Veitingar

Skútan

Veitingar

Skútan í Hafnarfirði er hinn sómasamlegasti matstaður í miðjum lægri verðkantinum. Matreiðslan er frambærileg að sósum undanskildum, snyrtimennskan er í lagi og þjónustan ósköp vingjarnleg. Skútan stenzt vel samanburð við hliðstæðar matstofur í Reykjavík.

Helzti galli staðarins eru þrengslin við borðin. Seturnar eru of stuttar til hnésins og of þröngt er milli borðs og baks. Þetta getur þó komið sér vel fyrir elskendur, sem fá tækifæri til að nudda saman hnjánum að vild.

Þrengslin stafa þó ekki af plássleysi, því að myndarlegt torg er á miðju gólfi. Vandað flísagólf er undir fótum manna. Innréttingin er næstum nákvæm stæling á súlum og bitum Halta hanans, en hér er notaður trönuviður. Skreytingar eru í fiskveiðastíl.

Í hádeginu er hægt að fá súpu og rétt dagsins, en á kvöldin gildir fastaseðillinn einn. Hann er skynsamlega stuttur, telur aðeins tólf rétti. Flesta þeirra er hægt að fá í hálfum skömmtum, þannig að upplagt er að fá sér tvo hálfa rétti og ís á eftir og raða þannig í þriggja rétta máltíð.

Soðið lamb
Soðið lambakjöt var réttur dagsins í hádeginu, þegar Vikan heimsótti Skútuna. Kjötið var rétt soðið með örlitlum roða, merkilega vel gert, alls ekki þurrt. Hvítu kartöflurnar voru í tæpu meðallagi. Hvít hveitisósan var einkar vond. Dósabaunir voru hóflega soðnir. Verðið var 2.700 krónur heill skammtur og 2.300 krónur hálfur.

Körfukjúklingur
Körfukjúklingur á fastaseðlinum var ekki góður. Hann var ofsteiktur. Hjúpurinn var of þykkur og brauðmylsnan var of yfirgnæfandi. Sveppasósan úr hveiti var þykk með skán. Frönsku kartöflurnar voru ljósar og frambærilegar. Dósagulræturnar voru ekki of linar. Hrásalatið var fjölbreytt og hafði meira að segja að geyma ferska ávexti. Þá fylgdi ferskur tómatur, ánægjuleg nýbreytni, svo og salatblað. Verðið var 3.800 krónur heill skammtur og 2.600 krónur hálfur skammtur.

Turnbauti
Turnbautinn var rétt steiktur, semsagt hálfhrár, góð matreiðsla á góðu hráefni. Dísæt kryddsósan ofan á var ekki við minn smekk. Þarna voru sams konar frönsku kartöflurnar, hrásalatið, tómaturinn og salatblaðið, sem getið var hér að ofan. Ennfremur ýmislegt úr dósum, belgbaunir, sveppir og paprika. Verðið var 5.600 krónur heill skammtur og 3.920 krónur hálfur, óneitanlega óvenjulega góð kjör.

Djúpsteiktur fiskur
Djúpsteikti fiskurinn var fersk ýsa, sæmilegasti fiskur. Skorpan var nokkuð hörð, en án feitibragðs. Hrísgrjónin, sem fylgdu, voru með hinum beztu, sem ég hef fengið hér á veitingahúsi, enda rétt mátulega soðin. Hrásalatið var í remúlaðisósu með karríbragði. Salatið var gott, en sósan var of mikil. Frönsku kartöflurnar voru í lagi, sem fyrr segir. Salatblaðið var innlend, góð framleiðsla. Kokkteilsósan var í lagi. Verðið er 2.400 krónur heill skammtur og 1.680 krónur hálfur.

Spánarkjúklingur
Kjúklingur Spanja var aldeilis ljómandi góður, að engu leyti ofgerður, hvorki í kryddi né steikingartíma, enda meyr og bragðgóður. Um franskar kartöflur og hrásalat hefur áður verið rætt. Dósagrænmetið var eftir vonum, paprika, belgbaunir ofsoðnar og dósasveppir, sem ekki voru eins slepjulegir og venja er til. Með fylgdi nánast hræðileg, kekkjótt, brún hveitisósa, ofboðslega þykk. Verðið var 4.600 krónur heill skammtur og 3.220 krónur hálfur.

Skútusteik
Skútusteik hét nautavöðvi, tæplega “medium” steiktur, rauður og blóðugur að innan, frambærilegur matur. Kryddsmjörið hafði lítið kryddbragð og var fremur væmið, en alténd betra en sósur staðarins. Áður hafði verið getið franskra kartaflna, hrásalats, sveppa, belgbauna, salatblaðs og papriku. Verðið var 5.400 krónur heill skammtur og 3.780 krónur hálfur.

Sjómannasteik
Sjómannasteik hét sérkrydduð sneið af lambahrygg, einkar hófsamlega steikt og rauð að innan, sannarlega herramannsmatur. Í kryddinu virtist einkum vera piparkrydd og sítróna. Því miður var helmingur sneiðarinnar fita, en hana mátti skera frá. Með fylgdu skemmtileg karríhrísgrjón með svipuðu kryddi og í kjötinu. Einnig vond, brún hveitisósa með þremur sveppasneiðum. Ennfremur áðurnefndar franskar kartöflur, hrásalat, paprika og salatblað. Verðið var 4.200 krónur heill skammtur og 2.940 krónur hálfur.

Kaffi
Kaffi eftir matinn var vel þolanlegt, en fremur þunnt.

Meðalverð á súpum og hálfum réttum var 2.400 krónur á Skútunni, á heilum aðalréttum 4.100 krónur. Þetta er svona eins og meðalverð á hliðstæðum grillstöðum í Reykjavík. Kaffi eftir matinn kostaði 330 krónur. Samanlagt ættu tveir réttir með kaffi að kosta um 6.800 krónur.

Ef ekki væru hinar hvimleiðu sósur, fengi Skútan hátt fyrir matreiðslu. Kannski verður tækifæri til þess næst. En í þessari prófun fékk staðurinn fimm fyrir matreiðslu, prik fyrir vingjarnlega afgreiðslu og sex fyrir útlit og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn stofunnar er fjórir.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Halti haninn

Veitingar

Halti haninn á Laugavegi 178 er ósköp kyrrlát og notaleg veitingastofa, þótt þröng sé. Menn sitja þar oft lengur en þeir nauðsynlega þurfa. Og það er einmitt öruggt merki þess, að þeir kunni við sig.

Innréttingar eru djarfar og grófar. Groddalegur viðurinn trónir í hálfrökkrinu og hverfur upp í myrkrið. Strigaskreytingar á veggjum eru í samræmi við þennan harðákveðna stíl.

Há sætisbök á borðbásunum magna einrúmið. Svo er lýsingin frá rafsuðumótuðum járnlömpunum í draugalegasta lagi. Þar á ofan stuðlar lágvær tónlistin að því, að tímaskynið detti úr sambandi um stundarsakir.

Hér vantar raunar aðeins rauðvínsglasið til að geta fullkomið stefnumótið við elskuna sína. Halti haninn þyrfti vínveitingaleyfi til að nýta sérkennilegar innréttingar og rólegt andrúmsloft til fulls.

Ekki ætti þrifnaður að standa því í vegi. Mér sýndist umgengni starfsfólks um matsal og fremra eldhús vera snyrtilegt. Halti haninn ljómar af hreinlæti og raunar af viðkunnanlegri afgreiðslu líka.

Svo er það maturinn, sem er því miður ekkert sérstakur. Kannski má segja, að hann sé í áreynslulitlu meðallagi og þó tæplega það. Af svonefndum grillstöðum er hann þó í skárra lagi og gengur líklega næst Brauðbæ.

Í prófun Vikunnar kom í ljós, að óhófleg saltnotkun einkenndi matreiðsluna, hefðbundin íslenzk ofsteiking á kjöti, svo og þykkar og vondar hveitisósur. Ef þessir gallar væru lagfærðir, mundu innréttingarnar njóta sín betur.

Skötuselur
Djúpsteiktur skötuselur með kartöflum og kokkteilsósu reyndist vera nokkuð fallegur fiskur, hvítur og bragðgóður. Steikingarhjúpurinn var ljós, þunnur og stökkur, en því miður alltof saltur. Kartöflurnar voru franskar og frambærilegar sem slíkar eins og aðrar þær, er fylgdu réttum Halta hanans. Því miður er ég ekki lengur dómbær á kokkteilsósur, því að ég er farinn að hata þær eins og pestina. Ráðgjafar mínir segja þó, að þetta hafi verið skásta sósan á staðnum. Verðið var 2.800 krónur.
Í stað franskra og kokkteilsósu er hægt að fá hrísgrjón og karrísósu, sem trúlega er skynsamlegra, hrísgrjónanna vegna. Kostar þá skötuselurinn 2.630 krónur.

Pitsa
Pitsa með skinku og spergli var sjálf of þykk og mjúk, en áleggið var sæmilegt. Þetta var síðri pitsa en í Laugaási og hvað þá á Horninu, sem sennilega býður upp á beztu pizzur landsins. Verðið á Halta hananum á þessari tegund pizzu var 2.880 krónur.

Pottréttur
Karrípottréttur, borinn fram í leirskál á leirdiski, hafði að geyma kjötbita, papriku, lauk, gulrætur, tómatkraft og líklega sitthvað fleira. Ofan á tróndu fyrirtaks hrísgrjón. Þetta var kryddsterkur matur og bragðgóður. Verðið var 3.500 krónur á matseðli dagsins.

Kínverskar
Kínverskar pönnukökur með karrísósu og hrísgrjónum voru hæfilega stökkar og þunnar, en að öðru leyti ekki í frásögur færandi. Þarna kom þó í ljós, að hrísgrjón voru betra meðlæti en ýmislegt bras, sem fylgdi réttum Halta hanans. Verðið var 2.400 krónur.

Kjúklingur
Hálfur kjúklingur með sveppasósu og spergli hafði verið grillaður hæfilega lengi og var meyr og safaríkur. Spergilbitarnir voru ómerkilegt jukk úr ódýrri dós. Sveppasósan var hveitisósa með fáeinum sveppum, andstyggileg sósa. Hrásalatið var sæmilegt, en þó næstum eingöngu hvítkál og of mikið jóðlandi í salatsósu. Frönsku kartöflurnar voru ljósar og frambærilegar, sem fyrr segir. Þetta var semsagt ágætur kjúklingur með lélegu meðlæti. Verðið var 5.080 krónur.

Lambagrillsteik
Lambagrillsteik með kryddsmjöri og sveppum hafði verið þrælsteikt, svo að hún var orðin of þurr. Þar á ofan var hún of söltuð. Kryddsmjörið var mjög sterkt, sérkennilegt, ljósrautt og vont. Frönskum kartöflum hefur áður verið lýst, svo og hrásalatinu. Ofan á réttinum hvíldi skelfilegur hlaði af dósasveppum. Verðið var 4.320 krónur.

Turnbauti
Turnbauti með béarnaise-sósu og ristuðum sveppum var þrælsteiktur og safalaus, en ekki seigur og hélt nokkru af upprunalegu bragði. Sósan var ein af þessum, sem tæpast hníga, mikið krydduð, en ekki beinlínis vond. Frönskum og hrásalati hefur áður verið lýst, svo og hlaðanum af dósasveppum. Verðið var 6.500 krónur.

Ís
Ísinn kom beint úr pakkanum og var sæmilegur, en ég kunni hvorki við hina sterku bragðsósu né niðursoðnu ávextina, sem velja mátti um. Verðið á fyrri gerðinni var 600 krónur og 650 krónur á hinni síðari.

Kaffi
Kaffi á Halta hananum reyndist hlutlaust og sæmilegt. Verðið var 400 krónur.

Langur seðill

Matseðillinn á Halta hananum er óvenjulega langur. Fyrir utan pizzur, hamborgara og ýmsa smárétti má telja á honum tæplega 30 aðalrétti. Það er greinilega of mikill fjöldi fyrir svona lítinn stað, þótt margir réttirnir séu tilbrigði við sama stef.

Á matseðli dagsins eru tvær súpur og tveir aðalréttir. Sé valið af honum ætti tveggja rétta máltíð að kosta að meðaltali 4.300 krónur og 4.700 krónur, ef kaffi er meðtalið. Það er nokkuð hátt verð.

Á fastamatseðlinum var verð sex smárétta að súpum dagsins meðtöldum 2.200 krónur, 28 aðalrétta 4.400 krónur og ýmissa ísa í eftirrétt 600 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta að meðaltali 7.200 krónur og 7.600 krónur að kaffi meðtöldu.

Í grófum dráttum má því segja, að Halti haninn sé í sama verðflokki og Skrínan, Askur og Esjuberg, dýrari en Matstofa Austurbæjar, Múlakaffi, Laugaás, Hornið og Brauðbær.

Matreiðslan á Halta hananum fær fimm í einkunn og umhverfi og andrúmsloft átta í einkunn. Þjónusta er ekki veitt, en fyrir þægilega afgreiðslu fær staðurinn aukaprik. Vegin meðaleinkunn staðarins er fjórir.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Múlakaffi

Veitingar

Múlakaffi er líklega vinsælasti matstaður Reykjavíkur. Þangað flykkjast vöruflutningabílstjórarnir. Í Frakklandi væri slíkt talið merki þess, að um góða matstofu væri að ræða. Í hádeginu er hinn stóri, 200 sæta salur nokkurn veginn fullsetinn.

Í kvöldmat koma einhleypingarnir, sem búa í leiguherbergjum úti í bæ. Þeir nota Múlakaffi sem sitt annað heimili, hanga þar fram eftir kvöldi yfir sjónvarpinu. En hvað er það, sem gerir Múlakaffi svona vinsælt?

Ekki eru það útlitið eða innréttingarnar. Hinn stóri salur er fremur kuldalegur og alls ekki smekklegur. Hann hefur þó eins konar teppi á gólfi og lítur snyrtilega út, nema kannski rétt á meðan hádegisbylgjan er að falla út.

Kannski hefur verðið mikið að segja, en tæplega allt. Mér sýnist Matstofa Austurbæjar vera örlitlu ódýrari, Laugaás á sama verði, Hornið og Brauðbær lítillega dýrari. Múlakaffi sker sig því ekki eitt úr í lágu verði, þótt lágt sé.

Saltkjöt og baunir

Mér sýnist helzt, að vinsældirnar stafi af því, að menn fá heimilismat í Múlakaffi, mat eins og þeir fengu hjá mömmu gömlu. Þeir njóta þar hefðbundinnar íslenzkrar matreiðslu, sem er heilum gæðaflokki ofan við flestar steikarbúlur.

Í Múlakaffi fá menn til dæmis steikta lifur, saltkjöt og baunir, hangikjöt, gúllas, kjötbollur, hvítkálsböggla, fiskibollur, saltfisk, soðna ýsu, skötu, skyr með rjómablandi, hvítar kartöflur og brúnaðar, rauðkál og mjólk.

Menn fá hins vegar ekki pizzur og tæplega hamborgara, franskar kartöflur og kokkteilsósu. Að vísu er í Múlakaffi sérstakt grillhorn, þar sem menn geta sérpantað steikur og hamborgara, franskar og kokkteilsósu, en sárafáir notfæra sér það.

Rótfestan í matreiðslu Múlakaffis er greinilega að skapi hins úlpuklædda almennings, sem vinnur fyrir sér með höndum sínum. Hvítflibbungar sjást þar fáir og enn síður rótlaus unglingaaðallinn, sem elskar franskar með sósu á steikarbúlum.

Skata með mörfeiti

Í rauninni er 200 sæta salur allt of stór. Umsetningin er of hröð fyrir góða matreiðslu. Enda byggist árangur Múlakaffis á því, að eigandinn er ekki í forstjóraleik, heldur fylgist dag eftir dag árvökulum augum með stóru og smáu. Þannig heldur staðurinn matreiðslureisn, þrátt fyrir stærðina.

Ég er með þessu ekki að segja, að Múlakaffi sé eitthvert Mekka matargerðarlistar. Aðeins, að matreiðslan þar er í góðu meðallagi, fylgir íslenzkri hefð og er betri en á öllum grillstöðum borgarinnar, öðrum en Brauðbæ.

Í Múlakaffi er til sérstakur fastamatseðill, sem enginn notar og er ekki hafður til sýnis. Allir gestir nota matseðil dagsins, sem býður upp á tvær súpur, skyr og kaffi, fimm aðalrétti í hádeginu og fjóra á kvöldin.

Í hádegisheimsókn Vikunnar var boðið upp á soðna skötu með mörfeiti, steikt smálúðuflök, reykt folaldakjöt með kartöflujafningi og Vínarsnitsel með grænmeti. Í kvöldheimsókninni voru pönnusteikt ýsuflök, sænskur biximatur, ragú með kartöflustöppu og enskt buff með lauk.

Súpa
Espagnole var hveitisúpa, sæmileg sem slík og ekki kekkjuð, en ekki við minn smekk. Verð súpunnar var innifalið í verði rétta dagsins, en sérpöntuð kostaði hún 700 krónur.
Í þessu hádegi mátti velja milli Espagnole og vanillusúpu og um kvöldið mátti velja milli “súpu” og makkarónusúpu. Menn geta því valið um að fá venjulega hveitisúpu á undan aðalrétti eða, eins og tíðkaðist hér áður fyrr, sæta mjólkursúpu á eftir aðalrétti.

Steikt lifur
Steikt lifur með kartöflustöppu var ágætur matur. Lifrin var hæfilega steikt og bragðgóð. Kartöflustappan var sómasamleg. En brúna hveitisósan var ekki lystug. Verðið var 2.500 krónur að súpu innifalinni.

Pönnufiskur
Pönnusteikt ýsa með hvítum kartöflum og hrásalati var góður hversdagsmatur. Fiskurinn var hvítur að innan. Steikarhjúpurinn var hvorki of voldugur né með grófu feitibragði. Hvítu kartöflurnar voru góðar og hrásalatið var bæði fjölbreytt og gott. Verðið var 2.300 krónur með súpu.

Laukbuff
Buff með lauk, rauðkáli og brúnuðum kartöflum var furðu góður matur. Buffið hafði verið duglega barið og var nokkuð meyrt. Ekki hefði þó skaðað að steikja það töluvert minna. Rauðkálið var tiltölulega milt á bragðið. Brúnuðu kartöflurnar voru ljósar, ekki of mikið brúnaðar og bara nokkuð góðar. Verðið var 3.300 krónur með súpu.

Kótilettur
Grillaðar kótilettur með hreðku, salatblaði, frönskum kartöflum og hrásalati var ekki á seðli dagsins, heldur á fastaseðli grillhornsins. Þær höfðu ekkert umfram hina hversdagslegri rétti matseðils dagsins. Þær voru ekki of feitar, en fullmikið grillaðar og ofsaltaðar. En þær voru meyrar og sæmilega bragðgóðar. Dálítið feitibragð var að frönsku kartöflunum, sem voru þó sæmilega ljósar. Hótelsmjörið var í lagi og hrásalatið fjölbreytt og gott. Verðið var 3.700 krónur.

Skyr
Hrossaskammtur af skyri með rjómablandi, sem ætti einn út af fyrir sig að seðja hvern sem er, kostaði 900 krónur.

