Framtíð Alþýðubandalagsins er ótrygg, ef marka má niðurstöður þjóðmálakönnunar, sem Félagsvísindastofnun Háskólans gerði nýlega fyrir unga framsóknarmenn. Flokkurinn reyndist hafa mun minna fylgi meðal yngstu kjósendanna en hjá hinum aldurshópunum.
Könnunin sýndi 15,2% fylgi Alþýðubandalagsins meðal þjóðarinnar í heild og tiltölulega jafnt í öllum aldursflokkum yfir 24 ára aldri. Hins vegar var fylgi hans aðeins 9,6% meðal yngstu kjósendanna, þeirra sem eru á aldrinum 1824 ára.
Forvitnilegt er að skoða fylgi flokkanna í þessum aldurshópi þeirra, sem eiga eftir að erfa landið. Flestir þeirra hafa svipað fylgi unga fólksins og þeir hafa meðal þjóðarinnar í heild. Alþýðubandalagið eitt hefur minna fylgi og Kvennalistinn einn meira fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu nokkurn veginn. Fylgi hans meðal þjóðarinnar í heild er 41,9% samkvæmt könnuninni og 40,8% í þessum aldurshópi. Hann virðist þannig vera að ná sér á sitt gamla skrið eftir fylgismissi niður í 32,8% í 2534 ára hópnum.
Þarna er um að ræða hægri sveiflu yngstu kjósendanna eftir vinstri sveiflu þeirra, sem næstir eru á undan í aldri. Sveiflan er þó ekki meiri en svo, að hún nægir tæpast til að ná fylginu aftur upp í það, sem er hjá elztu kjósendunum, 45 ára og eldri.
Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur gamla fólksins. Í könnuninni fékk hann 48,1% fylgi þeirra, sem eru 6080 ára að aldri og 47,1% þeirra, sem eru á aldrinum 4559 ára. Í heild má segja, að framtíðarhorfur flokksins séu sæmilegar, en ekkert umfram það.
Ef við gerum ráð fyrir, að í framtíðinni færist fylgi flokkanna í það horf, sem nú er í 1824 ára hópnum, verður ríkjandi kerfi eins stórs flokks, Sjálfstæðisflokksins með 41% fylgi, og þriggja minni flokka, sem hver um sig hefur um 14% fylgi.
Þessir þrír flokkar eru Framsóknarflokkurinn, með 14,4% fylgi í könnuninni, Alþýðuflokkurinn og Kvennalistinn, báðir með 13,6% fylgi. Kvennalistinn mun samkvæmt þessu taka sæti Alþýðubandalagsins í fjögurra flokka kerfinu, sem þjóðin hefur komið sér upp.
Framsóknarflokkurinn einn þessara flokka hefur tiltölulega jafnt fylgi í öllum aldurshópum. Alþýðuflokkurinn hefur mest fylgi meðal 2534 ára kjósenda, 19,2%, og virðist því vera farinn að dala á ný eftir væna sveiflu upp á við í þeim hópi.
Einna björtust virðist framtíð Kvennalistans samkvæmt þessari könnun. Fylgi hans er eindregið samþjappað í þessum yngsta aldursflokki kjósenda. Munurinn er áberandi á 13,6% fylgi þeirra, sem eru 1824 ára, og á 7,6% fylgi þeirra, sem eru 2534 ára.
Bandalag jafnaðarmanna fékk lítið fylgi í könnuninni, 3,3%, sem ekki nægir til að koma manni á þing. Flokknum má þó vera nokkur huggun í, að meðal hinna yngstu er fylgið heldur betra, 4,8%, nálægt því að standa undir þingmanni einhvern tíma í framtíðinni.
Í heild er athyglisverðast við niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar, hversu traust fylgi flokkanna er, þrátt fyrir tízkusveiflur og flokkaflakk. Ekkert bítur til dæmis á Framsóknarflokkinn, þótt hann sé kallaður tækifærissinnaður dreifbýlisflokkur gamalmenna.
Hins vegar hefur Alþýðubandalagið fengið tilefni til að íhuga, hvernig stendur á, að það er orðið fortíðarflokkur, sem megnar ekki að vinna traust hinna ungu.
Jónas Kristjánsson
DV