Veitingar

Eldvagninn

Veitingar

Allt er pönnusteikt

Í Eldvagninum er notuð einföld matreiðsluformúla. Aðeins sjö aðalréttir, sennilega allir pönnusteiktir, eru á seðlinum, hinir sömu dag eftir dag, árið út og inn. Kokkurinn stendur inni í miðjum borðsal. Í augsýn gesta pönnusteikir hann réttina á eldvagni, það er að segja voldugum og afskaplega göfugum prímus. Þetta er fljótlegt og þægilegt fyrir alla aðila. Einnig veitir það í hugann óljósum, en unaðslegum minningum úr gömlum útilegum fyrir daga útigrillanna. Ennfremur minnir það á eldhöf, sem fyrr á tímum þótt fínt að láta gjósa upp í matsölum góðborgaralegra hótela.

Annar helzti kostur þessarar tegundar sýningar-matreiðslu er, að hún gefur engum kokki tækifæri til að skilja matinn of lengi eftir á pönnunni. Hraðinn verður að vera svo mikill, að ekki gefst tími til að spilla matnum með löngum eldunartíma. Meðal annars vegna þessa kemur, að frátöldum sósum og súpum, sómasamlegur matur úr því leikhúsi, sem Eldvagninn er öðrum þræði. Auk þess getur kokkurinn líka verið ágætur út af fyrir sig. Á það reynir bara lítið, þegar þessi snjalla formúla er notuð.

Hinn kosturinn er, að opinber matreiðsla gerir sumum gestanna kleift að sjá, hversu fallega eða illa útlítandi hráefni er og hvaða kunnáttu og hreinlætis er gætt við eldun þess. Þetta gulltryggir eiginlega, að vandað er til vals á hráefnum og reynt er að fara snyrtilega og kunnáttusamlega með það. Á leiksviði er óheppilegt að gera mistök og því eru þau ekki gerð í góðum leikhúsum.

Fura í mörgum útgáfum

Eldvagninn er dálítið sérstakur í útliti og verður tæpast kallaður stílhreinn. Einkenni hans er fura í ýmsum útgáfum. Fremst er mikið glerhús með grófri, hrásmíðaðri og ómálaðri furugrind og miklu af stórum pottaplöntum uppi um allt. Glerhúsið er nokkuð berangurslegt og kaldranalegt, af því að það kúrir í kjallara undir tröppunum niður að veitingahúsinu, andspænis voldugum bankavegg. Ekki virðist smíðinni vera endanlega lokið, þótt meira en ár sé liðið frá opnun, því að málningarbrún frá hliðarvegg nær hirðuleysislega út á grindina.

Hið innra er smíðin vandaðri og því vandaðri sem neðar dregur í salnum. Í loftinu er furupanill, í bitum og stoðum hefluð eða spónlögð fura og í skenkjum og borðum er límd fura.

Tveir skenkir eða vinnupláss eru í litlum 32 sæta salnum. Á hinum ytri er girnilegt brauðval hússins, að minnsta kosti þrjár tegundir. Ennfremur minna forvitnilegar vínflöskur. og loks skál með ísbergi, er gegnir hér hlutverki hrásalats. Við innri skenkinn vinnur kokkurinn af miklum tilþrifum.

Inni í þessum sal ferns konar furu eru svo ljósblár litur í gólfi, stólasessum og stólbökum og bleikur í stólum, kertum og pappírsþurrkum. Sums staðar eru múrsteinsveggir í húsinu, annars staðar ljósbleikir veggir. Koparpönnur og koparáhöld eru á innsta vegg og heljarlangt málverk á vegg þar við hliðina.

Sumum kann að finnast traustvekjandi að fá að sjá, að þjónustufólkið við skenkinn getur skorið brauð, opnað vínflöskur og mokað ísbergi upp úr salatskál. Verra var, að þjónninn sá ekki matarleifar síðasta gests á borðinu, sem ég sat við. Að öðru leyti var þjónustan í góðu lagi, og þjónninn mundi til dæmis eftir að bera gestum vatn og heitara kaffi.

Ostakaka var bezt

Brokkálssúpa virðist vinsæl súpa dagsins. Í bæði skiptin var hún venjuleg hveitisúpa með mauksoðnu káli og í annað skiptið með þeyttum rjóma út á. Annars virðist mér samkvæmt biturri reynslu, að almennt hér á landi þýði orðalagið “rjómalöguð” súpa, að um hveitisúpu sé að ræða. Með súpunni fylgdi mikið af góðu brauði og smjör í smjörskál. Kalt laxasalat sem forréttur var borið fram í eftirréttaglasi og minnti á eftirrétt, því að notuð voru jarðarber, bláber og kiwi til að gera réttinn litskrúðugan. Laxinn var ekki þurr.

Smálúða var ágætlega milt steikt, borin fram með vermút-steiktri blöndu af möndlum, papriku og blaðlauk, pönnusteiktri papriku í þremur litum, brokkáli og bakaðri kartöflu, svo og sterkri karrísósu úr hveiti. Piparsteik var afar meyr, hæfilega pipruð, borin fram með sterkri hveitisósu með piparkornum, smjörsteiktum gúrkum, mauksoðnum sveppum og léttsteiktu grænmeti. Allar sósur virtust bornar fram með skán og allir réttir með bakaðri kartöflu í álpappír og ísbergi, misjafnlega fersku.

Ostakaka var mjög góð, borin fram með girnilegum ávöxtum ferskum, svo sem ananas, melónu, grapefruit og kiwi, svo og þeyttum rjóma, sennilega bezti réttur staðarins. Sæmilegasta kaffi var borið fram með mintusúkkulaði.

Í hádeginu er ekki eldað við prímus. Þá er boðið ódýrt hlaðborð á 440 krónur, sem þýðir 500 krónur með kaffi. Á borðinu var hveitisúpa dagsins, margs konar fyrirmyndarbrauð, nokkrar tegundir af hráu grænmeti, nokkrir síldarréttir, pottréttur og ferskir ávextir, svo sem ananas og melóna. Þetta hlýtur að teljast hagkvæmt tilboð.

Eldvagninn er ekki áberandi að utanverðu. Hætt er við, að sumir, sem sjá skiltið uppi við Laugaveginn, rambi niður tröppurnar beint inn í nágrannann Sombrero í stað þess að beygja í 180 gráður að ósýnilegum dyrum Eldvagnsins.

Frekar ódýr staður

Samt hefur staðurinn venjulega verið þétt setinn erlendum ferðamönnum, þegar ég hef komið þar. Virðist mér, að einhverjir í ferðaþjónustu bendi fólki á staðinn, enda er hann fremur ódýr af vínveitingahúsi að vera, raunar í lægsta verðflokki slíkra staða. En úrval borðvína er bæði fátæklegt og ómerkilegt.

Í heild fannst mér Eldvagninn hafa það umfram marga nýlega og nýja staði, að hann hefur sinn sérstaka stíl, bæði í matreiðslu og útliti og á því fyllilega rétt á sér.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 1330 krónur

Jónas Kristjánsson

Matseðillinn
170 Rjómalöguð súpa kvöldsins
310 Sveitapaté
280 Kalt laxasalat með sýrðum rjóma
380 Pönnusteiktir sniglar
350 Rækjuskál með þúsund eyja sósu
680 Blandaðir sjávarréttir
510 Pönnusteikt smálúða með hvítvínssósu
610 Smjörsteiktur lax með sjávarréttasósu
980 Nautapiparsteik með koníakssósu
790 Lambafillet með malíbúsósu
690 Eldsteiktar kjúklingabringur í barbeque
890 Heilsteikt nautafillet með frönskum kartöflum
310 Ostaterta með ferskum ávöxtum
280 Ferskur ananas með púrtvínsstaupi
365 Djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi
190 Eplapæ með rjóma

DV

Laugaás

Veitingar

Frumkvöðull stefnunnar

Laugaás er afar traustur vinur, sem heldur nákvæmlega stefnunni, er hann tók strax í upphafi. Þar er farið eftir hvorugri íslenzku hefðinni að slaka á gæðunum, þegar fer að reyna á úthaldið, eða elta allar nýjungar, sem rekur á fjörurnar. Laugaás er og hefur alltaf verið sjávarréttahús, þar sem fá má góðan mat fyrir lítið fé, frumkvöðull slíkra staða. Festan og úthaldið stafa af, að eigendurnir eru alltaf á vaktinni og elda sjálfir.

Laugaás verður bezt lýst með samanburði við tvo aðra uppáhaldsstaði mína, Múlakaffi og Úlfar og Ljón. Laugaás er mjög líkur Úlfari, en er heldur ódýrari en hann og ekki eins eindreginn sjávarréttastaður. Laugaás beitir ekki alveg eins góðri matreiðslu, státar ekki af salatborði eins og Úlfar, en býður gagnstætt honum litla og ódýra eftirrétti, í sumum tilvikum innifalda í verðinu. Laugaás er heldur fallegri staður, en veitir ekki alveg eins notalega þjónustu.

Nýr seðill tvisvar á dag

Til samans sjá þessir tveir staðir um, að íbúar og gestir höfuðborgarinnar geti fengið gott að borða fyrir lítið fé, þótt þjónusta sé veitt til borðs. Til samans halda þeir einnig á lofti gildi sjávarrétta í mataræði landsmanna og hinni sjálfsögðu stefnu að skipta daglega eða tvisvar á dag um matseðil.

Verðið í Laugaási á þríréttaðri máltíð er samkvæmt reikningsaðferð minni svipað og í Múlakaffi, sem er sjálfsafgreiðslustaður og raunar sennilega hinn bezti slíkra í borginni. Grunnverð súpu og aðalréttar er hærra í Laugaási, en aukahluta, svo sem eftirréttar og kaffis er lægra. Þar sem Múlakaffi er sjálfsafgreiðslustaður, er mikið af matnum geymt heitt í stálkerjum við diskinn. Gestir rogast síðan með birgðirnar til borðs. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að leiða til lakari matar og til kólnunar aðalréttar, meðan súpan er borðuð. Í Laugaási mætum við ekki slíkum vanda. Hver réttur er séreldaður, meðan gesturinn borðar súpuna, og síðan færður honum til borðs.

Látlaust menningarheimili

Laugaás er lítill staður og oft þröngt setinn á annatímum. Merkilegt er, að álagið hefur ekki gert matstofuna þreytulega. Útlitið er frísklegt og geðslegt eins og á fyrsta degi. Laugaás minnir dálítið á gróið og látlast menningarheimili hreinlætis.

Á matseðlinum eru oftast um 15-20 réttir, þar á meðal súpa dagsins og eftirréttur dagsins. Hinir skiptast nokkurn veginn jafnt milli fiskrétta og kjötrétta. Í stórum dráttum breytist matseðillinn oft aðeins að hluta til frá degi til dags. Samt endurspeglar hann breytingar á framboði hráefnis, einkum fisks. Öðrum réttum, sem minna eru háðir framboði, er skipt út og inn til að auka fjölbreytnina.

Súpurnar eru yfirleitt góðar, einkum hinar tæru. Ég man eftir góðri grænmetissúpu og mjög góðri spergilsúpu, sem kölluð var prinsessusúpa. Ég man líka eftir annarri spergilsúpu, sem var hversdagsleg og hveitileg, enda hét hún ekki jafn virðulegu nafni, var bara spergilsúpa, kölluð rjómalöguð. Það lýsingarorð gefur mér af slæmri reynslu ætíð grunsemdir um, að hveitisúpa búi að baki.

Matreiðslan rokkar

Nýlega hef ég fengið í Laugaási frábærlega léttsteikt og mjúkt heilagfiski með léttsteiktu grænmeti og rækjum. Einnig dálítið ofsteikt og heldur of þurrt heilagfiski með miðlungi þunnri eggjasósu. Dæmin tvö af heilagfiski og spergilsúpu sýna mér, að matreiðslan rokkar nokkuð upp og niður, eins og hún hefur raunar ætíð gert. Kokkarnir eru einfaldlega misjafnlega nákvæmir, til dæmis í eldunartíma.

Af öðrum aðalréttum, sem ég hef nýlega prófað, má nefna góðan steinbít með hæfilega litlu magni af brie-osti. Ennfremur frábæran svartfugl, rauðan og meyran, einn hinn bezta, sem ég hef fengið, borinn fram með eplasalati.

Dæmi um eftirrétti dagsins eru góður búðingur í tveimur lögum með þeyttum rjóma og ávaxtaskreytingu, svo og ferskt og gott trifle, létt í maga. Þegar eftirréttir eru ekki innifaldir í matarverðinu, kosta þeir aðeins 60 krónur. Kaffi eftir mat er sæmilegt og kostar aðeins 20 krónur.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 598 krónur í Laugaási. Það er lítið fé fyrir góða veizlu.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður matseðill
Prinsessusúpa
495 Steiktur fiskur gratineraður
480 Gratineraður plokkfiskur með rúgbrauði
495 Pönnusteiktur karfi St. Germain
495 Steiktur skötuselur með camembert
550 orly-steiktur skötuselur béarnaise
580 Steikt rauðsprettuflök með rækjum og brie
580 Pönnusteikt smálúða meistarans
580 Steiktur Laxalóns-silungur meuniere
495 Bixiematur með pönnueggi
530 Indverskur karríréttur með hrísgrjónum
530 Léttsteiktur svartfugl með eplasalati
540 Grillsteiktur kjúklingur
540 Köld nautatunga með kartöflusalati
670 Ali-hamborgarlæri með rauðvínssósu
695 Glóðarsteikt lambalæri béarnaise
720 Nautakótiletta hússins
795 Marineraðar lambalundir í rjómasósu
60 Búðingur. Fylgdi ókeypis með rauðsprettu, smálúðu, lamba- og nautakjöti.

DV

Arnarhóll

Veitingar

Enn fínni en fyrrum

Arnarhóll hefur staðnað og raunar lítillega dalað upp á síðkastið, þótt veitingahúsið sé enn bezti eða annar af tveimur beztu veitingastöðum landsins. Hinn ytri umbúnaður í þjónustu og verðlagi er heldur fínni en áður og var þó afar fínn fyrir. En hornsteinninn sjálfur, matreiðslan, er ekki alveg á sama stigi og hún var, þegar Arnarhóll hóf göngu sína. Hún er afar góð, en hefur fallið í allt of fastmótaðar klisjur.

Kaffistofan inn af borðsalnum er orðin vistlegri en hún var upphaflega og líkari fordrykkjastofunni, í harðviðarstíl. Ýmis önnur atriði hafa verið lagfærð. Smjör er borið fram í sérstökum smjörskálum. Heitir réttir eru bornir fram undir hjálmi, sem upprunalega átti að halda mat heitum, en eru nú einkum notaðir til að magna helgisiði við framreiðslu aðalrétta á borð gesta, enda eru réttirnir hér stundum bara volgir undir hjálminum.

Erlendis hafa skoðendur veitingahúsa stundum notkun slíkra hjálma til marks um hátt verðlag staðarins. Arnarhóll er trúr þeirri stefnu. Verðlagið hefur hækkað um 40% á einu ári í aðeins 20% verðbólgu. Hefur staðurinn nú eindregna forustu í verðlagi veitingahúsa hér á landi. Þetta er ekki sagt honum til hnjóðs, því að veitingasalir eiga að vera misdýrir í samræmi við misjöfn gæði. Segja má þó, að fáir hafi efni á að borða hér, nema fyrir annarra fé, það er að segja fyrirtækja og stofnana. Enda sýnist mér aðsóknin ekki vera umtalsverð. Og í sumar hefur meira að segja verið lokað í hádeginu, sem er þó hinn hefðbundni tími viðskipta-málsverða.

Eðalvindlar og -vín

Ein nýjunganna, sem Arnarhóll státar af, eru vindlarnir Davidoff Chateau Mouton Rotschild á tæplega 1000 krónur stykkið. Þetta eru handvafðir Havana-vindlar, afgreiddir úr virðulegum rakakassa. Davidoff er frægasta og dýrasta af örfáum tegundum ekta Havana-vindla. hinir eru Montechristo, Romeo et Juliet og Upman. Mér finnst þessir Davidoff-vindlar ekki nógu þétt vafðir og ekki eins góðir og hinir töluvert ódýrari Montechristo nr. 1. Samt er framtak Arnarhóls virðingarvert, því að í verkahring fínna og dýrra veitingahúsa er að hafa fína og dýra vindla á boðstólum.

Önnur hliðstæð nýjung felst í nokkrum árgöngum af heimsfrægu víni, Torres Gran Coronas Black Label, á verði frá 2.600 krónum upp í rúmar 10.000. Sérfræðingur minn í borðvínum hefur prófað árganginn 1976, sem kostar 3.300 krónur flaskan, og segir vínið hið langbezta sem fáanlegt sé í landinu. Það ilmar þungt og hefur mikla fyllingu og mýkt. Vín þetta er bruggað úr franskættuðum cabernet-vínberjum í héraðinu Penedes, sem er í Katalúníu nokkru sunnan við Barcelona, nálægt Costa Brava, er sumir sólarlandafarar þekkja.

Þjónustan í Arnarhóli er enn sem fyrr í hæsta gæðaflokki. Um hana er raunar ekkert hægt að segja annað en, að hún er öðrum stöðum til fyrirmyndar að öllu leyti.

Matseðill Arnarhóls hefur slaknað með árunum. Hann er orðinn fastur og prentaður til langs tíma í senn, svo að hann fer nærri ekkert eftir framboði hráefna hverju sinni. Slíkt er oft haft til marks um, að þreytumerki séu komin á eldhúsið og kemur í útlöndum í veg fyrir, að veitingahús teljist til matargerðarmustera.

Fátt er um fisk

Auðvitað er ekki auðvelt að bjóða upp á ætan fisk af föstum matseðli,l því að fiskur er stundum til og stundum ekki. Þess vegna sést varla annar fiskur á matseðlinum en ræktaður lax og regnbogasilungur í ýmsum myndum, afurðir, sem yfirleitt er unnt að fá árið um kring. Eina undantekning eru ristuð kolaflök, sem óhjákvæmilega hljóta stundum að koma úr frysti. Með því að taka upp þetta úrelta fyrirkomulag neitar Arnarhóll sér um að geta boðið gestum fjölbreytni í fiski og öðrum sjávarréttum, bezta hráefni landsins og um leið þeim mat, sem gefur kost á mestum tilþrifum í matreiðslu.