Ís
Marsipanís með niðursoðnum perum og súkkulaði var á fastaseðlinum. Í rauninni var hann með niðursoðnum jarðarberjum og að auki með þeyttum rjóma, blönduðum safanum úr berjadósinni. Þetta var emmess ís og kostaði 700 krónur.

Kaffi
Kaffið var ósköp líkt því, sem gengur og gerist á íslenzkum veitingahúsum. Helzti kostur þess var hinn sami og í Laugaási og Matstofu Austurbæjar, að kaffi eftir mat er selt á lægra verði en kaffi eitt út af fyrir sig. Verðið var 220 krónur.

Það er skynsamlegt hjá Múlakaffi að leggja alla áherzlu á matseðil dagsins og skipta stöðugt um rétti á honum. Fyrir bragðið ræður eldhúsið betur við það, sem upp á er boðið. Fastaseðillinn er líka fremur hóflegur og telur aðeins 13 aðalrétti.

Meðalverð tveggja rétta máltíðar á seðli dagsins var 2.600 krónur. Að kaffi viðbættu kemst máltíðin upp í 2.800 krónur, sem eru reyfarakaup. Hliðstæð tveggja rétta máltíð með kaffi kostar 2.600 krónur í Matstofu Austurbæjar, 3.000 krónur í Laugaási, 3.600 krónur í Aski, 4.100 krónur í Skrínunni og meira annars staðar.

Meðalverð sex forrétta og smárétta á fastaseðlinum var 1.600 krónur, 13 aðalrétta 3.800 krónur og þriggja eftirrétta 800 krónur. Meðalverð þriggja rétta máltíðar af þeim seðli ætti því að vera 6.200 krónur og 6.400 krónur að kaffi meðtöldu.

Múlakaffi hefur hvorki þjónustu né vín og getur því ekki fengið stig fyrir þá hluti. Og ekki getur staðurinn fengið hátt fyrir útlitið og innréttingarnar. En frá sjónarmiði matargerðarinnar einnar er Múlakaffi virðingarverður staður, sem heldur uppi merki íslenzkrar heimilismatreiðslu.

Múlakaffi fær sex í einkunn fyrir matreiðslu og fimm fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er fjórir.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Skrínan

Veitingar

Skrínan við Skólavörðustíg er sérkennilegur veitingasalur, engan veginn stílhreinn, en þó með skemmtilegu siglingaþema í innréttingum. Matreiðslan er svona upp og ofan, aðallega tilviljanaleg. Og afgreiðslan bendir til, að eigendur séu víðs fjarri, ef til vill í forstjóraleik.

Dimmt er inni í Skrínunni. Lýsingin er dauf frá skemmtilegum krónum úr netakúlum. Sérstaklega há og brött sófabök úr svörtu leðurlíki stúka salinn sundur þvers og kruss. Teppi á gólfum dempa enn frekar andrúmsloftið.

Aðall staðarins eru skreytingarnar, stór skipslíkön, myndir af skútum, gamlar blakkir, lágmynd af fiskibátum og sitthvað fleira, sem fer vel saman við gróft timbur í veggjum og lofti. Þetta þema er þó allt að því ofgert.

Ókunnugur gæti haldið, að þetta væri sjávarréttastofa. En í rauninni er Skrínan alveg laus við slíkt. Hún er steikarhús eins og flestar þær veitingastofur, sem opnaðar hafa verið undanfarinn áratug. Hún er hamborgarahorn í sparifötum.

Upp á síðkastið hefur verið nokkur losarabragur á Skrínunni, enda virðist gestum hafa fækkað frá því, sem áður var. Afgreiðslan er meðal annars í höndum stúlkna, sem virðast annars hugar, líkt og svo margar afgreiðslustúlkur hér á landi.

Fyrir Vikuna prófaði ég Skrínuna með ráðgjöfum mínum bæði í hádegi og að kvöldi. Niðurstaðan var tvíræð, svört í hádeginu og grá að kvöldinu. Fyrir bragðið var ekki auðvelt að gefa staðnum einkunn fyrir matreiðslu.

Í hádeginu voru pantaðir réttir af matseðli dagsins, en að kvöldinu af fastaseðlinum. Eftir reynslu minni að dæmi ætti að vera skárra, en auðvitað dýrara, að panta af fastaseðlinum. Kokkarnir vanda sig betur við slíka rétti.

Súpa
Súpa, nafnlaus í hádegisprófuninni, var sérkennileg hveitisúpa, hugsanlega blönduð úr súpu gærdagsins og nýrri súpu dagsins. Í henni kenndi grænna bauna, gulróta og spergils, en einkum þó hveitis. Þetta var leiðindasúpa. Verðið var 660 krónur.

Fiskur
orly fiskur í sama hádegi var djúpsteiktur með kokkteilsósu, frönskum og hrásalati. Þetta var ólystugur fiskur í ákaflega harðri skorpu og fylltur með einhverju ljósbrúnu farsi, sem var of bragðlaust til að ég gæti nafngreint það. Verðið var 2.120 krónur.

Gúllas
Gúllas í þessu hádegi reyndist vera lambakjötsbitar, of saltaðir og of brasaðir, fljótandi í brúnni hveitisósu. Með fylgdu belgbaunir úr dós, sæmilegt hrásalat og ágæt kartöflustappa, hæfilega múskatkrydduð. Verðið var 3.280 krónur.

Síld
Þá er komið að kvöldheimsókninni. Marineruð síld var einföld og ágæt, tvö flök borin fram með lauk og salatbrauði, svo og -viti menn- sætu franskbrauði, en ekki rúgbrauði. Hvít kartafla átti að fylgja, en var ekki til. Með henni hefði verðið verið 1.540 krónur, en án hennar var það 1.280 krónur.

Rækjukokkteill
Rækjurnar voru góðar, lítið kramdar og fremur myndarlegar. Undir þeim var salatblað og ofan á sósa úr sýrðum rjóma og tómatsósu. Verðið var 1.510 krónur.

Lambageiri
Lambageiri með grilluðum sveppum hafði rétt lambahryggsbragð, var bæði meyr og bragðmikill, en óhóflega feitur. Með honum voru dósasveppir, þolanlegar dósabaunir, fallega ljósar franskar kartöflur, svo og hrásalat, sem jóðlaði of mikið í sætri sósu. Verðið var 3.790 krónur.

Turnbauti
Turnbauti með béarnaise-sósu var með alveg sama meðlætinu og lambageirinn, að viðbættum spergli. Þetta var sæmilegur bauti, rétti hársteiktur, en jafnframt alveg blóðlaus og bragðdaufur. Á þessu hef ég enga skýringu. Béarnaise-sósan var mjög þykk og mjög feit, fremur óhugnanleg. Verðið var 6.290 krónur.

Ís
Vanilluís með perum og súkkulaðisósu var vel frambærilegur, þótt peran væri úr dós. Súkkulaðisósan var heit. Verðið var 790 krónur.

Kaffi
Kaffi var bara nokkuð gott. Það kostaði 390 krónur.

Verðhækkun

Þess ber að geta, að milli hádegisheimsóknar og kvöldheimsóknar hækkaði verð á mörgum veitingahúsum lítillega í kjölfar dýrari landbúnaðarafurða. Þetta verður að hafa í huga, þegar verð í Skrínunni eru borin saman við verð, sem gefin hafa verið upp fyrir aðra staði í þessum greinaflokki.

Meðalverð tveggja rétta máltíðar af seðli dagsins er 3.700 krónur. Meðalverð þriggja rétta máltíðar af fastaseðlinum er 6.600 krónur. Er þá meðalverð sex súpa og eggjarétta 1.600 krónur, tuttugu aðalrétta úr fiski og kjöti 4.200 krónur og fjögurra eftirrétta 800 krónur. Með kaffi á eftir fer slík máltíð upp í 7.000 krónur.

Matseðillinn í Skrínunni er langur, telur tæplega 50 rétti, að samlokum og hamborgurum meðtöldum. Þegar á reyndi, voru sumir þessara rétta ekki á boðstólum, svo sem við má búast, þegar matseðlar eru of langir.

Með nokkrum fyrirvara er Skrínunni gefnir fjórir í einkunn fyrir matreiðslu og sjö fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er þrír.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Versalir

Veitingar

Fyrir Versölum í Kópavogi hrópa ég húrra. Þar er komin til sögunnar fyrirmyndar veitingastofa með góðum mat og hljóðlátri þjónustu í glæsilegu umhverfi. Versalir eru nánast eins og Hornið eða Laugaás í sparifötunum.

Tímamót í veitingamennsku

Á hringferð minni um veitingahús Reykjavíkursvæðisins staðnæmist ég hvað eftir annað við þessa þrjá nýju veitingastaði. Að mínu viti marka Hornið, Laugaás og Versalir tímamót í íslenzkri veitingamennsku.

Áður mátti í grófum dráttum segja, að gestir yrðu að velja milli góðra, virðulegra og dýrra hótelsala annars vegar og hræðilegra steikarbúla hins vegar. Nú er orðið mögulegt að láta sér líða vel í tiltölulega ódýrum veitingahúsum.

Ég vona og held, að þessi þróun muni halda áfram. Ég veit, að fleiri matsveinar og þjónar eru að hugsa um að gerast sjálfs sín herrar, opna litlar veitingastofur, þar sem þeir geti ræktað iðn sína upp í list og lífsfyllingu.

Erlend reynsla er fyrir því, að matargerðarlist þrífst bezt í litlum 35-45 sæta veitingahúsum, þar sem eigendur vinna sjálfir í eldhúsi og sal. Fari þeir hins vegar í forstjóraleik, er hætt við, að matstofur þeirra koðni niður.

Eigendur Laugaáss elda sjálfir og þjóna sumpart til borðs. Ég held, að það sé skýringin á því, að maturinn er þar betri en á Horninu og dálítið betri en í Versölum. Síðari stofurnar tvær hafa svo önnur atriði fram yfir Laugaás.

Aðeins 36 stólar

Versalir eru ekki stærri en nútíma setustofa og taka ekki nema 36 manns í sæti. Innréttingar eru stílhreinar í gömlum stíl. Þær búa yfir innra samræmi, sem gefur veitingastofunni fallegan og virðulegan blæ.

Á veggjum eru mikilfengleg velúrtjöld, en engin fyrir gluggum. Í logagylltum römmum hanga lítilfjörleg málverk milli tjalda. Stólar eru virðulegir og borðdúkar eru hvítir. Þykkt teppi á gólfi undirstrikar rósemina.

Bezt er samræmið í lýsingunni, annars vegar frá mörgum átta arma ljósakrónum og hins vegar frá borðlömpum. Lakast er samræmið í gatinu inn í eldhús. Slík göt eru oft sniðug, en henta ekki virðulegum innréttingum Versala.

Gosbrunnurinn á miðju gólfi var ekki í sambandi í þau tvö skipti, sem ég hef sótt Vesali heim. Lágvær baktjaldatónlistin var þægileg. Og borðbúnaðurinn úr Royal Tudor leir frá Staffordshire var í samræmi við umhverfið.

Stúlkur ganga um beina í Versölum. Þær voru ekki orðnar þjálfaðar, en kunnu þó fagið. Þjónusta þeirra var kurteis og hljóðlát, svo að ég varð tæpast var við hana. Þykir mér þetta betra en gassagangur sumra þrautþjálfaðra þjóna.

Fyrst og fremst steikur.

Staðurinn heitir Steikhúsið Versalir. Þá nafngift tel ég bastarð, því að steikhús er amerískt og Versalir franskir. En með þessu munu eigendurnir vera að leggja áherzlu á, að matseðillinn byggist að verulegu leyti á steikum.

Þar skilur á milli Versala annars vegar og Laugaáss og Hornsins hins vegar. Síðari húsin leggja áherzlu á sjávarrétti og eru lítt eða ekki með nautasteikur á boðstólum. Hér við sjávarsíðuna líkar mér það betur, þótt ég lasti ekki hitt.

Matseðill Versala er einkar snyrtilegur útlits. Hann morar þó í prentvillum eins og matseðill Borgar. Turnbauti eða tournedos heitir tornato og appelsína eða glóaldin heitir glóðaldin. Er það löstur á annars fallegum seðli.

Með ráðgjöfum mínum prófaði ég í tveimur atrennum tólf af 26 réttum á matseðli Versala. Útkoman var í stuttu máli sú, að allur var þessi matur góður og sumt af honum mjög gott. Að því leyti eru Versalir í gæðaflokki Laugaáss.

Það sem skilur á milli er, að Versalir fylgja ekki matargerðarlistinni á leiðarenda. Þegar matsveinarnir eru búnir að búa til hinar ljúfustu steikur úr bezta hráefni, grípa þeir dósahnífinn og kúffylla diskana með jukki.

Ég viðurkenni að vísu, að margir Íslendingar vilja sjá hrokaða diska af niðursoðnum sveppum, baunum, gulrótum, spergli og rósakáli. En ég mótmæli því samt, að þetta jukk sé samboðið góðum steikum.

Auðvitað get ég ýtt þessu til hliðar á diskinum. En hraukurinn særir samt fegurðarskyn mitt og spillir því, að matargerðarlistin í steikunum komist til skila. Af hverju ekki spyrja gesti, hvort þeir kæri sig um dósajukk?

Versalir mega svo eiga það umfram marga aðra veitingastaði, að soðna grænmetið er þar minna ofsoðið og ekki eins maukað. Og hrásalatið, sem fylgir aðalréttunum, er með bezta móti, einfalt og aðeins lítillega olíuvætt.

Spergilsúpa
Rjómalöguð spergilsúpa var í betra lagi, en nokkuð bragðdauf. Sem rjómasúpa var hún fremur þunn, en mér fannst það ekki til skaða. Verðið er 1.160 krónur, þegar þetta er skrifað.

Lúðvíkssúpa
Súpa að hætti Lúðvíks fjórtánda var góð, en fremur flókin og sérkennileg. Þetta var rjómasúpa, sem hafði að geyma jafnaðskiljanlega hluti og skinku og krækling. Verðið er 1.230 krónur.
Í annarri heimsókninni fylgdi súpunum brauð með grófu salti ofan á, en í hitt skiptið venjulegra franskbrauð. Í bæði skiptin hafði brauðið verið skorið of snemma og þornað.

Síld
Síldarþrenna með rúgbrauði og smjöri var góður matur. Skemmtileg andstæða var milli óvenju milds bragðs kryddlegnu síldarinnar og óvenju mikils bragðs gaffalbitanna. Með þessu voru egg, sem höfðu verið soðin of lengi og með of miklum fyrirvara, svo og salat og tómatur með majonesi. Verðið er 1.975 krónur sem forréttur.

Fiskur
Fiskur orly er eini raunverulegi fiskrétturinn á seðlinum, ef frá er talið síld, lax og skeldýr. Þessi djúpsteikti fiskur var góður og virtist vera úr ferskri fremur en frystri ýsu. Hrísgrjónin, sem fylgdu, voru mauksoðin. Karrísósan var skemmtilega sterk á bragðið. Annað meðlæti var salatblað, ananas og sítróna. Í heild var gott samræmi í þessum mat. Verðið er 1.800 krónur sem forréttur og 3.620 krónur sem aðalréttur.

Graflax
Graflaxinn var borinn fram með ristuðu brauði og smjöri, sítrónu, salatblaði, tómati, gúrku og svo auðvitað dillsósu. Hún var óvenju sæt á bragðið, líkt og sírópi hefði verið blandað í hana. Þetta var góð sósa, sem og graflaxinn sjálfur. Mér fannst hann þó betri í Holti og á Sögu. Verðið er 3.060 krónur sem forréttur og 4.150 krónur sem aðalréttur.

Meðlæti
Áður hefur verið minnzt á, að ágætt hrásalat fylgdi öllum aðalréttum. Yfirleitt fylgdi þeim einnig sama soðna grænmetið, rósakál, gulrætur, spergill og sveppir, svo og bökuð kartafla. Mér hefði nægt kartaflan ein, enda var hún ágæt.

Lúðvíkslamb
Kryddlegin lambabuffsteik að hætti Lúðvíks fjórtánda var aðeins lítillega ofsteikt og hafði enn dálítinn roða innst. Þetta var sérstaklega meyr steik og nokkuð bragðgóð. Sósan var fremur hlutlaus. Verðið er 5.420 krónur.

Appelsínulamb
Lambabuffsteik með glóaldinum var hæfilega steikt, bleik og meyr, sennilega bezti matur prófunarinnar. Með henni fylgdi ágæt sveppasósa. Verðið er 5.270 krónur.

Kjúklingur
Kjúklingur að hætti Ho Chi Min var hæfilega lítið matreiddur og þar af leiðandi bragðgóður. Honum fylgdu hrísgrjón með papriku, ananas og karrísósu. Þetta meðlæti var vel við hæfi og mun betra en jukkið, sem fylgdi hinum réttunum. Sætubragð var af karrísósunni eins og sumum öðrum sósum Versala. Verðið er 6.795 krónur.

Turnbauti
Tournedos béarnaise, hrásteiktur, var mjög mjúkur og góður, en dálítið mikið pipraður. Béarnaise-sósan var líka góð. Verðið er 8.865 krónur.

Lúðvíksnaut
Nautabuffsteik að hætti Lúðvíks fjórtánda var raunar öllu betri en turnbautinn, miðlungi steikt og með brúnni, hálfsætri sósu. Verðið er 8.900 krónur.

Ís
Rjómaíss hússins búinn til í eldhúsinu var einfaldur og góður. Verðið er 1.290 krónur.

Pönnukökur
Pönnukökur með ís og ávöxtum voru með rönd af þeyttum rjóma að utan og fylltar með ís og niðursoðnum ávöxtum. Pönnukökurnar voru ekki nógu þunnar. Verðið er 1.560 krónur.

Kaffi
Kaffi eftir matinn var sæmilegt og kostaði heilar 550 krónur.

Vín

Einhver ruglingur var á vínveitingaleyfi Versala um þessar mundir. Vínlistinn var þó til, stuttur og ágætur. Þar mátti sjá Tio Pepe sérrí og Noval portvín. Geisweiler, Saint-Laurent og Trakia rauðvín og Chablis, Gewürztraminer og Edelfräulein hvítvín. Þetta er raunar bezti vínlisti landsins, þótt stuttur sé.

Að þessum orðum skrifuðum, sé ég í fréttum, að vínveitingaleyfið er fengið. Því fagna ég, um leið og ég vona, að Hornið þurfi ekki lengi að bíða og Laugaás fái leyfi, verði þess óskað. Sum hús með gömul og ný vínveitingaleyfi eru mun lakari en þessi þrjú.

Milliverð

Enginn matseðill dagsins er í Versölum. Meðalverð sjö súpa og forrétta er 2.300 krónur, sautján aðalrétta 6.900 krónur og þriggja eftirrétta 1.500 krónur. Samtals ætti þríréttuð máltíð því að kosta að meðaltali um 10.700 krónur og að meðtalinni hálfri flösku á mann af Trakia rauðvíni og kaffi um 12.600 krónur. Allt er þetta samkvæmt verðlagi í febrúarlok.

Af þessu má sjá, að verðið í Versölum er á milli verða Holts og Sögu annars vegar og Hornsins og Laugaáss hins vegar. Virðast mér þau verðhlutföll vera við hæfi.

