fram með ís og súkkulaði og of miklu af líkjör.

Jónas Kristjánsson

DV

Lækjarbrekka

Veitingar

Lækjarbrekku hefur farið mikið fram. Matreiðsla er oft mjög góð, einkum á kvöldin, Þá er verðið líka hátt, um 3425 krónur fyrir þrjá rétti. Í hádeginu er hægt að fá súpu dagsins og val milli nokkurra aðalrétta á um það bil 895 krónur. En þá er matreiðslan stundum lakari.

Lækjarbrekka er rauðfjólublá í hádeginu. Há stólbök og dúkar undir glerplötum stinga í augu í birtunni og hæfa ekki ljósum og fíngerðum húsakynnum. Á kvöldin hverfur misræmið að nokkru leyti inn í rökkur kertaljósanna. Þá sést líka minna til smekkleysanna á veggjum, sundurgerðarlegra spegla og málverka í ýktum svifstíl.

Bezt er að fá sæti í götustofunni hjá flygli, borgundarhólmsklukku og saumuðu veggteppi, því að ónæðissamt er í fremri stofuni við skenkinn, og uppi á lofti er eins og að vera í sumarbústað í Norðurlandalegum furustíl.

Þjónusta er góð í Lækjarbrekku, glaðleg og menntuð. Staðurinn lyftist í hádeginu með tauþurrkum í stað pappírs, en dregst jafnóðum niður aftur með köldu smjöri í álpappír að hætti flugfélaga. Á kvöldin laðar píanisti að gesti. Þá er oft erfitt að heyra í sjálfum sér.

Matseðillinn í Lækjarbrekku er of langur og ruglingslegur. Þar er boðinn villibráðarseðill, sjávarréttaseðill, grænmetisseðill, barnamatseðill og kolagrillseðill, auk venjulegs matseðils. Ekkert eldhús af þessari stærðargráðu getur ráðið við slíka fjölbreytni í framboði.

Súpa dagsins í hádeginu var tær tómat- og grænmetissúpa í miklu magni, óspart og skemmtilega krydduð, vel heit. Með henni voru góðar brauðkollur volgar. Hrásalatið með aðalréttinum var á diskunum sjálfum og lyppaðist niður í heitum sósum. Djúpsteiktur steinbítur í léttu og þunnu orlydeigi var vel eldaður og mjúkur, með góðri og bragðmikilli sósu. Camembert-ostgljáður skötuselur dagsins var hæfilega eldaður, með góðri ostasósu.

Að kvöldi var í upphafi boðinn smakkréttur, reyktur fiskur, harpa og humar í sósu með áberandi bragði af reyktum fiski, góður matur. Þá var álpappírinn horfinn og smjörið borið fram í tveimur fallegum bollum, annar með venjulegu smjöri og hinn með hvítlaukssmjöri.

Tindabikkju-terrine var frumlegur réttur og góður, skata vafin um litla grænmetisteninga, borin fram með rauðri og sætri rauðrófusósu. Ristaðir humarhalar í blaðdeigskörfu með humarsósu voru mun betri en í Setrinu, stórir humrar í afar þunnu og stökku blaðdeigi.

Grænmetisréttir eru sérgrein Lækjarbrekku. Grænmetisforréttur var afar fallegt og litskrúðugt og fjölbreytt hrásalat með eggjum, alfaspírum og baunum, svo og þremur sósum. Grænmetisbaka með fersku salati, bakaðri kartöflu og sveppahvítlaukssósu var mjög gott. Bezt var hæfilega snöggsteikt grænmeti og góðar kajun- hnetur, framreitt með afar góðum hrísgrjónum.

Kolagrilluð lambasteik, pensluð hvítlauksolíu, með meyrum humar í skelinni, linum sveppum og kryddsmjöri, var rósrauð, lungamjúk og bragðgóð. Villigæsabringa með perum og góðri Jägermeister-sósu var hæfilega lítið elduð, örlítið rósrauð, þunnt sneidd, borin fram með léttelduðu grænmeti og grænmetisböku.

Konfektterta hússins var sæt og góð, með ís og jarðarberjasósu. Heit eplakaka með kanil var fögur og fín.

