Veitingar

Perlan

Veitingar

Útsýni er takmarkað úr Perlunni, því að gluggapóstar eru hvarvetna í sjónlínu. Þar vantar hinar flennistóru rúður og netta pósta, sem hafa gert Grillið á Sögu að bezta útsýnisveitingastaðnum. En innsýni er magnað, einkum í rökkrinu við kveikt ljós. Perlan er innsýnisstaður, en ekki útsýnisstaður. Innhverfa er einkenni hennar.

Kuldalegt er uppi á fjalli áfengisbarsins með útsýni yfir veitingasalinn. Þar uppi standa menn eins og á leiksviði hjá Wagner og má telja mildi, að sumir fara ekki út að handriði til að syngja fyrir salargesti.

Kuldinn minnkar, þegar setzt er til borðs. Þá erum við komin niður í sjónlínu pottaplantanna, svo að staðurinn verður þægilegri. Hvelfingin fyrir ofan gerir umheiminn lítinn. Hann er bara inni í þessu rými, griðastað velstæðra. Einhvers staðar langt fyrir utan eru kveinistafir hversdagsleikans, en það er í öðrum heimi.

Perlan er dýrasta veitingahús landsins með Grillinu á Sögu. Þrír réttir kosta um 3.600 krónur fyrir utan drykkjarföng. Verðið endurspeglar auðvitað fé og fyrirhöfn, svo og einstætt tækifæri matargesta til að fá ókeypis snert af sjóveiki í veitingasal á landi. Salurinn snýst og snýst, hálfa umferð á hverjum klukkutíma. Og í allar áttir er sama útsýnið: Endalaus röð af þykkum gluggapóstum.

Móttaka er góð, svo og þjónusta öll, fumlaus og örugg. Stólar eru dregnir út og inn, þegar gestir setjast til borðs. Vel er fylgst með öllu án þess að stressa gesti. Ég skammaðist mín þó fyrir að sulla sósu á drifhvítan dúkinn.

Skornar kristalsskálar fyrir eftirrétti eru notaðar sem vínglös. Þær víkka út að ofan, svo að ekki finnst mikil lykt að víni, þótt gott sé. Þeir, sem vilja njóta góðra vína staðarins, þurfa þó ekki að taka með sér glös að heiman. Þeir biðja bara um sódavatnsglös og fá þá rétt vínglös.

Þetta boðar fremur fínt en gott. Sá grunur staðfestist síðan, þegar réttirnir komu. Þeir voru yfirleitt mjög vandaðir að útliti, nánast listrænir, að minnsta kosti frumlegir. Til dæmis kom smjörið mótað í mynd rósar. En bragð og innihald var upp og ofan, einkum í aðalréttunum.

Á miðjum diski var bátur úr kartöfluþráðum, fullur af rækjum, og hringinn í kring voru kreyddlegnir hörpufiskar, vafðir í spínatblöð. Á öðrum diski miðjum var spínatvafið humarfrauð á miðjum diski, og hringinn í kring voru staflar af humarkjöti. Kálfalifrarfrauð var líka gott, en borið fram á marklausum linkindarkökum á storknuðu portvínshlaupi með daufu karamellubragði.

Ofnbakaðar steinbítskinnar voru ekki vel legnar, en sæmilega meyrar, þaktar lélegu raspi og umkringdar bragðdaufri smjörsósu. Smjörsteiktur eldislax var þurr af völdum ofeldunar. Hunangsgljáð önd var illa grásteikt og sat á stórum beði brenndra kartöfluþráða í appelsínusósu. Mun betri var einfaldur turnbauti, sem sýndi, að í eldhúsinu gátu menn fundið réttar tímasetningar.

Eftirréttir eru staðartromp, til dæmis ostakaka og eplakaka. Kóróna þeirra var rjómaskyr með bláberjakrapi í súkkulaðikörfu. Sá réttur sameinaði gott innihald og dálæti staðarins á glæsilegum réttum með stæl.

Matreiðsla og umhverfi á Perlunni minnir mig á boð Trimalchusar í Satyrikon Petróníusar. Miklir stælar með misjöfnu innihaldi. Ég sá óneitanlega eftir aurunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Esja

Veitingar

Útibú Laugaáss á Hótel Esju er fyrsta flokks landkynning. Þar fá erlendir ferðamenn hina traustu sjávarréttamatreiðslu, sem einkenndi móðurstaðinn við Laugarásveg frá upphafi, þegar enn var ekki komið í tízku að borða fisk, hvorki hér á landi né heldur í útlandinu.

Matreiðslan er heldur betri á nýja staðnum og raunar einnig nokkru dýrari. Fyrir utan kunnuglegan seðil dagsins er langur fastaseðill, sem ekki er til bóta, svo og fiskréttahlaðborð, sem er eins konar kynning fisktegunda og matreiðsluaðferða fyrir nýjungagjarna útlendinga.

Á kalda hluta hlaðborðsins mátti fá fjórar gerðir af góðri síld, skemmtilega hrognakæfu, lax og rækjur í hlaupi, grafinn karfa sæmilegan með dósaperum, ferska síld og steikta ýsu. Á heita hlutanum voru kryddlegnar gellur, pönnusteikt rauðspretta, steinbítur í karrí, súrsæt ýsa og þjóðlegur plokkfiskur, allt sæmilegur matur, en háð annmörkum hitakassa, sem jafnan fer illa með fisk.

Dagsseðillinn beztur

Þeir, sem ekki þurfa skyndikennslu í fisktegundum og matreiðsluaferðum, ættu heldur að snúa sér að seðli dagsins. Þar eru jafnan nokkrir réttir úr ferskum fiski og það eru þeir réttir, sem eru í samræmi við hefðina frá gamla Laugaási og hafa byggt upp frægð staðarnafnsins. Þeir eru hér því miður nokkru færri en á gamla staðnum.

Ekki er allt sem skyldi. Brauð með súpu dagsins hefur stundum verið gott og stundum ómerkilegt. Súpur dagsins hafa stundum verið of þykkar hveitisúpur. Og lambagrillsteik með béarnaise-sósu var ekki merkileg.

Sjálfir fiskréttirnir hafa undantekningalaust verið góðir. Ég prófaði nýlega mjög góða rauðsprettu með rauðri camembert-sósu og miklu af rækjum, ennfremur úrvals steinbít rjómasoðinn, með grænmeti og gráðosti, svo og fallega grillaðan skötusel með mildri piparsósu.

Skyrterta var fremur góð, borin fram með skemmtilegri ávaxtasósu. Súkkulaðiterta var hversdagsleg. Þeyttur rjómi var með báðum tertunum. Ítölsk kaffivél sjálfvirk er á staðnum, eins og svo víða hér á landi.

Meðalverð súpu og aðalréttar dagsins er um 1200 krónur í hádeginu og um 1260 krónur að kvöldi. Hlaðborðið kostar 1100 krónur í hádeginu og 1480 krónur að kvöldi. Sérstakur barnamatseðill er til reiðu á 350 krónur.

Kaldur hótelstíll

Tekið er á móti gestum við innganginn og þeim vísað til sætis í reykhluta eða reyklausum hluta eftir óskum þeirra. Staðurinn er töluvert stærri en hinn gamli, snyrtilega innréttaður, en ekki eins huggulegur og gamli staðurinn, enda hannaður í köldum hótelstíl nútímans.