Matreiðslan í Versölum fær sjö í einkunn, þjónustan átta, vínlistinn sjö og umhverfi og andrúmsloft átta. Vegin meðaleinkunn Versala er sjö. Og er þar með fundið þriðja bezta veitingahús landsins.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Brauðbær

Veitingar

Brauðbær við Óðinstorg er notaleg matstofa af hæfilegri stærð, 40-50 sæta eins og Laugaás og Hornið. Brauðbær er líka í sama lága verðflokknum og hin tvö og virðist töluvert sóttur af barnafólki, enda er boðið upp á sérstakan barnamatseðil.

Brauðbær er fyrst og fremst steikhús að bandarískum hætti. Lamba- og nautasteikur tróna miðskips á matseðlinum, en lítið er lagt upp úr fiskréttum. Brauðbær er án efa í fremstu röð slíkra veitingastofa hér á landi.

Mér finnst matreiðslan mun betri í Laugaási og innréttingar skemmtilegri á Horninu. Þá hefur Hornið fulla þjónustu og Laugaás treikvart-þjónustu, en Brauðbær býður aðeins upp á sjálfsafgreiðslu. Slíkt reynist gestum oft ónæðissamt.

Afgreiðslan í Brauðbæ er elskuleg og hjálpsöm. Eldamennskan er snör og örugg, en hvílir í öruggum faðmi meðalmennskunnar. Segja má, að þarna sé enginn matur vondur, en enginn heldur góður. Er það raunar betri umsögn en hér hefur verið gefin um suma dýrari veitingastaði.

Brauðbær er hreinlegur staður, dimmur og mjög þröngur. Andrúmsloftið er þægilegt og rólegt. Stólar eru þægilegar og luktir skemmtilegar. Tónlistin að tjaldabaki mætti vera aðeins lægri. En barnastólarnir eru vel þegnir.

Steinflísar eru á gólfi. Grófar trésúlur og grófir tréveggir setja svip á staðinn, sem og batikmyndirnar fyrir ofan tréveggina. Úr opnu eldhúsinu heyrist ekki óþægilegur hávaði. Og þaðan berst ekki lykt af aldraðri steikarfeiti.

Enginn matseðill dagsins er í Brauðbæ. Þar er eingöngu byggt á fastaseðlinum. Á honum enda öll verð á 90 krónum. Þar er um að ræða frávik frá hinni amerísku hefð, þar sem öll verð enda á 95 sentum. Af hverju neita sér um fimmkallinn?

Ýsa fyrir börn
Felix með frönskum var réttur nokkur á barnamatseðlinum. Það var djúpsteiktur fiskur, bara nokkuð góður, með hæfilega þunnri og harðri skorpu. Þær frönsku voru sæmilegar. Súkkulaðiís fylgdi þessum rétti, að minnsta kosti til þeirra barna, sem luku af diskinum. Og á reikningi kvöldsins var þessi fiskur og ís alls ekki bókaður til verðs.

Og meiri ýsa
Dálæti sjómannsins eða ofnbakaður fiskur með hvítlauksbrauði reyndist einnig hafa í farangrinum ostsósu og dósasveppi. Þetta var ýsa, bökuð í sósunni og kom snarpheit úr ofninum. Hún var nokkuð mikið bökuð, en samt ennþá góð á bragðið. Ostsósan var í lagi, en nokkuð sterk. Hvítlauksbragðið af brauðinu var hæfilega milt. Verðið er 2.790 krónur.

Lambateinn
Draumur kaupmannsins eða “shish kebob með rispilav” reyndist vera grillað lambakjöt, laukur og vínarpylsubitar á teini. Sem meðlæti var ágætt hrásalat og hrísgrjón í sósu. Lambakjötið sjálft var þrælgrillað til síðasta safadropa. Verðið er 2.490 krónur.

Lambalundir
Lambalundir Café de Paris með samnefndu smjöri, bakaðri kartöflu, hrásalati og brauði, smurðu lifrarkæfu, höfðu einnig meðferðis belgbaunir og sveppi úr dós. Lundirnar voru vafðar upp og festar þannig með tannstönglum. Þær voru dálítið mikið steiktar, en þó örlaði fyrir bleiku í miðjunni. Verra var, hversu ótæpilega þær voru kryddaðar. Bakaða kartaflan var aðeins hálfbökuð. Hrásalatið var ágætt. En lítið fór fyrir brauðinu og kæfunni.
Hin franska Larousse alfræðiorðabók um mat kannast ekki við Café de Paris smjör, þótt þar séu áreiðanlega fleiri en hundrað mismunandi kryddsmjör. En mönnum leyfist líklega að koma á framfæri uppfinningum á styttri leið en frá Ítala-Breiðstræti að Óðinstorgi.
Verð lundanna er 3.890 krónur.

Piparlamb
Sítrónupiparsteik eða lambabuff með rjómapiparsósu og fleiru hafði í farangrinum bakaða kartöflu og belgbaunir. Kartaflan var hálfbökuð og baunirnar voru úr dós. Lambakjötið var þrælsteikt og gífurlega piprað, en sósan var bara nokkuð góð. Verðið er 3.690 krónur.

Nautalundir
Brauðbæjar bezta steik eða nautalundir með ristaðri skinku, sveppum, hrásalati, bakaðri kartöflu og béarnaise sósu hafði einnig með sér belgbaunir og lauk. Beðið var um lundirnar hrásteiktar, en þær komu miðlungi steiktar. Þær voru þó meyrar og bragðgóðar. Sem betur fer voru þær ekki ofkryddaðar. Hrásalatið góða hæfði kjötinu vel. Ristaða skinkan og dósasveppirnir voru hins vegar bara að flækjast fyrir. Bakaða kartaflan var hálfbökuð. Sósan var sæmileg. Verðið er 5.890 krónur.

Kjúklingur
Glóðarsteiktur kjúklingur með salati, sveppasósu og frönskum kartöflum var of mikið grillaður og farinn að verða seigur og bragðdaufur. Frönsku kartöflurnar voru sæmilegar og hrásalatið var gott að venju. Hálfur kjúklingur kostar 3.990 krónur og fjórðungurinn 3.290 krónur.

Hamborgari
Hamborgari með lauk var eins og vænta mátti bragðlaus grunnur fyrir bragðlauka, sem hafa hlotið þjálfun sína í tómatsósu og öðru verra. Hamborgarinn kostar 1.090 krónur og franskar kartöflur 500 krónur til viðbótar.

Kaffi
Kaffið eftir matinn var með því betra, sem ég hef fengið á íslenzku veitingahúsi. Kaffisins var ekki sérstaklega getið á reikningnum.

Lágt verð, miðlungs gæði

Meðalverð sjö forrétta, súpa og smárétta er 2.000 krónur. Meðalverð aðalrétta er 3.600 krónur. Tvírétta máltíð ætti því að kosta 5.600 krónur auk drykkjar og kaffis.

Matreiðslan í Brauðbæ fær sex í einkunn, en það eru óneitanlega rýrari sex en hjá Blómasalnum í Loftleiðahótelinu. Fyrir góða afgreiðslu fær matstofan prik, þótt engin þjónusta sé veitt til borðs. Og fyrir umhverfi og andrúmsloft eru gefnir sjö. Vegin meðaleinkunn Brauðbæjar er fimm.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Matstofa Austurbæjar

Veitingar

Í Matstofu Austurbæjar er hægt að fá sómasamlegan mat hjá vingjarnlegu fólki fyrir óvenju lágt verð. Meðalverð aðalrétta af fastaseðli er 3.200 krónur og meðalverð tveggja rétta máltíða af matseðli dagsins er 2.400 krónur.

Innréttingar Matstofu Austurbæjar eru hvorki beinlínis smekklegar né fagmannslegar. Þær eru þó sæmilega hlýlegar og gefa gott svigrúm. Innan um nýlega hluti eru nokkur þreytuleg borð og stólar. Horfnir eru ljótir básar á miðju gólfi.

Þarna virðist dálítið um kostgangara og húsvini. Andrúmsloftið er laust við streitu. Ég tók eftir börnum umsjónarfólks, sem hlupu með öðrum börnum milli salar og eldhúss. Þarna þurfti ekki sérstakt barnahorn.

Streituleysið endurspeglaðist í vingjarnlegu viðmóti starfsfólks. Ég krækti mér í öl úr glerskáp á skenknum. “Viltu ekki heldur kalt öl?” sagði stúlkan. Ég tek eftir slíku á tímum, þegar fjöldi stúlkna virðist timbraður og svefnlaus við afgreiðslu.

Hálf þjónusta

Eins og Laugaás veitir Matstofa Austurbæjar hluta úr þjónustu. Þú pantar og tekur þér áhöld og drykki við skenkinn, en getur svo látið færa þér matinn til borðs. Þar með þarftu ekki að standa upp meðan þú ert að borða.

Þetta er auðvitað hátíð miðað við sjálfsafgreiðslu, þar sem gestir eru á þönum fram og aftur eða horfa á aðalmatinn kólna, meðan súpan er innbyrt. Þú færð mikilvægasta hluta þjónustunnar, þótt matstofan spari sér nokkurn kostnað.

Segja má, að í Laugaási sé veitt treikvart-þjónusta, því að þar bera gestir engan mat til borðs. Í Matstofu Austurbæjar væri þá hálf þjónusta, því að mér virðist, að þar beri gestir rétti dagsins til borðs, en fái þjónustu með sérrétti.

Hvorug leiðin jafnast þó á við hina gömlu og góðu þjónustu. Hins vegar kann treikvart-þjónustan að vera heppileg millileið í hraða nútímans og í tilraunum til að halda niðri verði. Og mér finnst hún mun aðgengilegri en hálfa þjónustan.

Í einkunnum mínum fyrir þjónustu veitingahúsa geta þau fengið hæst tíu fyrir fulla þjónustu. Fyrir treikvart-þjónustu gef ég hæst sjö og hæst fjóra fyrir hálfa þjónustu. Sjálfsafgreiðsluhús fá auðvitað ekkert fyrir þennan þátt.

Hnífapör eru of veigalítil í Matstofu Austurbæjar. Ég beyglaði gaffal. Og hnífurinn átti í erfiðleikum með nautakjöt, sem þó var ekki seigt. Það er kominn tími til að fleygja þessu kreppuáradóti og fá áhöld, sem eru gerð fyrir veitingahús.

Hinn fasti matseðill Matstofunnar er fremur ýtarlegur með ýmsum eggjakökum, pítsum, samlokum og hamborgurum. Súpur eru aðeins tvær og einnig fiskréttirnir. Kjötréttir eru sjö. Engir eftirréttir eru á matseðli, en samt er hægt að fá smátertur úr eldhúsi veitingastofunnar.

Matseðill dagsins er einnig með fjölbreyttasta móti. Ég kom tvisvar í heimsókn nýlega og voru sex réttir á boðstólum í annað skiptið, sjö í hitt. En eins og fastaseðillinn er dagseðillinn fátækur af fiskréttum, nærtækasta hráefni landsins.

Blómkálssúpa
Blómkálssúpa var súpa dagsins, þegar ég heimsótti Matstofu Austurbæjar í hádeginu. Hún hefði verið sæmileg, ef hún hefði ekki verið örlítið kekkjuð. Súpa dagsins er innifalin í verði rétta dagsins, en kostar 700 krónur, sé hún keypt sérstaklega.

Ýsa
Steikt ýsuflök með hrásalati og sítrónu voru á þessum seðli dagsins. Þetta var ágætur matur, enda voru flökin hæfilega lítið pönnusteikt, mjúk og mjallhvít að innan. Með fylgdu ristaðar rækjur og sæmilegasta remúlaði, hálfkaldar hvítar kartöflur, sítrónubátur, gúrkusneiðar og bærilegasta hrásalat. Verðið er 2.000 krónur og er þá súpa innifalin.

Síld
Marineruð síld með brauði, smjöri og lauk var mild og góð á bragðið, einkar frambærilegur matur. Meðlætið var svipað og fylgdi ýsunni og laukurinn var ágætur. Verðið er 1.800 krónur að súpu innifalinni.

Pitsa
Pitsa með skinku og sveppum reyndist sæmileg, miðað við íslenzkar aðstæður. Hún var ekki eins góð og pitsan í Laugaási og langt frá því eins og sú á Horninu. En ég hef fengið margar verri pítsur um dagana hér á landi. Botninn var of þykkur, en samt hæfilega stökkur. Pitsan var ekki brennd, en of bragðdauf. Verðið er 1.900 krónur.

Nautabuff
Nautabuff með kryddsmjöri, frönskum kartöflum, hrásalati og grænmeti átti að vera lítið steikt, en kom samt rúmlega miðlungi steikt. Ég skil ekki þann sið íslenzkra kokka að spyrja viðskiptavininn um steikingartíma og taka síðan ekkert mark á svörum hans. Annars var þetta sæmilegt kjöt, tæpast nógu meyrt og allt of mikið saltað og piprað.
Með fylgdu linar baunir og gulrætur úr dós, sæmilegt hrásalat með léttri eggjasósu, dökkar, en ekki brenndar franskar kartöflur og miður gott kryddsmjör með béarnaise-bragði.
Verðið er 3.780 krónur.

Lambagrillsteik
Lambagrillsteik með kryddsmjöri, frönskum kartöflum og salati var raunar líka með dósagrænmeti og dósasveppum. Meðlætinu var lýst hér að framan. En lambakjötið sjálft var mjög gott, mun minna ofgrillað en venja er hér á landi. Það var enn rautt og undurmeyrt. Því miður var það allt of saltað og piprað. Verðið er 3.780 krónur.

Eftirréttir
Fyrir tilviljun komst ég að því, að Matstofa Austurbæjar býður upp á smátertur úr eigin eldhúsi sem eftirrétti á 400 krónur, þótt þess sé ekki getið á matseðli. Ég prófaði eina hálfhringlaga með marsipan og aðra aflanga með sætum hnetumassa. Sú fyrri var nokkru betri.

Kaffi
Kaffið var venjulegt, íslenzkt kaffi, hvorki gott né vont. Aðalkostur þess var, að bollinn eftir mat var seldur á lægra verði en kaffi án matar. Venjulega kostar kaffi þarna 400 krónur, en eftir mat kostar bollinn 250 krónur. Þetta er sama hugulsemi og í Laugaási og mættu fleiri veitingamenn taka hana upp.

Lægsta verðið

Meðalverð tveggja rétta máltíðar af matseðli dagsins er 2.400 krónur, hið lægsta, sem komið hefur í ljós í þessum greinaflokki. Með tertu hússins og kaffibolla ætti þriggja rétta máltíð þá að fara upp í 3.000 krónur, sem óneitanlega er óvenju hagstætt.

Meðalverð forrétta, súpa og smárétta á fastaseðlinum er 1.500 krónur. Meðalverð aðalrétta úr kjöti og fiski er 3.200 krónur. Með tertu og kaffi ætti þriggja rétta máltíð af fastaseðli því að kosta að meðaltali 5.300 krónur, sem líka er mjög hagstætt.

Matstofa Austurbæjar er dálítið ódýrari en Hornið og Laugaás og töluvert ódýrari en Askur og Esjuberg. Þetta er enginn veizlusalur matargerðarlistar, en lætur viðskiptavininn fá töluvert fyrir peninga hans.

Matreiðsla Matstofu Austurbæjar fær fimm í einkunn, hálfa þjónustan fær þrjá í einkunn, andrúmsloft og umhverfi fimm. Vegin meðaleinkunn staðarins eru fjórir. Og er þá auðvitað ekki tekið tillit til lága verðsins.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Askur

Veitingar

Beinagrind af kjúklingi milli súlu og veggjar, sem ég sá í hádegismat á Aski, Laugavegi 28, var þar enn um kvöldmatarleytið daginn eftir. Var þetta athyglisvert dæmi um sóðalegt yfirbragð þessarar lélegu matstofu, sem þó hefur haft kjark til að sækja um vínveitingaleyfi.

Nýju eigendurnir hafa ekki enn tekið til hendinni á Aski, Laugavegi 28, þegar þessi grein er rituð. Allt er þar enn við sömu gallana, sem hafa gert mig fráhverfan heimsóknum. Eru eigendurnir nýju þó líklegir til átaka, vonandi frekar fyrr en síðar.

Innréttingar eru stórkarlalegar. Súlur úr grófum við minna á Halta hanann, en eru þó hvergi nærri eins smekklegar. Á Aski vantar samræmi í stílinn. Strigi og steindir gervigluggar eru á veggjum.

Í stórum dráttum virðist þetta fremur óvandað, þreytulegt og vekur jafnvel óþægilegan grun um óþrifnað.

Opið er inn í eldhús og heyrist þaðan hvimleiður hávaði, svo sem hróp og köll milli gjaldkera og matsveina. Fyrir gesti er þetta ónæðissamt og eykur óþægindatilfinninguna frá umhverfi og andrúmslofti Asks.

Afgreiðsla á kassa er fremur kuldaleg og ónákvæm. Ég pantaði litla skammta af tveimur fiskréttum, en var látinn borga fyrir stóra. Það leiðréttist á staðnum, en hitt uppgötvaðist ekki fyrr en of seint, að ég hafði verið látinn borga einn skammt af hrásalati þrisvar sinnum.

Alger sjálfsafgreiðsla er á Aski eins og á Esjubergi. menn rogast fram og aftur með bakka sína. Eru báðir þessir staðir þó mun dýrari en Hornið og Laugaás, sem veita þó matarþjónustu til borðs og bjóða upp á mun betri mat.

Rósinkálssúpa
Rósinkálssúpa var innifalin í verði aðalrétta á matseðli dagsins, þegar ég kom á Ask í hádeginu. Þetta var hversdagsleg hveitisúpa, hvorki góð né vond. Verðið er 650 krónur, ef hún er keypt sérstaklega.

Kjúklingapottréttur
Kjúklingapottréttur með hrísgrjónum og salati var nokkurn veginn sæmilegar. Dósasveppirnir voru ekki óhóflega eldaðir, en hrísgrjónin voru í meira lagi ofsoðin. Hrásalatið var gott og borið fram með skemmtilega sterkri sósu. Hveitisósan var þykk og miður lystug. Kjúklingarnir sjálfir voru nokkuð mikið soðnir, en eigi að síður í lagi. Verðið er 3.600 krónur með súpu innifalinni.

Buff
Buff Lindström með spældu eggi var vel heppnað hakk, ekki steikt meira en svo, að það var rautt að innanverðu. Með fylgdi sama hrásalat og áður var lýst, spælt egg og tvær hvítar kartöflur, allt frambærilegt. Verðið er 3.000 krónur með súpu innifalinni.

Kótiletta
Glóðarsteikt kótiletta var meðal þess, sem valið var af fastaseðlinum í kvöldheimsókninni. Hún var ekki merkileg, enda mjög feit. Verðið er 770 krónur ein kótiletta og 2.200 krónur sem heill skammtur, í báðum tilvikum án meðlætis.
Ef við gerum ráð fyrir ferns konar meðlæti til að búa til aðalrétt, t.d. með kartöflum, hrásalati, sósu og annað hvort hrísgrjónum eða einum öðrum bragðauka, yrði verð aðalréttarins 4.000 krónur. Verð einnar kótilettu með sams konar meðlæti yrði þá 1.670 krónur sem forréttur.

Kjúklingur
Ask-kjúklingur var fremur vondur, enda þrælsteiktur og þurrlegur. Verðið er 1.980 krónur sem lítill skammtur og 3.740 krónur sem heill skammtur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði litli skammturinn að forrétti á 2.880 krónur og með ferns konar meðlæti yrði heili skammturinn að höfuðrétti á 5.540 krónur.