Arnarhóll hefur tekið upp fasta matseðla, þar af einn langan, sjö rétta. Slíkir smakkseðlar tíðkast mjög í erlendum frægðarhúsum, en þá eru þetta undantekningarlaust seðlar dagsins, raðað saman eftir hráefnum dagsins. Sjö smárétta röð á prentuðum matseðli, sem liggur frammi mánuðum saman, líkist skopstælingu á upprunalegri hugsun að baki slíkra smakkseðla eða jafnvel móðgun við hana. Og samtals býður Arnarhóll daglega nærri 40 mismunandi rétti, sem er ofviða hverju eldhúsi, þar sem menn reyna að vanda sig. Svona umfangsmiklir matseðlar urðu úreltir fyrir löngu.

Eftir allar þessar kvartanir er nauðsynlegt að taka skýrt fram, að matur er yfirleitt mjög góður í Arnarhóli, mun betri en víðast hvar í landinu. Eina nýlega undantekningin, sem ég man eftir, voru nautalundir, sem greinilega höfðu verið hamraðar svo ákaft, að vöðvabyggingin var komin í graut. Slíkur groddagangur er raunar andstæður hinni venjulegu, fínlegu matreiðslu staðarins.

Nýlega prófaði ég bragðsterka og afar góða laxahrognakæfu. Einnig mjög gott humarjukk, sem fólst í stórum humarbitum í rjómasósu, blandaðri blaðlauk og sveppum. Ennfremur sérlega góðan, kryddleginn lax, sem borinn var fram í næfurþunnum, víðáttumiklum sneiðum, er þöktu diskinn. Og ágætan regnbogasilung, sem var reyksoðinn og borinn fram með kryddaðri eggjahræru og sýrðum rjóma dillkrydduðum. Sömuleiðis ljómandi góða samsetningu á graflaxi og hörpudiski í smjörjukki. Sem og afbragðs humar sítrónuleginn. Og loks grásleppuhrogn, er höfðu þann frábæra kost að vera glær, en ekki svört eða ógeðslega bleik, eins og hrognin í verzlunum. Þetta voru allt forréttir.

Svartfugl og önd

Svartfugl er einstaklega frábær aðalréttur í Arnarhóli, næstum alltaf nógu lítið steiktur og rauður að innan, síðast borinn fram með vínberjum og rifsberjum, svo og kartöflugratíni og léttsoðnum gulrótum. Annar einkennisréttur staðarins, einnig kostulegur, er gljáð aliönd, sérstaklega meyr og ljúffeng, borin fram með sætri appelsínusósu, gulrótastrimlum og vínberjum. Einnig eru á seðlinum ágætis lambarif, þykkt söguð og fituskorin og afar léttilega steikt. Í fyrra fékk ég svo einu sinni fyrirtaks skarfa-unga og mjög góða hreindýrasteik.

Af nýlegum eftirréttum man ég eftir góðri bananatertu með appelsínuhjúp. Einnig ágætum jarðarberjum ferskum. Ennfremur karamelluhorni með þremur kraumísum, með kampavíns-, jarðarberja- og kiwi-bragði. Og loks svonefndum Reykjavíkurvöfflum, fylltum jarðarberjum og rjóma, umflotnum jarðarberjasósu að hálfu og kiwi-sósu að hálfu, báðum sósum úr maukuðum ávöxtum.

Þriggja rétta kvöldverðarveizla með kaffi, en án víns og vindla, kostar að meðaltali 2449 krónur í Arnarhóli. Veitingahús á því verði auglýsa ekki sérstaklega á matseðli, að þau bjóði upp á Blue Nun hvítvín.

Jónas Kristjánsson

Nýr matseðill:
985 Nýr reyktur stór lax
1085 Ferskt sjávarréttaragout í rjóma-kampavínssósu
895 Grafinn regnbogasilungur með dillsósu
495 Rjómalöguð humarsúpa
355 Kjötseyði með ferskum graslauk
1395 Léttsoðinn lax með sítrónusósu
1035 Pönnusteikt regnbogasilungsflök með rjómaheslihnetusósu
995 Léttsteikt hörpuskel með smjördeigsskel og earl gray sósu
915 Ristuð kolaflök með rækju-fricassé
1565 Gljáð aliönd með appelsínusósu
1450 Nautalundir með villtum steinasveppum
490 Íslenzkir ostar
525 Vanillu-mousse í karamelluhjúp með ferskum jarðarberjum
375 Bananaterta með appelsínuhjúp
340 Sorbet árstíðarinnar
565 Fersk jarðarber eða bláber
375 Súkkulaðifrauð með koníaksbragði
445 Karamelluhorn fyllt með ís
675 Arnarhóls blandaðir eftirréttir
1125 Réttur dagsins: Léttsteikt lambarif með hvítlauk
2010 3ja rétta seðill: Reyksoðinn regnbogasilungur og fersk grásleppuhrogn með sýrðum rjóma. Léttsteikt svartfuglsbringa með sérrí-trönuberjasósu. Karamelluhorn fyllt ískraumi árstíðarinnar.
2365 3ja rétta seðill: Ferskur spergill. Léttsteiktur lax með eggjasósu. Nýir blandaðir ávextir í kampavíni.
2640 4ra rétta seðill: Laxahrognakæfa með dillsósu. Kampavíns-ískraum. Innbakaðar nautalundir í smjördeigi. Frönsk eplakaka með þeyttum rjóma.
3330 7 rétta seðill: Nýr lax og loðnuhrogn, kryddlegin í olífu-timjam-legi með ferskri piparrót. Kjötseyði með steinsveppum. Blandað fuglapaté. Ískraum árstíðarinnar. Snigla-ragout í rjómahvítlaukssósu. Léttsteikt lambarif. Arnarhóls blandaðir eftirréttir.

DV

Veitingaþjónusta

Veitingar

Íslendingar eru í stórum dráttum vel búnir undir að veita beina auknum fjölda erlendra ferðamanna. Veitingahús eru mörg og fjölbreytt; skólamenntun matreiðslumanna og þjóna er tiltölulega vönduð; og nýir straumar í matargerðarlist hafa átt greiðari aðgang hér en í flestum nágrannalöndunum. Höfuðborgarsvæðið hefur algera forustu í þessum efnum.

Á síðustu sjö árum hefur risið mikill fjöldi veitingahúsa, einkum á Reykjavíkursvæðinu. Einn mikilvægasti aflgjafi þeirrar þróunar er draumur veitingamanna, bæði matreiðslumanna og þjóna, um að verða sínir eigin húsbændur. Þessi þáttur er öflugri en ferðaþjónustuþátturinn, sem felst í veitingarekstri í tengslum við hótel, í tengslum við aðra ferðaþjónustu og í tengslum við erlenda keðjuútgerð veitingahúsa.

Hinn sérhæfða ferðaþjónustuþátt veitingamennskunnar ber alls ekki að lasta, en hann er þó einkum bundinn ferðamanni sem fanga aðstæðna. Hann er gestur á ákveðnu hóteli, hann er á matmálstíma á vissum stað á hringveginum eða hann þekkir hið alþjóðlega keðjumerki veitingahússins. Hann getur ekki vænzt að fá sem slíkur fangi sömu gæði fyrir peningana og hann getur vænzt að fá í veitingahúsi, sem er í fullri samkeppni án stuðnings af hóteli eða hringvegi eða erlendri auglýsingatækni.

Hin mörgu sjálfstæðu veitingahús, sem hafa risið á Reykjavíkursvæðinu, eru afar traustur grunnur að þjónustu við erlenda ferðamenn. Þau hafa stuðlað að því áliti útlendinga, sem til þekkja og sem ég þekki, að matargerðarlist og veitingamennska sé á tiltölulega háu stigi hér á landi.

Í fyrsta lagi er framboðið meira en eftirspurnin. Það leiðir til samkeppni um verð og gæði. Auk þess býr það yfir afkastagetu, sem getur þjónað miklu fleiri ferðamönnum, en nú sækja landið heim. Þessi afkastageta er einkum mikilvæg á sumrin, þegar við heimamenn sækjum veitinahúsin í minna lagi. Hinir misjöfnu vertíðir heimamanna og útlendinga hafa auk þess heppileg jafnvægisáhrif í veitingarekstrinum, -dreifa honum betur yfir árið.

Í öðru lagi eru yfirleitt fagmenn að verki. Algengast er, að stjórnendur í eldhúsi og sal séu menntaðir úr Hótel- og veitingaskólanum, þar sem veitt er staðgóð menntun í hefðbundnum stíl, þrátt fyrir margvíslega erfiðleika vegna húsnæðisvandræða skólans. Þessu fylgir töluvert öryggi fyrir viðskiptavininn, -tryggir honum ákveðin lágmarksgæði í matreiðslu og þjónustu. Þetta öryggi er að meðaltali nokkru traustara hér á landi en í nágrannalöndunum.

Í þriðja lagi héldu nýir straumar í matargerðarlist innreið sína hér á landi fyrir fimm til sjö árum. Það voru áhrif frá nýju, frönsku línunni, sem fór sigurför um Frakkland fyrir um það bil fimmtán árum. Þessi nýja lína felur í sér mun betri matreiðslu en áður tíðkaðist. Hún hefur í hávegum það hráefni, sem bezt er hér á landi, -sjávaraflann. Enda eru það sjávar- réttirnir, sem erlendir gestir lofa helzt hér á landi.

2.

Þar með er ég engan veginn að segja, að allt sé fullkomið á þessum sviðum hér á landi. Enn er mikið svigrúm til endurbóta og vil ég benda á nokkur dæmi um það hér á eftir.

Verðskyni matreiðslumanna er ábótavant. Þeir hafa ekki lært að umgangast hráefni af nægilegri nýtni. Það verður oft ódrjúgt í höndum þeirra. Gífurlegu magni er beinlínis kastað. Þar á ofan er oft valið dýrt hráefni, til dæmis ýmis sérvara, sem flutt er til landsins með ærnum tilkostnaði. Þetta gerir hráefniskostnaðinn óþarflega mikinn, sérstaklega í fínu húsunum, og gerir hátt verðlag þeirra enn hærra en vera þyrfti.

Eigi að síður er að vissu leyti ánægjuleg fjölbreytni í verðlagi íslenzkra veitingahúsa. Mikið svigrúm er milli Arnarhóls annars vegar og Laugaáss hins vegar, svo að ég nefni tvö fyrirmyndarhús á sitt hvorum enda litrófsins í verðlagi, auðvitað að mörgum öðrum húsum ólöstuðum. Erlendir ferðamenn eiga því að geta valið sér veitingahús við það hæfi verðlags, sem þeir kjósa.

Í heild sýnist mér ekki, að verðlag íslenzkra veitingahúsa sé til vanza í ferðamálum, þótt það sé tiltölulega hátt að meðaltali. Mér sýnist einnig ljóst, að stefnan í ferðamálum hljóti að reyna að soga hingað þá útlendinga, sem mest hafa handa á milli, það er að segja viðskipta- og ráðstefnugesti.

Reynslan sýnir, að viðskiptafólk og ráðstefnugestir nota miklu meira fé en aðrir ferðamenn og gera sér tiltölulega litla rellu út af verðlaginu. Þeir taka það bara sem þátt í þeirri staðreynd, að verðlag er almennt séð nokkuð hátt hér á landi. Þeir tala miklu meira um, hversu góður matur sé, en hversu dýr hann sé. Svo megum við ekki gleyma, að megintilgangur ferðaþjónustu er að hafa af henni sómasamlegar tekjur.

Annað vandamál er landsbyggðin. Utan Reykjavíkursvæðisins og Akureyrar er yfirleitt tiltölulega lítil samkeppni í veitingarekstri. Framfarirnar á þessum áratug hafa einkum verið í þéttbýlinu. Strjálbýlið hefur setið eftir, ekki sízt við hringveginn, þar sem ástandið er víða ömurlegt enn sem fyrri daginn. Fagmennska er þar minni og áhrif hinna nýju strauma eru minni.

Þriðja vandamálið er stöðnunin sem hefur orðið, síðan framþróunin varð í matargerðarlist fyrir fimm til sjö árum. Veitingamenn eru orðnir of ánægðir með sig. Þeir hafa sofnað á lárviðarsveigunum, sem stéttin aflaði sér, þegar matargerðarlist var áberandi fremri hér á landi en í nágrenninu. En munurinn hefur minnkað, því að nágrönnunum hefur farið fram, meðan okkar menn hafa staðið í stað.

Áberandi er í nýju húsunum, sem stofnað hefur verið til á síðustu fimm árum, að mest áherzla er lögð á vandaðar innréttingar og góða þjónustu, en í matreiðslu étur hver upp eftir öðrum. Margir matseðlar eru í stórum dráttum hver öðrum líkir og matreiðsluaðferðir eru nokkurn veginn hinar sömu. Allt of lítið er um ferskan blæ á borð við þann, sem við finnum í veitingahúsinu Við Tjörnina.Íslenzkir veitingamenn eru enn of bundnir við mildar útgáfur af gömlu stefnunum tveimur, sem ég hef kallað belgfyllingarstefnu og barokkstíl. Belgfyllingarstefnan felst meðal annars í, að á diska kjöts eða fiskjar er hlaðið þremur til fjórum hrúgum af mjögsoðnu grænmeti, svo sem rósakáli, brokkáli, gulrótum og kartöflu í álpappír. Þetta er hin hefðbundna, danska matargerð, sem til skamms tíma var alls ráðandi hér á landi.

3.

Barokkstíllinn kemur meðal annars fram í óhóflegri áherzlu á skreytilist og langan undirbúning matargerðar í stað þess meginsjónarmiðs, að maturinn sé ætur. Hástig íslenzks barokks í matargerð er norræna hlaðborðið, sem jafnan veldur mér missi matarlystar. Það er hvergi óhugnanlegra en á sýningum þeim í Bella Center, þar sem íslenzkir matreiðslumenn sækja ákaft til verðlauna.

Barokkstefnan frá Careme og Escoffier hefur misst sjónar á eiginleikum og eðlisbragði hráefna, ferskleika og heilnæmi. Hún veltir sér til dæmis upp úr hveiti og smjöri. Hún misþyrmir mildu hráefni með sterku meðlæti og vefur jafnvel beikoni um skötuselinn. Einkum misnotar hún þó uppfinningar nútímans, fyrst dósahnífinn, síðan frystikistuna og nú síðast örbylgjuofninn. Hún notar langa og fasta matseðla. Matur er forunninn klukkustundum fyrir notkun. Hann er hálfeldaður fyrst og loks kýldur upp í ofni, þegar á að bera hann fram. Þessa meðferð þolir matur ekki, allra sízt fiskur og gærnmeti.

Í stað barokksins, sem nær hástigi í hlaðborðinu, þarf að auka áherzlu á hinar tíu reglur nýju, frönsku línunnar í matargerðarlist. Þær eru einfaldar:
1. Aðeins eru notuð fersk hráefni árstíðarinnar.
2. Lítið er notað af frystum hráefnum og ekkert af niðursoðnum.
3. Notað er grænmeti og fiskur í stórauknum mæli.
4. Fita er spöruð sem mest, ekki sízt í brúnuðu formi.
5. Mjöl er ekki notað í sósur eða súpur til þykktar.
6. Afnumin er forvinna og upphitun fyrir máltíð og örbylgjuofnar eru ekki misnotaðir.
7. Eldunartími er ekki hafður lengri en nákvæmlega þarf.
8. Borin er virðing fyrir eðlisbragði og næringarefnum hráefna.
9. Matseðlar eru stuttir og breytilegir eftir árstíðum og fáanlegum hráefnum, helzt hreinir matseðlar dagsins.
10. Eldamennskan tekur tillit til staðbundinna hráefna og hefða.

Þessi tíu atriði eru stíll nútímans. Allir heimsfrægir kokkar eru á þessari línu. Hún er eldamennska nútímans, en er samt engin dægurfluga, sem kemur og fer. Hún felur í sér varanlega breytingu á viðhorfi fólks til þess, sem það lætur ofan í sig. Tímarit á borð við Newsweek og Economist hafa nýlega verið með hana sem forsíðuefni hjá sér.

Áhugi nútímafólks á heilsufari sínu leiðir beint til hinnar nýju, frönsku línu. Menntað fólk hafnar offitu, kransæðastíflu og krabbameini. Við munum verða vör við þetta í auknum mæli hjá fólki, sem sækir Ísland heim, ekki sízt hjá viðskiptafólki og ráðstefnugestum.

Við erum svo heppin hér á landi, að hafa hráefni, sem nýja línan hampar. Það er fiskurinn, beint úr sjónum. Vægilega eldaðir sjávarréttir, ekki gratineraðir, heldur gufusoðnir eða grillaðir, eru okkar helzta tromp á þessu sviði. Þeir fara vel í maga og eru í samræmi við vilja og þarfir nútímafólks.

Lambakjötið okkar er hins vegar alvarlegt vandamál. Við erum einir í heiminum um að telja fóðurkálsalin vegalömb vera eins konar villibráð. Enda sýnist mér, að þeir útlendingar, sem ég hef haft afskipti af hér á landi, taki vægilega eldaðan fisk fram yfir lambakjöt. En því verður víst seint breytt, því að gildandi stefna ríkisrekstrar í hinum hefðbundna landbúnaði er traustari í sessi en nokkru sinni fyrr.

4.

Opinber gagnrýni á íslenzka veitingamennsku er mikils virði. Hún veitir aðhald, sem er nauðsynlegt á þessu sviði eins og öðrum. Því miður er ég nokkurn veginn hinn eini, sem hef, með hléum þó, haldið úti dálkum um þetta efni í allmörg ár. Ég held, að þau skrif hafi verið til góðs, en auðvitað væri fjölbreyttara og betra, að fleiri legðu skipulega hönd á þann plóg.

