Fékk þennan líka fína lax ofurgrillaðan við 1200 stiga hita á koksgrillinu. Fiskmarkaðurinn er einn af þessum átta stöðum, sem ég rölti milli til að fá almennilegt að éta. Laxinn (2090 kr) var hæfilega eldaður og mjúkur, borinn fram snarpheitur í mjög svo skrautlegri uppsetningu meðlætis. Staðurinn er með stæla í framsetningu rétta, án þess að láta þá skyggja á eldamennskuna sjálfa. Stælarnir í þjónustu hafa minnkað, ég hef ekki lengur á tilfinningu, að þjónninn sé atvinnulaus leikari. Enn og aftur stimplar Fiskmarkaðurinn sig inn sem einn toppstaða landsins. Og þar var líka fullt hús í hádeginu.