Veitingar

Asía

Veitingar

Ég hef alltaf átt erfitt með að átta mig á Asíu við Laugaveginn. Þetta er eins konar blanda af kínversku, indónesísku, tælenzku, malasísku og jafnvel japönsku veitingahúsi. Þjóðlegi fókusinn er tætingslegur sem fyrr, en matreiðslan er orðin sómasamleg og þjónustan ágæt.

Fjarlæg Austurlönd eru fræg fyrir góða þjónustu. Þess vegna er athyglisvert, að hin austrænu veitingahús höfuðborgarsvæðisins, þar á meðal Asía, treysta undantekningarlítið á alíslenzka þjónustu, sem undantekningarlítið er mjög góð. Kannski eru Íslendingar í rauninni liprari við fólk en af er látið og kannski er kennslan í þjónaskólanum okkar bara svona fyrsta flokks.

Eitt helzta tromp Asíu er hádegishlaðborð, svokallaður Asíuvagn, súpa og sex réttir á 790 krónur, upp á síðkastið með betri mat en á svipuðu borði í Sjanghai ofar við götuna. Hlaðborðið er auðvitað minna sótt en í Sjanghai, samkvæmt þeirri reglu, að Íslendingar forðast það, sem betur er gert, að minnsta kosti í matargerðarlist.

Tær og mild hvítkálssúpa var fremur góð. Krabba- og grænmetissalat var afar bragðsterkt. Djúpsteiktar rækjur voru sæmilegar. Grannt þráðarpasta með grænmeti og rækjum var mjög gott. Svínrif með mildri sósu voru góð. Nautakjöt með sterkri sósu var óvenjulega gott, miðað við hlaðborð. Til hliðar voru sætsúr sósa og karrísósa, svo og aflöng hrísgrjón að vestrænum hætti.

Í hádeginu eru líka boðnir nokkrir stakir réttir með kaffi, vel skammtaðir, að meðaltali á 460 krónur. Djúpsteiktar rækjur í sætsúrri sósu voru óvenjulega góðar og með hæfilegum steikarhjúpi. Pönnusteikt smálúða var líka hæfilega elduð, borin fram með gróft skornu grænmeti, einnig pönnusteiktu. Þetta voru mikil gæði fyrir lágt verð, himinhæðum ofan við MacDonalds og allt dótið.

Utan dyra auglýsir Asía aðallega kvöldverðarhlaðborð, sem sagt er tuttugu rétta, en reyndist vera þrettán rétta, þegar ég prófaði það. Það er svo sem nóg að hafa þrettán rétti, en menn eiga að standa við það, sem þeir auglýsa. Þá var borðið tælenzkt, en nú er það orðið víetnamskt. Verðið nam litlum 1.390 krónum, að bjór eða gosi meðtöldu, stundum líka að bambus-fordrykki meðtöldum. Þetta er mikil og frambærileg veizla fyrir lítið fé.

Þarna var meðalsterk og fremur góð Tom Yum súpa; svínakjöt í súrsætri sósu; meyr kjúklingur í kókossósu; nautakjöt í sterkri Panang-karrísósu; stórar og of mikið hjúpaðar rækjur djúpsteiktar; skemmtileg egg kryddhúðuð; fremur góður humar djúpsteiktur; góður fiskur, einnig djúpsteiktur; afar seigur smokkfiskur; mildur grænmetisréttur; stökkar kröpök-brauðflögur; langkorna hrísgrjón gufusoðin; og nokkrar tegundir ferskra ávaxta.

Í Asíu er ofan á allt þetta boðið upp á tólf mismunandi matseðla á 1740 krónur á mann. Þeir koma úr ýmsum áttum Asíu og eru sennnilega samanlagt ofætlun einu litlu eldhúsi, en ég hef ekki prófað neinn þeirra nýlega.

Salarkynni Asíu eru tvískipt um miðjuna, þar sem skartað er hlaðborði hádegis og kvölds. Hægra megin við innganginn er látlausi og bjarti hlutinn, sem mest er notaður í hádeginu, og vinstra megin er þungskreytti og dimmi hlutinn með austrænum formúluskreytingum ferðamannastaða, mest notaður að kvöldi til.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjanghai

Veitingar

Sjanghai við Laugaveg hefur farið fram í þjónustu, en matreiðsla staðarins hefur dalað, einkum í hádeginu. Það kom meðal annars fram í djúpsteiktum rækjum með öldrunarlykt. Rækjan var að vísu meinlaus og ekki ólík því, sem matargestir þurfa að sæta í fiskréttahúsum sums staðar erlendis, en er sem betur fer nokkurn veginn óþekkt fyrirbæri hér í landi frábærlega fersks hráefnis.

Mér sýnist Sjanghai vera orðin skrautlegri og þrengri en áður. Kínverskar lugtir hanga í gylltu reitalofti og svört skilrúm hólfa staðinn niður í smærri einingar. Til viðbótar við gyllt og svart er svo rautt í dúkum undir glerplötum borðanna. Kínversk tréskurðarverk, blævængir og önnur austræn list skreytir veggina. Útibú í svipuðum ferðamannastíl er uppi á næstu hæð.

Þótt þetta sé nokkuð ferðamannalegur staður, er hann mest sóttur af Íslendingum, sem láta sig matreiðsluna litlu varða og sækja mest í slappt hádegishlaðborð, þar sem grænmetissúpa og sex réttir kosta aðeins 790 krónur.

Súpan var tær og sölt, afar bragðsterk. Djúpsteiktur fiskur var í miklum hjúp og óvenjulega seigur. Sama mátti segja um djúpsteiktu rækjuna. Sætsúrir kjúklingar voru hins vegar ágætir, bezti hluti hlaðborðsins. Svínakjöt í Sechuan-sósu var bragðsterkt og sæmilegt, og nautakjöt í grænmeti var nokkru betra. Mildur grænmetisréttur var sæmilegur. Hlaðborðinu fylgdu tvær sósur, súrsæt og Sechuan, svo og stökkt Poppadum-brauð.

Í annað skipti var grænmetissúpa dagsins fremur dauf; og rækjur í sætsúrri sósu eins og sagt var frá í greinarbyrjun. Súpa og val milli tíu stakra hádegisrétta kosta um 500 krónur, sem væri mjög gott, ef matur væri betri.

Á kvöldin hefur Sjanghai reynzt mér mun betur, enda er verðið þá nokkru hærra. Þá eru boðnar ýmsar syrpur fyrir þrjá eða fleiri á 1.990-2.750 krónur á mann, svo og Kanton-kvöldverður fyrir tvo á 1.290 krónur á mann. Á kvöldin fá gestir volga dúka eftir mat að austrænum sið og þá eru pappírspurrkurnar ágætlega þykkar.

Í síðastnefndu syrpunni var krabbasúpa, rækjur, kjúklingabitar, svínarif, nautakjöt, óvæntur réttur og eftirréttur. Súpan var tær og góð, vel heit, með eggjarauðuþráðum, baunum og maís. Rækjurnar voru með þykkum hjúp. Kjúklingabitarnir voru nokkuð góðir. Nautakjötsstrimlar voru góðir, með sterkri sósu og pönnusteiktu grænmeti. Það óvænta reyndist vera meyr harpa í súrsætri sósu, borin fram með stökkum þráðum. Svínarifin vantaði. Eftirrétturinn var ís með ananas og ávaxtahlaupi.