Íslenzk veitingamennska hefur öll skilyrði að mæta vaxandi ferðamanna- straumi og auka hróður landsins sem ferðamannalands. Þau atriði, sem ég og aðrir hafa gagnrýnt, eru yfirleitt þess eðlis, að tiltölulega auðvelt ætti að vera að bæta um betur.

Ég tel mikilvægast í þessu efni, að Hótel- og veitingaskólinn fái mun betri starfsskilyrði en verið hafa og að hann fáist til að taka á þeim göllum íslenzkrar veitingamennsku, sem ég hef nefnt. Ef hann er fáanlegur til þess, er æskilegt, að hann starfi ekki aðeins sem forskóli fyrir starf, heldur einnig sem símenntunarskóli, er leggi áherzlu á námskeið fyrir áður útskrifaða fagmenn.

Vínsala

Veitingar

Í 1. Mósebók, 9. kafla, 20. versi segir svo: “En Nói gerðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð. Og hann drakk af víninu og varð drukkinn og lá nakinn í tjaldi sínu.”

Sumir leyfa sér að efast um sannleiksgildi biblíunnar, sem meðal annars segir okkur, að fyrsta verk Nóa eftir flóðið hafi verið að planta víngarð.

En svo vel vill einmitt til, að fornleifafræðin hefur leitt í ljós, að vínyrkja byrjaði í nágrenni fjallsins Ararat fyrir 8000 árum,

Í rústum borga Assyríumanna hafa fundizt nákvæmar skrár um vínkjallara og innihald þeirra.

Á leirtöflum frá Mesópótamíu eru skráð viðskipti með vín.

Á vegg hofsins í Karnak, við mitt fljótið Níl, er letruð skýrsla um herför Þútmósis 3., faraós, til Sýrlands. Þar voru höfðingjar erfiðir í þá daga, eins og Assad er enn þann dag í dag. Þútmósis vann á þeim frægan sigur í orrustunni við Meggidó.

Eins og segir á vegg hofsins í Karnak voru í herfanginu 6000 krukkur af víni. Því stendur á veggnum: “Og allur her hans hátignar varð fullur”

Ég nefni þessi dæmi til að benda á, að vínrækt, víngerð og vínsala hefur fylgt mannkyninu í 8000 ár. Sú atvinnugrein, sem þið stundið, er því ekki ný af nálinni.

Dæmin eru öll frá for-klassískum tíma, frá Mið-Austurlöndum, þar sem Múhameðstrúarmenn ráða nú ríkjum og þar sem lítið er framleitt eða selt af víni nú á dögum. Raunar er sá heimshluti of heitur fyrir vín.

Það var ekki fyrr en vínið barst til Evrópu fyrir 4000 árum, að það fann sér loftslag og jarðveg við hæfi. Það var í Grikklandi, Rómarveldi og Frankaríki.

Þá var líka farið að skrifa ókjörin öll um vín. Segja má, að grískar bókmenntir fljóti í víni. Bændaskáldið Hesíodus orti: “Gef mér skugga, Biblis-vín, brauð og geitaost.”

Í Hómerskviðum segir svo, að eftir 19 ára hrakninga kom Oddyseifur heim og hitti Laertes, föður sinn, úti á vínakri.

Hinn gríski guð vínsins, Dyonisos, sonur Seifs, varð einn hinna helztu guða þess tíma, betur kunnur hjá Rómverjum undir heitinu Bakkus.

Rómverjar voru tæknimenn miklir og þeir skrifuðu mikið af fræðiritum um vínræktun og víngerð. Þar á meðal er fræg ritgerð eftir Cato gamla.

Þeir lærðu líka að gera vín, sem geymdist vel. Í sögunni Satyrikon eftir Petróníus, sem var uppi á dögum Nerós keisara, segir frá veizlu hjá leysingjanum Trimalchiusi, þar sem drukkið var 100 ára gamalt Falernian vín frá stjórnarárum Opimianusar ræðismanns.

Til þess að varðveita óskemmt svo gamalt vín þurfti auðvitað mikla þekkingu -á tíma, þegar korktappinn hafði ekki enn verið fundinn upp. En þeir höfðu lært að nota við og gler með góðum árangri.

Allar götur í 8000 ár hefur verið til sérstök stétt vínkaupmanna. Vín er dæmigerð vara, sem mest er seld í sérverzlunum, alveg eins og raunin er á hér á landi.

Að vísu hafa á síðustu árum stórmarkaðir haldið innreið sína á þessu sviði eins og á flestum öðrum sviðum sérverzlana og tekið upp sölu á sérvörum í deildum innan stórmarkaðanna.

Alltaf hefur vín verið sjálfsögð og hversdagsleg vara, þótt hún þyki það ekki hér.

Ég man til dæmis enn eftir, hversu einkennilegt mér þótti, þegar ég kom til náms í Þýzkalandi fyrir tæpum þremur áratugum, að sjá hjá kaupmanninum mínum á horninu flöskur af 60% rommi og brandíi við hliðina á mjólkinni og ávaxtasafanum

Þar eru viðhorfin ólík því, sem hér eru, enda eru Þjóðverjar ekki vandræðamenn með víni, sem við erum hins vegar sagðir vera.

Áratuga gömul, aldagömul og árþúsunda ára gömul sérverzlun með vín hefur auðvitað stuðlað að uppsöfnun gífurlegs þekkingarforða um vín.

Ég tel til dæmis, að leitun sé að sviði, sem eins mikið hefur verið skrifað um og eins mikið er skrifað um einmitt þessa stundina. Það væri þá helzt, að matreiðslubækur hefðu vinninginn.

Hjá erlendum fyrirtækjum, sem verzla með vín, starfa menntaðir sérfræðingar og sumpart hámenntaðir sérfræðingar. Í Bretlandi er til dæmis fjögurra ára nám á háskólastigi að baki titlinum Master of wine, eða Vínmeistari. Svipaða sögu er að segja frá löndum meginlandsins.

Hér hefur hins vegar til skamms tíma ekki verið lögð áherzla á slíkt, jafnvel þótt eðli áfengisverzlunarinnar hér sé á margan hátt svipað og hinna erlendu sérverzlana. Á því kann að verða breyting og þetta námskeið hér í dag kann að vera upphaf að nýjum tíma.

Ég man enn eftir, að ég hringdi í Ríkið fyrir mörgum herrans árum og bað um samband við einhvern, sem vissi um vöruna, er fyrirtækið seldi, svo sem um árganga af ákveðnum tegundum.

Þessi ósk kom mjög flatt upp á símastúlkuna. Hún sagðist skyldu spyrjast fyrir um þetta, sem hún og gerði. Að lokum kom hún aftur í símann og sagði: “Ég verð víst helzt að benda þér á hann Inga gamla á hótellagernum við Lindargötu”

Ég fór og hitti Inga og átti við hann skemmtilegt spjall um pólitík og dægurmál, en frekar lítið um árganga.

Ykkur er sjálfsagt kunnugt um, að ég hef á undanförnum árum harðlega gagnrýnt áfengisverzlunina sem kaupmann og þá sem eins konar sjálfskipaður umboðsmaður notenda.

Ég man til dæmis eftir að hafa kallað þáverandi forstjóra ömurlegasta vínkaupmann í heimi. Fyrir því hafði ég ótal rök, meðal annars þessi:

1. Breytingar á innkaupahlutföllum voru hægfara. Ef tegund varð vinsæl, til dæmis vegna skrifa minna, var hún langtímum saman uppseld, ekki aðeins í fyrstu atrennu, heldur í nokkur ár, það er að segja uppseld aftur og aftur. Þetta held ég að hafi lagazt töluvert.

2. Ný vín komu þá inn á nafni eldri vína, yfirleitt þannig, að nýju vínin voru lakari en hin gömlu, en á sama verði. Ég veit ekki, hvort séu dæmi um þetta á yfirstandandi ári. Heilt ár er liðið síðan ég síðast skoðaði vínframboð Ríkisins.

3. Lítið var þá um borðvín í hálfum flöskum fyrir hina hófsömu. Þetta held ég, að hafi ekki lagazt neitt.

4. Að mínu viti voru fyrir ári aðeins 11 hvítvín góð af 60 talsins og aðeins 12 rauðvín góð af 54 talsins. Samkvæmt þessu flutti Ríkið þá inn 91 tegund af nauðaómerkilegum borðvínum, fyrir utan hin enn ómerkilegri rósavín, en aðeins 23 góðar tegundir. Á þessu held ég, að hafi ekki enn orðið nein umtalsverð breyting.

5. Meðal hratsins, sem flutt var inn, voru sex tegundir af sykursullinu Liebfraumilch. Það er gutl, sem Þjóðverjar framleiða, en dettur ekki sjálfum í hug að hafa til sölu heima fyrir. Þeir selja það til Bretlands og Íslands. Ég held að þessi bruggvara sé enn í sex útgáfum hér í Ríkinu eins og var fyrir ári.

6. Verðbreytingar á víni virtust mér yfirleitt vera góðum vínum í óhag, miðað við vond vín, -og léttum vínum í óhag, miðað við sterk vín. Ég veit ekki til, að þetta hafi lagazt.

7. Flutt hafa verið inn rosalega dýr og viðkvæm vín, en þau meðhöndluð þannig í flutningi eða geymslu, að þau eru beinlínis skemmd. Dæmi um flöskur af þessu tagi hef ég af Hospices de Beaune og Chateau Talbot.

Þannig mætti ef til vill halda áfram. En slíkar umkvartanir eru ekki stóra málið hér og nú, því að ýmsar breytingar virðast vera í deiglunni í þessari stofnun.

Því ekki tímabært að gefa neinn Hæstaréttarúrskurð um stöðu Áfengisverzlunar ríkisins um þessar mundir sem kaupmanns gagnvart neytendum.

Ég held, að áfengisverzlunin hér hljóti að stefna að því að koma sér upp þekkingu um vín, svo að hægt sé að svara spurningum viðskiptavina, alveg eins og kaupmenn sérverzlana yfirleitt geta svarað spurningum um vöru sína.

Það hlýtur að verða stolt kaupmanna ÁTVR eins og annarra kaupmanna, sem bjóða sérvöru, þekkja hana og vita, að hún er góð.

Áfengiskaupmenn þurfa að læra vínsöguna og vínlandafræðina og vínyrkjufræðina og vínloftslagsfræðina og vínjarðvegsfræðina og víngerðarfræðina og vínsölufræðina.

Þá vita þeir á augabragði, hvað Cotes des Rhone þýðir, Qualitaetswein bestimmter Anbaugebiete, California Chablis, Premier Cru og hvað eina, sem viðskiptavinurinn kynni að vilja vita.

Meðan verzlunin á í erfiðleikum með að koma upp slíkri þekkingu á breiðum grundvelli, gæti hún byrjað á að hafa vísi að henni í einni verzlana sinna og vísað fróðleiksfúsu fólki í hana.

Fólk fer í dýrar sérverzlanir til að kaupa kristal til dæmis. Það ætlast til, að kaupmaðurinn geti sagt því, hvert sé eðli hvers þess kristals, sem þar er á boðstólum.

Verzlanir Ríkisins eru sömuleiðis dýrar sérverzlanir og eiga að geta veitt viðskiptavinum sínum sömu þjónustu.

Þið þurfið til dæmis að vita, til hvers korktappinn er. Hann kom til sögunnar um leið og glerflöskurnar urðu eins og þær líta út nú á dögum. Þær eru gerðar til að liggja á hliðinni, svo að vínið væti korkinn að innanverðu og hindri þar með súrefni í að komast inn í flöskuna.

Á mörgum vínkössum stendur, að sú hlið eigi að snúa upp, þar sem flöskubotnarnir eru. Það er vegna hnjasks, sem kassarnir geta orðið fyrir í flutningi. Þá er betra, að flöskurnar liggi ekki á hliðinni, því að þar eru þær veikastar fyrir. Þær verða að standa í annan hvorn endann og þá kemur stúturinn einn til greina, svo að korktappinn haldist rakur.

Þetta breytir ekki því, að í geymslu, til dæmis í vörugeymslum áfengisverzlunarinnar og einstakra verzlana hennar, eiga vínflöskur að liggja á hliðinni. Þetta á við um allt létt vín, allt vín, sem ekki er eimað, líka það, sem ekki er talið fínt vín. Lélegu vínin eiga ekki síður á hættu að skemmast, ef korkurinn þornar.

Þá þurfið þið að vita, að vín þarf að búa við stöðugt hitastig og það ekki of hátt. Íslenzkur stofuhiti eyðileggur til dæmis allt vín smám saman. Hann er víða um 24 stig hér í húsum. Gömul þumalfingursregla segir hins vegar, að vín megi ekki geyma við hærra hitastig en hefðbundinn, franskan stofuhita, 18 stig.

Enn betra er að geyma vín við lægra hitastig, svonefndan kjallarahita, sem er 10-12 stig. Þannig eru öll fín fín vín geymd og helzt öll vín, því að ódýr vín eru yfirleitt viðkvæmari en fín vín, en menn hafa kannski ekki eins miklar áhyggjur af þeim.

Þótt lágt hitastig sé gott, er þó enn mikilvægara, að það sé stöðugt. Betra er að geyma vín við 18 stig stöðug, heldur en við 10 stig, ef hitinn fer einstaka sinnum upp í 20 stig eða niður fyrir frostmark.

Ég er sannfærður um, að vín hefur oft skemmst í flutningum til landsins, bæði vegna frosts og óhæfilega mikils hita. Ég er líka sannfærður um, að það getur skemmst við akstur í frosti langar leiðir.

Þetta með hitastigið og korkinn eru tvö grundvallaratriði. En þekkingaratriði vínkaupmannsins eru miklu fleiri.

Hann veit, hvernig tízka í víndrykkju hefur breytzt og er að breytast. Áður fyrr voru rósavín mikið notuð, en nú eru þau hvarvetna að falla úr gildi, nema hér á landi. Áður voru sæt hvítvín vinsæl, en nú eru hin þurru alveg að ná yfirhöndinni. Fyrrum voru Búrgundarvín virtustu vín í heimi, en nú eru það hin dimmu og langlífu Bordeaux-vín.

Í að minnsta kosti 15 aldir hafa Frakkar verið mestir snillingar í víngerð, en nú eru Kaliforníumenn farnir að ógna þeim. Og að baki Kaliforníumanna erum við farin að grilla í Ástralíumenn og Nýsjálendinga, jafnvel Þjóðverja.

Til eru um 5000 tegundir af vínvið, vitus vinifera. Af þessum 5000 vínberjategundum skipta um 50 máli fyrir víngerð. Önnur henta betur til matar eða rúsínugerðar. Sum víngerðarberin eru uppskorin í miklu magni, en önnur í miklum gæðum.

Kunnustu vínberin eru Cabernet Sauvignon, sem mikið eru notuð í Bordeaux og í seinni tíð í Kaliforníu, Pinot Noir og Chardonnay, sem notuð eru í Búrgund, og Riesling, sem notuð eru í Þýzkalandi.

Sum vínber eru brugguð til skjótra nota, til dæmis Beaujolais Nouveau. Vín úr þeim á að drekka strax. Þau geta orðið ónýt að nokkrum mánuðum liðnum. Núna einmitt um helgina var uppskera ársins 1986 fáanleg sem Beaujolais Noveau.

Önnur eru brugguð til langlífis, til dæmis Chateau-vín frá Bordeaux. Þau eru oft lítt drykkjarhæf fyrstu árin, en batna smám saman, unz þau ná hástigi eftir til dæmis 10-20 ár.

Ég keypti fyrir sjö árum Chateau Mouton-Rotchild 1970, sem verður í hámarksgæðum árið 2010, þegar ég verð sjötugur og vínið fertugt. Ég hef nógan tíma til að bíða eftir því. Og fyrst og fremst ástæðu til að lifa lengi.

Munurinn á hvítvíni og rauðvíni er aðallega sá, að hvítvínið er bruggað úr safanum, en ekki hýðinu, sem skilið er frá. Rauðvínið er hins vegar bruggað úr öllu saman. Rósavín er mitt á milli, það er hýðið haft með í fyrstu, en síðan skilið frá.

Freyðivín eru margs konar. Fremst eru kampavín, sem byggjast á tvígerjun, fyrst í tunnu og síðan í flöskunni sjálfri. Það gefur goskraftinn.

Síðan eru freyðivín, sem eru tvígerjuð í tönkum, og geta verið ágæt, til dæmis hin þýzku Sekt. Svo eru gosvín, sem eru gerð á þann hátt, að koltvísýringi er sprautað í flöskurnar.

Portvín og sérrí eru í höfuðdráttum gerð þannig, að koníaki eða brandíi er blandað saman við létt vín til að gefa þeim aukinn styrk. Portvín eru aðallega að grunni til rauðvín og sérrí að grunni til hvítvín.

Koníak og brandí almennt verður svo til við, að létt vín úr vínberjum eru eimuð. Sú kunnátta er ekki nema um 1200 ára gömul og kemur frá aröbum, merkilegt nokk.

Flest önnur eimuð vín eru úr öðru en vínberjavínum. Það á meðal gin, genever, vodka, romm og viski.

Merkustu vínsvæði heims um þessar mundir eru Bordeaux og Búrgund í Frakklandi, Mósel og Rín í Þýzkalandi og Kalifornía í Bandaríkjunum. Næst á eftir fylgja Rioja á Spáni, Piedmont og Toscanía á ítalíu, Loire, Elsass og Rhone í Frakklandi.

Flestum svæðum fylgja ákveðnar reglur, sem mæla fyrir um, hvernig megi selja vöruna. Gerðar eru kröfur til, hvaða tegundir vínberja séu notaðar, hversu afkastamikill vínviðurinn má vera, frá hvaða akri vínið er, hvaða ár er um að ræða, hvert áfengismagnið megi vera, hversu mikill sykur megi eða eigi að vera í víninu, svo og hversu mikið af ýmsum aukaefnum, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Niðurstöðuna sjáum við yfirleitt á flöskumiðunum. Reglurnar að baki þeirra geta verið misjafnar. Einkum eru þær flóknar í Þýzkalandi. Það kostar nokkuð nám að átta sig á, hvernig beri að lesa þýzka vínflöskumiða.