Lambasteik
Lambasteik Hawai var ofsalega mikið pipruð steik með ananashring. Þetta var sæmilegasta hráefni, en nokkuð mikið steikt. Verðið er 2.550 krónur sem heill skammtur án meðlætis. Með ferns konar meðlæti yrði úr þessu aðalréttur á 4.350 krónur.

Turnbauti
Turnbauti var meyr, en bragðlaus, framreiddur miðlungi steiktur, þótt beðið væri um hann mjög lítið steiktan. Verðið er 4.850 sem heill skammtur án meðlætis. Með ferns konar meðlæti yrði úr honum aðalréttur á 6.650 krónur.

Pönnukökur
Kínversk pönnukaka var ómerkileg og köld, en ekki beinlínis vond. Verðið er 670 krónur ein pönnukaka og tvær á 1.100 krónur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði eina pönnukakan að forrétti á 1.570 krónur og með ferns konar meðlæti yrðu pönnukökurnar tvær að aðalrétti á 2.900 krónur.

Fiskur
Innbakaður fiskur orly var sérstaklega vondur, grimmileg steiktur af kokkum, sem virtust hata fisk. Hann var afgreiddur hálfkaldur. Verðið er 400 krónur sem lítill skammtur og 1.000 krónur sem heill skammtur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði litli skammturinn að forrétti á 1.300 krónur og með ferns konar meðlæti yrði heili skammturinn að höfuðrétti á 2.800 krónur.

Meiri fiskur
Djúpsteiktur fiskur í brauðmylsnu var annað dæmi um djúpa óbeit eldhússins á fiski. Þetta var grjóthörð plata, sem var á bragðið eins og léleg feiti. Hún var afgreidd hálfköld. Verðið er 350 krónur sem lítill skammtur og 1.000 krónur sem heill skammtur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði litli skammturinn af forrétti á 1.250 krónur og með ferns konar meðlæti yrði heili skammturinn að höfuðrétti á 2.800 krónur.

Pitsa
Pitsa Ask-speciale var of þykk og of hörð, of brennd og of köld. Þar á ofan fannst ekkert oregano né annað skylt kryddbragð. Þetta var versta pitsa ævinnar og er þá ekki lítið sagt. Verðið er 2.200 krónur án meðlætis.

Meðlæti
Ég prófaði ýmislegt meðlæti, sem gestir panta og borga sérstaklega.
Hrísgrjónin voru alveg köld og ekki góð á bragðið. Skammturinn kostar 400 krónur.
Hvítu kartöflurnar voru einnig alveg kaldar og lítt lystugar. Verðið er 350 krónur.
Sveppirnir voru úr dós. Verðið 440 krónur.
Paprikan var ný og bragðaðist sæmilega. Verðið er 220 krónur.
Franskar kartöflur voru kaldar, en ekki brenndar, alveg ætar. Verðið er 450 krónur.
Hrásalat var sómasamlegt, jafnvel gott. Verðið er 450 krónur.
Béarnaise-sósa var þykk og vond. Verðið er 700 krónur.
Kryddsmjör var tæpast eðlilegt á bragðið, ekki veit ég hvers vegna. Verðið er 450 krónur.

Meðalverð kartöfluskammta er 400 krónur, salata 500 krónur, hrísgrjóna og ýmissa bragðauka 400 krónur. Samtals ætti því ferns konar meðlæti að kosta 1.800 krónur aðmeðaltali og tvenns konar 900 krónur að meðaltali.

Til þess að gera verð “heilla skammta” á Aski sambærilegt við verð, sem gefið er upp á öðrum veitingahúsum, er rétt að bæta við það 1.800 krónum. Er þá gert ráð fyrir kartöflum, hrásalati, sósu og hrísgrjónum eða einum bragðauka á borð við sveppi, lauk eða papriku.

Þess vegna bæti ég 900 krónum við verð “lítilla skammta” til að finna forréttaverð og 1.800 krónum við verð “heilla skammta” til að finna aðalréttaverð.

Eftirréttaleysi

Kaffi eftir mat er selt á 400 krónur og má missa sig. Ekki er boðið upp á neina eftirrétti, nema kannski tertur nokkrar í glerskáp.

Tvírétta máltíð með kaffi af matseðli dagsins ætti að kosta 2.800-4.300 krónur. Á fastaseðlinum verða upphæðirnar hærri. Meðalverð forrétta og smárétta með tvenns konar meðlæti er um 1.900 krónur. Meðalverð aðalrétta með ferns konar meðlæti er um 4.800 krónur. Tvírétta máltíð með kaffi af matseðli dagsins ætti því að kosta að meðaltali 6.700 krónur.

Aðalréttur á vínveitingahúsunum Sögu, Loftleiðum, Holti, Nausti og Borg kostar að meðaltali 7.700-8.500 krónur. Á Esjubergi og Aski kostar hann 4.700 krónur. Á Horninu og Laugaási kostar hann hins vegar ekki nema 3.600 krónur.

Það er athyglisvert, að milliverðsstaðirnir Esjuberg og Askur veita ekki þjónustu til borðs. Það eykur tilfinningu mína fyrir því, að endurbóta og verðlækkunar þurfi við á báðum stöðum.

Matseldin á Aski fær þrjá í einkunn og umhverfið þrjá. Vegin meðaleinkunn veitingastofunnar er tveir, lægsta einkunn, sem hingað til hefur verið gefin.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Laugaás

Veitingar

Laugaás er ódýrt veitingahús, sem býður upp á vandaða matreiðslu og þægilegt umhverfi. Þetta nýja veitingahús að Laugarásvegi 1 markar ásamt Horninu í Hafnarstræti mestu framför síðustu ára í veitingamennsku Íslendinga.

Til skamms tíma urðum við að velja milli fremur dýrra, en fyrsta flokks vínveitingahúsa eins og Holts og Sögu annars vegar og hins vegar ódýrari en fimmta flokks steikarbúla, mettaðra feitibrælu.

Nú eru hins vegar að koma til skjalanna lítil veitingahús eins og Laugaás og Hornið, sem eru ódýrari en steikarbúlurnar, veita þó sómasamlega þjónustu og bjóða upp á mat, er veitir fyrsta flokks húsunum hættulega samkeppni.

Barnahorn, bravó!

Laugaás er lítil stofa, sem tekur ekki nema um það bil 40 manns í sæti. Innréttingar eru bjartar og hreinlegar, en dálítið kuldalegar. Veggir eru hvítir og trégrindur gular, en í loftum er lítt áberandi rauður litur.

Athyglisverðar steinflísar með innbrenndum jurtum eru lagðar í borðin til að hlífa þeim fyrir brennheitum pönnum og diskum, sem gestir borða úr suma réttina. Jurtaskreytingin er skemmtilegt smáatriði, sem lyftir veitingahúsinu.

Laugaás hefur fetað út á sömu, góðu brautina og Esjuberg að hafa sérstakt barnahorn, þar sem ungviðið getur dundað sér við kubba og bækur, meðan foreldrarnir ljúka við kaffið eftir matinn. Þetta framtak er sérstaklega lofsvert.

Mataráhugamenn hafa deilt um gildi tónlistar í veitingasölum. Sumir segja, að lágvær og þægileg tónlist bæti meltinguna. Hinir eru þó sennilega fleiri, sem vilja fá frið frá tónlist, meðan þeir eru að borða.

Hornið í Hafnarstræti kaus að hafa tónlist af bandi að tjaldabaki. Í Laugaási er hins vegar engin tónlist. Þessi verkaskipting er ágæt, því að hvort tveggja þarf að vera til, í þágu valfrelsis gesta.

Kokkar í sal

Fullkomin þjónusta er ekki veitt í Laugaási. Menn panta við diskinn og taka sér þar hnífapör, handþurrkur og drykkjarföng. Síðan fá menn matinn inn á borð til sín, alveg eins og á venjulegu veitingahúsi.

Gestir fá því mikilvægasta þátt þjónustunnar. Eftir að þeir eru seztir til borðs, þurfa þeir ekki að standa upp til frekari útréttinga. Þeir þurfa heldur ekki að óttast, að höfuðréttur kólni meðan súpan er sopin.

Matreiðslumennirnir annast þjónustuna sjálfir að nokkru leyti. Það hefur þann kost, að gestir fá tækifæri til að spjalla við þá um matinn og forvitnast um, hvernig hann verður til. Mín reynsla er, að erfitt sé að trúa því, sem þjónar segja um slík mál.

Að vísu finnst mér, að gestir ættu ekki að þurfa að bera sjálfir hnífapör og glös til borðs. Ég held, að það mundi ekki auka fyrirhöfn starfsliðs að ráði, þótt gestum yrði gert það til geðs að færa þeim þessa hluti að borði.

Sómi sjávarrétta

Á matseðli dagsins eru að jafnaði fjórir eða fimm réttir og er súpa innifalin í verðinu. Þar fyrir utan er sérstakur fastamatseðill með 24 réttum, auk ýmissa hamborgara, pitsa og samloka. Þetta er meira en fullnægjandi fjölbreytni.

Sjávarréttum er sýndur mikill sómi, bæði á matseðli dagsins og fastaseðlinum, líkt og á veitingahúsinu Horninu. Það þykja mér gleðileg tíðindi, því að svo fer fyrir flestum matfróðum, að fiskur verður þeim smám saman hugstæðari en kjöt.

Ég heimsótti Laugaás með ráðgjöfum mínum bæði í hádegi og að kvöldi til að deila reynslunni með lesendum Vikunnar. Í bæði skiptin var fullt og fjörugt hús. Um kvöldið var mikið af hjónakornum og heilum fjölskyldum.

Létt vín er ekki á boðstólum í Laugaási og verða ekki á næstunni. Eigendur vilja bíða átekta og fylgjast með, hvernig reynslan verður í öðrum veitingahúsum, sem hugsanlega eru að fá leyfi til veitinga léttra vína.

Karfi
Pönnusteiktur, nýr karfi, bakaður í ostasósu, var á matseðli dagsins í hádeginu. Ég rak auðvitað upp stór augu, enda hef ég ekki áður séð slíka dirfsku í veitingamennsku hér á landi.
Þetta var frábær matur, alveg mátulega lítið steiktur og mjúkur sem rjómi. Einnig voru góðar hvítu kartöflurnar, sem fylgdu, hæfilega slítið soðnar. Hrásalatið var vel sómasamlegt, sem og hreðkurnar, en súpan var hversdagsleg grænmetissúpa, þykkt með hveiti.
Verðið er 2.200 krónur með súpunni.

Ýsa
Soðin ýsuflök með rækjusósu voru á sama matseðli dagsins. Þau voru góð, þótt þau jöfnuðust ekki á við karfann, enda trúlega soðin dálítið of lengi. Ýsunni fylgdi sama meðlæti og sama súpa og getið er hér að framan.
Verðið er 2.200 krónur með súpunni.

Sjávarréttir
Sjávarréttir, bakaðir í ostasósu, voru á fastaseðlinum. Þeir voru bornir fram í sjóðheitri leirpönnu. Þar mátti finna djúpsjávarrækju, litlar rækjur, ýsu, kræklinga og dósasveppi. Allt var þetta mjög gott, nema djúpsjávarrækjan, sem hafði verið geymd of lengi.
Verðið er 1.750 krónur sem forréttur.

Pitsa
Pitsan var ágæt, þótt hún næði ekki gæðum pizzunnar á Horninu. Brauðið var hæfilega þunnt, dálítið hart, líklega of lengi hitað í ofninum. Þessi pitsa var með kræklingum og rækjum, en ýmsar aðrar fyllingar eru einnig á boðstólum.
Verðið er 2.100 krónur.

Lambalæri
Laugaás-lambalærissneið var borin fram á sjóðheitum diski. Þetta var hápunktur heimsóknarinnar, einstaklega ljúfur réttur. Sneiðin var nákvæmlega rétt matreidd, ljósrauð í sárið og með örlitlum votti af blóði, þegar hnífi var þrýst á hana. Enda var kjötið bæði meyrt og bragðmikið.
Lambalærissneiðin var borin fram í eigin safa og bökuð í ostasósu, óhóflega mikilli. Með fylgdi smásoðið hrásalat, lítillega sítrónuvætt, svo og franskar kartöflur, mjög lítið steiktar og ljósar, án lyktar af aldraðri olíu. Bæði salatið og kartöflurnar voru sómasamleg.
Verðið er 3.850 krónur.

Turnbauti
Turnbauti með béarnaise sósu var einnig sérdeilis vel heppnaður, mjög lítið steiktur, meyr og góður. Honum fylgdi sama hrásalat og kartöflur, sem getið er hér að framan. Ennfremur béarnaise sósa, sem var þynnri, léttari og betri en ég á að venjast hér á landi.
Sem betur fer fylgdi ekkert dósagrænmeti turnbautanum og ekki heldur öðrum réttum, sem prófaðir voru í Laugaási. Eini maturinn úr dós voru sveppir, er voru í mjög hóflegum mæli í meðlæti kjötréttanna.

Verðið er 5.950 krónur.

Eftirréttir
Laugaás er stikkfrí í eftirréttum, býður aðeins upp á ís, í þremur útgáfum. Væri þó með einföldum hætti unnt að auka fjölbreytnina með t.d. ferskum ávexti dagsins, ostsneið dagsins eða jafnvel kraumís dagsins.

Kaffi
Kaffið var sómasamlegt, en ekki merkilegt. Venjulega kostar það 350 krónur. en panti menn einn bolla án ábótar eftir mat, kostar hann ekki nema 175 krónur. Það er athyglisverð tillitssemi við fjárhag matargesta.

Ódýrt og gott

Meðalverð sjö forrétta í Laugaási er 1.000 krónur, sextán aðalrétta 3.600 krónur og þriggja eftirrétta 700 krónur. Ef pizzur á 2.100 krónur og hamborgarar á 1.100-1.600 krónur væri talið með aðalréttum, mundi meðalverð þeirra vera 3.400 krónur.

Þriggja rétta máltíð, sem hvorki felur í pizzur né hamborgara, mundi því kosta 5.300 krónur. Að kaffi meðtöldu mundi meðalmáltíð í Laugaási kosta um 5.500 krónur.

Laugaás er því í sama verðflokki og Hornið, töluvert ódýrari en Esjuberg og Askur og helmingi ódýrari en vínveitingahús. Bæði Laugaás og Hornið hafa einstaklega gott hlutfall verðs og gæða.

Munur þessara tveggja staða, fyrir utan tónlistina, sem áður er getið, er sá, að Laugaás hafði heldur betri matreiðslu, en Hornið heldur betri þjónustu og skemmtilegra umhverfi.

Einstaklega vel matreiddur turnbauti, lambalærissneiðar og karfi eru dæmi um fyrsta flokks matreiðslu í Laugaási. Með slíkum réttum vantaði ekkert nema glas af léttu víni til að gera máltíðina frábæra.

Með Laugaási og Horninu er kominn vísir að hinum litlu og vönduðu veitingastofum, sem einkenna svo mjög matargerðarlist í útlöndum. Og í Laugaási elda og þjóna eigendur sjálfir, eins og í heimsins fremstu veitingahúsum.

Matargerð ætti raunar að flokkast með hinum fögru listum. Vaxtarbroddur þessarar listgreina er í litlum 40-50 sæta veitingahúsum, þar sem tveir eigendur, stundum hjón, deila með sér ábyrgð í eldhúsi og sal.

Það væri ánægjulegt, ef fleiri íslenzkir matreiðslumeistarar stigju slíkt skref í þágu neytenda og um leið í þágu íslenzkrar menningar.

Laugaás fær sjö í einkunn fyrir matreiðslu, sex fyrir þjónustu og sjö fyrir umhverfi. Vegin meðaleinkunn veitingastofunnar er sex.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Borg

Veitingar

Vafasamt er að tala um Hótel Borg sem veitingahús. Ég þekki engan, sem hefur farið þangað til þess eins að borða. Menn fara þangað í hádeginu, ef þeir eru í Borgarklúbbnum, og á kvöldin, ef þeir eru hótelgestir í föstu eða lausu fæði.

Mikið óskaplega hefur Borg verið glæsilegt hótel, þegar það var reist fyrir hálfri öld. Enn eimir eftir af þessum glæsibrag í veitingasal hússins, sem er í hefðbundnum, evrópskum hótelstíl millistríðsáranna.

Húsbúnaður og innréttingar bera ekki merki þreytu. Viðhald og endurnýjun hefur verið með sóma. Ekki verður þó sagt, að stíllinn sé smekklegur. En hann er ósköp notalegur, góðborgaralegur og umfram allt streitulaus.

Á Borg er reynt að skilja milli borða með blómum. Það er góð hugmynd, betri en grindverk eða hálfir veggir. En gróðurinn í kerjunum er of gisinn og rytjulegur. Kannski hella gestir brennivíni á blómin.

Kjaftamiðstöð þjóðmálanna

Í rauninni er þetta karlaklúbbur fremur en veitingasalur. Þarna hittast fastmótaðir hópar í morgunkaffi, hádegismat eða síðdegiskaffi. Menn eiga þar sína föstu stóla við ákveðin borð. Þeir mundu fá hjartaslag, ef köttur settist í ból bjarnar.

Þetta er ekki staður viðskiptasamninga eins og Holt og Naust. Borgin er hinn rólegi samkomustaður góðborgara, sem eru komnir yfir það að gera viðskipti – eru komnir á leiðarenda í árangursríku starfi og geta slakað á.

Þessu fylgir, að Borgin er kjaftamiðstöð þjóðmálanna. Saumaklúbbsstemningin er áberandi í hádeginu, þegar menn rölta milli borða, staldra við í tvær mínútur og skiptast á sögum um gang opinberra og persónulegra mála landsins.

Borgin er raunar engu lík. Það er kannski út í hött að tala um hana í greinaröð um veitingahús. Borgarklúbbsmenn hafa ekki áhuga á mat og mundu sennilega ganga á dyr, ef matargerðarlist læddist inn í eldhúsið.

Lífið á Borginni fjarar út eftir síðdegiskaffið. Í kvöldmatnum hímir kannski svo sem hálfur annar þingmaður af landsbyggðinni og hálfur annar útgerðarstjóri í bankaleiðangri til höfuðborgarinnar.

Hættulegur fastaseðill

Matseðillinn á Borg tekur ekki hið minnsta tillit til sérstöðu hússins sem klúbbs. Hann gefur ranglega í skyn, að allt sé á fullu í eldhúsinu fyrir stöðugan straum alþjóðlegra gesta, – sem búa raunar og borða annars staðar.

Heilir 38 réttir eru á matseðlinum, fleiri en í Blómsal Hótels Loftleiða. Seðill þessi er eins og efnisyfirlit kennslubókar í hefðbundinni hótelmatreiðslu. En enginn pantar mat eftir honum og enginn ætti að gera það.

Sem dæmi um forneskju matseðils Borgar má nefna fyrirlitningu hans á fiski. Seðillinn gefur í skyn, að eldhúsið greini á milli grísa, nauta og lamba, en ekki á milli ýsu, lúðu og karfa. Fiskur er bara “fiskur” á matseðlinum.

Skynsamlegri er matseðill dagsins, sem er ítarlegri en gengur og gerist á íslenzkum hótelum. Þar er boðið upp á þríréttaðan málsverð fyrir 7.200 krónur, nautasteik fyrir um það bil 9.000 krónur, fiskrétt fyrir um 3.600 krónur og sitthvað fleira, svo og kalt borð í hádeginu á 6.200 krónur.