Ein syrpan fyrir fjóra gesti fól í sér tæra og góða villisveppasúpu með svartsveppum og fiskbitum; mjög góða smálúðu pönnusteikta með grænni og rauðri papriku; meyra hörpu með afar sterkri Satay-hnetusósu; afar smáan, en frambærilegan humar með kúlusveppum; sætsúra kjúklingabita nokkuð góða; ekki merkilegt nautakjöt í sterkri Hui Kuo sósu; steikt svínakjöt með blaðlauk; og mikið af deigi utan um djúpsteiktan banana.

Humar og kjúklingabitar komu í stað rækju og svínarifja, sem áttu samkvæmt matseðli að vera í syrpunni.

Eitt einkenna staðarins er, að hrísgrjón eru ekki hnöttótt og austræn, heldur löng og mjó að vestrænum smekk. Prjónar eru fáanlegir, en þeim er ekki haldið að gestum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hansen

Veitingar

Hansen í Hafnarfirði er notaleg matstofa, þótt matreiðslan sé ekki upp á marga fiska, að minnsta kosti ekki upp á fiskrétt dagsins, sem stundum er ekki frekar fáanlegur en helmingurinn af eftirréttum matseðilsins.

Veitingasalurinn er í einu af elztu húsum bæjarins, við hlið húss Bjarna Sívertsens og sjóminjasafnsins. Bindingsverk er í veggjum með dökkbrúnum stoðum og bitum og hvítmáluðu á milli. Gamalt og traust parkett er á gólfi. Ramminn hentar vel rekstri af þessu tagi.

Bætt hefur verið við sívölum stoðum og bitum í stíl, sem hófst hér á landi í Halta hananum. Milli þessarar nýsmíði eru mikil og dimm tjöld, sem stúka salinn niður. Sams konar tjöld eru í borðdúkum, sem ýmist eru óhreinir eða undir gleri. Litur tjaldanna stingur dálítið í stúf við ljóst blómaflúr í vönduðum stólum.

Skenkur er í ljósari og sléttari viði en aðrar innréttingar, ungar sem gamlar. Að baki hans eru enn ljósari hillur. Þetta er tæpast smekklegt frekar en aðrar innréttingar, en truflar þó ekki hina notalegu stemmningu, sem vingjarnleg þjónusta staðarfólks treystir í sessi.

Aðaltromp Hansens er að spara gestum sínum leigubíla. Gestir eru sóttir og þeim er skilað heim á öllu höfuðborgarsvæðinu. Flutningurinn er innifalinn í verði á súpu dagsins, aðalrétti að eigin vali af matseðli og eftirrétti að hætti kokksins, samtals á 2.900 krónur á mann.

Matseðillinn er stuttur og óbreyttur frá ómunatíð. Súpur voru að mestu rjómi, bæði súpa dagsins og skeldýrasúpa. Fyrir utan rjóma hafði hin fyrri að geyma nokkrar sveppaflísar úr dós og hin síðari fremur góðar rækjur, hörpu og humar. Sætar brauðkollur minntu á snúða.

Léttreyktur sjófugl var góður og meyr, en nokkuð grár, borinn fram með títuberjahlaupi. Gratineruð öðuskel var grimmdarlega elduð, með dökkbrúnni ostskorpu, borin fram með eggjasósu, sem var út í hött í þessu samhengi.

Fremur aldrað jöklasalat var með öllum aðalréttum, sömuleiðis bökuð kartafla, jafnt með fiski og kjöti.

Lúða dagsins var mikið elduð og eftir því þurr, með agnarögn af karrísósu með rækjum og seigri hörpu.

Lamafillet, sagt léttsteikt á seðlinum, reyndist vera þungsteikt, borið fram með miklu af mildri kryddjurtasósu og pönnusteiktu grænmeti, fremur ómerkilegu.

Fiskur dagsins var ekki fáanlegur í einni heimsókninni, þótt ekki séu nema nokkur skref frá höfn til húss. Í staðinn var mælt með grillaðri sjávarréttafantasíu matseðilsins. Rækjur voru í lagi, humar smár og mikið grillaður. Gratineruð harpa og rækja í karrísósu í öðuskel var ekki sérlega lystugt. Lax var sérstaklega þurr af völdum ofgrillunar. Lúða var sæmileg, en steinbítur háður sama þjösnaskap í eldun. Þetta var eftirminnileg fantasía, en verður áreiðanlega ekki endurpöntuð.

Ostakaka og eplakaka voru ekki til, þótt fáir væru gest ir og kvöldið ungt. Í eldhúsinu virtust menn ekki einu sinni nenna að standa við stuttan og óumbreytanlegan matseðil, hafa sennilega misst trú á framtíðina.

Súkkulaðikaka með þeyttum Amarettorjóma var þétt og góð, borin fram með jarðarberjum og kiwi. Í eitt skiptið var kaffi sæmilegt, í annað skipti með sápubragði. Mig grunar, að Hansen sé orðinn þreyttur í eldhúsinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Næstu grös

Veitingar

Fagurmálað hús gefur væntingar um ljúfa innviði að baki litlum glerrúðum. Heiti matstofunnar Á næstu grösum gefur væntingar um aldingarðinn Eden eða að minnsta kosti grænmetis- og ávaxtadeild Hagkaups.

Salurinn kastar köldu vatni á væntingarnar. Ekkert er rómantískt við tréveggi og trégólf. Þetta er eins og mötuneyti í herbúðum. Staðurinn er ber og kaldur. Naktir gluggar og rytjuplöntur enduróma í óþægilegum stálstólum með tréplötur í sessi og baki við eyðileg hringborð, klædd ljótum rúðudúkum, brúnum og hvítum, svo og óbrjótandi vatnsglösum. Hér er ekki vottur af stíl.

Staðurinn er nákvæm staðfesting þeirra fordóma, að neyzla náttúrufæðu hljóti að vera afneitun og meinlæti, ef ekki hrein refsing fólks, sem upp úr magasári hafi glatað lífslyst og fegurðarskyni og er orðið svo innhverft, að það sé orðið ónæmt fyrir umhverfi sínu.

Skenkurinn í horninu staðfestir, að þetta sé mötuneyti. Í stað hafsjávar af grænmeti og ávöxtum er þar fátæklegt hrásalat, aðallega jöklasalat, sízt merkilegra en hrásalatið á öðrum hverjum stað við Laugaveg. Það er langur vegur frá litadýrð allsnægtaborða heilsuhælisins í Hveragerði yfir til þessa fátæklega hlutleysis.

Ekkert val, ein súpa og einn réttur. Annar hver matstaður í bænum býður jafnmarga heita grænmetisrétti, þar á meðal þeir austurlenzku og ítölsku, sem byggja á matargerðarhefðum, er leggja áherzlu á jarðargróða. Hollustufæði er fáanlegt víðar í bænum en hér.

Verðið er ekki í mötuneytisstíl. Um 1.220 krónur kostar að fá sér súpu og fullan skammt af aðalrétti, svipað og víða annars staðar, þar sem framboð er meira. Í hádeginu er þetta raunar dýrt í samanburði við önnur hús, sem bjóða súpu og grænmetisrétti á þriggja stafa verði.

Á þessu verði á að vera hægt að gera út náttúruhús með klassa í gömlu timburhúsi á borð við þetta. Þar á að vera hægt að hafa blóma-, grænmetis- og ávaxtahaf, sem höfðar til þeirra, sem vilja náttúrulega fæðu, en hvorki meinlæti eða sjálfsafneitun. Stað fyrir venjulegt nútímafólk, sem lítur á heilsurækt sem sjálfsagða.

Súpur og réttir dagsins breytast frá degi til dags, svo og eldamennskan. Austurlenzkir réttir eru tíðir, einkum indverskir. Stundum eru þeir bragðmiklir og persónulegir og stundum renna þeir út í daufa bragðleysu. Raíta, sem er indverskt jógúrtsalat, hafði í eitt skiptið dauft gúrkubragð, en var í annað sinn hæfilega hressilegt.

