Flokks- og skólabræður

Greinar

Handhafar forsetavalds eru ekki einir um að spóka sig án aðgæzlu á hengiflugi siðleysis í misnotkun á risnu. Komið hefur í ljós, að ráðherrar eru á rölti á sömu slóðum og gá sumir hverjir ekki að sér, einkum þeir sem undir niðri líta á þjóðfélagið sem herfang sitt.

Í öllum tilvikum, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, byggist risnuspilling ráðamanna á, að ekki eru til fastar reglur á prenti. Óskráð lög kunna að duga í útlöndum, þar sem græðgi valdsmanna eru meiri takmörk sett en hér á landi. Við þurfum formlegra aðhald.

Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra gaf sér tíma frá galtómum siðaprédikunum yfir ríkisforstjórum til að bjóða vinum sínum í Alþýðubandalaginu til veizlu í ráðherrabústaðnum. Tilefnið, sem hann fann, var tíu ára gamalt og varðaði alls ekki Alþýðubandalagið.

Fjármálaráðherrann varði sig með því að segja veizluna aðeins hafa kostað um 50.000 krónur. Þar reiknar hann með áfengi á niðursettu ríkisverði. Á verði almennings kostaði þessi veizla 120.000 krónur. En vandinn er ekki upphæðin, heldur að veizlan skyldi haldin.

Annað enn verra dæmi er frá tíð næstsíðustu ríkisstjórnar. Þá hélt Friðrik Sophusson nokkrum samstúdentum sínum hanastélsboð í ráðstefnusölum ríkisins í Borgartúni. Í viðtali við DV taldi hann þetta hafa kostað 15.000 krónur. Óniðurgreitt verð er um 40.000 krónur.

Hinn fyrrverandi ráðherra bætti gráu ofan á svart í viðtalinu með því að segja óþarft að finna skýringar á svona fjáraustri út í loftið. Ráðherrar ættu að hafa leyfi til að bjóða bekkjarbræðrum eða flokksbræðrum í veizlur, án þess að það þjónaði hag ráðuneytisins.

“Ef ráðherra getur ekki boðið nokkrum bekkjarbræðrum sínum í glas, þá er ekki mikið eftir”, sagði hann orðrétt í viðtalinu. Hann sagði líka, að ráðherrar ættu ekki að skammast sín fyrir slíkt, ekki frekar en þeir skammast sín fyrir að aka í ráðherrabílum.

Samanburðurinn er villandi. Almennt er talið í þjóðfélaginu, að ráðherrar eigi að fá að aka um í ráðherrabílum og jafnvel láta aka sér í þeim, ef um þetta gilda sömu reglur og fyrir annað fólk, þar með taldar hinar nýju reglur, sem ráðamenn hafa sett um skattframtöl.

Ennfremur er talið eðlilegt, að ráðherrar geti boðið í hanastél við ákveðin tækifæri, svo sem þegar landssamtök eða fjölþjóðasamtök halda aðalfundi. Heimild til slíks á hins vegar ekki að leiða til sérstakra boða fyrir skólabræður eða flokksbræður ráðherranna.

Hið sama er að segja um ferðalög ráðherra. Ef þeir þurfa embættis síns vegna að fara í skyndingu út á land, kemur til greina, að þeir fái aðgang að flugvélum landhelgisgæzlu eða flugmálastjórnar. En fráleitt er, að þeir noti slíka farkosti á flokksfundi eða áróðursfundi.

Brýnt er, að settar verði reglur um risnu og ferðalög ráðamanna, svo að gráa svæðið milli opinberra þarfa annars vegar og flokksþarfa eða einkaþarfa hins vegar sé sem minnst og mörkin sem skýrust. Síðan þarf að fela Ríkisendurskoðun að fylgjast með framkvæmdinni.

Við lifum á siðlitlum tímum, er valdamönnum hættir til að ganga eins langt og þeir telja sér unnt í ofnotkun og misnotkun á valdi. Við lifum á frumstæðum tímum, er valdamönnum hættir til að líta á þjóðfélagið sem langþráð herfang sitt eftir langa eyðimerkurgöngu án valds.

Mestu máli skiptir ekki, að fastar reglur um risnu og ferðir spari nokkurt fé, heldur hitt, að þær gefa tóninn um ábyrgari meðferð á peningum skattgreiðenda.

Jónas Kristjánsson

DV