Reykjavík er flottur staður Landsmóts hestamanna. Elliðaárdalurinn í allri sinni dýrð, breiður dalur með vatnsmikilli bergvatnsá, skógi vöxnum hlíðum og borgarhúsum í fjarlægð. Fáir mótsstaðir standast Víðidalnum samanburð að náttúru og umhverfi. Hér er líka hægt að hýsa þúsund mótshesta með sóma. Ég kíki daglega á Trausta veðurspámann, sem rýnir í háloftin og spáir stilltu veðri enn um sinn. Reykjavík hefur átt erfitt uppdráttar sem landsmótsstaður vegna illa rekins landsmóts árið 2000. Nú eru nýir tímar og flest bendir til ánægjulegrar viku á uppskeruhátíð margra af flottustu töfrahrossum landsins.