Borðin standa í skipulegum mötuneytisröðum. Blóm á borðum og í hangandi pottum milda svipinn. Húsbúnaður er vandaður, allt frá borðum og stólum yfir í diskamottur. Speglar til beggja hliða og fyrir enda stækka salinn óþarflega mikið, því að hann er nógu stór fyrir.

Gamli Laugaás tók markverðan þátt í veitingabyltingu Íslands fyrir tæplega hálfum öðrum áratug. Ánægjulegt er, að í þessu úthaldslausa þjóðfélagi skuli vera til stofnanir, sem halda staðli og reisn um langt árabil.

Jónas Kristjánsson

DV

Argentína

Veitingar

Argentína hefur lengi verið bezta steikhúsið í landinu. Þar er kjötið selt eftir vigt og steikt á viðarkolum. Það er feitt kjöt í UN2F flokki af gamla, íslenzka, bragðgóða nautakyninu. Seiga Galloway-ruslið kemur þar ekki inn fyrir dyr. Vegna þessara staðarreglna er hægt að treysta því, að n
autakjötið sé gott. Enda verður það að vera gott, þegar verðið er um 2400 krónur fyrir aðalréttinn einan.
Argentína er hvorki fín né smart að útliti, en hefur góðlátlegt svipmót, næstum rómantískt. En fjögurra sæta básar í skipulögðum röðum verða seint notalegir fyrir gesti og þjóna. Rustalegar innréttingar eru ættaðar frá Gauchos í Amsterdam, sem ég ímynda mér, að hafi stælt veitingastaðastíl, er þótti sniðugur í Reykjavík fyrir meira en áratug og var aldrei annað en búralegur.

Þjónusta er góð og borðbúnaður í bezta lagi. Vínglös eru með réttu lagi. Þurrkur eru efnismiklar og góðar, þótt þær séu ekki úr taui. Vínlisti er góður og býr meðal annars yfir argentínsku rauðvíni, Cabernet Sauvignon og Don Federico. Með mat eru bornir fram volgir brauðhnúðar ágætir og frambærilegt ísbergssalat í olíusósu.

Empanada er nafnið á fylltu brauði þykku, sem minnti í áferð og bragði á íslenzka klatta hálfsæta. Inni í því var grænmeti og fiskur í eitt skiptið og í annað skiptið kjöthakk og laukur. Þetta hefur mér reynzt góður forréttur.

Glóðaður humar var frábær að bragði, yndislega meyr, borinn fram á teini. Argentínsk kjötsúpa var of mikið rjómuð, en bragðgóð, full af kjötbitum og grænmeti. Grafinn nautavöðvi var enn einn góði forrétturinn.

Prímarif eru í boði fimmtudaga. Það er kjöt af framhrygg ungra og feitra nautgripa. Þetta var mjúkt kjöt, sem skera mátti með gaffli, með miklum fitulögum. Fitan er góð við eldun, en gestir þurfa síðan að skera hana frá. Prímarifinu fylgdu djúpsteiktir sveppir, sem hæfðu ekki réttinum og djúpsteikingin ekki heldur sveppunum.

Nákvæmur steikartími

Nautalundir staðarins eru í ýmsum stærðum, eldaðar eftir kúnstarinnar reglum, sérstaklega ánægjulegur matur. Eldunin var nákvæmlega sú, sem beðið var um, svo sem alltaf hefur verið reynslan á þessum merka stað. Lambahryggvöðvi var líka góður, eldaður að einföldum og nákvæmum nautakjötshætti, svo sem vera ber.

Í heild er matreiðsla staðarins einföld og nákvæm í tímasetningum. Á matseðlinum er mest áherzla lögð á hráefni og mismunandi magn þess, en minna sagt frá sósum og öðrum hliðaratriðum eins og tíðkast í franskættuðum veitingahúsum. Meðlætið er að mörgu leyti staðlað, svo sem bökuð kartafla með aðalréttum.

Af eftirréttum fannst mér áhugaverðastur sneiddur súkkulaðibúðingur í þremur lögum, með rifsberjum og rjóma. Ennig var góður bakaður banani með karamellusósu og vanilluís svo og mangó-ískrap. Mér sýndist argentínska mjólkurhlaupið vera horfið af matseðlinum.

Ég var orðinn svo vanur stöðum með ítalska kaffilögun, að ég spurði þjóninn, hvernig kaffi hann væri með.

“Ég er bara með gott kaffi.”

Eitt núll fyrir hann, enda var kaffið gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Askur

Veitingar

Askur hefur alltaf verið alþýðlegur og viðkunnanlegur staður. Í gamla daga var hann virðulegur skyndibitastaður við Suðurlandsbraut ofanverða, en hefur um skeið verið alvörustaður við brautina neðanverða, í Skeljungshúsi. Þar kemur þverskurður af þjóðinni til að nærast.

Við eitt borðið eru kaupsýslumenn með útlendinga. Við næsta borð er faðir með börn. Við þriðja borð er einmana maður með heila rauðvínsflösku á borðinu. Við hið fjórða eru snyrtiklæddir viðgerðarmenn einhvers þjónustufyrirtækis. Við fimmta er ferðafólk úr sjávarplássi. Og við sjötta er vísitölufjölskyldan mætt.

Þannig er Askur, hin stéttlausa matstofa, hvorki fín né ófín, hvorki dýr né ódýr, hvorki nýstárleg né gamaldags. Hún er svo hlutlaus, að hún er einn fárra staða í bænum, þar sem þægilegt er fyrir einstaklinga að borða.

Staðurinn er samt ekki án sérkenna. Þau eru í matnum. Hann er í fyrsta lagi góður. Og í öðru lagi er hann laus við að vera frumlegur. Hann er bara eins og fólk býst við og vill, að hann sé, enda virðist matseðillinn vera óbreytilegur frá árstíð til árstíðar, ári til árs. Á hverjum degi er þó fiskur og kjöt dagsins í boði.

Askur er fremur stór og opinn, búinn hagkvæmum og vönduðum húsgögnum, sem hafa ekki látið á sjá. Harðviðarrammi er utan um plastplötur borðanna. Á neðra gólfi er eldhús, salatbarð og nokkur borð, en meginsalur á efra gólfi. Þar eru langsófar meðfram veggjum, lítil borð og stólar á móti. Þetta minnir á franskt brasserí.

Askur siglir meðalsjó í verðlagi. Hann býður heitt hádegishlaðborð á 1130 krónur, heitt sunnudagssteikarborð á 1550 krónur og fiskrétt dagsins á 1090 krónur, allt að súpu og köldu salatborði meðtöldu. Meðalverð þriggja rétta af matseðli er um 2190 krónur. Vínlisti er stuttur og vel valinn, með Gewurztraminer og Hugel í hvítu, Santa Cristina og Barthez í rauðu.

Rjómalöguð spergilkálsúpa dagsins var fremur góð hveitisúpa. Betri reyndist rjómalöguð blaðlaukssúpa dagsins. Ýsuflak dagsins var mátulega eldað, hlaðið miklu af rækjum, fljótandi í góðri gráðostsósu, fyrirtaks réttur. Í annað skipti var ýsluflak dagsins líka gott, í það skiptið með rækjum og hörpufiski, svo og sítrónusósu.