Jónas Kristjánsson

DV

Setrið

Veitingar

Setrið á Holiday Inn býður frumlega matreiðslu, sem tekst oft, en ekki alltaf. Hugmyndaflugið er glannalegt á köflum, einkum í bragðsterkum sósum. Ég veit ekki, hvort þessi matreiðsla hentar óðviðbúnum hótelgestum, en hún er skemmtileg tilbreytni fyrir þá, sem eru þreyttir á staðlaðri matreiðslu íslenzkra veitingahúsa.

Matsalurinn er ópersónulegur og allt að því kuldalegur, hæfir ekki hressilegri matreiðslunni. Betra er að koma í hádeginu, því að þá er snætt fyrir framan salinn, nánast í anddyrinu. Þar er hönnun innréttinga líflegri og andrúmsloftið næstum fjörugt, þegar gestkvæmt er á hótelinu. Á báðum stöðum eru stólar þægilegir.

Þjónusta er skóluð og góð, en dálítið spör á undirbúning salarkynna. Dauflegra er að ganga til borðs milli auðra borða en uppábúinna, eins og ekki sé von á fleiri gestum. Þá er ekki við hæfi í dýru veitingahúsi að bera smjör á borð í álpappír eins og þetta sé í flugvél. En þurrkurnar eru úr dúki í hádegi sem að kvöldi.

Í hádeginu kostar réttur dagsins með súpu og kaffi 1.000 krónur og 1.700 krónur á kvöldin. Meðalverð þriggja rétta af matseðli er 3.235 krónur, sem er nálægt hefðbundnu hótelverði í borginni. Á vínlista er töluvert af fínu og dýru víni, en hóflega verðlögð eru þar í bland.

Súpa dagsins var í eitt skiptið afar heit sveppasúpa með of sterku vínbragði. Í annað skiptið var hún afar heitt kjötseyði með hæfilegu jafnvægi í bragði. Sveppasúpan var dæmi um, að á þessum stað er stundum farið yfir mörkin í áherzlu á bragðsterk hliðaratriði.

Reykt villigæsabringa er gamalkunnur þáttur matseðilsins, góður réttur. Hún var fallega sett á hlaða af þráðargrænmeti, með ristuðum sesamfræjum á annarri hliðinni. Humarhalar í forrétt voru aðeins þrír talsins, lagðir í blaðdeig, bornir fram með steiktum laukþráðum og sterkri humarsósu, kostuðu heilar 1790 krónur eins og raunar líka rauðsprettutoppur á kampavínsfrauði.

Í hádeginu voru fiskréttir fallega settir á disk, en hversdagslega um kvöldið. Í öllum tilvikum var fiskurinn hæfilega lítið eldaður. Djúpsteikt ýsa dagsins var góð, borin fram með ekki nógu fersku jöklasalati, frönskum kartöflum, sterkri og góðri karrísósu, steiktum grænmetisþráðum og hrásalati. Smálúða dagsins í Rósinbergssósu var líka góð, borin fram með hvítum kartöflum og eggjasósu, sem í þessu tilviki var mild á bragðið.

Smjörsteiktur skarkoli með sítrónu og kapers var hressasti rétturinn. Rauðsprettan var góð, en yfirgnæfð af meðlæti. Hún synti í smjöri og kapers í kringum stóran hrauk af hituðum sítrónubátum, sem stjórnuðu algerlega heildarbragði réttarins. Grænmetið var léttsoðið og gott, nema sveppirnir, sem voru mauksoðnir. Þannig fer, þegar allt grænmeti fær jafna eldun án tillits til tegunda.

Lambarifjakjöt var afar gott, nákvæmlega tímasett í eldun, ljósrautt að lit. Með því var steiktur klatti af kartöfluþráðum og afar sterk salvíusósa, blönduð steinselju.

Ostakarlotta var osta- og haframjölskaka með sterkri brómberjasósu, sæmilegur eftirréttur. Eplabitar og rúsínur, hitað í móti, með góðri kanilsósu, var fyrirtaks eftirréttur. Góða hundasúrukrapið fæst ekki lengur.