Innan sama lands geta reglurnar verið misjafnar. Í Bordeaux gilda aðrar reglur en í Búrgund. Og innan Bordeaux gilda aðrar reglur í Medoc en í Saint-Emilion. Deuxieme Cru frá Medoc er til dæmis fínna en Grand Cru frá Saint-Emilion.

Tilgangur minn með þessum lestri er ekki að kenna ykkur vínfræði. Það er allt annað og meira mál. Ég er bara að benda á nokkur atriði, sem skipta máli, þegar kaupmaður ræðir við viðskiptavin, svo að ljóst megi vera, hversu yfirgripsmikið þekkingarsvið vínkaupmannsins þarf að vera.

Ég hef til dæmis nær ekkert minnst enn á árgangana, sem víða ráða úrslitum um, hvort vín er tæplega drykkjarhæft eða hið göfugasta vín. Einhvers staðar verð ég að hætta í svona stuttum fyrirlestri.

Ég vil í lokin ítreka það, sem ég hef áður sagt. Í fyrsta lagi er vín árþúsunda gömul verzlunarvara í sérverzlunum á borð við ykkar verzlanir.

Í öðru lagi hefur safnast á þessu sviði umfangsmikil þekking, sem notuð er í erlendum verzlunum af þesu tagi.

Í þriðja lagi vona ég, að þessi fundur í dag sé merki um, að íslenzka áfengisverzlunin sé að byrja að feta þessa slóð og hyggist afla sér slíkrar þekkingar.

Kaupmenn hennar verða að geta borið höfuðið jafn hátt og aðrir kaupmenn, sem bjóða upp á sérvöru, þekkja hana og vita, að hún er góð.

Meðan þekking á víni er af skornum skammti hjá Ríkinu, getur fyrirtækið fengið hana utan frá. Til dæmis getur fyrirtækið fengið fámenna nefnd, til dæmis þriggja sérfræðinga til að kanna, hver séu einkenni hvers víns fyrir sig af þeim, sem verzlunin hefur á boðstólum eða gæti hugsað sér að hafa á boðstólunm.

Þetta má svo nota til að fella út af skrá vín, sem hvorki eru frambærileg að gæðum, né seld í því magni, að skipti máli fyrir kaupmanninn.

Ennfremur má nota þetta til að búa til fyrir neytendur litla skrá, sem sýnir ekki aðeins verð, heldur líka helztu eiginleika þeirra vína, sem á boðstólum eru. Slíka skrá má láta liggja frammi í verzlunum Ríkisins.

Ég gef hér með kost á mér til slíkrar þegnskylduvinnu.

Ennfremur getur áfengisverzlunin reynt að byrja á að koma sér upp þekkingu á víni á einum stað, til dæmis í einni verzlun, sem það getur vísað á þeim viðskiptavinum, sem hafa sérþarfir eða þurfa einhvers að spyrja.

Endanlegt markmið er, að viðskiptavinir Áfengisverzlunar ríkisins geti hvar sem er í verzlunum hennar fengið áreiðanlegar og hlutlausar upplýsingar og ráðgjöf eftir þörfum þeirra hverju sinni.

Það tekur auðvitað langan tíma, en er mikilvægt fyrir heiður verzlunarinnar og menningaratriði fyrir þjóðina.

Þetta var svona lauslegur inngangur. En megintilgangur komu minnar hingað er að svara spurningum og taka þátt í umræðu hér í þessum sal.

Ég vil svo ljúka þessu með að vitna í fleyg orð rithöfundarins Hilarie Belloc, sem lenti á kvennafari og sagði eftir það: “Ég man ekki staðinn, né stúlkuna, en vínið, það var Chambertin”.

Ég þakka ykkur gott hljóð.

Tjörnin

Veitingar

Arftaki frægs Búðahótels

Kominn er í bæinn Rúnar Marvinsson, sem gerði garðinn frægan á Búðum. Nýja veitingahúsið hans, sem heitir Við Tjörnina, á horni Kirkjutorgs og Templarasunds, er betra en forverinn á Snæfellsnesi. Enda er meiri eftirspurn góðs matar í miðju þéttbýlinu en úti í Búðahrauni, þótt fallegt sé á sumrin.

Milli Alþingis og Leikfélags Reykjavíkur getur Rúnar leyft sér þann munað að bjóða eingöngu sjávarrétti. Ekkert kjöt er á boðstólum handa viðskiptajöfrum, sem villast hér inn, í stað þess að halda sig við gamlar steikur á gömlum stöðum. Auðvelt er að sjá, að flestir gestir Tjarnarinnar greiða hátt matarverðið úr eigin vasa. Svoleiðis viðskiptavinir eru líklegir til að halda uppi nauðsynlegum aga í matreiðslu.

Nýr seðill tvisvar á dag

Rúnar Marvinsson er ekki lærður kokkur, en skákar þeim samt flestum. Matreiðsla Tjarnarinnar er í gæðaflokki Arnarhóls, hin bezta í landinu. Hugmyndir og tilraunir setja mark á matseðilinn, sem skipt er um tvisvar á dag, svo sem sæmir góðum veitingahúsum. Jafnvel fiskibollur verða að eftirminnilegri ódáinsfæðu í höndum Rúnars.

Tjörnin er fagurlega innréttuð í þremur litlum herbergjum á annarri hæð í gömlu húsi. Gólfið hefur verið viðarlagt og veggir fóðraðir í ljósu, hvort tveggja í samræmi við hinn gamla íbúðarstíl, sem meðal annars sést í gifsskreytingum í lofti. Út um gluggana er útsýni til Dómkirkju, Alþingis og á sumrin til kvöldsólar, óheft af gluggatjöldum.

Staðurinn er raunar pínulítill, tekur ekki nema um 30 manns í sæti. Í ráði er að stækka hann lítillega með því að koma fyrir setustofu handan stigagangsins, þar sem útsýni er gott til Tjarnarinnar. Vonandi leiðir álagið af stækkuninni ekki til tímahraks og minni vinnugæða í eldhúsi.

Húsgögn eru gömul trésmíði, virðulegir glasaskápar, slitin borð og stólar með innlögðum skreytingum í setu. Undir vönduðum borðbúnaði og litlum, rauðum rósum eru útsaumaðir dúkar og bláir velúrdúkar. Í gluggum eru pottablóm. Þetta er notalegt og menningarlegt umhverfi, sem truflast ekki af neinu á kvöldin og aðeins af pappírsþurrkum í hádeginu.

Þjónustan á staðnum er lýtalaus, enda undir stjórn konu Rúnars, Sigríðar Auðunsdóttur, sem einnig er framkvæmdastjóri veitingahússins. Allt gerist án hávaða og fums.

Eldhús Rúnars er lítið, raunar minna en eldhús hans var að Búðum. Útbúnaður er þó annar og merkari, því að hér rúmar eldhúsið gaseldavél og gasofn að frönskum hætti. Það er ekki gert til að spara dýrt rafmagn, heldur til að gefa kokknum tækni til fínlegri hitastillingar.

Minnisstæðar súpur

Súpur Rúnars eru kafli út af fyrir sig. Eftirminnilegust er einstaklega bragðmikil og bragðgóð seljustöngulsúpa. Næst henni í endurminningunni gengur laxasúpa, sem var borin fram með laxahrognum. Einnig var fiskisúpa mjög góð. Súpunum fylgdu heitar brauðkollur, bakaðar á staðnum, mjög bragðgóðar.

Af nýlegum forréttum minnist ég helzt óvenjulegs réttar, hvítlauksristaðra þorskhrogna, sem brögðuðust afar vel. Hörpufiskur með tómat, hvítlauk og heitu brauði var einstaklega meyr og ljúfur. Ennfremur voru fyrsta flokks bæði grafinn karfi með sinnepssósu og kryddlegin ýsa með piparrótardýfu.

Af aðalréttum voru áðurnefndar fiskbollur sérstakt meistaraverk. Þær voru bornar fram með smjörsteiktu sveppajukki og saffran-hrísgrjónum. Þær voru einstaklega léttar og bragðmiklar í senn. Oft skilja slíkar bollur, frauð og kæfur milli þeirra, er kunna að elda, og hinna, sem eru á rangri hillu.

Grillaður urriði með möndlusósu var ekki bragðmikill og raunar óþarflega mikið eldaður. Bragðið var einkum þetta dæmigerða útigrillbragð, sem Íslendingum þykir sem þjóð rigningar og roks afar eftirsóknarvert af sálrænum ástæðum.

Tindabikkja og sólkoli í boði

Hins vegar var eldsteikt tindabikkja afar góður matur, borin fram með kapers, vínberjum, afskaplega nett soðnu grænmeti og góðri pernod-sósu. Allar sósur Tjarnarinnar hafa verið fínar sósur, lausar við hveiti. Það gildir til dæmis um bragðsterka yrju- og madeira-sósu, sem fylgdi bragðgóðum skötusel, er borinn var fram með stórum og afar góðum humar.

Einnig man ég eftir fínum sólkola heilsteiktum. Sólkoli veiðist nokkuð hér við land, einkum við Vestmannaeyjar, og er einn bezti matfiskur, sem hér fæst, en er nærri eingöngu seldur til útlanda. Viðskiptavinir veitingahús og fisksala mættu gjarna þrýsta upp framboði sólkola á innlendum markaði.

Súkkulaðiterta hússins var frábær, borin fram með þeyttum rjóma, melónu og kiwi. Einnig var góð frönsk súkkulaðiterta með koníaksrjóma. Fersk jarðarber voru borin fram með flórsykri sér á undirskál.

Kaffi er gott á þessum stað. Vín hússins, seld í glasatali, eru skynsamlega valin. Það eru hvítvínið Riesling Hugel og rauðvínið Santa Christina. Þau fást bæði á flöskum, sem og hvítvínið Chateau Cléray og rauðvínið Chateau Fontareche. Annað á vínseðlinum er lítils virði og sumt er hreint rusl, svo sem almennt tíðkast á veitingahúsum þessa lands.

1677 krónur á mann

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi, en án víns, er 1430 krónur á mann í hádeginu og 1677 krónur á kvöldin. Það má telja hagstætt fyrir matreiðsluna og umhverfið í veitingahúsinu Við Tjörnina.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður kvöldseðill:
280 Grænmetissúpa
380 Fiskisúpa
430 Kryddleginn fiskur
420 Hvítlauksristuð þorskhrogn
500 Hörpuskelfiskur með tómat og hvítlauk
500 Bakaðir ferskir sveppir
660 Grænmetisréttur hússins
770 Pönnusteikt smálúða
880 Heilsteiktur sólkoli
770 Hvítlaukssniglar
920 Skötuselur með humri, yrju og madeira
1500 Glóðaðir humarhalar
900 Glóðuð heilagfiskisneið
820 Smjörsteiktur skarkoli
350 Terta hússins
300 Rjómaís með ferskum jarðarberjum
350 Ferskt ávaxtasalat
1500 Máltíð: Grafinn silungur, eldsteikt tindabikkja, fersk jarðarber

DV

Úlfar og Ljón

Veitingar

Ekki lengur þrengsli

Eftir millilendingu á hamborgarabúlunni Sprengisandi er Úlfar Eysteinsson af Pottinum og pönnunni aftur kominn í sitt rétta umhverfi í Úlfari og Ljóni við Grensásveginn. Þar hefur hans gamli veitingastaður gengið í endurnýjun lífdaganna, með meira svigrúmi en áður var.

Gallinn við fyrirmyndarstaðinn Pottinn og pönnuna fólst í þrengslunum þar. Úlfar og Ljón hafa flesta kosti hans, en hins vegar ekki þennan galla. Hátt er til lofts og vítt til útveggja í nýja, 60-70 sæta staðnum. Borðin standa dreift og yfirleitt með góðu bili á milli. Eldhúsið er opið inn í sal, eykur víðáttutilfinninguna og gerir raunar staðinn nánast berangurslegan. Að útliti eru Úlfar og Ljón afar hlutlausir og hversdagslegir í samanburði við þaulhugsuðu og vönduðu innréttingarnar í Pottinum og pönnunni.

Þetta er fjölskyldustaður, staður hjóna og barna, þótt einkum sé boðið upp á fiskrétti, en slíkir höfða venjulega ekki til barna. Vinsældirnar stafa af verðlaginu, sem er lítið hærra en í matstöðum með mötuneytisfyrirkomulagi, þar sem raðir af fólki bíða eftir, að ausið sé úr stálhólfum upp á diska. Hér er full þjónusta, utan þess að gestir borga við útganginn. Samkvæmt vinsælli reikningsaðferð minni borgar fólk á þessum stað 20% fyrir þetta ofan á Múlakaffisverð.

Brosandi þjónusta

Menn borga hins vegar ekkert aukalega fyrir gæði þjónustunnar, sem er alveg sérstök, betri en á mörgum fínu stöðunum, þar sem fólk hefur taudúka og tauþurrkur og drekkur vín með mat. Hér brosið starfsliðið hreinlega við gestum eins og gömlum vinum. Mér finnst þetta leiða til þægilegs andrúmslofts og hef tekið eftir, að mörgum öðrum finnst það líka. Og starfsliðið brosir ekki bara, heldur lætur einnig í té skjóta og örugga þjónustu.

Úlfar er yfirleitt á vettvangi, oftast sjálfur við pottana. Stundum er hann þó á bílaralli uppi í sveit. Ég kom nýlega í Úlfarslausu sunnudagshádegi og fannst matreiðslan vera ívið slakari en venjulega. Maturinn var meira eldaður og meira kryddaður en venjulega, hvort tveggja til nokkurs baga.

Þurrkuð loðna á salatborði

Sérgreinar Úlfars og staðar hans eru hinar sömu og í gamla daga, annars vegar fiskréttir og hins vegar salatborð, sem ég held, að sé hið bezta í bænum. Þar eru ótal skálar af fersku og girnilegu grænmeti, sem búa meðal annars yfir fallegum sveppum og hreðkum. Í einni skálinni hefur að undanförnu verið þurrkuð loðna, nytsamleg fæða að mati Japana.

Ekki þarf að hafa áhyggjur af gömlum lummum á fastaseðli, því að hann er enginn. Aðeins er boðið upp á breytilegan seðil dagsins með um það bil tólf réttum. Í verði þeirra er innifalin súpa dagsins með nokkrum tegundum brauðs og aðgangur að hinu viðamikla salatborði. Eftirréttur er alls enginn í boði. Af réttunum tólf eru yfirleitt um tíu fiskréttir og svo tveir kjötréttir handa hinum óforbetranlegu.

Margir réttanna eru óbreyttir á seðlinum dögum og vikum saman, svo sem gratineraður plokkfiskur með rúgbrauði og blandað sjávarréttagratín. Ég saknaði hins vegar hvítlaukskryddaðs saltfisks að portúgölskum hætti, sem var á matseðlinum um daginn, en hvarf síðan. Ég þarf að bíða tækifæris og stökkva á hann, næst þegar hann birtist á seðlinum.

Úlfar prófar stundum nýjungar. Í rúmt ár hefur hann oft boðið smálúðubita í súrsætri sósu að kínverskum hætti. Þetta er góður réttur, enda er sósan skarpari og síður sæt en slíkum sósum hættir til að vera á vestrænum Kínastöðum. Fyrir bragðið er maturinn frískari en ella.

Rauðmagi á súrkáli

Um svipað leyti var á seðlinum ein nýjasta uppfinning Úlfars, pönnusteikt rauðmagaflök, sem lágu á súrkáli, borin fram með piparsósu. Súrkálið hæfði vel rauðmaganum, sem var óvenjulega bragðmildur. Með þessu fylgdu kartöflur og gulrætur, hvort tveggja soðið hæfilega skamma stund.

Nýlega prófaði ég einnig kunnuglegri rétti, pönnusteikt karfaflök með tómati og bræddum osti, eggjahúðuð og pönnusteikt Svínavatns-silungsflök St. Germain og steinbítspiparsteik með piparsósu. Allt voru þetta góðir réttir, yfirleitt heldur meira eldaðir en nauðsynlegt er, sérstaklega þegar Úlfar var fjarri.

Súpur dagsins hafa verið tær seyði, en ekki hinar hvimleiðu hveitisúpur, sem of víða sjást í veitingahúsum hér á landi. Sósur bera hins vegar oft vitni um hveiti. Kaffið eftir matinn er gott, kostaði aðeins tíu krónur, borið fram með piparmintukúlum.

570 krónur á mann

Súpa, aðalréttur, grænmeti og kaffi kostar að meðaltali 570 krónur, ef fiskur er valinn, og 700 krónur, ef það er kjöt. Í þessum tölum felst óhóflega verðbólga, um 45% frá sama tíma í fyrra. Samanburður verðs og gæða í þjónustu og matreiðslu setur samt Úlfar og Ljón enn sem fyrr í úrvalsflokk íslenzkra veitingahúsa.

Úlfar og Ljón eru almenningi menningarauki, sem ekki er þungur á fóðrum. Gagnstætt nöfnum sínum úti í náttúrunni bíta þeir ekki fólk, – og alls ekki fjárhagslega.

Jónas Kristjánsson

Matseðill dagsins:
Kjötseyði
480 Gratineraður plokkfiskur með rúgbrauði
560 Blandað sjávarréttagratín
570 Pönnusteikt heilagfiski með rækjum, ofnbakað
560 Heilsteikt rauðsprettuflök hússins
550 Pönnusteikt karfaflök með tómati og bræddum osti
570 Smálúðubitar í súrsætri sósu
530 Pönnusteikt rauðmagaflök á súrkáli og grænpiparsósu
550 Gratineraðar gellur
550 Steinbítspiparsteik með piparsósu
590 Pönnusteikt Svínavatns-silungsflök St. Germain
590 Hvalkjöts-piparsteik með piparsósu
790 Nauta-mínútusteik með steiktum sveppum
290 Salat og súpa

DV

Rauðvín

Veitingar

Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins virðist hafa takmarkalitla óbeit á þeim, sem hafa ekki áhuga á hinu gríðarlega úrvali ótal tegunda brennivíns, sem þar er á boðstólum, og vilja heldur beina kaupum sínum að einhverju hinna sárafáu drykkjarhæfu léttvína. Af vodka einu eru til 19 tegundir í Ríkinu, flestar hver annarri líkar, en af samanlögðum 149 léttvínum þess eru aðeins 23 drykkjarhæf.