Ég hef ekki prófað að láta skera fyrir mig steikur í sunnudagshádegi. En ég hef séð heita hádegisborðið og fannst það ekki girnilegt í hitakössum. Salatborðið hef ég hins vegar notað nokkrum sinnum og finnst það gott. Ég sakna þó sveppa. Grænmetið er undantekningarlaust frísklegt. Í eitt skiptð voru þar smávaxnir tómatar, rifinn ostur og fjórar gerðir af sósum, auk hefðbundinna þátta.

Svínarif með barbecue-sósu eru sérgrein, afar matarleg, enda fá gestir sérstakar svuntur til að óhreinka sig ekki. Nautasteik var líka fremur góð, lítið steikt og vel meyr, borin fram með sveppum og kryddsmjöri. Boðnar eru fjórar útgáfur af nautasteik og fimm af lambasteik.

Eftirréttir eru góðir á Aski, eplabaka með litlum eplateningum og hnetubaka, báðar með ís og þeyttum rjóma.

Askur hefur fundið sér hillu og heldur sig við hana. Fólk kemur þangað til að nærast á mat, sem er eins á bragðið og hann var síðast og þar áður, aldrei misheppnaður. Hér er allt í traustum og föstum skorðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kínahúsið

Veitingar

Bezta og ódýrasta austræna matstofan í Reykjavík er Kínahúsið við Lækjargötu. Þar er hægt að fá hádegisverð á 495 og 595 krónur. Hið fyrra var kjúklingasúpa og djúpsteiktar rækjur í súrsætri sósu, hið síðara það sama og að auki karrílamb og hnetukjúklingur. Rækjurnar voru betri og ódýrari kosturinn af tveimur góðum, hæfilega snöggsteiktar, með hæfilega þunnum steikarhjúp.

Austrænir veitingastaðir á Vesturlöndum þjóna annars vegar því fólki, sem hefur alizt upp við slíkan mat og hins vegar Vesturlandabúum, sem vilja annað hvort eða hvort tveggja, fara út að borða fyrir lágt verð eða hafa tekið þessa framandlegu matreiðslu í sátt eða fóstur. Hér á landi hefur hins vegar tíðkazt, að austrænar matstofur séu á nokkurn veginn vestrænu verði. Kínahúsið er ein af fáum undantekningum þessa íslenzka vandamáls.

Á kvöldin er líka ódýrt að borða í Kínahúsinu. Þá er hægt að velja milli nokkurra fjögurra rétta matseðla á 1750 krónur. Þeir fela í sér kjúklingasúpu, vorrúllu, mismunandi aðalrétti og loks djúpsteiktan banana með ís. Þetta eru ekki frumlegir kostir, heldur þvert á móti einkennisréttir kínverskra veitingahúsa á Vesturlöndum.

Kjúklingasúpan var nokkurn veginn hin sama á hádegisverðar- og kvöldverðarseðlinum. Þetta var bragðmild súpa að kínverskum hætti, tær og lystug, með kjúklingabitum, stundum með sveppum eða núðlum að auki.

Hádegisverði Kínahússins var ekki ausið upp úr hitakössum, heldur var hann steiktur fyrir hvern gest fyrir sig. Þess vegna ber staðurinn höfuð og herðar yfir ýmsa staði, sem einnig eru að keppa um hádegismarkaðinn og byggja að mestu á pottrétti eða pastarétti og köldu borði.

Áður er getið djúpsteiktu rækjanna, sem eru staðarsómi. Kjúklingur hádegisverðarins var í senn hæfilega meyr og hæfilega þéttur í sér, borinn fram með heilum hnetum. Lambakjötið var líka hæfilega eldað, borið fram með mildri karrísósu. Allt var þetta á einum diski

Að kvöldi prófaði ég nýlega í tvígang afar fína vorrúllu með þunnri, stökkri skorpu. Þetta var allt önnur vara en sú, sem margir þekkja úr pökkum matvörubúðanna. Þetta er lúxusrúlla með fjölbreyttu innihaldi, nokkuð breytilegu frá degi til dags, og súrsætri sósu. Venjuleg vorrúlla hússins var eins elduð, en innihaldið einfaldara.

Súpur staðarins voru yfirleitt mildar og tærar að kínverskum hætti. Þar á meðal var einföld sjávarréttasúpa með eggjahvítu og rækjum. Sterkari og þykkari var karríkrydduð andasúpa, sem minnti fremur á Indland en Kína.

Hörpudiskur er viðkæmur og verður seigur, ef hann er eldaður um of. Í Kínahúsinu var hann meyr og fínn, borinn fram með ananasbitum í góðri sítrónusósu. Súrsætur kjúklingur var líka vel eldaður, hæfilega snögglega djúpsteiktur. Pekingönd með bambus og sveppum var hins vegar ekkert betri en gengur og gerist.

Sæt vorrúlla með negulkrydduðu eplamauki var skemmtilegur eftirréttur. Djúpsteiktur banani með ís var nákvæmlega eins og hann er í öllum kínverskum veitingahúsum. Kaffi staðarins var með bezta móti.

Kínahúsið er vel í sveit sett á horni Lækjargötu og Skólabrúar. Innréttingar eru einfaldar, ekki ofhlaðnar Kínaskrauti. Andrúmsloftið er rólegt og notalegt.

Jónas Kristjánsson

DV

Tjörnin

Veitingar

Fremur fáir vita, að fyrir aðeins 800 krónur er hægt að fá ljúfasta hádegisverð á einu allra bezta veitingahúsi landsins. Þetta verð er aðeins steinsnar ofan við ýmis tilboðsverð hversdagslegra veitingahúsa í gamla miðbænum. Miðað við gæði er þetta alveg einstætt tilboð.

Alltaf er notalegt að koma á Tjörnina til Rúnars Marvinssonar. Húsakynni eru í rólyndislegum fyrirstríðsstíl, nokkuð ofhlaðin sófum og hægindastólum í tveimur betristofum. Matstofurnar tvær eru léttari og fínlegri, með ísaumaða og heklaða dúka að einkennistákni.

Þegar komið er af götunni Templarasundsmegin við Kirkjutorgið, blasir hinn notalegi heimur við í mynd bratts timburstiga upp á aðra hæð. Síðan magnast tímaleysið við gluggana, þar sem útsýni er til Alþingishúss og Dómkirkju og til magaveikislegra þingmanna, sem skjótast í rokinu framhjá Mekka matargerðarlistar til að komast í eiturbrasið, sem þeir hljóta að nærast á.

Matreiðslan hefur staðnað á síðustu árum. Með öðru orðalagi þýðir það, að staðurinn hefur fyrir löngu fundið sér farveg við hæfi og hefur síðan haldið sínu striki. Þetta er matreiðslan, sem sló í gegn á Búðum á sínum tíma, allt frá kryddlegnum gellum yfir í svokallaða eilífðartertu súkkulaðis, sem enn prýða matseðla staðarins.

Maturinn er alltaf góður og traustur á Tjörninni, en um leið dálítið fyrirsjáanlegur. Upprunalega kryddlagar- matreiðslan á Búðum var dálítið í ætt við japanska matreiðslu. Síðar gerði Rúnar ágætar tilraunir með matreiðslu í japönskum sushi-stíl, en hefur færzt til baka til sinnar gömlu matreiðslu, til síns persónulega stíls.

Matseðillinn breytist í sífellu eftir aflabrögðum og árstíðum, þótt oftast megi sjá þar gamla vini, sem hafa slegið í gegn. Mig minnir til dæmis, að kryddlegnar gellur og smjörsteikt tindabikkja séu alltaf á seðlinum, enda eru þetta réttir, sem Rúnar kynnti fyrstur manna.