Jónas Kristjánsson

DV

Taj Mahal

Veitingar

Taj Mahal hefur haldið góðri og fyrri reisn í matargerðarlist síðan það flutti á Hverfisgötuna við hlið Regnbogans, en er aðeins opið á kvöldin. Þótt það sé fremur dýrt af indversku veitingahúsi að vera, er það rétt innan við meðalverðlag reykvískra matsölustaða. Aðalréttir kosta um 1395 krónur og þríréttað kostar um 2490 krónur.

Umbúnaður og þjónusta eru í notalegu lagi á Taj Mahal. Mikið er lagt í indverskar skreytingar, þar á meðal hrossalegar eða öllu heldur fílslegar veggmyndir, svo og mikinn tjaldhiminn, sem hlykkjast um svæðið.

Gestir sitja við veggi eða í básum á miðju gólfi. Nokkuð er um, að fólk komi í fjörlegum hópum, enda hæfir það vel indverskum mat. Þá pantar fólk mismunandi rétti, sem eru hafðir á fötum á hitabrettum á miðju borði.

Matseðillinn er langur og nær til nokkurra helztu sviða indverskrar matreiðslu, sem er ein af hinum athyglisverðari í heiminum um þessar mundir. Þar má sjá milda rétti, sem eru ættaðir norðan frá Gengisdal, og sterka rétti, sem eru ættaðir sunnan frá Dekanskaga.

Gott er að byrja á næfurþunnu og stökku brauði, Poppadom, meðan verið að bíða eftir matnum. Með matnum er borðað mjúkt og seigt brauð, Nan, sem er bakað í leirofni. Báðar tegundirnar eru ágætar í Taj Mahal. Hrísgrjón eru sjálfsögð í allan mat, til dæmis soðin og saffrankrydduð Pilau; eða pönnustekt og kryddlituð Birjani, sem oft er beinlínis blandað í aðalrétti.

Forréttirnir voru góðir. Bhaji hétu góðar, djúpsteiktar, kryddaðar laukbollur, óreglulegar í laginu. Puri var gott brauð, sem hlaðið var karrílöguðum rækjum. Dhal var afar góð, þykk og sterk baunasúpa. Samosa voru góðir, djúpsteiktir þríhyrningar, sem voru vafðir um kjöt eða grænmeti. Mulligatavy var mild og góð grænmetissúpa.

Aðalréttirnir voru meira upp og ofan. Vindalú var afar sterkt, edikslegið kjöt í karrí, aðeins fyrir sérvitringa. Á matseðlinum er tekið fram, að það sé afar sterkt, eins og raunar er sagt um marga rétti, að þeir séu sterkir eða mildir. Það á að vera gestum til þæginda og er það.

Tandúrí réttir voru sæmilegir, en ekki eins góðir og þeir fást víða erlendis. Tandúrí er 700 gráðu leirofn og matreiðslan felur oftast í sér karrí- eða saffrankryddaða jógúrtsósu. Tandúrí lambakjöt var vel rautt af kryddi, en ekki nógu meyrt, hafði verið of lengi í ofninum. Tikka Masala kjúklingabringur voru betri, grillaðar í tandúrí, með sósu úr rjóma, möndlum og kókos, mildar og meyrar.

Dhansk er nafn á karríkjöti í sterkri baunasósu af súrsætum toga, nokkuð góðum rétti. Birjani hrísgrjón með grænmeti voru ekki merkileg, enda tæpast volg. Korma með rækjum í góðri karrírjómasósu var mildur og notalegur réttur. Pachanda nautakjöt var fremur gott, borið fram með kryddaðri jógúrtsósu góðri.

Sérstæðir eftirréttir frá Indlandi eru jógúrthristingar, sem hægt er að fá bæði sæta og salta. Hnetuís var ágætur, en nauðsynlegt negulbragðið hefur dofnað með árunum. Einnig er hægt að fá ís með mangóbragði.

Taj Mahal er eina indverska veitingahúsið, sem ég kannast við hér á landi. Þrátt fyrir þá afmörkuðu einokun er staðurinn frambærilegur, bæði í inlendum og er lendum samanburði. Hann er kominn til að vera.