Matseðill dagsins er raunar alls ráðandi á Borg. Fastaseðillinn er ekki einu sinni dreginn upp í hádeginu, enda mundu Borgarklúbbsmenn þá sennilega grýta honum í höfuð þjónsins. Á kvöldin liggur hann hins vegar á glámbekk.

Vikan prófaði matreiðslu Borgar bæði í hádegi og að kvöldi. Í bæði skiptin var þjónustan kurteis og fagmennskuleg, en áhugalítil. Hún stóðst ekki samjöfnuð við Naust, -hvað þá Sögu.

Vín
Vínlistinn á Borg er mjög lélegur og bendir til dapurlegs smekks matargesta. Þó er hægt að fá þar hvítvínið Chablis á 4.675 krónur og rauðvínin Chianti Classico á 3.340 krónur og Chateauneuf-du-Pape á 5.680 krónur.

Lambageiri
Lambageiri, steiktur á spjóti að hætti Borgar, var þungamiðjan í þrírétta framboði seðils dagsins í hádeginu, þegar Vikan kom í heimsókn. Í þessum rétti voru ágætar, hvítar og hnöttóttar, litlar kartöflur, mátulega soðnar.
Ég missti samt matarlystina við að sjá tróna á diskinum hlemmistóra og eldrauða papriku úr niðursuðudós. Þessi hrikalega skella ofbauð bæði matarskyni mínu og fegurðarskyni. Kokkinum gat ekki verið sjálfrátt.
Á diskinum var einnig dálítið af gulrótum úr dós, svo og mjög þurrt beikon, sem var vafið utan um lambakjötið. Beikonið yfirgnæfði lambakjötið, svo sem oft vill verða við slíkar tilfæringar.
Beikonbragðið var ekki gott og lambakjötsbragðið fannst alls ekki, enda var kjötið grásteikt og alveg safalaust. Þetta var sannarlega ekki merkilegur matur. Og mundi ég heldur matarlaus vera.
Á undan lambageiranum var svokölluð blómkálssúpa, hlutlaus og áreitnislaus kremsúpa úr dós. Á eftir var rommrúsínu-ís án rommbragðs, en með möndlum í. Þetta var semsagt meinlaus ís.
Verðið á þessum þriggja rétta mat er 7.200 krónur.

Buffsteik
Frönsk buffsteik var það, sem yfirmatreiðslumaðurinn mælti með samkvæmt því sem stóð á seðli dagsins. Þar voru aftur á ferðinni kartöflurnar góðu. Og nautakjötið var sæmilegt, hæfilega meyrt.
Kjötið drukknaði hins vegar í gífurlegu magni bráðins steinseljusmjörs, sem spillti nokkuð fyrir ánægjunni. Sama er að segja um grænar baunir og gulrætur, hvort tveggja úr dós. Þegar meðlætið hafði verið lagt til hliðar, varð kjötið frambærilegt.
Verðið er 8.900 krónur.

Graflax
Dillkryddaður lax með sinnepssósu var á fastaseðlinum og freistaði Vikunnar í kvöldheimsókninni. Vonirnar jukust enn, þegar laxinn kom á borðið, ákaflega fallega upp settur á fati. Með laxinum fylgdi mild og þægileg, ljós sinnepssósa.
Hárin risu hins vegar á höfði mér, þegar ég bragðaði laxinn. Eitthvað hafði komið fyrir fiskinn, síðan hann var kryddleginn. Hann minnti ekki í bragði á graflax, heldur hafði hann dauft og torkennilegt geymslubragð.
Líkelga er graflax pantaður einu sinni eða tvisvar á vetri á Borg.
Verðið er 6.300 krónur sem forréttur.

Humarhalar
Hálfir humarhalar í skel, glóðarsteiktir, voru líka snyrtilega fram bornir. Humarinn var heitur og mjög stór, sá stærsti, sem ég hef séð á veitingahúsi í vetur. Annan kost hafði hann ekki.
Humarinn var orðinn grár og sumpart brúnn af elli. Hann var næstum alveg bragðlaus.
Ég varð dálítið hræddur við að fá þetta ómeti ofan í vondan laxinn, því að ég þurfti síðar um kvöldið að fara í beina sjónvarpssendingu. Ég óttaðist, að í miðri umræðu um virðingu alþingis yrði ég að hlaupa fram á afvikinn stað.
Svo fór þó, að ég kenndi mér einskis meins. En líklega verð ég að fara að krefja Vikuna um áhættuþóknun, ef ég á að stíga öllu fleiri skref niður eftir matarmenningu íslenzkra veitingahúsa.
Ekkert sítrónuvatn fylgdi humrinum til að hreinsa fituga fingur. Bendir það til þess, að sjálfsvirðing Borgar sé minni en annarra veitingasala í sama verðflokki.
Verðið er 6.300 krónur sem forréttur og 11.000 krónur sem aðalréttur.

Turnbauti
Nautalundir Berry voru það, sem yfirmatreiðslumaðurinn mælti með á matseðli dagsins þetta kvöldið. Þá kom í ljós, að það var bara misskilningur minn að panta graflax og humar eða yfirleitt nokkurt atriði af fastaseðlinum. Menn eiga eingöngu að halda sér við dagseðilinn.
Þetta var prýðilegur turnbauti. Ég hætti alveg að bölva matreiðslumönnunum. Bautinn var mjög meyr og óvenjulega bragðmikill, enda var gerð kjötsins með grófasta móti.
Hér voru aftur á ferðinni litlu, góðu kartöflurnar og enn einu sinni mátulega lítið soðnar. Í þetta sinn höfðu þær verið smjörsteiktar eftir suðu.
Sveppirnir voru því miður úr dós, en þeim hafði þó ekki verið misþyrmt enn frekar með of langri steikingu. Ennfremur var þarna meiri dósamatur, maís, grænar baunir og gulrætur, einkennistákn íslenzkrar matargerðar. Ojbjakk.
Ég kunni betur við mátulega soðið og sítrónuvætt brokkálið. Sömuleiðis ostað blómkálið. En magnið af öllu þessi meðlæti var eins og fyrir heilan herflokk.
Steinseljusmjörið var líka gott, en óhóflega mikið. Það á ekki að bjóða gesti upp á rúmlega hundrað grömm af smjöri í meðlæti með kjöti. Hann gæti fallið fyrir freistingunni. Þjóðin er löngu hætt að svelta.
Verðið er 9.300 krónur.

Ýsa
Steikt fiskflök Doria voru á seðli dagsins. Þetta var smjörsteikt ýsa, sennilega úr frystihólfi, en eigi að síður bragðgóð. Hún hafði ekki gleymst á pönnunni, eins og oft vill verða hér á landi.
Enn komu í ljós margumtalaðar kartöflur, einnig ferskar, smjörsteiktar gúrkur, nýir tómatar, salatblöð og sítrónur. Hvílíkur léttir eftir allt dósagrænmetið!
Verðið er 3.700 krónur.

Melóna
Kældar melónur með sykri sjást ekki oft á íslenzkum matseðlum. Þær fást þó merkilegt nokk á Borg, prýðilegur eftirréttur, sem fer vel í maga.
Verðið er 1.700 krónur.

Ostabakki
Blandaðir ostar á bakka með brauði og smjöri reyndist vera einn skrautlegasti ostabakki, sem ég hef séð borinn fram fyrir einn mann. Þar var úr nógu að velja, þótt smurostarnir fjórir freistuðu mín ekki.
Þarna gaf að líta gráðaost, gouda- og mysuost, rúgbrauð, hrökkbrauð og ritzkex, smjör, vínber og mandarínur. Þetta var heilt veizluborð, þótt eftirréttur væri.
Ég átel þó, að boðið sé upp á mandarínur úr dós, þegar ferskar mandarínur hafa fengizt í búðum á hverjum einasta degi um margra mánaða skeið.
Verðið er hátt, 4.000 krónur sem eftirréttur.

Kaffi
Kafið á Borg reyndist vera sæmilegt og borið fram með ósviknum rjóma. Hins vegar var írska kaffið nauðaómerkilegt, hálfkalt og illa útlítandi eftir hristing á ferð þess úr eldhúsi inn á borð.

Skýjaverð

Borgin er mjög dýr veitingastofa miðað við gæði. Hún er í sama verðflokki og Holt og Saga, þótt gæðin séu mun síðri.

Að vísu er hægt að fá á Borg þríréttaðan mat fyrir 7.200 krónur af seðli dagsins, en slíkur matur kostar þó ekki nema 5.000-7.600 krónur á Loftleiðum. Með kaffi og hálfri flösku af Chianti Classico á mann mundi þessi matur kosta 9.500 krónur á Borginni.

Meðalverð átján forrétta, súpa og smárétta á Borg er 3.700 krónur, ellefu aðalrétta úr kjöti og fiski 7.700 krónur og níu eftirrétta 2.400 krónur. Samtals eru þetta 13.800 krónur. Með kaffi og hálfri flösku af víni ætti meðalmáltíð af fastaseðli Borgar að kosta 16.100 krónur.

Slík máltíð kostar 16.300 krónur á Sögu, 15.700 krónur á Loftleiðum, 15.100 krónur í Holti og 14.500 krónur í Nausti.

Mismunur rétta á Borg reyndist vera svo mikill, að tæplega er hægt að gefa matreiðslunni einkunn. Að fara meðalveginn og gefa þrjá segir ekki alla söguna, því að gestir geta með lagi komist yfir mat með betri einkunn.

Samt veða þrír að duga í einkunn fyrir mat, því að Borgin fær núll fyrir þann þátt að vara gesti ekki við humri og laxi. Þjónustan á Borg fær sex í einkunn, vínlistinn þrjá og umhverfi og andrúmsloft fá sjö í einkunn. Heildareinkunn Borgar sem veitingahúss er fjórir.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Hornið

Veitingar

Hin nýlega veitingastofa Hornið hefur bezt hlutfall verðs og gæða af þeim stöðum, sem fjallað hefur verið um í gæðaprófun Vikunnar. Þar má fyrir tiltölulega lítið verð fá mat og þjónustu, sem jafnat á við sum vínveitingahúsin og slær önnur þeirra út.

Hornið er lítið og tekur aðeins rúmlega 40 í sæti. Sæmilegt rými er milli borða og hreinlæti í veitingasal er á háu stigi. Andrúmsloftið er viðkunnanlegt og hvetur til langrar setu. Lágvær tónlistin er vel valin.

Innréttingar eru einfaldar og þó djarfar. Mest áberandi eru hinar gífurlegu pappírsljósakrónur yfir borðunum. Og fljótlega beinast augun að innmúruðum peningaskápnum í einu horninu.

Tágastólar eru við smíðajárnsborð með einkar skemmtilegum marmaraplötum. Steinflísar eru á gólfi og grár panill í veggjum og lofti. Á veggjum hangir ýmislegt dót, svo og stór skólatafla, sem á er krítaður réttur dagsins.

Gluggar eru mjög stórir og tjaldalausir, svo að tengslin við umferðina í Hafnarstræti eru náin. Kuldanum frá glugganum er svo mætt með miklu blómaskrúði fyrir innan. Það gefur stofunni tiltölulega hlýlegan blæ, þrátt fyrir gluggana.

Ítalskt
Ítölsk þjónustan var ágæt. Þjónarnir tveir virtust hafa nægan tíma til að sinna gestum, þótt Hornið væri um það bil fullsetið. Þeir voru ekki eins lærðir og íslenzkir fagmenn, en bættu það upp með ljúfmennsku og brosi.

Matseðillinn var furðu stór á svona litlum stað. Hann er saminn undir ítölskum áhrifum, á franskri tungu, – og með íslenzkum skýringum. Boðið var upp á rétt dagsins, sex forrétti, ellefu aðalrétti, fimm pizzur og fimm eftirrétti.

Kjötréttirnir voru aðeins tveir, lamb og kjúklingur. Mest var byggt á sjávarréttum og voru þeir átta af ellefu aðalréttum. Það gladdi auga mitt, því að hér á landi er fiskur og önnur sjávarfæða eitt bezta hráefnið.

Því miður hafði Hornið frystan fisk á boðstólum, en ekki ferskan, sem fékkst þó sama dag í fiskbúðum. Og Hornið gerði ekki skarpan greinarmun á rauðsprettu, smálúðu og ýsu í eldhúsinu, þótt matseðillinn þykist gera það.

Matnum var fallega komið fyrir, oftast í djúpum, skemmtilegum skálum með hrísgrjónum í botni. Tilfinning fyrir lystaukandi útliti matar virtist vera mun meiri en gengur og gerist á íslenzkum veitingastofum. Og maturinn var heitur.

Hörpuskelfiskur
Pönnusteiktur hörpuskelfiskur með hrísgrjónum, ananas og karrísósu var frekar smávaxinn og virtist fremur vera úr dós en frysti. Samt var hann meyr og hafði eðlilegt bragð. Meðlætið var ágætt, seljustönglar, hrásalat og gulrætur.
Þessum rétti sem flestum öðrum fylgdi gott hvítlauksbrauð og grautsoðin hrísgrjón, sem mér fannst lítið til koma. Ég tek stinn hrísgrjón langt fram yfir þessi.
Verðið er 3.800 krónur.

Smálúðuflök
Smálúðuflök í bakaðri kartöflu með rækjusósu báru þess greinileg merki, að þau voru úr frysti. Sem slík voru þau vel matreidd, ekki ofsoðin. Þau hvíldu á mjög stórri, opinni kartöflu. Mér fannst þetta sæmilegt, en fremur bragðdauft.
Verðið er 2.850 krónur.

Ýsa?
Pönnusteikt “smálúða” með kapers, lauk og hvítlauksbrauði var réttur dagsins. Mér fannst lúðan minna mig mjög á ýsu. En hún var mjög góð, mátulega steikt, mjúk og safarík. Með henni fylgdi ágætt hrásalat, gúrka og sítróna, svo og áðurnefndu, grautsoðnu hrísgrjónin.
Verðið er 2.390 krónur, sannkölluð kostakaup.

Humarhalar
Smjörsteiktir humarhalar með banönum og hrísgrjónum voru smávaxnir. Þeir höfðu verið steiktir fulllengi og við of mikinn hita, því að þeir voru allt að því brenndir. Þeir voru þó enn meyrir og reyndust búa yfir ágætu humarbragði.
Verðið er 6.400 krónur, ódýrara en á vínveitingahúsunum, en ekki eins gott.

Spaghetti
Spaghetti með tómötum og hvítlauk reyndist vera spaghetti í sérhannaðri tómatsósu, fremur lítilfjörlegur matur.
Verðið er 2.450 krónur.

Kjúklingur
Ofnbakaður hnetukjúklingur með salati, ofnbakaðri kartöflu og hvítlaukssmjöri var fremur mikið bakaður og þurr, en eigi að síður næstum því frambærilegur. Með honum fylgdi bráðið hvítlaukssmjör. Hnetubragð fann ég hvergi.
Verðið er 4.300 krónur.

Lamb
Lambakjöt að austurlenzkum hætti reyndist vera fyrirtaks matur á góðu verði. Þetta var blanda af kjöti og grænmeti, borin fram í ágætri sósu, ættaðri af tómötum. Kjötið var bæði meyrt og bragðgott.
Verðið er 3.300 krónur.

Pitsa
Ég prófaði pizzuna með tómati, osti, spergli og pepperoni, svonefnda Napólí-pizzu. Það var hápunktur prófunarinnar, því að þetta var langbezta pitsa, sem ég hef fengið hér á landi. Deigbotninn var næfurþunnur og stinnur. Áleggið var í gullnu samræmi. Svo var pitsan sjóðheit, þegar hún kom á borðið. Það var eins og ég væri kominn til Ítalíu.
Verðið er 2.450 krónur. Verð á öðrum pizzum er frá 2.200 krónum upp í 2.900 krónur.

Camembert
Djúpsteiktur camembert-ostur með jarðarberjamauki var mjög vel heppnaður, linur alla leið í gegn.
Verðið er 1.550 krónur sem eftirréttur.

Alvörukaffi
Eins og vera ber á veitingastað undir ítölskum áhrifum var boðið upp á almennilegt kaffi úr espressovél. Þar var venjulegt espresso, café latte með loftþeyttri mjólk og cappucino með súkkulaðidufti. Kaffið eitt er heimsóknar virði.
Verð hverrar tegundar er 450 krónur.

Alvörute
Hornið er eini staðurinn, sem ég þekki hér á landi, sem hefur komið sér upp temenningu. Þar geta gestir valið um tvær tegundir, Earl (misritað Early á matseðli) Gray og hið kínverska Jasmin. Þetta framboð er merk nýjung í veitingamennsku. Kannski fáum við bráðum Lapsang Souchong, Darjeeling og Formosa Oolong.
Verð hvorrar tegundar er 450 krónur.

Hálft verð

Meðalverð sex forrétta er 1.300 krónur, ellefu aðalrétta 3.600 krónur – og 3.200 krónur, ef pizzurnar fimm eru meðtaldar. Meðalverð fimm eftirrétta er 1.500 krónur.

Þríréttuð máltíð án öls og kaffis ætti því að kosta að meðaltali um 6.400 krónur og 7.500 krónur með öli og kaffi.

Þetta eru helmingi lægri tölur en þær, sem tíðkast í vínveitingahúsunum. Hornið er að vísu engin Saga eða Holt, en býður þó fyrir þetta verð upp á mat, sem er í sómasamlegu meðallagi, eftir því sem mínar kröfur gerast, framreiddan á alúðlegan hátt í vingjarnlegu umhverfi.

Vínið vantar

Hornið er án efa meiri háttar innlegg í íslenzkan veitingarekstur, þótt lítið sé. Þar vantar nú fyrst og fremst vínveitingaleyfi. Með góðum, léttum vínum mundi matargerð eldhússins komast mun betur til skila.

Hornið er ágætt dæmi um stofu, sem veita ætti undanþágu fyrir létt vín, alveg eins og Esjuberg og Loftleiðakaffitería hafa fengið og rekið með sóma. Af hverju rugla yfirvöld alltaf saman brennivínum og fylleríi annars vegar og matarvínum og borðhaldi hins vegar?

Hornið fær sex fyrir matreiðslu, átta fyrir þjónustu og átta fyrir umhverfi. Heildareinkunn veitingastofunnar er sex af tíu mögulegum.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Esjuberg

Veitingar

Esjuberg er heppilegur fjölskyldu-matstaður. Þar er hægt að geyma ungviðið í föndurkrók meðan unglingarnir borða tiltölulega sæmilega hamborgarar og foreldrarnir eggjaköku, kannski með hálfri vínflösku. Eina skilyrðið er, að ekki séu gerðar kröfur til matreiðslunnar.

Þessi hrikalega stóra veitingastofa er ekki eins kuldaleg og við mætti búast. Innréttingar eru snyrtilegar og í senn hæfilega einfaldar og fjölbreyttar. Leikurinn með viðinn í loftinu rýfur einhæfni hússins.

Gott pláss er milli borða og hreinlæti er í bezta lagi. Hávaðasamt getur orðið á annatímum, en samhljómur skvaldursins hefur ekki óþægileg áhrif. Ekkert hindrar þig í að taka lífinu með ró – nema vera skyldi maturinn.

Þegar ég gerði úttekt á Esjubergi fyrir Vikuna um daginn, ríkti fullkominn geðklofi í baktjaldatónlistinni. Úr annarri áttinni heyrðist sinfónían spila Bela Bartók og Antonin Dvorák, en úr hinni áttinni heyrðist spilað úr léttum söngleikjum. Það getur kostað fótaskort að gera öllum til geðs.