Nýlega prófaði ég í hádeginu súpu og rétt dagsins á 800 krónur. Súpan var ágæt grænmetissúpa og rétturinn var pönnusteikt blálanga með kartöflum og krydduðum hrísgrjónum, mjög góður matur. Í sama skipti var meðal annars á boðstólum mjög fjölbreytt fiskisúpa dagsins með bláskel og skötusel, hörpufisk og eggi, tómötum og blaðlauk. Ennfremur góður silungur úr Vífilstaðavatni, léttilega næturleginn og borinn fram með sojasósu.

Á Tjörninni er stundum hægt að fá gufusoðna bláskel í skelinni, með hvílauk og tómat, ágætis forrétt, eða hvítvínssoðna með sítrónu og grænmetisþráðum, ekki síður góða. Ég hef líka nýlega prófað í forrétt fremur bragðmilda saltfiskstöppu undir bræddum osti og með góðu olífusalati.

Ég man eftir góðum þorskhrognum steiktum með sérstaklega góðri hvítlauksrjómasósu. Ennfremur viðargrilluðu heilagfiski með vínberjum og fersku garðablóðbergi. Og góðri keilu pönnusteiktri með skelfiski og laxahrognum. Meðlæti fiskrétta er stundum nokkuð staðlað.

Um daginn prófaði ég fyrirtaks grænmetisrétt dagsins. Hann var gerður úr mjúkri og bragðgóðri linsubaunakássu, borinn fram undir þaki af pönnusteiktu grænmeti og með bakaðri kartöflustöppu til hliðar.

Eftirréttir eru undantekningarlaust góðir og margfræg súkkulaðiterta staðarins er alveg einstök í sinni röð.

Jónas Kristjánsson

DV

Ítalía

Veitingar

Veitingahúsið Ítalía við Laugaveginn hefur ekki mætt aukinni samkeppni með auknum matargæðum, enda virðist það ekki þurfa á slíku að halda. Þar er fullt hús á kvöldin og jafnvel slæðingur í hádeginu, þótt staðurinn sé alls ekki með nein hádegistilboð í líkingu við það, sem víða tíðkast við Laugaveginn í kreppu líðandi stundar.

Fólk heldur áfram að þyrpast á Ítalíu, þótt risið hafi í nágrenninu annar ítalskur matstaður, sem býður betri mat á lægra verði. Nýi staðurinn hefur stækkað markaðinn í stað þess að taka frá Ítalíu. Svo er verið að tala um kreppu í þjóðfélaginu. Hún er afstæð eins og annað.

Mér sýnist matseðill Ítalíu hafa verið óbreytilegur um árabil, ef frá eru talin súpa og fiskur dagsins. Seðillinn byggist að mestu á pöstum á 990 krónur og pizzum á 980 krónur. Ef reiknað er með hefðbundnum réttum, kostar 3000 krónur að borða þríréttað, fyrir utan drykkjarföng. Það hlýtur að teljast í dýrari kanti veitingahúsa.

Betra pasta er fáanlegt

Þótt pasta Ítalíu sé nokkuð gott, nær það ekki jöfnuði við pastað á Pasta Basta, enda virðist það ekki vera gert á staðnum, heldur koma úr pökkum. Á þessu tvennu er töluverður gæðamunur, sem menn átta sig ef til vill ekki á, nema hafa setið góð veitingahús í upprunalandinu.

Pizzur eru raunar helzti sómi staðarins. Þær hafa undantekningarlaust reynzt mér góðar, rata rétta meðalveginn milli þykktar og þynndar, mýktar og hörku. Ég held líka, að þær séu það, sem laða flesta áhangendur að þessum notalega ranghala, hvítmálaða og Miðjarðarhafslega.

Gestir sitja í þröngum básum milli hárra skilrúma með hafi gerviblóma. Því sést lítið milli borða. Hver hópur er eins og eyja út af fyrir sig. Þrátt fyrir það og ef til vill þess vegna er góð stemmning hjá matargestum. Heppilegt er þó, að fólk sé ekki haldið innilokunarótta.

Eldamennskan er fremur góð á Ítalíu, þótt heldur hafi slaknað á gæðunum.Ítölsk fiskisúpa var hnausþykk og matarmikil, tómatrauð og bragðgóð. Sniglar í ragú voru meyrir og góðir, bornir fram með miklum tómatgraut. Kryddlegin nautatunga var einnig góð, með öflugu sítrónubragði, borin fram með fjölbreyttu grænmeti. Sjávarréttasalat var sítrónukryddað, fjölbreytt að efnisvali.

Smokkfiskur á feneyska vísu var meyr og fínn, hæfilega djúpsteiktur, með hrísgrjónum. Saltfiskur á vicenzka vísu var óvenjulega mildur, mjög góður út af fyrir sig, en beið lægri hlut fyrir yfirgnæfandi tómatbragði.

Ekki sparað magnið

Tiramisú, hinn frægi eftirréttur Feneyinga, er í óvenjulegri og góðri útgáfu á Ítalíu, með miklu sítrónufrauði og litlu súkkulaðikremi, borinn fram í stóru ísglasi. Eins og í mörgum öðrum réttum staðarins var ekki sparað magnið. Sú gestrisni stuðlar án efa að vinsældunum.

Enginn hugsar sér ítalskan stað án góðs kaffis. Ítalía er engin undantekning á því. Espresso kaffibollinn reyndist mér ein eftirminnilegasta nautn staðarins. Þá mundi ég loksins eftir, að, þrátt fyrir ýmsar athugasemdir mínar, er Ítalía enn hinn sómasamlegasti veitingastaður.

Jónas Kristjánsson

DV

Steikhúsið

Veitingar

Steikhúsið við Laugaveg er einn matsölustaða miðbæjarins, sem freistar fólks með hádegisverði á lágu verði. Þar kostar 650 krónur að fá sér súpu og aðgang að fallegu saltaborði. Tilboðið er höfuðprýði þessa staðar.

Á salatborðinu var meðal annars reyktur lax með sinnepssósu, ferskir sveppir og nokkrar tegundir af köldu pasta. Ennfremur hrísgrjónaréttur með kartöflusalati, volgt ræmupasta með kjöti og sveppum, svo og nýbökuð pitsa niðursneidd. Þetta var með betri hádegisverðarborðum, sem ég hef séð, þótt verðið sé með því lægsta.

Innréttingar eru að mestu arfur frá indversku matstofunni, sem var næstsíðast á þessum stað eða þar áður. Timburverk í lofti og þröngir básar eru frá þeim tíma. Í stað indversku skreytinganna eru komnar smíðajárnsgrindur með nautshornalíkingu milli bása.

Nokkrar verksmiðjuframleiddar myndir eftir Baltasar skreyta veggi steikhússins, allar í sömu stærð, allar um mat, fjörlegar myndir, sumar með undarlegu textakroti málhöltu á miðri mynd. Ómissandi koparpottar og koparpönnur falla að ímyndinni, sem reynt er að framkalla.

Þegar við höfum troðið okkur í básana, blasir við okkur glerplata á borði með taudúk undir og diskamottum ofaná, svo að ímyndin lekur niður í mötuneytisstíl. Við fáum matseðilinn og sjáum strax, að þetta er nákvæmlega sami matseðill og var í fyrrasumar.

