Veitingar

Rub23 af öðrum ber

Veitingar

Rub23 ber af öðrum veitingahúsum á Akureyri, að minnsta kosti í hádeginu. Að vísu stendur Bautinn fyrir sínu, en innréttingar eru þar farnar að þreytast og salatborðið líka. Sá staður er linnulaust vinsæll, eins og á brautarstöð. Rub23 er andstæðan, rólegur staður með fínni þjónustu og góðum mat. Hann er í gilinu í rauða húsinu andspænis neðri enda kirkjutrappanna. Fiskur dagsins kostar 2.200 krónur í hádeginu og 2.600, ef þú færð þér líka súpu eða sushi eða skyr. Sjö mismunandi bitar af ágætis sushi styttu biðina eftir bleikju dagsins í piparsósu. Nákvæmt elduð og fín, borin fram með flottu hrásalati og ofsteiktum grænmetiskubbum. Rub23 væri í Reykjavík einn af þeim tíu beztu.

Nýr fiskur á Akureyri

Veitingar

Enn einu sinni fékk Akureyri fiskbúð, góða að þessu sinni, í nýja Bónushúsinu syðst í bænum. Þar hef eg komið tvisvar og getað valið úr nokkrum tegundum af nýjum og ófrystum. Eini gallinn er gamla fisklyktin. Stafar ekki af gömlum fiski í afgreiðsluborðinu, heldur er staðurinn er ekki nógu vel spúlaður í dagslok. Fisksalar fá þá aðeins nýja kúnna að vera lausir við þessa lykt, það vita fisksalar í Reykjavík. Þorskurinn var glænýr og matreiddist vel. Svo er hægt að fá fisk í alls kyns gúmmulaði fyrir fólkið, sem ekki er spennt fyrir fiski. Farðu Miðhúsabraut upp brekkuna bakvið Skautahöllina, gatan liggur að Bónus.

 

Þykkvalúra í hádegi

Veitingar

Sá á fésbókinni, að Friðrik V bauð í hádeginu upp á þykkvalúru, lemon sole. Við gömlu hjónin ruddumst þangað og snæddum þennan sjaldgæfa fisk, sem er með dýrari fiskum í Evrópu. Mundi kosta 6.000 krónur á Sheekey’s í London. Á Friðriki V kostaði hann 1.750 krónur að innifalinni frábærri hörpudiskssúpu dagsins. Sönnun þess, að gæði lífsins þurfa nánast ekkert að kosta, séu menn á vaktinni. Þykkvalúran var úr Arnarfirði, frá Þresti Leó leikara á Bíldudal. Auðvitað upplifun, heilsteikt á pönnu, borin fram með sítrónu. Friðrik V er mitt uppáhalds bistró, karlinn er „bakvið eldavélina“ og konan yfir salnum.

Kaldur Nauthóll

Veitingar

Nauthóll er kaldur. Þjónusta var ópersónuleg, húsakynni skandinavísk að stíl, hvít og hornrétt, borðin flútta. Minnir á setustofu úrásarvíkings árið 2007. Stórir útsýnisgluggar veita útsýni yfir bílastæði. Hér var fullt í hádeginu, mest af ungu fólki, sem keypti sér dýra hamborgara á heilsustað. Fólki, sem skortir svokallað „institutional memory“ okkar gamlingjanna, sem hafa séð og reynt allt. Góð blálanga dagsins á 2.400 krónur, meðfylgjandi kartöflustappa ofpipruð og grænmetið þrælsteikt í mikilli olíu. Betri matur fæst ódýrari niðri í bæ. Kjúklingasalat á 2.900 krónur var ómerkilegt. Ég fer annað næst.

Góður Leirubakki

Ferðir, Veitingar

Leirubakki er vel sett hótel með veitingum nærri fjallvegum um Landmannaleið og Sprengisandsleið. Snyrtileg og einföld gistiherbergi hafa baðherbergi. Þráðlaust netsamband er í móttökusal og setustofu. Við veitingasal er róttækt hannaður sýningarsalur um Heklu, sem gnæfir yfir staðnum. Starfsfólk er afar þægilegt, sérstaklega í matsal og útreiðatúrum. Matur er óvenjulega góður í samanburði við veitingar á landsbyggðinni, frönsk súkkulaðiterta frábær. Verð of hátt eins og við er að búast til sveita og skýrist af of stuttri vertíð ferðaþjónustunnar. Kominn er tími til að létta krónunni af herðum almennings.

