Veitingar

Hornið

Veitingar

Ítölsk þjónusta

Hornið, einn frumkvöðla nýrrar veitingamennsku hér á landi, heldur sínu striki. Framboð og gæði staðarins er óbreytt frá því fyrir ári, að öðru leyti en því, að nú hefur bætzt við stuttur og snaggaralegur vínlisti, einn hinn bezti hér á landi.

Þar eru öll hvítvínin, sem máli skipta, Wormser Liebfrauenstift, Gewürztraminer, Edelfräulein og Bernkasteler Schlossberg. Einnig velflest rauðvínin, Chateau Talbot, Geisweiler Grand Vin, Chateauneuf-du-Pape og Chianti Classico.

Bernkasteler Schlossberg og Chianti Classico eru seld í glasatali, 12-13 krónur glasið. Það er mjög til fyrirmyndar, því að eitt vínglas með mat er í flestum tilvikum hæfilegt. Þá eru La Ina og Tio Pepe sérrí, svo og Noval portvín, einnig seld í glasatali.

Þjónustan á Horninu er ítölsk eins og áður, einkar þægileg og vingjarnleg, þótt hún sé ekki eins lærð og víða annars staðar. Og umhverfið er óbreytt, -hinar listrænu innréttingar hafa ekki látið á sjá.

Matargestir ættu að halla sér að rétti dagsins með súpu. Hann er yfirleitt vel gerður, alténd breytilegur frá degi til dags. Fastaseðillinn er hins vegar búinn að vera lengi óbreyttur og fer að verða leiðigjarn.

Kaffið var indælt

Spergilsúpan með dagsréttinum var snarpheit og góð, ekki með of linum spergli, borin fram með heitu, snittubrauðslaga kryddbrauði. Blönduðu sjávarréttirnir, sem fylgdu á eftir, rækja, kræklingur, lúða og hörpudiskur í karrísósu, voru góðir, einkum rækjan.

Pizzur eru sérgrein Hornsins, væntanlega til að leggja áherzlu á ítalskan svip hússins, þótt pizzur séu raunar ættaðar frá Bandaríkjunum. Eins og vera ber eru þetta beztu pizzur bæjarins, sérbakaðar á staðnum.

Í öðrum réttum fastaseðilsins er það framsetningin, sem skiptir mestu máli. Réttirnir hvíla gjarna á hrísgrjónabeði og hafa hrásalat í kantinum. Þeir eru lystugir að sjá og valda yfirleitt ekki vonbrigðum.

Í síðustu prófun Vikunnar reyndist graflúða mild og góð, dálítið mikið krydduð, borin fram með sætri og góðri sinnepssósu. Spaghetti Bolognaise var hversdagslegt, en gott. Lambakjöt á teini, borið fram með hvítlauksbrauði og mintusmjöri, var líka góður matur.

Hornið býður bæði upp á ísa og osta í eftirrétt og er hvorugt í frásögur færandi. Meira máli skiptir kaffið úr espresso-vél, eitt hið allra bezta hér á landi. Þar á ofan býður staðurinn upp á fleiri en eina tegund af tei.

Rúmlega meðalverð

Réttur dagsins með súpu kostaði 68 krónur á Horninu. Meðalverð forrétta var 42 krónur, súpa 18 krónur, pitsa 48 krónur, sjávarrétta 68 krónur, kjötrétta 76 krónur, sæturétta 30 krónur og osta 35 krónur.

Þriggja rétta máltíð með hálfri flösku af ódýru víni og kaffi ætti því að meðaltali að kosta 170 krónur á Horninu. Það er heldur dýrara en á venjulegum millistöðum með 155-159 króna verðlagi, en mun ódýrara en í fínu 192-213 króna stöðunum.

Að þessu sinni fær Hornið sex í einkunn fyrir mat, níu fyrir vínlista, átta fyrir þjónustu og átta fyrir umhverfi. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnin með tveimur, koma út 71 stig af 100 mögulegum.

Vegin meðaleinkunn Hornsins er því sjö.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Rán

Veitingar

Skrínan hefur skipt um nafn og heitir nú Rán. Nafnið felur ekki í sér sjálfsgagnrýni á starfsemina, sem þarna fer fram, heldur heitir staðurinn í höfuðið á konu Ægis, enda hefur sjávarlífsstíll hússins aukizt nokkuð við breytinguna.

Skrínan var farin að batna mjög, áður en eigendaskipti urðu um síðustu áramót. Hún hefur batnað enn síðan þá og er nú orðin hin frambærilegasta matstofa í verðflokki Vesturslóðar, Torfunnar og Asks, í þriðja verðflokki af fimm.

Breytingar á salnum felast einkum í, að hluti innréttinga hefur verið færður eða numinn brott. Staðurinn er því opnari og stílhreinni en áður og sjávarlífsskreytingarnar njóta sín betur. Ofhleðsla innréttinga er að mestu horfin.

Franskir bíósjómenn

Rán er snyrtilegri en áður. Dúkar, lifandi blóm og kerti eru á borðum. Létt og þægileg tónlist er leikin á orgel. Andrúmsloftið er því orðið hentugt til þægilegrar kvöldstundar, ef menn sætta sig við hin bröttu bök básanna.

Þjónar eru klæddir eins og franskir farmenn í bíómyndum, í stykkjóttum skyrtum, með rauð axlabönd, rauða klúta um háls og derhúfur. Þeir stóðu sig vel, að öðru leyti en því, að reikningurinn var á minnisblaði, ósundurliðaður og of hár.

Enn var í gangi vínlistinn frá Skrínunni, fremur lélegur. Af rauðvínum mátti þó finna Chateauneuf-du-Pape og Chianti Antinori. Og af hvítvínum Bernkasteler Schlossberg, Wormser Liebfrauenstift og Gewürztraminer.

Allt frá botni upp í topp

Hinn langi matseðill Skrínunnar var enn á boðstólum, en matseðill dagsins hafði verið lengdur töluvert og taldi nú átta rétti. Þar að auki var boðið upp á svonefndan hraðrétt, þ.e. súpu, aðalrétt og gos eða mjólk á 60 krónur.

Matreiðsla er hér sérkennileg og engan veginn auðflokkuð. Margir réttir reyndust góðir, aðrir sæmilegir og tveir fóru út um þúfur. Það er greinilegt, að franski kokkurinn getur verið bæði góður og lélegur á einu og sama kvöldinu.

Ef miðað er við matreiðslu kolkrabba, reykts lax, graflax, kæfu, hrásalats, lambakótiletta og frómass, reyndist hún með hinu bezta í prófun Vikunnar á íslenzkum veitingahúsum. Vel reyndist líka soðna grænmetið, sem var ekki úr dós.

Á hinn bóginn mislukkuðust gersamlega pönnusteiktur skötuselur og soðinn lax í álpappír. Ennfremur voru hveitisósurnar þungar, óhrjálegar og ólystugar. Ef menn endilega vilja búa til hveitisósur, er nauðsynlegt að gera það vel.

Lifrarkæfa fín og frönsk

Efst á matseðli dagsins var góður graflax með sæmilegri sinnepssósu og trénuðum spergli. Síðan kom reyktur lax, mjög mjúkur, vel reyktur, bragðsterkur, enda vel saltur. Hann var hæfilega mildaður með hrærðu eggi.

Frönsk lifrarkæfa matreiðslumeistarans var hið mesta lostæti, gróf og bragðsterk, eins og slíkar kæfur gerast beztar. Kolkrabbinn var mjög meyr og góður, borinn fram með sæmilegum hrísgrjónum og anzi miklu af of sterkri sósu.

Enn mátti finna á matseðli dagsins grísahryggsneiðar, fylltar með lauk, sæmilegan mat, ef við létum hina þykku og ókræsilegu og raunar of sterku sveppasósu eiga sig. En nú fór líka að síga á ógæfuhlið seðils dagsins.

Kokkurinn úti að aka

Pönnusteikti skötuselurinn var sullulegur og hafði gersamlega týnt náttúrulegu bragði sínu. Verstar voru þó pönnusteiktar rækjur, sem eru óætar í sjálfu sér og spilla þar að auki öllu bragði matarins, sem þær fylgja.

Þegar álpakkinn með soðna laxinum var opnaður, gaus upp mikil lykt af sólselju. Erfitt var að finna laxinn á kafi í hálfu stykki af bráðnu smjöri og miklu magni af ógeðslegum, pönnusteiktum rækjum. Þetta var langversti lax ævi minnar.

Ekki fannst hið minnsta bragð af laxi, en þeim mun meira af sólselju, smjöri og rækjum. Franski kokkurinn virðist frá einhverju sveitahéraði, þar sem sjávarafurðir eru aldrað gums, sem bjarga þarf með einhverjum hætti.

Þótt Íslendingar kunni ekki mikið fyrir sér í matreiðslu, vita þeir þó, að laxbragð þarf að vera af laxi og skötuselsbragð af skötusel; að rækjur á að sjóða, en ekki pönnusteikja; og að smjör þarf að hafa í nokkru hófi.

Ekkert úr dós

Nú víkur sögunni frá matseðli dagsins, sem bar yfirskriftina “Matreiðslumeistarinn mælir með”. Hrásalatið, sem fylgdi aðalréttum fastaseðilsins, var vel ferskt, sérskorið fyrir hvern viðskiptavin og óvænt borið fram með bandarískri “dressingu”.

Í hrásalatinu var mestmegnis hvítkál og smávegis af tómati, gúrku og gulrótum. Í soðna grænmetinu, sem fylgdi aðalréttunum, var yfirleitt rósakál, gulrætur, tómatar og sítróna. Húrra fyrir því, að ekki einu sinni gulræturnar voru úr dós.

Lambahryggsneiðar aðalseðilsins voru ofsteiktar, en eigi að síður með sæmilega góðu og eðlilegu bragði. Þeim fylgdi skinka að úreltum, frönskum hætti, gífurlega þykk og óhugnanleg rauðvínssósa, svo og bræddur ostur.

Turnbautinn var rauður vel og meyr, en blóðlaus og bragðdaufur, borinn fram með sæmilegri, en of þykkri béarnaise-sósu. Sama sósa fylgdi þurrum, grilluðum kjúklingi. Hvorugt þótti mér vera merkilegur matur.

Lambakótiletturnar grilluðu voru það bezta, sem prófað var af aðalseðli Ránar. Þær voru matreiddar á góðan, franskan hátt, vel bleikar að innan, meyrar og góðar. Og svo mátti fá með þeim kryddsmjör í stað béarnaise-sósu.

Skin og skúrir

Þannig skiptust á skin og skúrir í þessari prófun Vikunnar. Ef hægt væri að skrúfa fyrir sósurnar og misþyrmingu sums hráefnis úr hafinu, væri Rán í hópi beztu matsölustaða landsins. Vonandi gerist það, því að hæfileikarnir eru til.

Hraðmáltíð dagsins kostaði 60 krónur. Meðalverð tveggja rétta af seðli dagsins var 130 krónur. Meðalverð forrétta fastaseðils var 29 krónur, súpa 14 krónur, fiskrétta 54 krónur, kjötrétta 97 krónur og sæturétta 20 krónur.

Þriggja rétta máltíð af fastaseðli með hálfri flösku af ódýru víni og kaffi ætti því að meðaltali að kosta 153 krónur eða þrjá fjórðu af því, sem slík máltíð kostar í dýru húsunum. Rán er í verðflokki Torfunnar, Vesturslóðar og Asks.

Matareinkunn Ránar er sex og gæti með lítilli fyrirhöfn orðið átta, vínlistaeinkunnin fimm, þjónustueinkunnin sjö og umhverfiseinkunnin átta. Ef matareinkunn er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnin með tveimur, koma út 65 stig.

Vegin heildareinkunn Ránar var því að þessu sinni 6,5, hin sama og Vesturslóðar, hærri en Asks og lægri en Torfunnar.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Askur

Veitingar

Eins og við mátti búast hafa hinir nýju og athafnasömu eigendur Asks á Laugavegi 28 tekið til hendinni og lyft veitingahúsinu úr þeirri niðurlægingu, sem það var í, þegar Vikan prófaði húsin síðast fyrir rúmu ári.

Askur er svo sem ekki orðinn nein himnasæla. En hann er í fyrsta lagi orðinn tandurhreinn og snyrtilegur. Í öðru lagi býður hann upp á sómasamlegan mat. Og í þriðja lagi eru gestir ekki lengur látnir borga fleira en þeir hafa keypt.

Hinn mikli askur á miðju gólfi er ekki í stíl við gömlu innréttingarnar, sem hafa haldið sér að nokkru leyti. Það væri synd að segja Ask smekklegan í útliti, þótt gaman sé að gömlu fjölskylduljósmyndunum.

Nú er komin full þjónusta í Aski, til mikilla bóta. Það skyggir þó á stjanið við gesti og stemmninguna, að borð eru ekki dúkuð eins og t.d. á Torfunni, Rán og á Vesturslóð, þremur veitingahúsum í sama verðflokki og Askur.

Heppinn var ég

Hér er boðið upp á eitt rauðvín og annað hvítvín hússins. Sem betur fer heitir hið ágæta Chianti Classico eftir höfundi þessarar greinar, meðan Sigmar verður að sæta hinu lítilfjörlega Liebfraumilch hvítvíni.

Sagt er, að norskir harðlífisseggir hafi krukkað eitthvað í eldhúsið, trúboðar færibanda- og milligrammamatreiðslu þeirrar, sem ættuð er frá bandarískum keðjumatstofum og á vafalaust eftir að ríða hér húsum sem aðrar plágur.

Engum þarf að koma á óvart, þótt undirritaður sé afar lítið hrifinn af hinni gerilsneyddu, sviplausu, menningarsnauðu matreiðslu keðjuhúsa, ekki sízt ef hún er hingað komin fyrir milligöngu mataráhugalausrar þjóðar.