Jónas Kristjánsson

DV

Múlakaffi

Veitingar

Fyrir mörgum árum var Múlakaffi gott veitingahús. Flutningabílstjórar sóttu þangað og stífluðu nálægar götur með bílum sínum. Þeir eru farnir annað, en eftir sitja leigubílstjórar og iðnaðarmenn. Þeir virðast ekki hafa sama nef fyrir góðum mat og flutningabílstjórar.

Ég veit ekki hvers vegna, en víðar um heim, til dæmis í Frakklandi og Bandaríkjunum, er gott ráð að leita uppi staði, sem flutningabílstjórar sækja á matartímum.

Múlakaffi hefur alltaf verið framúrstefnulega óvistlegur matstaður. Hann er opinn og kaldur og þó fyrst og fremst grár og aftur grár. Plaststólar eru við nakin plastborð með óhreinum leir og plastbökkum. Undir stálfótunum er grátt teppi, sem orðið er blettótt og þreytulegt.

Samt er þetta eins konar klúbbhús einstæðra karla, þar sem margir sitja áfram góða stund, þegar þeir eru búnir að fá sér að borða og kunna greinilega vel við sig.

Þetta er mötuneyti með sjálfsafgreiðslu, þar sem menn taka sér á disk við skenkinn og verða síðan að sæta því, að maturinn kólni meðan þeir eru að borða súpuna eða að grauturinn kólni meðan þeir eru að borða matinn. Kaffi geta menn hins vegar sótt sér síðar eftir þörfum.

Að meðaltali kostar 740 krónur að fá sér einn af sjö réttum dagsins; súpu eða graut; og kaffi. Í hádeginu eru margir staðir ódýrari en Múlakaffi. Á kvöldin er staðurinn aftur á móti í ódýrasta kanti, því að þá er minna um tilboð hjá öðrum. En hinir staðirnir eru ekki mötuneyti, bjóða yfirleitt einhverja eða jafnvel fulla þjónustu.

Venjulegar súpur dagsins í Múlakafi hafa reynzt mér undantekningarlaust vondar, frá tómatsúpum yfir í sveppasúpur. Þær voru þykkar og hveitikekkjaðar og einstaklega hlutlausar í bragði. Ég man ekki eftir öðrum eins súpum á ævinni. Brauðið með súpunum var hins vegar í lagi. Og einu sinni fékk ég ágæta baunasúpu.

Gufusoðin lúða var afar lengi soðin og eftir því þurr, borin fram með bragðdaufri ostasósu, hvítum kartöflum og vélskornu hrásalati í miklu magni. Lifur var sæmilega mjúk, borin fram með miklu magni af brúnni og bragðlausri þykksósu, blönduðu dósagrænmeti, rauðkáli og höm. Hrásalataið var bezt í þessari atrennu.

Beinlausir fuglar voru þrælsteikt kálfakjöt, vafið um höm, borið fram með dósagrænmeti, rauðkáli, hrásalati og stöppu. Kálfasnitsel var grimmdarsteikt og þurrt, borið fram með eins konar skæni, sem hét pastasósa, brúnuðum kartöflum, rauðkáli og dósabaunum. Pastarétturinn lasagna með kjöthakki var með frjálsu vali meðlætis, svo að hægt var að forðast rauðkál og dósabaunir.

Grautur reyndist vera Vilko-ávaxtasúpa. Eða þannig.

Einkenni matreiðslunnar voru mikið magn; langur eldunartími; þykkar og bragðlausar súpur og sósur; rauðkál og dósagrænmeti af ýmsu tagi; alveg eins og tíðkaðist í mötuneytum í gamla daga, fyrir þann tíma, er Múlakaffi var árum saman gott veitingahús. Enginn vandi væri að hafa matinn betri og þó á sama verði.

Mér dettur helzt í hug, að þetta eigi að vera svona; viðskiptavinirnir vilji einmitt þennan gráa mat í þessu gráa umhverfi, því að þeir mundu telja kvenlegt eða hommalegt að borða smmilegan mat í sæmilegum húsakynnum, jafnvel þótt hann væri ódýrari og færi betur í maga.