Mild lauksúpa varð bragðgóð, þegar sesamsalti hafði verið stráð í hana. Tómatsúpa var mikil og sterk, með góðu oregano-bragði, full af káli og grjónum. Stundum er heimabakað og gott brauð boðið með súpum.

Fylltar pönnukökur með smjörbauna-pottrétti voru volgar, hlutlausar og þurrar, gerðar úr krydduðu heilhveiti og fremur þykkar. Volgt Gado-gado grænmeti í Indónesíustíl með tofu-baunahlaupi var ákveðnara í bragði. Ágætis hýðishrísgrjón voru með öllum mat.

Margt er fyrirgefið, þegar kemur að tertunum. Þær eru ekki bara ein eða tvær, heldur fimm eða sex. Þar á meðal fékk ég mjög góða súkkulaðitertu og enn betri gulrótarteru, góða döðlu- og eplatertu, bananaköku með sultu og með beztu ostatertum bæjarins, sérstaklega mjúka.

Jónas Kristjánsson

DV

Hornið

Veitingar

Hornið á Tryggvagötu og Pósthússtræti hefur nærri ekkert breytzt frá því að þessi litla matar- og kaffistofa tók virkan þátt í reykvísku veitingabyltingunni fyrir rúmum ártug. Miklar sviptingar hafa orðið í greininni á þessum stutta tíma, en Hornið hefur alltaf verið klettur í hafinu og raunar notið sívaxandi vinsælda sem samkomustaður.

Stílhreinn svipur og búnaður Hornsins hefur haldizt óbreyttur. Risastórir og tjaldalausir gluggar og ljósbrúnir og víðáttumiklir loftljósaskermar einkenna staðinn. Á steinflísagólfi standa léttir stólar úr sveigðum viði og hringlaga marmaraborð á stálfótum. Blár liður er í körmum, súlum og bitum, viðarlitur í veggjum og hvítt í lofti.

Plaköt og listaverk hanga á veggjum eins og til þess að undirstrika, að Hornið ætlar sér að vera óformlegur og notalegur samkomustaður uppalegra menningarvita, sem tekst raunar. Listsýningar og tónleikar hafa stundum verið í Djúpinu, kjallaranum undir veitingasalnum. Þar bíður fólk oft hópum saman eftir að borð losni.

Þjónusta og matreiðsla hafa dofnað. Nýjabrumið er farið af ítalska stílnum. Starfræktar eru matstofur, sem gera þeim matarstíl betri skil, Pasta Basta, Primavera og Ítalía, en þær eru óneitanlega dýrari. Hornið situr eftir sem hálfgerður pizzustaður, ekkert betri en ótalmargir slíkir, en auðvitað miklu notalegri. Það dregur ekki úr vinsældunum, enda stendur verðlagið fyrir sínu.

Pöstur kosta 920 krónur og pizzur 850. Betri kaup eru í tveimur réttum dagsins, sem taldir eru upp á krítartöflu. Meðalverð þeirra er um 875 krónur, að súpu innifalinni, og virðist það verð gilda jafnt að kvöldi sem í hádegi. Að þessu leyti er staðurinn samkeppnishæfur í hádeginu og sérstaklega áhugaverður að kvöldi, því að þá er meðalverðið hærra víðast annars staðar. Af fastaseðli hússins kostar þríréttuð máltíð 2310 krónur.

Rjómalöguð grænmetissúpa úr tómatkrafti var fremur illa hrærð í eitt skiptið, en vel í annað. Betri var svipuð sjávarréttasúpa, sem hafði aðallega að geyma rækjur. Brauð var einfalt og hálfsætt, volgt og minnti á snúð.

Ofnbakaðir sveppir með kotasælu og hvítlauk voru bragðgóðir, stinnir og stórir. Eggjakaka með sveppum og papriku var fremur létt. Þetta eru forréttir á fastaseðli.

Pasta með pepperoni, sveppum og hvítlauk í rjómalagaðri tómatsósu var frambærileg. Sama er að segja um pizzu með pepperoni, sveppum og ananas.

Tindabikkja með steinselju og sítrónusmjöri var hæfilega elduð og eftir því bragðgóð. Steinbítspiparsteik með hrísgrjónum og salati var afar mikið pipruð, en að öðru leyti góð. Afleitar voru hins vegar ofsteiktar og seigar lundabringur. Meðlæti staðarins var algerlega staðlað, nema hvítar kartöflur með fiski og bökuð kartafla með kjöti. Grænmeti var yfirleitt mildilega soðið.

Terta Hornsins var létt og ljúf ávaxtafroðuterta með búðingi milli laga. Heit eplabaka með rjóma og ís var sæmileg. Bezt eftirrétta var Pecan Pie möndlubaka.

Vinsældirnar stafa ekki af matnum, sem er upp og ofan, heldur af stílnum og stemmningunni. Stíllinn er heilsteyptur og léttur kaffihúsabragur svífur yfir vötnum. Þetta kallar á þá tegund matargesta, er fylla myndina, sem staðurinn er að skapa. Þannig gengur dæmið upp.

Jónas Kristjánsson

DV

Óðinsvé

Veitingar

Óðinsvé hafa færzt upp virðingarstiga veitingahúsa borgarinnar. Einkum er það matreiðsla og aðbúnaður gesta, sem hafa tekið framförum í þessum hótelsal, en verð hefur líka hækkað, en ekki alveg að sama skapi.

Þar að auki hefur hádegisverðlagið setið eftir, svo að óvenjulega góð kaup eru nú í hádeginu. Þá fá gestir sams konar matreiðslu, sömu þjónustu, sams konar tauþurrkur og borðdúka og á kvöldin, en borga ekki nema 950 krónur fyrir súpu og nokkuð úrval af aðalréttum.

Á kvöldin er meðalverðið 3105 krónur, auk þess sem þá eru boðnar sælkeramáltíðir, þríréttuð á 2690 krónur og fimmréttuð á 3490 krónur. Þetta eru háar tölur, sem gefa Holti ekki eftir, en eru þó ekki þær hæstu, sem sjást í veitingasölum, þar sem tróna Perlan og Grillið og, furðulegt nokk, einnig Óperan, Mávurinn og Skólabrú.

Innréttingar hafa verið óbreyttar í tæpan áratug. Þær eru óslitnar, en hafa gamalt yfirbragð, eru í fúnkis-stíl, sem minnir á framúrstefnu-matstaði millistríðsáranna. Speglaverk á eldhúsvegg, flókinn og mikill skenkur, svo og rifflar á súlum og skenk minna á hina gömlu tíma.

Salurinn skiptist í hefðbundinn hluta með bláum dúkum og garðhús með bleikum dúkum. Málverk eftir Hring Jóhannesson eru á veggjum og þau eru ekki í fúnkis, né heldur kassavélin, sem hvílir í hásæti á skenknum og dregur niður stílinn, þótt hún sé ekki hávær.

Í hádegi og að kvöldi var borið fram tvenns konar brauð með súpunni, hvítar og grófar bollur, volgar og góðar, sérstakar í bragði, en ekki með smjöri. Kjötseyði var afar gott, með eggjarauðu, sem mildaði bragðið, og portvíni í sérstöku staupi, svo að gestir gátu blandað að vild.

Einiberjagrafinn lax með sólseljusósu og ristuðu brauði var mjög góður, betri en hefðbundinn sólseljugrafinn lax. Tónar hafsins voru skemmtilegur og fallega settur forréttur, sem fól í sér dálítið þétta fiskikæfu, mjög góðan reyktan fisk, góðan reyktan lax og appelsínuleginn silung; hvern tón hafsins með sinni eigin sósu.