Segja verður Aski til hróss, að hann ber ekki nein sérstök örkuml hins norsk-ameríska trúboðs. Matseðillinn og matreiðslan eru ekki neitt tiltakanlega ópersónuleg, þótt ekki sé þar heldur neitt ævintýralegt að finna.

Rækjur í sósu hvítvíns og tómata voru bornar fram með sítrónubátum, blaðsalati, steinselju, ristuðu brauði og smjöri. Þessi kaldi forréttur er gamalkunnur og traustur, enda brögðuðust rækjurnar ágætlega.

Smálúðuflök, bökuð með osti og sósu úr sveppum, rækjum, papriku og tómati, voru góð. Fiskurinn var að vísu þurrari en ástæða er til. En jukkið, sem fylgdi, var gott og gerði réttinn í heild að lystugum mat.

Indversk karríkjötsúpa var sneisafull af kjúklingakjöti, snarpheit, saðsöm og mjög góð. Þetta er nýstárlegur réttur hér á landi og verður líklega sá, sem helzt dregur mig til endurfunda við þennan stað.

Glóðarsteikt nautalund, með kryddsmjöri, hrásalati, frystu blandgrænmeti, bakaðri kartöflu og ýmsu fleiru, var bragðgóð, en ekki nógu meyr, þótt hrásteikt væri. Hrásalatið var fremur hversdagslegt úr gulrótum og hvítkáli.

Fryst grænmeti gott

Frysta grænmetið, sem fylgdi þessum og mörgum fleiri réttum Asks, er umtalsverð endurbót á dósagrænmetinu, sem tröllríður íslenzkum veitingahúsum. Ekki spillti fyrir, að suðan á því var nett, raunar óvenjulega snögg.

Kínverskar pönnukökur voru ekki merkilegur matur, en nokkuð bættu úr skák hin stinnu og góðu hrísgrjón, sem fylgdu, svo og karrísósan. Hins vegar var pitsa með nautakjöti og sveppum aldeilis ljómandi góð á bragðið.

Grillsteiktur kjúklingur með appelsínusósu, soðnu grænmeti, hrásalati og ýmsu fleiru var í sæmilegasta lagi. Eftirminnilegust var ágæt appelsínusósan, sem var skemmtileg tilbreytni frá hinum stöðluðu sósuhefðum þessa lands.

Lambasneiðar með karrísósu, hrísgrjónum, ananas, soðnu grænmeti, hrásalati og hinu og þessu öðru voru rauðar, meyrar, safaríkar og góðar. Hrísgrjónin voru líka í bragðbetra lagi, en sósan var í hinu fullkomna meðallagi.

Glóðarsteiktar, tvöfaldar lambakótilettur voru bezti matur þessarar prófunar, bornar fram með sítrónusmjöri, bökuðum kartöflum, soðnu grænmeti, hrásalati, sveppum og papriku. Líklega er lambakjötsmatreiðsla vor að blómstra.

Ferskjuís, súkkulaðiís og appelsínuís voru vel úti látnir og góðir á bragðið. Má kannski fremur þakka það Mjólkursamsölunni en Aski. Ís er yfirleitt eini öruggi eftirrétturinn á íslenzkum matseðlum.

Matreiðslumaðurinn varaði við ostabakkanum, þar sem ekki var að þessu sinni til camembert, tilsitter, óðalsostur og maribu kúmen, þótt auglýstir væru á hverju borði. Við þrjóskuðumst við og losum jafnframt ostinn undan einkunn.

Með ostunum, gouda, Króks, gráða, pipar, hnetu og smurosti, fylgdi m.a. klasi vínberja, sem út af fyrir sig er vel til fundið. En þá þarf líka að fela einhverjum í eldhúsi að tína brott þau ber, sem ekki teljast frambærileg.

Nokkuð hátt verð

Réttur dagsins með súpu kostaði 90 krónur. Miðjuverð forrétta var 34 krónur, súpa 14 krónur, fiskrétta 54 krónur, kjötrétta 92 krónur, sæturétta 17 krónur og ostrétta 31 króna, semsagt í þriðja verðflokki af fimm.

Þriggja rétta máltíð með karöflu af víni og kaffi ætti að meðaltali að kosta 155 krónur eða svipað og á Vesturslóð og í Torfunni. Í gæðasamanburði við þau hús finnst mér þetta verð hátt, þótt það kunni að vera í lagi í öðrum samanburði.

Matareinkunn Asks er sex, vínlistaeinkunn fjórir, þjónustueinkunn sjö og umhverfiseinkunn fimm. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnirnar með tveimur, koma út 58 heildarstig af 100 mögulegum.

Vegin heildareinkunn Asks er því sex að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Blómasalur

Veitingar

Ég býð Blómasal Hótels Loftleiða velkominn í hóp landsins beztu veitingahúsa. Staðnum hefur farið svo fram á einu ári, að hann er kominn á bekk með Sögu og Holti, rétt á eftir hinu endurreista og ágæta Nausti.

Í síðustu prófun Vikunnar reyndist Blómasalurinn meira að segja ívið betri en Grillið og Holt, þótt munurinn sé raunar ekki marktækur. Þetta er vel af sér vikið af stað, sem sumpart er færibandastöð erlendra strandaglópa.

Landsins bezti vínlisti

Nærri öllu hefur farið fram í Blómasal. Mest átak hefur verið gert í vínlistanum, sem býður nú upp á allt hið bezta, er fæst í Ríkinu, og þar að auki öll þau vín, sem bezt hafa hlutfall verðs og gæða. Semsagt upp á tíu.

Hér má fá af rauðvínum Talbot, Chateauneuf-du-Pape, Chianti Antinori, Saint Laurent og Trakia. Og af hvítvínum Gewürztraminer, Bernkasteler Schlossberg, Wormser Liebfrauenstift Riesling og Edelfräulein, allt góð vín.

Þjónustan var komin í hinn áreynslulausa, skjótvirka og fagmannslega farveg, sem einkennir beztu veitingahús. Og það er ekki þjónunum að kenna, að Blómasalur notast enn við vatnsglös á fæti í stað réttra vínglasa.

Matreiðslan virðist hafa losnað við ójöfnur og er auk þess orðin hugmyndaríkari en áður. Alls kyns þjóðréttakvöld, sælkerakvöld, síldarkvöld og annars konar húllumhæ hefur haft jákvæð áhrif og komið fjöri í hlutina.

Seðill fjögurra sjávarrétta

Athyglisverðasta nýjungin er góður og tiltölulega ódýr sjávarréttaseðill með fjögurra rétta röð og vali milli smálúðu og skötusels. Það yljar óneitanlega um hjartarætur að sjá sífellt fleiri nota landsins beztu hráefni.

Forréttur þessa seðils var djúpsteiktur hörpuskelfiskur á makkarónum í bragðsterkri rjómasósu. Fiskurinn var sérstaklega meyr og góður, í hæfilega litlum steikarhjúp. Makkarónurnar voru hins vegar ekki mikils virði.

Belgíska fiskisúpan, sem fylgdi í kjölfarið, var raunar koníaksblandaða humarsúpan á fastaseðlinum, blönduð rækjum til viðbótar. Hún var vel rjómuð og góð á bragðið, en of mild. Eiginlegt fiskisúpubragð vantaði.

Smálúða og skötuselur

Eplabökuð smálúðuflök með sveppasósu voru annar aðalrétturinn á fiskiseðlinum. Þau voru góð, en borin fram undir óhóflega miklum osthjúp og með of mikilli kartöflustöppu. Soðna brokkálið hefði mátt missa sig, en sósan var góð.

Hinn aðalrétturinn, sem velja mátti um, var innbakaður skötuselur með karríhrísgrjónum. Hann var nokkru þurrari en þurft hefði að vera og hrísgrjónin voru í bragðsterkasta lagi. Eigi að síður var þetta hinn ágætasti matur.

Steiktur banani í kaffilíkjör, borinn fram með þeyttum rjóma, var fjórði og síðasti réttur þessa seðils. Þetta var skemmtilegur réttur. Bananinn var bakaður í hýðinu, ekki fallegur að sjá, en þeim mun betri á bragðið.

Fallega reykt smálúða

Enginn matseðill dagsins var að þessu sinni í Blómasal, enda var í fullum gangi sérstök síldarvika með fjölbreyttu hlaðborði. Af því var aðeins prófuð fallega reykt smálúða, ánægjuleg nýjung, sem reyndist sérlega vel.

Bakaðir sjávarréttir var nafn á forréttaskránni á rækjum, innbökuðum í deigi. Þetta var frambærilegur réttur, enda deigið í lagi, sem sést því miður of sjaldan hér á landi. En hvers vegna spilla góðum rækjum með deigi?

Fyllt smálúðuflök með humarsósu og sveppum voru á fastaseðlinum. Þau voru of þurr, en það hvarf í skugga hinnar frábæru sósu. Þess má líka geta, að hvítu kartöflurnar voru lítið soðnar og þess vegna hæfilega stinnar.

Hrásalatið, sem fylgdi aðalréttum Blómasalar var að þessu sinni einfalt og gott. Það var ekkert annað en ísberg og tvær tómatskífur með bandarískri “dressingu”. Hrásalöt hafa sem betur fer sigrað á íslenzkum veitingamarkaði.

Minnti á andakjöt

Bökuð lambabuffsteik í smjördeigi, fyllt rjómasoðnum fjallagrösum og borin fram með rauðvínssósu, olli vonbrigðum að þessu sinni, ekki sízt vegna þess að hún hafði verið svo frábær árið áður.

Réttir sem þessi eru ákaflega viðkvæmir í matreiðslu. Það kom líka í ljós, að lambakjötið var allt of steikt, bragðlaust og innan í allt of mikilli deighúð. Satt að segja minnti það á þurra önd, hvernig sem á því stendur.

Glóðarsteiktur turnbauti með béarnaise-sósu og rauðvínssósu var alveg ágætur, svona eins og maður á að geta búizt við, þegar svo dýr réttur er pantaður. Og rauðvínssósan var ágæt tilbreytni frá hinni hefðbundnu béarnaise-sósu.

Ísar eftirréttaseðilsins voru góðir eins og yfirleitt gerist hér á landi. Ostabakkinn var hins vegar ekki merkilegur, enda hráefnin ekki í lagi og þar að auki beint úr ísskáp. Kiwi og ferskur ananas á bakkanum björguðu málum.

Verðið hefur lækkað

Hinn fjögurra rétta sjávarseðill kostaði aðeins 105 krónur og eru það góð kaup. Miðjuverð forrétta á fastaseðli var 45 krónur, súpa 23 krónur, fiskrétta 69 krónur, kjötrétta 107 krónur, sæturétta 26 krónur og osts 41 króna.

Þriggja rétta máltíð af fastaseðli, með hálfri flösku af ódýru víni, kaffi og fatagjaldi, ætti að kosta að meðaltali 195 krónur í Blómasal. Það er svipað og á Hlíðarenda og orðið aðeins ódýrara en í Nausti, Grilli og Holti.

Matareinkunn Blómasalar Loftleiða var að þessu sinni átta, vínlistaeinkunn tíu, þjónustueinkunn níu og umhverfiseinkunn sjö. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnirnar með tveimur, koma út 82 stig af 100 mögulegum.

Vegin heildareinkunn Blómasalar er því átta.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Grillið

Veitingar

Grillið á Sögu er í ár eins og það var í fyrra, í hittifyrra, fyrir tíu árum og jafnvel fyrir hundrað árum, ef það hefði verið til þá. Tíminn líður ekki hér, heldur stendur í stað. Grillið er sjálf kjölfesta íslenzkrar veitingamennsku.

Ekki virðist raga Grillið hið minnsta, þótt matreiðslan í Holti svífi til hæða árið 1980 og matreiðslan í Nausti árið 1981. Meðan aðrir veitingasalir rísa og hníga, heldur Grillið sínu beina striki eins og umheimurinn sé ekki til.

Vonbrigði útilokuð

Svo virðist sem útilokað sé að verða fyrir vonbrigðum í Grillinu. Sá, sem hefur 200 krónur aflögu til veizluhalds og vill ekki taka neina áhættu, ætti að verja þeim hér í þessu örugga og trausta virki íhaldsseminnar.

En hinn, sem vill reyna nýjungar, taka áhættu og lenda kannski á framúrskarandi rétti, ætti líklega fremur að prófa Naust eða Holt. Grillið er lítið fyrir að bjóða upp á kryddlegin lambainnlæri, skötu, karfa eða smokkfisk.

Ein breyting hefur orðið á Sögu, síðan Sigurvin Gunnarsson hætti í eldhúsinu. Hann hafði gaman af að leika sér að nýjungum og að létta fæðuna. Þá mátti segja, að fyrsti angi “cuisine nouvelle” hafi sprottið upp hér á landi.

Nú hefur íhaldssemin altekið Grillið, meðan aðrir matreiðslumeistarar hafa tekið upp merki Sigurvins í tilraunastarfsemi. Þetta er ekki sagt Sögu til lasts, því að hefðbundinn stíll getur verið jafngóður og nýr.

Þjónustan alltaf góð

Hinn fáránlega langi, 49 rétta matseðill er hinn hinn sami í Grilli og verið hefur, síðan ég man eftir mér. Þetta er hinn dæmigerði hótelmatseðill, allt niður í béarnaise-sósu með turnbauta og Café de Paris útgáfu millirifjasteikar.

Auðvitað er vínlistinn líka hinn sami og áður. Ekkert mark hefur verið tekið á skrifum mínum og annarra um misjöfn gæði léttra vína. 77 vín eru á boðstólum, flest einskis virði. Íhaldssemi getur semsagt gengið út í öfgar.

Af rauðvínum Grillsins má benda á Chateauneuf-du-Pape og Chianti Classico Antinori. Og af hvítvínunum er hægt að mæla með Gewürztraminer og Bernkasteler Schlossberg. Og svo fást líka óáfeng vín fyrir þá, sem eru í þurrkví.

Þjónustan í Grilli er eins góð og endranær, enda er þar sérstakur inspektor, sem hefur samfellt eftirlit með því, að ekkert beri út af. Og blessað ísvatnið, sem lengi var einkennistákn staðarins, er alltaf jafnríkulega skenkt.