Jónas Kristjánsson

DV

Naust

Veitingar

Matreiðsla í Naustinu er fremur góð og traust, en hættir sér lítt út í breytingar eða tilþrif. Matseðillinn er að breytast um þessar mundir eftir að hafa verið óbreyttur í nokkur ár, en breytingin er varfærin og íhaldssöm.

Naustið er að mestu dottið af markaði hádegisverða kaupsýslumanna og hefur sennilega aldrei verið á markaði mataráhugafólks, þótt matreiðslan hafi undanfarin ár verið betri en hún var á frægðarárum staðarins, enda gerði samkeppnin þá minni kröfur en hún gerir nú.

Fyrst og fremst er Naustið fyrir vel stæða ferðamenn, það er að segja funda- og ráðstefnufólk. Staðurinn er einstæður; rómantískur og stílhreinn í senn. Hann er þrauthannaður án þess að vera ofhlaðinn. Hann er einn bezt heppnaði rammi utan um veitingar, sem ég hef kynnzt á Vesturlöndum og þá er töluvert mikið sagt.

Raunar á Naustið líka erindi til Íslendinga, því að það þjónar annars vegar svo vel því hlutverki veitingastaðar að búa til viðfelldið andrúmsloft og hins vegar að bjóða veitingar, sem eru af föstum og slysalausum gæðastaðli.

Naustið er dýrt á kvöldin. Þá er hægt að velja af matseðli séríslenzkra rétta fyrir 2.980 krónur þríréttað og af fastaseðli fyrir 3.935 krónur, einning þríréttað. Síðari talan sýnist mér vera Íslandsmet. Í hádeginu er verðið hóflegra. Þá er hægt að fá súpu dagsins og val milli um það bil sjö aðalrétta á 1.110 krónur að meðaltali.

Á íslenzka matseðlinum eru þrjár síldartegundir og reyktur og grafinn lax, lambahryggur, hangikjöt og lax, bláberjaskyr og ostakaka. Þetta er mjög við hæfi útlendinga, en gefur íhaldssama mynd af íslenzkri matargerð.

Súpa dagsins var fremur góð blómkálssúpa með volgum heilhveitikollum og smjöri í bolla. Tindabikkja var hæfilega pönnusteikt, en tæpast volg, borin fram með hvítlauks- og gráðostasósu. Lundabringur voru léttsteiktar og bragðgóðar, bornar fram með hlutlausri og hveitiþykkri villibráðarsósu og títuberjasultu.

Meðlæti var staðlað, bæði í hádegi og að kvöldi, nema hvað kartöflur voru soðnar með fiski og bakaðar með kjöti. Stöðlun meðlætis er yfirleitt merki þess, að menn séu ekki mjög stoltir og framgjarnir í eldhúsi.

Hrásalat var ekki á sérdiski, svo að sósan rann saman við það og gerði fremur hráslagalegt. Soðið meðlæti, aðallega brokkál, var yfirleitt mildilega meðhöndlað.

Sniglar og smokkfiskur á smjördeigskodda er klassískur Naustréttur, yfirleitt mjög góður. Tvenns konar hrogn með eggjarauðu og ristuðu brauði var líka góður forréttur, en nokkur yfirgnæfður í bragði af hráum lauki.

Ofnsteikt Pekingönd var ágæt, borin fram með appelsínusósu að hefðbundnum hætti. Nautasteik var meyr og bragðgóð, borin fram með bragðsterkri rauðvínssósu.

Kryddlegnir ávextir voru margs konar og allir ferskir, bornir fram í ljósri og góðri hvítvínssósu. Ostatertan var þétt og falleg, á góðum botni úr hnetumassa, borin fram með sultu, jarðarberjum og blæjuberjum.

Þjónusta Nausts er góð og hæfir vel notalegum húsakynnum og stöðu hússins sem eins af helztu gluggum íslenzkrar veitingamennsku gagnvart gestkomandi útlendingum. Ef framtak væri heldur meira í eldhúsi, féllu allir þættir staðarins í sama og góða farveginn.