Vínlistinn er verr valinn en víðast hvar. Þarna má meira að segja sjá Black Tower og Lambrusco, sem ég hélt að enginn byði. En á milli má finna skárri sýnishorn, Santa Cristina, Gewurztraminer og Riesling Hugel.

Volgt brauð fylgdi súpu hádegisverðarborðsins og súpu kvöldsins. Hádegisverðarsúpan var góð tómatsúpa með sveppum og kvöldsúpan var góð brokkáls- og blómkálssúpa, einnig með sveppum. Sniglar voru sæmilegir, bornir fram með of þykku og sterkkrydduðu tómatmauki.

Steikhús þarf að hafa góða steik. Nautalundirnar voru það, rauðar og meyrar, með laukblandaðri sveppasósu.

Meðlæti aðalrétta var staðlað, þar á meðal meðlæti matseðils, sem kallaður var surprise. Ég get ekki hugsað mér minna surprise en staðlað meðlæti. Þetta meðlæti var brokkál, blómkál og sveppir, alveg eins og í súpunni. Líklega ætti fremur að kalla staðinn brokkáls- blómkáls og sveppahús, heldur en steikhús.

Pepperoni-pitsa var fremur lin og nokkuð sterk, keppir ekki til fyrstu verðlauna á Laugavegssvæðinu.

Pönnukökur með ávöxtum og rabarbarasultu voru fremur góðar og ís staðarins var frambærilegur. Kaffi var þunnt. Þótt ég bæði um að fá kaffið ekki á undan eftirrétti og legði mikla áherzlu á það vegna slæmrar reynslu, vissi þjónustan betur og kom með kaffið á undan.

Steikhúsið býður sérstakan surprise kvöldverð. Í ljós kom, að það var karríkrydduð rauðsprettusúpa, nokkuð góð; gráar og þurrar lambalundir með sterkri piparsósu og meðlæti hússins; og loks svipaður ís og var á matseðl i.

Fyrir utan hádegistilboðið er verðið nokkuð hátt. Það slagar upp undir Holt, um 2.880 krónur fyrir þrjá rétti fyrir utan drykkjarföng. Pizzurnar kosta 910 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV

Holt

Veitingar

Það er gaman að skrifa um veitingasalinn á Hótel Holti. Það er miklu ánægjulegra að skrifa um það, sem vel er gert, heldur en hitt, sem miður fer. Og notalegast er að hafa tækifæri til að skrifa um það, sem bezt er gert.

Holtið ber af öðrum veitingahúsum landsins. Allt fellur þar í einn farveg matargerðarmusteris. Húsakynni eru virðuleg og menningarleg. Þjónusta er menntuð, en samt engan veginn stíf. Matseðillinn er fjölbreyttur og breytilegur. Og eldamennskan er hin bezta í landinu.

Síðan Eiríkur Ingi tók við stjórnartaumum í eldhúsi Holts hefur staðurinn verið Mekka íslenzkrar matargerðarlistar. Eins og Rúnar við Tjörnina og Úlfar í Þrem frökkum er Eiríkur hugmyndaríkur og farsæll kokkur og líklega hressastur þeirra þriggja um þessar mundir.

Á hverjum degi eru í boði fjölmargir réttir dagsins. Þar eru yfirleitt fimm eða sex sjávarréttir dagsins með fjórum tilheyrandi forréttum, fimm villibráðarréttir dagsins og þrír kjötréttir dagsins með þremur tilheyrandi forréttum.

Allir þessir seðlar eru breytilegir frá degi til dags og frá hádegi til kvölds. Enginn matstaður kemst með tærnar, þar sem Holt hefur hælana á þessu sviði. Og þumalputtareglan segir, að því hærra sem hlutfall dagsrétta er á móti fastaréttum, þeim mun betra sé veitingahúsið.

Sjávarfang og villibráð

Holt hefur um árabil haft forustu um að kynna Íslendingum nýjar tegundir af sjávarfangi. Þar hefur verið hægt að fá hörpufisk og krækling í skelinni, búra og gjölni, krabba og ígulker, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Sjávarréttir eru ein sérgreina Holts. Önnur er villibráð á borð við villigæsir og villiendur, rjúpur og hreindýr. Hin þriðja er vínlisti, sem er einstakur í sinni röð hér á landi. Úrval góðvína endurspeglar aðild staðarins að veitinga- og hótelsamtökunum Relais & Chateau.

Þessi vín eru í öllum verðflokkum, en hæst tróna dýrgripir á borð við höfuðvín búgarðanna Mouton, Lafite og Margaux á Bordeaux-vínsvæðinu. En líka er hægt að fá Santa Cristina hálfflöskuna á 1320 krónur og Pinot d’Alsace hálfflöskuna á 1947 krónur.

Helzt má út á matreiðslu Holts setja, að stöðlun í með læti dregur úr gildi fjölbreytninnar á matseðlinum. En grænmetið er mildilega eldað, nákvæmlega eins og fisk urinn. Villibráðin er stundum lítillega of mikið elduð, enda er slíkt sennilega við hæfi flestra gesta.

Hversdagslegt verðlag

Í hádegi kostar þriggja rétta máltíð um 1595 krónur. Að kvöldi kostar hún um 3075 krónur af sjávarréttaseðli og um 3435 af villibráðarseðli, allar tölur fyrir utan drykkjarföng. Þetta er fremur dýrt, en ekki dýrara en í fjölmörgum veitingahúsum, sem eru á mun lægra plani.

Fyrir stjórnmálaskriffinn, sem hversdagslega hrærist á jaðri pólitíkur, þar sem fáir eru nokkurs nýtir og flestir hrokagikkirnir klúðra verkum sínum, er indæl hvíld að geta einstöku sinnum fjallað um starfsgrein, sem Íslendingar kunna fremur vel, matargerðarlist. Og tækifæri til að fjalla um Holt er eins og jólin séu komin.
J
ónas Kristjánsson

DV

Banthai

Veitingar

Þú skalt ekki gefast upp, þótt matstofan sé á versta stað í bænum, þar sem Laugavegur hefur gleypt Hverfisgötu og breytzt í umferðarholræsi milli Hlemms og Mjólkurstöðvar, þar sem engin þjónustufyrirtæki hafa þrifizt.

Þú skalt ekki gefast upp, þótt matstofan sé harðlæst í hádeginu og veitingamaðurinn, sem er í útréttingum í bankakerfinu, hafi gleymt að snúa við skiltinu, er segir, að staðurinn sé einmitt opinn núna. Reyndu bara seinna.

Þú skalt ekki gefast upp, þótt veitingamaðurinn fari að sýna þér myndir úr árshátíð á efri hæðinni og ósanngjarnar rukkanir frá lögfræðingum. Segðu honum bara af festu og öryggi, að þú sért hvorki ættingi né ráðgjafi, heldur eingöngu kominn til að fá gott að borða.

Þolinmæðina færðu verðlaunaða í ágætum mat í kínverskum anda og á verði, sem er meira að segja lægra en í Laugaási og er þá mikið sagt. Þríréttað kostar um 2.290 krónur. Í hádeginu er svo boðið upp á val milli fimm rétta dagsins, sem kosta 700 krónur að fremur vondu kaffi meðtöldu. Verðið eitt er nægileg forsenda fyrir tilvist þessa litla og ljúfa veitingahúss.