Bleikja að hætti Doria var einstaklega hæfilega lítið elduð með skemmtilega snarpgrilluðu roði, borin fram með sítrónum og sterksýrðum gúrkum heimagerðum, sem yfirgnæfðu í bragði, svo og gífurlegu magni af bráðnu smjöri, sem mætti kannski minnka í hjartaverndarskyni.

Pönnusteiktur skötuselur var góður, borinn fram með hvítlauksristuðum sveppum, lauk, hrísgrjónum og tómati. Smálúða var skemmtilega krydduð harðsteiktum lauk, borin fram með sveppum og hvítlauksbrauði.

Léttsteiktur lambavöðvi var fremur góður, borinn fram með bragðdaufum og stórum lerkisveppum, sem kokkarnir höfðu sjálftir tínt á Héraði; léttilega gufusoðnu grænmeti; og eplasalati í stökkum stauk.

Lerkisveppirnir voru gott dæmi um framtak í eldhúsi. Sama var að segja um nýtínd bláber frá Barðaströnd, sem voru afar vel þegin á berjadaufu hausti. Ég átti von á innfluttum og bragðlausum, en þau reyndust vera ekta.

Gljáðir og heitir ávextir með þeyttri eggjahvítu og rjóma, svo og tvenns konar ís, nefndust Frangipane á seðli. Gulrótarterta með möndluspónum var mjög góð og lagskipt konfektterta gaf henni lítið eftir.

Jónas Kristjánsson

DV

Hard Rock

Veitingar

Hard Rock Café hefur sérstöðu. Staðurinn er engum líkur hér í bæ, hefur sitt eigið stef, sem gengur upp, því að oftast er mikið um að vera. Maturinn er góður, móttökur alúðlegar og broshýr þjónusta í bezta lagi. Samt er staðurinn fremur ódýr, að frátöldum hamborgurum. Meðalverð aðalrétta er 1390 krónur, þiggja rétta 2275 krónur.

Þessi víði og hái salur í stíl glæsilegrar kúrekakrár í tamda vestrinu, en ekki villta vestrinu, er þakinn rokkminjum og poppminjum, hljóðfærum, gullplötum og plakötum. Skipulegt kraðakið er listaverk út af fyrir sig.

Í miðjum sal trónir eftirlíking af styttu Ingólfs Arnarsonar með gítar á bakinu. Tónarnir í andrúmsloftinu eru ekki eins stríðir og ætla mætti af nafni staðarins. Eiginlega ætti hann að heita Soft Rock Café eða Disco Café.

Matreiðslan er bandarísk, með áherzlu á viðarkolagrillun og á þá Texas-matreiðslu, sem er undir áhrifum frá Mexikó og kölluð er Tex-Mex þar vestra. Þetta er góð blanda, sem hæfir vel kúrekaímynd staðarins.

Chips og salsa er nafn á forrétti, sem fól í sér stökkar tortilla-flögur og fremur milda, mexíkóska tómatdýfu. Öflugri forréttur var Super nachos, tortilla-flögur með margs konar sósum, ostasósu, chilisósu, salsasósu, avocadosósu, sýrðum rjóma, svo og hakki, góður matur.

Fajitos voru kryddlegnir nautakjötsstrimlar, sem komu snarkandi á pönnu með ýmsu grænmeti, svo sem lauk og chili-baunum og nokkrum sósum. Til hliðar voru volgar og mjúkar tortilla-flögur í einangrunarboxi. Gestir raða kjöti, grænmeti og sósum á flögurnar, brjóta þær eins og pönnukökur og hakka þær síðan í sig. Soft tacos var önnur og einfaldari útgáfa af mjúkum tortillaflögum.

Í hádegi var nýlega boðin fremur sterk og nokkuð góð, mjúk en ekki seig, pepperoni-pitsa dagsins með lauk, gráðosti og grænum pipar á 695 krónur, svo og hæfilega grillaðar og ekki fituskornar lambakótilettur með hrásalati, frönskum kartöflum og rauðvínssósu á 895 krónur. Þessum réttum fylgdi óvenju góð blaðlaukssúpa með litlu hveiti og miklum rjóma. Í annað sinn var brokkálssúpa dagsins í sama gæðaflokki, borin fram með góðu brauði.

Djúpsteiktir kjúklingavængir í sterkri sósu voru nokkuð góðir, ekki áberandi mikið steiktir. Sterkt kryddlegnar kjúklingabringur voru enn betri, bornar fram með hrásalati, krydduðum hrísgrjónum og bakaðri kartöflu.

Hæfilega sinnepskryddaðar grísasneiðar komu fram með tvenns konar kartöflum, bakaðri og frönskum, svo og mildri ostasósu og hrásalati. Franskar eru úr raunverulegum kartöflum. Viðarkolasteiktur steinbítur var lítillega ofeldaður og töluvert mikið kryddaður.

Eftirréttir staðarins eru máltíðir út af fyrir sig. Hot fudge er nafn á sætum og góðum, þunnum og þéttum súkkulaðikökubotni með vanilluís, súkkulaðisósu og þeyttum rjóma. Mjólkurhristingur staðarins var svo þykkur, að hann náðist tæpast gegnum rörið, ekki eftir minnilegur á bragðið. Heimatilbúin eplakaka með þeyttum rjóma var lágpunktur staðarins, afar þykk og virtist vera tilbúinn réttur úr pakka. Hápunkturinn var hins vegar risastór sneið af djöflatertu með þeyttum rjóma.

Hard Rock Café er einn af tiltölulega fáum matstöðum borgarinnar, sem mig langar til að heimsækja aftur.

Jónas Kristjánsson

DV

Potturinn og pannan

Veitingar

Tveir áberandi þéttvaxnir ferðamenn sátu sinn við hvort borð og töluðu saman yfir ganginn, meðan þeir röðuðu í sig með augljósri velþóknun. Potturinn og pannan við Nóatún ofanvert er einn af hlaðborðsstöðunum, þar sem svangir geta farið aftur og aftur til að fylla á diskana.

Súpa dagsins, brauð og salatborð og kaffi kosta 790 krónur; 890 krónur með eftirréttaborði og frá 980 krónum og upp í 1390 krónur, ef með fylgir einn af tveimur til fjórum heitum aðalréttum dagsins. Barnamatseðill er á 390 krónur og sérstakt leikherbergi á staðnum.

Potturinn og pannan hefur verið rekinn á þennan hátt árum saman og hefur hægt og sígandi orðið örlítið þreytulegri með árunum. Það gerist afar hægt, en gildir um alla þætti; matreiðslu, þjónustu og umhverfi. Staðnum hefur farið lítillega aftur á sama tíma og samkeppni hefur aukizt, til dæmis af hálfu pastahúsa bæjarins.

Staðurinn hefur það umfram flesta samkeppnisstaðina, að verðið gildir jafnt að kvöldi sem í hádegi. Flestir eru aðeins með slík tilboð í hádeginu. Þetta þýðir, að staðurinn er áhugaverður kvöldmatarstaður í viðlögum fyrir fjölskyldur, til dæmis ferðafólk utan af landi. Hjón með tvö börn fá fullkomna kvöldmáltíð fyrir samtals 2.640 krónur, sem er algengt eins manns verð í bænum.

Tónar eru oft hátt stilltir og ekki alltaf áheyrilegir, til dæmis grúttimbrað væl í stíl Johnny Cash. Þetta er raunar algengur galli við hversdagsleg veitingahús hér á landi. Starfsólk telur, að gestir deili sama smekk á tónum.