Jónas Kristjánsson

DV

Gullni haninn

Veitingar

Gullna hananum virtist lítillega hafa daprazt flugið efst við Laugaveginn. Líklega var ég óheppinn, að eigandinn skyldi ekki vera við í neitt skiptið, sem ég sótti staðinn heim í þessari atrennu. Eldhúsið var mistækt, einkum í súpum, og gestamóttaka ekki eins fín og þegar eigandinn var sjálfur í hlutverkinu. Þeir réttir, sem mestu máli skiptu, voru þó góðir og þjónustan var í góðu lagi.

Verð er jafnan hið sama í veitingahúsum, þótt lykilmenn séu fjarverandi úr eldhúsi eða sal. Slíkt jafngildir yfirlýsingu um, að gæðin eigi að haldast, þrátt fyrir fjarvistir þeirra, sem gefa staðnum tóninn. Gestir eiga rétt á óbreyttum gæðum við allar aðstæður, ef verð er óbreytt.

Sumt hefur batnað. Nýr forskáli kemur í veg fyrir, að næði um gestina, sem næst sitja dyrum. Og fatahengi er komið á hlédrægari stað. Að öðru leyti er útlitið hið sama og áður, einfalt og vandað, að frátöldum skrautlegum bar, sem sést sem betur fer ekki víða að úr salnum.

Hálfsúlur og bogarið á veggjum, málverk Sólveigar Eggerz Pétursdóttur, reitað speglaloft, teppi og parkett einkenna staðinn nú sem fyrr. Þetta er notalegur staður, þótt hann sé ekkert hólfaður niður, og raunar dálítið góðborgaralegur. Hávaði úr gjallarhornum í hádegi og að kvöldi bætti ekki þessa mynd, en fékkst lækkaður.

Í hádeginu var hægt að fá súpu og rétt dagsins á 1140 krónur eða velja af hádegisseðli, þar sem þríréttað kostaði 2230 krónur. Á kvöldin var meðalverð á þríréttuðu 3130 krónur. Gullni haninn er fremur dýr staður.

Súpa dagsins var afar þykk hveitisúpa hlutlausrar ættar og gleymanleg. Með henni var léttristað fransbrauð með mjúku smjöri. Ofnbökuð grálúða dagsins var milt elduð og mikið pipruð, með mildri hvítvínssósu, smáum rækjum og léttilega elduðu grænmeti, ágætur matur.

Skeldýrakæfa á salatbeði var mjúk og góð, með hæfilega sterkri hvítlaukssósu. Hafrasteikt ýsuflök voru ofelduð og þurr, borin fram með góðu fiðrildapasta og góðri sojakryddsósu, sem björguðu réttinum fyrir horn.

Tómatbætt sjávarsúpa var afar þykk eins og súpa dagsins, með fjölbreyttu innihaldi, ekki spennandi. Blandaðir sjávarréttir kaldir höfðu meðal annars að geyma reyktan lax, vafinn um fiskikæfu; smáar rækjur góðar; góðan humar, seigan smokkfisk ekki góðan; afar saltan fisk leginn, sérkennilegan rétt; með rjómasósu og lime.

Í millirétt var gróft og létt vínberjakrap, fremur gott. Með aðalréttum var staðlað grænmeti, vel með farið í eldhúsi, léttilega soðið; brokkál, blómkál og rósakál, svo og seigar kartöflur, sem mér fannst vera endurhitaðar.

Pönnusteikt lúða var góð, með hæfilega mildri camembert-sósu og hvítvínssmjöri. Glóðaður lambavöðvi var rauður, sæmilega meyr og bragðgóður, vel pipraður, með góðri og sterkri sinnepssósu. Villikryddaðar svartfuglsbringur voru hæfilega eldaðar, meyrar, góðar og rauðar.

Rjómaís með fjölbreyttum berjum var góður, með góðri og sterkri jarðarberjasósu og súkkulaðihúðum kremhnappi. Rjómaostaterta var þétt, með mildri kirsuberjasósu og kiwi. Heimalagaður sveskjuís var góður, með mintu og mildu skyrkremi. Allir eftirréttir voru góðir.

Tveir eftirrétta voru á matseðli sagðir “gómsætir”, alveg eins og hinir væru það ekki. Seðla þarf að semja með gát.

