Þótt mannúðinni sé flaggað hátt á stöng, þegar tekið er við erlendum flóttamönnum hér á landi, eru byggðahagsmunir oftast undir niðri. Sveitarfélög úti á landi sækjast eftir flóttafólki til að manna færiböndin við sjávarsíðuna og til að fjölga burðarásum samfélagsins.
Í reynd hefur fæstum byggðum haldizt á flóttafólki, helzt Hornafirði og Dalvík. Næstum allir eru farnir frá Blönduósi og Ísafirði. Þetta endurspeglar að nokkru leyti misjafna framkvæmd málsins og misjafna möguleika sveitarfélaganna til að standa undir þessu merki.
Eftir á að hyggja var ábyrgðarlaust að leyfa Blönduósi að taka við erlendum flóttamönnum, því að þar eru atvinnufæri lítil. En freistingin var mikil, því að ríkið lagði fram eina milljón króna með hverjum flóttamanni og ráðherrann er þingmaður kjördæmisins.
Eiginhagsmunapotið að baki dreifingar flóttamanna um landið er hættuspil. Við sjáum það af sögu undanfarinna áratuga á meginlandi Evrópu, að fyrst eru flóttamenn velkomnir, þegar þeir manna störf, sem aðrir vilja ekki lengur sinna, en uppskera síðar hatur letingja.
Þannig urðu Tyrkir burðarás í atvinnulífi Þýzkalands, þegar allt lék í lyndi. Þegar atvinna fór svo að dragast saman, reyndust margir Tyrkir vera betri starfsmenn en margir heimamenn, sem misstu vinnuna og gerðust útlendingahatarar og þjóðernisofstækismenn.
Við verðum að gæta þess vel að haga málum á þann veg, að ekki komi til útlendingaofsókna á borð við þær, sem hafa orðið víðast hvar í Vestur-Evrópu. Við verðum að ná flóttafólkinu inn í þjóðfélagsmynztur landsins og gera það að mikilvægum borgurum í þjóðfélaginu.
Það gerum við ekki með því að flytja það til afskekktra staða, þar sem enginn vill búa, nema hann eigi þar rætur. Venjulegir Íslendingar vilja flytjast suður á mölina og þar kunna erlendir flóttamenn líka bezt við sig. Þeir hafa ekki sömu tilfinningar til Blönduóss og innfæddir hafa.
En útlendingar kunna sem betur fer að bjarga sér og flytjast suður, þar sem mannhafið er nógu mikið til að skapa fjölbreytt atvinnufæri. Höfuðborgarsvæðið er deiglan, sem hentar samruna þjóðerna og menningarheima. Það er svæði, sem auðgast af framandi fólki.
Íslendingar eru einstaklega einangraðir í erfðum og menningu. Við höfum þess vegna gott af að blandast útlendingum. Því er innflutningur fólks heppilegur, meðan nóg er við að vera í þjóðfélaginu og útlendingar taka ekki atvinnu frá þeim lötustu í hópi heimafólks.
Til frambúðar mun okkur samt ekki skorta fólk til ófaglærðra starfa. Okkur vantar fyrst og fremst fólk á nýju sviðunum, þar sem skólakerfi okkar hefur ekki náð að anna eftirspurn. Okkur vantar raunar útlendinga til vinnu í hálaunastörfum fremur en láglaunastörfum.
Þýzka ríkisstjórnin hefur séð misræmið og hefur ákveðið að freista indverskra hugbúnaðarfræðinga þúsundum saman. Þeir þykja afar hæfir í starfi, en hafa allt of lítil tækifæri heima fyrir. Þjóðverjar ætla nú að fleyta rjómann ofan af þessum falda fjársjóði.
Af hverju reynum við ekki að dreifa slíkum áburði á ört stækkandi akur stafrænna athafna hér á landi? Við getum breytt örum vexti hugbúnaðargerðar í sprengingu og þar með gert Ísland að einu sílikonsvæða heimsins. Til þess höfum við ekki burði án aðstreymis viðbótarfólks.
Það er hins vegar borin von, að hægt sé að nota útlendinga til að halda uppi byggð á afskekktum stöðum, þar sem Íslendingar vilja ekki einu sinni sjálfir búa.
Jónas Kristjánsson
DV