Einnig fælir frá staðnum, að við borð, þar sem gestir ganga að afgreiðsludiski, situr stundum maður og mælir út gesti af augljósri forvitni og einsemd. Stammgestir af þessu tagi eru betur geymdir á afskekktum stöðum í veitingasal, svo að minna beri á þeim.

Oftast eru tvær súpur á boðstólum, önnur tær og hin hveitilöguð. Þær eru afgreiddar í örlitlum skálum, en gestir geta fengið ábót, ef þeir vilja. Tæru súpurnar hafa verið betri, einkum grænmetissúpa, en blómkálssúpa var einnig nokkuð góð, með vænum blómkálshnöppum.

Brauð úr Breiðholtsbakaríi er helzta trompið. Það er um þessar mundir betra en nokkru sinni fyrr, fjölbreytt og bragðgott. Hver getur skorið sér sneiðar að vild.

Salatborðið er líkt því, sem sjá má víða annars staðar í bænum, ekkert sérstaklega spennandi, en frambærilegt. Þar er ferskt grænmeti, þar á meðal sveppir, ennfremur pastaréttur, hrísgrjónaréttur og kartöflusalat.

Smjörsteikt smálúða dagsins var fremur þurr, borin fram með of mikið soðnum kartöflum og gulrótum, svo og ferskum sveppum og estragonsósu. Sjávarréttafantasía dagsins hafði að geyma lax, smálúðu og ýsu, fullmikið soðin, nema laxinn, og borin fram undir hlaða af ofelduðum rækjum og hörpufiski. Blandaðir sjávarréttir hússins, bornir fram á pönnu, voru of mikið eldaðir, eins og oftast vill verða með sjávarrétti á þessum stað.

Kryddlegnar lambalundir dagsins voru líka of mikið eldaðar, bornar fram með ágætri og sterkri grænpiparsósu. Sinnepskryddað lambafillet var heldur betra.

Á eftirréttaborði eru oftast þrjár tegundir af ís, tvær eða þrjár tegundir af niðursoðnum ávöxtum, kaldur búðingur og stundum sæmilegasta rjómaterta að auki.

Jónas Kristjánsson

DV

Laugaás

Veitingar

Ef ég kemst ekki í bæinn á réttum matartíma eða nenni ekki að elda, fer ég í gamla Laugaás við Laugarásveg. Það er ódýrasta stjarnan á matargerðarhimni Reykjavíkur og hefur verið það í fjórtán ár. Hún ljómar næstum eins skært á þessu sumri og hún gerði á sínu fyrsta sumri.

Þegar ég byrjaði að skrifa um veitingahús árið 1980, var Laugaás bylting í veitingarekstri. Loksins var kominn staður, sem sameinaði ódýran mat fyrir hversdagslegt borðhald og nútímaleg gæði í eldamennsku, er bezt lýstu sér í varfærinni matreiðslu á sjávarfangi.

Eigendum staðarins hefur gengið fremur vel á þessum tíma. Þeir hafa opnað stærra, glæsilegra, heldur betra og heldur dýrara útibú á Hótel Esju. Þeir eru samt ekki í neinum forstjóraleik, heldur standa enn við eldavélarnar á báðum stöðum eins og þeir hafa gert frá upphafi.

Auðvitað er ánægjulegt að sjá dæmi um festu og úthald í atvinnulífi landsins, sem einkennist því miður af skammtímarokum. Dapurlega hliðin á málinu er, að ekki hefur orðið sú þróun í veitingabransanum, að Laugaási hafi verið veitt marktæk samkeppni í fjórtán ár.

Gamli Laugaás er fersk og hrein og björt matstofa enn þann dag í dag. Rauðköflótti stíllinn hefur haldizt óbreyttur frá upphafi, enda fellur hann vel að alþýðlegu hlutverki staðarins. Þótt nýi Laugaás sé fagurlega innréttaður í nýtízkulegum stíl, er gamli Laugaás notalegri.

Að hætti góðra veitingahúsa er matseðillinn breytilegur frá degi til dags og jafnvel milli hádegis og kvölds. Þar eru fimm eða sex fiskréttir og svipaður fjöldi kjötrétta. Fiskréttir kosta yfirleitt rétt innan við þúsund krónur og kjötréttir um 1150 krónur, hvort tveggja að súpu innifalinni. Búðingur er innifalinn á sunnudögum.

Súpur dagsins eru af ýmsu tagi. Ég man eftir góðri gulrótarsúpu, sæmilegri seljustönglasúpu og lélegri brokkálssúpu. Þær eru veikasta hlið staðarins, stundum þykkar, einu sinni kekkjuð og stundum of saltar. Hrásalat með aðalréttum er einfalt og borið fram sér.

Fiskurinn er staðartrompið, yfirleitt hæfilega eldaður eða aðeins lítillega ofeldaður og með hæfilega lítið elduðu og stinnu meðlæti. Rjómasoðinn steinbítur með sítrónupiparsósu var góður. Gufusoðnar gellur í appelsínusósu voru mjúkar og góðar, alveg hæfilega eldaðar, en sósan var nokkuð áberandi, þótt góð væri út af fyrir sig. Rjómasoðinn búri með rækjum og grænmeti í rjómasósu var vel eldaður. Pönnusteikt rauðspretta með vínberjum í rósapiparsósu var einnig góð, en með of miklu raspi.

Um kjötréttina veit ég minna, því að fiskurinn freistar mín mest. Um daginn prófaði ég þó góðan bixímat með spæleggi, heimabökuðu og loftmiklu rúgbrauði og béarnaise- sósu. Á sama matseðli var fleira þjóðlegt, svo sem bjúgu og lifur. Gott rúgbrauð staðarins er líka borið fram með plokkfiski, þegar hann er á matseðlinum.

Kaffi er gott og nú er borðvín á boðstólum. Því er ekki haldið að fólki og ég hef ekki séð það pantað, enda eru gestir yfirleitt ekki “úti að borða”, heldur að rækta leti sína eða mega ekki vera að því að elda heima hjá sér.

Tízkan kemur og fer, en Laugaás er óbreyttur. Hann hefur lengi verið fastur punktur í tilverunni og ætlar að verða það áfram. Hann er orðinn hluti af klassíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Siam

Veitingar

Siam við Skólavörðustíg er notaleg og róleg kvöldverðarstofa, rekin á þann góða hátt, að húsbóndinn er í eldhúsi og húsfreyjan í matsal. Matreiðslan er raunverulega thailenzk og þjónustan er íslenzk og kunnáttusamleg. Verð er í meðallagi, ríflega 2.100 krónur á mann að meðaltali.

Þetta er hreinn og snyrtilegur staður, ekki ofhlaðinn thailenzkum minjagripum. Einkennismerki hans eru stór, útskornin og gegnumskorin þil fyrir glugga og milli borða. Í einu horninu eru gólfsessur, þar sem limaliprir geta æft borðhald með kroslagða fætur að austrænum sið.

Thailand er gamalt menningarríki, sem hélt sjálfstæði sínu, þótt nágrannalöndin yrðu nýlendur. Landið hefur lengst af verið friðarparadís á annars blóði drifnum skaga, þar sem einnig eru ríkin Kambodsja, Víetnam, Laos og Burma. Sjálfstæðið hefur meðal annars haft í för með sér, að evrópsk áhrif eru lítil í matargerðarlist.

Thailenzka matreiðslu má staðsetja einhvers staðar mitt á milli indverskrar og suður-kínverskrar. Sumir réttir eru mildir að suður-kínverskum hætti, en aðrir eru sterkir að indverskum hætti. Kryddtegundir eru að sumu leyti sérstakar fyrir Thailand, en ýmsar tegundir af karrí eru þó mikið notaðar að indverskum hætti.