Jónas Kristjánsson

DV

Mongolian Barbeque

Veitingar

Mongolian Barbeque er ágætt einu sinni eða jafnvel tvisvar, af því að það er öðru vísi en önnur veitingahús. Til lengdar er það hins vegar leiðigjarnt, því að þar er alltaf sami matur ár eftir ár, pönnusteiking af óbreytanlegu hlaðborði fyrir 1580 krónur á mann.

Verðið hefur hækkað, meðan annað veitingaverð í bænum hefur staðið í stað eða lækkað. Þetta verð er í lagi, ef gesturinn getur fengið sig til að líta á heimsóknina sem nýstárlega veizlu. Það er of hátt, ef hann er bara að reyna að borða eins og hann getur í sig látið, því að nokkrir aðrir veitingastaðir bjóða hlaðborð á lægra verði. Á matseðlinum er lögð áherzla á ofátið.

Ekkert mongólskt er við staðinn eða matreiðsluna. Á matseðlinum er bullað frjálslega um, að Djengis Kan hafi fengið svona mat fyrir átta öldum, en ég hef aldrei lesið um slíkt í sagnfræði matargerðarlistar. Mér sýnist nafn staðarins og sagnfræði matseðilsins helzt vera uppfinning einhvers grínista á auglýsingatofu.

Umhverfið er ekki sérstaklega vistlegt. Það kemur úr þremur áttum. Fátæklegar og gulmálaðar innréttingar eru að mestu frá tíma fyrra veitingahúss á þessum stað. Þegar nafn staðarins varð mongólskt, var bætt við fjöldaframleiddu Kínadóti úr plasti, svo sem vösum, luktum og blævængjum. Ennfremur málverkum af feitum og frönskum frúm, sem virðast aðframkomnar af ofáti.

Mongolian Barbeque er opið á kvöldin, þegar Grensásvegurinn er orðinn fremur eyðilegur, enda hafa mér virzt gestir ekki margir. Stólar og borð og næfurþunnar pappírsþurrkur eru í þjóðlegum mötuneytisstíl. Rauðir dúkar og matarprjónar koma hins vegar úr kínversku áttinni.

Máltíðin hófst með súpu, sem gestir skófluðu upp úr potti. Þetta hafa verið tærar kjötsúpur, fremur bragðdaufar í kínverskum stíl, og raunar alltaf sama súpan, þegar ég hef verið þar, alveg frambærileg súpa.

Síðan völdu gestir sér hrátt grænmeti og hrátt kjöt, svo og sósublöndur af hlaðborði. Kokkurinn tók síðan allan matinn og snöggsteikti hann í einu lagi á pönnu. Ekki notaði hann fínlegar aðfarir að japönskum hætti, heldur fékk allt hráefnið sama steikingartímann, allt í einum graut, frá sveppum yfir í lauk. Þetta sýnist mér vera tilfinningalítil og mötuneytisleg eldamennska á færibandi.

Frosið kjöt var sagað í þynnur, svo að það hentaði vel í þessa snöggu matreiðslu. Yfirleit hafa verið á boðstólum fjórar tegundir, naut, lamb, svín og kjúklingur. Sósublöndurnar hafa einkum verið fjórar, súrsæt, karrí, soja og sítrónu, en einnig til dæmis sesam, hvítlaukur, sykur, engifer, rísvín, barbeque, sterk chili og vínedik.

Grænmetið var bezti þáttur hlaðborðsins, ferskt og fallegt. Þar hafa verið sveppir og bambusræmur, laukur og baunaspírur, tómatar og gúrkur og paprika, svo og ýmislegt kál og salat. Þetta má setja saman í hrásalat eða láta snöggsteikja fyrir sig. Sérstakar sósur eru fyrir hráa grænmetið og aðrar fyrir það steikta.

Tilveruréttur Mongolian Barbeque í veitingahúsaflórunni byggist á því, að útilokað er að nota annað en gott hráefni. Gestir sjá það allt í hlaðborðinu áður en það er steikt, fallegar kjötþynnur og frísklegt grænmeti. Það veitir óneitanlega töluverða öryggistilfinningu.