Mistæk Skólabrú

Veitingar

Steinbítur dagsins var næstum því eins góður í hádeginu á Skólabrú og á beztu stöðum borgarinnar. En því miður töluvert dýrari, 3500 krónur. Meðlætið dró fiskinn líka niður: Dauf karrísósa, dauf hrísgrjón, ofsteikt grænmeti og smávegis af blaðsalati. Kræklingur í súpu var lakari, 3200 krónur, líklega of lengi í pottinum. Espresso-kaffi var lapþunnt. Þjónusta í góðu lagi. Mér er sagt, að húsaleiga sé svo dýr hér bakvið dómkirkjuna, að veitingatekjur fari að mestu í hana. Kostur Skólabrúar er, að hún er í fögru húsi, sem kennt er við Kristján Sveinsson augnlækni, á einu allra bezta horni borgarkvosarinnar.

Kast af fortíðarþrá

Veitingar

Varfærnislega gaukaði ég mér á nýliðann Le Bistro á horni Laugavegar og Smiðjustígs. Eigandinn hefur nefnilega atast í umsagnaraðilum á TripAdvisor og sagt einn geðsjúkan. Staðurinn reyndist framar vonum, í frönskum stíl eftirstríðsáranna, með krítartöflum, pósterum og furðuhlutum á veggjum. Þarna er hefðbundna eldhúsið frá árunum áður en Cuisine Nouvelle sigraði heiminn. Fiskipottur var vel frambærilegur í hádeginu á 2000 krónur, fiskhlunkar og kartöflur í tómatsúpu. Cesar-salat var la-la eins og chardonnay hvítvínið. Notaleg þjónusta. Kem aftur, þegar ég finn fyrir öðru kasti af fortíðarþrá.

Hreinlæti í hávegum

Ferðir, Veitingar

Á Flúðum er lítið þekkt og hreinlegt gistiheimili áfast kaffistofunni Grund, andspænis hótelinu. Þar eru fimm svefnherbergi og tvö baðherbergi. Herbergi nr.1 var lítið og friðsælt, með tágastólum, skreytilist og baðsloppum. Kominn er ný húsfreyja, sem sinnir gestum af sömu alúð og hin fyrri. Morgunverðurinn er meginlands plús safi og jógúrt. Á kvöldin fæst þar indælis grænt salat frá gróðurhúsum staðarins og fyrirtaks lambakjöt. Í stað þess að fara á barinn er bezt að fara 500 metra í Silfurtún og fá sér fersk jarðarber dagsins, himnesk með ferskum eða þeyttum rjóma. Herbergi fyrir tvo með morgunmat: 19.000 krónur.

Skelfiskur í Höfninni

Veitingar

Eitt góðu veitingahúsanna í Reykjavík er Höfnin við Geirsgötu 7, sem sérhæfir sig í skelfiski í skelinni. Þar fæst blanda af kúskel, bláskel, hörpudisk og risarækju í sterkkrydduðu kjúklingaseyði með kúskús, engifer og vorlauk á 3290 krónur. Bjórsoðin bláskel með frönskum og kryddjurtamæjónes kostar 2530 krónur. Bjórsoðnu bláskelina með frönskum er líka hægt að fá með kryddjurta-, hvítlauks- og sinnepssósum á 3990 krónur. Ekki má heldur gleyma skelfisksúpu með humri, bláskel, hörpudisk, fenniku og þeyttum rjóma á 2350 krónur. Og svo eru ristaðir humarhalar með klettasalati, léttsýrðri sellerýrót, radísum og heitri hvítlauksolíu á 3290 krónur. Verð sýnist mér vera í hóflega kantinum.

Tyrkjasæla í smáréttum

Veitingar

Meze kom þægilega á óvart. Tyrkneska veitingahúsið við Laugaveg 42 bauð góðan mat, sambærilegan við góðu matarhúsin í Istanbul. Jafnvel góðan fisk dagsins, þótt ekki jafnist á við framboðið á fiskhúsum miðborgarinnar. Hádegistilboð 1890 krónur, aðalréttir um 3000 krónur á kvöldin og smáréttirnir, meze, 1000 krónur. Þrír smáréttir eru ein máltíð. Þarna eru þekktir tyrkjaréttir, Dolma, Mousakka, Köfte, Börek og Sish Kebab. Vantar þó þjóðlega rétti úr soldánska eldhúsinu, sem Tyrkir telja merkast í heimi. Þorskur dagsins var sennilega frosinn, en þó nærfærnislega eldaður. Fín þjónusta líka, ketilkaffi frábært.