Góður grænmetisvagn

Matreiðslan reyndist í prófun Vikunnar vera næstum því eins góð og í fyrra. Hin örlitla mismun til hins verra bætir Grillið okkur upp með aldeilis ljómandi góðum salatvagni með einkar frísklegu grænmeti og þremur salatsósum.

Þarna var laukur, paprika, ísberg, tómatar, gúrka, seljurótarstönglar, vinaigretta, þúsundeyjasósa og karrísósa. Ef frá er skilið of lítið edik í ediksósunni, var þetta allt mjög gott. Ég verð víst að taka aftur, að hér standi tíminn kyrr!

Hann gerir það hins vegar í soðna grænmetinu, sem fylgir á fremur staðlaðan hátt öllum aðalréttum Grills. Það voru franskar kartöflur, dósabelgbaunir, blómkál, bakaður tómatur og, merkilegt nokk, ferskir sveppir í stað dósasveppa.

Mér er ekki kunnugt um, að það hafi frétzt til annarra veitingahúsa landsins en Grills, að hér fást oft ferskir sveppir, innlendir og innfluttir, hin prýðilegasta vara. Þeir eru eitthvað annað en bragðlaus dósavaran.

Útúrdúr um grænmeti

Mér finnst miður, að gestir skuli vera neyddir til að sækja sér hrásalat sjálfir. Grillið er í þeim verðflokki, að salatvagninn ætti að vera á hjólum. Þá gætu þjónar rúllað honum um og sett hrásalat á diska að fyrirsögn gesta úr sæti.

Hér verð ég líka að skjóta því inn, að salatvagnar sem slíkir eru gastrónómísk þvæla. Í fyrsta lagi hættir salati til að versna, ef það liggur lengi saxað. Í öðru lagi er ekkert markmið í sjálfu sér að hafa mikið úrval tegunda.

Við vitum, að grænmeti er ákaflega misjafnlega gott. Á veturna borðum við til dæmis gersamlega bragðlausa tómata frá útlöndum. Í virtu eldhúsi á aðeins að afla þeirra tegunda á degi hverjum, sem þá eru góðar.

Fjölbreytni salatvagns gengur út frá því, að sumum finnist tómatar góðir yfirleitt, öðrum gúrka og hver geti blandað sér við hæfi. Á þessu er þó hinn fyrrgreindi galli, að tómatur er ekki sama og tómatur og gúrka er ekki sama og gúrka.

Sjávarkeimur kræklings
Glóðaður hörpuskelfiskur með rækjum og sveppum var stór og mjúkur, bakaður á hefðbundinn hátt undir of miklu magni af osti. Þetta var góður matur, þegar búið var að láta dálítið af ostinum til hliðar, svo að hann yfirgnæfði ekki.

Kræklingur með lauki, eggi og kapers var mjög góður og með sjávarkeim í bragðinu, mildari og betri en sá, sem við fáum í dósum úr Limafirði. Engin óþarfa atriði voru í meðlætinu, svo að í heild var þetta hinn náttúrulegasti réttur.

Grillaðir humarhalar í skelinni, með ristuðu brauði og brúnuðu smjöri, voru furðanlega stórir og raunar enn betri en í fyrra. Gestir þurfa bara að gæta þess að vera nógu snarir að hindra þjóninn í að spilla þeim með smjörinu.

Steikt smálúðuflök, með sveppum, lauk, seljurótarstönglum, mintu, brúnuðu smjöri og hvítum kartöflum, voru á matseðli dagsins, dálítið fitug, en frambærileg. Sveppirnir voru að þessu sinni ekki ferskir, heldur úr dós.

Lambalærið var bezt

Turnbauti með béarnaise-sósu var heldur meira en hrásteiktur, þótt beðið væri um hann hrásteiktan. Enda var byrjuð að koma í hann örlítil seigja, sem ekki á að vera, ef nógu snöggt er steikt. Að öðru leyti var hann góður, svo og sósan.

Heilsteiktar grísalundir með dósabelgbaunum, gulrótum, húðuðum kartöflum, papriku og hvítri sveppahveitisósu voru á matseðli dagsins. Þær hefðu verið ágætar, ef sósan hefði verið borin fram sér, svo að unnt væri að forðast hana.

Ofnsteikt lambalæri af Sögu-vagninum, með soðnu grænmeti, húðuðum kartöflum og lambasoði var á matseðli dagsins. Þetta var hápunktur máltíðarinnar. Kjötið var fallega bleikt og einstaklega ljúffengt, þótt ekki væri það séreldað.

Athyglisvert er, að í prófun þriggja beztu veitingahúsanna, Sögu, Nausts og Holts, kom alls staðar í ljós, að bezti maturinn var úr lambakjöti. Svo virðist sem íslenzkir matreiðslumenn hafi nú náð tökum á þessu skemmtilega hráefni.

Prófið þið kraumísinn

Sérrívættar pönnukökur voru á matseðli dagsins. Þær voru mjög góðar, einkum vegna lítils áfengisinnihalds sérrís. Áfengisbragðið yfirgnæfði ekki og pönnukökurnar voru ekki eins þungar í maga og hinar koníaks- eða líkjörsvættu.

Ísinn var frambærilegur, en ekkert sérstakur. Hins vegar var kraumísinn (sorbet) ágætur að venju, einn heppilegasti eftirréttur, sem hægt er að hugsa sér að lokinni mikilli og langri máltíð. Skömm er, að Íslendingar skuli ekki vilja hann.

Að lokum var prófaður bezti ostabakki landsins, einstaklega fjölbreyttur. Þar var rjómaostur og kotasæla, port salut og gouda, gráðaostur og kúmen maribu, svo og camembert, en sem betur fer engir ómerkilegir smurostar.

Að vísu voru camembert, port salut og gráðaostur lítt ætir, en það er ekki Sögu að kenna. Um langt skeið hafa þessir ostar verið meira eða minna óætir frá framleiðendum, sem skáka í skjóli landbúnaðar og innflutningsbanns.

Í hópi dýrustu og beztu

Réttur dagsins með súpu kostaði 113 krónur. Miðjuverð forrétta var 52 krónur, súpa 25 krónur, fiskrétta 96 krónur, kjötrétta 108 krónur, sæturétta 20 krónur og osts 37 krónur.

Þriggja rétta máltíð af fastaseðli ætti því, að hálfri flösku af ódýru víni, kaffi og fatagjaldi meðtöldu, að kosta 211 krónur á mann. Saga er .því í nákvæmlega sama verðflokki og Holt og Naust, í dýrasta verðflokki íslenzkra veitingahúsa.

Matareinkunn Grills var að þessu sinni átta, vínlistaeinkunn sex, þjónustueinkunn níu og umhverfiseinkunn sjö. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnirnar með tveimur, koma út 78 stig af 100 mögulegum.

Vegin heildareinkunn Grillsins eða Stjörnusalar Hótel Sögu er því átta.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Naust

Veitingar

Naust hefur í vetur blómstrað í annað sinn. Þessi boðstaður látinna konunga er nú í stakk búinn að gefa konungum að borða á nýjan leik og jafnvel mataráhugamönnum. Í upphafi þessa árs tók Naust við af Holti sem bezta matstofa Íslands.

Hér fyrr á árum var Naust lengi bezta veitingahúsið, en lenti svo á villigötum, meðan Holt og Saga skiptust á um forustuna. Matreiðsla Nausts fór út um þúfur, svo sem greinilega kom í ljós í prófun Vikunnar fyrir réttu ári.

Nú hefur þar orðið snögg breyting til hins betra. Matreiðslan í Nausti er farin að hæfa hinum frábæru húsakynnum og þjónustu staðarins. Mjög traustur fagmaður, Kristinn Kjartansson yfirmatreiðslumaður, á mikinn þátt í þessu.

Hraðvirk og fumlaus

Fyrst skal þó getið þess, sem bezt er í Nausti og hélt uppi virðingu staðarins á kæruleysisárum eldhússins. Það er þjónustan, sem nú er líka betri en nokkru sinni fyrr, hin bezta, sem fæst í veitingasölum þessa lands.

Aðall hennar er hin trausta fagmennska, þar sem hvergi vottar fyrir hofmóð né undirgefni. Hún er afslöppuð og fumlaus um leið og hún er hraðvirk og skjótráð. Í prófun Vikunnar reyndist hún lýtalaus með öllu.

Ekki tekur að telja upp öll smáatriðin, sem stuðla að þessu mati, allt frá ísvatninu, sem gestum er borið eftir þörfum, til reikningsins, sem var læsilegur, sundurliðaður og skiljanlegur. Þjónustan fær nú 10 í stað 9 í fyrra.

Nýr og betri matseðill

Matseðillinn í Nausti er gerbreyttur. Hinum fáránlega langa, 57 rétta matseðli hefur verið fleygt. Í staðinn er kominn skynsamlega stuttur, 25 rétta matseðill, sem ætti að vera eldhúsinu miklu viðráðanlegri.

Hitt finnst mér skrítið, að ekki skuli vera fleiri en fimm aðalréttir úr sjónum á fastaseðli matarhúss, sem heitir Naust, er innréttað eins og skip og stendur við höfnina. Gestir Nausts trúa kannski ekki, að fiskur sé betri en kjöt.

Ferskur fiskur er að vísu ekki matur, sem á heima á fastaseðli. Vegna síbreytilegs framboðs á hann að vera á matseðli dagsins. En prófun Vikunnar fór því miður fram á þorra, þegar seðill dagsins vék fyrir svokölluðum þorramat.

Verð máltíða af seðli dagsins er lítið lægra en frjálst val máltíða af fastaseðlinum. Seðill dagsins er því ekki ódýr lausn fyrir gesti, heldur vettvangur tilrauna eldhússins að brjótast úr viðjum fastaseðilsins.

Vínlisti úr stíl

Vínlistinn hefur líka verið rækilega grisjaður. En láðst hefur að endurbæta hann í leiðinni. Að vísu hefur verið bætt við praktvínunum Chateau Talbot og Hospices de Beaune, en þau eru bæði óþægilega dýr fyrir venjulega gesti.

Hin almennilegu hvítvín á listanum eru rieslingarnir tveir frá Worms og Rüdesheim í gæðum, er ekkert þurrt og húsum hæft fiskréttavín á boðstólum í Nausti.

Þar vildi ég að minnsta kosti biðja um Gewürztraminer. Og í rauðvínunum mundi ég óska eftir Trakia og Chateau de Saint Laurent, því að Chianti Classico Antinori er þar eini frambærilegi fulltrúi hinna ódýrari vína.

Fagur fiskur úr sjó

Pönnusteikt heilagfiski með rækjum, sítrónusmjöri og kartöflustöppu var greinilega fersk vara, mjúk og góð, borin fram vel heit. Ég áttaði mig þó ekki á tilgangi stöppunnar, en hún var lítil, sem betur fer.

Soðin smálúðuflök með krókettu, sítrónu, stöppu og kræklingasósu voru jafnvel enn betri. Þau voru líka úr ferskum fiski, mjúk og góð. Kræklingarnir í sósunni voru, sem betur fer, óvenjulega mildir og yfirgnæfðu ekki. Sósan var hárfín.

Glóðarsteiktir humarhalar í skelinni með ristuðu brauði, smjöri, sítrónu og stöppu (!) voru sérlega myndarlegir og góðir. En stappan var til óþurftar. Líklega sat púki á eldhúsbitanum og þeytti stöppu á alla diska, sem út fóru.

Skelflettur humar, pönnusteiktur í karrí, með hrísgrjónum, ananas, stöppu og karrísoði var kallaður “Special Lobster Treat” á matseðlinum. Hann var ótrúlega góður, þótt hann jafnist vitanlega ekki á við humar í skelinni.

Bezta hrásalatið

Hrásalatið, sem fylgdi öllum aðalréttum, var hið bezta, sem ég hef fengið í veitingastofu hér á landi. Það leiftraði af ferskleika. Ekki var það samt flókið að gerð, hafði aðeins að geyma gúrku, tómata og hvítkál.

Punkturinn yfir i-inu voru sósurnar tvær, sem fylgdu salatinu í sérstökum skálum. Hin betri var vinaigrette úr vínediki, olífuolíu og lauk. Hin hversdagslegri var líka góð, þunn dressing með sinnepsbragði.

Turnbauti með lifrarkæfu

Lambageiri með höm, tómötum og tómathamar(beikon)sósu var meyr og góður, feitur en ekki óþægilega feitur. Hömin sem slík var falleg og bragðgóð, en spillti fyrir lambakjötsbragðinu. Að sósunni var líka of mikið hamarbragð.

Tvöföld lambakótiletta með frönskum kartöflum, kartöflustöppu (!), steinselju og brúnu soði hét “Icelandic Lamb” á matseðlinum. Þetta var frábær matur, raunar bezti matur hússins. Soðið var einnig mjög gott og í stíl.

Pönnusteiktur kjúklingur með rjómasveppasósu var utangátta í hinni glæsilegu sveit réttanna. Hann var bragðdaufur, sem og hveitisósan, er fylgdi. En kjötið var meyrt og bragðið gott, að svo miklu leyti, sem það fannst.

Tournedos Rossini jöðruðu við fullkomnun eins og lambakótilettan. Upphaflega var fögnuður mestur yfir því, að enginn skyldi vera béarnaise-sósan. En síðan beindist fögnuðurinn að kjötinu sjálfu, er á því hafði verið bragðað.

Það var svo frábærlega meyrt, að hnífurinn lak í gegn og kjötið bráðnaði á tungu. Með því fylgdi lifrarkæfa, Madeirasósa og bökuð kartafla. Allt féll þetta vel hvert að öðru. Ekkert óþarfa meðlæti var til að skyggja á.

Heimalagaður ís var mjög góður. Sama var að segja um logandi pönnukökur í Grand Marnier, sem voru mun léttari en venjulegar Crepes Suzette. Og loks djúpsteikti camembert-osturinn, sem borinn var fram með bláberjasultu.

