Flokkur gerist boltalið

Greinar

Fráfarandi félagsráðherra hefur upplýst, að hann hafi ekki fengið rauða spjaldið, heldur gula spjaldið. Hann muni koma aftur í seinni hálfleik til að skora mörg mörk, eins og hann hafi gert í Firðinum í gamla daga. Auk þess hafi gula spjaldið í rauninni verið ranglátt.

Ef almennt verður farið að líkja stjórnmálum við boltaleik, er hætta á ferðum. Í boltanum er ekki spurt um hugmyndafræði eða þjóðarheill, heldur okkar lið og hitt liðið. Spurningin er um okkur eða hina. Gul og rauð spjöld eru bara óþægindi án nokkurs innra siðagildis.

Fráfarandi félagsráðherra hefur alls engrar afsökunar beðizt á pólitískum ferli sínum. Hann segist hafa verið ofsóttur af óvinum utan og innan flokks. Hann hafi vikið úr starfi aðeins til að létta lífið öðrum aðilum, sem ekki töldu sig geta staðið í að verja hann gegn ofsóknunum.

Upp á þessi undarlegu býti hefur forusta Alþýðuflokksins boðið hann velkominn á nýjan leik. Umhverfisráðherra segir hann hafa sýnt mikinn hetjuskap. Flest bendir til, að hinn fráfarandi ráðherra verði eitt helzta tromp Alþýðuflokksins í alþingiskosningunum í vetur.

Brottför ráðherrans úr ríkisstjórn hefur leyst vandamálin, sem hann hafði skapað ríkisstjórninni. En þau leysa ekki vandamálin, sem hann hafði skapað Alþýðuflokknum. Hann heldur áfram að vera varaformaður flokksins og einn helzti frambjóðandi hans í pólitík.

Vandamál ráðherrans fyrrverandi límast þannig við Alþýðuflokkinn, sem verður að heyja kosningabaráttu sína undir þeim merkjum, að varaformaður flokksins hafi ekkert gert umtalsvert af sér. Flokkurinn mun staðfesta stöðu sína sem spillingarflokkur þjóðarinnar.

Vafalaust munu margir halda áfram að kjósa Alþýðuflokkinn. Sumir hafa ekki enn fengið embætti og eru að bíða eftir því. Aðrir líta á flokkinn sinn eins og boltaáhugamenn líta á liðið sitt. Þeir horfa ekki á gulu og rauðu spjöldin, heldur spyrja, hvort skoruð verði mörk.

Svo áfram sé notað líkingamálið úr Firðinum, þá mun flokkurinn ekki skora mikið í næstu kosningum. Hann mun koma formanni og varaformanni á þing, en aðrir þingmenn verða fáir. Mikill fjöldi krata mun nefnilega neita að kjósa flokkinn eins og hvert annað boltalið.

Eftir situr stjórnmálaflokkur, sem orðinn er að eins konar boltaliði úr Firðinum. Hann verður minni en nokkru sinni fyrr og spilltari en nokkru sinni fyrr. Þeir kratar, sem neita að líta á mál ráðherrans fyrrverandi sem eins konar boltamál, fara annað með atkvæði sitt.

Úr því að ráðherranum fyrrverandi er tekið fagnandi af forustu flokksins og boltasinnum Alþýðuflokksins í Hafnarfirði, án þess að hann hafi beðizt afsökunar á ráðherraferli sínum, taka þessir aðilar fulla ábyrgð á vinnubrögðum hans og gera þau raunar að Alþýðuflokksmáli.

Það verður mál Alþýðuflokksins, að ráðherrar flokksins megi hlúa að vinum og ættingjum á kostnað almennings, án þess að almenningur fái sömu þjónustu. Þetta er bara hluti velferðarkerfisins að mati ráðherrans fráfarandi og merki um stuðning hans við lítilmagnann.

Það verður vandamál Alþýðuflokksins að innan hans séu aðilar, sem hafi tekið þátt í að ofsækja einn helzta markaskorara flokksins og hrekja úr ráðherraembætti. Það verður vandamál Alþýðuflokksins, að hann neyðist til að gera ráðherrann fyrrverandi að píslarvotti.

Þetta skiptir litlu í þjóðmálunum, af því að nægt er framboð af krataflokkum. En það skiptir öllu fyrir Alþýðuflokkinn að hafa loksins fundið sig. Sem boltalið.

Jónas Kristjánsson

DV