Á efri hæð veitingahússins eru tvö herbergi fyrir samkvæmi og eitt herbergi, sem er innréttað eins og tælenzk borðstofa með sessum á gólfi í stað stóla. Vesturlandabúar eru of fótstirðir til að matast við slíkar aðstæður.

Á jarðhæðinni rúmast alls 24 stólar í notalegum veitingasal, þar sem áður hafa verið tvær samliggjandi íbúðarstofur. Innréttingar eru í þjóðlegum stíl. Útskurður og skinnmyndir eru á veggjum og heilmikil tröllskessa trónir innst. Kertastjakakróna hangir yfir hverju borði.

Almennilegar tauþurrkur eru á rauðköflóttum borðdúkum í hádeginu sem að kvöldi. Að því leyti er Banthai við Laugaveg 130 hátt yfir fjölmarga matstaði hafinn. Tælenzk tónlist er stundum nokkuð hátt stillt, enda þarf veitingamaðurinn ekki að hafa miklar áhyggjur af gestum, því að þá hef ég alls enga séð enn.

Mikið um súrsætt

Djúpsteiktar kjúklingaræmur með grænmeti og útskorinni kartöflu og gulrót voru bragðgóður hádegisverður, að minnsta kosti 700 krónanna virði.

Að kvöldi hef ég prófað afar sterka sjávarréttasúpu með rækjum og sveppum, Í forrétt léttar og góðar wonton-flögur með súrsætri sósu, svo og djúpsteiktan smokkfisk sæmilegan, einnig með súrsætri sósu.

Hrísgrjón með aðalréttum voru mótuð í hleif. Kjúklingur í súrsætri sósu var fremur þurr. Snöggsteiktur lambavöðvi var hæfilega eldaður, sterklega kryddaður með basilíkum. Bakaðar úthafsrækjur með þráðarpasta voru ágætar, en fremur smáar og aðeins tíu talsins.

Ferskt ávaxtasalat reyndist vera ís og þeyttur rjómi, skrautlega upp sett, alveg eins og djúpsteiktur banani með vanilluís og þeyttum rjóma. Eplakaka með hnetum og þeyttum rjóma var ekki pæ, heldur hefðbundin kaka, borin fram volg og góð. Kaffi var gott að þessu sinni.

Ég hef aldrei séð neina aðra gesti á Banthai og hef ekki þorað að spyrja veitingamanninn, hvort hann hafi séð þá. Banthai er staður, sem verðskuldar meiri athygli.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrír frakkar

Veitingar

Nýjasta tiltæki Úlfars Eysteinssonar eru strimlar af saltfiskroði, sem hann veltir upp úr sítrónukrydduðu hveiti og djúpsteikir snöggt. Þetta er mjög góð hanastélsfæða, sem gæti orðið mikilvæg búbót í útflutningsgreinum.

Úlfar er einn af þremur meistarakokkum íslenzkra matstaða. Sífrjó hugsun mótar síbreytilegan matseðil hans í Þremur frökkum hjá Úlfari á Baldursgötu 14. Þar eru 7-9 fiskréttir dagsins eftir gæftum hverju sinni.

Úlfar leggur sig í líma við að fá tegundir sjávarfangs, sem sjaldan sjást á boðstólum. Um daginn var hann með innfluttar ostrur ferskar í skelinni. Skömmu síðar var hann með ferskan Hvalfjarðarkrækling í skelinni. Og í síðustu viku var hann með ferska öðu í skelinni.

Þann dag var hann einnig með gjölni og búra á boðstólum, auk keilu og tindabikkju, steinbíts og skötusels. Sumt af þessu fær hann sent í flugi utan af landi, en annað sést oft á fiskmarkaði höfuðborgarsvæðisins.

Matreiðsluaðferðir Úlfars eru fjölbreyttar. Til dæmis smjörsteikir hann og djúpsteikir, grillar og hvítlauksristar. Til dæmis notar hann rjómasinnepssósu, rjómapiparsósu, gráðostasósu og súrsæta sósu. Á hverjum matmálstíma notar hann nokkrar matreiðsluaðferðir og nokkrar sósur við nokkrar fisktegundir, svo að úr verður töluvert meiri fjölbreytni en víðast annars staðar.

Nákvæm eldun

Reykta tindabikkjan var hæfilega milt reykt, hörpufiskurinn var eins og smjör í munni, sinnepssósan með keilunni var ákaflega mild. Allar tímasetningar eru nákvæmar eins og vera ber, þegar sjávarfang er matreitt.

Saltfiskur er betri hjá Úlfari en ég hef fengið annars staðar hér á landi, enda velur hann sér bezta fiskinn, sem fer til útflutnings. Við matreiðsluna notar hann spænskar og portúgalskar aðferðir. Þjóðlega matreiðslulínan birtist svo í plokkfiski, sem oft er á seðli dagsins.

Nautasteik er líka fín í Þrem frökkum eins og oft vill verða í fiskréttahúsum. Það stafar annars vegar af, að nautakjöt þarf sömu nákvæmni í matreiðslu og sjávarréttir þurfa. Og hins vegar af, að Úlfar notar feita nautgripi af íslenzkum stofni, en ekki Galloway-gripi.

Súkkulaðiostaterta var fremur súkkulaðiterta en ostaterta. Skyrterta var fremur góð, en nokkuð þétt. Heit eplabaka var góð, en hún hefur eins og skyrtertan verið á boðstólum frá ómunatíð. Úlfar mætti skipta um eftirrétti og búa til meira af dagbundnum forréttum.

Góðir konfektmolar með kaffinu voru gerðir á staðnum. Vínlisti er þolanlegur, með megináherzlu á frönsku víni. Gagnslitlar munnþurrkur eru úr þunnum pappír.

Lengi var fremur ódýrt að borða í Þremur frökkum. Smám saman hefur verðið hækkað umfram markaðinn, svo að staðurinn er nú kominn í milliflokk. Þríréttaður matur kostar 2.790 krónur á kvöldin og tveggja rétta með kaffi kostar 1.280 í hádeginu. Þetta er lágt, ef haft er í huga, að þetta er einn þriggja toppstaða landsins.

Umgerðin er notaleg. Að mestu eru enn innréttingar, sem hinir upphaflegu frönsku eigendur staðarins völdu af smekkvísi. Staðurinn er fyrst og fremst notalegur, næstum heimilislegur, skiptist í innri stofu, garðstofu og aðalstofu, með aðeins fáum borðum á hverjum stað.

Jónas Kristjánsson

DV

Borg

Veitingar

Matsalur Hótels Borgar endurspeglar menningarsögulegt afrek, sem unnið hefur verið við endurreisn hins gamla virðingarhótels í miðborginni. Salurinn er aftur kominn nálægt upprunalegu millistríðshorfi. Afturhaldssamar ljósakrónur eru þó komnar í stað fúnkisljósanna gömlu og hæfa staðnum raunar betur.

Stjórnstöð í miðjunni dregur úr kuldanum, sem fylgir víðum og háum sölum. Hún skiptir salnum í kaffistofu og borðstofu. Í aðra átt er bar og hina skenkur. Þessi timburhlunkur yrði léttari og viðfelldnari, ef málmfótstig leysti af hólmi útskot í tréverkinu neðanverðu.