Dýrt en gott

Meðalverð þriggja rétta máltíðar af seðli dagsins í Nausti var 165 krónur. Meðalverð forrétta af fastaseðli var 55 krónur, súpa 28 krónur, fiskrétta 100 krónur, kjötrétta 100 krónur, sæturétta 23 krónur og osts 24 krónur.

Þriggja rétta máltíð af fastaseðli með hálfri flösku á mann af ódýru víni, kaffi og fatagjaldi ættu því að meðaltali að kosta 210 krónur, svipað og í Holti. Naustið er í hæsta verðflokki og gefur gestum ekki einu sinni ódýran möguleika á dagsseðli.

Aftur á móti er Naustið ekki bara í hæsta gæðaflokki íslenzkra veitingahúsa, heldur hreinlega bezta húsið í byrjun þessa árs. Staðurinn fékk í prófuninni níu fyrir mat, tíu fyrir þjónustu, fimm fyrir vín og níu fyrir umhverfið.

Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm og þjónustu- og umhverfiseinkunnin með tveimur, koma út 88 stig af 100 mögulegum. Vegin heildareinkunn Nausts er því níu. Bravó, Naust, og velkomið aftur á toppinn.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Holt

Veitingar

Ár matstofunnar í Holti var í fyrra. Þá neistaði Holt skærar en nokkurt annað íslenzkt veitingahús fyrr eða síðar. Þá stóð loksins eitt íslenzkt veitingahús jafnfætis kunnum erlendum matarmusterum sælkeranna.

Margir þurfa að leggja gáfur og orku í rekstur listaverks á borð við ágæta veitingastofu. En að öðrum Holtsmönnum ólöstuðum voru það þó ævintýri Skúla Hansen í eldhúsinu, sem framar öðru réðu reisn matsalarins.

Hin ágæta blekking

Hvar annars staðar í þessu landi fiskveiða er á einum og sama matseðli boðið upp á steiktan karfa, djúpsteikta keilu, grillaða smálúðu og rjómasoðna skötu, allt ilmandi listaverk úr ferskum, ófrystum hráefnum.

Þannig var dagsseðillinn 25. september í fyrrahaust. Erlend kona, sem tók þátt í þessari einstæðu fiskveizlu, fékk þá grillu í höfuðið, að í matargerð væru Íslendingar menningarþjóð, sem byggði á traustri hefð eigin hráefna.

Ég þagði auðvitað um, að Holt væri undantekningin, sem sannaði hina regluna. Um leið prísaði ég mig sælan að hafa þó slíkan stað við höndina til að villa um fyrir útlendingum, svo að við getum sýnzt menn með mönnum.

En nú eru Skúli og yfirþjónninn horfnir á braut til að stofna eigin matarmusteri. Meðan ég bíð í startholunum hljóta að læðast að áhyggjur vegna gamla staðarins. Spurningin er, hvað verði um Holt árið 1981.

Minna um listaverk

Við prófun Vikunnar um miðjan janúar virtist allt vera í góðu lagi. Staðurinn reyndist svipaður og hann hafði verið við prófunina rúmu ári áður. Matargerðin var orðin dálítið misjafnari, þjónustan nokkuð öruggari og rauðvínslistinn betri.

Holt var semsagt ennþá góður staður, þótt ekki væru framin þar listaverk á borð við þau, sem einkenndu staðinn allan síðari hluta síðasta árs. Holt hafði dalað frá þeim hápunkti, en var eigi að síður traust og gott sem fyrr.

Fiskréttirnir á dagseðlinum voru að þessu sinni gufusoðnar gellur og pönnusteikt rauðspretta, hvort tveggja úr ófrystum og ósöltuðum hráefnum og matreitt á lýtalausan hátt. Gellurnar voru bornar fram gratineraðar á stórri hörpuskel.

Á fastaseðlinum reyndust fiskréttirnir mun síðri, enda sennilega úr frysti. Smálúðan var of þurr og bragðdauf, en samt með þeim betri, sem fást í matstofum hér á landi. Smokkfiskurinn og skötuselurinn voru svo misheppnaðir.

Lambainnlærið er bezt

Að þessu sinni fengust ekki nautalundir í Holti. Enska buffið reyndi sitt bezta sem varaskeifa, en er og verður þó aldrei annað en enskt buff. Frá sjónarhóli steikarsinna var þar svo sannarlega skarð fyrir skildi.

Ekki var öll nótt úti, þótt nautið vantaði. Þorvaldur bóndi ræktar sjálfur svínin góð. Þar af leiðandi er Holt auðvitað upplagður staður fyrir þá, sem ekki hafa tekið trú á Jahve og Allah og eru þar að auki svínakjötssinnaðir.

Grísalundir Holts reyndust líka frábærar. Ekki sakaði, að í þeim var innbakaður gráðaostur, sem lyfti réttinum í heild í hæðir matargerðarlistar. En sveppasósan, sem fylgdi, var þó hveitisósa og dró úr ánægjunni.

Hátindur matreiðslu Holts var þó eins og áður kryddlegna lambainnlærið, sem ekki gaf hið minnsta eftir hinum fyrri, sem við höfum fengið hjá Skúla. Þetta var raunar bezti matur prófunarinnar, með klára tíu í einkunn.

Hjá Skúla var soufflé keikt og bólgið, sem vera ber, en nú var það hrunið og lítt spennandi. Ísar staðarins voru glæsilegir og góðir eins og fyrri daginn. Rommísinn fékk hæstu einkunn. Ostar eru ekki í boði, utan djúpsteiktur camembert.

Óáfeng vín á skrá.

Chateau Talbot og Trakia hafa bætzt í hóp ágætra rauðvína Holts, þar sem fyrir voru Chateauneuf-du-Pape og Chianti Classico Antinori. Gewürztraminer og Edelfräulein halda sem fyrr uppi merki hvítvínanna.

Holt býður upp á óáfeng vín, sem er til mikillar fyrirmyndar, heldur uppi stemmningu, þegar aðstæður banna örlitla ölvun. Og svo hefur Þorvaldur loksins leyft koníök, sem hann hefur ekki sjálfur umboð fyrir.

Hófsemi í meðlæti

Eitt bezta einkenni Holtsmanna er, að þeir hafa uppgötvað, að ótrúlegt sé, að fólk fari út að borða til að úða í sig kartöflum, gratineruðu blómkáli, rósakáli, grænum belgbaunum, sveppum, soðnum gulrótum og ýmsu öðru gumsi úr dósum.

Í Holti gildir semsagt sjálfur grunnmaturinn. Lítið er um óþarfa meðlæti. Ef frá eru skildar þungar hveitisósur, býður staðurinn upp á mat, sem ekki veldur þyngslum í maga, heldur örvar gáfulegar umræður um heima og geima.

Meðlætið er hins vegar of staðlað. Með fiskréttum fylgdu soðin kartafla, sýrðar gúrkur, sítrónubátur, steinselja og blaðsalat. Með kjötréttum fylgdu bökuð kartafla, brokkál, tómatbátur og steinselja.

Veikasta hlið Holts er svo hrásalatið, sem að þessu sinni var ellibrúnt ísbergssalat. Það er ekki nóg að taka trú á hrásalat, heldur verður að tilreiða það svo seint, að andrúmsloftið nái ekki að gera úr því beljufóður.

Að öllu samanlögðu er Holt virðulegur staður, sem gætir jafnvel mikilvægra smáatriða á borð við ísvatn og sérhannað saltbrauð úr heilhveiti. Meira að segja reikningurinn var greinilega skrifaður, sundurliðaður og skiljanlegur.

Ódýr seðill dagsins

Athyglisvert er, að súpa og réttur af seðli dagsins eru ekki dýr í Holti, hvorki í hádegi né að kvöldi. Miðlungsverð slíkrar tveggja rétta máltíðar var 72 krónur í Holti, en 65 krónur í Torfunni og 85 krónur á Vesturslóð.

Fastaréttirnir eru hins vegar dýrir. Þar er miðlungsverð forrétta 57 krónur, súpa 29 krónur, fiskrétta 80 krónur, kjötrétta 125 krónur, sæturétta 27 krónur og osts 24 krónur. Þetta er í hæsta verðflokki veitingahúsa.

Þríréttuð máltíð af fastaseðli með hálfri flösku af ódýru víni á mann og kaffi ætti að miðlungsverði að kosta 208 krónur á mann. Því má fremur benda á hinn tiltölulega ódýra og fjölbreytta seðil dagsins, sem líka hefur beztan fiskinn.

Að þessu sinni var matareinkunn Holts átta, einum lægri en í fyrra. Það er samt sem áður mjög góð einkunn. Munurinn felst helzt í minni gæðum sjávarrétta, óvandaðri handbrögðum í erfiðum eftirrétti og skorti á nautalundum.

Þjónustueinkunnin hækkar hins vegar úr sjö í átta vegna meiri kunnáttu starfsliðs í sal. Og vínlistaeinkunnin hækkar úr sex í átta vegna aukins framboðs góðra vína. Umhverfiseinkunnin er sjö, óbreytt af eðlilegum ástæðum.

Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnir með tveimur, verða heildarstigin samanlagt 78 af 100 mögulegum. Vegin heildareinkunn Holts er því átta, hin sama og í fyrra, aðeins með breyttum áherzlum.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Hlíðarendi

Veitingar

Hlíðarendi er fallega innréttað veitingahús í húsakynnum við Nóatún, þar sem áður var Sælakaffi. Að utanverðu er staðurinn fremur skuggalegur og fráhrindandi, en þeim mun meira aðlaðandi, þegar inn fyrir dyr er komið.

Dökkar og þungar innréttingarnar hafa á kvöldin sérstaklega þægileg áhrif. Dökkbrúnn litur á veggjum og bekkjum er mest áberandi, en undir spila sauðalitir í prjóni og vefnaði á veggjum og rauður litur í borðdúkum og munnþurrkum.

Hér er mikil áherzla lögð á stíl. Það kemur fram í klæðnaði þjónustuliðs, snyrtilegu skipulagi á bar, blómaskreytingum og kertum á borðum, smekklegum borðbúnaði, merktum Hlíðarenda. Þá eru sætin óvenjulega þægileg.

Ekki hefur óhóflega miklu verið kostað til sumra þátta. Falska tréloftið er til dæmis mjög einfalt í sniðum og smekkleg loftljósin sömuleiðis. Og forngripirnir á breiðum bakveggnum eru framleiddir með nútímatækni.

Bezti vínlistinn

Þegar Vikan prófaði Hlíðarenda, var staðurinn eingöngu opinn á kvöldin og þá sum þeirra með ýmsu tilstandi, sem eiginlega er óviðkomandi veitingastað. En frá mánudegi til miðvikudags máttu gestir eiga von á að vera í friði.

Þjónusta reyndist ósköp þægileg, eftir öllum siðareglum og nægu ísvatni. Það var ekki þjónustunni að kenna, að í húsinu eru fjórir sex sæta básar, þar sem ógerningur er að þjónusta þá, sem innst sitja. Handlang var því óhjákvæmilegt.

Vínlistinn í Hlíðarenda er með hinum beztu, ef ekki sá bezti, sem ég hef séð hér á landi. Þar vantar ekkert af beztu vínunum í Ríkinu, nema Gewürztraminer í hvítu og Chianti Classico Antinori í rauðu. Er hann þó ekki langur.

Í hvítvínum er m.a. boðið upp á Bernkasteler Schlossberg, Hochheimer Daubhaus, Kallstadter Kobnert, Wormser Liebfrauenstift og Edelfräulein, í rauðvínum Chateau de Saint Laurent, Chateauneuf-du-Pape, Trakia og Chateau Talbot.

Of langur matseðill

Matseðillinn er í lengsta lagi, 37 rétta, miðað við möguleika hússins á stöðugu framboði góðra hráefna. enda var nautakjöt ekki til, þegar Vikan prófaði staðinn. Og því miður var ekki boðið upp á neinn matseðil dagsins.

Fátt er spennandi á matseðlinum, nema nafngiftir eftir Njáli og Bergþóru, Gunnari og Hallgerði. Réttirnir eru yfirleitt þeir, sem búast má við á íslenzkum veitingahúsum, ef frá er skilinn kjúklingaréttur, sem síðar verður sagt frá.

Hlíðarendi hefur þá skemmtilegu tilbreytni að bjóða mat fyrir jurtaætur. Það var sojabaunabuff og linsubaunaréttur með t.d. hrásalati. Allt of lítið er um, að tekið sé tillit til sérstakra matarskoðana af slíku tagi.

Hrásalatið var eitt hið bezta í bænum, einfalt, ferskt og nýlagað úr ísbergi, gúrku og papriku og aðeins bragðbætt með sykruðum sítrónusafa. Annar matur prófunarinnar reyndist dálítið upp og ofan, en þó enginn slæmur.

Næst á eftir hrásalatinu mætti nefna brauðhnúðana, sem bornir voru fram volgir. Að öðru leyti var meðlæti í hinum hefðbundna dansk-íslenzka stíl með óhóflega miklu magni af soðnu dósagrænmeti, meira eða minna stöðluðu.

Einn forrétturinn heitir “Hallgerðar eftirlæti, ofnbakaður sjávarréttur” og hef ég grun um, að það sé smækkuð útgáfa af aðalréttinum “Bergþóru uppáhald, innbakaðir sjávarréttir”. Hann olli nokkrum vonbrigðum.

Þetta reyndist vera sæmilegur hörpuskelfiskur ásamt sveppum og sósu með vægu humarbragði, bakaður í fisklaga brauðformi úr pædeigi. Með honum fylgdu skemmtilega lítið sýrðar gúrkur og fremur seigt, líklega fryst brokkál.

Rjómasoðið spínat

Skötuselurinn var djúpsteiktur í allt of miklu deigi og með of miklu steikarolíubragði. Að öðru leyti var fiskurinn ágætur. Enn skemmtilegra var þó rjómasoðið spínatið, sem ég var þó ekki viss um, að passaði endilega við skötuselinn.