Soðin hrísgrjón og hrásalat fylgja aðalréttum staðarins, sem eru bornir á borð á fötum, svo að gestir geta pantað mismunandi rétti og smakkað á þeim öllum. Aðalréttir eru grænmetisréttir, fiskréttir og kjötréttir. Þeir eru yfirleitt á borðstólum í ferns konar karríi missterku, frá gulu yfir í rautt og grænt, svo og í massman- karríi. Fiskréttir eru þar að auki til í súrsætri sósu. Margir réttir eru með þurrkuðu kaprov og horafa laufi.

Tom Yam súpa er einn af einkennisréttum Thailands, venjulega sítrónu- eða lime-krydduð og bætt með thailenzkum risarækjum áður en hún er borin á borð. Á Siam var þetta tær súpa úr kjötkrafti, fremur sterk og mjög góð. Súrsæt súpa var öðru vísi en þær kínversku, bragðsterkari og fyllt ýmsu sjávarfangi, afar góð súpa.

Djúpsteiktar rækjur með súrsætri chilisósu voru steiktar í bunkum í fullmiklum steikarhjúp, en eigi að síður góðar. Humar í kókosmjólk og thailenzkum engifer var meyr, en ekki allur nógu ferskur. Humarréttur með kaprov laufi var góður og mildur. Steikt hrísgrjón með góðu krabbakjöti og miklu grænmeti voru til fyrirmyndar. Sama var að segja um steikt hrísgrjón með rækjum.

Lambakjöt í massmankarríi með hnetum var afar sterkt og meyrt, og hneturnar hæfðu kjötinu vel. Lambakjöt í grænu karríi var hins vegar bara sterkt, en ekki sérlega gott, enda of mikið eldað. Kjúklingur með sterkum pipar og engifer var fremur þurr og ekki eins bragðsterkur og búast mátti við. Thailenzk eggjakaka með kjöti og grænmeti var óvenjulega létt í sér og góð á bragðið, ólík hinum þungmeltu eggjakökum, sem tíðkast hér.

Þótt Siam sé góð matstofa, sakna ég glæsilegrar framsetningar rétta, sem einkennir mörg thailenzk veitingahús. Ég sakna þekktra thailenzkra rétta, svo sem plokkfisks og kjötbolla, sem aðalréttar og út í súpur. Mér finnst líka, að tilvalið væri að taka íslenzkan fisk og matreiða að thailenzkum hætti. En slíkur skortur á dirfzku einkennir raunar alla austræna matstaði borgarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Pisa

Veitingar

Á Pisu er ég kominn í laufskála frá Túskaníu, sem hefur verið komið fyrir innan í skíðaskála frá Týról. Þung furan í súlum og bitum lokar pergólustílinn inni, svo að úr verður léttgeggjað rugl, sem er þröngt og indælt í senn.

Bezt er að sitja í aðalsalnum, sem gefur dálítið rými, en síður í rangalanum meðfram húsasundinu, þar sem innilokunartilfinningin er sú, að setið sé í þröngum búðarglugga við mannlaust götusund í erlendu skuggahverfi.

Pisa er vinsæll staður, sem hefur bæði fastagesti og erlenda ferðamenn að viðskiptavinum. Fólk situr þröngt í básum innan um margvíslegt kraðak af skrauti og útflúri. Pisa hefur greinilega andrúmsloft, sem laðar að.

Sumt hefur batnað, einkum þjónustan, sem nú er skjót og formálalaus að ítölskum hætti. Þá hefur verðið batnað, einkum í hádeginu. Kominn er sérstakur hádegisseðill, sem er stytt og verðlækkuð útgáfa af kvöldseðlinum.

Í hádeginu er boðin súpa og fiskréttur dagsins á 790 krónur, sem er gott verð. Þá er meðalverð þriggja rétta af seðlinum um 2060 krónur, en á kvöldin er það um 3120 krónur, sem er í hærri kanti Ítalíustaða bæjarins.

Matreiðslan hefur slaknað í kjölfar mikils blómaskeiðs, sem var fyrir einu ári eða tveimur. Hún stenzt tæpast samanburð við þá staði, sem beztan mat bjóða ítalskan, þótt hún sé frambærileg út af fyrir sig.

Góðar brauðkollur með smjöri eru staðarsómi og sömuleiðis gulrótarlengjur, sem á kvöldin þjóna hlutverki lystaukans. Súpa dagsins í hádeginu var fremur bragðdauf og hrikalega þykk lauksúpa. Saffrankrydduð sjávarréttasúpa með miklu grænmeti var hins vegar mjög góð.

Fylltir sveppahattar með sniglum, hvítlauk, basilikum og grana-osti lágu á stórum salatbeði, sem bjó einkum yfir jöklasalati, og höfðu ristað brauð í för með sér, ágætur réttur. Salat Sesars var sama jöklasalatið með ristuðum brauðbitum og ansjósusósu til hliðar. Þunnsneidd nautalund hrá var borin fram með möndlum í sítrónusafa og olífuolíu, fyrirmyndar réttur og eitt af aðalsmerkjum ítalskrar matargerðar. Minna var varið í djúpsteikta smokkfiskhringi í of miklum steikarhjúp á jöklasalati.

Spaghetti úr heilhveiti með grænmeti í basilikum-sósu var hollustulegt og gott, en illa upp sett. Pastasalat með rækjum, eplum og túnfiski var frísklegt og gott og fallega upp sett, kjörinn hádegisverður, borinn fram með góðri pizzu-sneið. Risotto með blönduðum sjávarréttum var einkar bragðmilt og gott, hrísgrjónin sérstaklega vel elduð. Pizzur eru góðar og stórar, um 980 krónur stykkið.

Lúða dagsins lá á beði úr góðu ræmupasta með mildri gráðaostsósu, blandaðri papriku og blaðlauk, ljómandi vel elduð. Lengri og lakari var eldunin á skötusel, sem lá á fiðrildapasta með afar sterkri pastasósu og var í för með heilum rækjum, sem pössuðu ekki kramið, af því að erfitt er að nota puttana, þegar rétturinn flýtur í sósu.

Lítið ostbragð var að ostatertu. Ofnbökuð pera með ís, og sykurbrúnuðum möndlum var sæmileg. Möndluís hússins var góður, með heilum möndlubitum, borinn fram í fallegum kexbikar með volgri karamellusósu.

Kaffið var gott, ekki þetta venjulega sull úr nýtízkulegum og hnappastýrðum veitingavélum, heldur úr ekta ítalskri kaffivél og gaf meira högg en snafs hefði gert.

Jónas Kristjánsson

DV

Mávurinn

Veitingar

Jónatan Livingstone Mávur er óvenjulega dýr staður, á svipuðu verðlagi og Perlan og Grillið, en státar hvorki af sama glæsibrag í umbúnaði né í þjónustu. Stundum fá gestir allt annað en það, sem þeir panta. En þeir fá yfirleitt gott að borða og það skiptir mestu máli.

Raunar er Mávurinn fremur groddalegur staður, þar sem gestir borga að meðaltali 3575 krónur fyrir þríréttaðan mat fyrir utan drykkjarföng og fá ekki einu sinni tauþurrkur á glerplötur borðanna í hádeginu. Við það tækifæri er þó hægt að fá súpu og fiskrétt dagsins á 1195 krónur og er það verð frekar við hæfi umgerðarinnar.