Fyrir réttri viku sýndi ég dæmi um, hvernig Ríkið ræðst aftan að kaupendum hvítvína með því að skipta í laumi á betri vínum og lakari, hætta innflutningi hinna betri og koma með lakari vín í þeirra stað, undir sama númeri og heiti í verðskrá og á sama verði.

Í þetta sinn ætla ég að sýna dæmi um annars konar aðferð. Hún er notuð gegn kaupendum rauðvíns. Hún felst í, að hækkað er hlutfallslega meira verð á þeim vínum, sem fá góð meðmæli, en hækkað hlutfallslega minna verðið á hinum, sem ekki eru drykkjarhæf. Þessar verðbreytingar eru óháðar breytingum á innflutningsverði. Þannig er neytendum góðra vína þrýst yfir í neyzlu vondra vína og helzt einhvers brennivíns, sem gefur ríkinu góðan arð.

50% í stað 15%

Á hálfu ári hafa léttvín hækkað um 15-20% í verði, heldur meira en brennivín. Nokkur rauðvín hafa þó verið tekin úr hópnum og hækkuð meira. Það eru yfirleitt vín, sem bent hefur verið á, að væru betri en önnur. Þar á meðal eru fimm af hinum níu rauðvínum Ríkisins, sem ég mælti með fyrir hálfu ári.

Chateau Cantenac-Brown, Riserva Ducale og Trakia hafa ekki verið hækkuð í verði um 15-20%, heldur 25%. Chateau Fontareche hefur verið hækkað um 30%, en það kann að stafa af, að það sé örlitlu dýrara í innkaupi en Chateau de Saint Laurent, sem það leysti af hólmi. Stórkarlalegust hefur orðið hækkunin á Chateau Barthez de Luze, heil 50%.

Chateau Cantenac-Brown er enn eina rauðvínið í Ríkinu, sem kemst yfir mörk þess að geta kallazt eðalvín. Árgangurinn var 1981 í fyrrasumar, en er nú orðinn 1982. Gæðamunurinn er enginn og einkunnin, sem nýi árgangurinn fékk í blindri prófun, er hin sama, 7,5.

Hvort tveggja árið er raunar allt of ungt fyrir vín af þessu tagi. Ég hef til samanburðar heimageymda flösku frá 1975 af þessu víni, sem prófað var á jólunum. Flaskan hafði að geyma mun göfugra vín, enda var það orðið tíu ára gamalt. Einkunn þess var 8,5, að vísu ekki í blindri prófun.

Kaupendum léttra vína skal bent á, að tiltölulega sjaldgæft er, að þau batni á þennan hátt með aldrinum. Eingöngu hin sárafáu eðalvín gera það og þá yfirleitt aðeins um takmarkaðan tíma. Almenna reglan er, að bezt sé að drekka létt vín sem yngst. Vínið, sem hér um ræðir, er eitt hinna fáu. Það batnar raunar örlítið við að fá að standa í tvær stundir í opinni flösku eða í klukkustund í karöflu.

Chateau Cantenac-Brown kostar nú 780 krónur flaskan. Það er hátt verð, um það bil tvöfalt hærra en í útlöndum. Það er samt ekki dýrasta rauðvínið í Ríkinu, því að þar fást Chateau Talbot á 1160 krónur og Volnay frá Hospices de Beaune á 1330 krónur.

Skemmst er frá því að segja, að Chateau Talbot, sem var af árgangi 1975 og ætti að vera mjög gott eðalvín, fékk aðeins 6 í einkunn í blindri prófun, þar sem Chateau Cantenac-Brown fékk þó 7,5. Enn verri varð útreið Volnay (Hospices de Beaune), árgangs 1978, sem einnig ætti að vera mjög góður. Einkunnin varð ekki nema 3!

Skýringin er sennilega, að vín þessi hafi skemmzt í frosti á leiðinni til landsins og síðan versnað í langri og miskaldri geymslu hér á landi. Kaupmaður, sem kann ekki að láta flytja vín eða að geyma vín, getur auðvitað ekki boðið upp á frambærileg eðalvín. Hann getur raunar ekki boðið létt vín yfirleitt, svo sem raun ber vitni í Ríkinu. Þar gengur allt út á ýmiss konar brennivín, sem þolir nánast hvað sem er. Og léttu vínin eru meðhöndluð eins og brennivín.

Sambandsleysi verðs og gæða

Eins og áður eru Saint-Emilion frá Luze á 370 krónur og Chateau Barthez de Luze á 490 krónur áfram í öðru sæti með 7 í einkunn. Þau og raunar öll önnur vín, sem hingað til hafa verið nefnd, eru frönsk, svo sem við er að búast. Í þessum sjö stiga flokki hefur svo fjölgað um tvö vín úr öðrum áttum.

Annað er spánska Rioja-vínið Marqués de Riscal, sem nú er af árgangi 1981, er virðist heldur betri en árgangurinn 1980, sem var til í sumar. Verðið er 310 krónur. Hitt vínið er nýliði á gæðalistanum, hinn eini fulltrúi Kaliforníu. Það er Cabernet Sauvignon 1982 frá Paul Masson, vín úr Sonoma-dal, þungt og rauðbrúnt, ilmríkt og bragðfullt.

Lesendum til glöggvunar er rétt að taka fram, að þetta Cabernet er frá Paul Masson, en ekki frá Almadén þeim, sem Ríkið uppnefnir í verðskrá sem Almon. Ennfremur er áðurnefnd Saint-Emilion frá Luze, en ekki frá Bichot. Það er engan veginn sama, hver framleiðandinn er.

Í báðum tilvikum eru betri vínin ódýrari. Cabernet Sauvignon að okkar vali kostar 330 krónur, en hitt 370 krónur. Saint-Emilion að okkar vali kostar 370 krónur, en hitt 400 krónur. Sem betur fer ekki alltaf beint samhengi milli verðs og gæða, stundum alls ekki neitt.

Nokkur rauðvín fengu 6,5 í blindri prófun í vetur. Tvö eru hin sömu og í fyrrasumar, hið spánska Siglo frá Rioja á 350 krónur og hið ítalska Toskaníuvín Riserva Ducale, sem er Chianti Classico, á 390 krónur. Í þessum hópi eru nú þrjú önnur vín, Granado frá Portúgal, Trakia frá Búlgaríu og Chinon frá Frakklandi.

Trakia hefur löngum verið uppáhald, eitt ódýrasta rauðvín Ríkisins og hefur samt jafnan náð 6 í einkunn. Nú virðist vera á boðstólum betri sending en áður, því að Trakia fékk í vetur 6,5 í endurtekinni prófun. Verðið er afar hagstætt, þrátt fyrir hefndaraðgerðir Ríkisins, 240 krónur flaskan. Það eru beztu léttvínskaup í Ríkinu um þessar mundir.

Gallinn við þessa sendingu af Trakia er, að vandasamt er að ná tappanum úr. Hann hefur tilhneigingu til að þrýstast niður í flöskuna. Það er raunar dæmigert fyrir austantjaldið. Þegar þar hefur tekizt að framleiða hið bærilegasta vín, geta menn ekki klárað dæmið með því að loka flöskunni með almennilegum tappa.

Um Granado frá Portúgal er fátt að segja. Það er frá vínhéraðinu Dao og kostar 850 krónur í tveggja lítra flösku. Það svarar til 320 króna á venjulega 75 sentilítra flösku, sem er einmitt verðið á slíkri flösku af Granado. Síðari útgáfan var uppseld, þegar prófað var. Þetta er hið þægilegasta vín og ilmar vel.

Chinon 1984 er nýlega komið á skrá Ríkisins og kostar þar 400 krónur. Það kemur frá miðjum Loire-dal og er eini fulltrúi rauðvíns frá þeim kunnu vínslóðum – alveg eins og hið nýlega Chateau du Cléray er eini fulltrúi hvítvíns frá þessum dal. Chinon er milt og ljóst vín, ræktað í hlíðum þverárinnar Vienne.

Í sex stiga flokknum eru ítalska Toskaníuvínið Santa Christina, sem er Chianti Classico, árgangur 1983, verð 300 krónur, og hið suðurfranska Chateau Fontareche, sem er Corbieres-vín, árgangur 1984, verð einnig 300 krónur, verðugur arftaki Chateau du Saint Laurent. Þetta eru hin dæmigerðu vín hússins, frambærileg hversdagsvín, heilbrigð og vel gerð, en án skemmtilegra sérkenna.

Til viðbótar er hér svo mælt með einu rauðvíni áfengislausu, Rotlack. Það er þolanlegt til drykkjar. Fróðlegt er, að Ríkið hefur ekki á boðstólum áfengislaus rauðvín og hvítvín, þótt þau séu í vaxandi tízku.

Tólf nothæf – 54 ónothæf

Einkunnin 6 í töflunni, sem fylgir, táknar í raun, að vínið sé sæmilega drykkjarhæft, 6,5 táknar fremur gott húsvín, 7 táknar mjög gott vín hússins, nálægt mörkum eðalvína, og 7,5 táknar vín, sem er í lægsta flokki eðalvína. Af 66 rauðvínum Ríkisins reiknast aðeins tólf í tölu þessara drykkjarhæfu vína og einungis eitt í tölu eðalvína. Aðeins eitt þessara vína, Santa Christina, er til á hálfflöskum fyrir hófsama.

Enginn, alls enginn vínkaupmaður í heiminum er eins ömurlegur og þessi, ekki einu sinni á Norðurlöndum. Því er rík ástæða til að búast við batnandi tíð með nýjum forstjóra Ríkisins eftir 1. marz.

Jónas Kristjánsson

Beztu rauðvínin
Stig Verð Nafn
7,5
780 Chateau Cantenac-Brown 1982
7
310 Marqués de Riscal 1981
330 Cabernet Sauvignon 1982 (Paul Masson)
370 Saint-Emilion 1982 (Luze)
490 Chateau Barthez de Luze 1982
6,5
240 Trakia
320 Granado
350 Siglo 1982
390 Riserva Ducale
400 Chinon 1984
6
300 Chateau Fontareche 1984
300 Santa Christina 1983
5,5
165 Rotlack (áfengislaust)

DV

Hvítvín

Veitingar

Eftir nokkrar vikur tekur nýr forstjóri við Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins. Þau skipti eru tilhlökkunarefni, því að núna er úrval léttra vína í Ríkinu sumpart tilviljanakennt, sumpart ömurlegt og sumpart beinlínis grunsamlegt. Ástandið er slíkt, að breytingar geta eingöngu orðið til bóta.

Fyrir hálfu ári birti ég hér í blaðinu nokkrar greinar um létt vín, bæði hvít og rauð. Í lokagreininni birtist listi yfir nokkur vín, sem ég taldi vera drykkjarhæf af þeim, sem þá voru fáanleg. Því miður varð birtingin til þess, að vínin seldust mörg hver upp. Sum hafa ekki sézt síðan.

Að sumu leyti getur þetta stafað af, að innkaup Ríkisins eru afar föst ís skorðum og taka lítið tillit til breytinga á markaði. Tölva fyrirtækisins virðist halda áfram að kaupa sömu vín í svipuðu magni, þótt neyzluvenjur breytist. Einnig bjóða tvö dæmi mér í grun, að reynt sé að lauma inn lakari vínum undir yfirvarpi annarra, sem hafa fengið góðar viðtökur.

“Hang” fyrir “Berg”

Bezta hvítvínið var þá Senheimer RosenBERG Kabinett 1983, fékk 7,5 í einkunn. Það seldist upp nokkrum dögum eftir birtingu greinarinnar og hefur síðan ekki fengizt. Snemma í vetur kom svo til sögunnar hvítvínið Senheimer RosenHANG Kabinett 1983 selt undir númeri og nafni gamla vínsins og á verði þess.

Rosenberg og Rosenhang er alls ekki sami hluturinn. Fyrra nafnið táknar einn allra bezta vínakur hreppsins eða þorpsins Senheim í Móseldal, en síðara nafnið er samheiti lélegustu vínakra þessa hrepps. Að selja Rosenhang undir nafninu Rosenberg eru hrein vörusvik, fölsun staðreynda.

Í blindri prófun fékk nýkomna vínið 6 í einkunn. Það er að vísu tiltölulega frambærilegt við hinar sérkennilega lélegu aðstæður í einokuninni hér á landi, en samt mikil breyting til hins verra frá einkunninni 7,5, sem fyrra vínið fékk, einnig í blindri prófun.

Til bóta er, að annað vín frá Móseldal, Graacher Himmelreich Spätlese 1982 hefur í vetur bragðazt betur en sending af árganginum 1983, sem var á boðstólum í fyrrasumar. Þá fékk árgangurinn 1983 ekki nema 5,5 í einkunn í blindri prófun, en í síðara skiptið hlaut árgangurinn 7,5 í einkunn eða hæst allra hvítvína í Ríkinu.

Ekki geta þetta þó talizt jöfn skipti, því að þetta vín kostar 410 krónur á flöskuna, en hitt, sem áður var Rosenberg og nú er Rosenhang, kostar 270 krónur. Hin sérdeilis góðu kaup, sem áður voru í Rosenberg, eru ekki núna í Himmelreich.

Af sanngirnisástæðum verður þó að taka fram, að í Graacher Himmelreich eru góð kaup í samanburði við annað hvítvínsframboð Ríkisins. Þar eru til mörg dýrari hvítvín.

Hættan er svo sú, að nú seljist vínið upp, þegar þetta birtist. Þá verður fyrst langt hlé. Síðan kemur hugsanlega vetrarsending af þessu viðkvæma víni, sem engan veginn þolir, að hitastig umhverfisins fari niður fyrir frostmark. En það er einmitt eitt einkenna Ríkisins að láta eyðileggja létt vín í vetrarflutningum milli landa.

Annað slys eða önnur vörusvik hafa orðið í framboði Ríkisins. Í stað Wormser Liebfrauenstift Spätlese 1983 frá Rínardal er nú komið Wormser Liebfrauenstift QbA 1984. Þetta er sitt hvor varan, því að Spätlese er sérstök útgáfa af náttúrulegu víni, en QbA er sykurblandað vín, eins konar brugg, sem framleitt er í erfiðum vínárum í Þýzkalandi.

Í blindri prófun í fyrrasumar fékk fyrrnefnda vínið 7 í einkunn. Í hliðstæðri prófun í vetur fékk hið síðarnefnda 6,5, sem er út af fyrir sig sæmilegt, en þó lægri tala. Í stað víns, sem var nálægt mörkum þess að vera eðalvín, er nú komið fremur hversdagslegt vín.

Sítrónuvín með fiski

Fleira hefur gerzt í framboði Ríkisins á hvítvínum. Komið er til sögunnar franskt vín frá ósum Loire. Það er af tegundinni Muscadet de Sevre et Maine og heitir Chateau du Cléray 1984. Þetta er virtur búgarður með sögufrægu herrasetri og er á vínsvæði, sem er afar fjölbreytt og hefur hingað til skort fulltrúa í Ríkinu.

Muscadet er hressandi sjávarréttavín, allt að því skarpt, oftast framleitt “sur lie”, sem þýðir, að því er rennt án síu úr tunnu á flösku í marz eða apríl eftir uppskeru. Vínið, sem hingað er komið, er þessarar tegundar. Aðferðin bindur koltvísýring í víninu og gefur því frísklegt og jafnvel sítrónulegt bragð.

Chateau du Cléray er ekta sítrónuvín af þessu tagi og fékk 6,5 í einkunn í blindri prófun í vetur. Það er frambærileg einkunn og kemur víninu í hóp nokkurra hvítvína, sem deila þriðja sætinu í töflunni, sem fylgir þessari grein. Til gamans má geta þess, að þetta er sama einkunnin, sem þetta vín fékk í prófun franska tímaritsins Gault-Millau í október í vetur. Þar lenti það í fjórða sæti þeirra Muscadet-vína, sem prófuð voru.

Hins vegar er sá galli á gjöf Njarðar, að vínið kostar í Ríkinu heilar 450 krónur á flöskuna, sem er hlutfallslega dýrt. Í Frakklandi kostar það hins vegar um 100 krónur í vínbúðum.

Að öðru leyti en því, sem segir frá hér að framan, er ástandið svipað á toppi hvítvína í Ríkinu. Gewürztraminer frá Alsace, 330 krónur, fékk aftur 7 í einkunn og heldur öðru sæti. Sveitungur þess frá Alsace, Riesling Hugel 1984, 350 krónur, hefur bætzt í hóp þeirra vína, sem fengu 6,5 í einkunn. Þar var fyrir og er enn Kremser Edelfräulein 1983 frá Austurríki, 290 krónur, örugglega laust við frostlög.

Með 6 í einkunn eru nú eins og í fyrra 230 króna Ellerer Engelströpfchen QbA, sem þá var frá 1982 og nú frá 1984, 290 króna Kallstadter Kobnert QbA 1983 og 320 króna Bernkasteler Schlossberg QbA, sem nýlega var enn frá 1982. Niður í þennan lágmarksflokk hafa fallið Senheimer Rosenhang, sem fyrr var sagt frá, og Hochheimer Daubhaus, sem enn er af árgangi 1982, en hefur komið í lakari sendingu. Bæði þessi vín kosta 270 krónur.

Fleiri hvítvín hafa bætzt í hópinn hjá Ríkinu, öll lítils eða einskis virði. Þau eru öll frönsk. Monsieur de Luze, sem fékk 4,5 í einkunn, Lion d’Or, sem fékk 5, Bordeaux-vínið Maitre d’Estournel 1983, sem einnig náði 5 og loks hið hræðilega Domaine de la Renard frá héraðinu Ruilly með 3 í einkunn. Flest eru þau vín án árgangs og sum án öruggs uppruna.