Ofnbökuð smálúða með ágætri Mornay-sósu var góð á bragðið, en þó þurrari en efni standa til. Gífurlega mikið af rækjum og sósan góða réðu úrslitum um, að rétturinn var mjúkur og góður. Dósasveppir, hvítar kartöflur og rósakál fylgdu.

Kryddlegnar lambalærissneiðar voru ekki alveg grásteiktar og héldu því nokkrum safa og voru góðar á bragðið. Þær voru þó þurrari og bragðminni en hliðstæðar, frábærlega bleikar steikur í Holti, Nausti og á Sögu.

Með sneiðunum fylgdu gervilegar franskar kartöflur, soðnar gulræður, áðurnefnt brokkál, laukur og milt kryddsmjör. Í fyrra hefði ég lofað þennan rétt meira, en þá voru ekki orðnar þær framfarir í matreiðslu lambakjöts, sem nú sjást víða.

Úrbeinaðar lambakótilettur á spjóti voru minna eldaðar og þar af leiðandi betri, hæfilega meyrar, en nokkuð feitar. Með þeim fylgdu bökuð kartafla, brokkál, maís, paprika, dósasveppir og frambærileg béarnaise-sósa.

Óvenjulegur kjúklingur

Bezti matur prófunarinnar voru fylltir kjúklingar með rauðvínssósu. Þetta var eini óvenjulegi rétturinn, mjög meyr og ljúfur á bragðið, borinn fram í tveimur rúllum með hakki innan í. Betri kjúkling hef ég ekki fengið.

Með kjúklingaréttinum fylgdi rósakál, soðnar gulrætur og bökuð kartafla, svo og dálítið spennandi hveitisósa úr rauðvínssoði, ákaflega mögnuð sósa, sem þó hefði gjarna mátt vera bragðminni. En ég gæti hugsað mér að fá þennan rétt aftur.

Jarðarberjarísinn var borinn fram með gríðarstórum dósajarðarberjum og þeyttum rjóma. Ís “að hætti Hlíðarenda” var blanda ýmissa ístegunda með feiknarlega miklum þeyttum rjóma. Hvort tveggja var frambærilegt, eins og íss er von og vísa.

Pönnukökur með rjóma voru full ljósar og með votti af hveitibragði. Djúpsteiktur camembert var góður, að öðru leyti en því, að steikarhjúpurinn var mörgum sinnum of þykkur til að vera ætur. Við djúpsteikingu þarf greinilega meira lag.

Ostabakkinn var fallega fram reiddur, en lítilfjörlegur að innihaldi. Þar var camembert með hörðum kjarna, of sterkur port salut, hvort tveggja framleiðendum að kenna. Einnig smurostur, hnetuostur, kokkteilber og ristað brauð.

Meðan ostaframleiðsla er í lægð hér á landi er betra að bjóða upp á gouda, Króksost, óðalsost, rjómaost og kotasælu og kannski tilsitter. Hann hefur þó oft verið lélegur eins og gráðaostur, port salut og camembert.

Dýr veitingastaður

Miðjuverð forrétta á Hlíðarenda var 54 krónur, súpa 22 krónur,.fiskrétta 73 krónur, kjötrétta 124 krónur, sæturétta 20 krónur og osta 26 krónur. Einn réttur með súpu ætti því að meðaltali að kosta 121 krónu, sem er dýrt.

Þriggja rétta máltíð með hálfri flösku af ódýru víni og kaffi ætti að kosta 198 krónur, örlítið minna en hjá dýrustu húsunum, þar sem slík máltíð kostaði um svipað leyti 210 krónur. En Hlíðarendi sleppur þó niður í næstdýrasta flokk.

Fyrir mat fær Hlíðarendi sex í einkunn, níu fyrir vínlistann, átta fyrir þjónustu og átta fyrir umhverfi. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnirnar með tveimur, koma út 71 heildarstig af 100 mögulegum.

Það þýðir, að Hlíðarendi fær sjö í heildareinkunn og er þar með í öðrum gæðaflokki íslenzkra veitingahúsa.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Gafl-inn

Veitingar

Gafl-inn við Reykjanesbraut í Hafnarfirði er lítil og notaleg 44 sæta tería, sem veitir hálfa þjónustu þeim, sem panta tvíréttað. Aðall hennar er hreinlæti og snyrtimennska. Maturinn er einfaldur og mjög svo frambærilegur.

Ekki er mikið lagt í innréttingar, sem eru þó stílhreinar. Æsilegur, rauður litur er áberandi í veggjum, ljósum og borðplötum, Plastbekkir og pílárastólar eru brúnir. Gluggatjöld eru stutt og skýla gestum lítt fyrir aðvífandi umferð.

Inn af veitingasalnum er eins konar veizlusalur, sem má panta fyrir fundi og veizlur. Hann hefur það umfram hinn, að ekki er útsýni til bíla á plani og hraðrar umferðar Keflavíkurvegar. og þar eru veitt vín, en ekki merkileg.

Matseðillinn í Gafli ber teríusvip. þar er ekkert óvenjulegt og framboð rétta er skynsamlega takmarkað. Þá er einnig í boði breytilegur réttur dagsins með súpu. Að öðru leyti helgast staðurinn af hamborgurum og heimsendinum.

Hrásalatið var úr gulrótum og hvítkáli og fylgdi öllum aðalréttum. Það var ekki vætt, ekki einu sinni úr sítrónusafa, og var því fremur dauflegt. Sama er að segja um þykka og volga Wellington-súpu dagsins með maískornum.

Þær frönsku í lagi

Frönsku kartöflurnar, sem fylgdu sumum réttum, voru ekta, vel steiktar, stökkar hið ytra og mjúkar hið innra, alveg lausar við feitibragð. Á hinum spilltu gervikartöflutímum nútímans er þetta einstaklega ljós punktur.

Grillaðar lambalærissneiðar voru að þessu sinni réttur dagsins, góðar og óvenjulega lítið ofsteiktar, svo að vottaði fyrir roða. Þetta var gott kjöt með fremur góðri sveppasósu og ómerkilegum, en ekki ofsoðnum dósabaunum.

Grillaður kjúklingur var mjög meyr og bragðgóður, í fylgd með sæmilegri kokkteilsósu. Margur dýr staðurinn býður upp á lakari kjúklinga. Heldur síðri voru grillaðar kótilettur, dálítið þurrlegar, en alls ekki seigar.

Innbakaður fiskur var í rauninni djúpsteiktur, kannski vegna misskilnings. Hann var bæði góður og vel heitur, borinn fram með hvítum kartöflum. Hrísgrjónin voru sjóðheit og nákvæmlega hæfilega lítið soðin. Karrísósan fór öllu þessu vel.

Kínversku pönnukökurnar voru þær beztu, sem ég hef fengið hér á landi. Þær voru þunnar og góðar, fullar af hrísgrjónum, kjöti og karrí, mátulega bragðsterkar. Þeim fylgdu sömu, ágætu hrísgrjónin og lýst var hér að framan.

Mínútusteikin var í stórum dráttum rétt matreidd úr góðu hráefni. Hún var borin fram með ágætu sítrónusmjöri og hæfilega létt brúnuðum kartöflum. En hún var allt of mikið pipruð, raunar gasalega pipruð.

Misræmi í verði

Súpa dagsins kostaði 6 krónur, fiskréttir að meðaltali 37 krónur, kjötréttir 71 krónu, ís 10 krónur. Miðlungsverð þriggja rétta máltíðar var 71 króna með kaffi. Þetta ætti að teljast í lægsta verðflokki íslenzkra veitingahúsa.

Hins vegar var réttur dagsins með súpu furðulega dýr, 69 krónur. Til samanburðar má nefna, að réttur dagsins með súpu kostar þó ekki nema 72 krónur í Holti og er helmingi betri, með fullri virðingu fyrir þessum ágæta stað.

Matreiðslan var upp á sex í einkunn, sem er gott af teríu að vera. Umhverfiseinkunnin er líka sex. vínlistinn í innri salnum fær fjóra í einkunn. Þar sem þjónustan er takmörkuð, þótt hún sé góð sem slík, fást þar ekki nema fjórir.

Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, umhverfis- og þjónustueinkunnirnar með tveimur, fást samanlagt 54 heildarstig. Það þýðir, að Gaflinn fær 5,5 í vegna meðaleinkunn, sem er bara mjög gott af teríu að vera.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Vesturslóð

Veitingar

Vesturslóð er ein af þessum litlu veitingastofum, sem opnað hafa á undanförnum misserum, íslenzkri veitingamennsku til nokkurrar fremdar. Hún hefur ýmsa galla og einkum þó takmörkuð markmið, en er að öllu samanlögðu ánægjuleg viðbót.

Þjónustan er ákaflega geðug og umhverfið þægilegt. Matseldin er sómasamleg, þótt greina megi, að á hana er lögð minni áherzla en á það, sem kalla má andrúmsloft staðarins. Með Vesturslóð er aðallega verið að búa til umgjörð um borðhald.

Vesturslóð reynir eins og sumir fleiri veitingastaðir að skipta um yfirbragð milli hádegis og kvölds. Í hádeginu er haft bjart og reynt að laða að viðskiptavini á þönum. Á kvöldin er skipt yfir í hálfrökkur til að fá þá, sem vilja slaka á.

Dökk furan gefur tón

Þetta lánast, einkum þó á kvöldin. Engu máli skiptir, þótt stíllinn sé einhvers staðar á milli Provence og Texas. Dökk furan upp eftir veggjum og í lofti gefur ásamt trégólfi hinn þægilega tón. Borð og stólar eru líka úr tré.

Innréttingin flippar meira í hastarlegu veggfóðri og undarlegum gervisvölum í lofti, í hnökkum frammi við dyr og í stórri nektarmynd innan um siðsama kúreka á smærri myndum. Svona bang-bang veitingahúsastíll er víst í tízku núna.

Eftirminnilegri eru þó daufar luktir á veggjum, stór ljósakróna í lofti, kerti logandi í gífurlega vaxdreyptum flöskum á borðum og einkum þó vel hirtar jólarósirnar á köflóttum dúkum, allt frekar til þess fallið að gleðja matarsinnið.

Umhverfið er þó slegið út af elskulegri þjónustu, ekki bara af hálfu eigandans, heldur líka annars starfsfólks. Og ekki bara við illræmdan höfund þessarar greinar, heldur líka við aðra gesti við önnur borð.

Kúrekatónlistin að baki var lágvær eins og vera ber. Hún heyrðist bara, þegar þögn sló á mannskapinn. Hins vegar mætti gjarna fjölga kassettum, svo gestir þurfi ekki að heyra sömu lögin þrisvar sinnum í einni matarsetu.

Fyrst og fremst grillstofa

Matseðill Vesturslóðar telur 30 fasta rétti og einn rétt dagsins með súpu á undan. Þessi áherzlumunur á föstum og lausum réttum sýndi á einfaldan hátt, að hér mátti ekki búast við neinu svifi til gastrónómískra hæða.

Margir réttir dagsins í hlutfalli við fáa fastarétti mundu hafa gefið í skyn, að í eldhúsinu væri í senn lögð áherzla á hið breytilega framboð matvæla úti í bæ og á sífrjóar hugmyndir matreiðslumanna, sem vilja ekki staðna.

Vesturslóð er fyrst og fremst grillhús, sem býður upp á ellefu grillrétti, sex aðra kjötrétti, fimm fiskrétti, fjóra forrétti, fjórar súpur og fimm eftirrétti, þar af tvo ostrétti. Flest var þetta á troðnum slóðum.

Hrátt hangikjöt kom á óvart

Hin ánægjulega undantekning var hrátt hangikjöt, sem boðið var upp á í forrétt. Það var fallega rautt, mjúkt og gott, en of salt að þessu sinni, svo sem veitingamaðurinn benti raunar á og varaði við, þegar pantað var.

Hráa hangikjötið var borið fram með dósaspergli, hrárri eggjarauðu, gúrku, tómati, steinselju og salatblaði. Það var ekki nógu þunnt skorið og náði ekki þeim gæðum, sem ég hef prófað hjá Wessmann á Sögu.

Eigi að síður var þetta frambærilegur réttur og skemmtileg tilbreytni frá hversdagslífinu. Með réttri söltun, fínum skurði og ferskri melónusneið í stað dósaspergils yrði þetta að hreinræktuðum herramannsmat.

Aðrir forréttir voru úr ríki hafsins, graflax, hörpuskelfiskur og humar. Ég prófaði hörpudiskinn, sem var sæmilegur, frystur fremur en niðurlagður. Hann var borinn fram innan um allt of mikið meðlæti á stórri og fallegri hörpuskel.

Humarinn olli mér vonbrigðum, einkar smávaxinn og bragðlaus. Hann var borinn fram í bökuðu snittubrauði með hvítlaukssmjöri. Verst var þó bragðsterk tartar-eggjasósan, sem hæfði engan veginn fíngerðu humarbragði, heldur drap það alveg.

Saltbakað snittubrauð

Súpa dagsins reyndist vera sveppasúpa fastaseðilsins, vel heit og bragðgóð. Meiri aðdáun vakti þó saltbakað snittubrauðið, volgt og gott, borið fram með smjöri. Það virtist ekki aðeins fylgja súpum, heldur einnig öðrum forréttum.

Með öllum aðalréttum var borið fram gott hrásalat, sem einkum byggðist á hvítkáli, enda komið fram á hávetur. Gúrku- og tómatbitar sáust þó í bland. Ofan á var hæfilegt magn af mildri sinnepssósu, þeirrar ættar, sem kölluð er “dressing”.

Fiskréttaskráin freistaði lítt, þótt þar mætti sjá skötusel, gellur, rauðsprettu og lúðu. Allt hlaut þetta að vera úr frysti, úr því að það var á fastaseðli. Og allt er þetta viðkvæmt fyrir frystingu, nema kannski skötuselurinn.