Vinstra megin við innganginn er kaffi- og hanastélsstofa með djúpum sófum amerískum. Hægra megin er ruglingslega poppaður matsalur með ljótum málverkum og stórkarlalegum fatasnögum, en fínlegum þráðarljósum og sérkennilegum trektarstólum þrífættum, sem sennilega henta hvössum rössum meinlætamanna.

Vínglös á borðum eru sérkennilegt fyrirbæri, eins konar bastarður blómapotta og eftirréttaskála. Diskar eru fjörlegir, hver með sínum lit og skrauti. Meira að segja kaffisettið reyndist vera poppað í fjörugum litum.

Svonefnd sjávarsíðusúpa úr humarsoði með fínsöxuðum humri, rækjum og hörpufiski var bragðsterk og góð. Bragðmild laxasúpa dagsins var einnig góð og sama er að segja um fremur þykka grænmetissúpu dagsins.

Að kvöldi voru boðnar kókoslegnar rækjur með hráum lauk, skemmtilega sérkennilegur réttur. Laxahrábuff úr hráum og reyktum laxi, með kapers, lauki og rauðrófum var ágætt, þótt kapersinn yfirgnæfði dálítið í bragði, eftirminnilegur réttur. Fyllt kúrbítsblóm með hörpuskeljafroðu var mildur og mjög góður réttur með fínlegri humarsósu. Laxa- og lúðufiðrildi með finkul og Sambucca Romana smjörsósu var ljúfur réttur. Grafið lamb var vel kryddað með balsamediki, hinn prýðilegasti forréttur.

Milli forrétta og aðalrétta var borið fram ágætt rabarbara- og Ólafssúrukrap. Súran gaf sterkt mintubragð.

Grillaður skötuselur með mangó, ananas, banönum og kókos var mjög góður, borinn fram með fremur bragðsterkri karrísósu. Steinbítskinnar voru fremur góðar, með góðri fennikel-sósu og vorlauk. Ravioli með humarfyllingu var hins vegar ekki merkilegt. Bragðgóð fiskifantasía úr afla dagsins hafði að geyma humar, lax, rauðsprettu, kóngakrabba og var að öllu leyti nákvæmlega tímasett í matreiðslu. Grillaðir humarhalar í skelinni voru góðir, bornir fram með hvítlauk og sveppum. Grillaður urriði var fremur þurr. Allgóð var nautasteik með furuhnetum og rúsinum í sterkri villisveppasósu.

Grand Marnier-blönduð súkkulaðifroða var létt og góð, borin fram með heitri og rauðleitri súkkulaðisósu. Góðar voru þrjár marenskökur, hjúpaðar súkkulaði. Sælgætisterta með blönduðum hnetum, ís og ávaxtasósu var sérstaklega góð. Hægt er að fá blöndu þessara forrétta og ístertu að auki, allt glæsilega fært upp á disk.

Þótt poppuð umgerð, fátæklegur borðbúnaður og götótt þjónusta hæfi ekki himinháu verðlagi staðarins, hæfir matreiðslan henni vel, því að hún er fyrsta flokks. Hún er að vísu ekki eins markviss í stíl og hún var fyrir fáum árum, þegar hún var nýfrönsk, en hún er vönduð enn.

Jónas Kristjánsson

DV

Primavera

Veitingar

Primavera er glæsilegur veitingastaður með miðlungsverði á fremur góðum mat, en fremur illa í sveit settur í kreppunni. Hús verzlunarinnar við Kringluna er dautt á kvöldin og kaupsýslumenn og aðrir risnumenn landsins virðast að mestu hættir að hittast í hádegismat.

Á ýmsu hefur gengið í veitingarekstri á efri jarðhæð Húss verzlunarinnar. Nú er komið bankamötuneyti í húsnæði, þar sem áður var ódýr veitingastofa með sjálfsafgreiðslu. Það er auðvitað í stíl við ótakmörkuð fjárráð peningastofnana og þá stefnu stjórnvalda, að þjóðin skuli borða í vondum mötuneytum eða á öðrum þeim stöðum, sem ekki eru á hinum frjálsa og skattlagða markaði, svo sem í Rúgbrauðsgerðinni eða í félagsheimilum.

Fíni salurinn að baki bankamötuneytisins er enn starfræktur á hinum frjálsa markaði og hefur nýlega skipt um nafn og áherzlur. Hann er orðinn hálfítalskur og hefur pöstur á boðstólum. Hann hefur stokkið upp í tízkuvagninn. Árið 1993 er ítalska árið í veitingarekstrinum.

Primavera er smart. Afstrakt málverk eru á veggjum og eitt utangátta póstkortamálverk af eyjunni San Giorgio í Feneyjum. Viðarveggir eru í gulbrúnum slökunarlit. Falleg glerkúluljós hanga í lofti. Loftið er í smáum reitum og gluggar í stórum reitum. Svipmótið er skandinavískt. Ítalskir matstaðir eru ekki svona mikið hannaðir.

Primavera er þægilegt, þótt tónlistin sé stundum of hátt stillt. Armstólar gesta eru bólstraðir, fjaðra vel og eru þægilegir. Borð eru fallega dúkuð og eru meira að segja með tauþurrkum, þótt súpa og réttur hádegisins kosti ekki nema 990 krónur. Af matseðli kosta þríréttuð máltíð um 2555 krónur fyrir utan drykkjarföng.

Tómatbætt sjávarréttasúpa var fínasta súpa, full af humar og hörpufiski. Sveppahattar voru fallega settir á disk, snarpheitir og góðir, ótæpilega hvítlauksfylltir, með vægri Madeira-sósu. Hvítlauksristaðir sniglar og hörpufiskar voru stórir og meyrir og góðir, með mildri steinseljusósu með hvítlauksbragði. Gott var einnig hrátt nautakjöt í olífuolíu að ítölskum hætti, Carpaccio. Tær lauksúpa dagsins var fremur góð af tómatsúpuætt.

Ravioli hafði að geyma saxaðan humar, estragon- kryddaðan, og var fremur góður réttur. Svipað er að segja um spaghetti með kjötbollum. Pastaréttir hafa mér þó reynzt betri á öðrum ítölskum matstöðum í borginni.

Kryddlegnar gellur með rjóma og sesamfræjum voru mjúkar og góðar, vel kryddaðar, en nokkuð yfirgnæfðar af sesamfræjunum. Heilsteiktur urriði dagsins var fremur þurr og einnig bragðdaufur, eins og oft vill verða með urriða, borinn fram með hvítum kartöflum og smjöri. Mun betri var steikt rauðspretta með sítrónu og hæfilegu magni af grana-osti, borinn fram með pönnusteiktum kartöflum. Kálfasteik með villisveppasósu var sæmileg, með gamaldags og hlutlausri sósu brúnaðri.

Eftir lægð í aðalréttum komu betri eftirréttir. Fyllt pönnukaka var þunn og góð, með líkjörkrydduðum rjóma. Kaka hússins reyndist vera súkkulaðibúðingur með ís, hinn bezti eftirréttur. Heldur lakari var tiramisu, sem líktist ekki mikið einkennisrétti Feneyinga og var eins konar lagkaka með fremur litlu ostabragði. Kaffi var gott, auðvitað ítalskt, espresso og cappucino.

Jónas Kristjánsson

DV

Ópera

Veitingar

Rétt er að vara fólk strax við verðinu. Það kostar um 3.550 krónur að borða þríréttað í Óperu, fyrir utan drykkjarföng. Þetta er svipað og á allra dýrustu stöðum landsins. Fyrir þetta fé getur fólk lent í að þurfa að matreiða sjálft við borðið, ef það pantar sér steinasteik.