Í þessum blindu prófunum staðfestist í framhjáhlaupi enn einu sinni, að Pouilly-Fuisse stendur ekki undir 780 króna verði á flösku. Vínið með þessu kunna nafni fékk að þessu sinni aðeins 4 í einkunn.

11 nothæf – 60 ónothæf

Með þessari grein birtist ný skrá yfir beztu hvítvín Ríkisins, að viðbættu einu áfengislausu hvítvíni, sem er nánast frambærilegt. Einkunnin 7,5 táknar, að vínið sé í lægsta flokki eðalvína. Einkunnin 7 táknar, að vínið mundi sóma sér sem mjög gott vín hússins. Einkunnin 6,5 táknar, að það mundi geta talizt frekar gott húsvín. Einkunnin 6 táknar svo, að það sé sæmilega drykkjarhæft.

Aðeins eitt þeirra hefur þann kost að vera til á hálfflöskum og hentar því vel fólki, sem vill fá sér örlítið bragð af hvítvíni með forrrétti úr ríki sjávarins, þótt það stefni að raðvíni með kjötrétti á eftir. Það er Riesling Hugel á 200 krónur hálfflaskan. Raunar er hart, að einungis skuli vera til eitt drykkjarhæft hvítvín í hálfum flöskum hér á landi.

Í heilum flöskum teljast ellefu hvítvín Ríkisins vera í slíkum flokki, – vera sæmileg drykkjarhæf eða skárri. Hin, sem ekki einu sinni ná því að vera sæmilega drykkjarhæf og eru sum hver meira eða minna óhæf til drykkjar, eru hvorki fleiri né færri en 60 talsins.

Þess vegna er full ástæða til að binda vonir við nýjan forstjóra.

Jónas Kristjánsson

Beztu hvítvínin
Stig Verð Nafn
7,5
410 Graacher Himmelreich Spätlese 1982
7
330 Gewürztraminer
6,5 290 Kremser Edelfräulein 19183
350 Riesling Hugel 1984
350 Wormser Liebfrauenstift QbA 1984
450 Chateau du Cléray 1984
6
230 Ellerer Engelströpfchen QbA 1984
270 Hochheimer Daubhaus Kabinett 1983
270 Senheimer Rosenhang Kabinett 1983
290 Kallstadter Kobnert QbA 1983
320 Bernkasteler Schlossberg QbA 1982
5,5
165 Weisslack (áfengislaust)

DV

Monte Christo

Veitingar

Bixinu við göngukafla Laugavegs hefur farið fram, síðan það varð að Greifanum frá Monte Christo. Samt hefur verðlagið haldizt óbreytt, enda var það of hátt fyrir. Bezti kostur staðarins er, að þangað er hægt að skjótast í súpu með brauði og salatborð með eftirréttum fyrir 290 krónur, ekki aðeins í hádeginu, heldur einnig á kvöldin.

Útlit staðarins hefur lítið breytzt. Hann er orðinn notalegri, án þess að ég geti fest hendur á orsökunum. Andrúmsloftið er fremur suðrænt. Veggir eru ljósir og þar hanga eldhúsáhöld, aðallega koparpönnur, svo og körfur, þurrkaðar jurtir og hvítlaukur. Myndir af viðskiptavinum veitingahúsa eru blásnar í gler meðfram inngangi og í glugganum út að götu.

Viðskipti í síma

Fremur rúmt er um gesti í 44 gylltum stálstólum með tágasetum við bleikdúkuð borð, þar sem logar á kertum og munnþurrkur eru úr pappír. Í lofti eru vængjaviftur og á gólfi teppi. Innst er snyrtilegur bar eða skenkur og þar til hliðar setukrókur. Á miðju gólfi er svo salatborðið. Að tjaldabaki er niðursoðin tónlist, fremur hávær.

Yfir borðum hanga tágakrónur, nema fornfáleg ljósakróna yfir setukróknum. Þar sátu gjarna vinir hússins og stunduðu viðskipti gegnum síma. Ekki fer eins illa á því í Greifanum og í Sombrero, því að þar gerðist það í miðjum sal, en hér úti í horni.

Þetta er frekar afslappaður eða slakaður staður. Gestum finnst jafnvel, að þeir fengju að sitja í setukróknum og stunda viðskipti í síma, ef þar væri rúm fyrir fleiri. Þjónusta er ágæt, færir gestum stundum óumbeðið ísvatn á borð og man stundum, hver pantaði hvað. Og fumlaus er hún sem skóluð væri.

Greifinn er einn þeirra staða, sem fer illa að vera tómur og vel að vera fullur af gestum. Mannmergð samsvarar suðrænu útliti staðarins. Þá vantar eiginlega ekkert nema Miðjarðarhafseldhús til að fá dæmið til að ganga upp. En því er ekki til að dreifa. Eldamennskan er afar lítið spennandi.

Gersamlega hugmyndasnauður

Fastaseðillinn er gersamlega hugmyndasnauður, hinn dæmigerði matseðill íslenzkra veitingahúsa. Hann skiptist að jöfnu milli fisk- og kjötrétta. Auk forrétta, aðalrétta og eftirrétta er boðið upp á ýmsa smárétti og barnarétti. Ennfremur tvenns konar fondue, bæði kjöts og osta. Skemmtilegasti titillinn á seðlinum er “Steik Gordon Blue”, sem líklega á að tákna Cordon Bleu nautasteik.

Vínlistinn sýnir örlítið meiri tilþrif en almennt gerist, býður í rauðvínum upp á Chateau Cantenac-Brown og Santa Christina og í hvítvínum Riesling Hugel, Bernkasteler Schlossberg og Hochheimer Daubhaus. Þótt við bætist Tio Pepe er þetta samt lítið í samanburði við það, sem hægt væri að hafa, svo sem ég hef rakið á öðrum stað.

Í hádeginu var boðið upp á tvo rétti dagsins, að súpu og salatborði inniföldu. Súpan var rjómalöguð rósakálsúpa sæmileg. Pönnusteikt rauðspretta var ágæt, mildilega elduð, borin fram með óþörfum dósakræklingi, hvítum kartöflum og smjöri, sem blessunarlega var haft í sérstakri skál til hliðar.

Á salatborðinu voru tvenns konar flautur, heilhveiti- og ostabrauð. Ennfremur fimmtán skálar með tvenns konar sósu, þreytulegum sveppum, möskuðum eggjum, tómati, gúrku og sýrðri gúrku, papriku, maís, blaðlauk og kotasælu, svo og blönduðu hrásalati. Ennfremur voru þar appelsínubátar, melónubitar og vínber, sem kjörið var að nota til eftirréttar.

Þetta salatborð er svo sem ekki fallegra eða betra en gengur og gerist á stöðum, sem bjóða slíkt, og er alls ekki í fremsta flokki. Eigi að síður er það alfa og ómega staðarins. Ekki má heldur gleyma, að það er hið eina slíka í gamla miðbænum. Ég man að minnsta kosti ekki eftir öðru.

Rækjukokkteill var góður, borinn fram með mildri hvítvínssósu, sítrónu og ristuðu brauði með smjöri í álpappír. Eggjakaka með sveppum var fremur þurr. Humarsúpa var vel rjómuð og með miklu af þeyttum rjóma ofan á, en humarbitarnir voru of þurrir.

Staðlað meðlæti

Kræklingur var borinn fram heitur undir gífurlegu magni af sósu með skán og með ristuðu brauði brenndu. Meðlætið var hinn sami garnitúr, sem fylgdi öllum forréttum og aðalréttum staðarins, tómatsneið, tvær gúrkusneiðar, sítrónusneið og salatblað. Kræklingurinn er betri upp úr dósinni en gratineraður á þennan hátt.

Pönnusteiktur skötuselur var ágætur, vel kryddaður, borinn fram með rækjublönduðum hrísgrjónum og mjög sterkri karrísósu. Gufusoðin smálúða var stórum lakari, afar þurr, borin fram upprúlluð í fylgd með hvítvínssósu og kartöflum. Hún var prófuð tvisvar og reyndist ofelduð í bæði skiptin.

Lambasteik Monte Christo var næstum hæfilega snöggt elduð og sæmilega meyr. Henni fylgdu miðlungi soðnar gulrætur og rósakál, svo og bökuð kartafla og frambærileg béarnaise-sósa. Enn betri var piparsteik, hæfilega hrásteikt, en henni var spillt með afar sterkri og ekki góðri piparsósu og gassalega elduðu brokkáli og sveppum.

Kaffi var sæmilegt, þótt í þynnra lagi væri, borið fram með áfengu konfekti og innifalið í verðinu.

Súpa, salat og eftirréttur kosta 290 krónur, sem fyrr segir. Miðjuverð rétta dagsins í hádeginu er 390 krónur, að súpu, salati og eftirrétti inniföldu. Á fastaseðli er miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi og hálfri flösku af víni á mann 1258 krónur. Það er dæmigert meðalverð íslenzkra veitingahúsa.

Jónas Kristjánsson

Hádegismatseðill:
Rjómalöguð rósakálsúpa
425 Nautasmásteik með rauðvínssósu
355 Pönnusteikt rauðspretta með kræklingi
(Súpa og salatbar fylgir)
290 Súpa og salatbar

Fastaseðill:
190 Rjómalöguð humarsúpa
275 Rækjukokkteill með hvítvínssósu og ristuðu brauði
160 Frönsk lauksúpa
250 Gratineraðir kræklingar í hvítvínssósu
320 Hvítlauksristaðir sniglar með hvítlauksbrauði
395 Pönnusteikt ýsa með rækjum og kræklingi
410 Gufusoðin smálúða með hvítvínssósu
465 Pönnusteiktur skötuselur með hrísgrjónum og karrísósu
495 Gratineraðir sjávarréttir með ristuðu brauði
410 Síldarbakki með rúgbrauði og hvítum kartöflum
890 Hvítlauksristaður humar
685 Pönnusteiktar grísakótilettur með gráðostsósu
595 Steik Gordon Blue með smjörsteiktum kartöflum
620 Lambasteik Monte Christo með béarnaise-sósu
690 Enskt buff með lauk og hvítum kartöflum
790 Piparsteik að hætti greifans með bakaðri kartöflu
210 Súkkulaðihjúpaður ananas með rjóma
180 Vanilluís með rjóma, súkkulaðisósu og ískexi
250 Blandaðir ávextir með Grand Marnier og rjóma
295 Djúpsteiktur camembert með rifsberjasósu
275 Kavíar með lauk og eggjarauðu
720 Buff tartar með eggjarauðu, lauk og kapers
320 Djúpsteiktar rækjur með ristuðu brauði
290 Eggjakaka með rækjum og spergli eða skinku og sveppum
950 Kjötfondue (minnst fyrir tvo)
550 Ostafondue
200 Hamborgari eða samloka eða grillaðar pylsur með frönskum

DV

Hansen

Veitingar

Hansen í Hafnarfirði er notalegur veitingastaður, sem hefur veið innréttaður í gömlu húsi við Vesturgötuna. Ég reikna ekki með, að útlitið að innanverðu sé upprunalegt. Burðarviðirnir eru málaðir dökkbrúnir og reitirnir á milli þeirra hafðir hvítir. Þetta er raunar algengur nýstíll í erlendum veitingahúsum, sem innréttuð hafa verið í gömlum bindingshúsum.

Ég hef áður hrósað húsaþyrpingunni, sem Hansen er hluti af. Ég gerði þá þau mistök að telja hitt veitingahúsið, sem er andspænis Hansen, Riddarann, vera í gömlu húsi. Það mun vera nýtt hús, en hannað í samræmi við útlit gömlu húsanna umhverfis torgið. En Hansen er hins vegar forgamalt hús með notalega þreytulegum og grófum innviðum.

Hansen er fremur stór staður, rúmar um 70 manns á neðri hæð og 44 undir súð. Stíllinn er hinn sami uppi og niðri, en þó heldur grófari uppi, því að þar eru dökkbrúnu burðarbitarnir meira áberandi. Þar er bar með setukrók, lítill veitingasalur og sérherbergi.

Betra er að sitja í stóra salnum niðri. Hann er í L umhverfis stóran bar, sem er hið eina, er fer aðeins út úr stílnum. Þar eru ekki gul ljós eins og í salnum, heldur hvít. Og þar eru viðir ekki grófir, heldur sléttir. Samanlagt veldur þetta því, að barinn sker nokkuð í augun.

Úr ljósu lofti hanga fimmarma ljósakrónur í gömlum stíl. Veggljósin eru í samræmi við þau. Annars ætti ég ekki að hætta mér út á hálan ís í umfjöllun um ljós, úr því að ég var staðinn að því fyrir viku að halda, að svokölluð Henningsen-ljós í Riddaranum væru úr plasti, en ekki úr málmi, sem þau eru víst í raun.

Hafnarfjarðar-ljósmyndir

Í hvítum veggreitum hanga gamlar Hafnarfjarðarljósmyndir. Pottablóm eru í gluggum með sex litlum rúðum. Tréborðin bera platta í hádeginu og dúka að kvöldi. Við þau eru pílárastólar, brúnir eins og borðin og falla vel að innréttingunni. Á gólfi er parkett, ekki of ljóst.

Rauðbekkjóttar sessur í stólum og veggbekkjum loka hjúsbúnaðardæminu, sem í heild er líklegt til að efla vellíðan gesta. Borðbúnaðurinn er stílhreinn og samstæður. Á kvöldin eru blóm á borðum. Staðurinn virðist mun betur sóttur en nágranninn, þótt hér sé dýrara að vera.

Þjónusta reyndist vera mjög góð í Hansen. Til marks um það er, að starfsfólkið vissi, hver hafði pantað hvað. Slíku er því miður ekki til að dreifa á sumum dýrustu stöðunum. Ennfremur var gestum borið vatn í upphafi og óumbeðið, að vísu ekki ísvatn. Að kvöldi fengu gestir munnþurrkur úr taui.

Matseðillinn í Hansen er afar ófrumlegur og raunar alveg hliðstæður matseðli nágrannans. Báðir þessir matseðlar eru sorglegt dæmi um, að í nýjustu kynslóð veitingamanna er yfirleitt lítill metnaður í matargerð, mun minni metnaður en lagður er í útlit og umbúnað.

Svo afturhaldssamur er matseðill Hansens, að þar er á einum stað boðið upp á skinku með hörpuskelfiski og á öðrum stað er boðið upp á beikon með steinbít. Mér er sagt, að íslenzkum matsveinum sé enn kennd matreiðsla af þessu tagi.

Ekki er vínlistinn skárri. Hann er raunar í flokki lélegustu vínlista íslenzkra veitingahúsa. Eina vínið, sem ég gæti hugsað mér að panta af honum, er Santa Christina, afar hversdagslegt vín, en heilbrigt og ekki efnafræðilegt. Mér sýnist vínkortið vera stæling á lélegum vínkortum annarra húsa, alveg eins og matseðillinn er stæling á lélegum matseðlum.

Matreiðslan upp og ofan

Heldur lakara var að heimsækja Hansen í hádeginu en að kvöldi. Boðið var upp á hádegisseðil, sem var nokkru ódýrari en fastaseðillinn. Ég prófaði af honum vel heita hveitisúpu með miklu af ferskum sveppum og tvenns konar hollustubrauði, öðru brúnu og hinu grófkorna. Þetta var frambærileg súpa, þrátt fyrir hveitið.

Helzti kostur hádegisins var salatborðið. Aðgangur að því var innifalinn í verði aðalréttanna. Þetta var borð með um 20 skálum. Þar voru meðal annars ferskir sveppir, hrátt blómkál, gúrka, rófuræmur og olífur, auk of mikið þroskaðra tómata. Nokkrar tegundir voru af blönduðu salati, ýmsar sósur og súrmeti, auk ananas og melónubita, sem nota mátti fyrir eftirrétt.

Smálúða dagsins var afar þurr, hugsanlega úr örbylgjuofni. Hún var borin fram með afar ólystugri eggjasósu, fremur mikið soðnu blómkáli og hvítum kartöflum. Þetta minnti á tilbúna sjónvarpsrétti í sumum útlöndum.

Að kvöldi var prófuð mjög þykk og fremur hveitileg, rjómalöguð sjávarréttasúpa, sem hafði að geyma rækjur, humar og krækling, borin fram með dökku ostaflautubrauði. Hún var frambærileg eins og fyrri súpan.

Villigæsakæfa var fremur bragðlítil, borin fram með ágætu eplamauki, vínberjum, kiwi, mandarínu og papriku. Grafsilungur var óeðlilega rauður á litinn, eins og hann hefði komizt í kynni við litarefni. Hann var þó góður á bragðið, borinn fram með vægri sinnepssósu, sem fékk á sig skán, svo og léttristuðu brauði.

Staðlað meðlæti
Staðlað meðlæti fylgdi aðalréttunum, jafnt fiski sem kjöti. Það fól í sér léttsoðna gulrótarstrengi, léttsoðið blómkál, rauða papriku og pönnusteiktar kartöflusneiðar, sem mér fannst tæpast fara vel við soðinn fisk.

Í svokölluðu stjörnugratíni var rauðspretta, blönduð rækju og humri, borin fram á heitri pönnu undir miklu magni af ostblandaðri og örlítið kekkjaðri hveitisósu. Þetta var fremur ólystugt. Gufusoðnar rauðspretturúllur voru hins vegar meyrar og góðar, allt öðruvísi en smálúðurúllurnar höfðu verið í hádeginu. með þeim var humar í skelinni og ágæt steinseljusósa.

Kjötréttirnir voru bezti þátturinn í framboði Hansens. Lambavöðvi var mildilega og ágætlega sinnepskryddaður, bragðmikill og góður, borinn fram með kiwi og rauðvínssósu. Enn betri var holdanautabuffsteik, afar meyr og ljúf, borin fram með góðum sveppum og mildri kryddsósu. Hún var með beztu steikum, sem ég hef smakkað um langt skeið.

Eini eftirrétturinn á fastaseðli staðarins er þjóðarréttur íslenzkra veitingahúsa, djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi. Hann var ekki prófaður. Kaffi var ágætt.