Hann reyndist vera sæmilega góður, með réttu bragði. Hann var djúpsteiktur í hveitihjúp úr vel gerðu deigi, en allt of miklu magni af því. Honum fylgdu hrísgrjón, niðursoðnar mandarínur, bananar, dósa-ananas, bakaður tómatur og hnetur.

Staðlað meðlæti og sósa

Öllum kjötréttum Vesturslóðar fylgdi nokkurn veginn sama staðlaða meðlætið, sæmilega ásjálegt, en of mikið. Þar var álbökuð kartafla, bakaður tómatur, hvort tveggja ágætt, grænar belgbaunir, paprika og sveppir, allt úr dós og óþarft.

Sýnishornið, sem valið var af grillréttaskránni, olli vonbrigðum. Það var sæmilega rauð kálfalund, of söltuð og of seig, borin fram með hversdagslegri béarnaise-eggjasósu, þeirri sem raunar fylgdi öllum kjötréttunum.

Kjúklingur leit vel út, þegar hann var borinn á borð. Hann var sæmilega bragðgóður, en í þurrara lagi, svo sem lenzka er hér, þegar menn passa ekki klukkuna nógu vel. Bæði kokkar og gestir hafa vanið sig á of langan eldunartíma.

Nautalund Alfredo var réttur dagsins að þessu sinni. Beðið var um hana lítið steikta, en hún kom miðlungi steikt, svo sem venja er í Ameríku, þakin óþarfri skinku. Þar fyrir utan var þetta hinn frambærilegasti matur, lítillega ofsaltaður.

Kveðjukoss kúrekans

Hápunktur prófunarinnar fólst í kryddlegnum lambalærissneiðum, mjög lítið steiktum, meyrum og ljúfum, ekki söltuðum um of. Hin undarlega skinka var enn á ferð. Hún kann að bæta matreiðsluna, en þarf ekki að fylgja með á borð.

Svo vikið sé að áhugamálum barnanna, þá voru franskar kartöflur góðar, ekta, ekki brenndar og án steikarolíubragðs. Kínversku pönnukökurnar voru þunnar og vel steiktar, með bragðsterku mauki. Og karrísósan með hrísgrjónum var einnig góð.

Eftirréttir voru lítt frumlegir, en frambærilegir, ísar, pönnukökur, ostar og djúpsteiktur camembert. Pönnukökurnar voru næfurþunnar og fínar, fylltar ís. vanilluísinn var borinn fram með heitri og ágætri súkkulaðisósu.

Hressandi eftirdrykkur var Kveðjukoss kúrekans, hvítvín hússins blandað kirsuberjalíkjör og kokkteilberi. Hvítvín hússins mun vera White Bordeaux, leiðindavín. Og ekki eru skárri hvítvín þau, sem seld eru á flöskum.

Rauðvínin eru mun betri. Húsvínið er sæmilegur Chianti frá Ruffino og hin eru Trakia og Geisweiler Grand Vin. Þá má fá glas af ágætu sérríi, Dry Sack, fyrir mat og glas af enn betra púrtvíni, Quinta do Noval, Late Bottled Vintage, eftir mat.

Miðlungsverð og einkunn góð

Réttur dagsins með súpu kostaði 85 krónur. Á fastaseðli var miðlungsverð á forréttum 36 krónur, súpum 14 krónur, fiskréttum 52 krónur, kjötréttum 89 krónur, sæturéttum 18 krónur og ostum 35 krónur. Þetta er birt með verðbólgufyrirvara.

Í verði telst mér til, að Vesturslóð sé í meðaltalsflokki veitingahúsa, það er að segja í þriðja hæsta verðflokki af fimm. Slíkt segir kannski meira en tölur um, að þriggja rétta veizla með hálfri flösku af víni á mann og kaffi kosti 159 krónur.

Vesturslóð fær sex í einkunn fyrir mat, fjóra fyrir vín, átta fyrir þjónustu og sjö fyrir umhverfi. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnin með tveimur, koma samtals út 64 af 100 mögulegum.

Það þýðir, að Vesturslóð fær 6,5 í einkunn, sem má teljast nokkuð gott. Þar með er Vesturslóð í þriðja gæðaflokki af fimm og eru gæðin í samræmi við verðið. Tilkoma matstofunnar er íslenzkri veitingamennsku til bóta.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Torfan

Veitingar

Annað fallegasta húsið

Torfan er önnur af tveimur fallegustu veitingastofum landsins, enda sett upp í gömlu og grónu húsi eins og Naustið. Hin smekkvísa innrétting sýnir næma virðingu fyrir sögulegu samhengi. Hún fellur að húsinu eins og hún sé frá sama tíma.

Þar á ofan er matur og þjónusta með því betra, sem kostur er hér á landi. Að vísu er matargerð í sama, gamla, þunga, danska stílnum og önnur matreiðsla íslenzkra veitingahúsa. En sem slík er hún í hugmyndaríkara og fjölbreyttara lagi.

Húsið verður bráðum hálfrar annarrar aldar gamalt, reist árið 1838. Það er látlast, fallegt og í samræmi, ef frá er skilinn turninn, sem er síðari tíma viðbót, misheppnuð leið til að tengja húsið Latínuskólanum handan Amtmannsstígs.

Í fordyri er skráð fróðleg saga hússins. Og á veggjum má sjá myndir frá endurreisn þess, er úr því var gerð veitingastofan Torfan. Aðrar myndir á veggjum eru breytilegar eftir árstíðum og sýna leiksvið íslenzkra leiktjaldahöfunda.

Eldhúsið og um 50 sæta matstofa eru á jarðhæð. Uppi eru svo 20 sæti til viðbótar undir stórum kvisti hússins. Innréttingar eru í sama stíl uppi og niðri, en þó heldur opnari og kuldalegri uppi, þótt þar sé blómskrúðið meira.

Loftin með reitum eru hvít og gluggabúnaður einnig hvítur. Rúðurnar eru litlar eins og í gamla daga. Mildilega ljósgrænir veggir fara vel við þessa gömlu hefð. Brakandi trégólfið er nógu lélegt til að vera upprunalegt.

Nýmóðins eru loftljósin yfir borðum og þægilegu, skandinavísku tréstólarnir. Þennan litla heim fylla svo köflóttir borðdúkar úr hörblöndu, kerti og jólarósir. Að öllu samanlögðu er þetta prýðilegur rammi góðrar máltíðar.

Tréklossar út úr stíl

Ungar stúlkur gengu vingjarnlega um beina. Þær voru aldeilis ekki á því að láta menn kaupa og borga heila skammta, þegar hálfir voru nógir. Heiðarleiki í viðræðum um matarpöntun vekur traust í uppafi og stuðlar að betri stemmningu.

Eini gallinn við þjónustuna var skipulagður að ofan. Stúlkurnar gengu um á tréklossum, sem hömruðu gólfið látlaust. Af því að Torfan er ekki í Amsterdam, mætti benda á inniskó í staðinn, svona til að hlífa hlustum matargesta.

Meiri tillitssemi kom fram í bakgrunnstónlist, sem var engin. Á þessum síbyljutímum hvílir fátt taugarnar betur en þögnin, friður fyrir tónlist. Og í andrúmslofti Torfunnar eiga tónsnældur ekki heima. Þetta ber sérstaklega að þakka.

Árstíðabundinn seðill

Matseðlar Torfunnar eru þrír, seðill dagsins, mánaðarins og fastaseðillinn. Þrír réttir voru á seðli dagsins, 10 á seðli desembermánaðar og heilir 35 réttir á fastaseðlinum. Þessi mikli fjöldi rétta er greinilega út í hött.

Mánaðarseðillinn er skemmtileg nýjung hér á landi. Með honum fá matreiðslumennirnir tækifæri til að haga vali hráefna eftir árstíðum. Þarna var skráð rjúpa og hreindýr, aða og hörpuskel, smákarfi og ný síld, allt mjög freistandi.

Ég mæli hiklaust með, að gestir í Torfunni einbeiti sér að mánaðarseðlinum. Þar er að finna hið óvenjulega og óvænta. Matseðill dagsins og fastaseðillinn eru kunnuglegri. Fást þó tvær útgáfur skötusels á fastaseðlinum.

Meðlæti í ferskara lagi

Allur matur í Torfunni leit glæsilega út, þegar hann var borinn á borð. Íslenzkir matreiðslumenn kunna þann þátt yfirleitt vel. Hins vegar var meðlæti yfirleitt of margvíslegt og of mikið, einnig samkvæmt íslenzkri hefð.

Meðlætið í Torfunni var þó ekki eins staðlað og víða er hér á landi. Sama sósan og sama soðna grænmetið fylgdi ekki öllum réttum, heldur reyndu kokkarnir að laga meðlætið að kjötinu eða fiskinum, sem var þungamiðja hvers réttar.

Meðlætið var líka ferskara en íslenzkir veitingahúsagestir eiga að venjast. Grænu baunirnar voru frystar, en ekki niðursoðnar. Yfirleitt mátti segja, að kokkarnir hefðu ekki sama krampakennda takið á dósahnífnum og sumir kollegarnir.

Hrásalatið á sérdiski fylgdi öllum aðalréttum Torfunnar, svo sem ágæt venja er orðin hér á landi. Þetta var ísberg með einum tómatbát, einfalt og gott, en hlaðið of mikilli, sinnepsblandaðri eggjasósu, sem stundum er kölluð “dressing”.

Súpan, sem fylgdi réttum dagsins að þessu sinni, var óvenjulega góð blómkálssúpa. Hún var mjög rjómuð og hafði að geyma myndarlega blómkálshnalla. Þetta var sko engin gervisúpa. Og henni fylgdi ágætis snittubrauð.

Hörpufiskurinn og aðan á mánaðarseðlinum voru borin fram undir ostþaki í skeljum. Hvort tveggja var í seigara lagi, en hörpudiskurinn þó frambærilegur. Meðlætið var allt gott, ristað brauð með smjöri, sítróna, tómatur og sýrðar gúrkur.

Góður karfi grafinn

Grafinn smákarfi, sem líka var á mánaðarseðlinum, reyndist alveg ljómandi góður, mjög svipaður grafinni smálúðu. Út á hann var mild og fín, rjómuð sinnepssósa, ristað brauð með smjöri, ferskur tómatur og gúrka. Tromp staðarins.

Eggjakakan var í lagi, svo og hömin, sem henni fylgdi, og einnig hitaða snittubrauðið með steinselju. Sérpantaðar franskar kartöflur voru ljósar og fallegar, en mjög loftkenndar og ekki góðar, líklega úr kartöfludufti, því miður.

Pönnusteikt smálúðuflök dagsins voru góð á bragðið, sennilega ekki úr frysti, þar sem fiskurinn var ekki þurr. Að steikingu lokinni hafði lúðan verið bökuð lítillega undir ananassneið og ostþaki, blessunarlega hóflega.

Fiskurinn hvíldi á hrísgrjónum og hefði það átt að nægja. En þarna voru líka frystar baunir, kartafla, gulrót, tómatur, sítróna og rækjur í sætsúrri sósu. Þetta var gott meðlæti, en of mikið. Vond var svo kartöflustappan, sem líka fylgdi.

Grillsteikt lambalæri dagseðilsins var of seigt, en eigi að síður meyrt og safaríkt. Út á lærið var ástarsósa íslenzkra kokka, béarnaise. Meðlætið var gott blómkál og gúrka, sæmilegt rósakál og leiðinlegar, franskar kartöflur.

Nautakjöt dagsins var kallað “entrikote”, sem er líklega finnska. Það var gegnumsteikt og því ekki merkilegur matur. Bökuð kartaflan var góð. Dósasveppir, frystar baunir, brokkál og brún sveppasósa voru ekki í frásögur færandi.

Rjúpa og hreindýr

Steikt rjúpa í rjómasósu var á matseðli mánaðarins. Hún var óvenju meyr og góð, alveg laus við að vera þurr, en hafði samt rétta, magnaða rjúpubragðið. Út á hana var góð rjómasósa og rifsberjahlaup, svo sem vera ber.

En svo var dýrðin kaffærð í meðlæti, sem út af fyrir sig var vel gert, en óþarft. Þar mátti sjá kartöflu, gúrku, tómat, grænar baunir, brokkál og kartöflukrókettu. Eru Íslendingar kannski að biðja um gums, þegar þeir panta rjúpu?

Hreindýrakótilettur matseðils mánaðarins voru líka góðar. Kjötið var ekki vitund seigt. Villibráðarbragðið var þó ekki eins eindregið og búast hefði mátt við. Með fylgdu frystar baunir, rósakál, soðnar gulrætur og ostbakað kartöflusalat.

Steiktur kjúklingur fastaseðils var borinn fram í eldfastri pönnu. Hann var hæfilega lítið steiktur, ekki farinn að þorna. Brúnt soð fylgdi með, bökuð kartafla, skinka, perlulaukur, frystar baunir og dósasveppir, yfirleitt ágætt.

Lambakótilettur fastaseðils voru blóðrauðar og bragðmiklar, en of brenndar og ekki alveg nógu meyrar. Kartöflukróketturnar voru heitar og góðar. Annað meðlæti var brúnt soð, dósasveppir og brokkál, allt í stakasta lagi.

Með þessum tveimur réttum var soð, en ekki sósa. Soðið er heppilegra, af því að það þykknar ekki og verður ekki ólystugt, þegar það kólnar. Auk þess er ekki í því hveiti til að trufla meltinguna. En einkum er það þó bragðmeira og -betra.

Ætir ostar á eftir

Ostabakkinn var með hinum betri, sem ég hef séð. Gráðosturinn var ætur, aldrei þessu vant. Og Port Salut var óvenju mildur og góður. Þar að auki voru á bakkanum piparostur og goudaostur. Þetta var bezti eftirrétturinn.

Pönnukökur með sultu og rjóma voru fulllítið steiktar, en hæfilega þunnar. Ís með súkkulaði-kattartungum, rjóma og dósajarðarberjum var góður. Sömuleiðis svonefndar “petit fours” eða marsipanbollur með súkkulaðihatti.

Djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi, ristuðu brauði og merkilegt nokk grænmeti, var sæmilega góður. Ég verð þó alltaf jafnhissa á, hversu vinsæll þessi þungi eftirréttur virðist vera hér á landi.

Ég sá kaffið tróna klukkutímum saman í glerkönnu á hitapönnu og þorði því ekki að drekka það, fremur en flest annað kaffi, sem boðið er upp á hér á landi. Hér virðist tæplega fást drykkjarhæft kaffi, nema úr espresso-vélum.

Rauð betri en hvít

Rauðvín Torfunnar eru einkar vel valin. Þar í hópi eru Chateauneuf-du-Pape, Trakia, Chateau de Saint Laurent, Chianti Antinori og Geisweiler Reserve, allt góð vín, borin fram í glasavís.

Hvítvínin eru stórum lakari. Þar má þó finna eitt gott matarvín, Gewürztraminer, og annað gott vín, þótt ekki sé þurrt, Edelfräulein. Hin hvítvínin eru yfirleitt einskis virði eða verri og hvítvín hússins er lélegur Monopole de Luze.

Miðlungsverð rétta í Torfunni var sem hér segir: Réttur dagsins með súpu 65 krónur, forréttir 35 krónur, súpur 13 krónur, fiskréttir 44 krónur, kjötréttir 80 krónur, sæturéttir 23 krónur og ostar 29 krónur, allt með fyrirvara um verðbólgu. Þriggja rétta veizla með hálfflösku af ódýru víni og kaffi kostar þá að meðaltali 150 krónur.

Þannig telst mér til, að í verði sé Torfan í meðaltalsflokki veitingahúsa, það er að segja í þriðja hæsta verðflokki af fimm. Sá samanburður ætti að gilda, þótt verðbólgan geri tilgreindar nýkrónutölur marklausar.

Torfan fær sjö í einkunn fyrir mat, sjö fyrir vín, átta fyrir þjónustu og níu fyrir umhverfi. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnin með tveimur, koma samtals úr 76 stig af 100 mögulegum.

Gæti komizt á toppinn

Þetta þýðir, að Torfan fær 7,5 í heildareinkunn, sem er aldeilis í góðu lagi. Torfan er þar með í öðrum bezta flokki veitingahúsa, þótt verðið sé í þriðja flokki.

Ef matreiðslumenn staðarins færu svo að lesa og nota t.d. bækur Sigrúnar Davíðsdóttur í stað fornu kennslubókanna, gætu þeir komið Torfunni á sjálfan toppinn. Mér finnst þetta fallega veitingahús eiga það skilið.

Jónas Kristjánsson

Vikan

KEA

Veitingar

Sem hótel er KEA á Akureyri orðið dálítið lúið, en veitingasalurinn er í góðu lagi um þessar mundir. Sennilega er Hótel KEA fjórði bezti veitingastaður landsins á eftir Holti, Sögu og Versölum. Taka verður þó fram, að með vínveitingaleyfi mundu Stillholt, Hornið og Laugaás sennilega fara upp fyrir KEA.

Veitingasalurinn á KEA er gamaldags og að sumu leyti þreytulegur, en samt í aðra röndina vistlegur og rólegur. Þykka, rauða teppið á gólfinu er óslitið og temprar hávaða. Veggfóður er upp á miðja veggi og þar fyrir ofan hanga nútímamálverk, vel valin. Róleg og lágvær tónlist í bakgrunni magnar hina notalegu stemmningu.

Þjónustan á Hótel KEA var kunnáttusamleg og vingjarnleg. Meira að segja var víni rétt hellt í glös, sjaldgæf sjón hér á landi. Þjónninn sagði líka fyrirfram, hvað ekki væri til af fastaseðlinum, einnig sjaldgæf tillitssemi hér á landi. Að máltíð lokinni bar hann óumbeðinn á borð tannstöngla með mintubragði.

Súpa
Súpa dagsins var seljurótarsúpa, of þykk, en með girnilega ákveðnu seljurótarbragði, sem gerði hana góða. Með súpunni var borið fram heitt og mjúkt brauð. Súpan er innifalin í verði rétta dagsins, en kostaði 870 krónur sérpöntuð.

Smálúða
Rauðspretta var ekki til og féllu þar með fjórir réttir af fastaseðlinum. Þjónninn bauð í staðinn upp á smálúðu, sem hann viðurkenndi hreinskilnislega, að væri úr frysti. Venjulega er reynt að telja manni trú um, að smálúða og jafnvel ýsa heiti rauðspretta og sé örugglega ekki úr frysti.
Sem fryst var smálúðan auðvitað þurrari en fersk. Hún var eigi að síður bragðgóð, gufusoðin í hvítvíni og kryddi og framreidd með rækjum og sveppum í hvítvínssósu. Þetta var fremur ómerkileg hveitisósa. Umhverfis réttinn var ofnbökuð kartöflustappa. Ofan á var ferskt grænmeti, sneiðar af gúrku og tómati og steinseljugreinar, sem gerðu þetta að fallegum rétti. Verðið var 4.630 krónur.

Graflax
Graflaxinn var fremur óvenjulegur, örlítið reyktur á bragðið, nokkuð góður, en ekki eins og í Holti eða á Sögu. Rjómuð sinnepssósan var óvenju mild og óvenju lítið sæt, semsagt óvenju góð. Með graflaxinum fylgdi að venju ristað brauð með smjöri. Verðið var 3.200 krónur sem forréttur.

Steikt ýsa
Steikt ýsuflök St. Germain voru á matseðli dagsins. Þetta var ferskur og góður fiskur í mátulegum steikarhjúp. Með honum var borin fram mjög góð og mild béarnaise-sósa, hvítar kartöflur, tómatsneiðar og steinseljugreinar. Ennfremur tvær léttar og fínar tartalettur, önnur fyllt dósagrænmeti og hin dósaspergli. Verðið var 6.250 krónur að súpu, eftirrétti og kaffi inniföldu.

Kjúklingur
Kjúklingurinn var á matseðli dagsins. Hann var ekki ofeldaður að ráði, meyr og góður. Með honum fylgdu hæfilega lítið soðin og stinn hrísgrjón, tómatsneiðar, ofsoðið brokkál og ferskar steinseljugreinar. Ennfremur góður maís, sem gæti hafa verið ferskur. Einnig hræðilegar, franskar kartöflur, brenndar og grautlinar. Loks karríkrydduð hveitisósa, sem var frambærileg sem slík. Verðið var 8.700 krónur að súpu, eftirrétti og kaffi inniföldu.

Lambakótilettur
Lambakótilettur hongroise á fastaseðlinum voru ákaflega góðar, bleikar og meyrar, vel fituskornar. Ferskt rósakálið var gott, sem og blaðsalatið, steinseljan og tómatbátarnir. Frönsku kartaflnanna hefur áður verið getið. Óþarft var skinkujukk með mjög snörpu skinkubragði, sem spillti heildarbragði réttarins. Verðið var 6.450 krónur.

Turnbauti
Turnbauti béarnaise var hrásteiktur en blóðlaus, hæfilega lítið kryddaður og bragðgóður. Béarnaise-sósan var mild og mjúk, sem fyrr segir, með þeim betri, sem ég hef fengið hér á landi. Hrásalatið var óvenju gott, að mestu úr blaðsalati og tómatsneiðum og með sinnepssósu. Gulrætur og ristaður spergill voru úr dós. Frönsku kartöflurnar voru vondar, sem fyrr segir. Blómkálið var ofsoðið, en steinseljugreinarnar voru ferskar. Verðið var 8.950 krónur.

Jarðarberjafrómas
Jarðarberjafrómas var borið fram með þeyttum rjóma og dósaberjum, alveg frambærilegur eftirréttur, sem fylgdi í verði rétta dagsins.

Ís
Ís Melba með ferskju úr dós og jarðarberjasósu var ósköp venjulegur. Verðið var 1.170 krónur.

Kaffi
Kaffið á KEA var gott og borið fram með óblönduðum rjóma. Það var innifalið í verði rétta dagsins.

Vín
Vínlistinn á KEA er lélegur. Helzt er hægt að benda þar á Chablis og Bernkasteler Schlossberg af hvítvínum og Chateauneuf-du-Pape og Chianti Antinori af rauðvínum.

Í heild sýndi matreiðslan á KEA virðingu fyrir hráefnum. Maturinn var hóflega kryddaður og sósur voru yfirleitt mildar og léttar í maga. Ánægjulega mikið var af fersku grænmeti, en samt var of mikið af dósagrænmeti. Frönsku kartöflunum skulum við gleyma sem fyrst.

Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi á matseðli dagsins var 7.500 krónur. Meðalverð níu forrétta og súpa var 2.800 krónur, nítján aðalrétta 6.600 krónur og fjögurra eftirrétta 1.100 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta 10.500 krónur og 12.500 krónur að hálfri vínflösku og kaffi meðtöldu.

Veitingasalur Hótels KEA er í svipuðum verðflokki og Versalir í Kópavogi, ódýrari en hótelsalir Reykjavíkur.

Hótel KEA fær sjö í einkunn fyrir matreiðslu, sjö fyrir þjónustu, þrjá fyrir vínlista og sjö fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er sjö. Akureyringar geta því farið út að borða fyrir sanngjarnt verð.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Bautinn

Veitingar

Bautinn á Akureyri olli mér nokkrum vonbrigðum. Hann stóð í raun ekki undir því lofi, sem hlaðið hefur verið á hann. Matreiðslan var svo sem í meðallagi, en útlit veitingastofunnar er í rytjulegasta lagi.

Líklega er þó Bautinn sá staður, sem benda verður ferðamönnum á, því að hið hræðilega Súlnaberg handan götunnar er eina samkeppnin. Og Bautinn er alténd ekki dýrari en Súlnaberg. En betra er þó að borða sjaldnar og borða á KEA.

Bautanum er tvískipt í efra og neðra gólf. Mun snyrtilegra er á neðra gólfi og ekki eins kuldalegt. Á báðum stöðum eru ágætir birkistólar eins og á kaffiteríu Loftleiða. Á veggjum í neðri sal er dökkbrúnn panill að ofanverðu og grænt leðurlíki að neðanverðu.

Rauður dúkurinn á gólfi er einkar misheppnaður, því að skítur sést mjög vel á honum. Í stíl við dúkinn virtist skortur á hreinlæti. Óhreinir diskar lágu á borðum í klukkustund eftir að gestir voru farnir. Það er hvimleitt að borða innan um stafla af óhreinum leir og mataráhöldum.

Bautinn er fremur annríkislegur staður. Of hátt stillt útvarp bætir ekki stemmninguna, en er þó ekki nógu hátt til þess, að fréttalestur heyrist. Umhverfið hefur svo hinar jákvæðu hliðar, svo sem barnahorn og röska afgreiðslu.

Djúpsteiktur fiskur
Djúpsteiktur fiskur með salati var á matseðli dagsins. Fiskurinn sjálfur var sæmilegur, en steikarhjúpurinn var of brenndur. Hrásalatið var gott og hafði að geyma tómata, gúrku og blaðsalat, svo og hæfilega litla salatsósu. Frönsku kartöflurnar voru frambærilegar. Sítrónu- og tómatbátar bættu réttinn töluvert. Bezt var þó kokkteilsósan, mild og rjómuð, líklega næstbezta kokkteilsósa landsins. Þessi sósa og hrásalatið góða fylgdu flestum réttum Bautans. Verð fiskréttarins var 2.500 krónur.

Kínverskar pönnukökur
Tvær kínverskar pönnukökur með hrásalati voru á fastaseðlinum. Sjálfar pönnukökurnar voru góðar, þunnar og stökkar. Inni í þeim voru kjötbitar í karríhrísgrjónum, ekki í frásögur færandi. Hrásalatið góða með blaðsalati og tómati bætti réttinn. Verðið var 2.200 krónur heill skammtur og 1.400 krónur hálfur.

Lambakótilettur
Lambakótilettur með frönskum og salati voru á fastaseðlinum. Kótiletturnar voru grásteiktar, dálítið brenndar og bornar fram með öllu fitulaginu á. Þær voru ekkert sérstakar, en ætar. Kryddsmjörið var lítið kryddað og ekki gott. Frönsku kartöflurnar voru frambærilegar, sem fyrr segir, kokkteilsósan ljómandi góð. Loks fylgdi niðursoðinn ananashringur. Verðið var 3.800 krónur.

Kjúklingur
Grillaður kjúklingur með hrísgrjónum og frönskum kartöflum var á matseðli dagsins. Kjúklingurinn var sæmilegur, barbeque-sósan var dísæt, en ekki beinlínis vond. Hrásalati og frönskum hefur áður verið lýst. Hrísgrjónin voru köld og hörð og vond. Verðið var 3.500 krónur.

Turnbauti
Turnbauti með kryddsmjöri, kartöflum og salati var á fastaseðlinum. Turnbautinn var hrásteiktur eins og um var beðið, en samt blóðlaus. Kjötið var meyrt og bragðgott. Frönskum kartöflum, hrásalati og kryddsmjöri hefur áður verið lýst. Béarnaise-sósan var sómasamleg og sveppirnir úr dós. Helzti galli þessa réttar var of mikil notkun krydds á kjötið. Verðið var 5.900 krónur.

Frómas
Ananas-frómas var á matseðli dagsins, ekki merkilegur eftirréttur, en frambærilegur. Verðið var 700 krónur.

Ís
Ísinn á fastaseðlinum var nougat með skemmtilega brenndu bragði, að einverju leyti heimatilbúinn. Þetta var góður ís.

Kaffi
Kaffið var þunnt og lítilfjörlegt og kostaði heilar 400 krónur eftir mat.
Meðalverð tveggja rétta máltíðar á matseðli dagsins var 3.600 krónur og 4.000 krónur að kaffi meðtöldu. Meðalverð á súpum og eggjaréttum var 1.500 krónur, aðalrétta 4.200 krónur og eftirrétta 800 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta um 6.500 krónur og 6.900 krónur að kaffinu meðtöldu. Bautinn er í sama verðflokki og Súlnaberg á Akureyri, Skrínan, Askur og Halti haninn í Reykjavík.