Til skamms tíma hefði Esjuberg átt að fá fimm í einkunn fyrir umhverfi og andrúmsloft. En barnakrókurinn er svo skemmtileg og hugnæm nýjung, að ómögulegt er að gefa staðnum minna en átta fyrir þennan þátt. Þrátt fyrir tvöfalda tónlist.

Í barnakróknum eru húsgögn við hæfi barna, bækur og kubbar og púsluspil, litir og pappír. Og listaverk barnanna hanga uppi á vegg. Fyrir þessu er skylt að hrópa húrra, sem og fyrir barnastólunum, sem hægt er að hafa við matborðin.

Gott væri, ef húsráðendur sýndu þá smekkvísi að breyta skiltum, sem á stendur: “Vinsamlega Sýnið Kassakvittun Við Móttöku Sérrétta”. Ofnotkun upphafsstafa getur kannski gengið á amerísku, en engan veginn á íslenzku.

Síld
Marineruð síld með brauði og smjöri reyndist vera eitt síldarflak, stórt og slétt og fallegt, án allrar sósu, en með eggsneið og kartöflu. Þetta var góð síld, bezti maturinn í prófun Vikunnar, ef frá er skilið hrásalatið, sem síðar verður rætt.
Verðið er 2.170 krónur sem forréttur.

Graflax
Graflax með sinnepssósu og ristuðu brauði var vondur á bragðið, hugsanlega skemmdur. Hann var grár í gegn, þurr og bragðlaus. Hann var vafinn utan um linan og bragðlausan spergil úr dós. Gúrkan og sítrónan voru æt og sinnepssósan var í sæmilegu lagi. Í heild var þessi furðulegi réttur upp á hreint núll í einkunn.
Matreiðslumenn Esjubergs virðast hafa tekið eftir því, að í útlöndum er matur stundum vafinn upp á spergil. En þá er um ferskan og ætan spergil að ræða. Slíka matargerð er útilokað að þýða á íslenzku með handafli og dósahníf.
Verðið er 3.380 krónur sem forréttur.

Esjugratín
Esjugratín reyndist vera kræklingur, rækjur og spergilbitar ásamt dálitlu af sítrónu, tómati og steinselju, ofnbakað í osti. Þetta var bragðgóður matur, ef sneitt var hjá sperglinum. Með þessu voru borin fram ágæt hrísgrjón með óhugnanlegri, hvítri hveitisósu með hveitibragði.
Verðið er 3.350 krónur sem aðalréttur og fæst ekki á lægra verði sem forréttur.

Ýsa
Steikt fiskflök með ristuðum rækjum, spergli og hvítvínssósu reyndist vera pönnusteikt ýsa, sæmileg á bragðið og sennilega fersk. Sæmilegasta hrásalat fylgdi, svo og franskar kartöflur. Þær voru með þeim betri, sem ég man eftir, hæfilega steiktar og án aldraðs olíubragðs.
Þessi ýsa hafði ekki verið eyðilögð í matreiðslu. En henni hafði verið spillt með svokallaðri hvítvínssósu. Það var hveitisósa, byggð á grunni mjög lélegs hvítvíns. Það er misskilningur, að komast megi billega frá víni í sósu.
Verðið er 3.460 krónur sem aðalréttur og fæst ekki á lægra verði sem forréttur.

Hrásalat
Hrásalat fylgdi þeim réttum, sem sagt verður frá hér á eftir. Esjuberg hefur komið á hinni skemmtilegu nýjung, sem víða sést í Bandaríkjunum, að hafa sérstakt salatborð, sem gestir eiga sjálfir að sækja í. Getur þá hver blandað sér hrásalat við hæfi.
Á boðstólum var gott ísberg-kál; aldrað hvítkál frá hádeginu; paprika, ekki úr dós eða frysti; sæmilegur maís; bragðlausir skinkubitar; góðar mandarínur; ætir tómatar; vondar sýrugúrkur; ágætar hreðkur; og tvær sómasamlegar sósur, önnur úr tómati og hin úr sinnepi.
Úr þessu gat ég moðað mér salat úr ferskum og góðum hráefnum, því að auðvelt var að forðast hið lélega. Satt að segja var þetta hrásalat hápunktur máltíðarinnar, ágætis auglýsing gegn þeirri firru, að heilnæmur og náttúrulegur matur sé kanínufóður.
Hrásalatið hefði þó auðveldlega getað verið enn betra. Ég saknaði sítrónubáta og olífuolíu, svo að ég gæti hrist olíusósu. Ennfremur var salatborðið fremur óhrjálegt. Til dæmis voru sósurnar með skán. Svona borði þarf að sinna á nokkurra mínútna fresti.
Verðið er 560 krónur, ef hrásalatið er keypt sérstaklega. Það eru langbeztu kaupin á Esjubergi.

Nautamörbráð
Franskt buff með kryddsmjöri, frönskum kartöflum, belgbaunum og hrásalati var ákaflega dularfullur matur. Hráefnið virtist þó vera gott, hvaðan sem það var ættað og kjötið var lungamjúkt og alveg laust við seigju.
Að því leyti hefði það átt að reynast “lítið steikt”. Liturinn var hins vegar grár langt inn í kjöt og bleikur einungis í miðju, alveg eins og kjötið væri mitt á milli “miðlungs” og “fullsteikts”. Svo reyndist það þurrt og gersamlega bragðlaust, eins og um þrælsteikt kjöt væri að ræða.
Á þessu furðuverki hef ég enga skýringu. Einkunnin er hreint núll. Í stíl við kjötið voru svo 100% bragðlausar belgbaunir (úr dós?). Hins vegar slapp ég við hveitisósu. Og frönsku kartöflurnar voru frambærilegar, sem og þær, er fylgdu öðrum réttum Esjubergs.
Verðið er 6.130 krónur, “bortkastede penge”.

Lambalæri
Marineraðar lambalærissneiðar voru á matseðli dagsins, þunnar sneiðar harkalega grillaðar og dálítið brenndar, gráar í gegn og ótæpilega kryddaðar. Samt var enn eftir í þeim dálítil safi, svo að þær voru alveg ætar.
Brúna hveitisósan, sem fylgdi, var harkalega pipruð. og gratineruðu kartöflusneiðarnar voru vægast sagt óhugnanlegur óskapnaður. Það er furðulegt, að starfsfólk í eldhúsi skuli vera látið hafa svona mikið fyrir jafnvondum mat og þarna kom í ljós.
Verðið er 3.600 krónur.

Svínahryggur
Svínahryggur Róberts var einnig á matseðli dagsins og líka með sama óhugnanlega meðlætinu, hveitisósunni og hinum ólýsanlegu kartöflusneiðum og piparsósunni. Einnig fylgdu hinar bragðlausu belgbaunir, sem áður er getið og einn einmana biti af gulrót úr dós.
Svínakjötið sjálft var hins vegar vel meyrt og ágætt á bragðið. Það átti sannarlega ekki meðlætið skilið.
Verðið er 4.770 krónur.

Kínverskar pönnukökur
Kínverskar pönnukökur voru rúsínan í pylsuenda þessarar prófunar, ofsalega vondar á bragðið. Pönnukökurnar voru þykkar og linar og hveitibragðið leyndi sér ekki. Innvolsið var enn ógeðslegra. Það var blanda til helminga af hrísgrjónum og matarolíu.
Ég minnist þess ekki að hafa komizt í snertingu við óhugnanlegri mat á ævinni. Ég fær gæsahúð af endurminningunni. Einkunnin er mínus 21.
Verðið er 2.620 krónur.

Vín

Esjuberg hefur ákaflega takmarkað vínúrval á boðstólum. Innan um eru þar góð vín. Af rauðvínum Chianti Classico á 3.840 krónur og af hvítvínum Chablis á 4.675 krónur og Edelfräulein á 3.840 krónur. Einnig má nefna rauðvínin Mercurey og Saint-Emilion.

Vínveitingar hafa ekki spillt andrúmslofti eða yfirbragði Esjubergs. Hin langa og góða reynsla, sem þar hefur fengizt af hófsemi gesta, ætti að vera yfirvöldum tilefni til að leyfa veitingar léttra vína í fleirum af hinum snyrtilegri veitingahúsum borgarinnar.

Of lítill munur

Meðalverð 10 forrétta, millirétta og eggjarétta er nokkuð hátt á Esjubergi, 2.500 krónur. Það er eins hátt og í Nausti og næstum eins hátt og á öðrum vínveitingahúsum, sem veita þó þjónustu til borðs.

Meðalverð 19 aðalrétta úr fiski eða kjöti er 4.700 krónur á móti 8.000-8.500 krónum á vínveitingahúsunum með þjónustu, Sögu, Holti, Nausti og Loftleiðum. Sá verðmunur virðist vera minni en sem svarar hæfilegri endurspeglun gæðamunar.

Esjuberg býður aðeins upp á fjóra eftirrétti, þar af þrjá hversdagslega ísa og svo skyr. Meðalverðið er tæpar 900 krónur. Auk þess má kaupa þar nokkrar tegundir af tertum. Veitingastofan er því nánast stikkfrí í eftirréttum.

Ef keypt er þríréttuð máltíð með kaffi og hálfri vínflösku (Chianti) á mann, ætti meðalmáltíðin að kosta um 10.300 krónur á móti 14.500-16.300 krónum á hinum vínveitingahúsunum. Þessi munur finnst mér of lítill.

Mér mundi hins vegar ekki finnast hann of lítill, ef matsveinar hússins tækju á sig rögg og byrjuðu að elda af innlifun, starfsgleði, nákvæmni og virðingu fyrir góðum hráefnum. Á það skortir mjög eins og prófunin leiddi greinilega í ljós.

Gallar matreiðslunnar eru þess eðlis, að ekki ætti að vera kostnaðarsamt að bæta úr þeim. Innlifun, starfsgleði, nákvæmni og virðing fyrir hráefnum kosta ekki peninga. Og alténd mætti spara innkaup á dósamat.

Fjölskyldusnarl

Esjuberg er ekki staður til að kaupa sér dýran, flókinn og viðamikinn veizlumat. Enginn ætti að búast þar við matargerðarlist. Kostir staðarins eru á allt öðru sviði.

Þetta er fjölskyldustaður, þar sem hægt er að fá einfalt snarl eins og síld, eggjaköku eða hamborgara fyrir skikkanlegt verð – og jafnvel dreitil af léttu, ef hugurinn er móttækilegur. Og ekki má gleyma frönsku kartöflunum.

Mest um vert er þó, að ráðamenn Esjubergs eru óvenju vinsamlegir í garð barna, eins og hér hefur verið rakið að framan. Barnakrókurinn er ein af athyglisverðustu nýjungum í veitingarekstri hér á landi.

Á Esjubergi kostar marinerað síldarflak 2.170 krónur, eggjakaka 1.500 krónur, hamborgari 1.130-1.370 krónur og smurbrauð 2.090 krónur. En ekki má heldur gleyma því, að hinir vönduðu matsölustaðir bjóða líka upp á tiltölulega ódýra rétti fyrir börn og fullorðna.

Í Nausti kosta þrjár tegundir síldar 2.935 krónur og smurbrauð 2.075 krónur. Í Holti kostar smurbrauð 1.875 krónur, eggjakaka 2.275 krónur og djúpsteiktar rækjur 3.100 krónur. Á Loftleiðum kostar eggjakaka 2.530 krónur og síldarbakki 2.850 krónur. Og á Sögu kostar smurbrauð 1.850 krónur, eggjakaka 2.150 krónur, kræklingur 2.185 krónur, síldarbakki 2.970 krónur og smálúða 3.010 krónur. Hamborgara fyrir börn ætti að vera hægt að fá á þessum stöðum, þótt þess sé ekki getið á matseðlinum.

Matreiðslan á Esjubergi fær tvo í einkunn, vínlistinn tvo, umhverfi og andrúmsloft sjö. Ekkert er gefið fyrir matarþjónustu, því að hún er engin, en fyrir vínþjónustu fær Esjuberg dálitla hækkun. Heildareinkunn hússins er þrír.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Naustið

Veitingar

Í Nausti eru notalegustu húsakynni veitinga á Íslandi. Og þjónusta er þar með hinni beztu, sem þekkist á landinu. Þeim mun sorglegra er, að matreiðslan er iðulega kæruleysisleg og engan veginn samboðin öðrum þáttum hússins.

Innréttingar Sveins Kjarval eru hreinasta listaverk. Alls staðar eru bogalínur í stað beinna lína, svo að eftirlíking skipsskrokksins verður næsta fullkomin. Hér er staður með söltu og magnþrungnu andrúmslofti.

Síðari tíma básarnir á miðju gólfi hafa lánast miklu betur í Nausti en í Holti. Þeir eru nógu háir til að spilla hvorki yfirsýn um salinn né stærðarhlutföllum hans.

Gestagalli

Eini “gallinn” við innréttingarnar er raunar sá, að þær eru of notalegar! Gestir hafa tilhneigingu til að gerast of þaulsætnir og sumir hverjir of drukknir. Þetta á enn frekar við um barinn uppi á lofti.

Margir forðast barinn á Nausti af ótta við ölvun gesta. Þeir fara þá á mis við ágæta fagmenn, þar sem eru þeir Símon og Viðar, er standa ekki neinum starfsbræðrum að baki í blöndun hinna misjafnlega göróttu drykkja, sem kallast hanastél.

Símon var í brúnni, þegar ég gerði um daginn úttekt á Nausti og veitingum þess í svipuðum dúr og ég hafði áður gert á hótelunum Sögu, Loftleiðum og Holti. Það var góð byrjun á annars fremur misjöfnu kvöldi.

Hann hristi einn hinn bezta Daiquiri, sem ég og ráðgjafar mínir höfðu smakkað. Safinn var úr raunverulegri sítrónu og sykurröndin gleymdist ekki eins og víðast annars staðar. Dry Martini reyndist líka í fremstu röð. Þurra sérríið Tio Pepe var ferskt og hafði ekki fengið að gamlast í átekinni flösku. En það kom ekki úr kæliskáp fremur en á öðrum börum landsins. Íslenzkum barþjónum virðist ókunnugt um, að þurrt sérrí er jafnaðarlega drukkið sæmilega kalt og ekki að ástæðulausu.

Ljómandi góð þjónusta

Þegar niður af barnum í veitingasalinn kom, tók við ljómandi góð þjónusta, vingjarnleg og áreynslulaus, fljótvirk og kunnáttusöm. Þetta var sannarlega fyrsta flokks þjónusta, svipuð og í Stjörnusal Hótel Sögu.

Önnur atriði, sem sérstaka athygli vöktu, voru þessi: Vínglös voru ekki fyllt óþægilega mikið né ört. Ekki var boðið upp á ísvatn með matnum eins og á Sögu. En reikningurinn var greinilega skrifaður og sundurliðaður með nafni og verði hvers einstaks réttar.

Í upphafi var drykkjuskapur nálægra gesta til smávægilegra óþæginda, en það lagaðist mjög, þegar á máltíðina leið. Þetta er áhætta, sem við tökum, þegar við sækjum heim íslenzk veitingahús, en óneitanlega er hún meiri í Nausti en víða annars staðar.

Allt væri þetta í góðu lagi, ef ekki væri tilefnið einmitt að fá sér snæðing. Á því sviði bilaði Naustið í prófuninni eins og raunar oftar áður á undanförnum árum. Þar virðist endurskipulagning eignaraðildar ekki enn hafa hreinsað til.

Á rólegu kvöldi er Naustið raunar upplagður staður fyrir elskendur, sem vilja aðeins borða létta brauðsneið, sötra létt vín, haldast í hendur, horfast í augu, njóta góðrar þjónustu og drekka í sig einstætt andrúmsloft staðarins.

En matmenn hafa hingað lítið að sækja. Þeir mega búast við hversdagslegri matreiðslu og meðfylgjandi vonbrigðum. Rétt er þó að taka fram, að hinn kunni Ib Wessman var ekki við stjórnvölinn, þegar prófunin var gerð. En maturinn kostar þó hið sama án hans.

Óhæfilega langur matseðill

Naust býður ekki upp á matseðil dagsins nema í hádeginu og um helgar á kvöldin. En fastaseðillinn er þeim mun lengri og telur heila 57 rétti. Það er ævintýralega há tala og raunar mun hærri en eldhúsið ræður við.

Þetta er undarlegra fyrir þá sök, að Naust er ekki hótelveitingastaður og hefur ekki skyldur slíks staðar við hótelgesti, sem ekki eru að fara út að borða, heldur að fullvissa sig um, að þeir séu staddir á alþjóðlegu hóteli með svissneskum formúlumatseðli.

Blómasalur Loftleiða er meira en nógu vel settur með 30 rétta matseðil. Naust ætti ekki að þurfa svo marga rétti, en ætti þá að ráða mun betur við matreiðslu þeirra. Að þessu leyti er matseðill Nausts gersamlega úreltur.

Við vitum auðvitað, að hinir löngu matseðlar byggjast á óhæfilegri notkun frystiklefa og niðursuðudósa. Enda leggja flest vönduðustu veitingahús heims stolt sitt í að hafa ekki fasta maseðla, heldur matseðla dagsins með ferskum og síbreytilegum hráefnum.

Naust er raunar svo frábærlega innréttaður staður og býr yfir svo góðri þjónustu, að það er synd, að í matreiðslu skuli hann ekki hafa stolt til að byggja upp orðspor í vandaðri meðferð beztu hráefna, – og þá einkum úr sjó, vegna nafnsins Nausts.

Hið furðulega kom svo í ljós í prófuninni, að réttir á matseðlinum voru meira eða minna ekki fáanlegir. Ekki var til neinn turnbauti, þótt hann væri til á Sögu, Holti og Loftleiðum. Þar með féllu út tveir réttir af matseðlinum.

Sama gilti um humarinn, sem fékkst þó bæði í skelinni og utan hennar í fyrrnefndum þremur veitingasölum og raunar líka í mörgum verzlunum. Þar með féllu út fjórir humarréttir af matseðli Nausts, ein humarsúpa og sennilega líka blönduðu sjávarréttirnir.

Loks var ekki til neinn nýr fiskur, þótt þetta sé stundum kallað sjávarréttahús og ætti að vera það. Þetta var að vísu á þriðja í nýári og aðeins einn vinnudagur að baki. En Holt hafði þó nýja smálúðu á erfiðari degi, á þriðja í jólum, gífurlega ljúffengan rétt.

Síld
Þrjár tegundir af síld með brauði og smjöri voru góð byrjun. Þetta voru síld í olíu, í tómat og í karríi. Allar voru þær góðar og bezt sú fyrstnefnda. Bragðið var milt og beizkjulaust. Þetta var síld í sama klassa og á Sögu.
Verðið er 2.935 krónur sem forréttur.

Lauksúpa
Bökuð, frönsk lauksúpa er þekkt fyrirbæri á íslenzkum matseðlum. Hér var hún með betra móti. Ostahúðin var hæfilega þunn og lauksoðið undir henni hafði margbrotið og viðkunnanlegt bragð.
Verðið er 1.675 krónur.