Jónas Kristjánsson

DV

Blómasalur

Veitingar

Blómasalur Hótels Loftleiða hefur snögglega batnað eftir langa eyðimerkurgöngu. Hann er orðinn frambærilegur gluggi íslenzkrar matreiðslu gagnvart erlendum ferðamönnum, er sumir hverjir kynnast fáu öðru en hótelinu.

Verðlagið er svipað og í Holti, 3240 krónur fyrir þrjá rétti á mann, en gæðin mun minni. Þau eru hins vegar í góðu lagi, ef borið er saman við aðra staði hliðstæða í bænum. Salurinn er bara opinn á kvöldin, en fyrir framan hann er Lónið, sem alltaf er opið á matmálstímum.

Salurinn hefur lítið breytzt. Speglar á miðsúlu létta hann, svo og hvítur skenkur við eldhúsdyr. Drápuhlíðargrjót er enn á veggjum, lágt viðarloft, pottaplöntur við útsýnisglugga og fínir borðstofustólar. Litlu flugvélarnar fyrir utan gluggana gefa staðnum heimsmennskusvip.

Þjónusta er afar góð í Blómasal, einhver hins bezta á landinu, tæknilega örugg og streitulaus, hvorki yfirlætisleg né undirgefin. Það er sú breyting, sem mest sker í augum. Þessi góða þjónusta hlýtur að gefa ferðamönnum ánægjulega og traustvekjandi mynd af þjóðfélaginu.

Matseðillinn er eins og við er að búast í hótelsal og gæti raunar verið á alþjóðlegu keðjuhóteli, ef ekki væru á honum meira af fiski en kjöti. Fiskréttirnir eru að mestu leyti fastir, en ekki breytilegir eftir aðstæðum dagsins og þrengir það möguleika á tilþrifum í eldhúsi.

Vínlistinn er til fyrirmyndar, forðast dýr merki og heldur sér við einföld gæði. Þar eru sérríin Tio Pepe og La Ina; púrtarinn Noval; hvítvínin Hugel, Gewurztraminer og Cléray; og rauðvínin Chateau Barthez, Chateau Batailley, Mouton Cadet, Santa Cristina og Riserva Ducale.

Ferskur Hvalfjarðarkræklingur, hvítvínsgufusoðinn í skelinni, borinn fram með grönnum jöklasalatsþráðum, var fínasti forréttur. Ristaðir humarhalar í svokölluðu eikarlaufssalati voru eins konar humar- og paprikusalat með mosagrænu pasta, nokkuð góður réttur. Rjómalöguð sjávarréttasúpa með rækjum, hörpu og humri, var mild og volg, úr humarsoði, ekki merkileg. Laxarós úr reyktum laxi var fagurlega sett á disk og bragðgóð, borin fram með örsmáum kartöfluteningum og mintusósu, sem kölluð var graslaukssósa á matseðli.

Reyksoðið laxafiðrildi var í rauninni sæmilega þykk steik, sem minnti í bragði á reyktan fisk og hæfði því aðeins sérhæfðum smekk, borin fram með sítrónusmjörsósu og smásöxuðu grænmeti. Smjörsteiktur silungur var í lagi, fremur bragðdaufur, borinn fram með zucchini, góðri grænmetissátu og hvítvínsmöndlusósu. Grillaðir humarhalar með eigin soði og léttu salati voru til fyrirmyndar, bornir fram með ristuðu heilhveitibrauði og smjöri. Smálúða dagsins var fremur góð, en of mikið soðin, í eggjasósu með afar daufu saffranbragði. Rósapipraðar nautalundir með koníakssinnepssósu voru fagmannlega eldsteiktar við borðið, afar góðar.

Súkkulaðislaufa utan um frauð úr hvítu og dökku súkkulaði með kaffisósu var sæmileg. Fersk jarðarber með karamellusósu voru í rauninni óvenjulega fersk og falleg. Bláberjafrauð var úr íslenzkum bláberjum, afar góð ur eftirréttur. Heitur eplapíramídi með marsipani og vanilluís var hins vegar stór og leiðinlegur kökupíramídi yfir örlitlu magni af soðnum eplum og marsipani.

Jónas Kristjánsson

DV