Bautinn fær fimm í einkunn fyrir matreiðslu og fjóra fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er þrír, svipuð og Skrínunnar í Reykjavík, skárri en Súlnabergs á Akureyri, en engan veginn nógu góð í tólf þúsund manna bæ.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Súlnaberg

Veitingar

Súlnaberg undir Hótel KEA á Akureyri er gott dæmi um tilfinningasnauða færibandamatstofu, sem gefur gestum fóður á garðann, svo að þeir hætti að vera svangir. Engu máli skiptir, hvernig fóðrið er, ef það bara seður.

Þannig er hinn íslenzki einkennismatstaður. Annars vegar er ausið upp úr hitadunkum sundurtættum mat, sem haldið hefur verið heitum allt of lengi. Hins vegar er grillað og djúpsteikt eftir pöntunum í steikarbúluhorni.

Meira að segja börnin, sem elska tómatsósu, hamborgara og franskar meira en annan mat, sögðu, að þetta væri vondur matur og raunar verri matur en enginn matur. Súlnaberg getur semsagt keppt við verstu matstofur Reykjavíkur.

Sjálfur staðurinn er fremur snyrtilegur og virðist vel við haldið. Litasamsetningarnar eru góðar. Brúnir rimlaveggir brjóta niður flötinn, einkum á efra gólfi, þar sem rólegra er að vera. Niðri er meiri annríkisblær yfir öllu.

Fastamatseðillinn er fremur stuttur, með sex forréttum, þremur fiskréttum, átta kjötréttum og sjö eftirréttum, þar af fimm ísum. Matseðill dagsins er aftur á móti langur og þar að auki miklum mun ódýrari en fastaseðillinn.

Daginn, sem Vikan prófaði Súlnaberg, var boðið upp á blómkálssúpu á 650 krónur, djúpsteikt ýsuflök með remúlaði á 2.250 krónur, grísasultu með rauðrófum á 1.900 krónur, vínarpylsur með kartöflusalati á 2.680 krónur, fylltan dilkabóg með rauðrófum á 2.530 krónur, lambasnitsel með grænmeti á 2.980 krónur, frómas á 650 krónur, sveskjukompott á 500 krónur, rjómaís á 500 krónur, skyr með rjómablandi á 800 krónur og ávaxtagraut á 950 krónur.

Djúpsteikt ýsa
Djúpsteikt ýsuflök á matseðli dagsins voru köld upp úr hitapottinum. Þau voru bragðlaus að mestu. Remúlaðisósan var ómerkileg. Hvítu kartöflurnar voru hins vegar frambærilegar, svo og léttsýrðu gúrkurnar. Verðið var 2.250 krónur, sem fyrr segir.

Lambasnitsel
Lambasnitsel með grænmeti á matseðli dagsins hafði verið lamið ótæpilega og var því meyrt og nánast sundurlaust, en næstum alveg bragðlaust. Rauðkál úr glasi var væmið á bragðið. Sýrð gúrkan var í lagi sem fyrr segir. Blandaða dósagrænmetið var þrælsoðið og viðbjóðslegt. Brúnuðu kartöflurnar voru í grautarformi. Hin alræmda, íslenzka framleiðsla, jarðarberjasulta, kórónaði sköpunarverkið. Verðið var 2.980 krónur.

Grillaðar lambakótilettur
Ekki var ástandið betra í grillinu. Þaðan bárust okkur mjög svo feitar og ólögulegar “glóðarsteiktar lambakótilettur með kryddsmjöri, hrásalati og frönskum kartöflum”. Þær jóðluðu í feiti, auk sinnar eigin feiti. Kryddsmjörið var sæmilegt, en ákaflega lítið kryddað. Hrásalatið drukknaði í allt of mikilli og gríðarlega væminni sósu. Frönsku kartöflurnar voru bæði of saltaðar og of steiktar. Verðið var 3.530 krónur.

Hamborgari
Meira að segja hamborgari staðarins var þurr og leiðinlegur á bragðið. Frönsku kartöflurnar voru illa meðhöndlaðar, sem fyrr segir. Og tómatsósan var dísæt, innlend framleiðsla. Verðið var 990 krónur fyrir utan sósu og kartöflur, en 1.890 krónur með þeim.

Meðalverð tveggja rétt máltíðar á matseðli dagsins var 3.100 krónur og þriggja rétta máltíðar 3.800 krónur. Meðalverð forrétta, súpa og eggjarétta á fastaseðlinum var 2.000 krónur, aðalrétta 4.300 krónur og eftirrétta 700 krónur. Þrírétta máltíð af fastaseðli, án kaffis , ætti því að kosta um 7.000 krónur.

Á reikningnum var bara ein heildartala. Ef einstakir liðir hafa verið rétt reiknaðir, kostar kaffibolli eftir mat heilar 3.630 krónur. Ef hann kostar minna, hefur Súlnaberg reiknað verð máltíðarinnar mjög svo gróflega sér í hag, umfram það, sem stendur á matseðli. Og eru þau verð nógu há fyrir, þótt ekki sé á þau smurt.

Súlnaberg er í verðflokki með Skrínunni, Aski og Halta hananum í Reykjavík og mun dýrari en miklu betri staðir á borð við Brauðbæ, Hornið og Laugaás, svo ekki sé talað um hina ódýru staði, Múlakaffi og Matstofu Austurbæjar.

Súlnaberg fær tvo í einkunn fyrir matreiðslu og fimm í einkunn fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn matstofunnar eru tveir. Að fara í Súlnaberg var eins og að lenda í klóm ræningja.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Stillholt

Veitingar

Opnuð hefur verið á Akranesi alveg ljómandi góð matstofa, sem heitir Stillholt eftir samnefndri götu austarlega í bænum. Þessi veitingastofa kom mér mjög á óvart, enda efast ég um, að önnur 5000 manna bæjarfélög státi af slíku.
Stillholt gefur ekki eftir Laugaási og Horninu í Reykjavík og gerir raunar skömm til öllum þorra veitingahúsa höfuðborgarinnar. Þetta gildir um allt í senn, matreiðsluna, þjónustuna og andrúmsloftið.
Stillholt vantar aðeins léttu vínin. Væru þau, gæti ég bent Reykvíkingum á að bregða sér upp eftir með síðustu fer Akraborgar, rölta í veizlu í Stillholt, svo á ball, síðan niður á hótel og loks til baka með fyrstu ferð Akraborgar daginn eftir.
Slíkt væri óneitanlega skemmtileg tilbreytni frá hefðbundnu hjónaborðhaldi á veitingahúsum. Að vísu hef ég ekki hugmynd um, hvort hótelið á Akranesi er sómasamlegt eða ekki. Hugmyndin stendur náttúrlega og fellur með þeim lausa enda.

Æðri stílbrögð
Aðall Stillholts er nærfærin meðferð hráefna í eldhúsi og skilningur á nauðsyn þess að setja eldunartíma þröng mörk. Þarna verður jafnvel hamborgari ætur, svo ekki sé talað um æðri stílbrögð eins og humarskeljasoð út á humarhala.

Það, sem dregur Stillholt niður, er hin kórrétta fylgni við málstað franskra kartaflna, kokkteilsósu, dósagrænmetis og hrásalats. Þetta meðlæti endurtekur sig í sífellu með nærri öllum réttum þessarar annars ágætu veitingastofu.

Vendipunktur Stillholts er hinn sami og hjá Laugaási. Egill Egilsson eigandi stendur sjálfur við pottana og hefur auga með gestunum. Sú er eina leiðin til að halda háum gæðum í matreiðslu og þjónustu veitingahúsa, annarra en dýrra hótela.

Stillholt samræmi létta nútímamatreiðslu við hefðbundna íslenzka rétti á borð við plokkfisk, gellur, saltkjöt og saltfisk. Þessir réttir eru ekki á fastaseðlinum, en eiga jafnan fulltrúa á matseðli dagsins.

Síðarnefndi seðillinn heitir raunar “meðmæli kokksins” og hefur oftast að geyma fjóra aðalrétti með súpu á undan. Þar eru sjávarréttir í hávegum hafðir, sem og á fastaseðlinum, þar sem m.a. má sjá kræklingasúpu og djúpsteiktan hörpudisk.

Gamlar ljósmyndir

Stillholt tekur um 56 manns í sæti í tveimur jafnstórum sölum. Innri salnum má loka til einkasamkvæma. Báðir salirnir eru rúmgóðir, snyrtilegir og hreinlegir, málaðir í léttum og ljósum litum og minna örlítið á Hornið.

Einkenni innréttingarinnar eru hinar gömlu ljósmyndir frá Akranesi. Í innri sal eru blóm á borðum, speglar, sem stækka stofuna, og þakgluggalýsing. Pinnastólarnir eru með þægilegum sessum. Í bakgrunni er notaleg tónlist, sem minnir líka á Hornið.

Þjónustan í Stillholti var þægileg og vinsamleg og virtist vera það jafnt við alla gesti. Hér hefur bætzt við enn ein menningarvinin í eyðimörk djúpsteikingarhúsa, þar sem eigendur í forstjóraleik skáka fram fýlulegum og timbruðum píum.

Spergilsúpa
Spergilsúpa fylgdi réttum dagsins að þessu sinni. Hún var óvenju góð og var greinilega búin til á staðnum, en ekki hellt úr dós eða pakka. Meira að segja franskbrauðsneiðin, sem fylgdi, var betri en venja er hér á landi. Sérpöntuð kostaði spergilsúpan 850 krónur.

Humarhalar
Ristaðir humarhalar í skelinni voru fremur smávaxnir, en góðir og meyrir undir tönn. Þeir voru bornir fram í eftirréttaglasi með sítrónubáti, tómatbáti, paprikuhring, ristuðu brauði og smjöri. Punkturinn yfir i-ið var þó skemmtilega bragðsterkt soðið af humarskeljum, sem er skynsamlegri ídýfa en bráðna smjörið. Þarna var um náttúrulega matreiðslu að ræða. Verðið var 2.400 krónur sem forréttur.

Fiskrúllur
Gratineraðar lúðurúllur voru of þurrar. Þarna endurtók sig soðið af humarskeljunum, sem gaf einkennisbragð ostasósunnar. Þessi sósa var mjög sterk og óvenjuleg og hefði sómt sér vel, ef sjálf lúðan hefði líka verið góð. Með réttinum fylgdu hvítar kartöflur með steinselju og hrásalat. Hvort tveggja var gott, einkum hrásalatið. Verðið var 2.400 krónur.

Gellur
Djúpsteiktar gellur voru á matseðli dagsins. Þær voru mjúkar og góðar, en steikarhjúpurinn var fullmikið áberandi. Með fylgdi ágætt hrásalat, alveg sérstaklega, óvenjulega góð kokkteilsósa og óþarfar franskar kartöflur, ekki brenndar. Verðið var 2.400 krónur að súpu innifalinni.

Hamborgari
Hamborgari með frönskum, ananashring og tómatsósu var furðulega ljúffengur, mjúkur og bragðgóður, alger andstæða hinna bragðlausa pappaspjalda, sem hér á landi eru kölluð hamborgarar. Hins vegar var lítið varið í þær frönsku og tómatsósan var andstyggilega dísæt. Verðið á þessari útgáfu hamborgara var 2.030 krónur.

Kjúklingur
Grillsteiktur kjúklingur var á matseðli dagsins. Ekkert var við hann að athuga, enda var hann mátulega grillaður, nákvæmlega laus frá beinunum, en ekkert meira eldaður. Þessum góða kjúklingi hæfði vel hin góða kokkteilsósa og hrásalatið, sem áður hefur verið sagt frá. Verðið var 4.500 krónur, hið sama og á fastaseðlinum.

Lambahryggur
Ofnsteiktur lambahryggur indien var of mikið steiktur, grár í gegn, en meyr og sæmilega góður á bragðið. Kartöflurnar voru hæfilega létt brúnaðar. Karríhrísgrjónin voru góð, svo og karrísósan. Verðið var 4.100 krónur.

Turnbauti
Tournedos Stillholt var frábær. Hann kom lítið steiktur, eins og um var beðið, undurmeyr og bragðmikill. Með honum fylgdi góð svepparjómasósa, áðurnefnt hrásalat, franskar kartöflur og einnig óþarfar belgbaunir. Verðið var 6.300 krónur.

Barnaís
Barnaísinn er ekki í frásögur færandi að öðru leyti en því, að hann var þrenns konar og einn hlutinn var bláberjaís, ljómandi góður. Verðið var 450 krónur.

Kaffi
Kaffið í Stillholti var ekkert sérstakt. Það var ekki reiknað sérstaklega til verðs eftir mat, en sérpantað kostaði það 400 krónur. Vatnið með matnum var volgt.

Hagstætt verð
Meðalverð tveggja rétta máltíðar af matseðli dagsins var 3.100 krónur. meðalverð þrettán forrétta, súpa og eggjarétta var 1.300 krónur, nítján aðalrétta úr fiski eða kjöti 4.100 krónur og fjögurra eftirrétta 700 krónur. Þrírétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta 6.100 krónur.
Stillholt er í verðflokki með hinum hliðstæðu og ágætu veitingastofum í Reykjavík, Laugaási og Horninu, töluvert ódýrari en hinar hvimleiðu steikarbúlur landsins.

Eitt af allra beztu
Stillholt fær sjö í einkunn fyrir matreiðslu, sex fyrir þann hlut þjónustu, sem veittur er (af sjö mögulegum) og átta fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn veitingastofunnar er sex eða hin sama og Hornsins, Laugaáss, Loftleiða og Nausts. Aðeins Holt, Saga og Versalir eru hærri.

Það er því ástæða til að óska Skagamönnum til hamingju með Stillholt.

Jónas Kristjánsson

Vikan