Heilagfiski
Glóðarsteikt heilagfiski a la Naust með ristuðum rækjum, sítrónu og kryddsmjöri valdi ég auðvitað á eigin ábyrgð, upplýstur um skortinn á ferskum fiski.
Eins og við mátti búast úr frystiklefa var lúðan fremur þurr og lítið spennandi, en samt mun skárri en sumt, sem átti eftir að fylgja í kjölfarið. Meðlætið með fiskinum var líka rúmlega sómasamlega matreitt. Einkum voru gúrkur mildilega sýrðar og bragðgóðar.
Verðið er 2.880 krónur sem forréttur og 5.760 krónur sem aðalréttur.

Graflax
Graflax með sinnepssósu og ristuðu brauði var misheppnaður. Hann virtist vera of lítið leginn, var dumbrauður að lit, hrár á bragðið og dálítið seigur. Sinnepssósan var hins vegar ágæt.
Verðið er 4.695 krónur sem forréttur.

Hrásalat
Hrásalatið, sem boðaði komu aðalréttanna, var gott, eitt hið bezta í þessari prófun Vikunnar, til dæmis mun betra en í Holti. Sósan var nokkuð ákveðin og gaf salatinu hæfilega spennu í bragði.

Svínahryggur
Svínahryggsneið bohemienne með tómat og steiktum laukhringjum var sæmilegasti matur. Kjötið var meyrt, en að öðru leyti ekki í frásögur færandi. Það var borið fram í hluta sósunnar og óþörf var sósuskálin fulla, sem fylgdi.
Verðið er 7.280 krónur.

Kjúklingur
Glóðaður kjúklingur hússins með steinseljusmjöri, en hvorki með ristuðum spergli né smjörsteiktum kartöflum, eins og stendur á matseðlinum, heldur með ýmsu hvimleiðu gumsi og ofnbökuðum kartöflum, var fremur ómerkilegur matur.
Kjötið var ekki nógu meyrt og ekki nógu laust frá beinunum. Vaneldun er ákaflega sjaldgæf synd í veitingaeldhúsum landsins! Bragð kjúklinganna var hæfilega eindregið, sennilega sumpart vegna hins skamma eldunartíma.
Óhugnanlegasti hluti gumsins, sem fylgdi kjúklingnum, voru grænar dósabaunir, bragðlausar og gráleitar í hefðbundnum, íslenzkum stíl. Þetta er orðin sjaldgæf sjón á vínveitingahúsum, sem hneigjast fremur að frystum baunum. Þær eru bæði fegurri og miklum mun bragðmeiri og -betri.
Verðið er 7.475 krónur.

Lambageiri
Lambageiri með kryddsmjöri, grænmeti og frönskum kartöflum var illa matreiddur, í meira lagi ofsteiktur, ekki beinlínis vondur, en ekki til að sækjast eftir á veitingahúsi.
Verðið er 6.455 krónur.

Nautalundir
Nautahryggvöðvasteik eða entrecote með kryddsmjöri og frönskum kartöflum var einstaklega dapurleg. Beðið var um hana “rare”, en hún kom samt “medium”. Hún var grá rúmlega hálfa leið í gegn og dauflega bleik aðeins innst inni. Eins og við mátti búast var kjötið fremur seigt og ólystugt.
Verðið er 10.465 krónur.

Meðlæti
Meðlæti með öllum aðalréttunum var nokkurn veginn hið sama, þrátt fyrir misjafnar lýsingar á matseðlinum. Það var rósakál, gulrætur, grillaðir tómatar, bakaðar kartöflur og franskar kartöflur.
Rósakálið og gulræturnar voru ekki eins mikið og illa soðið og sums staðar er vani hér á landi, en ekki gott samt. Grilluðu tómatarnir og bökuðu kartöflurnar voru í lagi.Frönsku kartöflurnar voru með þessu venjulega aldraða steikarolíubragði.
Verst var, að þetta meðlæti myndaði gífurlegan hrauk á diskinum, sem gæti glatt Belsenfanga, en deyfir matarlyst nútíma Íslendinga. Það er á svona meiningarlausu jukki, sem þjóðin hefur hlaupið í spik.

Djúpsteiktur camembert
Djúpsteiktur camembert ostur með tekexi og sultu var fremur vondur og með hörðum kjarna innan í, óendanlega síðri matur en hliðstæður réttur á Holti. Ég hef líka grun um, að hann hafi kynnzt feitinni úr potti frönsku kartaflnanna.
Verðið er 1.695 krónur sem eftirréttur.

Ostur
Tvær ostategundir með kexi og smjöri voru hins vegar ágætar. Þær voru raunar þrjár, því að þar mátti finna Port Salut, gráðaost og Gouda. Ostabakkinn var ennfremur snyrtilega byggður upp.
Verðið er 1.785 krónur sem eftirréttur.

Ísar
Prófaður var blandaður rjómaís með ískexi á 1.430 krónur og súkkulaðiís með Créme de menthe líkjör á 1.575 krónur og reyndust báðir fremur hversdagslegir.

Kaffi
Ekki má gleyma kaffinu, sem var afar vont. Í fyrstu atrennu var það svo þunnt, að vel sást í botn. Í annarri atrennu var það lítið eitt skárra, en samt lapþunnt. Hvílíkur munur var alvörukaffið í Holti!

Vín
Vínlistinn í Nausti er mjög slæmur, verri en í hinum húsunum þremur, sem hér hefur verið getið, og voru þeir þó ekki góðir. Einu sæmilegu rauðvínin, sem fengust voru Chianti Classico, Saint-Emilion, Geisweiler Reserve og Mercury, en öll beztu rauðvínin vantaði.

Heldur betra var ástandið í hvítvínunum. Úr hópi beztu hvítvína fengust Wormser Liebfrauenstift Kirchenstück, Chablis og Edelfräulein. Og meðal sæmilegra hvítvína fengust Rüdesheimer Burgweg, Sauternes og Tokai. Tvö hin síðastnefndu eru þó dessertvín, en ekki matarvín.

Með skeldýrum Nausts mæli ég með Chablis á 4.675 krónur, með fiskréttunum mæli ég með Gewürztraminer á 4.010 krónur, með kjötréttunum mæli ég með Chianti Classico á 3.340 krónur og með raunar hverju sem er mæli ég með Edelfräulein á 4.340 krónur.

Heldur ódýrara

Naust er lítillega ódýrara veitingahús en Holt, Loftleiðir og Saga. Að vísu er ekki hægt að fá þar matseðil dagsins á kvöldin, nema um helgar. En þríréttaður matur af fastaseðli með kaffi og hálfri flösku af Chianti á mann ætti að kosta um 14.500 krónur að meðaltali í Nausti, á móti 15.000 krónum í Holti, 15.700 krónum á Loftleiðum og 16.300 krónum á Sögu.

Meðalverð 15 forrétta og súpa í Nausti er 2.500 krónur, 33 aðalrétta úr fiski eða kjöti 8.000 krónur og 8 eftirrétta 1.700 krónur. Allar tölurnar eru samkvæmt verðlagi í janúar 1980.

Verkefnin eru næg

Af þessu öllu má ráða, að prófunin leiddi ekki í ljós neinn sérstakan tilgang með borðhaldi í Nausti. Maturinn var yfirleitt ákaflega hversdagslegur og náði hvergi þeirri reisn, sem einkenndi suma og jafnvel marga rétti á hinum stöðunum.

Hins vegar er Naust sem fyrr ákaflega rómantískur staður, sem býður upp á góða þjónustu. Hann er tilvalinn fyrir þá, sem vilja notalegt umhverfi og góða þjónustu og hafa takmarkaðan áhuga á matargerðarlist.

Ef hinsvegar eldhúsið væri rækilega tekið í gegn og komið þar upp aga, nákvæmni, hráefnistilfinningu, svo ekki sé talað um nýjar hugmyndir í matargerð, ætti Naustið ekki að vera í vandræðum með að skara fram úr.

Það væri raunar upplagt að nota endurskipulagningu eignaraðildar til að koma Nausti enn á ný í forustu íslenzkrar matargerðarlistar. En þar er mikið verk að vinna.

Matreiðslan í Nausti fær fjóra í einkunn, þjónustan níu, vínlistinn fjóra og innréttingar níu. Heildareinkunn veitingastofunnar eru sex af tíu mögulegum. Naustið er þrátt fyrir allt eitt af hinum fjóru stóru í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Holt

Veitingar

Líklega er hér á landi hvergi betri mat að fá en í veitingasal Hótel Holts, þegar Skúli Hansen er í eldhúsinu og leggur sig fram. Þá fer saman hugkvæmni og vandvirkni, sem stundum vill annars bila, líkt og þjónustan á staðnum.

Nýlega gerði ég úttekt á veitingasal Holts á svipaðan hátt og ég hafði áður gert á Stjörnusal Sögu og Blómasal Loftleiða. Eldamennskan á Holti reyndist vera með miklum glæsibrag.

Auðvitað er ekki fyllilega sanngjarnt að bera saman þessa þrjá staði á kvöldum, þegar Sigurvin er ekki á vakt á Sögu og Þórarinn ekki á Loftleiðum, en Skúli í miklum ham á Holti. En tilviljun ein fékk að ráða þessum mismun.

Þá velunnara mína, sem hafa áhyggjur af ofáti, vil ég hugga með því að upplýsa, að ég hef ráðgjafa í athugunum mínum á vettvangi og geri sjálfur ekki annað en borða fjórðung af hverjum rétti.

Brokkgeng þjónusta

Orðsporið af Holti hefur ekki verið vinsamlegt undanfarna mánuði. Gengið hafa gamansögur, sem einkum hafa beinzt að þjónustunni á staðnum. Hún hefur um nokkurt skeið þótt fremur áhugalaus, aðallega vegna stjórnleysis og agaskorts.

Slík vandamál komu lítt fram, þegar úttektin var gerð. Þjónninn kunni vel til verka og hafði snör handtök. Meira máli skipti þó, að hann var bæði vinsamlegur og hjálplegur. Kom það sér vel, þegar matseðill borðsins var mótaður.

Þar með er ekki sagt, að þjónustan hafi verið eins góð og á Sögu. Sá, sem reyndi að búa til Daiquiri á barnum hefur verið eitthvað annars hugar og vatn kom ekki á borðið fyrr en í miðri máltíð. Og pantaður vindill birtist aldrei. Svo er það gamla sagan með fleytifullu vínglösin, sem ekki er unnt að ná úr fullnægjandi ilmi. Á Holti var þar að auki stöðugt verið að fleytifylla þau, alveg eins og óskað væri eftir því, að gestir færu á skallann.

Eitt hafði Holt í þessum efnum fram yfir suma aðra staði. Reikningurinn fyrir veitingarnar var greinilega skrifaður og sundurliðaður með nafni og verði hvers einstaks réttar. Reikningurinn á Loftleiðum minnti hins vegar á óskiljanlegar stærðfræðiformúlur.

Básarnir spilla

Andrúmslofti og innréttingum hefur farið aftur á Holti, síðan settir voru upp eins konar Angus-Steak-House-básar í miðjum sal, svo háir, að ekki sést um salinn. Hann virðist því bæði þröngur og ofhlaðinn.

Enn sem fyrr er þó veitingastofan þægileg og notaleg vistarvera, að barnum frátöldum. Og dauf tónlistin að tjaldabaki stuðlar að þeirri tilfinningu gesta, að þeir sitji að virðulegri veizlu, þar sem vænta megi góðrar matargerðarlistar.

Djarfasti matseðillinn

Matseðillinn á Holti er hinn skemmtilegasti á landinu. Hann er djarfari og hugmyndaríkari en aðrir slíkir og raunar lengri líka. Á fastaseðlinum voru 57 réttir og sex að auki á seðli dagsins.

Ég held það hljóti að vera ofurmannlegt að halda úti slíkri fjölbreytni dag eftir dag. Matargerðarlistin hlýtur oft að bila við slíkar aðstæður. Enda eru hinir löngu matseðlar orðnir úreltir. Sums staðar hafa fastaseðlarnir alveg horfið, einkum á beztu veitingahúsum heims.

Lystaukar

Þurra sérríið á barnum hafði ekki fengið að gamlast í átekinni flösku. Þar á ofan var það kælt. Hef ég hvorki fyrr né síðar orðið vitni að slíkri siðmenningu á íslenzku veitingahúsi. En kannski var þetta bara tilviljun.

Hanastélið Daiquiri var á bragðið eins og hreinn og magnaður sítrónusafi. Rommbragðið fannst hvergi í gegn. Áreiðanlega hefur þetta verið heilsusamlegur drykkur, en ekki rétt gerður eftir formúlunni.

Graflax
Svo margt var spennandi á seðlinum, að ég varð að sleppa graflaxinum. Veit ég þó af annarri reynslu, að hann er jafnbeztur á Holti. Vinningurinn umfram Sögu felst þó líklega helzt í öllu betri sinnepssósu.
Verðið er 3.825 krónur sem forréttur og 4.695 krónur sem aðalréttur.

Sniglar
Sniglar úr hvítlaukssmjöri voru náttúrlega úr dós. Sem slíkir voru þeir tæplega sæmilegir, líklega fulllengi bakaðir og gífurlega kryddaðir. Bráðna kryddsmjörið, sem fylgdi með, var alveg óþarft.
Verð sex snigla í forrétt er 3.275 krónur.

Hörpuskelfiskur
Hörpuskelfiskur í hvítvíni með spergli, sveppum og sýrðum rjóma, svo og dálitlu sítrónubragði, var konunglegur réttur. Skelfiskurinn var stór og lungamjúkur. Og rjómasósan, sem hann var framreiddur í, átti vel við.
Verðið er 3.675 krónur sem forréttur.

Rækjur
Djúpsteiktar rækjur í orly-deigi með beikoni og piparrótarsósu voru sniðugar og glæsilegar, en ekki nógu góðar – fyrir minn smekk. Að mínu viti spillir beikon mildu sjávarréttabragði. Þegar ég bið um rækjur, vil ég rækjubragð, en ekki beikonbragð. Þar er vandratað meðalhófið.
Sósan með rækjunum virtist vera rjómuð olíusósa, fislétt og fín. Hrísgrjónin, sem fylgdu, voru soðin hæfilega skamman tíma, sem og önnur hrísgrjón, sem boðið var upp á þetta kvöld.
Verðið er 3.100 krónur sem forréttur.

Humar
Glóðarsteiktir humarhalar í skelinni voru stórir og góðir, lausir við óþarfa sull og krydd og ekki ofsteiktir. Þannig finnst mér þeir eiga að vera. Bragð humars er svo viðkvæmt, að ekki má spilla því með misþyrmingu í matreiðslu.
Sennilega er mér óhætt að segja, að humarinn á Holti hafi verið örlítið, en bara örlítið betri en á Sögu og Loftleiðum.
Verðið er 8.250 krónur sem forréttur og 14.285 sem aðalréttur.

Fyrri smokkfiskur
Smokkfiskur, steiktur í olíu, með sveppum, spönskum pipar og hrísgrjónum, er ein af ágætum nýjungum Holts. Þetta er skemmtilegur réttur, sem ýmsir kannast við frá útlöndum, matreiddur á hefðbundinn hátt. Smokkfiskbragðið hvarf fullmikið á bak við paprikuna.
Verðið er 3.895 krónur sem forréttur.

Síðari smokkfiskur
Fylltur, heilsteiktur smokkfiskur er ekki á fastaseðlinum, en var á matseðli dagsins. Þessi útgáfa reyndist enn betri en hin og var hreinlega frábær.
Hið eiginlega og ágæta bragð smokkfisksins kom mjög vel fram, jafnvel þótt fyllingin væri ótæpilega krydduð með karríi. Þetta var dæmi um, hvernig nota má mikið krydd, án þess að yfirgnæfa grunnbragðið.
Verðið er 3.775 krónur sem forréttur.

Hliðarréttir
Hrásalat er borið fram á undan aðalréttum Holts, en ekki með þeim. Ég kann vel við þennan sið, sem víða tíðkast í Frakklandi og Bandaríkjunum. Hins vegar þótti mér minna til salatsins koma en þess, sem ég hafði fengið á Sögu og Loftleiðum.
Á borðum var óvenjulega skemmtilegt brauð úr heilhveiti og með grófum saltkornum að ofan. Það fékkst bæði nýtt og ristað, hvort tveggja með smjöri, og var sérlega bragðgott.

Smálúða
Gufusoðin smálúðuflök í hvítvínssósu, með rækjum, spergli og sveppum voru mjög góð, mjúk og fersk á bragðið, sennilega ekki úr frysti, þótt dagurinn væri þriðji í jólum.
Ef lúðan hefur verið úr frysti, hefur matreiðsla hennar verið yfirnáttúruleg. Og hafi hún verið ný, hefur eldhúsið ótrúlega góð sambönd. Ég hallast að hinu síðara.
Flökin voru vafin utan um dósaspergil. Ég skil ekki þá áráttu að spilla góðu hráefni með bragðlausu og ræfilslegu meðlæti úr dósum. Ég skil raunar ekki, hvaða erindi dósahnífar eiga í eldhús veitingastofa af þessu tagi. Ég get haft dósahníf heima hjá mér, ef mig langar í dósamat.
Verðið er 4.525 krónur sem aðalréttur.

Grísalundir
Heilsteiktar grísalundir, gratineraðar í sósunni, voru ágætis matur. Þær voru snyrtilega á borð bornar, en að öðru leyti ekki sérstaklega í frásögur færandi, svo sem raunin er oftast um svínakjöt.
Verðið er 9.050 krónur sem aðalréttur.

Turnbauti
Nautalundir með béarnaise sósu voru sérstaklega meyrar og rauðar. Þetta var gott hráefni og vel matreitt, líkt og á Sögu og Loftleiðum. Brokkálið, sem fylgdi, var hins vegar ofsoðið og sósan var lítt spennandi.
Spurningin er, hvaða íslenzkur matreiðslumaður verður fyrstur til að láta sér detta í hug turnbauta með annarri ídýfu en béarnaise sósu, sem tröllríður velflestum veitingahúsum landsins.
Verðið er 11.925 krónur sem aðalréttur.

Lambainnlæri
Kryddlegið lambainnlæri með piparsósu var hápunktur matarprófunarinnar. Þar fékk ég bezta lambakjöt ævinnar, ekki bara bleikt að innan, heldur rautt, eins og rétt matreitt nautakjöt.
Þar með hélt kjötið safa sínum og bragði á einstæðan hátt. Bragðið hélt alveg sínu í samkeppni við skemmtilegan glóðarkolakeiminn frá grillinu. Með kjötinu var létt og þunn sósa. Þetta var ótvírætt meistaraflokks-matur með tíu í einkunn.
Þér grásteikingarmenn, þrælsteikingarmenn og aðrir ofsteikingarmenn: Farið í Holt og komist að raun um, hvernig matreiða á lambakjöt!
Verðið er6.575 krónur sem aðalréttur.

Dósasveppir
Ekki verður hjá því komizt að kvarta yfir dósasveppum, sem fylgdu í óhóflegum mæli lambakjötinu og flestum kjötréttunum, sem prófaðir voru, alveg eins og hliðstæðum réttum á öðrum veitingahúsum.
Það á ekki að kaffæra rétti í sveppum, allra sízt ofsteiktum. Þá á að nota í hófi og þá auðvitað ferska, innlenda sveppi, sem eru á boðstólum flesta daga. En þjóðin er víst búin að venja sig á að úða í sig dósamat, jafnvel á dýrum veitingahúsum.