þriggja rétta máltíðar með hálfri flösku af víni á mann og kaffi er 1410 krónur. Það er í hærri kantinum, – í milliverðflokki, sem er milli hæsta flokks og miðjuflokks. Því sæti deilir Hansen með öðrum nýlegum veitingahúsum á borð við Þrjá Frakka og Alex.

Jónas Kristjánsson

Hádegismatseðill:
Sveppasúpa
330 Soðin smálúða með hollandaise-sósu
330 Steiktur fiskur Doria
550 Lambahryggur með rauðvínssósu
650 Grísasneiðar með appelsínusósu
240 Súpa og salatbar

Fastaseðill:
200 Rjómalöguð sjávarréttasúpa
180 Frönsk lauksúpa
330 Blandaðir sjávarréttir gratín
320 Grafinn silungur með víkingasósu
260 Villigæsapaté með eplasósu
320 Hörðuskel og skinka með grape-aldini
240 Eggjakaka með púrru og beikoni
380 Piparkrydduð steinbítssteik með beikoni í koníakssósu
390 Gufusoðnar rauðspretturúllur með humar-grænjurtasósu
590 Stjörnugratín Hansen, bezti fiskur hverju sinni
680 Sinnepskryddaður lambavöðvi með kiwi og rauðvínssósu
730 Nauta- og grísahryggsneið með vínberjum, appelsínusósu
810 Holdanautafillet með hrísgrjónum og ristuðum sveppum
295 Djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi

DV

Riddarinn

Veitingar

Riddarinn er í gömlu húsi, sem hefur verið flutt í þyrpingu enn eldri húsa við Vesturgötu í Hafnarfirði. Húsin eru fimm og mynda rólegan ramma umhverfis eins konar torg, sem er vendilega skreytt sæbörðu grjóti. Riddarinn er ljósblár að utan og sómir sér ágætlega í þessu umhverfi, sem er eitt hið menningarlegasta hér á landi.

Hið innra hafa viðir Riddarans verið málaðir nærfærnislega í hvítu og afar ljósbláu í stíl hússins. En þar með lýkur líka trúnaðinum við gamalt húsið og umhverfi þess. Húsbúnaðurinn er út í hött og matreiðslan er hversdagsleg.

Verðlaunuðu klappstólarnir eru fallegir út af fyrir sig, en þeir eru í of mörgum litum og falla ekki að stíl hússins. Auk þess eru þeir gerðir fyrir aðstæður, þar sem taka þarf þá saman eftir notkun til að rýma fyrir öðru. Þeir eru ekki sérlega þægilegir til setu, ekki fremur en aðrir klappstólar.

Enn verri eru stálborðin með ljósbláum plastplötum, kuldaleg og mötuneytisleg. Til að magna berangursstílinn er parkettið haft afar ljóst og notuð skandinavísk plastljós í lofti. Speglaverk er í anddyri og stigagangi, svo og börum uppi og niðri. Samanlagt gerir þetta Riddarann afar kaldranalegan og jafnvel óhugnanlegan, þrátt fyrir blóm á borðum, plöntur í gluggum og vatnslitamyndir á veggjum.

Betra uppi

Í hádeginu var þetta kórónað með háværu gufuradíói, sem þuldi fréttir, veður og auglýsingar miskunnarlaust. Þeir, sem hafa ofnæmi fyrir slíku, geta þó vikizt undan með því að fara upp á loft.

Þar er stíllinn líka ekki eins ósamstæður. Klappstólarnir eru þar samlitir og sófarnir að hálfu leyti í þeim sama lit. Þar eru líka dúkar, sem hylja plastplötur borðanna, svo og fremur þægileg, niðursoðin tónlist á kvöldin.

Riddarinn býður fastan matseðil, sem er ekki spennandi. Þar er flest þetta hefðbundna, sem íslenzkir matreiðslumenn éta hver upp eftir öðrum, svo sem graflax, frönsk lauksúpa, glóðaðir humarhalar, piparsteik, turnbauti og djúpsteiktir ostar. Þannig virðist reiknað með afar íhaldssömum viðskiptavinum.

Verðlagið á fastaseðlinum fylgir meðallagi íslenzkra veitingahúsa, þeim flokki, sem ég hef kennt við Torfuna. Í hádeginu býður Riddarinn til viðbótar súpu og þrjá aðalrétti á mun lægra verði, 260 krónur að meðaltali. Það er vel boðið og á skilið betri aðsókn.

Eitt vín slarkfært

Vínlistinn er með hinum lélegustu hér á landi og er þá mikið sagt. Ekkert hvítvín sá ég, sem ég mundi kæra mig um að drekka og aðeins eitt rauðvín slarkfært, Santa Christina. Mér er sagt, að Íslendingar séu svo lengi búnir að vera illu vanir á veitingahúsum, að þeir þoli ekki annað en vond vín.

Karrísúpa með kjúklingi var á hádegisseðlinum, vel heit hveitisúpa með mildu karrí og kjúklingabitum, borin fram með volgum heilhveiti- og ostaflautum. Hún var ekki merkileg. Betra var skelfisksúpa, afar þykk, en þó hveitilaus og hafði að geyma hörpufisk, rækjur, humar og krækling, allt hæfilega lítið eldað og því hvorki seigt né þurrt. Henni fylgdi venjulegt formbrauð. Þessi súpa var bezti rétturinn, sem prófaður var.

Blandaður skelfiskur var líka frambærilegur réttur. Innihaldið var hið sama og í súpunni. Hörpufiskurinn var áberandi meyr og kræklingurinn með hinum betri, sem fáanlegur er úr dós. Humarinn var hins vegar ekkert sérstakur. Annar frambærilegur forréttur var sítrónugrafinn hörpufiskur með karríhrísgrjónum og gúrkuræmum.

Eini aðalrétturinn, sem nálgaðist forréttina að gæðum, var léttristuð rauðspretta með rækjum og vínberjum. Hún var þó ofausin bráðnu smjöri. Steikt rauðspretta hádegisseðils var mun lakari, þakin gífurlega mikilli brauðmylsnuhúð, sem yfirgnæfði þunnt fiskflakið. Henni fylgdu hvítar kartöflur og óárennilegar strengbaunir. En rauðsprettan var í báðum tilvikum óaðfinnanleg sem hráefni.

Bragðið drepið

Gegn betri vitund prófaði ég beikonvafinn skötusel. Það kom líka á daginn, að ekkert bragð fannst annað en beikonbragð. Ég hef aldrei skilið rökfræðina í að hafa beikon með mildum sjávarréttum. Ef fólk vill drepa fiskbragðið, af hverju er það þá að borða fisk? Ekki bætti þykk steikarhúð úr skák í Riddaranum, né fremur mikið soðnar gulrætur.

Kjötréttirnir voru undantekningarlaust hvorki góðir né vondir. Sítrónulegin lambasteik var borið fram í þunnum, of mikið steiktum og þurrum sneiðum, sem voru því ekki nógu meyrar. Rjómaappelsínusósan var hins vegar sæmileg, þótt hveitisósa væri. Í fylgd með þessu var brokkál og bökuð kartafla.

Nautakjötsréttirnir báru þess merki, að ekki væri nógu vandað til vals hráefna. Kjötið var bragðlítið og ekki nógu meyrt, þótt það væri hæfilega lítið eldað. Piparsteikin var þar að auki með nánast engu piparbragði. Ferskir sveppir, sem fylgdu turnbautanum, voru alveg kaldir í sósunni. Grænmetið var að öðru leyti hið sama og með lambakjötinu. Piparsteikinni fylgdi koníaksblönduð hveitisósa og turnbautanum bráðið kryddsmjör.

Öllum aðalréttum fylgdi hrásalat. Í hádeginu var það einfalt og gott, ísberg, seljustrimlar og ostasósa. Um kvöldið var það flóknara, ágætt að öðru leyti en því, að baunaspírurnar voru farnar að gamlast. Þá var það klætt sýrðum rjóma.

Eini eftirrétturinn, sem við prófuðum, voru pönnukökur, fylltar með hnetuís og bættar með Grand Marnier. Pönnukakan var alltof þykk, bauð upp á lítið hnetubragð og enn minna líkjörsbragð. Kaffi var ágætt í bæði skiptin.

Af grein þessari má ráða, að mikið verk sé óunnið í Riddaranum til að fá húsbúnað og matreiðslu til að hæfa húsakynnum og umhverfi þeirra. Þjónusta er hins vegar vinsamleg og góð.

Miðjuverð þriggja rétta kvöldmáltíðar með kaffi og hálfri flösku af Santa Christina er 1285 krónur samkvæmt reikningsaðferð þessa greinaflokks. Fyrir það verð mætti búast við meiru af staðnum.

Jónas Kristjánsson

Hádegisseðill:
110 Karrísúpa með kjúklingi
180 Eggjakaka með grænmeti
260 Steikt rauðspretta með hvítvínssmjöri
310 Biximatur með steiktu eggi

Fastaseðill:
250 Blandaður skelfiskur með kryddsósu
320 Reyktur lax með eggjahræru
290 Grafinn lax með sinnepssósu
210 Hrár hörpuskelfiskur í sítrónu og dilli
230 Fiskiskelsúpa Riddarans
190 Gratineruð frönsk lauksúpa
890 Glóðaðir humarhalar með hvítlaukssósu
420 Djúpsteiktur, beikonvafinn skötuselur
350 Léttristuð rauðsprettuflök, rækjur og vínber
595 Léttsteikt kjúklingabrjóst í rjómaappelsínusósu
670 Lambafilletsteik, marineruð í sítrónu og kryddi
850 Nautapiparsteik með koníakssósu
830 Turnbauti með ferskum sveppum í rjóma
670 Lambasmábauti Riddarans með rauðvínssósu
245 Blandaðir djúpsteiktir ostar með rifsberjahlaupi
210 Pönnukökur fylltar hnetuís, bættar með Grand Marnier
180 Blandaður ís með ferskum ávöxtum

DV

Þrír Frakkar

Veitingar

Sá, sem einskis væntir, verður ekki fyrir vonbrigðum. Ég hef nokkrum sinnum hrasað á þessari ágætu reglu, til dæmis þegar ég heimsótti Þrjá Frakka í fyrsta sinn. Í annað og þriðja sinn var eftirvæntingin hófsamlegri og árangurinn þeim mun betri.

Matreiðslan í Þremur Frökkum reyndist ekki vera frábær eins og ég hafði fyrirfram ímyndað mér, að hún væri. Hún er til dæmis ekki betri en að Búðum á Snæfellsnesi og alls ekki eins góð og á Arnarhóli. En hún er samt góð, betri en víðast hvar í veitingahúsum á Íslandi.

Þrír Frakkar eru ein fegursta matstofa landsins, ekki af því að gífurlegt hafi verið lagt í innréttingar, heldur vegna smekkvísinnar, sem ráðið hefur ferðinni. Hvergi er notalegra að sitja að snæðingi en einmitt í sextán sæta aðalstofunni, sem myndar L um lítinn bar.

22 sæti til viðbótar eru í garðstofu og innra herbergi, sem eru í sama stíl og aðalstofan. Samtals rúma Þrír Frakkar tæplega 40 gesti og eru því af kjörstærð veitingahúsa. Samkvæmt franskri reynslu falla veitingahús úr efsta gæðaflokki, þegar sætafjöldinn fer yfir 40.

Gult er í lofti og ofanverðum veggjum. Neðantil á veggjum er klæðning í dökkbrúnum lit í stíl við barinn. Nokkrir speglar eru á veggjum. Þeir mættu gjarna vera fleiri og stærri. Lýsing er óbein og mild, en niðursoðnu tónarnir stundum fremur hátt stilltir. Notaleg pottablóm eru í heimilislegum gluggum með fremur smáum rúðum.

Rauður marmari

Á svörtu steinflísagólfi standa smíðajárnsborð með afar fögrum, rauðum marmaraplötum og við þau smekklegir, svartir tréstólar. Á borðum eru kertaljós í glerstjökum og frönsk mataráhöld, þar á meðal fegurstu vínglös, sem ég hef séð í veitingahúsi hér á landi.

Á kvöldin eru borðin hvítdúkuð, en nakin í hádeginu. Mér finnst þau fallegri þannig. Á kvöldin fá gestir tauþurrkur, en pappírsþurrkur í hádeginu, þótt verðið sé óbreytt. Málsbætur felast í, að pappírsþurrkurnar eru stærri og nothæfari en gengur og gerist hér á landi.

Þjónusta er góð, þótt hún sé ekki eins skóluð og bezt gerizt hér á landi. Stundum veit starfsfólk, hver pantaði hvað og stundum ekki. Stundum fá gestir kælifötu undir hvítvínið og stundum ekki. Vatn fæst ekki sjálfkrafa. En vingjarnleg er þjónustan.

Vínseðillinn er sérkennilegur og staðnum raunar til skammar. Þar er hlaðið inn flestu því dýrasta, sem fáanlegt er í Ríkinu. Mér verður hálfflökurt við að sjá í vinlista verð á bilinu 1000-2000 krónur. Svo eru þessi dýru vín alls ekki hin beztu.

Þeir ættu þó ekki að fara villir vegar, sem halla sér að Saint-Emilion frá Luze, Chateau Barthez eða Chateau Cantenac-Brown í rauðvínum og Gewürztraminer, Riesling Hugel eða Chateau du Cléray í hvítvínum. Ég saknaði hins ódýra Chateau Fontareche, sem komið er í stað Chateau de Saint Laurent og er örlítið betra.

Einn kost hefur vínlisti Þriggja Frakka umfram aðra slíka hér á landi. Árganga er þar getið. Það er mjög mikilvægt, því að þeir, sem til þekkja, vita, að í ýmsum tilvikum er skarpur gæðamunur milli ára, þótt verðmunur sé enginn.

Of mikið fullyrt

Matseðillinn er afar stuttur, telur alls tólf-þrettán rétti, að forréttum og eftirréttum meðtöldum. Jafnvægi ríkir milli fisks og kjöts, oft um þrír aðalréttir af hvoru tagi. Þetta væri alveg nógu langur matseðill, ef skipt væri um daglega, eins og Þrír Frakkar segjast raunar gera.

Mín reynsla er hins vegar sú, að sjaldnar sé skipt um seðil og að fastir liðir færist gjarna milli seðla. Humarsúpa og humarhalar Oddyseifs eru lífseigir liðir og sömuleiðis kiwi-sneiðar í ljósu rommi og sítrónuterta hússins.

Smjör er borið á borð í sérstökum smjörbollum, sem ég hef lengi saknað í veitingahúsum landsins. Brauðið er auðvitað hveitiflautur í frönskum stíl. Það er bragðgott brauð, en líður fyrir, að flestir eru orðnir vanir hollustubrauði úr heilkorni.

Blaðlaukssúpa með ristuðum ostabrauðbitum var góð, borin fram í súpuskál og henni ausið á heitan diskinn. Þetta var hveitilaus rjómasúpa, eina súpan á seðlinum í það skiptið.

Rækjur í hvítlauk voru vel úti látnar, litlar, meyrar og fremur bragðdaufar, enda yfirgnæfði humarsoðbragðið í sterkri fiskisósunni. Með rækjunum var mikill hvítlaukur og steinselja, hrísgrjón, tómatbátur og sítrónubátur.

Sniglar í hvítlaukssmjöri voru snarpheitir, meyrir og góðir. Hvítlauknum var beitt af hófsemi í þetta skiptið, líklega fullmikilli hófsemi. Þeir voru bornir fram með glæsilegum snigiláhöldum.

Hreindýrakæfa var mjög þétt í sér, að mínu viti alltof þétt. Þar að auki var hún bragðdauf og án villibráðarbragðs, lakasti rétturinn, sem prófaður var.

Ýsa elegant var mildilega pönnusteikt, borin fram með óhóflega miklu smjöri og mildilega elduðu grænmeti. Hún var rækilega hvítlaukskrydduð eins og svo margir aðrir réttir Þriggja Frakka.

Hörpuskelfiskur Oddyseifs var smávaxinn, ekki verulega meyr, vel hvítlaukskryddaður, borinn fram með sterkri humarsoðssósu og sama meðlæti og áðurnefndar rækjur.

Humarhalar Oddyseifs voru myndarlegir, afar vægt eldaðir og einkar bragðgóðir. Þeir voru ristir í bakið og litu glæsilega út á diski.

Kryddlegnar gellur voru óvenjulega litlar í þetta skiptið, en samt sem áður afskaplega bragðgóðar. Í fylgd þeirra var rósakál, gulrótaræmur, tómat- og sítrónubátar.

Franskur lambapottréttur var frambærilegur, en ekki sérlega spennandi. Kjötið var meyrt, þótt það væri óhjákvæmilega grátt. Með kjötinu fylgdi lítils háttar af sveppum, bökuð kartafla, þrenns konar kál, blóm-, rósa- og brokkál, svo og gulrótarræmur og blessunarlega hveitilaus kjötsoðssósa.

Púrtvínslegið lambafillet var miklu betri réttur, raunar sérstaklega góður, Kjötið var hæfilega hrásteikt, meyrt og bragðmikið. Það var borið fram með miklu af sveppum og sama meðlæti og hitt lambakjötið, að blómkálinu frátöldu.

Væg eldun grænmetis

Eitt einkenna Þriggja Frakka er mildilega eldað grænmeti, sem kemur í stað hrásalats, er margir hafa vanizt hér á landi. Hrásalat er góður siður, en kemur frá Bandaríkjunum, svo að ekki er hægt að ætlast til hans af frönskum stað. Og Þrír Frakkar kunna vel að forðast mauksuðu grænmetis.

Kiwisneiðar í ljósu rommi litu afar fallega út og voru bragðgóðar. Hið sama mátti segja um melónuteninga í púrtvíni, þótt þeir hefðu mátt fá að liggja lengur í víninu. Kaffi var gott í öll skiptin.