Nostalgían hæfir. Unga fólkið styður ömmur og afa til sætis, svo að rifja megi upp sokkabandsárin. Aðsókn er orðin góð, einkum í hádeginu, þegar staðurinn nýtur tilfallandi umferðar fólks á ferðinni í miðbænum. Að því leyti keppir Borgin við kaffihús á borð við París og Sólon.

Matreiðslan fylgir í humátt á eftir endurreisn Hótels Borgar. Hún er betri en hún hefur verið nokkru sinni á þriggja áratuga veitingahúsarölti mínu. Hún er meira að segja orðin frambærileg, aldrei þessu vant.

Sem betur fer nær nostalgían ekki til matreiðslunnar. Freistandi hefði verið að taka upp hina hræðilegu, dönsku matreiðslu, sem tíðkaðist á millistríðsárunum, og hæfir óneitanlega litlu miðbæjarhóteli í millistríðsárastíl. Fríkadellur úr kjöti og fiski eru raunar einu fortíðardraugarnir á matseðlinum. Ég prófa þær, þegar ég verð þungt haldinn af angurværð hins liðna.

Tveir stuttir seðlar eru á Borginni, annar notaður í hádeginu og hinn að kvöldi. Þetta eru fastir seðlar, sem aðeins bjóða einn fiskrétt dagsins. Ekki er hægt að segja, að matseðlarnir séu forvitnilegir aflestrar, en búa þó yfir óvæntum tilþrifum. Hæst bar þar hálfsæta lauksúpu dagsins, matarmikla, en ekki þykka.

Í eitt skiptið var fiskur dagsins skötuselur, hæfilega vel eldaður, borinn fram með spínati og eggaldini, svo og basil-kryddaðri tómatsósu, sem yfirgnæfði í bragði. Í annað skipti var fiskur dagsins steinbítur, mjög góður, borinn fram með möndlum við hæfi og hrásalati.

Ristaður hörpufiskur kom á óvart, óvenjulega stórir og meyrir vöðvar, bornir fram með sterkkrydduðum linsubaunum. Mildur skelfiskur og sterkar baunir mynduðu sterka andstæðu. Þetta var hættuspil, sem lánaðist.

Lambahryggur var vel rauður og vel meyr, borinn fram með bökuðum kartöfluþráðum og tómötum, svo og belgbaunum, sem á matseðli voru kallaðar snjóbaunir.

Gott var krem með þunnri og stökkri karamelluskorpu, svokallað Crème Brulée. Einnig sykraðar eplaskífur með vanilluís og karamellusósu.

Verðlag á Borg er svipað og á Holti, þótt fjölbreytni og matreiðsla standist ekki þann samanburð. Súpa og réttur dagsins kostuðu 920 krónur og þriggja rétta kvöldverður 2.900 krónur án drykkjarfanga.

l hvítvína er fremur slæmt, en gott í rauðvínum. Cahte au Fontareche kostar 2.290, Santa Christina 2.350, Marqués de Riscal á 2.750 og Mouton Cadet 2.150 krónur.

Tómas veitingamaður gerði góða hluti í Hard Rock Café. En fyrir endurreisn Borgar á hann skilið fálkaorðu.

Jónas Kristjánsson

DV

Pasta Basta

Veitingar

Loksins er komið til skjalanna veitingahús, sem hefur nýtt pasta á boðstólum á hverjum degi í stað aldraðrar pakkavöru. Pasta Basta á því erindi til okkar. Biðröðin við dyrnar sýnir, að fólk hefur áttað sig á þessu.

Þessi staður er í kjallaraholu við Klapparstíg, þar sem enginn á von á veitingahúsi. Þar er pláss yfir um það bil 30 gesti og 16 til viðbótar í glerskála. Streitulausar og tilviljanakenndar og ódýrar innréttingar hafa tekizt mjög vel. Sætin eru þægileg og stemmningin góð.

Samt er þetta ekki ekta ítalskur staður. Starfsfólk talar íslenzku. Handþurrkur eru úr pappír, svo og hvítir dúkar, sem gestir mega krota á, því að vaxlitir fylgja hverju borði. Ruslið á veggjum og á hillum ofan við glugga væri ekki á dæmigerðum, ítölskum veitingastað.

Helzta einkenni Pöstu Böstu er glerveggur, sem veitir útsýni inn í eldhús. Vel staðsettir gestir geta fylgzt með þjálfuðum handbrögðum matreiðslumanna til að magna upp matarlystina. Við vegginn er skenkur, sem í hádeginu er notaður undir hlaðborð, eitt staðartrompanna.

Þetta hádegishlaðborð kostar aðeins 670 krónur. Þar voru fimm tegundir af köldu pasta, eitt risotto og hrásalat. Innifalið í verðinu er súpa og gott brauð, bakað á staðnum. Súpan reyndist vera snarpheit grænmetis-tómatsúpa með einum of eindregnu tómatbragði.

Pösturnar voru allar góðar og sumar mjög góðar. Þarna voru pastaræmur með túnfiski, pastakuðungar með rækjum, pastapípur með sveppum, pastaþræðir með skinku og með pesto-sósu. Risotto dagsins var með pepperoni. Út þá þetta láta menn svo grana-ost, sem raspaður er á staðnum úr ekta stykkjum af þessum fræga osti.

Á kvöldin eru pöstur heitar, stinnar og fremur góðar. Þá kosta þær um 920 krónur, sem er gott verð, þegar haft er í huga, að þær eru ekki verksmiðjuframleiddar. Boðið er upp á capelli-englahár, conchiglie-kuðunga, sedoni-þræði, tagliatelle-ræmur og ravioli-kodda.

Kuðungafantasía með rækjum var góður og þar að auki fallegur og lystugur réttur. Ræmur með humri voru afar góðar, en humarinn var tæpast nógu meyr. Koddar með sveppum voru einna bezti pastarétturinn.

Ef gestir velja sér eitthvað annað en pasta í aðalrétt, fer reikningurinn fljótlega að rísa til himinhæða þeirra, sem tíðkast á hinum fínu veitingahúsum borgarinnar. En það er engin ástæða til að velja slíka rétti, þar sem fjölbreytt úrval er á boðstólum af góðu pasta.

Fiskisúpa fastaseðilsins reyndist vera tómatsúpa með grænmetisþráðum. Tómatbragðið var hæfilega milt, en humarsoðsbragð yfirgnæfði algerlega saffranbragð, sem boðað var á matseðli. Óvænt voru sniglar skemmtilega sérkennilega engiferkryddaðir. Smokkfiskhringir voru óvenjulega mjúkir og góðir, bornir fram með englahárapasta, en þar vantaði engiferbragð, sem boðað var á seðli.

Sítrónuterta var með góðu og sterku appelsínubarkarbragði. Súkkulaðifrauð var gott. Mjúk og góð var kaffibragðsterta, sem gekk undir nafni ostatertu. Tiramisu er þekktur ítalskur eftirréttur, eins konar búðingur undir súkkulaðiþaki. Ítalskt kaffi er að sjálfsögðu gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Litla Ítalía

Veitingar

Litla-Ítalía er kjörinn staður til að fá sér ódýrt og samt fjölbreytt að borða í hádeginu. Hádegisverðarhlaðborðið kostar 580 krónur fyrir utan kaffi. Innifalin er súpa, ávaxtasafi, kryddlegið grænmeti af ýmsu tagi, pöstur, sjávarréttir og baunaréttir, ostar og ávextir.

Flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessu borði og breytingafíklar geta fundið nýstárlega rétti á borð við anískrddaðar kartöflur. Meiri natni er lögð í þetta en salatborðin, sem víða tíðkast í hádeginu.

Að öðru leyti er Litla-Ítalía eins konar útibú frá Ítalíu, sem er einn af betri matstöðum borgarinnar. Nýi staðurinn nær ekki gæðum móðurskipsins. Pítsurnar voru að vísu mjúkar og safaríkar, en pösturnar voru slakar.

Litla-Ítalía felur sig í kjallara gamals húss við Laugaveg 73, í húsinu neðan við stóra Landsbankahúsið. Gengið er um tröppur niður í lítið port og síðan þvert til vinstri. Hér hafa risið og hnigið nokkur veitingahús og ekki skilið neitt eftir í endurminningunni.

Hér er timburloft og trégólf. Þetta er friðsæll og rómantískur staður, einkum að kvöldlagi, er fólk skrafar lágt í þröngum básum. Óperutónlist er of hátt stillt.

Á skilrúmum standa blóm og fullar vínflöskur, en í lofti hanga tómar chianti-flöskur bastvafðar. Á veggjum er ýmislegt dót, svo sem hljóðfæri og dúkkur, svo og flöskumiðar af Mouton Rotschild, sem raunar fæst ekki.

Þjónusta er upp og ofan. Í eitt skiptið var hún ítölsk og fullkomin, mundi meira að segja, hvað hver hafði pantað. Í annað skipti var hún íslenzk og meira eða minna utangátta, þótt vingjarnleg væri. Fyrsta verk þjóns á vaktinni á að vera að kynna sér, hver sé réttur dagsins, svo að unnt sé að svara einföldustu spurningum gesta.

Matseðillinn er stuttur og spennulaus. Þungavigtin er í pöstum og pítsum. Verðið er of hátt á öðru en hádegishlaðborðinu, svona mitt á milli Asks og Holts. Pöstur og pítsur kosta einar sér um 980 krónur og annað er dýrara.

Nokkrar tegundir eru af ítölsku víni, einkum rauðu. Þarna fæst meðal annars Pinot Grigio og beizkur Bardolino frá Langbarðalandi, ýmis Chianti-vín frá Etrúskalandi og hlutlaust, en ferskt Frascati frá Latverjalandi. Ráðlegt er að halla sér að hinu gamalkunna Chianti.

Súpur dagsins eru yfirleitt fremur góðar hveitisúpur rjómaðar, svo sem tómatsúpa og seljustönglasúpa. Brauð var gott, en smjör hart.

Sjávarréttasalat var gott. Þar var ljúf úthafsrækja og meyr hörpufiskur, agnarlitlir kolkrabbar, nokkuð seigir, örugglega úr dós. Laxafrauð var bragðgott, borið fram í sneiðum með ristuðu brauði.

Pöstur reyndust misjafnar. Ofnbakaðar pastaræmur með örsmáum og aflöngum kjötbollum voru brenndar fastar við diskinn. Pastahringir með skinku, sveppum og hvítlauk voru betri. Ítalskar kexstengur fylgdu.

Steinbítur dagsins var mjög góður, afar léttsteiktur, borinn fram undir miklu þaki grænmetis í tómatsósu. Þetta var bezti rétturinn, bar vott um tilþrif í eldhúsi.

Á ferðum mínum um Róm kom ég aldrei á svo ódýran matstað, að ekki væru þar hvítar tauþurrkur. Í Litlu-Ítalíu eru pappírsþurrkur aftur á móti í hávegum hafðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Skólabrú

Veitingar

Skólabrú stendur tæpast undir verði. Það er um 10% hærra en á Hótel Holti, þótt matreiðslan rambi á ýmsa vegu kringum gott meðallag. Að vísu hefur henni farið mikið fram, en það var líka óhjákvæmilegt, því að hún var stundum ekki upp á marga fiska til að byrja með.

Innréttingar eru ekki fyllilega í stíl húsnæðisins. Misheppnuð er kaffistofan á efri hæð. Þar stinga í stúf lóðréttir veggir með gamalli klæðningu ljósmálaðri og hallandi loft með nýjum fjölum ómáluðum milli dökkra sperra. Einnig eru samskeyti klæðninganna óvönduð.

Matsalurinn er opinn og ekki nógu hlýlegur, þrátt fyrir daufa kertabirtu. En hann er stílhreinn, með máluðum panil, ljósum vegglit og fallegu parketti. Stólar eru þægilegir og borðbúnaður fyrsta flokks, sem og þjónustan.

Mér sýnist matseðillinn hafa verið að mestu leyti óbreyttur frá upphafi. Engin tilraun er gerð til að haga seglum eftir markaði eða árstíðum, ef frá er talinn einn fiskréttur dagsins. Að öðru leyti eru fiskréttirnir óbreyttir árið um kring, þótt fisktegundir séu misgóðar eftir árstíðum og misjafnlega fáanlegar frá degi til dags. Svona frosnir matseðlar eru úrelt fyrirstríðsfyrirbæri.

Óvenjulegir réttir

Úr skák bætir, að réttir seðilsins eru engan veginn hversdagslegir eða líkir réttum annarra húsa. Skólabrú sýnir að því leyti óvenjulegan metnað. En spennandi uppskriftir duga skammt, ef þær eru óbreytanlegar í tímans rás og misjafnlega heppnaðar í framkvæmd.

Fyrir ári man ég eftir bragðlausum humarhlaða (kannski bara skötusel) með lárperu. Um daginn bjó sami réttur hins vegar yfir góðum humri. En lárperubragðið var svo áberandi, að rétturinn náði ekki jafnvægi.

Léttsteikt andalifur var rauð og mjúk og fín, borin fram með afar sterkri koníakssósu. Ofnbakaðir sniglar í blaðdeigsvirki voru líka góðir og mun mildari á bragðið.

Ofnbakaður silungur var í lagi, en meira í frásögur færandi var skemmtilegur beinmergur, sem fylgdi honum. Þetta var hugprúð samsetning, sem lánaðist vel.

Léttsteiktar svartfuglsbringur voru alls ekki léttsteiktar, heldur miðlungi steiktar og næstum alveg dökkar í gegn. Sterk engifer-berjasósa bætti nokkuð úr skák.

Lamb að hætti Skólabrúar reyndist vera fínt skornar hryggjarsneiðar, einstaklega hæfilega eldaðar, bornar fram með einstaklega hæfilega léttsoðnu grænmeti.

Drungalegt og þungt súkkulaðiísfrauð stakk í stúf við skrautlega og létta eftirrétti. Döðlu- og hnetuterta var hins vegar góð, borin fram með þeyttum rjóma.

Bezt eftirréttanna var svokölluð Reykjavíkurvaffla, sem reyndist vera sykurterta með karamelluþaki og þeyttum rjóma, borin fram með léttsoðnum ávöxtum.

Vínlistinn er góður. Þar eru þekkt gæðavín í hóflegum verðflokki í bland við enn þekktari gæðavín á borð við Chateau Mouton Rotschild og Chateau Clerc-Milon.

Ég hef ekki tekið eftir mikilli aðsókn að Skólabrú, þrátt fyrir töluverðar auglýsingar. Ég held, að staðurinn hafi ekki farið nógu vel af stað á sínum tíma og gjaldi þess nú, þótt ráðamenn hans hafi náð betri tökum á honum.

Jónas Kristjánsson

DV