Galvaskur Jörundur

Veitingar

Þórir Gunnarsson gerði garðinn frægan á matstaðnum Reykjavík við göngugötuna milli Karlsbrúar og gamla borgartorgsins í Prag. Nú er hann kominn heim og hefur opnað veitingastofuna Jörund í stiftamtmannshúsinu við Lækjartorg. Þar var áður matstofan Happ. Þórir hefur endurbætt húsbúnað og hlynnt að innviðum hússins. Það stendur loksins undir sögufrægð sem fyrsta og eina konungshöll landsins. Þjónusta er galvösk og vel þjálfuð. Fiskurinn mætti hins vegar vera betri. Ráða þarf kokk, er getur keppt við valinkunna miðborgarstaði í að elda ferskan fisk. Samkeppni á því sviði hefur harðnað hér meðan Þórir var í Prag.

Samþjöppun gæðanna

Ferðir, Veitingar

Erlendu túristarnir eru mest í miðborginni innan Hringbrautar. Hafa fátt að skoða annars staðar. Því er mest þar af þjónustu fyrir ferðamenn, svo sem veitingahús. Þau þrífast, þar sem viðskiptin eru. Nærri allir beztu matstaðir landsins eru í 101. Bara náttúrulögmál, ekki vandamál. Flest góð hús þrífast hér á túristum. Beztu staðarnir eru þéttskipaðir slíkum á kvöldin. 80% eru útlendingar, sagði Friðrik V. við mig. Við eigum þeim að þakka að hafa aðgang að svo mörgum gæðastöðum. Sama að segja um beztu kaffihúsin, þrífast í 101. Við skulum fagna samþjöppun gæða. Úthverfin standa bara undir pítsum og bjór.

Níu beztu og ódýrustu

Veitingar

Á níu beztu matstöðum landsins fæst fiskur dagsins í hádeginu á innan við 2300 krónur. Ódýrastur er toppstaðurinn Friðrik V. Þar er fiskur dagsins á 1750 krónur. Næstur er Laugaás með nokkra fiskrétti á 1790 krónur. Á báðum stöðum er súpa innifalin. Þessi tvö eru bistró Íslands. Svo Sjávargrillið, líklega bezti staður landsins, á 1970 krónur, Kopar og Rub23, báðir á 1990 krónur. Síðan er lúxusstaðurinn Holtið á 2150 krónur og Fiskfélagið á 2190 krónur. Þrír frakkar bjóða fiskrétti á 2250 krónur og Grillmarkaðurinn býður karfa á 2290 kr. Í hádegi eru aðrir gæðastaðir landsins dýrari og lakari.

Smart KOL hiksta

Veitingar

Þótt Íslendingar kunni ekki að kjósa, kunna þeir að hanna. Kol er nýr í hópi smart matstaða, sem hafa risið í takt við ferðastraum. Vel í sveit settur, nánast undir Leifsstyttunni. Móttaka fín og þjónusta hress og glöð, sumpart lítið skóluð. Matreiðslan var veiki hlekkurinn. Bragðlítið risotto, borið fram með mildum hörpudiski og of sterkri choriso pylsu. Bragðdauf súpa var grautur með humri og trufflum. Enginn fiskur dagsins er hér, en í hádeginu var þorskur með fennel og kóríander, 2400 kr. Fiskurinn var ekki freðinn, en heldur ekki glænýr. Betri þorsk fæ ég ódýrari víða um bæ. Kannski betri að kvöldi.

Slapp til Friðriks

Veitingar

Þessa daga er ekki flóafriður fyrir „Food and Fun“. Þvælist fyrir mér eins og skötudagur og þorramatur. Þá þarf ég nefnilega að leita uppi veitingahús með góðum mat. En Friðrik V var tagltækur á sinni vanalegu siglingu framhjá 7000 króna Fun. Fékk þessa fínu löngu pönnusteikta með ofnbökuðum kartöflum og hrásalati á 1800 kr. Ég tel þá kokka bezta, sem bezt kunna að elda fisk. Vilji ég steik, fer ég í fiskhús, þar sem kokkar kunna nákvæma eldunartíma. Svo er líka þessi indæla þjónusta og heimilisandi á Friðriki V. Mestu máli skiptir þó, að maturinn þar er matur en ekki aðallega litskrúðugur skúlptúr.