Þrír Frakkar eru í eins konar treikvartflokki verðlags, mitt á milli miðjuverðsins og dýru veitingahúsanna, á svipuðum slóðum og Alex og Hvítir hrafnar. Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi og hálfflösku af víni var 1342 krónur samkvæmt reikningsaðferð þessa greinaflokks.

Staðurinn hefur stíl, sem hæfir þessu verðlagi – og mundi hafa slíka matreiðslu, ef hún væri öll eins og í gellunum og púrtvínslambinu.

Þrír Frakkar hafa greinilega öðlazt vinsældir. Staðurinn var vel setinn í öll skiptin, sem hann var prófaður. Ráðlegt er að panta borð með góðum fyrirvara, því að 38 sæti verða fljótt upptekin.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður matseðill:
150 Humarsúpa
280 Sniglar í hvítlaukssmjöri
240 Hreindýrapaté
640 Humarhalar Oddyseifs
510 Lúðukótilettur
460 Kryddlegnar gellur
650 Lambalundir í estragon
690 Villigæs
730 Nautasteik vínkaupmannsins
720 Hreindýrasteik
220 Vanilluís með ávöxtum
220 Eplaterta
230 Sítrónuterta

DV

Gestur

Veitingar

Café Gestur virðist ætlaður ungu fólki, enda aðallega setinn slíku, raunar þéttar setinn en mörg önnur veitingahús borgarinnar. Innréttingar eru hráslagalegar og verðið nokkuð hátt.

Matseðillinn er hefðbundinn, nokkurn veginn laus við hugmyndaflug. Hann er í þessu örugga, sem unga fólkið vill, svo sem steikum og ísum. En matreiðslan sjálf er betri en ef til vill mætti ætla af þessu.

Gömlu innréttingarnar hafa verið fjarlægðar. Eftir stendur hvítur salur, sem skiptist í tvennt. Básar eru að framanverðu og laus húsgögn að innanverðu. Góðir stálstólar með tágasetum og hvítdúkuð borð í þeim hluta stinga í stúf við gróft útlit staðarins að öðru leyti.

Athyglisvert er, að fremri og harðbýlli hluti salarins er vinsælli hjá unga fólkinu. Þar situr það þröngt í fremur óþægilegum, plastklæddum básum, sem ná í axlarhæð, við dúklaus borð, sums staðar utan í vel heitum þilofnum. Mun rýmra er að sitja í tágasessum fyrir innan.

Sennilega er skiptingin hugsuð þannig, að framar sé kaffistofa og innar matstofa, en mér virðist samt fólk heldur vilja borða í básunum.

Húsnæðið hefur verið opnað upp í súð, svo að bitar og sperrur sjást. Veggljós, barspegill við enda salar og matseðill virðist allt hannað af hinum sama – og gott ef ekki málverkin á veggjunum líka. Kertaljós á borðum innri hluta salar megna ekki að róa staðinn eða jafna ósamræmið í útlitinu.

Þjónusta er ekki sérlega kunnáttusamleg, en þó vingjarnleg og frambærileg, ef ekki er farið út í of náinn samanburð við ýmsa staði, sem eru í miðjuflokki verðlags og bjóða þrautskólaða þjónustu.

Vínlistinn er lélegur. Þar eru nothæfar hálfflöskur af Santa Christina og heilar af Marqués de Riscal og Gewürztraminer. Dapurlegt er, hversu fáum af nýju veitingahúsunum í Reykjavík er sýnt um að velja almennileg vín handa gestum. Af þeim man ég bara eftir Alex við Hlemmtorg, sem hefur þau mál í sæmilegu lagi.

Nýlegur matseðill í Café Gesti er mun skárri en sá, sem fyrir var og lagði mikla áherzlu á hinar úreltu djúpsteikingar, sem unglingarnir kunna því miður að meta. Eftir stendur áherzlan á nautasteikur og ísa af ýmsu tagi. Rétt er þó að taka fram, að hvort tveggja er með frambærilegra móti á þessum stað.

Eitt hið bezta við Gest er ferskleiki hráefna, sem kemur vel fram í hrásalatinu, einkum stóru og fallegu sveppunum. Salatið er hér ekki borið fram sér, heldur á aðaldiskunum sjálfum.

Til þess að hindra heitar sósur í að komast í salatið eru þær bornar fram í sérstökum skálum, en hafa auðvitað samt tilhneigingu til að samlagast, þegar þær eru komnar á diskinn.

Sítrónugrafinn lambavöðvi var ágætur matur, fallega fram borinn með miklu af kiwi-sneiðum. Djúpsteiktir sveppir voru líka góðir. Að vísu var sveppabragðið lítið, því að djúpsteikingin yfirgnæfði eins og oft vill verða. En sveppirnir voru skemmtilega meyrir. Þeim fylgdi ristað brauð og góð pimento-sósa á tómatgrunni.

Eggjakaka var hins vegar í þurrara lagi, en skemmtilega borin fram í heitri pönnu. Sítrónuleginn hörpuskelfiskur var frambærilegur, en með fullsnörpu sítrónubragði, borinn fram kaldur.

Meðlæti aðalrétta var staðlað, hrásalat, ferskar sveppaflögur og gulrótaræmur. Með kjötréttunum voru svo bakaðar kartöflur og pönnusteiktir sveppir. Með fiskréttunum pönnusteiktar kartöflur og paprika. Öll þessi pönnusteiking var fremur mildilega gerð.

Pönnusteikt smálúða var frískleg og fremur góð, miðlungi steikt, borin fram með miklu af rækjum og hæfilega miklu smjöri, sem var þó nógu mikið til að leka út í hrásalatið.

Steikur staðarins áttu að vera “bláar”, en reyndust vera hálfbláar (medium rare), svo sem venja er hér á landi og á Norðurlöndum. Þær voru frambærilegar, sæmilega meyrar.

Ein þeirra hét piparsteik og var hæfilega pipruð. Önnur hét mafioso og var alveg jafnmikið pipruð. Hin þriðja var mildari og raunar ekki eins meyr. Hún var óvenjuleg að því leyti, að hún var borin fram með kiwi-, banana-, melónu- og eplabitum.

Bláberjapæ með rjóma var gott og hefði verið enn betra, ef bláberjabragðið hefði verið skýrara. Ísa mátti fá með ýmiss konar líkjör. Þeir voru heimalagaðir og sá með mintulíkjörnum var hressilega sterkur. Þeir voru bornir fram í háum glösum. Sömuleiðis ferskt ávaxtasalat með rjóma. Hvort tveggja var glæsilegt tilsýndar. Sæmilegt kaffi kostaði 50 krónur í hádeginu og var frítt með kvöldmat.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi og hálfri flösku af frambærilegu víni var 1178 krónur samkvæmt reikningsaðferð greinaflokks þessa.

Það er svokallað miðjuverð og væri að mínu viti næstum sanngjarnt, ef önnur atriði héldu til jafns við matreiðsluna, – ef staðurinn væri ekki svona hrár og hversdagslegur.

Café Gestur er veitingahús handa ungu fólki til að snæða steikur og ísa. Frá sjónarmiði matargerðarlistar er það ekki spennandi.

Jónas Kristjánsson

Hádegisseðill:
130 Rjómalöguð sveppasúpa
245 Eggjakaka með púrrum og papriku
270 Djúpsteiktur fiskur með frönskum kartöflum
365 Pönnusteikt smálúða með piparjurtum

Fastaseðill:
150 Gratineruð lauksúpa
155 Humarsúpa maison basque
150 Karrísúpa með rækjum
355 Blandaðir síldarréttir með brennivínsstaupi
360 Grillsteiktir humarhalar með ristuðu brauði
230 Rækjuskál með ediksósu
240 Reyktur lax með melónubáti
260 Kryddleginn hörpuskelfiskur með ristuðu brauði
320 Grafinn lambavöðvi með kiwi
160 Djúpsteiktir sveppir með pimento-sósu
245 Djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi
255 Eggjakökur ýmsar
245 Appelsínusalat með möndlum og rúsínum
270 Kjúklingasalat með greipávexti
250 Græna sprengjan með ediksósu
240 Sesar-salat með tómötum og olífum
265 Djúpsteikt ýsa með frönskum kartöflum og remúlaði
385 Pönnusteikt smálúða með piparjurtum
390 Brauðhnúður með sjávardýrum
410 Grillsteiktir humarhalar
630 Léttsteiktur lambavöðvi með kiwimauki
680 Nautasteik mafioso með piparþrennu og bourbonviskí
660 Piparsteik classico
680 Ávaxtasteik með kiwi, banana, melónu og epli
195 Bláberjapæ með rjóma
165 Heimalagaður ís með möndlukrókant
190 Heimalagaður ís með kókos og Crème de menthe
185 Heimalagaður ís með möndlum og Amaretto
180 Heimalagaður ís með Crème de cacao
230 Ferskt ávaxtasalat með rjóma

DV

Krákan

Veitingar

Ég hugsaði mér, að næst fengi ég mér púrrusúpu Hinriks VIII, olífukæfu og spaghetti Bolognaise. En þá var kominn nýr matseðill. Þetta var horfið og nýtt komið í staðinn, ekki síður spennandi.

Þannig er Krákan, full af hugmyndaflugi og breytingagirni, einn af sárafáum nýju staðanna, sem á eitthvert erindi við okkur. Ég hlakka jafnvel til að fara þangað, næstum eins og ég hlakka til að fara í Arnarhól og ef til vill tvo aðra staði.

Þar með er ekki sagt, að Krákan búi yfir sérlega fínlegri matreiðslu. Þegar réttirnir eru komnir á borð, eru þeir ekki alltaf eins spennandi og þeir litu út fyrir að vera á matseðlinum. Þar á ofan eru þeir stundum allt aðrir en þeir, sem ég átti von á að fá eftir að hafa lesið nöfn þeirra á seðli.

Krákan er mun smekklegri og notalegri veitingastaður en fyrirrennarar hennar voru hér á horni Laugavegar og Klapparstígs. Mikið af ruslinu hefur verið rifið út, en Búdda situr þó eftir og er kominn upp á gamlan og ólitaðan viðarskenk við langvegg. Smávægilegt er komið af undarlegu dóti, svo sem stytta af þjóni og grænmetissultur í krukkum á hillu.

Mikið er af pottablómum, einkum í gluggum. Sperrur eru í svörtu lofti og viður í hvítum þiljum. Málverkasýningar hanga á veggjum. Sæti eru fyrir 32 á neðra gólfi og 13 á hinu efra. Sveigður viður er í stólbökum og tágar í setum. Á borðum eru bleikir og hóflega hreinir dúkar undir diskamottum, pappírsmunnþurrkum og skemmtilegum kertastjökum úr hörpuskeljum.

Í heild má kalla umhverfið viðkunnanlegt fremur en ríkmannlegt. Vaskurinn á salerni var undarlega óhreinn.

Matseðill fyrir Marzbúa

Matseðill Krákunnar er engu líkur, sem ég hef séð. Það er eins og hann sé gerður fyrir aðvífandi Marzbúa, eins konar sýnishorn matargerðar jarðarbúa. Hann spannar Grikkland, Indland, Texas, Mexikó, Kína, Jamaíka, Indónesíu, Ítalíu, Portúgal, Rússland og jafnvel Ísland. Annan eins hrærigraut hef ég aldrei séð á matseðli og er þó ýmsu vanur.

Fulltrúi Grikklands var ágætis pönnubrauð, þykkt og seigt, með tveimur ídýfum, sem gáfu réttinum nafnið Sadziki og Taramosalata. Sadziki á að vera söxuð gúrka, hvítlaukur og dill eða minta í olífuolíu og jógúrt og ef til vill ediki. Taramosalata á að vera kæfa hrogna, til dæmis þorskhrogna, og olífuolíu, sítrónu og brauðmylsnu. Í raun voru þetta mildar og hlutlausar ídýfur aðallega úr jógúrt. Smávegis gulrótarbragð var að hrognakæfunni, en hins vegar ekkert hrognabragð. Kannski hefur kokkurinn farið línuvillt í matreiðslubókinni.

Kryddlegin og glóðuð svínarif voru kölluð “Mao Tse Tung”, sennilega til að vara fólk við. En það er ástæðulaust, því að þetta reyndist vera ágætis forréttur, bragðsterkur og skemmtilegur.

Fyrirferð á grænmeti

Grænmetisréttirnir eru blessunarlega fyrirferðarmiklir á seðlinum. Einn þeirra er hin mexíkanska Tortilla, stökk, opin pönnukaka utan um fyllingu bauna og grænmetis. Hún var góð, en ekki bragðsterk. Henni fylgdi ágæt, sæt jógúrt-ídýfa og hrásalat.

Annar grænmetisréttur er hin indverska Samósa, djúpsteiktar pönnukökur, vafðar utan um blöndu af baunum og öðru grænmeti, einkum papriku og gulrótum. Á matseðlinum er því raunar haldið fram, að réttur þessi sé frá Líbýu. Pönnukökurnar voru þunnar og stökkar, bragðgóðar og snarpheitar. Þetta reyndist vera ekta Austurlandaréttur. Áðurnefnd jógúrtsósa fylgdi.

Hrásalatið, sem fylgdi grænmetisréttunum og aðalréttunum, var frambærilegt, aðallega hvítkál eða kínakál með mjög litlu af jógúrt eða sýrðum rjóma.

Graslauksúpa var sæmileg og karrísúpa var góð, með miklu af sveppum, papriku og dósa-ananas, fremur sæt.

Pönnukaka með Chilli con carne var þunn, íslenzk pönnukaka, lögð utan um hakkað kjöt og baunir, bragðsterkari, betri og matarmeiri réttur en sá, sem ég hafði áður fengið í Sombrero.

Djúpsteiktur fiskur var góður, enda ekki of mikið eldaður. Skorpan var þunn og stökk. Með fylgdi sætsúr sósa.

Kryddlegnar úthafsrækjur voru misheppnaðar, einkum vegna þess að þær voru fastar í skelinni og vildu ekki losna með neinum hefðbundnum aðferðum. Þær voru skemmtilega, en raunar of mikið kryddaðar, alveg eins og verið væri að fela rækjubragðið. Brennt smjör fylgdi þeim.

Hörpuskelfiskur Jamaica var alveg meyr og góður, ekki ofeldaður. Hann var borinn fram með ferskum sveppum og papriku í mikilli og blessunarlega hveitilausri sósu.

Kryddleginn lambavöðvi var fulltrúi Íslands á seðlinum. Hann var vel leginn, meyr, ekki ofeldaður. Þessum ágæta rétti fylgdi lint og ólystugt brokkál og bökuð kartafla, svo og tvær skemmtilegar sósur, önnur með piparrót og hin með mintu.

Rauður kjúklingur

Kjúklingur tandoori var sæmilega verðugur fulltrúi Indlands, kallaður “skræpótti fuglinn”. Slíkur kjúklingur er leginn í jógúrt og kryddblöndu, sem gerir hann eldrauðan að utan, þegar hann er bakaður í ofni, sem helzt á að vera leirofn, sem Indverjar kalla Tandoor. Rauða húðin var góð, en kjötið var of þurrt. Því fylgdi skemmtilega sterk sósa og næfurþunnt, stökkt brauð, afar skemmtilegt, svo og lime og laukhringir og auðvitað hrísgrjón.

Lítið er um eftirrétti í Krákunni. Enginn var skráður á fastaseðlinum, sem ég sá, og aðeins í einni heimsókn var einn eftirréttur skráður á seðli dagsins, eldsteikt epli með rjóma. Ég prófaði þau ekki, en hins vegar ágætt kaffi úr nýrri espresso-vél.

Þjónusta er alúðleg í Krákunni. Vínlistinn er fremur lélegur, eins og raunar víðast hér á landi. Niðursoðin tónlist er í bakgrunni. Gestakokkar hafa stundum sett svip sinn á staðinn. Svo brá mér um daginn, þegar boðaður var ljóðalestur í náinni framtíð. Það lá við, að ég missti matarlyst.

Verðlag Krákunnar er hóflegt, mitt á milli miðjuverðstaða á borð við Torfuna og staða lágs verðs á borð við Pottinn og pönnuna. Samkvæmt reikningsaðferðum þessa greinaflokks ætti þriggja rétta máltíð með hálfri flösku af víni og kaffi að kosta 995 krónur.

Af einkunnagjöfinni hér á síðunni má sjá, að töluvert samræmi er milli verðs og gæða, betra samræmi en áður hefur fundizt í greinaflokknum. Þess vegna á Krákan erindi til okkar.

Jónas Kristjánsson

Hádegisseðill:
140 Gúllassúpa
210 Frönsk eggjakaka
280 Fiskigúllas Napólí
335 Pönnukaka chilli con carne
230 Somósa

Kvöldseðill
120 Grænmetissúpa
280 Djúpsteiktur fiskur Hawai
325 Spaghetti Bolognaise
210 Skinkurúllur með salati og piparrótarsósu
230 Tortilla Mexikana
240 Fyllt paprika Milano
350 Gratineraðir sjávarréttir

Fastaseðill
240 Sjávarréttasúpa
205 Karrísúpa
120 Sadziki og Taramosalata
185 Svínarif Mao Tse Tung
165 Djúpsteiktir paprikuhringir með chilli-hnetusósu
210 Kræklingar vinaigrette
245 Salatskál með rækjum og túnfiski
230 Grillsteikt lambalifur með marineruðum sveppum
260 Síldarópera með rúgbrauði, karrí og tómat
220 Eggjakaka
215 Barnaborgari með kartöflum og salati
225 Pilau kryddhrísgrjón með salati
230 Somósa heimalagað brauð með grænmetisfyllingu
175 Árstíðarsalat með hvítlauksdressing
260 Tortilla grænmetisætunnar
345 Smokkfiskur Chinatown
330 Maschchi kebab marineraðir sjávarréttir á teini
365 Hörpuskelfiskur Jamaica
380 Djúpsteiktur skötuselur Indónesía
635 Lamb Islandia, marineraður lambavöðvi
445 Skræpótti fuglinn, tandoori kjúklingur
305 Chilliborgari Mexikana
720 T-bone steik Texas
335 Pönnukaka vestursins, chilli con carne
50 Kaffi

DV