Skötuselur
Skötuselur, soðinn í rjóma, er spennandi nýjung á matseðli Holts. Því miður fékkst hann ekki þetta kvöld, svo að ég verð að reyna hann við annað tækifæri.
Verðið er 4.975 krónur sem aðalréttur.

Ís
Prófaður var annars vegar vanilluís með ananas og Royal Mint líkjör og hins vegar blandaður ís með eplum, hnetum, rommi og heitri karamellusósu. Hvort tveggja var glæsilegt í útliti og gott á bragðið.
Verðið er 1.625 krónur fyrrnefndi ísinn og 2.085 krónur sá síðarnefndi.

Ostur
Djúpsteiktur camembert-ostur með rifsberjahlaupi var vel heppnaður og góður. Sennilega er þetta heppilegasta meðferð íslenzks camembert, því að hann mislukkast oft til neyzlu á venjulegan hátt, þroskast ekki alveg inn að miðju.
Verðið er 1.525 krónur.
Loks má ekki gleyma kaffinu, sem er óvenju gott á Holti, minnir á ítalskt kaffi.

Vín
Vínlistinn á Holti er ekki nógu góður, einkum í rauðvínum. Þar vantar Chateau Talbot, Geisweiler Grand Vin og einkum þó hið ódýra Trakia. Merkinu halda uppi Chateau Paveil de Luze, Chianti Classico og Chateauneuf-du-Pape. Það síðasta fékkst þó ekki þetta kvöld.

Í hvítvínum er ástandið betra, því að þar fást Wormser Liebfrauenstift Kirchenstück, Gewürztraminer, Chablis og Edelfräulein.

Meðal annarra frambærilegra vína á lista Holts eru Saint Emilion, Geisweiler Reserve, Mercurey og Hospices de Beune og af hvítvínum Rüdesheimer Burgweg, Sauternes og Tokai.

Með skeldýraréttum Holts mæli ég með Chablis á 4.675 krónur, með fiskréttunum mæli ég með Gewürztraminer á 4.010 krónur og með kjötréttunum mæli ég með Chianti Classico á 3.340 krónur.

Svipað verð

Á Holti er ekki hægt að fá tiltölulega ódýran matseðil dagsins eins og á Loftleiðum og Sögu. Á matseðli dagsins eru tómir sérréttir og á svipuðu verði og fastaréttirnir.

Meðalverð 19 forrétta, súpa og eggjarétta á Holti er 2.800 krónur, 26 aðalrétta úr fiski eða kjöti 8.100 krónur og tólf eftirrétta 1.800 krónur.

Með kaffi og hálfri flösku af Chianti Classico ætti þriggja rétta meðalmáltíð af fastaseðli og dagseðli að kosta um 15.000 krónur á Holti á móti 15.700 krónum á Loftleiðum og 16.300 krónum á Sögu.

Því má segja, að allir þessir staðir séu í sama verðflokki. Allar tölurnar eru samkvæmt verðlagi í janúar 1980.

Aðallega “bravó”

Matreiðslan á Holti var að mörgu leyti frábær. Hæst bar meðferð lambakjötsins, en einnig var frábær hörpuskelfiskurinn, humarinn og fyllti smokkfiskurinn. Mjög góð matreiðsla var líka á venjulega smokkfiskinum, smálúðunni og turnbautanum.

Aðeins í sniglum, soðnu grænmeti og sveppum fóru tímasetningar í matreiðslu úr skorðum. Á öllum öðrum sviðum ríkti nákvæmni. En ég endurtek gagnrýni á ofnotkun dósasveppa, sem ekki eru í stíl hússins.

Meira máli skiptir þó, að Holt þarf að koma betri stjórn á þjónustuna í sal, svo að hún sé í meira samræmi við þau listaverk, sem framin eru í eldhúsinu.

Matreiðslan á Holti fær níu í einkunn, þjónustan sjö og vínlistinn sex. Innréttingar og andrúmsloft fá sjö eins og Stjörnusalur og Blómasalur. Heildareinkunn Holts sem veitingastaðar er átta af tíu mögulegum.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Blómasalur

Veitingar

Blómasalur Hótel Loftleiða er kominn í röð þeirra veitingahúsa, sem taka verður alvarlega. Þar er kominn nýr matseðill með ýmsum óvæntum réttum. Hann er ánægjulegt skref á uppleið salarins á undanförnum misserum.

Nú er hægt að fá mjög góðan mat í Blómasalnum. En þar er líka hægt að fá afleitan mat. Það er eins og jafnvægið skorti í flugtakinu. Góðum vilja er ekki fylgt nógu vel eftir í sjálfsaga og úthaldi.

Blómasalinn skortir festu og áreiðanleika Stjörnusalar Hótel Sögu, bæði í þjónustu og mat. Einstaka réttir eru betri á Loftleiðum en Sögu. En í heild skortir framboðið hin tiltölulega jöfnu gæði á Sögu.

Sumpart á þetta sínar sögulegu skýringar. Blómasalurinn hefur of lengi verið færibandastöð erlendra ferðahópa, tafafarþega og “stopover”-manna. Slíkt hlutverk hlýtur að draga úr sjálfsaga.

Nú eru Flugleiðir komnar með beint flug yfir Atlantshafið. Það rýrir erlenda veltu í Blómasal og kallar á fjölgun innlendra viðskiptavina. Og framför salarins á undanförnum misserum skapar einmitt grundvöll þess.

Notalegur staður

Nýlega gerði ég úttekt á veitingum Blómasalarins og prófaði tólf rétti af fastamatseðlinum og matseðli dagsins. Sömuleiðis reyndi ég að meta þjónustu og andrúmsloft staðarins.

Blómasalurinn er notalegri en Stjörnusalurinn á Hótel Sögu. Flóruveggur, timburveggir og hin opna innrétting gefa salnum hlýlegan blæ, einkum á kvöldin. Mér líður þar eins og mér liggi ekkert á.

Þjónustan í Blómasal er einkar vingjarnleg og kunnáttusamleg. Hún er hins vegar ekki eins kunnáttusöm og í Grillinu, né er yfirstjórn hennar eins nákvæm. Þetta kemur fram í móttöku gesta og svörum við spurningum þeirra um nánari atriði að baki lýsinga á matseðli.

Í Blómasal Hótel Loftleiða fékk ég ekki sjálfkrafa ísvatn á borðið um leið og ég hafði komið mér fyrir. Og ég sá þar hvergi vatn á borðum. Slík ódýr og smá, en mikilvæg atriði segja oft margt um reisn veitingastofu.

Á einu sviði þjónustunnar skaraði Blómasalur fram úr öðrum vínveitingastöðum. Vínglös voru hellt hálf, en ekki fyllt að þremur fjórðu hlutum, svo að gestir höfðu meiri möguleika en ella að ná ilmi úr víni.

Glösin hindruðu hins vegar, að árangur næðist af þessari hugulsemi. Þau eru ekki vínglös, sem þrengjast að ofan og safna ilmi, heldur eins konar vatnsglös á fæti.

Sjónvarp, því miður

Hótelbarinn fyrir framan Blómasal er viðkunnanlega innréttaður. Eini gallinn er sjónvarpið, sem truflar töluvert, þótt það sé haft í tiltölulega afskekktu horni.

Þarna var meðferð hanastéla í góðu lagi. Og þurra sérríið var ekki orðið gamalt og fúlt, svo sem oft vill brenna við á íslenzkum börum. En því miður var það eins og annars staðar hér landi geymt uppi í hillu, en ekki í kæli.

Graflax
Graflaxinn í Blómasal var sæmilegur, en ekkert umfram það. Sinnepssósan með honum var sérstaklega vel heppnuð, mun mildari en gengur og gerist. Sósan má ekki yfirgnæfa milt bragðið af graflaxinum og hún gerði það ekki heldur. Þar á ofan var hún fremur létt í sér.
Graflaxinn var vafinn utan um spergil. út af fyrir sig er það hugmynd. En spergill úr dós eða krukku er bara enginn spergill, allra sízt í köldum rétti. Ég lagði hann til hliðar eftir fyrsta bitann.
Verðið er 4.450 krónur sem forréttur.

Humarhalar
Glóðarsteiktir humarhalar í skelinni með rjómahvítvínssósu komu þægilega á óvart. Þeir voru í fyrsta lagi óvenju stórir, alveg eins og í gamla daga, fyrir öld rányrkju. Eldhúsið virðist hafa óvenju góð sambönd á þessu sviði.
Bragðið sveik heldur ekki. Humarinn var mjúkur og bragðgóður og ekki ofsteiktur. En hann hefði gjarna mátt vera borinn fram heitur, eins og yfirleitt er venja. Hér var hann varla volgur.
Þegar matseðill segir, að rjómahvítvínssósa sé með humarhölum, býst maður við slíkri sósu á borðið. Hún leit hins vegar ekki dagsins ljós og þjóninum var ekki kunnugt um tilvist hennar.
Verðið er 7.150 krónur sem forréttur og 14.300 krónur sem aðalréttur.

Soðin ýsa
Soðin ýsuflök upprúlluð með humarsósu voru á matseðli dagsins. Þau voru góð á bragðið, þótt köld væru, en engan veginn neitt sérstök. Ekki voru þau tiltakanlega ofsoðin. Ýsan hefði verið mjög frambærileg, ef hún hefði verið heit.
Það bezta við þennan rétt var humarsósan. Hún var þunn og létt, með mildu og réttu humarbragði og bjargaði alveg ýsuflökunum. Slík sósa á greinilega vel við soðinn fisk.
Verðið er 5.000 krónur og er þá innifalin súpa á undan og eftirréttur, það er að segja heil þrírétta máltíð.

Steikt heilagfiski.
Sniglar í hvítlaukssmjöri með Pernod-líkjör voru á matseðlinum, en fengust ekki. Þótti mér það skrítið, því að hér er um dósamat að ræða. Ekki fékkst heldur rauðvínið Chateauneuf-du-Pape, sem var þó á vínlistanum.
Hellusteikt heilagfiski með rækjum og kryddsmjöri var pantað í stað sniglanna. Sá réttur var algerlega misheppnaður. Fiskurinn hafði verið steiktur langt umfram eðlilegan tíma. Þessi indæli og eðlisgóði matur var orðinn skraufaþurr og ólystugur.
Verðið er 4.640 krónur sem aðalréttur.

Lambakótilettur
Lambakótilettur með fylltum tómötum voru á matseðli dagsins. Sem betur fer höfðu rifin verið fituskorin, en samt var óhóflega mikil fita enn eftir.
Kótiletturnar voru hæfilega steiktar og rauðar inn við beinið. Samt voru þær bragðdaufar og hversdagslegar. Sósan með þeim var hæfilega þunnt, brúnt soð, sem átti vel við og var létt í maga.
Ég er lítið hrifinn af dósagrænmetinu, sem tröllreið kótilettunum sem og öðrum kjötréttum Blómasalar. Mér finnst óþarfi að bjóða upp á bragðlaust rósakál úr dós eða glasi, þegar nýtt rósakál fæst í hverri matvöruverzlun.
Ennfremur voru dósasveppir ósköp ómerkilegur matur í samanburði við nýja, innlenda sveppi, sem fást flesta daga í sumum verzlunum. Og gulrætur úr dósum eru blátt áfram hræðilegar í samanburði við nýjar gulrætur, sem fást í öllum búðum.
Kjötréttir Blómasalar hefðu verið nokkru betri á bragðið, ef rósakál, sveppir og gulrætur hefðu ekki verið að flækjast fyrir á diskunum. Hér var um að ræða hreina misnotkun á dósaopnurum.
Aðra sögu er að segja af hrásalatinu, er fylgdi kótilettunum sem og öðrum kjötréttum. Það var ferskt og gott og með skemmtilega snarpri sósu af þeirri tegund, sem í Ameríku er kölluð frönsk dressing.
Verðið er 6.400 krónur og er þá innifalin súpa á undan og eftirréttur, það er að segja heil þrírétta máltíð.

Lambalundir
Svokölluð Bökuð lambabuffsteik í smjördeigi, fyllt með rjómasoðnum fjallagrösum og borin fram með rauðvínssósu var langtum betri réttur. Sú steik sýndi, að eldhús Blómasalar getur vel meðhöndlað lambakjöt.
Að vísu er ég ekki viss um, að hráefnið í réttinum sé alltaf lambalundir, eins og var, þegar ég prófaði réttinn. En þið getið alténd spurt, áður en þið pantið.
Lambalundirnar voru frábærar, mátulega steiktar, meyrar og bragðgóðar, svo og snarpheitar innan í smjörbakstrinum. Með þeim var þunn og góð rauðvínssósa. Þessi réttur kom okkur þægilegast á óvart, sannkallaður herramannsmatur.
Verðið er 7.580 krónur sem aðalréttur.

Kjúklingabringa
Djúpsteikt kjúklingabringa, fyllt með hrísgrjónum og borin fram með rjómasveppasósu var líka skemmtilegur réttur, sem kom á óvart. Kjúklingurinn var meyr og bragðmikill, hóflega kryddaður með karrí. En sósan var köld, þegar hún kom á borðið.
Verðið er 8.200 krónur sem aðalréttur.

Turnbauti
Tournedos béarnaise reyndist hátindur prófunarinnar. Þessi turnbauti var einn hinn allra bezti, sem ég hef fengið hér á landi, alveg í frönskum og bandarískum klassa. Kjötið var snöggsteikt og undurmeyrt, eðlisgott og vel með farið.
Ég er orðinn nokkuð leiður á hinni eilífu béarnaise-sósu með turnbauta. Íslenzkum eldunarmeisturum hlýtur að geta dottið í hug fleiri útgáfur af turnbauta. en þessi sósa var með bezta móti, óvenju létt og fór vel við kjötið.
Verðið er 11.330 krónur sem aðalréttur.

Tvíeinn ís
Eftirréttaskrá matseðilsins var með fátæklegasta móti. Af fimm réttum voru tveir ísar, sem reyndust þó aðeins vera einn, þegar á hólminn var komið. Það var sósan, sem var mismunandi, og svo var annar ísinn á marensbotni.
Ísarnir hétu annars vegar Rjómaís á marensbotni með appelsínulíkjör og hins vegar Rjómaís Peter Heering. Báðir voru þeir mjög frambærilegir, einkum hinn síðarnefndi.
Verðið er 2.080 krónur á hinum fyrra og 1.870 krónur á hinum síðara.

Pönnukaka
Íslenzk pönnukaka með rjóma var á matseðli dagsins. Hún var nákvæmlega eins og ég átti von á, svona eins og pönnukaka er venjulega. Sem eftirréttur er hún vel viðeigandi.,
Verðið er ekki gefið upp sérstaklega, þar sem pönnukakan var hluti af þriggja rétta matseðli.

Ostur
Ostur og kex ollu mér vonbrigðum. Ostabakkinn var ekki vitund aðlaðandi, þótt þar væri boðið upp á margt, gráðost, mysuost, hnetuost, camembert og nokkrar tegundir af kexi.
Camembertinn var greinilega beint úr kæli, pinnstífur og ekkert byrjaður að þroskast. Mér finnst tilgangslaust að bera fram þennan ost í slíku ástandi.
Verðið er 2.360 krónur.

Hraunkaffi

Loks er að geta sérgreinar Blómasalar á ættmeiði Írska kaffisins. Það er Hraunkaffi eða Lavakaffi. Kaffi er hellt í leirkrús. Í það er síðan látinn Grand Marnier appelsínulíkjör og kveikt í honum. Síðan er flórsykur settur í og síðast þeyttur rjómi. Þetta er hressandi og skemmtileg tilbreyting frá öðru áfengiskaffi.

Vín

Vínlistinn í Blómasal er ekki nógu góður, einkum í rauðvínum. Þar vantar Chateau Talbot, Chateau Paveil de Luze og einkum þó hið ódýra Trakia, sem fæst þó í kaffiteríunni frammi. Merkinu í Blómasal halda uppi Geisweiler Grand Vin og Chianti Classico.

Í hvítvínum er ástandið betra, því að þar fást Wormser Liebfrauenstift Kirchenstück, Gewürztraminer, Chablis og Edelfräulein.

Meðal annarra frambærilegra vína á lista Blómasalar eru Saint Emilion, Geisweiler Reserve, Mercurey og Chateau de Saint Laurent af rauðvínum og af hvítvínum Riesling og Auxerrois frá Luxemborg, Sauternes og Rüdesheimer Burgweg.

Með skeldýraréttum Blómasalar mæli ég með Chablis á 4.675 krónur, með fiskréttunum mæli ég með Gewürztraminer á 4.010 krónur og með kjötréttunum mæli ég með Geisweiler Grand vin á 4.675 krónur eða Chianti Classico á 3.340 krónur eða jafnvel Chateau de Saint Laurent á sama verði.

Fastaseðillinn er betri

Matseðill dagsins er einkar ódýr í Blómasal. Þar er unnt að velja milli þriggja þríréttaðra máltíða á 5.000 krónur, 6.400 krónur og 7.600 krónur. með kaffi og hálfri vínflösku (Chianti) á mann verða þetta 7.300 krónur, 8.700 krónur og 9.900 krónur.

Þó má ráða af matarlýsingunum hér að framan, að minna er vandað til þessa matseðils í eldhúsinu en til fastaseðilsins. Dagsseðillinn er fremur miðaður við hótelgesti, sem þurfa að borða til að lifa, en ekki við aðra gesti, sem eru beinlínis að fara út að borða.

Matseðill dagsins var semsagt ekki áhugaverður frá sjónarmiði matargerðarlistar.

Hinir betri réttir, sem eru á fastamatseðlinum, eru líka miklu dýrari, næstum því eins og í Stjörnusal Hótel Sögu. Meðalverð 14 forrétta, súpa og eggjarétta í Blómasal Hótel Loftleiða er 2.900 krónur, 11 aðalrétta úr fiski og kjöti 8.300 krónur og 5 eftirrétta 2.200 krónur.

Með kaffi á 600 krónur og hálfri vínflösku ætti meðalmáltíð af fastaseðli að kosta um 15.700 krónur í Blómasal á móti 16.300 krónum í Stjörnusal. Allar þessar tölur eru samkvæmt verðlagi um áramótin.

Hífopp

Matseðillinn í Blómasal er að því leyti skynsamlegur, að samtals eru aðeins á honum 30 réttir á móti 47 í Stjörnusal. Því færri sem réttirnir eru, þeim mun auðveldara er að afla ferskra hráefna og meðhöndla þau á réttan hátt.

Turnbautinn og lambalundirnar eru dæmi um, að matreiðsla Blómasalar getur verið mjög góð, jafnvel hin bezta á landinu. Ef allt væri í þeim stíl, mundi ég hiklaust gefa staðnum níu í einkunn.

Ráðamenn staðarins ættu nú að leggja áherzlu á jafnari gæði í matreiðslunni, einkum nákvæmari tímasetningar í matreiðslu fiskrétta og minni notkun dósagrænmetis.

Sömuleiðis þarf að tryggja, að heitur matur sé enn heitur, þegar hann kemur á borð gestanna. Og auðvitað þarf Blómasalur að geta boðið gestum vínglös að drekka úr.

En Blómasalur hefur farið batnandi að undanförnu og getur áreiðanlega batnað enn. Sem stendur fær matreiðslan þar sex í einkunn, sömuleiðis þjónustan og vínlistinn. Umhverfið á staðnum fær hins vegar átta. Meðaleinkunn Blómasalar Hótel Loftleiða er sex af tíu mögulegum.

Jónas Kristjánsson

Vikan