Ég hef haldið, að fólk fari út að borða til að láta stjana við sig, en ekki til að lenda sjálft í eldhúsverkum. Hins vegar gefur steinasteikin stefnuföstum matargestum tækifæri til að sannfærast um, að allt hráefnið sé ferskt, og fá nákvæmlega þann eldunartíma, sem þeir vilja.

En steinasteikin er fyrst og fremst aðferð til að auka fjör og samræður, til að efla andrúmsloftið. Enda er oft fjölmenni í Óperu og stemmningin góð á kvöldin .

Ópera er notalegur matstaður á efri hæð gamla hússins á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Marrandi trégólf, litlir gluggar, bitaloft og lítil lofthæð gefa staðnum rómantískt andrúmsloft, sem magnað er með ofhlöðnum og mildilega rustalegum kráarskreytingum, svo og títtnefndri steinasteik, sem er helzta sérgrein hússins.

Matseðillinn er feiknarlangur, telur sextán forrétti og yfir þrjátíu kjötrétti. Töluvert sjálfstraust þarf til að halda úti svona seðli, sem kemur auk þess hér og þar á óvart í framandlegum réttum og frumlegum. Vínlisti er einnig langur og býður margar góðar og traustar tegundir.

Þjónusta reyndist góð í Óperu, kunnáttusamleg og afslöppuð. Þjónninn var ekki í vafa um, hver hefði pantað hvað. Hann vissi líka heilmikið um tilurð réttanna.

Saxaðir sniglar moðvolgir, komu í svani úr vatnsdeigi, með fínskornu salati og eplabitum í rjómasósu, sæmilegur forréttur. Rjómalöguð og sérríbætt sveppasúpa var þykk hveitisúpa með miklu af sveppum, ekki merkileg.

Skemmtilegra var djúpsteikt Tempura japanskt, meyr og góður humar og grænmeti, með of miklum steikarhjúp, borið fram með sojasósu og sake-hrísgrjónavíni. Bezt var laxatartar stangaveiðimannsins, hrár og slitinn lax með eggjarauðu í skurn og söxuðu grænmeti með hóflegu magni af kapers, bragðgóð útgáfa af tartar.

Afar létt og gott sítrónukrap með barkarbitum var ánægjulegur formáli að steinasteik. Valin var svokölluð kjötfantasía, sem fól í sér svartfugl, naut, kálf, lamb, svín og kjúkling, svo og margvíslegt grænmeti, glansandi af ferskleika. Kjötið var allt gott og varð frábært með réttri steikingu, sem hver gestur kann væntanlega.

Villibráð er önnur sérgrein. Léttsteiktar súlubringur bragðgóðar voru í þunnum sneiðum rósrauðum, með brenndri og beizkri brennivínssósu, rifsberjum, brómberjum og einföldu Waldorf-salati í appelsínuberki.

Grillað heilagfiski var þurrt, hlaðið tveimur risastórum og ljúffengum humarhölum, borið fram með hvítlaukssmjöri, bakaðri kartöflu og maísstöngli. Dijon-nautasteik kom ekki hrásteikt, heldur miðlungi steikt, ágætlega meyr, en of mikið pipruð, í sterkri koníakssósu, með bakaðri kartöflu og maísstöngli, meðlæti hússins.

Kaffiterta reyndist vera ágætur mokkabúðingur. Cup Opera bjó yfir margs konar ávaxtabitum og ískúlum. Pönnukaka var góð og þunn, með miklu af brómberja-, jarðarberja- og sítrónuís og sósu úr súkkulaðityggjói. Kaffi var gott og heitt súkkulaði var nánast unaðslegt.

Jónas Kristjánsson

DV

Grillið

Veitingar

Í stórum dráttum er Grillið á Hótel Sögu eins og það hefur alltaf verið, einn af fínustu og virðulegustu matstöðum landsins. Útlitið er að mestu óbreytt. Rauður litur er enn í hávegum hafður í stólum og teppi. Stjörnumerki í lofti og súlur virðast mér í upprunalegri mynd.

Til batnaðar eru breytingar, sem gerðar hafa verið. Ein borðaröð er á lægra gólfi við glugga og önnur borðaröð á hærra gólfi í miðju. Þetta skapar meira einkarými hvers borðs og veitir gott útsýni frá öllum borðum í salnum.

Þessi virðulegi og dýri matstaður heldur enn stöðu sinni sem bezti útsýnismatstaður borgarinnar. Því valda hinar víðáttumiklu rúður, sem sýna umhverfið í breiðtjaldsstíl, lítt truflaðar af grönnum gluggapóstum.

Grillið hefur gefizt upp í stríðinu um viðskiptahádegisverði. Staðurinn er einfaldlega lokaður í hádeginu eins og keppinauturinn Perlan. Þetta sýnist mér vera afleiðing af miklum samdrætti í risnu fyrirtækja. Jafnvel í Holti og Tjörninni, toppstöðum matargerðarlistar í borginni, er bara slæðingur af kaupsýslumönnum í hádeginu.

Verðlag staðarins hið sama og í Perlunni, um 3.700 krónur á þrjá rétti, að drykkjarföngum og nýja vaskinum frátöldum. Matreiðslan er nokkuð góð, en ekki fyrsta flokks, og þjónusta er vönduð, stundum í stífasta lagi.

Við sáum strax af smjörinu í skálunum, að bætt hafði verið í þær nýju smjöri ofan á eldra smjör, sem ekki var nákvæmlega eins á litinn. Þetta sparar vinnu, en er ekki í samræmi við verðlag, yfirbragð og stíl staðarins.

Volgar brauðkollur voru góðar og milli rétta var boðinn bragðfínt lime-krap. Grænmeti með aðalréttum var fullmikið staðlað, en hæfilega milt gufusoðið. Eins og oft vill verða á veitingastöðum af þessu upphafna tagi voru eftirréttirnir bezti hluti máltíðarinnar.

Fylltur smokkfiskur reyndist aðallega vera fiskikæfa, sem haldið var saman með þunnri og seigri smokkfiskrönd. Ofan á þessu voru heslihnetur og sterkkryddað grænmeti. Þetta leit vel út og braðaðist vel. Rauðvínssoðnir humarhalar voru meyrir og komu í smjördeigsbáti í blárri rauðvínssósu. Gljáður hörpuskelfiskur var bezti forrétturinn, þótt brokkál yfirgnæfði í bragði.

Grænmetisréttur dagsins var sæmilegur, aðallega kartöflur og blómkál í tómatsósu, með tvenns konar hrísgrjónum og lauksósu til hliðar. Hvítlauksstunginn skötuselur með steiktum kartöflum var góður. Rauðvínssoðnar smálúðurúllur með sveppum og hvítri og sítrónukryddaðri eggjasósu voru góðar. Pönnusteiktar lambalundir með koníakselduðum döðlum voru hins vegar gráar og þurrar, og döðlurnar áttu ekki mikið erindi.

Aprikósusulta var fínn eftirréttur með skemmtilegri salvíusósu og vanilluís. Kastaníuhella með eggjasósu reyndist vera gott súkkulaði með jarðarberja- og eggjasósum. Jógúrtís með sultuðum berjum var skemmtilega grófur, borinn fram með ferns konar berjum, jarðarberjum, bláberjum, blæjuberjum og hindberjum.

Grillið þjáist af hinu sama og ýmis gróin veitingahús, sem þóttu góð í upphafi ferilsins. Hlaupa þarf hratt til að standa í stað og það reynist mörgum erfitt. Grillið er sjálfsagt betra en nokkru sinni fyrr, en breytingarnar í veitingabransanum úti í bæ hafa bara verið enn hraðari..

Jónas Kristjánsson

DV